Dýrfinnuhellir er skammt ofan við Grindavík, örskammt frá Skipsstígnum norðvestan við Lágafell. Þótt staðurinn sé nú flestum gleymdur lifði hann lengi vel í hugum Grindvíkinga, líkt og nokkrir aðrir staðir ofan við Plássið er tengdust komu “Tyrkjanna”.
Þeir komu til Grindavíkur, skyndilega og öllum að óvörum, í byrjun sumars 1627, fyrir 379 árum síðan. Lífið hjá Grindavíkurbændum og búaliði gekk allt sinn vanagang. Vorverkunum var lokið og fé hafði verið fært til selja. Útvegsbændurnir voru vanir báts- og skipaferðum enda Grindavík þá einn helsti útgerðar- og verslunarstaður landsins. Þess vegna er kannski ekki svo víst að sigling Tyrkjaskipsins (sumir segja tveggja skipa), sem nálgaðist snemmmorguns þann 20. júní, hafi vakið svo mikla athygli, venju fremur. Grindvíkingar áttu ekki von á neinu nema góðu úr þeirri áttinni.
Tyrkirnir hertóku danskt kaupfar og nokkra úr áhöfninni, stökktu danska kaupmanninum og hans fólki á flótta, rændu verlsunina og réðust til atlögu við fólkið á Járngerðarstöðum.”Tyrkjunum” þrjátíu lá mikið á því þeir töldu að kaupmaðurinn gæti snúið aftur með liðsafla. Þeir drógu húsmóðurina til skips, tóku syni hennar og bróðir, særðu tvo aðra er reyndu að verjast, losuðu sig við aldraðan bóndann og drógu 8 aðra Grindvíkinga og þrjá Dani til skips. Loks rændu þeir verðmætum úr bænum og sigldu síðan til hafs.
Tómas Þorvaldsson segir frá þessum atburði í æviminningum sínum, útg. 1986. Þar segir hann m.a. frá Dýrfinnuhelli: “Hellir einn, allstór, vestan við gamla veginn til Keflavíkur, norðan Lágafells, heitir Dýrfinnuhellir og sagan segir að kona með þessu nafni hafi falið sig þar þangað til ræningjarnir voru farnir”.
Á meðan “Tyrkir” rændu Járngerðarstaði flúðu Grindvíkingar upp í hraunið ofan við byggðina og dvöldu þar uns hættan var liðin hjá – sumir lengur – og lengra. Einhverjir þeirra eru sagðir hafa dvalið í helli suðvestan við Húsafjall, en sá hellir átti eftirleiðis að geta hýst um 100 Grindvíkinga ef til þess kæmi að “Tyrkirnir” kæmu aftur. Sá hellir er nú hálffullur af sandi, sem fokið hefur af Vatnsheiðinni. Auk þess eru byrgi, sem sjá má bæði í Sundvörðuhrauni og í Eldvörpum sögð tengjast þessum sögulega atburði, ekki einungis í sögu Grindavíkur, heldur og í Íslandssögunni allri.
Dýrfinnuhellir er hið ágætasta skjól. Sjá má bein af lambi í hellinum. Skammt frá eru fleiri skjól, sem falið hafa getað fleiri Grindvíkinga með góðu móti. Þar skammt frá er m.a. skjól vegagerðarmanna, sem unnu að endurnýjun Skipsstígs á þeim kafla skömmu eftir aldarmótin 1900. Elsti “Grindavíkurvegurinn”, sem liggur um núverandi vegstæði var hins vegar lagður á árunum 1914-1918. Sá vegarkafli var síðan endurnýjaður nokkrum sinnum, nú síðast var hann lagður malbiki. Hið fyrsta sinni reistu vegagerðarmenn nokkur mannvirki á u.þ.b. 500 metra millibili við vegstæðið, sem brotið var í hraunið með handafli og örfáum verkfærum. Milli 32 til 40 Grindvíkingar fengu þó laun fyrir það erfiði, enda greiddu þeir helminginn mót landsstjórninni. Enn má á a.m.k. 12 stöðum sjá leifar þessara minja við veginn, en öðrum hefur verið eitt í ógáti með stórvirkum vinnuvélum. Sennilega er þó hér um einar merkustu minjar fyrrum vegagerðar á landinu, þ.e.a.s. þær sem eftir eru.
Ljóst er að víða við Grindavík leynast merkilegar minjar er gefa sögum bæjarins áþreifanlegari sín en sögurnar einar gefa tilefni til.
Ekki segir hvar nafngreind Dýrfinna hafi búið í Járngerðarstaðahverfi.
Heimild:
-Tómas Þorvaldsson – æviminningar – 1986, bls. 22.
-Saga Grindavíkur.
-Sigurður Gíslason – Hrauni.