Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu.
Fylgt var gömlu leiðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn. Kíkt var í Drykkjarsteininn, sem Símon Dalaskáld orti um á sínum tíma og getið er um í annarri FERLIRslýsingu. Skárnar voru stútfullar af tæru regnvatni.
Haldið var áfram upp með Bratthálsi og Lyngbrekkur og stefnan tekin á Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill.
Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.
Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stóra Hrút. Stóri Hrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stóra Hrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.
Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.
Þá var haldið á fótinn, upp Fagradalsfjall og áleiðis upp á Langhól, hæsta hluta fjallsins. Slóð eftir tæki hersins, sem fóru á slysstað á sínum tíma, sjást enn í fjallinu. Hæsta bungan er í 385 m.h.y.s. Efst á henni er landmælingastöpull. Þaðan er fallegt útsýni yfir Þráinsskjöldinn, Keili, Strandarheiði og Vogaheiði.
Gengið var niður af fjallinu að norðanverðu. Þar er einn af fallegri gígum landsins. Hann er þverskorinn, þ.e. hægt er að horfa inn í hann, þar sem hann liggur utan í fjallshlíðinni.
Gígurinn er um 70 metra hár og tignarlegur eftir því. Vel er hægt að sjá þarna hvernig eldgígar hafa orðið til. Þessi hefur opnast til norðurs og hraunið þá runnið út úr honum þar, en skilið gígrásina eftir ófyllta.
Lækjarfarvegi var fylgt niður með norðanverðu fjallinu til vesturs þangað til komið var að Dalsseli. Tóftirnar eru á vestanverðum bakkanum, en lækurinn hefur smám saman verið að narta bakkann undan selinu. Neðar eru Nauthólaflatir. Greiður gangur er eftir þeim niður að Mosadali og áfram niður á Skógfellaveg. Að þessu sinni var hins vegar gengið til vesturs um Fagradal og með fjallinu, framhjá Kastinu og Görninni, um Borgarhraun og að upphafsstað.
Fagradalsfjall er heimur út af fyrir sig. Bæði fjölmargt að skoða og svo er útsýnið óvíða fegurra á Reykjanesskaganum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.