Færslur

Sundhnúkahraun

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um “Sundhnúkahraun við Grindavík” í Náttúrufræðinginn árið 1974.

Inngangur

Grindavík

Grindavík – flugmynd. Hagafell t.v., Sundhnúkagígaröðin ofar og Húsfell og Fiskidalsfjall t.h. Fagradalsfjall enn ofar.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka, eins og hér mun verða sýnt fram á.

Sundhnúkahraun og Sundhnúkur

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Af þessu virðist mega ráða að til séu örnefnin Klifhólar og Klif, en hvar þau eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um.

Hagafell

Gígur sunnan Hagafells.

Hólar eru ekki á svæðinu, nema gíghólarnir suðvestur af Hagafelli, en samkvæmt korti herforingjaráðsins 1:50000 heitir sá hóll Melhóll. Þaðan er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð. Sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um þessi örnefni, hef ég leyft mér að nota hér nýtt nafn um hraunin og eldvörpin, sem þau eru komin frá. Það skal þó tekið fram, að þetta nafn er eingöngu hugsað sem jarðfræðilegt hugtak og breytir að sjálfsögðu ekki örnefnum, sem fyrir eru á svæðinu. Ennfremur gildir þetta aðeins fyrir eldvörp þau og hraun, sem til urðu í því gosi, sem síðast varð á þessu svæði.

Gígaröðin

Sundhnúkur

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Ur ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.

Sundhnúkar

Gígur í Sundhnúkum.

Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).
SundhnúkarFrá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum(P) gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan áannan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.
SundhnúkarTil suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs. Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.

Sundhnúkur

Í Sundhnúkagígaröðinni.

Fremur lítið hraun hefur runnið úr gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð
SundhnúkahraunHraunið er venjulegt feldspat-pyroxen basalthraun. Í því er mjög lítið um ólívín en allmikið um tiltölulega stóra feldspatkristalla (xenokrist.).
Samsetning hraunsins er þessi:
Plagioklas 43,59%
Pyroxen 44,98%
Olívín 0,68%
Málmur 10,75%
Plagioklas-dílar eru innan við 1% og sömuleiðis pyroxen-dílar. Þeir síðarnefndu eru oft með svonefndri „stundaglaslögun’, en það einkennir titanágit. Hnyðlingar koma fyrir í þessu hrauni, og hafa fundizt í vestasta gígnum sjálfum. Ekki hefur tekizt að ná sýni af þeim, en ljóst er, að þeir eru af svipaðri gerð og þeir, er finnast víða annars staðar á Reykjanesskaga. Hér virðast þeir vera úr olívíngabbrói. Aðeins einstaka olívín-dílar koma fyrir í hrauninu og þá allstórir.

Eldri gígaröð

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun.

Sundhnúkur

Eldri gígur í Sundhnúkahrauni.

Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er getið.

Hvenœr rann hraunið?

Sundhnúkahraun

Hraunrás í Sundhnúkahrauni.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð.

Hagafell

Hraunfossin (-tröðin) vestan Hagafells.

Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur

Sundhnúkahraun

Sprungur í Sundhnúkahrauni.

Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum. Má í því sambandi minna á jarðskjálftana á Reykjanesi 30. september 1967.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi (4. mynd).

Ummyndun og jarðhiti

Bláa lónið

Grindavík ofanverð – kort.

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.
Rétt austan við veginn norðan í Selhálsi hefur hraunið runnið út á svæði, sem er mjög ummyndað af jarðhita. Það er athyglisvert, að hraunið sjálft er þarna líka nokkuð ummyndað, en það sýnir, að þarna hefur verið virkur jarðhiti, eftir að hraunið rann, þ. e. fyrir eitthvað skemur en um það bil 2400 árum.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Ummyndun eftir jarðhita er þarna víða í kring, bæði í Þorbjarnarfelli og Svartsengisfelli. Sömuleiðis er mikil jarðhitaummyndun í austustu gígunum í Eldvörpum við hina fornu slóð milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Boranir þær, sem gerðar voru á þessum stað 1971, hafa staðfest, að þarna er um háhitasvæði að ræða.
Ef marka má af ummyndun, og eins því á hve stóru svæði vart verður við gufur í hraununum við hagstæð skilyrði, þá er svæðið ekki lítið. Eftir er nú að kanna takmörk þess.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.02.1974, Sundhnúkahraun við Grindavík, Jón Jónsson, bls. 145-153.

Sundhnúkahraun

Ein af gersemum Sundhnúkahrauns.

Andrews

Á RÚV 3. maí 2023 var eftirfarandi umfjöllun um “Flugslys á Fagradalsfjalli sem breytti rás viðburða” í tilefni af því að áttatíu ár voru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík.

Andrews

Minnismerkið á Stapanum um áhafnameðlimi Hot Stuff er fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli 3. maí 1943.

Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af. Tilefnið var auk þess tilfærsla á minnismerkinu um atburðinn, en því hafði áður verið komið fyrir austan Grindavíkurvegarins miðja vegu milli Stapans og Grindavíkur. Áhrif tæringar frá nálægri Svartsengisvirkjuninni varð til þess að ástæða var að færa minnismerkið upp á ofanverðan Stapa norðan gatnamóta Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Þaðan er ágætt útsýni (í góðu skyggni) yfir að slysstaðnum í kastinu í vestanverðu Fagradalsfjalli. Gerður hefur verið göngustígur ofan í endurgerðan gamla Grindavíkurveginn frá hringtorgi ofan gatnamótanna.

“Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur minningarathöfnina á Stapa í dag.
Hershöfðingjar í Bandaríkjaher, sendiherra og forseti Íslands minntust í dag fjórtán bandarískra hermanna sem fórust í flugslysi á Fagradalsfjalli fyrir áttatíu árum.

Andrews

Frá minningarathöfninni við minnismerkið á Stapanum 3. maí 2023.

Fimm ár eru frá því minnisvarði um flugslysið 3. maí 1943 var reistur en nú verið færður að Stapa við Reykjanesbraut. Fimmtán voru um borð í sprengjuflugvélinni Hot Stuff þegar hún brotlenti á Fagradalsfjalli og komst aðeins einn lífs af. Um borð voru bandarískir hermenn og Frank Maxwell Andrews hershöfðingi.
Minningarathöfnin í dag var einkar hátíðleg þótt bæði væri hvasst og kalt. Mannanna fjórtán var minnst með ræðum, blómsveigar lagðir og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir auk flugvélar frá Bandaríkjaher.

Andrews

Frá minningarthöfninni á Stapanum.

„Mér finnst það heiður að vera fulltrúi Andrews-herstöðvarinnar sem dregur nafn sitt af Andrews hershöfðingja, og fara fyrir flughermönnum frá herstöðinni við þessa athöfn,“ segir Todd Randolph, yfirmaður Andews-herstöðvarinnar í Bandaríkjunum.
Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna, segir mikilvægt að minnast þeirra sem fórust. Þeir hafi barist fyrir lýðræðingu.

„Já, mjög svo og enn frekar núa þegar Ísland og Bandaríkin standa aftur saman í andófinu gegn innrás Rússa í Úkraínu,“ segir Patman.

Andrews

Annað upplýsingaskilti af tveimur við minnismerkið. 

Þegar slysið varð hafði enginn jafn háttsettur embættismaður og Andrews hershöfðingi fallið í stríðinu úr röðum bandamanna.
„Rás viðburða hefði orðið önnur hefði það ekki gerst. Hann hefði farið fyrir liði bandamanna sem réðist inn í Normandí í júní 1944. En í stað hans tók Eisenhower við keflinu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Andrews

Á öðru skiltinu er m.a. lýst 12 flugslysum er urðu á nálægum slóðum á stríðsárunum.

„Hann var þá háttsettur yfirmaður í flughernum á þeim tíma og frumkvöðull í því sem nefnt er Flugher Bandaríkjanna nú. Hann er einn helsti höfundurinn að aðskilnaði herjanna, landher frá flugher til að yfirráðum í lofti sem hernaðaraðferð,“ segir Randolph.

Andrews

Tíu áhafnameðlimir Hot-Stuff er fórust í Kastinu 1943.

Fagradalsfjall sést vel frá minnisvarðanum á Stapa. Frumkvæðið að því að setja upp minnisvarðann eiga tveir bræður [Þorsteinn og Ólafur Marteinssynir] og sem hafa mikinn áhuga á sögunni og halda úti vefsíðu með korti af flugslysum.

„Þeir höfðu reynt lendingu í Keflavík en vegna veðurs fundu þeir ekki völlinn. Við erum að horfa hérna á Fagradalsfjall sem flestir kannast við eftir að það gaus. En hérna vestast, þar sem er smá hækkun [Kastið], það var þar sem vélin rakst á fjallið,“ segir Þorsteinn Marteinsson, áhugamaður um sögu flugslysa.

Á tveimur upplýsingaskiltum við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
B-24 Liberator-sprengjuflugvélin Hot Stuff – Sigurganga og örlagarík endalok
“Bandaríska B-24 sprengjuflugvélin Hot Stuff og áhöfn hennar var fyrsta flugvél 8. flughersins sem lauk 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari.

Andrews

Áhöfn Hot Stuff.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprenguflugdeildar, að fá far með Robert “Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Meþódistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprenguflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.

Andrews

Robert “Shine” Shannon.

Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgin 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Scotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar kom upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu. Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og sundraðist.

AndrewsVið slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en lá klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu, en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið”.

Frank Maxwell Andrews – yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu – 3. feb. 1884-3. maí 1943
Andrews“Frank M. Andrews hershöfðingi fæddist 3. febrúar 1884 í Nashville í Tennssee. Hann hóf nám í háskóla Bandaríkjahers í West Point árið 1902 og brautskráðist árið 1906. Hann starfaði í flugdeild Bandaríkjahers í fyrri heimsstyrjöldinni og árið 1935 valdi Douglas Mac Arthur yfirhershöfðingi hann til þess að gegna starfi yfirmanns nýrrar aðgerðardeildar flughersins.
Andrew var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsheild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.
Andrews var einnig ákafur hvatamaður að smíði stórra sprengjuflugvéla og eggjaði stjórnvöld til kaupa á fjölda nýrra sprengjuflugvéla af gerðinni B-17 “Fljúgandi virki” en hlaut ekki stuðning yfirstjórnar hersins. Framsýni hans sannaðist þó þegar Bandaríkin drógust inn í síðari heimsstyrjöldina og stjórnvöld létu smíða B-17 og B-24 Liberator sprenguflugvélar í stórum stíl.

Andrews

Hot Stuff.

Andrews var hækkaður í tign árið 1941 og var falin yfirstjórn bandarískra herja við Karibahaf sem önnuðust varnir aðkomuleiða til Bandaríkjanna úr suðri, þ.á.m. um Panamaskurð. Eftir innrás bandamanna í Norður-Afríku haustið 1942 var honum falin stjórn alls herafla Bandaríkjanna við sunnanvert Miðjarðarhaf sem átti þátt í að vinna sigur á Afríkuher þýska hershöfðingans Erwins Rommels.

Andrews

Einkennismerking Hot Stuff.

Í febrúar 1943 var Andrew skipaður yfirmaður herja Bandaríkjanna í Evrópu með aðsetur í Bretlandi og 3. maí sama ár valdi bandaríska yfirherráðið hann til þess að stjóra sameinuðum herafla bandamanna sem undirbúa skyldi innrás á meginland Evrópu. Andrew fékk þó aldrei boðin um þess merku hækkun í tign því hann fórst sama dag þegar Liberator flugvél hans, sem gekk undir nafninu “Hot Stuff” og flytja átti hann til Bandaríkjanna, fórst á Fagardalsfjalli á Reykjanesi.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Flugvélin hafði horfið frá lendingu í Keflavík vegna veðurs og var á leið til flugbækistöðvar breska flughersins í Kaldaðarnesi. Við lát Andrews hershöfðingja tók Dwight D. Eisenhower, síðar Bandaríkjaforseti, við stjórn Evrópuherstjórnarinnar en hann hafði áður gegnt starfinu árið 1942.
Andrews hershöfðingi og þrettán samferðarmenn hans voru grafnir með mikilli viðhöfn í Fossvogskirkjugarði 8. maí 1943. Líkamsleifar þeirra voru flutta heim til Bandaríkjanna árið 1947 og var Andrews lagður til hinstu hvílu í þjóðargrafreit Bandaríkjanna í Arlingtonkirkjugarði í útjarðri Washingtonborgar”.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

“Upphaflega var flugvöllurinn lagður af Bandaríkjaher í Seinni-Heimsstyrjöldinni og tekin formlega í notkun 23. mars 1943. Banndaríkjamenn nefndu hann “Meeks Field” í höfuðið á ungum flugmanni, George Meeks að nafni, sem fórst á Reykjavíkurflugvelli og var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem lést á Íslandi í styrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni var flugvöllurinn og bækistöðin, sem við hann stóð, afhentur Íslendingum til eignar og var hann þá nefndur Keflavíkurflugvöllur eftir stærstu nágrannabyggð hans, Keflavík.

Andrews

Leiði Andrews og félaga í Fossvogskirkjugarði.

Flugvellirnir við Keflavík voru reyndar tveir, Meeks og Pattersonflugvöllur ofan Njarðvíkurfitja, sem þjónaði orrustuflugsveit Bandaríkjahers til stríðsloka. pattersonflugvöllur var ekki notaður eftir stríðslok. Keflavíkurflugvöllur var rekinn af bandarísku verktakafyrirtæki til ársins 1951, er Bandaríkjaher kom aftur til landsins samkvæmt varnnarsamningi Íslands og Bandaríkjana sem gerður var að tilstuðlan Norður-Atlantashafsbandalagsins, NATO.

Andrews

Grafsteinn Andrews í Arlingtonkirkjugarði.

Bandaríkjaher (varnarliðið á Íslandi) reisti bækistöð sína við Keflavíkurflugvöll. Þar var afgirtur bær sem hýsti allt að 5700 hermenn, starfsfólk og fjölskyldur þeirra allt til ársins 2006 þegar herstöðin var lögð niður. Í dag her herstöðin hverfi í Reykjanesbæ og gengur undir nafninu Ásbrú”.

Konunglegur flugvöllur í Bretlandi var nefndur eftir Frank M. Andrews, Andrews Field, í Essex, England. Þetta var fyrsti flugvöllurinn, sem verkfræðideild bandaríska hersins endurbyggði þar í landi.

Andrews

Andrews Theater á Keflavíkurflugvelli.

Þetta var 1943, skömmu eftir slysið í Kastinu. Hann var þekktur fyrir að vera fyrsti endurgerði flugvöllurinn í Bretlandin 1943, hét áður RAF Station Great Saling, á heimsstyrjaldarárunum síðari. Flugvöllurinn var notaður af  USAAF 96th sprengjuflugdeildinni og 322nd sprengjusveitinni á stríðsárunum sem og  nokkrum RAF deildum áður en honum var lokað 1946. Í dag er þarna lítill einkaflugvöllur.

Andrews breiðstræti, vegur er liggur að alþjóðaflugvellinu Filippseyja, Ninoy Aquino International Airport Terminal 3, var nefndur eftir honum. Þá var “Andrews Theater” á Keflavíkurflugvelli einnig nefnt eftir Frank í minningu hans.

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-05-03-flugslys-a-fagradalsfjalli-breytti-ras-vidburda
-RÚV, Flugslys á Fagradalsfjalli breytti rás viðburða – Áttatíu ár eru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík. Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af, Kristín Sigurðardóttir, 3. maí 2023.
-Minnismerki ofan Stapa um Andrews og félaga.
–https://en.wikipedia.org/wiki/Frank_Maxwell_Andrews

Andrews

Afsteypa af Hot Stuff, Liberator-24, á minnisvarðanum.

Kastið

Jeppa- og ferðalagaskóli Artic Trucks stefndi að Fagradalsfjalli. Ferðin var framhald kynningar FERLIRs á flugvélaflökum á Reykjanesskaganum í skólanum s.l. vetur.
Kastið - slysið var þar sem fólkið er efst á myndinniLagt var af stað á sérútbúnum jeppum. Þátttakendur voru þeir sem tóku þátt í umræddri kynningu, auk þess sem áhugasömum FERLIRsþátttakendum (húfuhöfum) var að sjálfsögðu boðið að slást með í för. Farið var að Kastinu þar sem skoðaðar voru leifar af flugvél þeirri er Andrews yfirhershöfðingi Bandaríkjahers í Evrópu fórst með 4. maí 1943. Þá voru skoðaðar leifar flaks í Langhól frá því 24. apríl 1941 og loks flugvélaflak í Langahrygg frá 2. nóv. 1941. Í þessum flugslysum fórust 28 menn, en 11 komust lífs af.
Eins og oft vill vera með nýja vegi þá gleymast þarfir annarra en ökumanna, sem um veginn eiga að fara. Aldrei er gert ráð fyrir útskotum svo fólk gefi stöðvað og lagt bílum sínum, t.d. ef það langar til að skoða nálæga áhugaverða staði. Þá er sjaldan gert ráð fyrir að fólk þurfi að aka spölkorn út fyrir veginn, s.s. inn á gamla slóða. Þannig er málum háttað við nýja Suðurstrandarveginn austan Grindavíkur.

Fagradalsfjall

Ferðalangar á leið umhverfis Fagradalsfjall.

Ekið var eftir slóða yfir Borgarhraun með stefnu á Einbúa, beygt með Kastinu og stöðvað í Fremstadal, en úr honum var þægilegast að ganga upp að fyrsta flakinu.
Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar 4. maí árið 1943, kl. 16:20. Flugvélin var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl ofan við Keflavík. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Bráðið ál á slysstað
Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Hlutar flugvélarinnar eru á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Flugvélin skall á hlíðinni ca. 1/5 neðan við efstu brún. Þar má sjá leifar, s.s. bráðið ál utan um grjótmola, en hlíðin öll er skriða með litlum steinhnullungum. Þarna neðan við og til hliðanna má sjá ýmsa vélarhluta.
Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnilegar ljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Hernám


George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja
Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943.
Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson
frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld
frá Ríkisútvarpinu.

Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Flugvélin hafði verið að koma frá Bretlandi. Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Flugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs. Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Í KastinuÍ febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.
Árið 2001 var haldin minningarathöfn þarna á staðnum. Til stendur að setja þar upp minnismerki um atburðinn.
Í Fremstadal er nokkurt brak, sem vindur og vatn hafa hrakið ofan af Kastinu.
Þá var haldið áfram inn Miðdal, framhjá Sandhól-Innri, eftir Innstadal og yfir Nauthóla og inn Fagradal þar sem staðnæmst var um stund í Dalsseli áður en haldið var á brattann norðvestan og milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Þar er slóðinn hvað óljósastur enda þvær vorvatnið þar klappirnar berar.
Leifar djúpsprengju við LanghólNæsti áfangastaður var norðaustan í Langhól. Leifar af flugvélinni eru af breskum Sunderland flugbát. Svolítið er enn á vettvangi slyssins um 1/5 neðan við efstu brún hlíðarinnar, sem hún skall á, en meira er í gili skammt austar og neðar. Þar eru leifar af djúpsprengum, auk ýmissa hluta úr vélinni.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 153:
“Aðfaranótt fimmtudagsins 24. apríl klukkan 05:45 rakst breski Short Sunderland Mk.I flugbáturinn N9023 “KG-G” úr 204 flugsveit RAF á austurhlið Fagradalsfjalls [í svonefndum Langhól] í Reykjanesfjallgarði í þoku og dimmviðri. Flugbáturinn hafði bækistöð á Skerjafirði og var að koma úr herflugi undir stjórn flugstjórans F/Lt Huges. Áður hafði áhöfn hans reynt að ná stefnumiðun á Reykjavík en ekki tekist. Flugmaður flugbátsins sá fjallshlíðina á síðustu stundur og náði að lyfta nefi hans þannig að hann rakst ekki beint inn í hlíðina. Þegar hann rakst á fjallið var hann í flugstefnu frá Reykjavík. Flugvélin brotnaði mikið og í henni kviknaði. Einn úr áhöfninni, P/O. J. Dewar aðstoðarflugmaður, kastaðist í gegnum þakið á flugstjórnarklefanum. Þrátt fyrir sprengingar í skotfærum og vitneskju um djúpsprengjur í flakinu fór hann félögum sínum til hjálpar en þrír þeirra voru mikið slasaðir. Einn þeirra var yfirmaður hans. Bjó hann um sár þeirra og gekk síðan 20 km yfir illfært hraun heim að Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hann gat hringt til Reykjavíkur eftir aðstoð. Samkvæmt heimildum lést einn í slysinu og tveir úr brunasárum á sjúkrahúsi en aðrir tíu slösuðust meira og minna.”
Hreyfill við LangahryggHaldið var áfram eftir slóðanum framhjá Mógili og út með Kistufelli. Haldið var yfir háls milli þess og Litla Hrúts og af honum niður bratta hlíð með stefnu á Stóra Hrút. Þegar komið var suður fyrir Einihlíðar var stefnan tekin að þriðja flugvélaflakinu, í Langahrygg.
Brakið er í grýttri hlíð mót austri. Smæstu hlutirnir eru enn á vettvnagi, en þeir stærri hafa runnið niður hlíðina og staðnæmst þar í gili.
Friðþór Eydal segir að með flugvélinni, sem fór í Langahrygg, hafi verið 12 menn og allir látist. Einn þeirra var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02.11.1941. Matthías Johannessen segir skemmtilega frá samtölum sínum við Magnús Hafliðason á Hrauni í bók sinni “M Samtöl I” (AB Reykjavík 1977) er þeir gengu á öll þrjú flökin í Fagradalsfjalli. Magnús kom með fyrstu mönnum á slysstaðinn í Langahrygg. Lík þeirra, sem fórust með flugvélinni, voru flutt heim til Bandaríkjanna.
Skóleifar við LangahryggTalsvert brak er úr vélinni utan í hryggnum og niður með hlíðinni, sem fyrr sagði. Hreyfill liggur við rætur hennar, í gilinu, sem þar er.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 146:
“Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið “74-P-8” hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur örðum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafsit í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.
Slysstaðurinn í LangahryggÞar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir “74-P-3” og “74-P-9” lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10. Öllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í veg fyrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – minjar á slysstað.

Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.”
Magnús Hafliðason frá Hrauni lýsti aðkomunni á slysstað í viðtali við MBL 1977. Hún var hryllileg, enda fátt stórra hluta heillegir.
Frábært veður. Ferðin tók 8 klst og 8 mín.

Langihryggur

Brak flugvélar í Langahrygg.

 

 

Langihryggur

Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu.

Langihryggur

Brak í Langahrygg (hefur nú verið fjarlægt af misvitrum).

Fylgt var gömlu leiðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn. Kíkt var í Drykkjarsteininn, sem Símon Dalaskáld orti um á sínum tíma og getið er um í annarri FERLIRslýsingu. Skárnar voru stútfullar af tæru regnvatni.
Haldið var áfram upp með Bratthálsi og Lyngbrekkur og stefnan tekin á Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill.
Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall.

Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stóra Hrút. Stóri Hrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stóra Hrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.
Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.

Dalssel

Dalssel.

Þá var haldið á fótinn, upp Fagradalsfjall og áleiðis upp á Langhól, hæsta hluta fjallsins. Slóð eftir tæki hersins, sem fóru á slysstað á sínum tíma, sjást enn í fjallinu. Hæsta bungan er í 385 m.h.y.s. Efst á henni er landmælingastöpull. Þaðan er fallegt útsýni yfir Þráinsskjöldinn, Keili, Strandarheiði og Vogaheiði.

Gengið var niður af fjallinu að norðanverðu. Þar er einn af fallegri gígum landsins. Hann er þverskorinn, þ.e. hægt er að horfa inn í hann, þar sem hann liggur utan í fjallshlíðinni.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Gígurinn er um 70 metra hár og tignarlegur eftir því. Vel er hægt að sjá þarna hvernig eldgígar hafa orðið til. Þessi hefur opnast til norðurs og hraunið þá runnið út úr honum þar, en skilið gígrásina eftir ófyllta.
Lækjarfarvegi var fylgt niður með norðanverðu fjallinu til vesturs þangað til komið var að Dalsseli. Tóftirnar eru á vestanverðum bakkanum, en lækurinn hefur smám saman verið að narta bakkann undan selinu. Neðar eru Nauthólaflatir. Greiður gangur er eftir þeim niður að Mosadali og áfram niður á Skógfellaveg. Að þessu sinni var hins vegar gengið til vesturs um Fagradal og með fjallinu, framhjá Kastinu og Görninni, um Borgarhraun og að upphafsstað.
Fagradalsfjall er heimur út af fyrir sig. Bæði fjölmargt að skoða og svo er útsýnið óvíða fegurra á Reykjanesskaganum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Dalssel

Í Dalsseli.

Geldingadalur

Fjallað er um örnefnið “Meradali” á Vísindavefnum:

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.).

“Í landi Hrauns austan við Grindavík, í fjalllendinu austan við hina heimsfrægu Geldingadali, er djúp dalkvos sem ber heitið Meradalir. Þegar þetta er ritað er hraun tekið að renna þangað eftir að nýjar gossprungur mynduðust norðaustan við Geldingadali. Hvorugir dalanna eru raunar miklir dalir eins og heitið gæti bent til en tekið fram í örnefnalýsingu Hrauns að hugtakið sé hér einnig notað um brekkur og kvosir.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“ og sennilegt að þar hafi jarðvegsrof verið umtalsvert. Svæðið var notað til beitar, einkum að sumarlagi en sel frá mörgum jörðum í Grindavík voru austan við dalina, á svonefndum Selsvöllum auk þess sem örnefnið Selskál skammt vestan við gosstöðvarnar bendir til selstöðu. Þótt ótrúlegt megi virðast var einnig eldiviðartekja í nágrenninu sem er í upphafi 18. aldar sögð reitingur af lyngi, hrísi og slíku lítilvægu.

Geldingadalur

Geldingadalur fyrir gosið 2021.

Meradalir er djúp dalkvos í landi Hrauns. Bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafa gengið á þessu svæði frá örófi alda.  Örnefnið Meradalir eitt og sér er auðskilið og kemur kannski engum á óvart að bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafi gengið á þessu svæði frá örófi alda. Fleiri búsmalanöfn af þessu tagi fyrirfinnast raunar í landi Hrauns, til dæmis Tryppalágar, Hrútadalur, Nauthóll og Kúalágar. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að hér hafa sennilega ekki verið mjög stórir fjárhópar á fyrri öldum (þótt fjölgað hafi á 19.-20. öld) og tæplega nein stóð í Meradölum.

Hraunssel

Hraunssel Sandfell og Höfði fjær.

Almennt séð eru landgæði rýr á þessum slóðum, enda hefur sjávarútvegur lengst af verið aðalatvinnuvegur í Gullbringusýslu en ekki landbúnaður og byggðin grundvallast á honum – ekki síst í Grindavík. Búfjárfjöldi er lítill svo langt sem tölur ná og til að mynda taldi bústofn Hrauns ekki nema tvo hesta og eina meri þegar jarðabók var rituð í upphafi 18. aldar – en auk þess þrjá sauði, fjórar kýr, ellefu ær, nokkrar gimbrar og lömb. Allt sauðfé gekk úti um 1840 og þá voru hvorki til fjárhús, beitarhús né fjárborgir í sókninni. Hesthús hafa áreiðanlega verið sjaldgæf líka og líklega hafa merar sem og önnur hross gengið úti árið um kring.

Nauthóll

Nauthóll í Fagradal.

Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“. Þeir sjást hér vel á loftmynd sem tekin var 5. apríl 2021 þegar hraun tók að renna niður í dalina. Meradalirnir breiða úr sér þar sem hrauntungan endar vinstra megin fyrir miðri mynd. Hægra megin á myndinni sést hraunið í Geldingdölum.

Selsvellir

Selstóftir á Selsvöllum.

Til marks um beitargæði eða öllu heldur skort á þeim er tekið fram í sóknarlýsingu að á Suðurlandi finnist eigi jafngraslítil og gróðurlaus sveit. Sömuleiðis er fullyrt að á Hrauni sé ekki höfð nokkur skepna heima á sumrum vegna beitarskorts heldur allir hestar daglega fluttir langt í burtu, „…á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni“, en fellið er heldur vestar en dalirnir sem hér eru til umræðu. Kannski geyma Meradalir vísbendingu um slíkar nytjar, og eru þá kannski helst vitnisburður um skort á landgæðum og að augu manna hafi beinst að hverjum einasta bletti sem gat fóðrað skepnu eða tvær.”

Rétt er að geta þess að örnefnið “Merardalir” eru jafnan notað í fleirtölu vegna þess að dalirnir eru tveir; Meradalur og Syðri-Meradalur (Fremri-Meradalur). Slíkt og hið sama gilti og um Geldingadalina.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81496

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforngjaráðskorti 1906.

Borgarhraunsrétt

Á nýlegri landakortum er Sandakravegur sýndur liggja frá Drykkjarsteinsdal í austri, með vestanverðu Fagradalsfjalli til norðurs og síðan niður á Skógfellastíg úr Fagradal um Aura. Veginum var fylgt norður með Borgarfjalli, um Nátthagakrika, framhjá Einbúa og að Kastinu með viðkomu í Selskál, Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsborg.

Sandakravegur

Gengið um Sandakraveg.

Þegar gengið var af gömlu þjóðleiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur vestast í Drykkjarsteinsdal má sjá djúpa gróna holu innan við hraunkantinn. Þarna gæti hafa verið vatnsstæði eða brunnur. Erfitt er að greina götuna að ráði fyrr en komið er inn fyrir Borgarfjallið, en þegar komið er í Nátthagakrika fer að móta vel fyrir henni. Sunnan við Einbúa er gatan mjög skýr. Kastað hefur verið upp úr henni á kafla, auk þess sem hlaðin gerði eru á tveimur stöðum við götuna.

Haldið var inn í Selskálina og hún skoðuð.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ekki var að merkja nein mannvirki í skálinni, enda hefur orðið þarna mikil jarðvegseyðing. Þó er á einum stað vel grasi gróið svæði, en ekki var gott að merkja á bakka, sem þar, hvort hann væri náttúrulegur eða gæti verið hluti af einhverju mannvirki.
Gengið var til suðvesturs með vesturbrún hraunkants. Utan í honum eru grasi grónar brekkur og bollar. Hlaðinn stekkur er þar utan í bakkanum, en við leit fundust ekki önnur sýnileg mannvirki. Þó er líklegt að þau kunni að leynast þarna ef vel væri að gáð.
Stefnan var tekin til suðurs inn á hraunið, að Borgarhraunsréttinni, sem kúrir þar heilleg undir suðurjaðri hraunsins. Sumur hafa viljað nefna réttina eftir Ísólfsskála þar sem hún er í hans landi, en Skálamenn þekkja ekki slíka nafngift.

Borgarhraunsborg

Í Borgarhraunsborg.

Gengið var áfram til suðurs, að Borgarhraunsborg. Um er að ræða stóra fjárborg á grónum hraunhól. Hún er í rauninni í Litla-Borgarhrauni, skammt frá mynni Drykkjarsteinsdal.
Nafnið Selskál bendir til selstöðu og þá væntanlega frá Ísólfsskála. Stekkurinn í hraunkantinum gæti hafa verið hluti af henni. Nátthagakriki er enn ein vísbendingin og einnig Nátthagi skammt austar í Fagradalsfjalli.
Hugsanlega gæti gatan þar sem hún sést svo vel í krikanum og undir Einbúa einnig hafa verið hluti af selsstígnum. En hvað sem öllum vangaveltum líður fæst sennilega seint úr því skorið. Þetta svæði er hins vegar hið ákjósanlegasta göngu- og útivistarsvæði og margt að skoða.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Viðeyjarborg

Í Borgarhraunsborg.

Geldingadalir

Í Fréttablaðinu þann 30. ágúst 2021 segja Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson sögu gossins í Geldingadölum á Fagradalsdfjalli í stuttu máli og lýsa aðstæðum eftir goslokin undir yfirskriftinni “Sjóðheit djásn beint úr ofninum”:

Geldingadalir
“Það eru ekki margir staðir á jörðinni þar sem náttúrudjásn bókstaflega poppa upp úr jörðinni. Ísland er einn þeirra, enda eitt virkasta eldfjallasvæði jarðar. Það sannaðist þann 19. mars 2021 þegar gos hófst í hlíðum Fagradalsfjalls í Geldingadölum. Það stóð í hálft ár en fram að því hafði ekki gosið á Reykjanesi í næstum 800 ár. Barst kvika til yfirborðs eftir allt að 17 kílómetra kvikugangi og út í gegnum tvo samhliða gíga. Síðan opnuðust ný gosop norðan þeirra sem lokuðust aftur þegar mánuður var liðinn af gosinu. Eftir það barst kvika aðallega úr einum og sama gígnum, og var hraunstreymið lengst af í kringum 5-13 rúmmetrar á sekúndu. Upp úr miðjum ágúst fór síðan að draga úr gosinu og eftir 18. september hefur ekkert hraunstreymi mælst frá gígnum. Þremur mánuðum síðar var goslokum síðan formlega lýst yfir.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

Gosið í Geldingadölum telst ekki á meðal stærstu eldgosa, enda ekki aflmikið, en var engu að síður afar tilkomumikið og auðvelt að fylgjast með því í návígi.
Gígurinn er sérlega mikið fyrir augað, en þar bregður fyrir alls konar litum, meðal annars rauðri gígskál. Á 40 metra háum gígbörmunum eru gular brennisteinsútfellingar síðan mest áberandi sem má rekja til heitra gosgufa sem stafa frá allt að 70 metra þykku hrauninu næst gígnum. Í dag þekur hraunþekjan tæplega 5 ferkílómetra, meðal annars alla Geldingadali, en hrauntungur teygja sig einnig ofan í Meradali og Nátthaga.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Þótt gosinu sé nú formlega lokið eru eldstöðvarnar og umhverfi þeirra mikið fyrir augað, ekki síst gígurinn sem þegar telst á meðal helstu djásna í krúnu Reykjanesskaga. Því er óhætt að mæla með göngu að þessu stórkostlega náttúrufyrirbæri. Forðast ber að ganga inn á sjálft hraunið eða upp að gígnum, enda ágætt útsýni að honum frá Stóra-Hrúti eða Fagradalsfjalli. Undanfarið hafa jarðhræringar aftur gert vart við sig á svæðinu, sem gætu verið undanfari goss. Því er skynsamlegt að bíða með heimsóknir í Geldingadali uns óróanum linnir og hætta á gosi minnkar. Þessi stöðugi órói svæðisins dregur þó síst úr aðdráttarafli þess og vonandi verður það gert að friðlandi í náinni framtíð.”

Höfundum ber sérstaklega að þakka að nefna ekki ónefnuna, sem Grindvíkingar höfðu ákveðið á hraunið af lítilli yfirvegun.

Heimild:
-Fréttablaðið 30. ágúst 2021, Sjóðheit djásn beint úr ofninum, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson.

Geldingadalir

Geldingadalir – gígur.

Kastið

Gengið var um Fagradalsfjall með það að markmiði að finna og skoða þrjú flugvélaflög, sem þar eiga að vera.

kastid-213

Hluti braksins í Kastinu.

Gengið var frá Siglubergshálsi og gengið um Lyngbrekkur og upp með Langahrygg að austanverðu. Þaðan er gott útsýni yfir að Skála-Mælifelli. Flugvélabrak frá því á stríðsárunum liggur norðaustan í hryggnum (6352353-2215459). Tólf menn fórust, Bretar og Bandaríkjamenn. Stutta stund tók að finna brakið. Það er efst í hryggnum og í brekkunni þar fyrir neðan. Hluti braksins er í gili undir brekkunni.

Haldið var yfir að Langhól. Þar fórst önnur vél í stríðinu, Sunderland flugbátur. Ekki er ljóst með mannskaða. Brakið er norðaustan í hólnum, nokkuð ofarlega (6354282-2216012). Áður en komið vara ð barkinu var gengið fram á vatnsketil þar í hlíðinni og var þó svolítið vatn í honum. Vel gekk að finna brakið. Gengið var svo til beint á það.

Langhóll

Langhóll – brak.

Eftir að hafa skoðað svæðið var gengið upp á hæsta punkt Langhóls (391 m.y.s.). Þar er gott útsýni yfir hinar fögru og blómlegu byggðir Suðurnesja og Útnesja. Brak af flugvél er ofarlega undir Langhól í norðaustur.
Frá Langhól var haldið í Kastið, en þar er þriðja flugvélabrakið. Það er af Liberator-flugvél Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu, en hann fórst þarna 3. maí 1943. Fjórtán fórust og einn komst lífs af í þessu slysi.
Eftir að hafa skoðað brakið í Kastinu var haldið sem leið lá að upphafsstað.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 5 mín. Átján km voru lagðir að baki.

kastid-212

Kastið í Fagradalsfjalli.

 

Geldingadalir

Í frétt RÚV þann 19. mars 2021 segir frá eldgosinu í Geldingadölum í Fagradalsfjalli:
“Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli um klukkan korter í níu föstudagskvöldið 19. mars 2021. Í fyrri hluta apríl hafa fleiri gossprungur opnast. Engin hætta steðjar að byggð vegna gossins. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosinu.”

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – staðsetning eldgoss í Geldingadölum.

Framangreint gos í Geldingadölum kom svolítið á óvart hvað staðsetninguna varðar, en nokkrum mánuðum fyrr höfðu mælst verulegir jarðskjálftar norðan og norðvestan við Grindavík (Þorbjörn). Fargradalsfjall er hins vegar norðaustan og austan við Grindavík (Þorbjörn).

Í Wikipedia er fjallað um eldgosið í Fagradalsfjalli 2021 frá upphafi til loka:

“Eldgos hófst við Fagradalsfjall þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti. Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir). Eldgosið er flokkað sem dyngjugos en slík gos eru fátíð. Kvikan er frumstæð kemur úr 17-20 kílómetra dýpi. Tegund hraunsins er helluhraun og apalhraun. Fleiri gígar opnuðust á upphafsvikum gossins en þegar á leið einangraðist virknin við einn gíg. Hundruð þúsunda hafa skoðað gosið. Eldgosið jók virkni sína eftir því sem á leið sem er óvanalegt.Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.

Nær 800 ár voru síðan gaus síðast á Reykjanesskaga þegar Reykjaneseldar geysuðu. Og 6000 ár eru síðan gaus í Fagradalsfjalli. Þá rann Beinavörðuhraun.

Frá 18. september hætti hraunflæði frá gígnum. Gosið stóð í um hálft ár og er 4. lengsta gosið á 20. og 21. öld.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Sprunga var metin í byrjun um 200 metrar á lengd þegar þyrla Landhelgisgæslunnar náði fyrstu myndum en síðar 500 metrar. Þann 20. mars mat svo Páll Einarsson sprunguna sem 200 metrar en ofmat var á stærð hennar. Syðri endi tungunnar var nokkra km frá Suðurstrandarvegi. Hrauntungur runnu í suðsuðvestur og vestur í Geldingadali. Geldingadalir eru lokaðir og hraunstreymið varð að fylla dalinn til að komast áleiðis. Upphafi gossins er líkt við Fimmvörðuhálsgosið. Krýsuvíkurvegi og Fagradalsvegi var lokað. Degi fyrir gosið var búið að loka Suðurstrandarvegi vegna skemmda sem urðu á veginum í kjölfar jarðskjálftahrinunnar. Mengunarviðvörun var send til Árnessýslu þar sem vindáttin liggur í austur frá gosstaðnum, í átt að Hveragerði.

Nokkurn fjölda fólks dreif að og voru sumir vanbúnir, í slæmu skyggni og þurftu björgunarsveitir að bjarga týndu og hröktu fólki. Sumir fóru fullnálægt gígnum en tilmæli voru um. 21. mars var brekka upp að gígnum lokuð. En Almannavarnir og löggæsla bentu á að hrunið gæti úr gígnum og nýjar sprungur gætu opnast. Varað var við að hættulegt gas gæti safnast saman í lægðum í stilltu veðri.

Fólk gekk frá Svartsengi þar sem Suðurstrandarvegur var lokaður vegna viðgerða sökum skjálftanna. En ákveðið var að stika leið frá Suðurstrandarvegi þar sem það var öruggara og styttri.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðýtur voru mættar til að stýra hraunflæðinu.

21. mars: Hraunið var metið 0,15 ferkílómetrar (Magnús Tumi Guðmundsson).
22. mars: Almannavarnir lokuðu svæðinu við eldgosið vegna gasmengunar.
24. mars: Tveir aðalgígar gjósa og eru samvaxnir. Hraunið fyllir nánast dalinn. Ferðamenn flykkjast á staðinn.
26. mars: Allt að tíu milljónir króna framlag var ákveðið af ríkinu til að bæta aðgengi fyrir þá sem vilja skoða gosstöðvarnar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – glóandi hraun.

27. mars: Lokað var eftir hádegi vegna versnandi veðurs. Fylgst var með ferðamönnum með tilliti til sóttkvíarbrota.
28. mars: Hraunið þekur Geldingadalina. Vegagerðin býr til bílastæði þar sem gönguleiðin við Suðurstrandarveg byrjar.
31. mars: Flúormengun mælist í regnvatni við eldstöðvarnar. Ákveðið var að hafa opið frá 6-18 og rýma kl. 22 á svæðinu um páskana. Þekja hraunsins er um 0,3 ferkílómetrar.
2. apríl: Vart varð við fyrstu gjósku gossins eða ljósleitan vikur. Nornahár fannst einnig.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – margir skemmtu sér vel við hraunjaðarinn.

5. apríl: Nýjar sprungur opnuðust, 100-200 metrar að lengd, hálfum kílómetra norðaustan við gígana sem fyrir voru. Hraunelfur tók að renna niður í Meradali. Yfir 500 manns voru á gosstöðvunum og var svæðið rýmt. Virkni gíganna í Geldingadölum minnkaði og var talið að nýju sprungurnar væru hluti af sama kvikuinnskoti.
7. apríl: Ný sprunga, um 150 metra löng, opnast á milli hinna tveggja og rennur hraun í Geldingadali.
8. apríl: Flatarmál hrauns er 0,62 ferkílómetrar samkvæmt Jarðvísindastofnun og hefur hraunflæði aukist með nýjum gígum.
10. apríl: Fjórða sprungan opnaðist milli tveggja nýjustu. Svæði var afmarkað sem hættusvæði á gosstöðvunum þar sem líklegast er að sprungur opnist.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

13. apríl: Enn fleiri sprungur eða gígar opnast og rennur hraunið í suðurátt frá þeim.
16. apríl: Hraun tekur að renna austur úr Geldingadölum. Um fjórðungur landsmanna hefur gert sér ferð að gosinu, um 90 þúsund manns.
19. apríl: Nyrsti gígurinn sem var öflugur rétt eftir páska er kulnaður. Hraunið þekur alls tæpa 0,9 ferkílómetra.
27. apríl: Flatarmál hrauns er 1,13 ferkílómetrar. Virkni mest í syðsta gígnum þar sem strókarnir ná allt að 50 metrum. Virkni í elstu samliggjandi gígunum nær engin.
4. maí: Virknin í þessum eina gíg gengur með hléum og er kröftug inn á milli. Hraun hefur þeyst meira en 200 metra í loft. Rignt hefur gjósku og eru hættur á hraunbombum. Hættusvæði var endurskilgreint.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

10. maí: Lokað var fyrir aðgengi að gosstöðvunum vegna gróðurelda og óhagstæðrar vindáttar. Hæstu strókar hafa náð um 460 metra sem er hærra en Empire State-byggingin.
11 maí: Hraunrennsli er tvöfalt öflugra en það hefur alla jafnan verið. Flatarmál er 1,8 ferkílómetrar (á við Elliðavatn) og hefur hraun fyllt Syðri-Meradal ( þó kallaður Nafnlausi dalurinn af sumum) suðaustur af gígnum.
14. maí: Hafist var handa að reisa varnargarða norður af Nátthaga til að hindra flæði hrauns niður dal í átt að Suðurstrandarvegi.
22. maí: Hraunið fór yfir eystri varnargarðanna og tók að flæða niður að Nátthaga.
1. júní: Hrauntungur ógna útsýnishólnum sem er nálægt gígnum og vestari varnargarðinum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – hraunmyndun.

4. júní: Hraunrennsli lokar fyrir Gónhól og vestari varnargarðar rofna. Stærð hraunsins er nær 3 ferkílómetrar.
10. júní: Virkni gossins hefur breyst. Í stað reglulegra gosstróka fossar stöðugt úr gígnum.
13. júní: Hrauntaumur rennur frá Geldingadölum og niður í Nátthaga og rýfur þar með gönguleið A.
18. júní: Hraun fyllir Nátthaga og nálgast haft suðvestan við hann. Hraunið nálgast Suðurstrandarveg. Ákveðið er að byggja ekki varnargarða til að vernda veginn. Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

26. júní: Varnargarður er byggður við suðvesturenda Nátthaga. Bandarískur ferðamaður týndist við gosstöðvarnar og sást síðast norður af Stóra Hrúti. Hann fannst meira en sólarhring seinna og hafði slasast og týnst. Gönguleið C meðfram Langahrygg er orðin aðalleiðin til að sjá gíginn.
7. júlí: Í byrjun júlí minnkaði virkni í gígnum og tók hann löng hlé. 7. júlí hafði verið hlé í nær 2 sólarhringa en loks sást í glóð í gígnum þó kvika ylli ekki upp úr honum.
23. júlí: Gosið hefur runnið í Meradali síðustu 3 vikur. Hraunflæði hefur minnkað og telur Magnús Tumi jarðeðlisfræðingur að gosið sé að fjara út á næstu vikum eða 2 mánuðum. Hraunið þekur 4 ferkílómetra.
16. ágúst: Nýr gígur opnast við hliðina á aðalgígnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

5. september: Rýkur úr gígnum en sést ekki í kviku. Gosið er í næstlengsta hléi frá upphafi.
11. september: Gosið heldur áfram en gosrás gígsins hafði verið stífluð. Hraun flæðir utan í gígnum eða í göngum.
15. september: Hraun tekur að flæða niður í Nátthaga úr mismunandi áttum úr hrauntjörn í Geldingadölum þar sem er yfirflæði. Svæðið á gönguleið A var rýmt og lokað tímabundið. Eldgosið er 6 mánaða og er gígurinn orðinn 334 metra hár.
14. október: Ekki hefur gosið í rúman mánuð eða frá 18. september. Rýkur þó úr gígnum. Flatarmál hrauns er tæpir 5 ferkílómetrar.
1. nóvember: Gosinu í Geldingadölum er formlega lokið. Leitarþyrst hellaáhugafólk þarf þó að bíða enn um stund til að geta metið og skoðað aðstæður í hrauninu.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

Á Vísindavef HÍ var spurt: Hversu stórt var gosið í Geldingadölum?
“Gos í Geldingadölum hófst 19. mars 2021 og tveimur mánuðum síðar, 17. maí, birtist á Vísindavefnum svar við spurningunni Er líklegt að gosið í Geldingadölum standi lengi? Í svarinu voru færð að því rök, byggt á gefnum forsendum, að ólíklegt væri að gosið yrði langvinnt eða hraunið rúmmálsmikið. Öll eru þessi hugtök – langt og stutt, lítið og stórt – afstæð og merkingarlítil án tiltekins viðmiðs. Því fylgir hér til samanburðar þríein tafla yfir lengd, rúmmál og afl 14 gosa þar sem þessir þættir eru þekktir eða áætlaðir. Töflunni er sem sagt raðað upp á þrjá vegu eftir vaxandi gildi hvers hinna þriggja þátta.
Samkvæmt töflunni hlýtur gosið í Geldingadölum að teljast nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld – aðeins Heklugosið 1947-48, Surtseyjargosið 1963-67 og Kröflueldar 1975-84 vöruðu lengur; Heklugosið 1980-81 mætti virðast lengra, en var í rauninni tvö stutt gos (3 og 7 dagar) með 7 mánaða hléi á milli og Kröflueldar voru röð smærri gosa með hléum á milli.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – megingígurinn.

Gosið í Geldingadölum telst nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld. Það er hins vegar neðarlega á lista yfir rúmmál gosefna og næstaftast á lista þar sem miðað er við meðalafl 14 þekktra gosa.

Hvað varðar rúmmál gosefna eru Geldingadalir neðarlega á lista, aðeins hraun flæðigosanna úr Öskju 1961, Heklu 1981 og Fimmvörðuhálsi 2010 eru minni. Og hvað meðalafl (m3/sek) gossins snertir voru Geldingadalir raunar næstaftastir á merinni – aðeins afl 7–daga flæðigoss Heklu 1981 var minna. Lágar tölur fyrir afl Kröfluelda og Heklu 1980-81 stafa af því að tímalengdin er talin frá upphafi eldsumbrotanna til enda.
Öflugustu gosin á listanum eru annars vegar flæðigosin miklu, Skaftáreldar 1783-84 og Holuhraun 2014-15, og hins vegar sprengigos, hrein (Hekla 1980) eða með „stuttum flæðigoshala“ (Hekla 1991 og 2000) – sprengihluti Heklu 1947 var gríðarlega öflugur en honum fylgdi langvarandi hraunflæði.
Samkvæmt þessu reyndist höfundur svarsins á Vísindavefnum 17. maí 2021 ekki sannspár um væntanlega lengd gossins í Geldingadölum, en um hin atriðin tvö – hvort gosið marki upphaf nýrra Reykjaneselda, og hvort gossprungurnar muni teygja sig langar leiðir – mun framtíðin ein eiga svör.”

Hér má sjá MYNDIR af eldgosinu í Geldingadölum.

Heimildir:
-https://www.ruv.is/frett/2021/03/18/eldgosid-i-geldingadolum-i-beinni-utsendingu
-https://is.wikipedia.org/wiki/Eldgosi%C3%B0_vi%C3%B0_Fagradalsfjall_2021
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=82586

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – fjölmargir lögðu leið sína að gosstöðvunum á meðan var.

Fagradalsfjall

Í ritvélarituðu verki Jóns Jónssonar, jarðfræðings, útgefnu af Orkustofnun  árið 1978, er gagnmerkt “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga og skýringar við þau”. Kortin, sem þar birtust, eru handunnin og einkar nákvæm – á þess tíma mælikvarða. Arfveri Orkustofnunar mætti gjarnan gefa út hin fjölmörgu nákvæmari jarðfræðiuppdráttarkort Jóns af Reykjanesskaganum, umfram það sem sjá má í framangreindu ritverki. Skrifari er minnugur þess að hafa villst í dimmri þoku ofan Geitahlíðar í leit að hraunhellum, en hafði í vasanum ljósprentað jarðfræðikort Jóns af svæðinu er gerði honum kleift að feta sig með merktum hraunjaðri úr þokunni niður í Sláttudal.
Hér verður lýst athugun jarðfræðingsins á nokkrum hraungosum í Fagradalsfjalli og nágrenni, allt frá forsögulegum tíma til aðdraganda núverandi hraungoss í fjallinu, sem ætti reyndar ekki að hafa komið á óvart.

Hraun í og við Fagradalsfjall

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Borgarhraun nefnist hraunfláki sá, er nær ofan frá suðurhlíðum Fagradalsfjalls að norðan og þekur allt svæðið milli Bleikhóls að vestan og Borgarfjalls að austan. Það hefur fallið í sjó fram vestan við Ísólfsskála og þar fram af hömrum, en ekki sér nú í það neðan við þá hamra. Hraun þetta er víða stórbrotið og á nokkrum stöðum í því eru gjár, sem tilheyra megin sprungukerfinu. Allt bendir til að hraunið sé nokkuð gamalt. Engir gígir sjást í þessu hrauni og er því ekki fyllilega ljóst hvar upptök þess eru.
Gígur allstór er sunnan í Fagradalsfjalli og líklegast að hraunið séð þaðan komið, þó ekki verið það fullyrt, því engar hrauntraðir tengja það við eldstöðina. Hins vegar er ljóst að þarna hefur gosið við fjallsrætur og ná gígmyndanirnar, gjall og hraunkleprar, upp á fjallsbrún. Hraunið er plagioklasdílótt og einstaka ólinvíndíl má og sjá í því. Hraunið nær yfir 3.22 km2 og mun því vera um 0.06 km3.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðfræðikort JJ.

Uppi á Fagradalsfjalli sunnanverðu hefur gosið (H-46). Það er stutt gígaröð á sprungum, sem stefna nærri beint norður-suður. Gígirnir eru litlir og að mestu úr hraunkleprum. Hraunið er þunnt. Það þekur dálítið svæði suðvestan á fjallinu og hefur fossað vestur af því niður í dalinn austan við kast og niður með því að norðan, þar er sprunga gegnum það og stefnir sú eins og sprungurnar á Fagradalsfjalli og raunar í austanverðu Dalahrauni líka. Hraunið hverfur svo undir Dalahraun, er niður á sléttuna kemur.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðfræðikort JJ. Dyngjan Þráinsskjöldur miðsvæðis.

Hraun (H-47) hefur komið úr sprungu samhliða Sundhnúkagígunum og því úr austasta hluta gígaraðar, sem nær nokkuð upp í vesturhlíð Þráinsskjaldar. Hraunið er afar gjallkennt og þunnt. Það hefur runnið norður á við og hverfur brátt undir yngri hraun. Gírgirnir eru lítt áberandi og mörk hraunsins fremur ógreinileg.

(H-48) er efsta hraunið í Fagradal og þekur dalbotninn að heita má. Undir því er annað eldra hraun, sem kemur fram í farvegi miðja vegu í dalnum. Það er picrithraun og vafalaust komið frá dyngju og hef ég sökum þess kennt það við dalinn, eins og áður er sagt. Gígir eru efst í dalnum milli Fagradalsfjalls og Þráinsskjaldarhrauna, en þau mynda raunar norðurbrún dalsins og er harla dularfullt hvers vegna þau hafa ekki runnið alveg upp að fjallinu á þessum stað, heldur mynda allhá og skarpa brún norðan hans. Ætla verður að hraunið sé komið úr gígunum efst í dalnum, en ekki er sambandið greinilegt. Hraunið hverfur í dalnum undir framburð úr læknum, sem í vorleysingum fellur þarna niður og svo undir yngri hraun.

(H-49) og (H-50) eru bæði ofan við Fagradal og lítið af þeim sýnlegt nema gígirnir, sem eru mikið veðraðir og fornlegir. Samtals ná þessi hraun ekki yfir nema um 0.7 km2 og eru varla nema 0.0004 km3.

Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsdfjalli.

Norðan á Fagradals-Vatnsfelli eru eldvörp allstór (H-51). Hraun frá þeim þekur suðurhluta fjallsins og hefur fallið vestur af því. Uppi á fjallinu og utan í því er það örþunnt nema rétt við gígina. Smágígur er vestan í fjallinu neðarlega í hlíð. Hraun þetta hverfur undir Þráinsskjaldarhraun og er því eldra en það. Aðalgígirnir eru þrí í röð með stefnu norðaustur-suðvestur og er sá nyrsti þeirra opinn móti norðri. Virðist líklegt að þaðan hafi aðal hraunrennslið verið, en eins og áður er sagt er ekki vitað um stærð þess hrauns, sem þar átti upptök.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.

(H-52) er gjallgígaröð, sem liggur um þvert sundið milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Hún er að mestu fær í kafi af hraunum frá Þráinsskildi og frá lítilli dyngju þar suður af.

(H-53) er örlítil og fornleg hraunspýja norðaustan í Fagradasfjalli ofan við Meradali. Hraunið er sums staðar svo þunnt að utan í brekkunni hangir það ekki lengur saman og mjög hefur veðrunin unnið á því.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

(H-54) er hraun, sem hefur runnið niður í dalinn vestan við Höfða og er án efa komið af svæðinu milli Sandfells og Vesturháls. Það hefur fallið vestur sundið milli Höfða og Sandfells, en er það að heita má hulið yngra hrauni. Það sést svo ekki fyrr en í dalnum sunnanverðum, þar sem það kemur fram undan ygra hrauni. Loks fellur það í þrem smáum hraunfossum fram af fjallinu suður af Méltunnuklifi og austan við Skála-Mælifell. Það hverfur strax undir yngri hraun, er niður á sléttuna kemur. Eldstöðin, sem þetta hraun er úr, sést nú ekki, en hún er án efa á sömu slóðum og gígaröðin, sem yngsta hraunið í dalnum er komið frá, en verlegur aldursmunur virðist era á þessum hraunum.

Höfði

Höfðahrauntröð.

Höfðahraun kemur úr Höfðagígunum, sem eru stutt gígaröð austan í móbergs-bólstrabergs hrygg, sem nefndur er Höfði, hraunið þar austur af milli Höfða og Núpshlíðarháls. Þessa leið hafa hraun runnið, sem þekja allt svæðið með sjó fram frá mynni þessa dals all vestur að Ísólfsskála. greinilegt er, að á allstóru svæði hefur þetta hraun runnið í sjó út, t.d. á svæðinu milli Ræningjagjögurs og Veiðibjöllunefns og má telja víst að hraunið hafi þarna bætt allverulegri sneið við landið. Skammt eitt austan við Ísólfsskála má sjá fornan malarkamb uppi í hrauninu og skammt þar frá votta fyrir gervigígum. Þessi hraunfláki allur er án nokkurs efa kominn af svæðinu vestan við Núpshlíðarháls, en að hvað miklu leyti það er í Höfðagígum komið, gígunum við þjóðveginn fremst í dalnum, sem nefndir eru Moshólar, eða öðrum eldstöðvum, sem nú eru huldar yngri hraunum, skal að svo komnu máli ekki fullyrt um. Moshólar eru fremst í dalnum og liggur þjóðvegurinn milli þeirra. Hrauntraðir allstórar liggja frá syðsta gígnum ái átt til sjávar. Svo virðist sem Höfðahraun hafi klofnað á þessum gígum og sé því eitthvað yngra en þeir. Hins vegar er hugsanlegt að gosið því nær samtímsis á báðum þessum stöðum.

Méltunnuklif - misgengi

Méltunnuklif – misgengi.

Misgengi það, er liggur um Höfða vestanverðan og myndar stallinn Méltunnuklif, brýtur hraunið þar suður af og er sigið austan megin. Bendir þetta til að hraunflákinn sé allgamall.”

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 149-153.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

Portfolio Items