Færslur

Slaga

Í Morgunblaðinu 1991 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur m.a. um “Fagradalsfjall og Slögu ofan Ísólfsskála“.

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

“Næstkomandi sunnudag verður farinn þriðji áfangi raðgöngu Ferðafélagsins um gosbeltið suðvestanlands. Brottför verður frá Umferðarmiðstöðinni, austanmegin, kl. 10.30 og 13. Hér á eftir er stiklað á stóru í jarðfræði þess svæðis sem farið verður um. Sé gengið frá Bláa lóninu austur yfir, má fara hvort heldur vill norðan Svartengisfells eða suður yfir Selháls og austur eftir hraununum þar fyrir sunnan og austan.

Slaga

Slaga.

Hvor leiðin sem farin er verður gengið þvert yfir gígaröðina, sem Slaga er, þar gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hlíðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil. Á háfellinu er myndarlegur gígur og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.

Vatnsheiði

Vatnsstæðið í Vatnsheiði.

Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraunskildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau. Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.

Fagradalsfjall

Gígurinn í Fagradalsdfjalli.

Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður).

Slaga

Slaga – berggangur.

Slaga. Sunnanfrá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað). Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið.
Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.” – Höfundur er jarðfræðingur.

Heimild:
-Morgunblaðið, 98. tbl. 03.05.1991, Slaga, Jón Jónsson, bls. 25.

Slaga

Slaga.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er margbrotið fjall norðaustan Grindavíkur, stærsti stapinn á svæðinu. Örnefni í Fagradalsfjalli má t.d. nefna Langhól, efstu bungu fjallsins í norðri. Auðveldasta uppgangan á hann er upp af Görninni í suðvestanverðu fjallinu. Þaðan er þægilegu aflíðandi gangur á hólinn.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

Fagurt útsýni er af Langhól yfir allt til höfuðborgarsvæðisins. Þá má nefna Geldingadal þar sem “dys” Ísólfs er að finna. Stóri-hrútur er í austanverðu fjallinu, keilulagaður stapi, og Borgarfjall er í því sunnanverðu. Kastið vestan í Fagradalsfjalli er sögustaður flugvélaflaks úr Seinni Heimstyrjöldinni, líkt og Langihryggur autan í því sem og Langóllinn fyrrnefndi. Fagridalur, sem fjallið tekur nafn sitt af er undir því norðvestanverðu. Þar hvílir Dalsselið, selstaða frá Þórkötlustöðum. Skammt ofar og austar er mikilfenglegur, þverskorinn, gígur fjallsins í Kálffelli. Samnefnt fell er einnig skammt norðvestar.

Í Náttúrufræðingnum árið 2011 er fjallað um jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall í maí 2009.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Árið 2009 var rólegt á skjálftasviðinu. Mestu skjálftar ársins urðu í allsnarpri skjálftahrinu við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Forskjálftavirkni hófst um kl. 17 þann 29. maí, en meginskjálftinn, 4,7 stig, varð kl. 21:33 sama kvöld.

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Upptök hans voru við vestanvert Fagradalsfjall. Hann fannst víða um suðvestanvert landið, vestur í Búðardal og austur að Hvolsvelli og olli meira aðsegja grjóthruni í Esju, eins og nefnt er í kaflanum um skriðuföll. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið, sá stærsti kl. 13:35 daginn eftir með upptök við norðanvert fjallið. Hann var 4,3 stig og fannst einnig víða. Alls mældust um 2000 skjálftar í hrinunni sem gengin var um garð fyrir mánaðamótin.

Í Náttúrufræðingnum 1966 fjallar Guðmundur Kjartansson um “Stapakenninguna og Surtsey“. Fagradalsfjall er vestastur stapa landsins.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

Á þremur stórum svæðum Íslands er berggrunnurinn að mjög miklu leyti úr móbergi og allur myndaður af eldgosum seint á ísöld, einkum síðasta jökulskeiðinu. Þetta eru móbergssvæði Norðurlands, Miðsuðurlands og Suðvesturlands. Þau eru öll fjöllótt, og fjöllin, sem eru úr móbergi með mismiklu ívafi af bólstrabergi, eru tvenns konar að gerð: flest hryggir, en sum stapar.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli.

Svo er um þessa fjallgerð, stapana, sem aðrar „gerðir”, að hún bendir til sameiginlegs uppruna einstaklinganna, sem til hennar teljast. Uppruni stapanna hefur verið skýrður á þrjá allólíka vegu:

Fjallið eina

Fjallið eina – stapi.

1. Rofkenningin: Fjöllin hafa meitlazt fram við gröft vatna, jökla eða jafnvel sjávar úr víðáttumiklu hálendi, sem var h. u. b. jafnhátt og brúnir fjallanna eru nú.
2. Misgengis- eða höggunarkenningin: Fjöllin eru ris (horstar), þ.e. misgengnar jarðskorpuspildur, og fylgja misgengissprungurnar hlíðum þeirra allt í kring.
3. Upphleðslukenningin: Fjöllin hafa hlaðizt upp í eldgosum og fremur lítið breytzt síðan að stærð eða lögun.
Fyrstu áratugi þessarar aldar voru mjög skiptar skoðanir meðal jarðfræðinga um það, hver þessara kenninga ætti helzt við ummyndun íslenzku stapanna. — Þeir Þorvaldur Thoroddsen og Helgi Pjeturss létu þetta deilumál lítið til sín taka, enda var viðhorf þeirra fremur hlutlaust. Báðir lýsa stöpunum sem eldfjallarústum, þeir hafi hlaðizt upp í eldgosum, en síðan bæði haggazt og rofizt, svo að hin upphaflega eldfjallslögun er nú farin út um þúfur (Þorv. Thoroddsen 1906 og Helgi Pjeturss 1910).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Í Faxa árið 1984 er fjallað um fjöllin ofan Grindavíkur, þ.á.m. Fagradalsfjall.

Jón Jónsson, jarðfræðingur hefur varið mörgum árum til rannsókna á Reykjanesskaga. En furðu hljótt hefur þó verið um þær rannsóknir hans og lítt verið minnst á þær hér í Faxa.
1978 gaf Jón út fjölritað rit um rannsóknir sínar. Trúlega er það nú í fárra höndum. En mjög er æskilegt að hann gefi það síðar út á prenti, svo að flestir eigi aðgang að þeim upplýsingum, sem þar eru. Hér verða birtir örstuttir kaflar úr riti Jóns, sem fjalla um fjöllin á skaganum næst okkur: Þorbjarnarfell, Lágafell, Hagafell, Sýlingafell, Skógfellin, Fagradalsfjall og Keili.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn). Misgengi gengur í gegnum fellið.

Þorbjarnarfell (243 m) vekur athygli fyrst og fremst af því hvað það er mikið brotið og verður að því nánar vikið síðar. Fellið er úr bólstrabergi og móbergsþursa með bólstrum á víð og dreif, en lítið er um blágrýtisæðar í því það séð verður og hraun eru þar engin. Bergið í fellinu hefur ekki verið athugað nánar. Að norðaustan er það mjög ummyndað af jarðhita. Þorbjarnarfell hefur án efa myndast við gos undir ís meðan jöklar huldu landið. Vestur úr Þorbjarnarfelli gengur hæðarbunga, sem Lágafell heitir. Það er forn eldstöð, líklega frá því seint á síðasta jökulskeiði. Ennþá sér fyrir hrauni og nokkrum gígum kringum hann ásamt gjalli, en engin merki sjást til þess að jökull hafi gengið þar yfir.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Lágafell virðist vera yngra en Þorbjarnarfell. Norðaustur af Þorbjarnarfelli liggur Selás og tengir það við Hagafell og Svartsengisfell. Þessi fell eru að langmestu leyti úr bólstrabergi og kemur það sérstaklega vel fram í Gálgaklettum í Hagafelli, en þeir eru misgengi, sem brýtur fellið um þvert. Stór björg hafa losnað og hrapað ofan á hraunið. Er þar þægilegt að grannskoða bólstraberg.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan undir Gálgaklettum er svæðið þakið hraunum upp að Svartsengisfelli (206 m), sem svo er nefnt af Grindvíkingum, en á kortinu er það nefnt Sýlingafell og mun það hafa verið málvenja í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Hið neðra Svartsengisfell að mestu úr bólstrabergi og þursa en efst á því er gígur allstór eða raunar öllu heldur tveir samhangandi gígir og grágrýtishraun kringum þá.

Sýlingarfell

Sýlingarfell. Svartsengi t.h. og Þorbjörn t.v.

Fjallið er sennilega byggt sem stapi og mjög unglegt, hefur sennilega verið virkt seint á síðasta jökulskeiði. Vestan í fjallinu eru gosmyndanir, sem samanstanda af ösku og vikri, og hefur það efni verið unnið um árabil, og er svo enn. Sú myndun hverfur inn undir fellið sjálft. Misgengissprunga liggur um fellið þvert með stefnu norðaustur-suðvestur og ummyndun eftir jarðhita er þar mikil enda er virkur jarðhiti (háhiti) við rætur fjallsins. Ummyndunina má rekja um norðanverðan Selháls yfir í Þorbjarnarfell eins og áður var drepið á. Tengist þessi ummyndun jarðhitasvæðinu Svartsengi. (Bls. 31-32).

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Stóra-Skógfell (188m) er um 1,5 km austur af Svartsengisfelli. Það er algjörlega úr bólstrabergi. Litla-Skógfell er um 3 km austar og einnig það er úr bólstrabergi, en ólíkt er það berginu í Stóra-Skógfelli. (Bls. 32).

Fagradalsfjall

Flugvélaflak í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjall (385 m) er byggt upp sem stapi, hið neðra úr bólstrabergi, brotabergi og túffi, en með hettur úr grágrýti. Líta verður á f jallið sem dyngju og er gígurinn nyrst í fjallinu.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir 2020.

Fagradalsfjall hefur að mestu leyti byggst upp undir ís og virðist ekki ólíklegt að jökull hafi legið að því norðaustanverðu fram til þess að eldvirkni hætti. Mætti ætla að jökull hafi legið umhverfis það, þegar grágrýtishraun, sem þekja það, runnu, en þau eru frá áðurnefndum gíg komin og hafa runnið til suðurs og suðvesturs en ekki norðurs. Norðurendi fjallsins er úr móbergsbrotabergi allt frá toppgígnum og niður úr svo langt sem sér. Í gíg Fagradalsfjalls er ennþá grágrýtishraun. (Bls. 34-35).
Til skýringar fyrir þá sem ekki þekkja Fagradalsfjall, skal þess getið, að það er aflangt, ekki ólíkt hval í laginu, séð frá Keflavík. Er gígurinn í þeim hluta fjallsins sem fjær veit bænum. Skógfellin eru á vinstri hönd úti í hrauninu þegar ekið er til Grindvíkur.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin ofan Soga. Keilir fjær, Spákonuvatn t.h.

Keilir (379 m) er frægastur fjalla á Reykjanesskaga. Norðaustan við hann eru þrír hnúkar, sem nefndir eru Keilisbörn. Þeir eru úr lagaskiptu móbergstúffi og raunar er það sumsstaðar í Keili sjálfum að neðanverðu. Í þessu túffi má víða finna báruför, sem sýna að efni þetta hefur sest til í vatni. Útlit þeirra bendir til að um grunnt vatn hafi verið að ræða.

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Milli Keilis og Keilisbarna er hringlaga dalur. Víða má sjá að túfflögum hallar inn að þessum dal. Grágrýti er í toppum á Keili og sums staðar utan í honum virðist það koma fram og gæti það verið berggangur. Sennilega er þetta hraun í gosrás fjallsins því ekki er að efa að Keilir er eldstöð frá jökultíma.”

Sjá meira um jarðfræði Fagradalsfjalls HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, Náttúrfarsallnáll 2009, 3.-4. tbl. 2011, bls. 166.
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1966, Stapakenningin oog Surtsey, Guðmundur Kjartansson, bls. 2-4.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1984, Úr flæðamálinu, bls. 88.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Keilir

Sesselja Guðmundsdóttir skrifar um Keili og nágrenni í bók hennar um “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Rétt er að rifja upp að gefnum ástæðum, nú þegar það allt virðist vera að fara á hvolf, a.m.k. skv. umfjöllun fjölmiðla að undanförnu, þrátt fyrir aðrar slíkar þar í gegnum aldirnar. Starfsfólk Veðurstofunnar virðist hafa fengið ný tæki, sem það hefur límt augu sín við – teljandi skjálfta út og suður, án þess að við hin séum nokkurs nærri hvers er að vænta…
Svæðið, sem um er fjallað, geymir ekki einungis dýrmætar jarðminjar frá fyrri jarðsögutímabilum, heldur og miklar menningarminjar, sem flestum “talningarvísindamönnunum” hversdagsins virðast vera með öllu ómeðvitaðar…

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

“Frá Vestra-Lambafelli höldum við yfir svolítið hraunhaft og komum að Eldborg eða Katli en síðara nafnið er að finna í heimild frá Hvassahrauni. Eldborgin var fallega lagaður gígur um 20 m hár með djúpa og gróna gígskál. Borgin var á náttúruminjaskrá en er þar ekki lengur. Mikið efni hefur verið tekið úr gígnum allt frá því vegur var lagður þarna upp eftir og fram til dagsins í dag. Framkvæmdir við tilraunaborholur á svæðinu hafa tekið sinn toll úr Eldborg og er borgin nú sorglegt merki um aðför að náttúrugersemum. Jarðhiti er í og við borgina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: „Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svœði og sennilega hið síðasta. Það er yngra en Afstapahraun …” (Jarðfrœðikort af Reykjanesskaga, bls. 170). Hraunið er frá sögulegum tíma eins og fyrr segir.
Eldborgarhraun sem þekur tæplega fimm ferkílómetra rann upp að Lambafellum og síðan áfram norður og niður úr. Hraunið liggur m.a. að Mosum, Snókafelli og Sóleyjakrika (sjá síðar). Sumir kalla fyrrnefnt hraun Lambafellshraun en líklega er réttara að kenna það við Eldborgina sem það kom úr.
Trölladyngja (375 m) heitir vestari hnúkurinn og Grænadyngja (402 m) heitir sá eystri. Í fjallinu hefur fundist silfurberg.

Sesselja Guðmundsdóttir

Sesselja Guðmundsdóttir.

Milli Dyngna er skarð sem skipt er þversum aflágum hálsi og heitir hann líklega Söðull. Örnefnið Folaldadalir eða Folaldadalur hefur heyrst og þá notað um skarðið sjálft en þetta örnefni er einnig á Austurhálsinum. Þarna gæti verið um staðarugling að ræða eða þá hitt að sama örnefnið sé til á báðum hálsunum. Góð uppganga er um grasi grónar brekkur á báða hnúkana úr skarðinu.

Þegar upp er komið sjáum við vítt yfir, sérstaklega þó af Grænudyngju sem ber nafnið með sóma enda hnúkurinn grasi gróinn til efstu hjalla.

Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani og utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Jónsbrennur heitir hitasvæðið suður og vestur af Eldborg og þar sjáum við töluverða gufu á nokkru svæði. Ekki er vitað frá hvaða manni nafnið er komið. Menjar um gamla tilraunaborholu frá Orkustofnun má sjá ofan Jónsbrenna, fast við norðurrætur Trölladyngju.

Grænadyngja

Grænadyngja. Trölladyngja t.v. Sogin framar.

Næst förum við yfir Höskuldarvelli en það eru stórir vellir fast við vesturrætur Trölladyngju. Vellirnir eru rúmlega kílómetri að lengd en tæpur á breidd. Þeir urðu til við leirframburð Sogalækjar sem kemur úr hitasvæðinu Sogum (sjá síðar) og rennur norður um vellina.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

Ekki er vitað við hvaða mann vellirnir eru kenndir en líklega er þetta ævagamalt örnefni.
Sóleyjakriki heitir nyrsti endi vallanna þar sem graslendið teygir sig inn á milli hraunveggjanna langleiðina norður að Snókafelli (147 m). Fellið er landamerkjapunktur Vatnsleysu og Hvassahrauns. Samkvæmt orðabók merkir snókur fjallstindur eða klettastrýta og einnig rani eða tota. Fellið er umkringt hrauni á alla vegu en auðveldast er að komast að því um fjárgötu frá botni Sóleyjakrika. Eldborgarhraun liggur að krikanum að austanverðu en Afstapahraun að honum vestanverðum. Fast vestan við krikann liggur Höskuldarvallavegur sem fyrr er nefndur. Sogalækur hverfur niður í hraunið í Sóleyjakrika og þornar reyndar oftast upp á sumrin á miðjum Höskuldarvöllum.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki. Höskuldarvellir nær.

Á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarðinn og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um fjöllin allt austur í Olfus. Vesturslóðir hreindýranna voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860-70 sáust, líklega á Höskuldarvöllum, um 35 dýr.

Hreindýr

Hreindýrshorn við Hjartartröð ofan Hafnarfjarðar.

Um aldamótin, eða þegar loks voru sett á lög um algjöra friðun, voru hreindýrin hér í fjöllunum útdauð og þá líklega vegna ofveiði enda veidd án takmarkana eða eftirlits í 33 ár.
Við vesturjaðar Höskuldarvalla er Oddafell sem Þorvaldur Thoroddsen kallar Fjallið eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega er um nafnarugling að ræða hjá Þorvaldi því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur. Oddafell er lágt (210 m) en um þriggja kílómetra langt og í austurhlíðum þess, nokkuð sunnarlega, er jarðhiti.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Næst skoðum við tóftirnar af Oddafellsseli sem var frá Minni-Vatnsleysu en það liggur í vesturrótum fellsins skammt fyrir sunnan Höskuldarvallastíg (sjá síðar) þar sem hann beygir út í apalhraunið til vesturs. Þar sjást tvær-þrjár tóftir og einnig kvíahleðslur í hraunjaðrinum rétt sunnan við selið.
Keilir (378 m) er einkennisfjall Reykjanesskagans og fyrrum víðfrægt mið af sjó. Eftirfarandi vísa um Keili er eftir Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi.

Keilir fríður kennast skal,
knappt þó skrýði runnur,
fagran prýðir fjallasal
fyrr og síðar kunnur.
Þekkti ég siðinn þann afsjón
þekkan liði drengja
Keilir við um flyðrufrón
fiskimiðin tengja.
Sæfarendur reyna rétt
rata’ að lending heilir;
til að benda’ á takmark sett
tryggur stendur Keilir.

Keilir

Keilir. Rauðhólar nær.

Í lýsingu Kálfatjarnarsóknar frá árinu 1840 eftir séra Pétur Jónsson segir að sjófarendur kalli Keili Sykurtopp. Þetta er líklega samlíking við keilulöguð sykurstykki sem menn kölluðu sykurtoppa og voru á markaðnum áður en strásykur kom til sögunnar. Til gamans má geta þess að fjallið sem krýnir innsiglinguna í Rio de Janeiro í Brasilíu heitir Sykurtoppur en það fjall líkist ekki beint „Sykurtoppnum“ okkar. Einnig er til jökulfjall nálægt Syðri-Straumfirði á Grænlandi sem heitir Sykurtoppur.

Keilir

Keilir – séður frá Sogum.

Keilir varð til við gos undir jökli og strýtumynduð lögunin kemur til af gígtappa í honum miðjum sem ver hann veðrun. Fjallið er tiltölulega auðvelt uppgöngu og við pjökkum upp öxlina að austanverðu þar sem þúsundir fóta hafa markað leiðina. Nokkuð ofarlega í Keili er smá torfæra með klungri en stutt þaðan á toppinn. Á hverju ári koma nokkur hundruð manns á Keilistopp og pára nöfn sín í gestabók sem þar er. Það er víðsýnt af Keili og útsýn tilkomumikil til allra átta. Keilir, Höskuldarvellirnir og næsta nágrenni þessara örnefna eru á náttúruminjaskrá.

Oddafellsel

Oddafellssel.

Norðvestan undir Keili eru þrír móbergsstabbar og heitir sá nyrsti Hrafnafell (142 m) og er fellið nefnt í gömlum landamerkjalýsingum. Fellið dregur nafn af hrafnslaupi sem þar var og enn sjást merki um. Stabbarnir hafa verið kallaðir Keilisbörn og virðist það örnefni vera að festast í sessi. Það nafn var ekki notað af heimamönnum fyrrum.
Þorvaldur Thoroddsen notar örnefnið Keilisbörn yfir sömu hnúka í lýsingu sinni og það er einnig á landakorti frá árinu 1910. Á korti Fandmælinga Islands frá árinu 1989 heitir öxl Keilis Hrafnafell sem er jafnrangt. Skilyrðislaust ættu þau örnefni sem eigendur landsins notuðu og fmnast í gömlum landamerkjalýsingum alltaf að vera gildust á kort.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Í sandhólunum vestur af Keili eru þrjú tófugreni sem kölluð eru Keilisgrenin.
Við austanvert Hrafnafell komu saman a.m.k. tveir stígar frá byggð. Þórustaðastígur er annar þeirra og liggur sá frá Kálfatjarnarhverfi upp heiðina yfir Vesturháls og allt til Vigdísarvalla. Hinn lá upp frá Kúagerði vestan við Afstapahraunið og upp undir Keili, við hann sjást vörðubrot á stöku stað.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Rauðhólsselsstígur lá frá Vatnsleysubæjum og í fyrstu útgáfu þessarar bókar er það nafin sett á götuna upp með Afstapahraunsjaðrinum frá Kúagerði en það er líklega rangt. Trúlega hefur selstígurinn legið beint frá bæ upp í selið eins og aðrar slíkir í hreppnum, ekki er vel ljóst hvar hann lá en þó hafa fundist ummerki um hann, t.d. fyrir neðan Kolhóla. Fólk frá Minni-Vatnsleysu sem nýtti selstöðu við Oddafell hefur líklega einnig notað Rauðhólsselstíginn upp undir það sel en haldið síðan áfram um nú nafnlausa götu upp heiðina og yfir í Oddafellssel. Leiðin upp frá Kúagerði virðist koma inn á Þórustaðastíginn á milli Grindavíkurgjár og Stóra-Kolhóls (Kolhóls) en þar hafa nýlega fundist einhver gatnamót.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur.

Á korti frá 1936 sést Þórustaðastígur og gatan frá Kúagerði koma saman nokkru norðan Keilis sem stenst miðað við gatnamótin fyrrnefndu. Það er augljóst að töluverð umferð manna hefur verið fyrrum á þessum slóðum, vermenn, fólk á leið til og frá verslunarstöðum, t.d. Straumsvík og Vatnsleysu, fólk að sækja eldivið, fara til og frá seljum o.fl. Af heiðinni yfir hraunið að Oddafelli heitir svo Höskuldarvallastígur eða Oddafellsstígur og var sá notaður fyrrum af selfólki úr Sogaseli (sjá hér á eftir) og Oddafellsseli.
Nú á tímum er hluti hins upprunalega Höskuldarvallastígs genginn af fólki sem fer á Keili. Til þess að finna upphaf núverandi slóða við Oddafell göngum við spölkorn suður með vesturhlíð fellsins þangað til við komum á stíginn sem er mjög greinilegur þar sem hann liggur yfir 7-800 m breitt Höskuldarvallahraun en það liggur milli Oddafells og heiðarinnar austan Keilis.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar.

Á seinni tímum hefur gatan færst sunnar í heiðina og liggur nú að uppgöngunni á fjallið. Gamla selgatan er ekki sjáanleg lengur þarna á háheiðinni en þegar komið er spöl inn í hraunið greinist hún fljótlega út úr núverandi Höskuldarvallastíg og stefnir á selstæðið undir Oddafelli.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Á uppdrættinum frá árinu 1831 eftir Björn Gunnlaugsson er merkt gata frá Breiðagerði og upp heiðina. Sú gata er sett inn á kortið sunnan Keilis að Driffelli og svo áfram sömu leið og Þórustaðastígur. Í fyrstu taldi ég að Björn hefði merkt Þórustaðastíginn rangt inn á kortið (þ.e. sett hann sunnan við Keili) en nú hefur komið í ljós nokkuð glögg vörðuröð, en óljós gata, þarna niður heiðina sunnan og vestan Keilis í átt að Knarrarnesseli. Leiðin er sérkennilega vörðuð með „lykilvörðum“ á áberandi stöðum með löngu millibili en á milli þeirra litlar „þrísteinavörður“. Sumstaðar þar sem „lykilvörðurnar“ eru sjást eins konar hlið á götunni, þ.e. lítil varða andspænis þeirri stóru og nokkrir metrar í millum. Gatan endar að því er virðist við Knarrarnessel þannig að þeir sem notuðu götuna hafa svo haldið áfram selstíginn en sá er óvarðaður að mestu.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Á síðustu öld fóru bændur úr Brunnastaða-, Ásláksstaða- og Knarrarneshverfi með hrossastóðið til beitar í Fjallið þessa leið en þeir sem innar bjuggu á Ströndinni notuðu Þórustaðastíg. Þessi gata sem og Þórustaðastígur hafa ólíklega verið þjóðleiðir fyrrum heldur eingöngu notaðar af hreppsfólki.

Keilir

Litli-Hrútur; eldgos 2023. Keilir t.v.

Nokkurn spöl suðvestur af Keili, u.þ.b. tvo km, er lítil útgáfa af Keili sem heitir Nyrðri-Keilisbróðir og er annar Keilisbræðra. Þessi „bróðir“ er nefndur í landamerkjabréfum Knarrarness og Breiðagerðis frá árinu 1886.
Heimamenn hafa einnig notað nafnið Litli-Hrútur yfir þennan hnúk, þó sérstaklega í seinni tíð. Grindvíkingar nota örnefnið Litli-Keilir þannig að hnúkurinn ber í raun þrjú nöfn. Yngra fólk hér í hrepp er einnig farið að nota nafnið Litli-Keilir enda er hnúkurinn nefndur svo á mörgum kortum Landmælinga Íslands og gætir þar greinilega áhrifa frá Grindvíkingum. Fyrir neðan Nyrðri-Keilisbróður er Hjálmarsgreni í Hábrúnum en það eru hæstu hjallar gömlu hraundyngjunnar Þráinsskjaldar sem við förum um á eftir.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Nú færum við okkur upp fyrir Oddafell og Höskuldarvelli. Milli Trölladyngju og vallanna lá jeppaslóði fyrrum sem nú er orðinn fólksbílafær með rilkomu rannsóknaborana sem gerðar hafa verið sunnan Höskuldarvalla og við Sogalækinn uppi í hálsinum.

Sog

Sogadalur – Keilir framundan.

Vegurinn liggur upp gjallbrekku sem heitir Sogamelar. Þarna hafa orðið töluverð spjöll og breytingar á annars fallegu landi síðustu árin vegna tilraunanna.
Við höldum upp brekkuna og fylgjum Sogalæknum spöl inn í dalverpi sem heitir Sogaselsdalur eða Sogadalur. Þarna á vinstri hönd er stór gamall gígur sem heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur og snýr hann opi til suðurs. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabeltum og mynda veggirnir því gott aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Margar kofatóftir eru innst í gígnum og kví undir vestari hamraveggnum.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Frá Sogaseli förum við í Sogin, djúp gil sem greina Dyngjurnar frá fjöllunum sunnan til og liggja þau þvert um hálsinn. Á leiðinni sjáum við lítinn leirhver nokkuð hátt uppi í grasbrekku handan við Sogalækinn, skammt fyrir ofan efra borplanið. Fyrir neðan brekkuna eru nokkrir djúpir smágígar.

Sogin

Sogadalur – borplan.

Sogin eru 150-200 m djúp litrík leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Frá Sogum er auðveld uppganga á Grænudyngju. Göngufólk ætti að forðast í lengstu lög að ganga í leirnum þarna því hann hleðst undir grófmunstraða skósólana eins og steypa.
Á hálsinum suður og vestur af Sogum er Spákonuvatn og í misgengi rétt vestur afþví er minna vatn og til eru heimildir um Spákonuvötn og þá Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn. Heimild er einnig til um Spákonudali og er þá átt við lægðirnar sem vötnin eru í. Þorvaldur Th. nefnir ekki Spákonuvatn en segir umrætt vatn heita Grænavatn og lýsir ítarlega gígafjöldanum sem liggur niður af vatninu til vesturs. Á landakorti frá árinu 1910 er það sama uppi á teningnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn, sem er stærra er Spákonuvatn, er til þarna á miðjum Vesturhálsi suður af Spákonuvatni og var fyrst sett inn á kort Landmælinga Íslands árið 1936. Vatnið er líklega í Krýsuvíkurlandi og því ekki talið með örnefnum í hrepps landinu. Stangveiðifélag Hafnarfjarðar hefur gert tilraunir með fiskirækt í Grænavatni.
Suður afSpákonuvatni förum við um móbergshryggi og stapa og hæst ber hvassa tinda sem heita Grænavatnseggjar (332 m). Eggjarnar eru nefndar í landamerkjalýsingu Þórustaða frá 1886.

Ofan og sunnan við Grænavatnseggjar er svo Grænavatn sem fyrr er nefnt.
Af Grænavatnseggjum höldum við svo niður á jafnsléttu aftur og að syðri enda Oddafells en spöl suður af honum er Hverinn eini sem nú er nánast útdauður.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Hverinn var sá stærsti á Reykjanesskaga fyrir aldamótin síðustu og árið 1888 þegar Þorvaldur Th. ferðaðist um svæðið segir hann hverskálina um 14 fet í þvermál: „… það er sjóðandi leirhver … Í góðu veðri sést gufustrókurinn úrþessum hver langt í burtu, t.d. glögglega frá Reykjavík.“

(Ferðabók I, bls. 181). Upp úr aldamótunum fór hvernum að hraka og árið 1930 var hann aðeins volg tjörn (frásögn heimamanns). Nú er þarna stórt hverahrúðurssvæði með smá dæld í miðið en aðeins til hliðar við það er lítið brennisteinsgufuauga í holu milli steina og á nokkrum stöðum umhverfis stíga daufir strókar til lofts.

Hverinn eini

Hverinn eini – brennisteinn.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir: „Hver þessi er kringlóttur og allstór, 7 álnir [1 alin = ca 57 cm] /þvermál og 4 álna djúpur, en nafnið ber aðeins einn hver, hinn stærsti af allmörgum heitum hverum og uppgönguaugum, sem liggja þar í þyrpingu … Hverinn eini ber nafn af því, að hann liggur einn út af fyrir sig.“ Og einnig: „Eitthvert fegursta bergið, sem jarðeldurinn á Suðurlandi hefir eftir sig látið, er lagskiptur, bráðinn sandsteinn. Það af honum, sem við fundum hjá Hvernum eina, er dálítið sérkennilegt tilbrigði.“ Menn segja einnig að „eini“ þýði sá frábæri eða einstaki.

Sagnir eru til um Útilegumannahelli nálægt Hvernum eina og í Vallaannál frá árinu 1703 segir: „… á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér hœli undir skúta nokkrum, … Leizt þeim þá eigi að vera þar lengur, og fóru norður aptur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan 3 vikur, og tóku 3 sauði þar í hálsunum, ræntu einnig ferðamann, …”.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eins og sést er hverinn þarna nefndur Einir en það nafn sést ekki í öðrum heimildum og gæti verið misritun. Töluverð leit hefur verið gerð að hellinum en án árangurs. Samkvæmt munnmælum er hann lítill og ómerkilegur og sagt er að yfir opið hafi verið lögð hella til þess að forða fé frá því að lenda ofan í honum.

Driffell

Driffell.

Vestur af syðri enda Oddafells er fell úti í hrauninu sem heitir Driffell (254 m). Í fellinu finnst silfurberg og holufyllingar eru þar nokkuð áberandi. Við Driffell að austan og norðan liggur Þórustaðastígur en um hann var féð rekið úr fjallinu á haustin og eins var hestastóð rekið vor og haust um sama veg eins og komið hefur fram. Eins og fyrr segir liggur stígurinn frá Ströndinni upp alla heiðina, fram hjá Hrafnafelli, Keili og Driffelli og síðan upp og yfir hálsinn að Vigdísarvöllum. Þegar farið er um Þórustaðastíg á þessum slóðum þarf aðeins að fara yfir einn apalhrauntaum og liggur sá við Driffell að sunnanverðu.
Melhóll heitir hóll við Þórustaðastíg og stendur hann fast við hraunjaðarinn sem snýr að Keili. Hóllinn er mitt á milli Driffells og Keilis og á gömlum fjallskilaseðlum var mönnum gert að hittast á Melhól og þar var leitum síðan skipt. Nálægt Melhól eru tvö greni, annað er Driffellsgreni en hitt Melhólsgreni.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Nafnið Driffell er sérkennilegt og gæti verið komið af nafnorðinu drif, (snjódrífa, fjúk) eða þá af sögninni að drífa eitthvað áfram, reka eitthvað áfram og gæti þá átt við fjárrekstur enda auðveldast að koma fénu yfir úfið hraunið með því að fara Þórustaðastíginn um Driffellsmóana. Á þessum slóðum er stígurinn einnig kallaður Driffellsstígur og hraunið umhverfis fellið Driffellshraun.

Selsvellir

Á Selsvöllum. Moshóll og Keilir fjær.

Við fylgjum stígnum frá Driffelli og yfir að Moshól sem er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð hólsins er mjög illa farin eftir hjólför „náttúruníðinga“ sem hafa fundið hjá sér þörf fyrir að aka sem lengst upp í hlíðina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir að gosið úr Moshóli hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun. Aðeins sunnar er annar svipaður gígur en þó minni. Örnefnið Moshóll er nýtt af nálinni.
Næst komum við að fallegasta gróðursvæðinu á öllum Reykjanesskaganum en það eru Selsvellirnir sem liggja meðfram endilöngu Selsvallafjalli (338 m) að vestanverðu. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Vellirnir eru um 2 kílómetrar að lengd en aðeins rúmlega 0,2 á breidd.

Moshóll

Moshóll norðan Selsvalla.

Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík og í sóknarlýsingu séra Geirs á Stað frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Jafnframt segir um sel Staðar í Grindavík: „Stendur selið í Strandarmannalandi, eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki.“

Selsvellir

Selsvellir – Selsvallalækur. Moshóll fjær.

Kúalágar heitir lítið dalverpi sem gengur út úr nyrsta hluta Selsvalla að ofanverðu. Á milli Kúalága og Sogalækjar er aragrúi gíga bæði stórra og smárra og þar tala Grindvíkingar um Bergsháls en það er malarhryggur sem gengur út úr Vesturhálsi neðan Grænavatnseggja. Örnefnin í þessum hluta Vatnsleysustrandarhrepps eru að mestu leyti komin frá Grindvíkingum sem eðlilegt er því þarna störfuðu þeir sumarlangt, líklega um aldir. Tveir lækir, Selsvallalækir, renna um vellina en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar þá til vesturs. Sá nyrðri kemur úr gili fast sunnan Kúalága en sá syðri rennur fram drjúgum sunnar og nálægt Selsvallaseli. Seltóftirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið þrjár kofaþyrpingar, líklega frá jafnmörgum bæjum og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Úti í hrauninu sjálfu fast við fyrrnefndar tóftir er ein kofatóft til og lítil kví á smá grasbletti.

Selsvellir

Á Selsvöllum – seltóft.

Í bréfi frá séra Geir Bachmann á Stað í Grindavík til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígur til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á milli selsins og fellsins sjást djúp hófför í klöppum sem segja okkur að um stíginn hefur verið mikil umferð fyrrum og að hann hafi m.a. verið hluti svonefndra Hálsagatna sem Bjarni Sæmundsson nefnir í skrifum.
Jeppaslóðin liggur með fjallinu og Ijót hjólförin marka endilanga gróðurvinina og þó sérstaklega þar sem lækirnir renna fram. Upp við fjallshlíðina, fast norðan við syðri lækinn, eru eldgamlar tóftir svo grónar að ekki sér í stein og eru þrjár þeirra ofan við vegarslóðann en líklega tvær neðan hans.

Driffell

Driffell.

Fyrir sunnan Selsvelli taka svo Þrengslin við en þau draga nafnið af því að þar er þrengst á milli hrauns og hlíðar. Líklega ná Þrengslin yfir nokkuð langt svæði til suðurs. Í sóknarlýsingunni frá árinu 1840 sem nefnd er hér á undan eru hreppamörkin sögð um Þrengsli og í Framfell (356 m).

Framfell

Framfell. Trölladyngja framundan.

Fellið var kallað Vesturfell af ábúendum Vigdísarvalla en sá bær var austan við Vesturhálsinn. Sóknarlýsingin er eina heimildin um þessi nöfn og e.t.v. væri einhver til með að deila um staðsetningu Framfellsins því annað ámóta fell er þarna rétt austar og innar á hálsinum (285 m). Ef kort og loftmyndir eru skoðaðar með sóknarlýsinguna að leiðarljósi sést þó glöggt að lýsingin á við vestara og fremra fellið, þ.e.a.s. það sem er nær Grindavík. Frá Vigdísarvöllum sést Vesturfell í stefnu 290 gráður eða rétt norðan við hávestur en hinn hnúkurinn sést ekki frá bæjarstæðinu. Á Framfelli er varða.
Nú höldum við eftir fjárgötum vestur með mörkum yfir nokkuð slétta hraunfláka sem heita Skolahraun en flákarnir draga líklega nafn sitt afskollitnum sem á þeim er.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni – kort.

Hraunsels-Vatnsfell (261 m) eða Hraunsvatnsfell verður næst á vegi okkar en um það liggja hreppamörkin samkvæmt elstu heimildum. Í toppi fellsins er stór gígur. Nokkur háls gengur út úr fellinu til norðurs og í honum er lítill gígur með vatni og dregur fellið líklega nafn sitt af því.

Hraunsels-Vatnsfell

Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.

Við gíginn var stór varða sem Ísólfur bóndi á Ísólfsskála við Grindavík hlóð en hún var hrunin að hluta árið 2005. Annað svipað vatnsstæði er þarna skammt frá. Í elstu heimildum er nafn fellsins Hraunsels-Vatnsfell en Hraunssel var í Þrengslum sunnan landamarkanna.
Frá Hraunsels-Vatnsfelli höldum við að Syðri-Keilisbróður (310 m) sem er þá hinn Keilisbróðirinn og eftir elstu heimildum að dæma er þessi bróðir einnig í hreppslandinu. Eins og nyrðri bróðirinn (sem nefndur var í tengslum við Keili) ber þessi hnúkur fleiri nöfn en eitt og hér í hrepp hefur hann einnig verið kallaður Stóri-Hrútur en af Grindvíkingum Litli-Hrútur.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Frá Syðri-Keilisbróður göngum við upp á gljúpu mosahraunbunguna Þráinsskjöld (240 m) sem nefnd er í kaflanum Heiðar og hraun. Í toppi Þráinsskjaldar eru nokkrir stórir, djúpir, grasi grónir gígar. Sá stærsti er um 200 m á lengd og tæpir 100 m á breidd og heitir Guðbjargarlág en Grindvíkingar kalla hann Guðrúnarlág.

Fagradals-Vatnsfell

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.

Nú hallar undan af Þráinsskildi í átt að Hagafelli (270 m) eða Fagradals-Hagafelli og útsýnið er ótrúlega vítt til þriggja átta. Landamörk hreppsins eru í elstu heimildum sögð í nyrðri rætur fellsins en nýrri heimildir segja þær í Vatnskatla, það eru litlir gígar með vatni í á nyrðri brún Vatnsfells (248 m) eða Fagradals-Vatnsfells. Hér í hreppi voru fell þessi aðeins kölluð Hagafell og Vatnsfell en Grindvíkingar þurftu að aðgreina þau frá öðrum fellum í sínu landi með sömu nöfnum og því skeyttu þeir Fagradals- framan við. Á kortum Landmælinga Íslands gætir áhrifa Grindvíkinga mun meira en heimamanna hvað snertir örnefnin á eða við markalínuna á þessum slóðum.
Fellin tvö, Hagafell og Vatnsfell, eru „samvaxin“ og tengjast Fagradalsfjalli (391 m) til suðvesturs. Hraunstraumur úr Þráinsskildi hefur runnið á milli Fagradalsfjalls og Vatnsfells.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Hrafnabjörg eða Hrafnaklettar heita klettar sem skaga út úr austurhluta Fagradalsfjalls fyrir ofan Vatnsfell og þeir eru áberandi séðir frá Vogum og Strönd. Þeir voru fiskimið í svokallaðri Gullkistu undir Vogastapa en veiðislóðin var nefnd svo vegna mikillar fiskigengdar fyrr á öldum.

Keilir

Keilir og nágrenni.

Áður en við endum ferðina er sjálfsagt að koma við í Dalsseli í Fagradal en dalurinn liggur í krika við nyrðri rætur Fagradalsfjalls og dregur fjallið nafn sitt af honum. Það gæti verið að Fagridalur og þá einnig hluti fjallsins haft tilheyrt hreppnum fyrir margt löngu og þess vegna fá þessi örnefni að fljóta með í lýsingunni. Í Jarðabók 1703 segir um selstöðu Stóru-Voga: «…aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðastaðarmenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu.“

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Fagridalur má muna sinn fiífil fegurri því nú er hann lítið annað en moldarflög og stendur að engu leyti undir nafni. Nokkuð djúpur lækjarfarvegur liggur úr fjallinu og niður í „dalinn” sem er flatlendi með allháum hraun- og gjallkanti við nyrðri brún. Seltóftirnar eru fast við lækjarfarveginn að sunnan, nálægt rótum fjallsins, og þar sjást tvær-þrjár kofatóftir. Líklega hefur verið mjög gott selstæði þarna meðan dalurinn var grösugur og vatn í farveginum. Fagridalur er á náttúruminjaskrá.

Keilir

Keilir – kort.

Rauðgil heitir gil í fjallinu sunnan Fagradals og er kallað svo vegna rauðamels sem þar er. Gilið er sagt á hreppamörkum í markalýsingu Jóns Daníelssonar bónda í Stóru-Vogum.
Hér lýkur ferð okkar um hreppslandið. Við getum líklega verið sammála um það að svæðið sem við fórum um síðast er það fjölbreytilegasta og fallegasta sem til er í Vatnsleysustrandarhreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.”

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007, bls 123-143.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Andrews

Í frásögnum fjölmiðla 2018 var fjallað um afhjúpun minnisvarða um flugslysið í Kastinu árið 1943.

Afhjúpun minnisvarðar um flugslys á Reykjanesi 27.04.2018:

Andrews

Andrews – minnismerki vígt.

“Fyrir 75 árum, hinn 3. maí 1943, fórst bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B-24D Liberator sem bar heitið „Hot Stuff“ á Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Flugvélin var á leið heim til Bandaríkjanna í fyrirhugaða sigurför sem fyrsta sprengjuflugvélin sem hafði náð ósködduð að fljúga 25 árásarferðir frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni.

Andrews

Andrews – minnismerki.

Í fyrstu voru margar slíkar flugvélar skotnar niður af orrustuflugmönnum Þjóðverja og hét Bandríkjaher áhöfnum sprengjuflugvéla sem lykju 25 árásarferðum að þeir fengju að snúa heim. Áhöfn „Hot Stuff“ var sú fyrsta til að ná þessum merka árangri.

Í flugslysinu i Kastinu fórust [þrettán] manns, þar á meðal Frank M. Andrews hershöfðingi og æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu sem var á leið til Washington til þess að leggja á ráðin um undirbúning innrásar Bandamanna á meginland Evrópu. Einn maður lifði slysið af, George A. Eisel stélskytta, og var það í annað sinn sem hann komst lífs af úr slíku flugslysi.

Andrews

Andrews – Minnsmerki vígt.

Við fráfall Andrews tók Dwight D. Eisenhower hershöfðingi við sem æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu og alls herafla bandamanna í Evrópu og stjórnaði innrásinni í Normandí árið eftir. Eisenhower var síðan forseti Bandaríkjanna á árunum 1953 – 1961. Andrews hershöfðingi var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsdeild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.

Hot Stuff

Áhöfnin á Hot Stuff er fórst í Kastinu hinn örlagaríka dag.

Var Andrews herflugvöllurinn í Maryland, aðsetur einkaflugvélar Bandaríkjaforseta, Air Force One, nefndur til heiðurs honum. Bandaríska herstjórnin á Íslandi nefndi nýreist íþróttahús við Hálogaland í Reykjavík Andrews Memorial Field House til heiðurs hershöfðingjanum en húsið var helsta íþróttahús höfuðborgairnnar í tvo áratugi eftir stríðið. Varnarliðið nefndi einnig samkomuhús sitt á Keflavíkurflugvelli (nú Ásbrú) Andrews Theater til heiðurs Andrews hershöfðingja.

Í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá þessum örlagaríka degi var afhjúpaður minnisvarði um flugslysið við Grindarvíkurveg, fimmtudaginn 3. maí kl. 13:00. Minnismerkið er tilkomumikið og skartar meðal annars gríðarlega stórri eftirlíkingu af B-24 Liberator sprengjuflugvélinni úr ryðfríu stáli. Þá verður í kjölfarið minningarathöfn í Andrews Theater á Ásbrú, kl. 14:30.

Minnisvarðinn er reistur að frumkvæði Bandaríkjamannsins Jim Lux og ættingjum þeirra sem fórust, með aðstoð Þorsteins og Ólafs Marteinssona. En allir eru þeir miklir áhugamenn um flugvélar og flugsögu seinni heimstyrjaldarinnar. Gert er ráð fyrir „heiðursflugi” B-52 Stratofortress flugvélar bandaríska flughersins yfir svæðið á meðan á afhjúpun stendur.

Nokkrir ættingjar þeirra sem létust í flugslysinu koma frá Bandaríkjunum til að vera viðstaddir athöfnina. Meðal annarra gesta verða Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og Jill Esposito, staðgengill sendiherra bandaríska sendiráðsins á Íslandi, ásamt Lt. Gen. Richard Clark og Col. John Teichert frá bandaríska lofthernum. Í lok athafnarinnar verða fluttir nokkrir fyrirlestrar um slysið og Frank M. Andrews hershöfðingja.”

Kastið

B-17 líkanið.

Fyrir stuttu (skrifað 10.05.2021) barst FERLIR sú fregn að flugvélalíkaninu á minnismerkinu framangreinda virðist hafa verið stolið, a.m.k. væri það horfið. Viðkomanda var bent á að mögulega eðlilegra skýringa gæti verið að finna á hvarfinu.

Andrews

Andrews – áritun á bakhlið minnismerkisins.

Hringt var í nefndan Þorstein Marteinsson, s.892 3628, er var annar þeirra bræðra er m.a. stóðu að gerð minnismerkisins á núverandi stað.
Þorsteinn sagði að þeir hefðu nýlega tekið líkanið af minnismerkinu vegna þess hversu illa það virtist útleikið, sennilega vegna gufuefnissambanda frá Svartsengi. Ætlunin væri að fægja það og síðan setja minnismerkið upp á nýjum stað; ofan hringtorgs Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Eftir nýlegar vegaframkvæmdir við Grindavíkurveginn, þar sem umferð til suðurs hefði verið verulega hindruð að minnismerkinu, hafi þurft að hugsa staðsetninguna upp á nýtt. Upplýsingafulltrúa Grindavíkurbæjar hafi verið tilkynnt um framkvæmdina.
Stefnt er að úrbótunum á næstu vikum…

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir:
-https://www.keilir.net/is/um-keili/frettir/afhjupun-minnisvardar-um-flugslys-a-reykjanesi
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/05/03/afhjupudu_minnisvarda_um_ahofn_b24d/
-https://www.vf.is/frettir/afhjupun-minnisvarda-um-flugslys-a-reykjanesi
-https://www.ruv.is/frett/afhjupa-minnisvarda-um-ahofn-flugvelar
-https://www.grindavik.is/v/24046
-https://stridsminjar.is/en/a-list-of-crash-sites-by-year/incidents-in-1943/103-b-24-liberator-kast-fagradalsfjall-may-3-1943
-https://www.keilir.net/is/um-keili/frettir/afhjupun-minnisvardar-um-flugslys-a-reykjanesi

Kastið

Hot Stuff.

Andrews

Á RÚV 3. maí 2023 var eftirfarandi umfjöllun um “Flugslys á Fagradalsfjalli sem breytti rás viðburða” í tilefni af því að áttatíu ár voru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík.

Andrews

Minnismerkið á Stapanum um áhafnameðlimi Hot Stuff er fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli 3. maí 1943.

Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af. Tilefnið var auk þess tilfærsla á minnismerkinu um atburðinn, en því hafði áður verið komið fyrir austan Grindavíkurvegarins miðja vegu milli Stapans og Grindavíkur. Áhrif tæringar frá nálægri Svartsengisvirkjuninni varð til þess að ástæða var að færa minnismerkið upp á ofanverðan Stapa norðan gatnamóta Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Þaðan er ágætt útsýni (í góðu skyggni) yfir að slysstaðnum í kastinu í vestanverðu Fagradalsfjalli. Gerður hefur verið göngustígur ofan í endurgerðan gamla Grindavíkurveginn frá hringtorgi ofan gatnamótanna.

“Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur minningarathöfnina á Stapa í dag.
Hershöfðingjar í Bandaríkjaher, sendiherra og forseti Íslands minntust í dag fjórtán bandarískra hermanna sem fórust í flugslysi á Fagradalsfjalli fyrir áttatíu árum.

Andrews

Frá minningarathöfninni við minnismerkið á Stapanum 3. maí 2023.

Fimm ár eru frá því minnisvarði um flugslysið 3. maí 1943 var reistur en nú verið færður að Stapa við Reykjanesbraut. Fimmtán voru um borð í sprengjuflugvélinni Hot Stuff þegar hún brotlenti á Fagradalsfjalli og komst aðeins einn lífs af. Um borð voru bandarískir hermenn og Frank Maxwell Andrews hershöfðingi.
Minningarathöfnin í dag var einkar hátíðleg þótt bæði væri hvasst og kalt. Mannanna fjórtán var minnst með ræðum, blómsveigar lagðir og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir auk flugvélar frá Bandaríkjaher.

Andrews

Frá minningarthöfninni á Stapanum.

„Mér finnst það heiður að vera fulltrúi Andrews-herstöðvarinnar sem dregur nafn sitt af Andrews hershöfðingja, og fara fyrir flughermönnum frá herstöðinni við þessa athöfn,“ segir Todd Randolph, yfirmaður Andews-herstöðvarinnar í Bandaríkjunum.
Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna, segir mikilvægt að minnast þeirra sem fórust. Þeir hafi barist fyrir lýðræðingu.

„Já, mjög svo og enn frekar núa þegar Ísland og Bandaríkin standa aftur saman í andófinu gegn innrás Rússa í Úkraínu,“ segir Patman.

Andrews

Annað upplýsingaskilti af tveimur við minnismerkið. 

Þegar slysið varð hafði enginn jafn háttsettur embættismaður og Andrews hershöfðingi fallið í stríðinu úr röðum bandamanna.
„Rás viðburða hefði orðið önnur hefði það ekki gerst. Hann hefði farið fyrir liði bandamanna sem réðist inn í Normandí í júní 1944. En í stað hans tók Eisenhower við keflinu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Andrews

Á öðru skiltinu er m.a. lýst 12 flugslysum er urðu á nálægum slóðum á stríðsárunum.

„Hann var þá háttsettur yfirmaður í flughernum á þeim tíma og frumkvöðull í því sem nefnt er Flugher Bandaríkjanna nú. Hann er einn helsti höfundurinn að aðskilnaði herjanna, landher frá flugher til að yfirráðum í lofti sem hernaðaraðferð,“ segir Randolph.

Andrews

Tíu áhafnameðlimir Hot-Stuff er fórust í Kastinu 1943.

Fagradalsfjall sést vel frá minnisvarðanum á Stapa. Frumkvæðið að því að setja upp minnisvarðann eiga tveir bræður [Þorsteinn og Ólafur Marteinssynir] og sem hafa mikinn áhuga á sögunni og halda úti vefsíðu með korti af flugslysum.

„Þeir höfðu reynt lendingu í Keflavík en vegna veðurs fundu þeir ekki völlinn. Við erum að horfa hérna á Fagradalsfjall sem flestir kannast við eftir að það gaus. En hérna vestast, þar sem er smá hækkun [Kastið], það var þar sem vélin rakst á fjallið,“ segir Þorsteinn Marteinsson, áhugamaður um sögu flugslysa.

Á tveimur upplýsingaskiltum við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
B-24 Liberator-sprengjuflugvélin Hot Stuff – Sigurganga og örlagarík endalok
“Bandaríska B-24 sprengjuflugvélin Hot Stuff og áhöfn hennar var fyrsta flugvél 8. flughersins sem lauk 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari.

Andrews

Áhöfn Hot Stuff.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprenguflugdeildar, að fá far með Robert “Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Meþódistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprenguflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.

Andrews

Robert “Shine” Shannon.

Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgin 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Scotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar kom upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu. Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og sundraðist.

AndrewsVið slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en lá klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu, en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið”.

Frank Maxwell Andrews – yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu – 3. feb. 1884-3. maí 1943
Andrews“Frank M. Andrews hershöfðingi fæddist 3. febrúar 1884 í Nashville í Tennssee. Hann hóf nám í háskóla Bandaríkjahers í West Point árið 1902 og brautskráðist árið 1906. Hann starfaði í flugdeild Bandaríkjahers í fyrri heimsstyrjöldinni og árið 1935 valdi Douglas Mac Arthur yfirhershöfðingi hann til þess að gegna starfi yfirmanns nýrrar aðgerðardeildar flughersins.
Andrew var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsheild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.
Andrews var einnig ákafur hvatamaður að smíði stórra sprengjuflugvéla og eggjaði stjórnvöld til kaupa á fjölda nýrra sprengjuflugvéla af gerðinni B-17 “Fljúgandi virki” en hlaut ekki stuðning yfirstjórnar hersins. Framsýni hans sannaðist þó þegar Bandaríkin drógust inn í síðari heimsstyrjöldina og stjórnvöld létu smíða B-17 og B-24 Liberator sprenguflugvélar í stórum stíl.

Andrews

Hot Stuff.

Andrews hafði verið hækkaður í tign árið 1941 og var þá falin yfirstjórn bandarískra herja við Karíbahaf sem önnuðust varnir aðkomuleiða til Bandaríkjanna úr suðri, þ.á.m. um Panamaskurð. Eftir innrás bandamanna í Norður-Afríku haustið 1942 var honum falin stjórn alls herafla Bandaríkjanna við sunnanvert Miðjarðarhaf sem átti þátt í að vinna sigur á Afríkuher þýska hershöfðingans Erwins Rommels.

Andrews

Einkennismerking Hot Stuff.

Í febrúar 1943 var Andrew skipaður yfirmaður herja Bandaríkjanna í Evrópu með aðsetur í Bretlandi og 3. maí sama ár valdi bandaríska yfirherráðið hann til þess að stjóra sameinuðum herafla bandamanna sem undirbúa skyldi innrás á meginland Evrópu. Andrew fékk þó aldrei boðin um þess merku hækkun í tign því hann fórst sama dag þegar Liberator flugvél hans, sem gekk undir nafninu “Hot Stuff” og flytja átti hann til Bandaríkjanna, fórst á Fagardalsfjalli á Reykjanesi.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Flugvélin hafði horfið frá lendingu í Keflavík vegna veðurs og var á leið til flugbækistöðvar breska flughersins í Kaldaðarnesi. Við lát Andrews hershöfðingja tók Dwight D. Eisenhower, síðar Bandaríkjaforseti, við stjórn Evrópuherstjórnarinnar en hann hafði áður gegnt starfinu árið 1942.
Andrews hershöfðingi og þrettán samferðarmenn hans voru grafnir með mikilli viðhöfn í Fossvogskirkjugarði 8. maí 1943. Líkamsleifar þeirra voru flutta heim til Bandaríkjanna árið 1947 og var Andrews lagður til hinstu hvílu í þjóðargrafreit Bandaríkjanna í Arlingtonkirkjugarði í útjarðri Washingtonborgar”.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

“Upphaflega var flugvöllurinn lagður af Bandaríkjaher í Seinni-Heimsstyrjöldinni og tekin formlega í notkun 23. mars 1943. Banndaríkjamenn nefndu hann “Meeks Field” í höfuðið á ungum flugmanni, George Meeks að nafni, sem fórst á Reykjavíkurflugvelli og var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem lést á Íslandi í styrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni var flugvöllurinn og bækistöðin, sem við hann stóð, afhentur Íslendingum til eignar og var hann þá nefndur Keflavíkurflugvöllur eftir stærstu nágrannabyggð hans, Keflavík.

Andrews

Leiði Andrews og félaga í Fossvogskirkjugarði.

Flugvellirnir við Keflavík voru reyndar tveir, Meeks og Pattersonflugvöllur ofan Njarðvíkurfitja, sem þjónaði orrustuflugsveit Bandaríkjahers til stríðsloka. pattersonflugvöllur var ekki notaður eftir stríðslok. Keflavíkurflugvöllur var rekinn af bandarísku verktakafyrirtæki til ársins 1951, er Bandaríkjaher kom aftur til landsins samkvæmt varnnarsamningi Íslands og Bandaríkjana sem gerður var að tilstuðlan Norður-Atlantashafsbandalagsins, NATO.

Andrews

Grafsteinn Andrews í Arlingtonkirkjugarði.

Bandaríkjaher (varnarliðið á Íslandi) reisti bækistöð sína við Keflavíkurflugvöll. Þar var afgirtur bær sem hýsti allt að 5700 hermenn, starfsfólk og fjölskyldur þeirra allt til ársins 2006 þegar herstöðin var lögð niður. Í dag her herstöðin hverfi í Reykjanesbæ og gengur undir nafninu Ásbrú”.

Konunglegur flugvöllur í Bretlandi var nefndur eftir Frank M. Andrews, Andrews Field, í Essex, England. Þetta var fyrsti flugvöllurinn, sem verkfræðideild bandaríska hersins endurbyggði þar í landi.

Andrews

Andrews Theater á Keflavíkurflugvelli.

Þetta var 1943, skömmu eftir slysið í Kastinu. Hann var þekktur fyrir að vera fyrsti endurgerði flugvöllurinn í Bretlandin 1943, hét áður RAF Station Great Saling, á heimsstyrjaldarárunum síðari. Flugvöllurinn var notaður af  USAAF 96th sprengjuflugdeildinni og 322nd sprengjusveitinni á stríðsárunum sem og  nokkrum RAF deildum áður en honum var lokað 1946. Í dag er þarna lítill einkaflugvöllur.

Andrews breiðstræti, vegur er liggur að alþjóðaflugvellinu Filippseyja, Ninoy Aquino International Airport Terminal 3, var nefndur eftir honum. Þá var “Andrews Theater” á Keflavíkurflugvelli einnig nefnt eftir Frank í minningu hans.

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-05-03-flugslys-a-fagradalsfjalli-breytti-ras-vidburda
-RÚV, Flugslys á Fagradalsfjalli breytti rás viðburða – Áttatíu ár eru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík. Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af, Kristín Sigurðardóttir, 3. maí 2023.
-Minnismerki ofan Stapa um Andrews og félaga.
–https://en.wikipedia.org/wiki/Frank_Maxwell_Andrews

Andrews

Afsteypa af Hot Stuff, Liberator-24, á minnisvarðanum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjallskerfið er fyrst nefnt hjá Mary Gee. Hún dregur fram öll helstu einkenni þess, en það er um flest ólíkt öðrum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga. Kerfið er um fimm kílómetra breitt á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Lengdin er um 15 kílómetrar milli Keilis í norðaustri og Húsafjalls í suðvestri.

Eldgos

Litli-Hrútur við Fagradalsfjall; eldgos 2023.

Sérstaða þess felst í því að eiginlegur sprungusveimur tengist því ekki, og fátt er um misgengissprungur og gjár með norðaustur-suðvestur stefnu. Þar er ekki heldur að finna langar gossprungur. Hins vegar eru þar allmargar skjálftasprungur með norð-suðlæga stefnu. Háhitasvæði tengist því heldur ekki.
Einkennandi gosmyndanir eru dyngjur eða ígildi þeirra, það er stapar, bólstrabergs- og móbergsstrýtur, sem og stuttar gossprungur og snubbóttir móbergshryggir. Langihryggur er þeirra lengstur, um tveir kílómetrar. Tvær stórdyngjur eru í kerfinu, Fagradalsfjall, raunar stapi, vart eldri en frá síðasta jökulskeiði, og Þráinsskjöldur frá síðjökultíma, sjá mynd. Aldursgreiningar á skeljum næst undir breksíuhluta Þráinsskjaldar á Vatnsleysuströnd gáfu aldurinn 12.620±55 og 12.605±50 kolefnisár sem samsvarar um 14.100 almanaksárum.

Land á Reykjanesskaga utanverðum hefur orðið íslaust á Bølling-Allerød hlýskeiði. Það hófst fyrir um 14.500 árum og lauk fyrir 12.500 árum. Eftir fylgdi 1000 ára kuldaskeið, yngri Dryas, með nýrri framrás jökuls. Þetta 3000 ára tímabil er oft nefnt síðjökultími og þá runnu elstu hraunin á utanverðum Reykjanesskaga, þar á meðal Þráinsskjöldur. Þegar hann myndaðist hefur sjávarborð verið um 35 metrum lægra en nú, en skilin milli hrauns og breksíuhluta í honum eru á því dýpi.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Að frátöldum stórdyngjunum eru 30-40 smáfell í Fagradalsfjallskerfinu. Þau eru þó ekki endilega mynduð í jafnmörgum gosum. Sex þeirra, þar á meðal Skála-Mælifell, eru úr öfugt segulmögnuðu, ólivínríku bergi. Aldursgreiningar sýna þau um 90.000 ára, frá segulflöktstíð sem kennd hefur verið við Skála-Mælifell. Af öðrum goseiningum kerfisins má nefna Festarfjall. Þar má sjá gosganginn í sjávarhömrum, Festina sem fæddi það. Gangur úr pikríti með stefnu á Lyngfell (einnig úr pikríti) sést í fjörustálinu nokkru austar en Festin, efalaust aðfærsluæðin. Gossprungan hefur í því tilviki verið um 700 metra löng. Bergið í goseiningum kerfisins er þóleiít, ólivínbasalt og pikrít.

Vatnsheiði

Við op K-9 neðst í Vatnsheiði.

Í kerfinu eru tólf gígar og stuttar gígaraðir frá eftirjökultíma, allt í því vestanverðu, nema ein dyngja á austurjaðrinum, norðan í Hraunsels-Vatnsfelli. Óvíst er hvort gos hafi verið jafnmörg.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Elst hraunanna er sennilega Hrólfsvíkurhraun, frægt fyrir fjölda hnyðlinga sem aðallega sjást í einu belti. Líklega hefur gosið byrjað í sjó og þá myndast túffbingurinn í Berjageira upp af Hrólfsvík. Sjór hefur eytt honum að hluta áður en hraunið úr Vatnsheiði lagðist að og varði hann fyrir frekara rofi.

Aðalgosreinin frá eftirjökultíma nær frá Vatnsheiði norðaustur fyrir Fagradalsfjall með tíu hraunum.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna. Kistufell (t.h.) og Hraunssels-Vatnsfell fjær.

Stærst þeirra, að undanskildum Þráinsskildi, eru smádyngjan Vatnsheiði, að mestu leyti úr pikríti, og Borgarhraun úr þóleiíti. Borgarhraun er upprunnið í fjórum gígum suðvestan í Fagradalsfjalli. Önnur hraun eru lítil, en erfitt er þó að ákvarða stærð þeirra, því að yngri hraun hafa lagst yfir þau vestan frá. Yngsta hraunið í kerfinu mun vera Beinavörðuhraun, en það er eldra en Reykjanesgjóskan R~6000.

Á árunum 2021-2023 gaus þrívegis í Fagradalsfjalli, þ.e. í Geldingadölum, við Meradali og við Litla-Hrút. Það þarf þó ekki að koma á óvart því hraun hafa runnið á ýmsum stigum allt umhverfis fjallið.

Heimildir:
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.
-Kristján Sæmundsson, óbirt gögn 2011.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995c. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Eyjar í eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi. Gott mál, Reykjavík, 165-172.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65697

Stóri-hrútur

Stóri-Hrútur; útsýni yfir að nýjum gíg ofan Meradala í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjall

Gengið var vestur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu, upp Brattháls undir Lyngbrekkum og beygt áleiðis til norðurs austan hans. Þaðan var gangið upp á Langahrygg og skoðað flugvélaflak, sem þar er efst í öxlinni. Gengið var áfram til norðurs að Stóra-Hrút, haldið til vesturs sunnan hans, í átt að Geldingadal. Horft var niður í dalinn og síðan haldið áleiðis til norðurs upp á Langhól, hæstu bungu Fagradalsfjalls (385 m.y.s.). Efst undir Langhól eru leifar flugvélaflaks.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og umhverfi.

Gengið var niður af Langhól til norðausturs, skammt austan við fallegan þverskorinn gíg nyrst í fjallinu og gengið niður að Dalsseli. Frá því var haldið um Nauthólaflatir og Fagradal til suðurs, gengið milli fjallsins og Sandhóls-innri, um Kastið, skoðað flugvélaflak þar og síðan niður af því að sunnanverðu, haldið framhjá Sandhól og síðan um Borgarhraun framhjá Borgarfjalli til baka. Á leiðinni var komið við í Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsfjárborgin skoðuð áður en komið var að upphafsstað.
Fagradalsfjall er vestasta fjall Reykjanesfjallgarðsins. Er það raunverulega fjölbreytileg lítil háslétta, með nokkrum hnjúkum, einkum að vestanverðu, móbergsstapi.

Langhóll

Á slysstað á Langhól.

Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu. Fylgt var slóðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn.
Staðnæmst var við Drykkjarsteininn. Símon Dalaskáld orti um hann vísu og þjóðsaga er tengd steininum. Vísan var eftirfarandi:

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að steinninn hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera allra meina bót. Vatn var nú í báðum skálum hans, en sú sögn hefur fylgt steininum að vatnið í þeim ætti aldrei að þverra. Þá mætti ekki saurga vatnið, enda fékk sá sem það gerir, bágt fyrir.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinninn í Drykkjarsteinsdal.

Gengið var framhjá Stóra-Leirdal og Lyngbrekkum, inn á Hlínarveginn, sem Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála (f:1921)ásamt fjórum öðrum, þ.á.m. Indriða föðurbróðir hans, lögðu gegn kaupi fyrir Hlín Johnson íHerdísarvík árið 1932. Var lagður vagnfær vegur frá Skála ofan Slögu alla leið í Krýsuvík, aðallega fyrir fyrirhugaða heyflutninga þaðan til Grindavíkur. Hlínarvegurinn er beinn og mjög greinilegur á sléttum melnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – gígur.

Sumsstaðar er jeppaslóðinn kominn yfir veginn. Jón man að sérhver vegavinnumanna fékk kr. 100 greitt fyrir verkið úr hendi Hlínar. Vegurinn sést vel til hliðar við nýrri veg upp með Lyngbrekkum og síðan áfram áleiðis að Méltunnuklifi.
Haldið var áfram upp með austanverðum Bratthálsi og Lyngbrekkum og stefnan tekin upp með Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill. Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli. Stóri-Hrútur hægra megin (fjær).

Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stórahrút. Stórihrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stórahrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.

Langihryggur

Langihryggur – brak.

Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.
Þá var haldið á fótinn, upp Fagradalsfjall og áleiðis upp á Langhól, hæsta hluta fjallsins. Slóð eftir tæki hersins, sem fóru á slysstað á sínum tíma, sjást enn í fjallinu. Hæsta bungan er í 385 m.h.y.s. Efst á henni er landmælingastöpull. Þaðan er fallegt útsýni yfir Þráinsskjöldinn, Keili, Strandarheiði og Vogaheiði.

Dalssel

Í Dalsseli.

Gengið var niður af fjallinu að norðanverðu. Þar er einn af fallegri gígum landsins. Hann er þverskorinn, þ.e. hægt er að horfa inn í hann, þar sem hann liggur utan í fjallshlíðinni. Gígurinn er um 70 metra hár og tignarlegur eftir því. Vel er hægt að sjá þarna hvernig eldgígar hafa orðið til. Þessi hefur opnast til norðurs og hraunið þá runnið út úr honum þar, en skilið gígrásina eftir ófyllta.

Fagradalsfjall er myndað við gos undir jökli og flokkast undir s.k. stapa því gosið hefur á endanum náð upp úr íshellunni og náð að mynda hraun. Megingígurinn er nyrst á fjallinu. Þaðan hefur svo hraunið runnið til suðurs og er fjallið um 100 metrum lægra þar.
Lækjarfarvegi var fylgt niður með norðanverðu fjallinu til vesturs þangað til komið var að Dalsseli. Tóftirnar eru á vestanverðum bakkanum, en lækurinn hefur smám saman verið að narta bakkann undan selinu. Neðar eru Nauthólaflatir.

Kastið

Kastið.

Eftir göngu til suðurs með vestanverðu Fagradalsfjalli var komið að Kastinu. Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar þann 3. maí árið 1943. Um borð í vél þessari var m.a. hershöfðinginn Frank M. Andrews, sem bíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnileg ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Frank. M. Andrews var æðstur í herafla Bandaríkjanna í Evrópu er hann fórst á Fagradalsfjalli eftir að flugmaðurinn hafði villst af leið í aðflugi til Reykjavíkur. “He was born on February 3, 1884 in Nashville, Tennessee and was killed in an aircraft accident in Iceland on May 3,1943. He was buried in Section 3 of Arlington National Cemetery. Andrews Air Force Base in Maryland is named in his honor. His death in a B-24 Liberator on May 3, 1943 was an enormous loss.”
AndrewsGengið var greiða leið niður af Kastinu að sunnanverðu. Skammt sunnar og austar með fjallinu er Selskálin. Hún er nú að mestu fokin burt. Sunnan hennar er Einbúi, stór hóll. Sunnan hans sést móta fyrir gamalli götu, sem kastað hefur hefur verið upp úr. Við hana er hlaðið gerði. Þaðan var haldið að Borgarhraunsrétt undir hraunbrúninni sunnan Borgarfells og síðan áfram að Borgarhraunsborginni. Gamla gatan frá Siglubergshálsi liggur að Drykkjarsteinsdal. Borgin er norðan hennar og er allstór. Gróið er í henni og í kringum hana. Hún er utan í hól og hallar til suðausturs. Í henni hefur verið hlaðin kví eða kró. Í borginni austanverðri má sjá hversu þykkir veggir hennar hafa verið, eða faðmur. Þarna hefur verið mikið mannvirki á meðan var. Talið er að borg þessi hafi verið frá Viðeyjarklaustri, sem hafði fé á þessum slóðum líkt og t.d. í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd og víðar. Frá Borgarhraunsborg var örstutt eftir inn á slóðann frá Drykkjarsteinsdal niður að Ísólfsskála.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 55 mín.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Arnarvatn

Reykjanesið hefur margar fallegar gönguleiðir upp á að bjóða. Reykjanes Geopark í samstarfi við Þráinn Kolbeinsson hefur tekið saman 13 gönguleiðir af Reykjanesinu og nefnist verkefnið “Tindar Reykjaness“. Verkefnið var styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja.

Þorbjörn

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

Norðan við Grindavík og rétt hjá Bláa lóninu liggur fellið Þorbjörn (Þorbjarnarfell). Fellið myndaðist á síðasta kuldaskeiði ísaldar, við gos undir jökli, og er að mestu úr bólstrabergi. Þrátt fyrir að vera aðeins 243 metra hátt býður það upp á skemmtilegar og nokkuð fjölbreyttar göngur sem ættu að henta flestum. Hægt að byrja gönguna á nokkrum stöðum, en einfaldast er að byrja við bílastæði við Grindavíkurveg. Þar liggur gamall vegur upp eftir mesta brattanum og tvístrast svo þegar upp er komið. Fjallið stendur á misgengissprungum sem hafa myndað grunnan sigdal.

Þorbjörn

Camp Vail á Þorbirni – uppdráttur ÓSÁ.

Þar má sjá ummerki og leifar frá seinni heimsstyrjöld en setulið Bandaríkjamanna setti upp bækistöð í skjóli dalsins. Við sprunguhreyfingar hefur orðið til mikil hamragjá á toppi fjallsins sem kölluð er Þjófagjá. Sagan segir að þar hafi falið sig 15 þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Það var ekki fyrr en bóndasyni frá Hópi tókst að svíkja þá er þeir böðuðu sig á Baðsvöllum, norðan við Þorbjörn, sem þeir náðust loksins. Meira má lesa um þjófana og afdrif þeirra hér. Þegar upp er komið er möguleiki á nokkrum mismunandi leiðum. Upp á topp, í gegnum Þjófagjá og umhverfis toppinn. Hvert sem farið er má búast við frábæru útsýni í allar áttir. Það tekur ekki langan tíma að skoða hina ýmsu kima Þorbjarnar og fyrir þá sem vilja síður ganga upp á fjallið.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur).

Vestan við Kleifarvatn liggur hinn fallegi Sveifluháls en á honum eru margir tindar sem bjóða upp á skemmtilegar göngur. Einn þeirra er Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur). Til að byrja gönguna er keyrt um Krýsuvíkurveg með fram Kleifarvatni og svo er þægilegt að leggja bílnum á litlum malar afleggjara. Þaðan er svo hægt að ganga beint upp. Þegar upp brattann er komið tekur við flatlendi umkringt stórbrotnum klettum. Haldið er áfram til norðausturs og eftir um 500 metra blasir tindurinn við. Þarna getur verið auðvelt að ruglast á tindum, en taka skal fram að til að komast upp á topp Miðdegishnúks þarf ekkert tæknilegt klifur.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Á leiðinni upp síðasta kaflann tekur á móti manni skemmtilegur hellir þar sem tilvalið er að borða nesti og njóta útsýnisins yfir Vigdísarvelli í vestri. Þegar toppnum er náð blasir við frábært útsýni í allar áttir, eftir hryggnum til suðurs og norðurs og einnig yfir Kleifarvatn og Vigdísarvelli. Til vesturs má svo sjá Trölladyngju, Grænudyngju, Keili og fleiri fallega tinda. Hægt að fara sömu leið til baka, en fyrir þá sem vilja aðeins meira brölt er hægt að beygja í átt að Kleifarvatni þegar komið er niður fyrir hellinn. Þar þarf að klöngrast aðeins meira.

Stapatindar

Stapatindar

Stapatindar.

Sveifluháls liggur vestan við Kleifarvatn og þar tróna Stapatindar hæst. Nokkrar leiðir liggja að toppnum og er hægt að leggja á ýmsum stöðum við Krýsuvíkurveg og fara þaðan upp á Sveifluháls og í átt að Stapatindum. Einfaldast er að leggja bílnum á bílastæði við Kleifarvatn og ganga beinustu leið upp á hálsinn. Á leiðinni eru flottir klettar og bergmyndanir sem gaman er skoða áður en mesti brattinn tekur við. Þegar upp á hrygginn er komið tekur við frábært útsýni eftir hryggnum til suðurs og norðurs og einnig er gaman að sjá Kleifarvatn úr þessari hæð. Í vestri blasa svo við Trölladyngja, Grænadyngja, Keilir og fleiri fallegir tindar umhverfis Sogin. Til að komast niður er eðlilega hægt að fara sömu leið og komið var upp, en einnig getur verið gaman að halda áfram eftir Sveifluhálsinum í suðvestur og vinna sig þaðan niður.

Grænadyngja

Grænadyngja

Grænadyngja.

Eitt ævintýralegasta göngusvæði Reykjaness felur sig við Grænudyngju og Trölladyngju. Grænadyngja er eldfjall sem myndaðist við gos undir jökli fyrir lok ísaldar og rétt við hana er Trölladyngja, en oft er talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. Til að komast að Grænudyngju er ekið eftir Reykjanesbraut og þegar komið er að gatnamótum Vatnsleysustrandar er sveigt út af brautinni og inn á malarveg sem merktur er Keili. Malarvegurinn er nokkuð grófur, en þó fær flestum bílum á sumrin en minni bíla þarf að keyra hægt. Þegar komið er að bílastæði fyrir Keili er haldið áfram til vinstri.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Eftir um 1 km er aftur beygt til vinstri þar til komið er að gígnum Eldborg þar sem hægt er að leggja bílnum. Beint suður frá Eldborg er lítið gil sem markar upphaf göngunnar. Gilið krefst ekki tæknilegs klifurs en ef einhver treystir sér ekki þar upp er einnig hægt að ganga upp hlíðarnar austan við það. Haldið er áfram niður í grunnan dal og loks upp eftir suðurhlíðum fjallsins. Þar uppi tekur á móti manni einstakt svæði, grasi gróið og yfirleitt skjólsælt. Gengið er aðeins lengra, þar til nokkuð brött skriða blasir við. Gengið er upp eftir henni þangað til toppi Grænudyngju er náð.

Sog

Sogin og Grænadyngja.

Aðeins sunnar er að finna eitt besta mögulega útsýni yfir háhitasvæðið Sogin og vötnin þar í kring. Ef tími og aðstæður leyfa er tilvalið að bæta við gönguna ferð niður í Sogin og Trölladyngju svo úr verði skemmtileg hringferð. Ef ætlunin er að fara niður í Sogin er haldið áfram eins og leið liggur niður suðurhlíðar Grænudyngju þar til Sogunum er náð. Ef ætlunin er að fara einnig upp á Trölladyngju aftur að bílastæðinu, er best að halda í vestur og ganga niður eftir grasi grónum hlíðum Grænudyngju og niður í dalinn sem liggur á milli fjallanna. Ef ætlunin er einfaldlega að komast ofan af Grænudyngju aftur á bílastæðið, er tilvalið að halda niður vesturhlíðar fjallsins, ofan í dalinn þangað til komið er aftur að gilinu sem farið var upp í upphafi göngu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Trölladyngja er tilkomumikið fjall sem gaman er að ganga upp og frábært útsýni sem bíður manns á toppnum. Gangan hentar flestum og engan sérstakan búnað þarf nema ef um ræðir vetrarferð í hálku og/eða snjó. Rétt hjá Eldborg er lítil malarbílastæði og við upphaf göngu er lítið gil sem er skemmtilegt að fara upp en einnig er hægt að ganga upp auðvelda brekku norð-austan megin við það. Það eru nokkrar útfærslur af heildargöngunni en þær taka flestar um 1-2 klst. og eru um 2-4 km með 260m hækkun. Það er tilvalið að tengja göngu upp Trölladyngju við Grænudyngju og Sogin. Á toppnum er einstakt útsýni yfir Reykjanesskagann (Keili, Grænudyngju, Sogin o.fl.) og alla leið til Reykjavíkur og Snæfellsness.

Selsvallafjall

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Selsvallafjall er staðsett á skemmtilegu svæði sem ekki margir fara um, en tindurinn liggur vestan hinna fögru Vigdísarvalla. Í vesturhlíðum fjallsins fá finna leifar af breskri stríðsflugvél sem fórst þar árið 1943 eftir að hafa verið í eftirlitsflugi vegna kafbáta suðvestan Íslands. Á leiðinni gerði svartaþoku sem varð til þess að flugmaðurinn brotlenti vélinni í hlíðum fallsins en hægt er að lesa meira um slysið hér. Enn má finna leifar af flugvélinni en við biðjum alla þá sem heimsækja staðinn að taka enga muni með sér heim.

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Gönguna upp Selsvallafjall er bæði hægt að hefja við Suðurstrandarveg (nr. 247), þar sem Vigdísarvallarvegur byrjar eða með því að keyra inn Vigdísarvelli. Ef byrjað er við Suðurstrandarveg er gengið norður í átt að Núpshlíðarhálsi og honum fylgt, þangað til Selsvallafjalli er náð. Stuttu eftir að lagt er af stað frá Suðurstrandarvegi má sjá nokkra gíga sem skemmtilegt getur verið að staldra við og skoða. Síðan er haldið áfram þar til við tekur gamall malarvegur sem liggur ofan á hluta hryggjarins. Um 700 metra frá toppnum eru svo leifarnar af flugvélarbrakinu fyrir þá sem hafa áhuga á því. Af toppi Selsvallafjalls er frábært útsýni í allar áttir og í góðu skyggni má m.a. sjá alla leið til Vestmannaeyja, Snæfellsjökuls og Eldeyjar.

Stóri-Hrútur

Stóri-Hrútur

Stóri-Hrútur.

Austan við gosstöðvarnar í Geldingadal stendur Stóri-Hrútur, 352 metra hátt keilulaga fjall. Ígegnum tíðina hafa örnefni svæða sem þykja sérlega torfarin stundum verið kennd við hrúta. Með núverandi slóða sem liggur upp eftir suðurhlíð hans er Stóri-Hrútur ekki sérlega torfarin en hann er þó brattur og grýttur svo áður fyrr hefur uppferðin verið mun erfiðari. Samkvæmt sögubókum ber Stóri-Hrútur víst fleiri en eitt nafn en Grindvíkingar hafa oft kallað hann Litla-Hrút og aðrir Syðri-Keilisbróður. Bæði nöfnin verða að teljast nokkuð viðeigandi þar sem hann er hvorki mjög hár í loftinu og er alveg í laginu eins og Keilir.

Stóri-hrútur

Stóri-Hrútur; útsýni yfir að gíg ofan Meradala.

Til að komast að Stóra-Hrút eru þrjár leiðir í boði og tilvalið að gera einhvers konar hringferð úr leiðinni. Þægilegaster að leggja bílnum hér og ganga þaðan. Ýmist er hægt að halda upp Langahrygg og ganga eftir honum eða öðru hvoru megin við hann, eftir Merardölum eða norður Nátthaga. Leiðirnar eru mislangar en heildar vegalengd getur verið um 7-10 km báðar leiðir. Nátthagi liggur vestan við Langahrygg en hann er meira og minna fullur af hrauni sem gaman getur verið að skoða. Þar hafa myndast magnaðir litir og getur gufa legið uppúr hrauninu í langan tíma eftir að gosi lýkur og því tilvalið að sjá svæðið á meðan enn er hiti í því. Langihryggur býður svo uppá skemmtilega útsýnisferð en gosstöðvarnar sjást vel þegar gengið er eftir hryggnum. Rúsínaní pylsuendanum er síðan uppi á Stóra-Hrúti sjálfum en þaðan sést einn stærsti gíganna hvað best.

Langihryggur

Langihryggur

Langihryggur og nágrenni.

Áður en gosið í Geldingadölum vatt upp á sig gat fólk nokkurn veginn farið hvaða leið sem er að gosstöðvunum og staðið hvar sem er til að upplifa eldgosið. Nokkrum mánuðum síðar var það ekki alveg jafn aðgengilegt og í kjölfarið varð Langihryggur óvart ein vinsælasta gönguleið landsins. Langihryggur er tæplega 300 metra hár hryggur sem liggur með fram Nátthaga, en það er einmitt dalurinn þar sem gosið náði sem næst sjónum. Leiðin er mjög aðgengileg og hægt að velja nokkra mismunandi upphafspunkta en við mælum með því að bílnum sé lagt á bílastæði 2 fyrir gosið eða bílastæði B.

Langihryggur

Langihryggur.

Frá báðum bílastæðum er auðvelt að fylgja stígum og stikum þar til Langihryggur blasir við, en hann ber nafn með rentu og er einmitt langur hryggur. Gangan er um 5-7 km báðar leiðir með nokkuð þægilegri hækkun. Áður en haldið er upp á hrygginn sjálfan getur verið gaman að ganga niður að hrauninu og skoða það. Þegar gengið er eftir hryggnum er stórbrotið útsýni yfir gosstöðvarnar þar sem einn af síðustu virku gígunum trónir vígalegur á toppnum í fjarska. Reykur og gufur geta sést löngu eftir að gosi lýkur og því er tilvalið að sjá svæðið á meðan enn er hiti í hrauninu. Ef tími og orka leyfa þá getur verið gaman að lengja gönguna aðeins og bæta við hana ferð upp á Stóra-Hrút, en hann tekur við í beinu framhaldi af hryggnum. Þar er einnig frábært útsýni yfir gosstöðvarnar og víðar.

Geitahlíð

Geitahlíð

Geitahlíð.

Geitahlíð er falleg grágrýtisdyngja rétt austan við Krýsuvík sem býður upp á skemmtilega og nokkuð greiðfarna göngu. Auðvelt er að komast að henni, annaðhvort um Krýsuvíkurveg (nr. 42) eða Suðurstrandarveg (nr. 247) og bílastæði er við upphaf göngu. Á láglendinu sunnan við Geitahlíð er gígurinn Stóra-Eldborg sem er tilvalið að kíkja á áður en haldið er upp Geitahlíð. Hægt er að ganga alveg upp á gígbrúnina og sjá ofan í gíginn sjálfan. Við hlið hans er Litla-Eldborg, en slóðinn upp Geitahlíð hverfur fljótlega eftir hana og ekki endilega augljóst hvert skal fara.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Tiltölulega einfalt er þó að vinna sig upp grýtta hlíðina. Þegar upp mesta hallann er komið liggur beint við að halda í átt að hæsta punkti Geitahlíðar, svokölluðum Æsubúðum. Æsubúðir eru nokkuð stór gígur á toppi fjallsins, en sagan segir að þar hafi eitt sinn verið verslunarstaður jötna. Á tímum þegar sjórinn náði upp að Geitahlíð hafi svo verið hægt var að leggja skipum við Hvítskeggshvamm (norðaustan við Eldborgirnar). Þegar upp er komið er skemmtilegt að ganga eftir brúnum Æsubúða og bæta þannig stuttri lykkju við ferðina. Af toppi Geitahlíðar er frábært útsýni til allra átta, sérstaklega yfir Kleifarvatn, Sveifluháls og Stapatinda.

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar. Grænavatn fremst, Djúpavatn t.h. og Spákonuvatn t.v.

Grænavatnseggjar bjóða upp á skemmtilega og þægilega göngu með frábæru útsýni yfir Djúpavatn, Sogin, Grænavatn o.fl. Eitt fallegasta göngusvæði Reykjaness er án efa í kringum Sogin, austan Vigdísarvalla, en þar má sjá einstakt háhitasvæði með tilheyrandi litbrigðum innan um fjölbreytta tinda og vötn. Grænavatnseggjar bjóða upp á skemmtilega og þægilega göngu um þetta svæði með skemmtilegu útsýni. Til að byrja gönguna er hægt að leggja bílum á þremur mismunandi stöðum: Við gamla borholu við Sogin og svo við sitthvorn enda Djúpavatns.

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar.

Leiðin er ekki stikuð, en fólki ráðlagt að finna sér sem þægilegustu leið upp á hrygginn og ganga svo eftir honum. Auðveldast er að komast upp á hann norðan við Djúpavatn. Á toppi Grænavatnseggja blasir við frábært útsýni til allra átta; yfir Djúpavatn og Vigdísarvelli, í átt að Grænavatni og svo í átt að Trölla- og Grænudyngju. Óháð því hvar byrjað er, þá er auðvelt að lengja gönguna með því að tengja við aðrar leiðir (Sogin, Grænudyngju o.fl.) og tilvalið að halda leiðinni áfram í kringum Grænavatn og aftur til baka í átt að Spákonuvatni með Keili í vestri.

Hverafjall

Hverafjall

Hverafjall.

Einn vinsælasti ferðamannastaður Reykjaness er Seltún við Kleifarvatn. Fjöldinn allur af hverum á litríku háhitasvæði gera staðinn að fullkomnum áfangastað fyrir þá sem hafa áhuga á einstakri og lifandi náttúru. Til að komast þangað er keyrt með fram Kleifarvatni um Krýsuvíkurveg (nr. 42) þar til skilti bendir manni á gott bílastæði. Rétt fyrir ofan Seltún er þó falin perla sem á það til að fara fram hjá þeim sem heimsækja svæðið, Hverafjall. Hverafjall er aðeins um 300 metra hátt og er gangan upp stutt og laggóð.

Hverafjall

Hverafjall.

Umhverfis fjallið er töluverður jarðhiti sem leiðir af sér mikla litadýrð og tilheyrandi gufustróka. Útsýnið á leiðinni og ofan af toppnum er mjög tilkomumikið en þaðan sjást m.a. Grænavatn og Kleifarvatn ásamt fleiri fallegum stöðum. Gangan þarf ekki að taka meira en klukkutíma, en skemmtilegt getur verið að halda áfram á næsta topp sem stendur beint fyrir ofan Seltún (norðan við Hverafjall). Þaðan er svo annaðhvort hægt að fara sömu leið til baka eða halda ferðinni áfram og koma niður að bílastæðinu hinum megin frá.

Keilir

Keilir

Keilir.

Keilir er frábær ganga fyrir fólk á öllum aldri en krefst þess þó að geta gengið upp þokkalega brattan kafla þar sem eitthvað um laust grjót er og laus sandur. Það tekur um 2-3 klst. að ganga frá bílastæði, upp á topp og aftur til baka en vegalengdin er 7-8 km með 280m hækkun. Á toppi Keilis er útsýnisskífa og frábært útsýni í allar áttir – ganga sem allir ættu að prófa.
Flestir hafa séð Keili þegar keyrt er eftir Reykjanesbrautinni, en ekki jafn margir hafa klifið hann. Gönguleiðin er skemmtileg og nokkuð greiðfarin og af toppnum er frábært útsýni í allar áttir. Keilir er móbergsfjall sem myndaðist á ísöld við gos undir jökli, án þess að gosið næði að brjótast upp úr jöklinum.

Keilir

Keilir – gestabókastandur á toppnum.

Leiðin að Keili er nokkuð einföld en keyrt er eftir Reykjanesbraut (nr. 41) og loks beygt af veginum á sama stað og ef ætlunin væriað fara Vatnsleysustrandarveg (nr. 420), en vegurinn að Keili er við sömu gatnamót en fer í gagnstæða átt. Áberandi skilti við veginn vísar á Keili. Þar tekur við malarvegur sem er í grófari kantinum, en þó fær flestum bílum á sumrin en á minni bílum er best að fara sér hægt. Eftir um 8 km blasir við bílastæði og upplýsingaskilti um gönguna á Keili. Gangan sjálf er skemmtileg og á flestra færi, en tvær leiðir að fjallinu eru í boði. Annars vegar eftir stikaðri leið í gegnum hraunið og hins vegar eftir hrygg Oddafells. Skemmtilegt getur verið að gera úr leiðinni hringferð. Upp eftir Keili liggur svo slóði sem á endanum leiðir mann að dýrindis útsýni yfir stóran hluta Reykjaness.

Fagradalsfjall – Langhóll

Langhóll

Á Langhól.

Það þarf eflaust ekki að minna marga á eldgosið sem hófst 19. mars 2021, kennt við Fagradalsfjall. Hæsti tindur þess svæðis heitir Langhóll og er um 390 metra hár. Þótt gangan hafi boðið upp á fallegt útsýni áður en gosið átti sér stað, þá varð útsýnið alls ekki síðra eftir það. Á leiðinni er gott útsýni yfir gosstöðvarnar og magnað að sjá hvernig hraunið hefur fyllt upp í botn Geldingadals. Til að komast að Langhóli er ýmist hægt að keyra Suðurstrandarveginn (nr. 427) um Krýsuvík eða Þorlákshöfn eða með því að fara í gegnum Grindavík. Gott er að byrja gönguna við bílastæði 1 fyrir gosstöðvarnar. Þaðan er gengið eftir merktum stíg í gegnum hraunið og í átt að gossvæðinu.

Langhóll

Langhóll – merkjastöpull.

Eftir rúman kílómeter skiptist stígurinn í tvennt, önnur leiðin liggur í átt að gosinu, en til að komast að Langhóli skal beygja til vinstri. Leiðin er stikuð og leiðir mann í átt að smá brekku brölti, en þar er þessi fíni kaðall sem gerir ferðina upp auðveldari. Þegar upp er komið halda stikurnar áfram og leiða mann stystu leið að útsýni yfir gosstöðvarnar. Þar sem engar stikur beina manni í átt að Langhóli getur verið þægilegt elta stikurnar þar til gígurinn og hinn nýlega hraunfyllti Geldingadalur blasir við og halda svo áfram með fram brúninni. Frá kaðlinum eru um 2,5-3 km að toppi Langhóls og þar sem hann er hæsti punktur svæðisins liggur beinast við að fara brattann og vinna sig hægt og rólega upp í móti. Þegar nær dregur toppnum ætti að glitta í útsýnisskífu. Á toppnum er svo frábært útsýni yfir Þráinsskjaldarhraun, Keili og til Grindavíkur. Skemmtileg ganga sem hentar flestum.

Heimild:
-https://reykjanesgeopark.is/is/tindar-reykjaness/

Arnarnýpa

Arnarnýpa. Hæsti tindur Sveifluhálsins.

Bláa lónið

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallar um “Gönguleið; Bláa Lónið – Slaga” í Morgunblaðinu árið 1991:
Jón Jónsson“Hér á eftir er stiklað á stóru í jarðfræði þess svæðis sem farið verður um. Sé gengið frá Bláa lóninu austur yfir, má fara hvort heldur vill norðan Svartengisfells eða suður yfir Selháls og austur eftir hraununum þar fyrir sunnan og austan. Hvor leiðin sem farin er þarf að ganga þvert yfir gígaröðina, sem þar gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla [Svartsengi]. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hliðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Á háfellinu er myndarlegur gígur [Sýlin] og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.
Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraunskildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau.

Vatnsheiði

Gígur í Vatnsheiði.

Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.
Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður).

Slaga
Sunnan frá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað).

Slaga

Slaga.

Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið. Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa runnið þarna þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.” – Höfundur er jarðfræðingur

Heimild:
-Morgunblaðið 3. maí 1991, Jón Jónsson “Gönguferð; Bláa lónið – Slaga”, bls. 25.

Slaga

Slaga – berggangur.

Sundhnúkahraun

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um “Sundhnúkahraun við Grindavík” í Náttúrufræðinginn árið 1974.

Inngangur

Grindavík

Grindavík – flugmynd. Hagafell t.v., Sundhnúkagígaröðin ofar og Húsfell og Fiskidalsfjall t.h. Fagradalsfjall enn ofar.

Á Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka, eins og hér mun verða sýnt fram á.

Sundhnúkahraun og Sundhnúkur

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Af þessu virðist mega ráða að til séu örnefnin Klifhólar og Klif, en hvar þau eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um.

Hagafell

Gígur sunnan Hagafells.

Hólar eru ekki á svæðinu, nema gíghólarnir suðvestur af Hagafelli, en samkvæmt korti herforingjaráðsins 1:50000 heitir sá hóll Melhóll. Þaðan er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð. Sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um þessi örnefni, hef ég leyft mér að nota hér nýtt nafn um hraunin og eldvörpin, sem þau eru komin frá. Það skal þó tekið fram, að þetta nafn er eingöngu hugsað sem jarðfræðilegt hugtak og breytir að sjálfsögðu ekki örnefnum, sem fyrir eru á svæðinu. Ennfremur gildir þetta aðeins fyrir eldvörp þau og hraun, sem til urðu í því gosi, sem síðast varð á þessu svæði.

Gígaröðin

Sundhnúkur

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Ur ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar. Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.

Sundhnúkar

Gígur í Sundhnúkum.

Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).
SundhnúkarFrá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum(P) gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan áannan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi.
SundhnúkarTil suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs. Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.

Sundhnúkur

Í Sundhnúkagígaröðinni.

Fremur lítið hraun hefur runnið úr gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð
SundhnúkahraunHraunið er venjulegt feldspat-pyroxen basalthraun. Í því er mjög lítið um ólívín en allmikið um tiltölulega stóra feldspatkristalla (xenokrist.).
Samsetning hraunsins er þessi:
Plagioklas 43,59%
Pyroxen 44,98%
Olívín 0,68%
Málmur 10,75%
Plagioklas-dílar eru innan við 1% og sömuleiðis pyroxen-dílar. Þeir síðarnefndu eru oft með svonefndri „stundaglaslögun’, en það einkennir titanágit. Hnyðlingar koma fyrir í þessu hrauni, og hafa fundizt í vestasta gígnum sjálfum. Ekki hefur tekizt að ná sýni af þeim, en ljóst er, að þeir eru af svipaðri gerð og þeir, er finnast víða annars staðar á Reykjanesskaga. Hér virðast þeir vera úr olívíngabbrói. Aðeins einstaka olívín-dílar koma fyrir í hrauninu og þá allstórir.

Eldri gígaröð

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun.

Sundhnúkur

Eldri gígur í Sundhnúkahrauni.

Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er getið.

Hvenœr rann hraunið?

Sundhnúkahraun

Hraunrás í Sundhnúkahrauni.

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð.

Hagafell

Hraunfossin (-tröðin) vestan Hagafells.

Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur

Sundhnúkahraun

Sprungur í Sundhnúkahrauni.

Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum. Má í því sambandi minna á jarðskjálftana á Reykjanesi 30. september 1967.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi (4. mynd).

Ummyndun og jarðhiti

Bláa lónið

Grindavík ofanverð – kort.

Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0° C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.
Rétt austan við veginn norðan í Selhálsi hefur hraunið runnið út á svæði, sem er mjög ummyndað af jarðhita. Það er athyglisvert, að hraunið sjálft er þarna líka nokkuð ummyndað, en það sýnir, að þarna hefur verið virkur jarðhiti, eftir að hraunið rann, þ. e. fyrir eitthvað skemur en um það bil 2400 árum.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Ummyndun eftir jarðhita er þarna víða í kring, bæði í Þorbjarnarfelli og Svartsengisfelli. Sömuleiðis er mikil jarðhitaummyndun í austustu gígunum í Eldvörpum við hina fornu slóð milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Boranir þær, sem gerðar voru á þessum stað 1971, hafa staðfest, að þarna er um háhitasvæði að ræða.
Ef marka má af ummyndun, og eins því á hve stóru svæði vart verður við gufur í hraununum við hagstæð skilyrði, þá er svæðið ekki lítið. Eftir er nú að kanna takmörk þess.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.02.1974, Sundhnúkahraun við Grindavík, Jón Jónsson, bls. 145-153.

Sundhnúkahraun

Ein af gersemum Sundhnúkahrauns.