Eldvörp

Gengið var um Sundvörðuhraun, svonefnd “Tyrkjabyrgi” og skútar sem eignaðir hafa verið útilegumönnum og m.a. “brauðofninn” skoðaður, auk þess sem ætlunin var að gaumgæfa svæðið betur m.t.t. mögulegra minja eða ummerkja eftir veru fólks á svæðinu fyrrum.

Eldvörp

Mannvistarleifar í skúta í Eldvörpum.

Við leit í nágrenni “útilegumannahellis”, sem FERLIR fann fyrir ári, kom í ljós einn merkilegur fornleifafundurinn á Reykjanesskaganum; tvo heilleg hlaðin hús. Þá fannst hlaðið byrgi. Út frá því var hlaðinn garður. Allt var þetta þakið mosa og því erfitt að koma auga á það. Líklegt má telja að enn eigi eftir að finnast fornar minjar í hraununum ofan við Grindavík.
Haldið var stað frá borholinu í Eldvörpum. Þegar leggja átti í Brauðstíginn austan borholusvæðisins kom í ljós hlaðið lítið byrgi. Þakið hafði fallið niður. Út frá því var hlaðinn lágur garður. Hér gæti verið um leiðigarð fyrir tófu að ræða út frá bergvegg því þarna var lengi vel auðunnið greni. Byrið gæti því hafa verið skjól fyrir refaskyttu.

Eldvörp

Óraskað byrgi í Eldvörpum.

Þá var komið niður í “Tyrkjabyrgin svonefndu undir hraunbrún og inni í einum krika Sundvörðuhrauns. Í krikanum og upp á hraunöxlinni að sunnanverðu eru um tugur hlaðinna byrgja. Þau fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883. Gerður var uppdráttur af svæðinu.
Sumir segja að byrgi þessi hafi verið aðsetur útilegumanna, en aðrir segja að í þeim hafi fólk dulist um sinn eftir að Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627. Byrgin eru fremur lítil, aflöng og þröng. Eitt kringlótt byrgi er uppi á hraunbrúninni og önnur þar hjá. Ummerki eru eftir mannvistir í skútum talsvert vestar í Eldvörpum. Hlaðin refagildra er framan við syðstu byrgin.
Ef einhver eða einhverjir hafa viljað dyljast þarna um sinn væri það tiltölulega auðvelt. Fyrir ókunnuga er mjög erfitt að finna staðinn, auk þess sem hann fellur vel inn í landslagið. Þótt mosinn hafi sest á byrgin og hraunið í kring er líklegt að þau hafi engu að síður fallið vel inn í landslagsmyndina þá og þegar þau voru gerð.

Eldvörp

Byrgi í Eldvörpum.

Eftir að hafa skoðað mörg byrgi á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. ofan við Húsatóttir, í Strýthólahrauni, í Slokahrauni, austan við Ísólfsskála, á Selatöngum, við Herdísarvík og við gömlu Hafnabæina er að sjá sem margt sé líkt með þeim. Svipað lag er á þessum byrgjum og t.d. í Slokahrauni og við Herdísarvík. Því er ekki útilokað að byrgin undir Sundvörðuhrauni hafi um tíma verið ætlað eða þjónað þeim tilgangi að varsla þurrkaðan fisk eða annan varning frá hreppsstjórasetrinu Húsatóttum. Eitt helsta verkefni hreppsstjórans var fátækrahjálp og samtrygging ef eitthvað bar út af. Þarna gæti því hafa verið forðabúr hreppsins. Refagildran við byrgin, sem að öllum líkindum er jafngömul þeim, segir þó sína sögu. Ekki er víst að byrgin hafi verið mikið notuð. Líklega hefur staðsetningin þótt óhentug.

Eldvörp

Garður í Eldvörpum.

Byrgin í Sundvörðuhrauni fengu enn nýjan merkingamöguleika síðar í ferðinni. Ekki er ástæða er til að draga úr tilgátum manna um aðra notkun og tilgang, sbr. framangreint, enda má telja líklegt að fólk hafi dvalið, eða hafi ætlað að dvelja þarna í skjóli hraunsins, ekki síst í ljósi þess að mannvistarleifar hafa fundist þar á öðrum stöðum í nágrenninu.
Þá var haldið suðaustur eftir Brauðstígnum og honum fylgt að girðingu. Gengið var til suðurs með girðingunni, en með henni liggur slóði. Syðst við girðingarhornið var vent til austurs, inn í hrauni. Á loftmynd, sem skoðuð hafði verið, sást þar gróin lægð inni í hrauninu. Grunur var um að þar væri komið svonefnt Sauðabæli, sem getið er um á sumum kortum og í örnefnaskrá. Svæðið er algerlega utan gönguleiða og sennilega hafa fáir komið þarna inn í úfið og ógreiðfært hraunið í fjölda ára. Um er þó að ræða fallegt og aðgengilegt svæði. Í því er skjól fyrir öllum áttum. Stígur liggur upp í krikann og er hlaðið fyrir haft þar sem það er þrengst neðarlega í honum. Bendir það til þess að svæðið hafi einhvern tímann verið notað til einhvers og að öllum líkindum hefur það verið meira grasi gróið fyrrum, en nú er mosinn óðum að taka yfirhöndina. Að öllum líkindum er þarna um svonefndan Miðkrókakrika að ræða. Sauðbælin bíða því opinberunar.

Eldvörp

Gengið um Eldvörp.

Gengið var áfram til vesturs upp úfið og mosavaxið hraunið. Mosinn var frosinn svo ganngan var tiltölulega létt. Sunnan hraunrandarinnar liggur Prestastígurinn, gömlu þjóðleið milli Grindavíkur og Hafna. Á henni er m.a. gengið yfir fallega brúaða Hrafnagjá og eftir vel varðaðri götunni. Í úfnu hrauninu sást af og til móta fyrir stíg, sem einhvern tímann hefur verið farin.
Þegar komið var upp í Eldvarpagígaröðina var stefnan tekin til norðurs með henni vestanverðri uns komið var á svæðið þar sem hinn svonefndi “útilegumannahellir” fannst fyrir ári.
Jarðlægur einir teygði úr sér í brekku. Nóg er af honum í Eldvörpum. Einnig tófugras í hraunæðum og jarðföllum. Klepragíganir mynda svo til beina röð gíga og eru þeir hverjir öðrum stórbrotnari og fegurri. Þegar stigið er niður í hraunið undir gígunum brotnar það undan fótum, sem sýnir hversu lítið hefur verið farið um svæðið. Að mörgu leyti er það bæði ósnortið og óskoðað. Fallegar hraunæðar eru þarna víða sem og djúp jarðföll.
Í efri rás hellisins er steinum raðað skipulega eins og þar hafi verið mynduð tvö fleti. Sjálf rásin var mjög aðgengileg og náði upp hraunið um 15 metra. Hliðarrás er í henni, en hún var ekki skoðuð. Falleg rás. Niðri var góð hraunbóla og inni í henni mun meiri hleðslur. Hlaðið hafði verið fyrir op og framan við það var skeifulaga hleðsla. Bólan var um 6 metrar þannig að þessi rás er yfir 20 metrar. Fulltrúi hellamanna skreið yfir fyrirhleðsluna. Þar er löng rás. Bein eru í rásinni. Eftir u.þ.b. 30 metra skiptist hún í tvennt og liggja báðir angar niður á við. Samtals er sá hluti rásarinnar, sem kannaður hefur verið, um 50 metrar. Endarnir eru enn ókannaðir.

Eldvörp

Við byrgin í Sundvörðuhrauni.

Rætt var um að eflaust mætti finna fleiri mannvistarleifar á þessu svæði ef vel væri að gáð og hugsanlega komast að því til hvers og hvenær staðirnir voru notaðir. Ferðamálafulltrúi Grindavíkur, sem var með í ferð, glöggskyggn, stóð um stund og horfði yfir svæðið, leit upp og síðan niður. Þá gerðist það. Svo til undir fótum hans voru tvö heilleg hlaðin byrgi (hús) lík þeim sem eru í Sundvörðuhrauni. Þessi byrgi eru hins vegar alveg heil, mosavaxin að utan, og þunnar hraunhellur, sem notaðar hafa verið í þak, lágu á gólfi þeirra. Engin ummerki voru eftir mannaferðir í nágrenninu. Þarna gerðist það, sem gerist svo oft í FERLIRsferðum; tilgangi ferðarinnar var náð. Enn ein skrautfjöðurin í hatt Grindvíkinga og enn einn útivistarskoðunarmöguleikinn á Reykjanesskaganum hafa litið dagsins ljós. En fundurinn gefur einnig tilefni til íhugunar. Víðar kunna slíkar minjar að leynast og því þarf að fara varlega um svæðið með stórvirkar vinnuvélar.
Þegar Sundvörðuhraunsbyrgin uppgötvuðust árið 1872 þótti það merkilegt. Þessi fundur er litlu minna merkilegur, nú 134 árum síðar. Eftirleiðis verða þessi byrgi nefnd Eldvarpabyrgin. Yngsta Eldvarpahraunið í sunnanverðum Eldvörpum er frá því á 13. öld og er þetta að öllum líkindum í því. Um tilurð byrgjanna hafa “sérfræðingar” etið hver upp eftir öðrum, en í þeim efnum er ekki allt sem sýnist.

Loks var haldið yfir að “útilegumannahelli” vestan við borholuna í Eldvörpum. Hann er örstutt frá borholunni í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar. Til eru gamlar sagnir af Staðhverfingum er nýttu Eldvörpin til brauðgerðar. Bæði er að þarna hefur verið miklu mun meiri hiti fyrrum auk þess sem stígurinn í gegnum hraunið að þessum hluta Eldvarpa heitir Brauðstígur. Ummerki inni í hellinum benda og til brauðgerðar.
Loftlínumöstur Hitaveitu Suðurnesja rýrðu mjög annars hið stórbrotna útsýni frá Eldvörpunum til vesturs og norðurs.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Í Tyrkjabyrjunum

Áð við Tyrkjabyrgin.