Ísólfsskáli
FERLIR bregst jafnan skjótlega við berist tilkynningar um áhugaverð og aðkallandi efni. Einn félaganna hafði haft spurnir að því að hellir hefði opnast við framkvæmdir við svonefndan Suðurstrandarveg austan Grindavíkur. Upplýsingarnar bárust svo til í beinu framhaldi af opinberuninni.
ÍsólfsskáliVegaframkvæmdir stóðu yfir á Suðurstrandarveginum ofan Grindavíkur, milli Hrauns og Ísólfsskála orið 2006. Þegar Arnar Helgason, stjórnandi stórrar (65 tonna) gröfu verktakans Háfells var [23. maí 2006] að grafa í Bjallarbrúnina vestan við Bólið, fyrrum fjárskjól frá Ísólfsskála, þar sem vegurinn á að liggja niður hann samhliða og austan núverandi vegstæðis, greip skóflan skyndilega í tómt. Í ljós kom að hún hafði verið rekin niður í geysistórt holrúm og stóð grafan uppi á miðju hvolfþakinu. Arnari brá skiljanlega í brún, dró þó andann djúpt og færði gröfuna varlega á örugga undirstöðu. Þarna hefði getað farið illa.
Verktakinn tilkynnti atvikið til jarðfræðings Vegagerðarinnar, sem á eftir að skoða fyrirbærið. Vegfarandi, sem leið átti þarna hjá um það leyti er jörðin opnaðist undan gröfukjaftinum, hafði þegar samband við þá er einna mestan áhuga hafa sýnt á svæðinu.
Þegar Björn Hróarsson, jarð- og hellafræðingur, og einn FERLIRsfélaganna, áhugamaður um útivist, minjar og náttúru- og jarðfræðifyrirbæri á Reykjanesskaganum, komu á vettvang skömmu eftir atvikið, blasti gímaldið við, 12-15 metra djúpt. Angar virtust liggja til norðurs og suðurs, m.a. undir núverandi vegstæði.
Gímaldið hefur myndast sem holrúm í blöndu af gjósku, jökulruðningi og sjávarmöl. Það er í jaðri móberghryggs ofan við Bjallann. Giskað er á að það hafi myndast er gos varð undir jökli er myndaði Slöguna. Risastórt klakastykki hefur þá brotnað úr jöklinum og jarðefni safnast umhverfis það. Ísstykkið hefur síðan bráðnað hægt og skilið þetta mikla holrúm eftir. Sjávarstaðan hefur þá verið þarna í brúninni. Vegna ísfargsins hefur landið legið mun lægra en nú er, en það síðan lyft sér við bráðnun jökulsins.  Einnig gæti verið um gamlan sjávarhelli að ræða, en það mun væntanlega upplýsast við nánari skoðun. Reynt var að nota arm og skóflu gröfunnar til Ísólfsskáliað koma manni til botns, en þrátt fyrir lengd hans náði hann einungis hálfa leið að botni.
Hér er að öllum líkindum um mjög sérstakt jarðfræðifyrirbæri að ræða, sennilega einstakt, jafnvel á heimsvísu. Það mun þó koma í ljós við nánari skoðun, sem væntanlega mun fara fram fljótlega. Þá þarf að taka ákvörðun um afdrif þess því það er í núverandi vegstæði.
Ekki ósvipuð myndun er á Höfðabrekkuafrétti við veginn upp í Lambaskarðshóla.
Benda má á að viðundirbúning Suðurstrandarvegar bentu félagar í Hellarannsóknarfélaginu m.a. á mikilvægi þess að vegstæðið yrði gaumgæft m.t.t. hella á svæðinu, því öruggt mætti telja að á því væru margir hellar og fleiri til viðbótar myndu koma í ljós þegar farið yrði að grafa fyrir veginum. Má segja að opinberun þessi séu sönnun þeirra orða og reyndar ekki sú fyrsta. Enn er verkið skammt á veg komið. Aðilar eru þó sammála um að vilja eiga með sér gott samstarf ef og þegar ástæða verður til eða gaumgæfa þarf eitthvað er finnst, líkt og í þessu tilviki.
Í örnefnaskrá fyrir Ísólfsskála, skráða af Ara Gíslasyni eftir heimildarmanninum Guðmundi Guðmundssyni, þáverandi bónda á Ísólfsskála, kemur m.a. eftirfrandi fram um þetta svæði og næsta nágrenni:
“Bjallinn er ofan við Ísólfsskála. Hjálmarsbjalli er fremstur. Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Skollahraun er suður af því. Niður af, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista. [Kistan sést vel úti í Skollahrauni þegar komið er að Bjallnum eftir Ísólfsskálavegi úr vestri]. Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból, við alllangan hamravegg.
Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar. Vestan við þá heitir Lágar. [Lágar eru ofan við Bjallan]. Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar. Er mikið Ísólfsskálihér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði.”
Loftur Jónsson skráði einnig örnefi á og við Ísólfsskála. Um þetta svæði segir hann: “Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur. Stór klettur er þar sem Hattur heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir. Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður. Stórusteinar er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos. Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur. Fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista.” Og þá erum við komin hringinn um nærsvæðið þar sem vegurinn kemur niður Bjallann vestan við Bólið.
Hér eru jafnframt tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Við spurningunni “Hvernig er Ból?” svarar hann: “Hellisskúti þar sem fé var geymt í.” Meðfylgjandi mynd er úr fjárskjólinu Ból undir Bjallnum.
Forvitnilegt verður að fylgjast með sérfræðingum er rannsaka munu gýmaldið nýopinberaða og skýringum þeirra á tilurð þess. Það mun þó kýrskýrt að þarna er um að ræða enn eina “dularperlu” Grindavíkur, en sannlega má segja að fleiri slíkar séu enn óopinberaðar í umdæmi hennar.
[Nokkrum dögum síðar var gýmaldið fyllt og þannig gert að engu. Líkast til var það óhjákvæmilegt, bæði vegna þess að ekki var um annað vegstæði að ræða á þessum stað og auk þess var um talsvert grjóthrun að ræða úr opi þess. Því var vettvangurinn varhugaverður og beinlínis hættulegur fyrir óvana].
Framangreint efni varð einungis til vegna glöggskyggni FERLIRsfélaga og markvissra viðbragða hans – þökk sé honum. Í raun er fyrirbærið dæmigert fyrir hellamyndanir á móbergssvæðum, s.s. á Suðurlandi þar sem margir “manngerðir” hellar ku vera.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.