Færslur

Krýsuvík

Eftirfarandi umfjöllun um nýjan Suðurstrandarveg birtist í Fréttablaðinu þann 5. nóv. 2011.
Af Krysuvik-222umfjölluninni að dæma mátti ætla að engar samgöngur hefðu verið á svæðinu fram að opnun Suðurstrandarvegar, þrátt fyrir að fjölfarin forn þjóðleið hafi legið þar um fyrrum auk þess sem vagnvegur var lagður um það 1932 og síðan vinsæll bílvegur áratug síðar. Þegar framangreint er haft í huga vekur lestur greinarinnar á köflum allnokkra kátínu þeirra er til þekkja.

“Nýr Suðurstrandarvegur er tilbúinn. Loksins, segja íbúar Suðurnesja og Suðurlands enda biðin orðin löng eftir því að eitt vinsælasta kosningaloforð allra tíma yrði efnt. Gunnar V. Andrésson ljósmyndari og Svavar Hávarðsson fóru á rúntinn einn dagpart.
Einhver hafði á orði nýlega að íbúar Grindavíkur og Þorlákshafnar væru búnir að fá sín jarðgöng. Þar Arnarfellsrett-222er vísað til nýs Suðurstrandarvegar á milli staðanna tveggja sem var opnaður almennri umferð á dögunum og þeirra möguleika sem hann gefur í atvinnu- og byggðamálum almennt. Varla er ofsagt að þessi tenging Suðurnesja og Suðurlands sé bylting sem er samanburðarhæf við tengingu byggða með jarðgöngum.

Loforð
Hugmyndir um lagningu góðs vegar á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar eru ekki nýjar af nálinni. Það var þó ekki fyrr en með kjördæmabreytingu fyrir alþingiskosningarnar 2003 sem málið komst á verulegt flug. Þá voru Suðurnes og Suðurland sameinað í eitt kjördæmi, Suðurkjördæmi, og kosið eftir því breytta fyrirkomulagi.
Krysuvikurbjarg-222Í kjölfarið var mikið rætt um aukna samvinnu þessara ólíku svæða og forsenda þess talin nýr Suðurstrandarvegur. Þá strax, árið 2003, lá fyrir mat á umhverfisáhrifum og í raun ekkert að vanbúnaði að hefjast handa. Frá þeim tíma hefur nýr vegur ítrekað verið notaður sem gulrót í atkvæðaveiðum stjórnmálanna en einhverra hluta vegna hefur framkvæmdum verið frestað eða fjármagn, sem til framkvæmdarinnar hefur verið ætlað á fjárlögum, verið nýtt til annarra verka. Gárungar hafa því kallað Suðurstrandarveg “mest svikna kosningaloforðið” með réttu eða röngu.
Þegar grannt er skoðað var lokið við smá stubba við Grindavík og Þorlákshöfn árið 2006 og lengt í árin 2009 og 2010. Tveir áfangar eru teknir í Selalda-222notkun núna, tíu mánuðum fyrr en ætlað var þó það hljómi undarlega þegar saga vegarins er höfð í huga.

Torfærur
Suðurstrandar-vegurinn gamli, sem nú hefur verið leystur af hólmi, var lélegur malarvegur. Alræmdur var hann fyrir að teppast fljótt í snjókomu eða skafrenningi; hann var krókóttur og blindhæðir fjölmargar. Á löngum köflum var erfitt að mæta öðrum bíl og þegar allt er talið var vegurinn vart nothæfur, og alls ekki þegar kröfur tímans og umferðaröryggi og þægindi eru höfð í huga.

Eitt atvinnusvæði
Selatangar-222Kannski má segja að mesta breytingin sé sameining byggða á Suðurnesjum og á Suðurlandi í eitt atvinnusvæði. Fyrst koma upp í hugann hagsmunir útgerðanna; fiskflutningar og nýting hafnarmannvirkja.
Tenging við Keflavíkurflugvöll hlýtur að nýtast þeim sem flytja út ferskt sjávarfang en þegar eru flutningar á fiski miklir á milli landshluta, allt frá Austfjörðum. Álagið hefur allt verið á öðrum samgönguæðum, eins og Hellisheiði og öðrum stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Líta þarf því til þess að nýr Suðurstrandarvegur dreifir álagi slíkra þungaflutninga og annarra á milli landshluta. Það hefur í för með sér hagræði og aukið umferðaröryggi sem mjög hefur verið kallað eftir á fjölförnum leiðum.

Husholmi-222

Í anda þeirra hugmynda um nýja kjördæmaskipan sem kynntar voru fyrir kosningarnar 2003 hlýtur samstarf sveitarfélaga að aukast. Hvernig því verður háttað á eftir að koma í ljós en auðvitað auðveldar samgöngubót sem þessi öll samskipti fólks og fyrirtækja.

Ferðaþjónusta
Þá er ónefndur helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs sem er ferðaþjónusta. Mikill meirihluti erlendra gesta fer um Leifsstöð og þaðan norður Reykjanes til Reykjavíkur. Nú er þetta náttúrulögmál úr sögunni með Suðurstrandarvegi. Ekkert mælir því lengur mót að sniðganga höfuðborgarsvæðið, alfarið eða tímabundið, og leggja í ferð um landið sunnanmegin frá.

 

Katlahraun 222

Kannski má taka svo djúpt í árinni að fyrir margan ferðamanninn sé eftirsóknarvert að sniðganga Reykjanesbrautina og Hellisheiði í upphafi ferðalags. Sá sem hér heldur á penna vill meina að náttúruupplifun sé takmörkuð á þeirri leið, sé það tilgangur ferðalangsins að “skoða landið”.
En kannski er það vegna hughrifa frá ferðalagi mínu í vikunni um þetta svæði sem mér var framandi allt til þessa dags.

Sunnudagsrúnturinn
En fyrir allan almenning er breytingin ekki minni. Styttri ferðalög, eða “sunnudagsrúnturinn”, er fastur liður hjá fjölda fólks og er ekki ofsagt að Suðurstrandarvegur gæti valdið þessum hópi valkvíða þar sem nú opnast möguleikar til hring ferða af öllum stærðum og gerðum um Reykjanes. Það væri til að æra óstöðugan að geta þeirra möguleika allra, enda smekkur fólks misjafn.
Saengurkonuhellir-222

Hins vegar mun ferðamennska og útivist á svæðinu aukast að mun frá því sem er í dag. Það gæti kannski komið einhverjum á óvart en Reykjanesið sunnanvert geymir perlur hvert sem litið er. Mannvistarleifar eru sérstakar og við hvert fótmál. Ekki þarf að leggjast í miklar rannsóknir til að finna óviðjafnanlega fegurð og dæmi um lífið í landinu sem eiga sér vart hliðstæðu annars staðar. Reykjanesið er jafnframt gnægtahorn fyrir áhugafólk um jarðfræði og má þá ekki líta fram hjá Krýsuvíkurleiðinni fram hjá Kleifarvatni sem tengist Suðurstrandarvegi. Yfirvöld mættu hins vegar gera nauðsynlegar vegabætur á þeirri leið í samhengi við aukinn áhuga fólks á að ferðast um svæðið.

Öryggi
Notarholl-222Þegar hefur verið minnst á aukið umferðaröryggi samfara opnun vegarins. Þar stendur upp úr að ný leið mun létta álagi af stofnbrautum þar sem umferðarálag er meira en gott þykir. Það er þó önnur hlið á þeim peningi.
Tenging Suðurlands við höfuðborgarsvæðið til þessa hefur verið um fjallvegi; Hellisheiði og Þrengsli. Árlega kemur upp sú staða að þessir vegir lokast eða verða torfærir vegna veðurs. Nú er kominn valkostur til að forðast þessar erfiðu aðstæður og augljósa hættu. Suðurstrandarvegur liggur miklum mun lægra og er hannaður með það fyrir augum að vera auðfarinn á öllum tímum árs.
Þegar Suðurstrandarvegur er keyrður vekur það hugmyndir um aukin lífsgæði íbúanna nær og fjær. Er þá vert að hafa hugfast að landið er dyntótt. Kannski mun gildi þessa vegspotta endanlega sanna sig þegar vá ber að höndum vegna náttúruhamfara.”
Við þetta má bæta að þrátt fyrir rándýrt nýtt vegarstæði er hvorki gert ráð fyrir útskotum svo áhugasamt fólk um útivist getur lagt ökutækjum sínum til að berja dásemd svæðisins augum né merkingum til að auðvelda fólki aðgengi að því.

Heimild:
-Fréttablaðið 5. nóv. 2011, bls. 36.

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Skálavegur

Fornleifaskráning vegna mats á umhverfisáhrifum Suðurstrandarvegar var gerð af Bjarna F. Einarssyni árið 2003. Ástæða er til að vekja athygli á eftirfarandi atriðum er vantar í skráninguna.

Krýsuvíkurheiði

Hlaðið hús í Krýsuvíkurheiði.

Í fornleifaskráningu við Arnarfell vantar skjól austan undir fellinu, brunn suðvestan undir fellinu, skjól norðan í fellinu og tvö vörðubrot sunnan undir fellinu á gamalli leið frá Arnarfellsbænum austur fyrri Bleiksmýrartjörn, áleiðis að Jónsbúð og um Klofninga.
Ögmundarvegur hinn forni er færður suður í Ögmundarhraun þar sem Húshólmastígur liggur frá austurjarðri Ögmundarhrauns inn í Húshólma. Norðar er Ögmundardys við hinn forna Ögmundarstíg. Árið 1932 var lögð vagngata ofan í stíginn fyrir tilstuðlan Hlínar Johnsen í Krýsuvík. Vegagerðin var greidd af henni. Þó sést sumstaðar í hinn forna Ögmundarstíg þar sem ofaníburðurinn hefur fokið burt.

Hraun

Sigurður Gíslason sýnir refagildru ofan Hrauns.

Sæluhúsið undir Lat er nefnt fjárskjól og dundursvörður fóstbræðranna á Skála, Bergs og Brands, á fyrri hluta 20. aldar eru sagðar vera við forna þjóðleið. Þjóðleiðin lá mun sunnar enda sjást þess glögg merki í hrauninu. Vörðurnar hlóðu drengirnir hins vegar af gamni sínu – fjarri öllum leiðum.
Gömlu vagngötunnar um Siglubergsháls er hvergi getið, enda er hún nú komin að hluta undir hinn nýja Suðurstrandarveg um Siglubergsháls. Ekki er minnst á Gamlabrunn og ekki er að sjá að krossrefagildrunnar ofan við Sandleyni sé getið í skráningunni. Og þá ber að telja að “Tyrkjahellisins” á sunnaverðum Húsfellshálsi, Efri-Hellum, er hvergi getið í fornleifaskáningunni, en vegurinn á á liggja um hálsinn. Þar segir þjóðsagan að Grindvíkingar hafi ætlað að flýja undan Tyrkjanum, ef og þegar hann sneri aftur.

Þrátt fyrir vel meinta fornleifaskráningu er ljóst að taka ber slíkar skráningar með varúð. Svæði sem þetta verður seint fullkannað, enda erfitt yfirferðar á köflum. Hellar, sem víða leynast í hraununum, eru ágætt dæmi um vandmeðferðina. Ef vel ætti að verki staðið tæki skynsamleg fornleifakönnun á svæði sem þessu 2-3 ár.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Suðurstrandarvegur

Suðurstrandarvegurinn nýi var formlega opnaður kl. 14:00 þann 21. júní s.l. að viðstöddum Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, Hreini Haraldssyni vegamálastjóra og fleiri gestum með hefðbundinni borðaklippingu. Athöfnin fór fram á veginum rétt austan við vegamótin við Krýsuvíkurveg.
Sudurstrandarvegur-502Undirbúningur að lagningu núverandi Suðurstrandarvegar hófst hjá Vegagerðinni á árinu 1996, þegar vegamálastjóri skipaði hönnunarhóp sem skildi hafa umsjón með hönnun vegarins. Vegurinn er 57 km langur frá Grindavík í vestri að Þorlákshöfn í austri (reyndar er hann jafnlangur hvora leiðina sem farin er). Liggur hann um þrjú sveitarfélög; Grindavík, Hafnarfjarðarbæ og sveitarfélagið Ölfus.
Áætlaður heildarkostnaður vegna verksins er rétt tæpir 3 milljarðar kr. uppreiknað til verðlags í dag.
Sudurstrandarvegur-503Markmið framkvæmdarinnar var að byggja upp varanlega og örugga vegatengingu milli Suðurlands og Suðurnesja til hagsbóta og öryggis fyrir atvinnulíf og íbúa á svæðunum. Auk þess að auka umferðaröryggi með vegi sem uppfyllir nútíma veghönnunarreglur og leggja bundið slitlag á veginn. Með framkvæmdinni hefur aðgengi ferðafólks verið stórbætt að svæði með stórbrotna náttúrufegurð og mikið útivistargildi. Auk þess gefur nýr Suðurstrandarvegur fyrirtækjum í ferðaþjónustu möguleika á að bjóða upp á áhugaverða tengingu og hringferðir frá Keflavíkurflugvelli að mikið sóttum ferðamannastöðum á Suðurlandi.
Til gamans er rétt að rifja upp tímaskeið fyrri vega á millum þessara staða nú þegar hinn nýi asfaltlagði vegur hefur verið lagður og gerður akfær (árið 2012).
Sudurstrandarvegur-505Fornar göngu og reiðleiðir hafa legið austur og vestur með suðurströnd Reykjanesskagans allt frá fyrstu tíð búsetu hér á landi. Eftir að Skálholtsstóll eignaðist flestar jarðirnar á svæðinu varð það eitt mesta forðabúr biskupssetursins. Jafnvel svo mikilvægt að dæmi eru um að fella hafi þurft niður skólahald í Skálholtsskóla þegar aflabrestur varð á vertíðum í og við Grindavík. Af meitluðum götunum í berghelluna má ætla að skreiðarlestar-ferðirnar hafi verið margar á þessu tímabili.
Við opnun nýja vegarins eru liðin nákvæmlega 80 ár frá því að fyrsti vagnvegurinn var lagður milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Það var Hlín Johnson, sem greiddi fyrir lagninguna sumarið 1932, en þá áttu hún og bóndi hennar, Einar Benediktsson, skáld, bæði Herdísarvík í Ölfushreppi og Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhreppi. Tilgangurinn var að búa til leið til að koma heyfeng síðarnefndu jarðarinnar í verð í Grindavík. Þessi vagnvegur var að mestu lagður ofan í gömlu reiðleiðina. Hann varð einnig, til að byrja með, farvegur fyrstu bílanna, sem þarna fóru á milli.
Árin 1946 og ’47 var síðan lagður akfær vegur milli Ölfus og Grindavíkur. Sá vegur hefur að mestu leyti legið í farvegi þess vegar er sá nýi leysir nú af hólmi, eða í 65 ár.
Suðurstrandarvegur

Vígsla Suðurstrandarvegar.

 

Ísólfsskáli
FERLIR bregst jafnan skjótlega við berist tilkynningar um áhugaverð og aðkallandi efni. Einn félaganna hafði haft spurnir að því að hellir hefði opnast við framkvæmdir við svonefndan Suðurstrandarveg austan Grindavíkur. Upplýsingarnar bárust svo til í beinu framhaldi af opinberuninni.
ÍsólfsskáliVegaframkvæmdir stóðu yfir á Suðurstrandarveginum ofan Grindavíkur, milli Hrauns og Ísólfsskála orið 2006. Þegar Arnar Helgason, stjórnandi stórrar (65 tonna) gröfu verktakans Háfells var [23. maí 2006] að grafa í Bjallarbrúnina vestan við Bólið, fyrrum fjárskjól frá Ísólfsskála, þar sem vegurinn á að liggja niður hann samhliða og austan núverandi vegstæðis, greip skóflan skyndilega í tómt. Í ljós kom að hún hafði verið rekin niður í geysistórt holrúm og stóð grafan uppi á miðju hvolfþakinu. Arnari brá skiljanlega í brún, dró þó andann djúpt og færði gröfuna varlega á örugga undirstöðu. Þarna hefði getað farið illa.
Verktakinn tilkynnti atvikið til jarðfræðings Vegagerðarinnar, sem á eftir að skoða fyrirbærið. Vegfarandi, sem leið átti þarna hjá um það leyti er jörðin opnaðist undan gröfukjaftinum, hafði þegar samband við þá er einna mestan áhuga hafa sýnt á svæðinu.
Þegar Björn Hróarsson, jarð- og hellafræðingur, og einn FERLIRsfélaganna, áhugamaður um útivist, minjar og náttúru- og jarðfræðifyrirbæri á Reykjanesskaganum, komu á vettvang skömmu eftir atvikið, blasti gímaldið við, 12-15 metra djúpt. Angar virtust liggja til norðurs og suðurs, m.a. undir núverandi vegstæði.
Gímaldið hefur myndast sem holrúm í blöndu af gjósku, jökulruðningi og sjávarmöl. Það er í jaðri móberghryggs ofan við Bjallann. Giskað er á að það hafi myndast er gos varð undir jökli er myndaði Slöguna. Risastórt klakastykki hefur þá brotnað úr jöklinum og jarðefni safnast umhverfis það. Ísstykkið hefur síðan bráðnað hægt og skilið þetta mikla holrúm eftir. Sjávarstaðan hefur þá verið þarna í brúninni. Vegna ísfargsins hefur landið legið mun lægra en nú er, en það síðan lyft sér við bráðnun jökulsins.  Einnig gæti verið um gamlan sjávarhelli að ræða, en það mun væntanlega upplýsast við nánari skoðun. Reynt var að nota arm og skóflu gröfunnar til Ísólfsskáliað koma manni til botns, en þrátt fyrir lengd hans náði hann einungis hálfa leið að botni.
Hér er að öllum líkindum um mjög sérstakt jarðfræðifyrirbæri að ræða, sennilega einstakt, jafnvel á heimsvísu. Það mun þó koma í ljós við nánari skoðun, sem væntanlega mun fara fram fljótlega. Þá þarf að taka ákvörðun um afdrif þess því það er í núverandi vegstæði.
Ekki ósvipuð myndun er á Höfðabrekkuafrétti við veginn upp í Lambaskarðshóla.
Benda má á að viðundirbúning Suðurstrandarvegar bentu félagar í Hellarannsóknarfélaginu m.a. á mikilvægi þess að vegstæðið yrði gaumgæft m.t.t. hella á svæðinu, því öruggt mætti telja að á því væru margir hellar og fleiri til viðbótar myndu koma í ljós þegar farið yrði að grafa fyrir veginum. Má segja að opinberun þessi séu sönnun þeirra orða og reyndar ekki sú fyrsta. Enn er verkið skammt á veg komið. Aðilar eru þó sammála um að vilja eiga með sér gott samstarf ef og þegar ástæða verður til eða gaumgæfa þarf eitthvað er finnst, líkt og í þessu tilviki.
Í örnefnaskrá fyrir Ísólfsskála, skráða af Ara Gíslasyni eftir heimildarmanninum Guðmundi Guðmundssyni, þáverandi bónda á Ísólfsskála, kemur m.a. eftirfrandi fram um þetta svæði og næsta nágrenni:
“Bjallinn er ofan við Ísólfsskála. Hjálmarsbjalli er fremstur. Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Skollahraun er suður af því. Niður af, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista. [Kistan sést vel úti í Skollahrauni þegar komið er að Bjallnum eftir Ísólfsskálavegi úr vestri]. Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból, við alllangan hamravegg.
Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar. Vestan við þá heitir Lágar. [Lágar eru ofan við Bjallan]. Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar. Er mikið Ísólfsskálihér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði.”
Loftur Jónsson skráði einnig örnefi á og við Ísólfsskála. Um þetta svæði segir hann: “Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur. Stór klettur er þar sem Hattur heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir. Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður. Stórusteinar er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos. Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur. Fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista.” Og þá erum við komin hringinn um nærsvæðið þar sem vegurinn kemur niður Bjallann vestan við Bólið.
Hér eru jafnframt tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Við spurningunni “Hvernig er Ból?” svarar hann: “Hellisskúti þar sem fé var geymt í.” Meðfylgjandi mynd er úr fjárskjólinu Ból undir Bjallnum.
Forvitnilegt verður að fylgjast með sérfræðingum er rannsaka munu gýmaldið nýopinberaða og skýringum þeirra á tilurð þess. Það mun þó kýrskýrt að þarna er um að ræða enn eina “dularperlu” Grindavíkur, en sannlega má segja að fleiri slíkar séu enn óopinberaðar í umdæmi hennar.
[Nokkrum dögum síðar var gýmaldið fyllt og þannig gert að engu. Líkast til var það óhjákvæmilegt, bæði vegna þess að ekki var um annað vegstæði að ræða á þessum stað og auk þess var um talsvert grjóthrun að ræða úr opi þess. Því var vettvangurinn varhugaverður og beinlínis hættulegur fyrir óvana].
Framangreint efni varð einungis til vegna glöggskyggni FERLIRsfélaga og markvissra viðbragða hans – þökk sé honum. Í raun er fyrirbærið dæmigert fyrir hellamyndanir á móbergssvæðum, s.s. á Suðurlandi þar sem margir “manngerðir” hellar ku vera.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.