Krýsuvík

Eftirfarandi umfjöllun um nýjan Suðurstrandarveg birtist í Fréttablaðinu þann 5. nóv. 2011.
Af Krysuvik-222umfjölluninni að dæma mátti ætla að engar samgöngur hefðu verið á svæðinu fram að opnun Suðurstrandarvegar, þrátt fyrir að fjölfarin forn þjóðleið hafi legið þar um fyrrum auk þess sem vagnvegur var lagður um það 1932 og síðan vinsæll bílvegur áratug síðar. Þegar framangreint er haft í huga vekur lestur greinarinnar á köflum allnokkra kátínu þeirra er til þekkja.

“Nýr Suðurstrandarvegur er tilbúinn. Loksins, segja íbúar Suðurnesja og Suðurlands enda biðin orðin löng eftir því að eitt vinsælasta kosningaloforð allra tíma yrði efnt. Gunnar V. Andrésson ljósmyndari og Svavar Hávarðsson fóru á rúntinn einn dagpart.
Einhver hafði á orði nýlega að íbúar Grindavíkur og Þorlákshafnar væru búnir að fá sín jarðgöng. Þar Arnarfellsrett-222er vísað til nýs Suðurstrandarvegar á milli staðanna tveggja sem var opnaður almennri umferð á dögunum og þeirra möguleika sem hann gefur í atvinnu- og byggðamálum almennt. Varla er ofsagt að þessi tenging Suðurnesja og Suðurlands sé bylting sem er samanburðarhæf við tengingu byggða með jarðgöngum.

Loforð
Hugmyndir um lagningu góðs vegar á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar eru ekki nýjar af nálinni. Það var þó ekki fyrr en með kjördæmabreytingu fyrir alþingiskosningarnar 2003 sem málið komst á verulegt flug. Þá voru Suðurnes og Suðurland sameinað í eitt kjördæmi, Suðurkjördæmi, og kosið eftir því breytta fyrirkomulagi.
Krysuvikurbjarg-222Í kjölfarið var mikið rætt um aukna samvinnu þessara ólíku svæða og forsenda þess talin nýr Suðurstrandarvegur. Þá strax, árið 2003, lá fyrir mat á umhverfisáhrifum og í raun ekkert að vanbúnaði að hefjast handa. Frá þeim tíma hefur nýr vegur ítrekað verið notaður sem gulrót í atkvæðaveiðum stjórnmálanna en einhverra hluta vegna hefur framkvæmdum verið frestað eða fjármagn, sem til framkvæmdarinnar hefur verið ætlað á fjárlögum, verið nýtt til annarra verka. Gárungar hafa því kallað Suðurstrandarveg “mest svikna kosningaloforðið” með réttu eða röngu.
Þegar grannt er skoðað var lokið við smá stubba við Grindavík og Þorlákshöfn árið 2006 og lengt í árin 2009 og 2010. Tveir áfangar eru teknir í Selalda-222notkun núna, tíu mánuðum fyrr en ætlað var þó það hljómi undarlega þegar saga vegarins er höfð í huga.

Torfærur
Suðurstrandar-vegurinn gamli, sem nú hefur verið leystur af hólmi, var lélegur malarvegur. Alræmdur var hann fyrir að teppast fljótt í snjókomu eða skafrenningi; hann var krókóttur og blindhæðir fjölmargar. Á löngum köflum var erfitt að mæta öðrum bíl og þegar allt er talið var vegurinn vart nothæfur, og alls ekki þegar kröfur tímans og umferðaröryggi og þægindi eru höfð í huga.

Eitt atvinnusvæði
Selatangar-222Kannski má segja að mesta breytingin sé sameining byggða á Suðurnesjum og á Suðurlandi í eitt atvinnusvæði. Fyrst koma upp í hugann hagsmunir útgerðanna; fiskflutningar og nýting hafnarmannvirkja.
Tenging við Keflavíkurflugvöll hlýtur að nýtast þeim sem flytja út ferskt sjávarfang en þegar eru flutningar á fiski miklir á milli landshluta, allt frá Austfjörðum. Álagið hefur allt verið á öðrum samgönguæðum, eins og Hellisheiði og öðrum stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Líta þarf því til þess að nýr Suðurstrandarvegur dreifir álagi slíkra þungaflutninga og annarra á milli landshluta. Það hefur í för með sér hagræði og aukið umferðaröryggi sem mjög hefur verið kallað eftir á fjölförnum leiðum.

Husholmi-222

Í anda þeirra hugmynda um nýja kjördæmaskipan sem kynntar voru fyrir kosningarnar 2003 hlýtur samstarf sveitarfélaga að aukast. Hvernig því verður háttað á eftir að koma í ljós en auðvitað auðveldar samgöngubót sem þessi öll samskipti fólks og fyrirtækja.

Ferðaþjónusta
Þá er ónefndur helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs sem er ferðaþjónusta. Mikill meirihluti erlendra gesta fer um Leifsstöð og þaðan norður Reykjanes til Reykjavíkur. Nú er þetta náttúrulögmál úr sögunni með Suðurstrandarvegi. Ekkert mælir því lengur mót að sniðganga höfuðborgarsvæðið, alfarið eða tímabundið, og leggja í ferð um landið sunnanmegin frá.

 

Katlahraun 222

Kannski má taka svo djúpt í árinni að fyrir margan ferðamanninn sé eftirsóknarvert að sniðganga Reykjanesbrautina og Hellisheiði í upphafi ferðalags. Sá sem hér heldur á penna vill meina að náttúruupplifun sé takmörkuð á þeirri leið, sé það tilgangur ferðalangsins að “skoða landið”.
En kannski er það vegna hughrifa frá ferðalagi mínu í vikunni um þetta svæði sem mér var framandi allt til þessa dags.

Sunnudagsrúnturinn
En fyrir allan almenning er breytingin ekki minni. Styttri ferðalög, eða “sunnudagsrúnturinn”, er fastur liður hjá fjölda fólks og er ekki ofsagt að Suðurstrandarvegur gæti valdið þessum hópi valkvíða þar sem nú opnast möguleikar til hring ferða af öllum stærðum og gerðum um Reykjanes. Það væri til að æra óstöðugan að geta þeirra möguleika allra, enda smekkur fólks misjafn.
Saengurkonuhellir-222

Hins vegar mun ferðamennska og útivist á svæðinu aukast að mun frá því sem er í dag. Það gæti kannski komið einhverjum á óvart en Reykjanesið sunnanvert geymir perlur hvert sem litið er. Mannvistarleifar eru sérstakar og við hvert fótmál. Ekki þarf að leggjast í miklar rannsóknir til að finna óviðjafnanlega fegurð og dæmi um lífið í landinu sem eiga sér vart hliðstæðu annars staðar. Reykjanesið er jafnframt gnægtahorn fyrir áhugafólk um jarðfræði og má þá ekki líta fram hjá Krýsuvíkurleiðinni fram hjá Kleifarvatni sem tengist Suðurstrandarvegi. Yfirvöld mættu hins vegar gera nauðsynlegar vegabætur á þeirri leið í samhengi við aukinn áhuga fólks á að ferðast um svæðið.

Öryggi
Notarholl-222Þegar hefur verið minnst á aukið umferðaröryggi samfara opnun vegarins. Þar stendur upp úr að ný leið mun létta álagi af stofnbrautum þar sem umferðarálag er meira en gott þykir. Það er þó önnur hlið á þeim peningi.
Tenging Suðurlands við höfuðborgarsvæðið til þessa hefur verið um fjallvegi; Hellisheiði og Þrengsli. Árlega kemur upp sú staða að þessir vegir lokast eða verða torfærir vegna veðurs. Nú er kominn valkostur til að forðast þessar erfiðu aðstæður og augljósa hættu. Suðurstrandarvegur liggur miklum mun lægra og er hannaður með það fyrir augum að vera auðfarinn á öllum tímum árs.
Þegar Suðurstrandarvegur er keyrður vekur það hugmyndir um aukin lífsgæði íbúanna nær og fjær. Er þá vert að hafa hugfast að landið er dyntótt. Kannski mun gildi þessa vegspotta endanlega sanna sig þegar vá ber að höndum vegna náttúruhamfara.”
Við þetta má bæta að þrátt fyrir rándýrt nýtt vegarstæði er hvorki gert ráð fyrir útskotum svo áhugasamt fólk um útivist getur lagt ökutækjum sínum til að berja dásemd svæðisins augum né merkingum til að auðvelda fólki aðgengi að því.

Heimild:
-Fréttablaðið 5. nóv. 2011, bls. 36.

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.