Krýsuvík

Skoðaður var fjárhellir Krýsuvíkurbænda í Bæjarfelli, rakin kennileiti og gengið eftir vörslugarðinum mikla á milli Bæjarfells og Arnarfells, yfir Vestari læk og framhjá Arnarfellsbænum. Tóftir hans eru vel greinilegar sunnan undir fellinu. Auk þeirra eru tóftir miðja vegu uppi í fellinu. Efst er Eiríksvarðan, nefnd eftir Eiríku galdrapresti í Selvogi. Nokkrar sögur honum tengdum gerðust í Krýsuvík, s.s. viðureign hans við Tyrkina, sem nú eru dysjaðir í svonefndum Ræningjahól neðan kirkjunnar, en allar eru þær því miður rangfeðraðar í tíma.

Bæjarfell

Bæjarfell.

Haldið var yfir ísilagða Bleiksmýrina og stefnt á heiðina. Eftir stutta göngu var komið að Jónsvörðuhúsi, stórri tótt á miðri Krýsuvíkurheiði. Sagt er að Magnús í Krýsuvík hafi verið hafður þar fyrrum yfir sauðum sumarlangt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Þaðan var haldið að hlöðnu húsi, sem gæti annað hvort hafa verið sæluhús (smalabyrgi) eða húsi tengt mannvirkjunum í Litlahrauni og öðrum nytjum í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg), sem þarna er suðaustan undan hæðinni.

Krýsuvíkurheiði

Smalabyrgi í Krýsuvíkurheiði.

Húsið er sunnan í heiðinni með útsýni um Krýsuvíkurberg frá Keflavík að Selöldu. Þá var haldið á Litla-hraun, skoðaðar minjarnar þar (tóft, hlaðið fjárskjól og rétt) og yfir í Klofninga þar sem komið var við Arnsgrímshelli, fornum fjárhelli, sem þar er á sléttlendi sunnan undir hraunkanti. Arngrímur, bóndi á Læk, hafði fé í hellinum fram undir 1700, er sylla úr berginu féll á höfuð hans – með tilheyrandi afleiðingum.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Þar gerist þjóðsagan um Grákollu o.fl. góðar sögur. Í hellinum eru hleðslur sem og fyrir opum hans. Við eitt opið er tótt undan húsi Krýsuvíkur-Gvendar, sem einnig nýtti hellinn sem fjárhelli um 1830. Gengið var í gegnum Bálkahelli, sem var klakaprýddur og skartaði sínu fegursta. Leitað var tveggja fjárskjóla efst í Eldborgarhrauni. Vitað er nú hvar þau eru og er ætlunin að finna þau óvænt síðar.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans í Kerlingadal.

Loks var staldrað við hjá dysjum Herdísar og Krýsu og rifjuð upp þjóðsaga þeirra kvenna.
Veðrið var gott – sól og lognið í bakið.
Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.