Færslur

Keflavík

Ætlunin var að ganga til suðurs um Fjárskjólshraun undir Geitarhlíð við Krýsuvík með viðkomu í Fjárskjólshraunshelli og Fjárskjólshraunsfjárskjólinu, sem hraunið mun draga nafn sitt af, en halda síðan niður í hina skjólgóðu Keflavík og berja gatklettinn augum. Á loftmynd mátti sjá djúpan gíg norðaustan við Keflavíkina. Austan hennar virðist vera hrauntjörn. Svo var að sjá að hún væri í stefnu neðanvert við enda Bálkahellis, sem gat gefið enn eina von um óvænta aðkomu.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun.

Til baka var ætlunin að ganga um Klofninga með viðkomu í Bjálkahelli og hinum þjóðsagnakennda Arngrímshelli (Gvendarhelli).
Hraunssvæðið/-in, sem hér um ræðir, hafa freistað fárra, enda á fárra vitorði öll merkilegheitin er berja má augum. Ekki eiungis er svæðið sérstak (séríslenskt) heldur felur það í sér minjar og sögur liðinna alda – ef grannt er skoðað. Eru hvorutveggja ágæt dæmi um hvernig landsmenn nýttu sér efni og aðstæður til að þrauka til núlifandi kynslóða. Hversu lítillátt fólk kann að vera nú til dags verður þetta afrek forfeðra og -mæðra okkar að teljast einhverrar viðurkenningar verðar. Þessi ferð var m.a. liður í slíkri viðurkenningu – síðasti hefðbundi göngudagurinn fyrir jólahátíðina 2007. Hafa ber þó í huga að “jólin” sem slík hafa gjarnan verið ígildi hátíðar eða veislu af fleiru en einu tilefni.
Ferðin var líka kjörið tækifæri til að léttast svolítið fyrir væntanlegt þungmeti jólahátíðarinnar og líta fyrstu geisla hækkandi sólar augum.
Þegar gengið er um hraunssvæðið kemur fljótt í ljós að afurðirnar, sem myndað hefur það, eru nokkrar. Miðjan er bæði tiltölulega slétt og gróin. Þar er eldra hraunið, sem myndar undirstöður annarra hrauna, en flest eiga þau uppruna sinn í Stór og Litlu-Eldborg, auk gíga ofan Sláttudals í Geitahlíð.

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Þegar komið var niður niður í Fjárskjólshraun var gengið að opi Fjárskjólshraunshellis, sem þar leynist í grónu jarðfalli. Erfitt er að koma auga á það í víðfeðmninu. Það sést ekki nema staðið sé á brún þess. Niðri er komið í skúta undir berghellunni, en með því að fara til vinstri var komið niður í rúmgóða mannhæðaháa hraunrás. Rásin var alveg heil. Hún er lág í fyrstu, en breið, og um 100 metra löng og endar í fallegum hraungúlp, sem hefur runnið þarna niður í rásina og storknað. Svo virðist sem gúlpurinn hafi bæði þrengt sér upp úr gólfinu og komið út úr veggnum að ofan. Sérkennilegt jarðfræðifyrirbrigði. Gólfið er alveg slétt. Rásin lækkar á tveimur stöðum, en hægt er að ganga hálfboginn þar um. Breidd rásarinnar er um 6 metrar og jafnvel meira á köflum. Neðst er op til hægri. Þegar komið er inn fyrir hana tekur við lágur salur. Rás liggur inn úr honum, tvískipt. Þessi rás er um 40 metra löng. Í heild er hellirinn því um 140 metra langur. Litlir dropsteinar sáust, en að öðru leyti virðist vera lítið um skraut í hellinnum. Flögur eru utan á veggnumá einum stað, líkt og í Leiðarenda. Neðst, þar sem hliðarrásin er, er mikill hraungúlpur, líkur þeim, sem er efst í hellinum. Þetta er fallegur hellir og vel þess virði að skoða hann. Hellir, sem ekki er hægt að skemma og því tilvalinn fyrir áhugafólk.

Gatkletturinn

Leitað var að opum bæði ofan og neðan við jarðfallið. Neðan við það er annað jarðfall, sennilega hluti af sömu rás. Farið var þar inn og reyndist vera um gamalt greni að ræða. Þarna eru nokkur gömul greni á tiltölulega afmörkuðu svæði.
Gengið var áfram niður Fjárskjólshraunið. Sunnan undir lágum hraunhól eru mjög fornar grónar hleðslur fyrir fjárskjóli í hrauninu. Þetta eru í raun miklar hleðslur fyrir rúmgóðum skúta, en vel sést móta fyrir hlöðnum innganginum, sem er alllangur. Hellirinn sjálfur hefur hýst hátt í hundrað kindur. Fyrirhleðslur eru inni í hellinum á þremur stöðum. Mold er í gólfi. Við fyrirhleðsluna, vinstra megin við innganginn er inn er komið hefur verið hleðsla er líkist bæli eða klefa. Þar gæti hugsanlega hafa verið skjól fyrir þann eða þá er sátu yfir ánum í hrauninu. Ekki er ósennilegt að fjárskjólið sé það er hraunið hefur dregið nafn sitt af – Fjárskjólshraun. Ofan við fjárskjólið var vörðubrot.
Þegar fjárskjólið var skoðað betur mátti sjá mjóa fæðurásina innst í því miðju. Hlaðið hafði verið litlum steinum til að varna því að fé færi þar inn. Þar sem gólfið var bæði blaut og þakið mold var ekki ráðlegt að skríða þar inn til að athuga með framhaldið. Þessi hellir hefur orðið til líkt og Strandarhellir og Bjargarhellir í Strandarhæð. Glóandi hraunkvika í lokaðri rás hefur mætt fyrirstöðu um stund, en vegna þrýstings hefur hún hlaðist upp og þakið storknað áður en hún fann sér leið áfram og tæmdi rýmið.

Keflavík

Bergið við Keflavík.

Samkvæmt loftmynd átti að vera gígur nokkru suðvestar. Þrátt fyrir nokkra leit fannst opið ekki, en þess verður leitað aftur síðar.
Á leiðinni niður í Keflavík mátti sjá Skyggnisþúfu nokkru austar. Hún er þar sem hraunið ofan við Krýsuvíkurberg ber hæst mót Herdísarvík. Á þúfunni er varða, Skilaboðavarða. Í hana voru sett boð, sem menn vildu að bærust á milli bæjanna.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Af bjargbrúninni austan við Keflavík blasti við mikill gatklettur, sem skagar út frá því. Brimið lék sér við hann, auk þess sem sólargeislar þessa stysta dags ársins spegluðu sig í haffletinum.
Hraunkaflinn ofan við Keflavíkina er allúfinn. Engu líkara er að þarna hafi verið grunnir pollar ofan á eldra bergi, en þegar hraunið rann þar yfir ýfðist kvikan og safnaðist í hrauka. Fjárgata liggur í gegnum hraunið ofan við bergið. Skammt áður en komið er í Keflavík mátti sjá gróna götu liggja annars vegar upp hraunið og hins vegar áfram að ofanverðri víkinni, sem einnig var nefnd Kirkjufjara.
Keflum hafði verið safnað í hrauk uppi á bjargbrúninni.

Í Bálkahelli

Í Bálkahelli.

Í Kirkjufjöru í Keflavík má sjá hluta af gamla Krýsuvíkurbjargi og fagurt útsýni er úr víkinni austur eftir berginu. Víkin dregur nafn sitt af keflunum, sem nóg virðist vera af, auk plastbelgja. Gatkletturinn sést vel frá víkinni þar sem hann stendur út af berginu að austanverðu. Svonefndir Geldingasteinar eru efst á bjargbrúninni, gulir af fuglaglæðu og öðrum grófari féttum. Vestan þeirra lækkar nýrra hraunið og stallast. (Sjá meira undir Keflavík).
Þá var haldið til baka upp og yfir grófa hraunkaflann. Ofan hans tekur gróna hraunsvæðið við, auðvelt yfirferðar. Stefnan var tekin á Bálkahelli.
Engar sagnir eru til af Bálkahelli aðrar en þær að hann er nefndur nafni sínu í sögunni um Grákollu. Hellirinn fannst þegar einn FERLIRsfélaginn segja má datt niður um eitt snjóþakið opið. Niðri reyndist vera um 250 metra langur hellir, vel manngengur, tvískiptur og dulúðlegur. Dropasteinar á gólfum og hraunstrá í loftum. Hraunbálkar eru með veggjum innan við efsta og stærsta opið. Hellirinn er um 450 metra langur.
Neðsti hluti Bálkahellis er hvað heillegastur. Í henni lækkað rásin nokkuð en hækkar að nýju uns gólf og loft koma alveg saman. Þarna undir vegg eru tvö stór hraundríli. Farið var til baka og niður aðalgönginn. Þau beygja fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þessi göng eru um 200 metra löng og ekkert hrun nema svolítið fyrst.

Arngrímshellir

Í Arngríms- / Gvendarhelli.

Hellirinn er mjög breiður og þarna á gólfum eru fjölmargir dropasteinar og hraunstrá hanga í loftum. Fara þarf varlega um göngin. Hraunnálar eru í lofti. Þessi hluti hellisins hefur varðveist mjög vel og full ástæða til að fara þarna mjög varlega. Um er að ræða einn fallegasta helli á Reykjanesi. Neðst beygir hann enn til hægri og þrengist síðan. Í þrengslunum tekur við samfelld dropasteinabreiða.
Skoðað var að nýju upp rásina í neðsta jarðfallinu. Hún er víð og há uns hún lækkar og þrengist. Loks koma gólf og loft saman. Þessi hluti er um 40 metrar. Þá var haldið niður í miðrásina, á móti þeirri, sem skoðuð var áður. Hún lokast loks í þrengslum, en mikið er um fallega dropasteina og hraunnálar. Alls er þessi hluti hellisins um 100 metrar.

Hleðsla við op Gvendarhellis/Arngrímshellis

Op Gvendar- / Arngrímshellis.

Loks var gengið upp úr miðjarðfallinu og upp aðalhellinn. Hann er víður og hár. Skammt fyrir ofan opið skiptist hellirinn í tvennt og hægt að fara umhverfis tvær breiðar hraunsúlur, en meginrásin er til hægri. Ekki er hægt að villast í Bálkahelli.  Haldið var áfram upp rásina og yfir hrun, sem þar er ofarlega. Þá sést í efsta opið og bálkana beggja vegna, en af þeim mun hellirinn draga nafn sitt. Samtals er Bálkahellir um 450 metra langur, sem fyrr sagði, fyrst hár og víður, en nokkuð hrun, síðan hraunsúlur og syllur, dropsteinar og hraunstrá. Neðsti hluti hans þó sýnum fallegastur.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Að lokum var Arngrímshellir (Gvendarhellir) skoðaður, en frásagnir eru til um hellinn er hann var notaður sem fjárhellir á 17., 18. og 19. öld. Gamlar sagnir eru til af því. Hleðslur eru fyrir opum og er tótt framan við stærsta opið, það nyrsta. Inni í hellinum eru allmiklar hleðslur. Hellirinn er bjartur og auðvelt að skoða sig um þar inni, jafnvel ljóslaus.
Sagan segir að Arngrímur frá Læk í Krýsuvík hafði fyrir aldamótin 1700 fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni. Við hellisopið byggði hann lítið fallegt hús úr rekaviði. Var það talið sérstaklega til frásagnar að rúðugler var í gluggum hússins. Fénu beitti Arngrímur í Klofningana sem og í fjöruna, sem þó er all stórbrotin neðan þeirra. Í hrauninu skammt ofan brúnar gamla bergsins má einnig sjá mannvistarleifar í helli. Arngrímur hélt 99 ær og eina að auki frá systur sinni. Sú kind var grákollótt og nefnd Grákolla. Um jólaleytið gerði mikið óveður á þessum slóðum og hraktist féð fram af berginu. Arngrímur gafst upp á að reyna að bjarga fénu. Grákolla barðist þó gegn óveðrinu og reyndi Arngrímur þrívegis að kasta henni fram af bjarginu eftir hinu fénu. Jafnoft tókst henni að krafla sig upp aftur í snjónum og ákvað Arngrímur þá að láta þar við sitja. Komust þau bæði við illan leik í hellinn. Síðan er sagt að allt fé Krýsuvíkurbænda hafi verið af nefndri Grákollu komið.
Eftir aldamótin var Arngrímur við sölvatöku í berginu undan Klofningum er jarðskjálfti reið yfir Suðurland. Féll bjarg á hann og lét hann lífið. Annar maður, sem með honum var, slapp og varð til frásagnar. Sá stökk undan fellunni í sjóinn og gat bjargað sér.

Gvendarhellir

Tóft við Gvendar- / Arngrímshelli.

Enn er hægt að greina tóftina af húsi Arngríms við hellisopið, sem og hleðslur inni í honum. Engar sagnir eru hins vegar til af Bálkahelli, sem er þar austar í hrauninu, önnur en sú, sem um getur í þessari frásögn af Grákollu. Er hann sagður þar skammt frá og að nafn sitt dragi hellirinn af bálkum innan við opið.
Í Blöndu VI 187 segir um þennan sama helli að Guðmundur nokkur hafi gætt á vetrum fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir að aldrei brugðust. Guðmundur var þarna um 1830.
Hellirinn hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði. Í honum má enn sjá hleðslur fyrir munna, tóft við meginopið, flórað gólfið að hluta, hlaðna stíu og fyrirhleðslur. Stígur liggur frá hellinum vestur yfir hraunið, áleiðis til Krýsuvíkur.
Ekki er vitað nákvæmlega um aldur þessara hrauna. Samkv. upplýsingum Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, er hraunið úr úr Stóru-Eldborg frá fyrri hluta nútíma, þ.e. töluvert eldra en 5000-6000 ára. Hitt úr Litlu-Eldborg er yngra. Það gæti verið kringum 5000-6000 ára.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

 

Krýsuvík

Skoðaður var fjárhellir Krýsuvíkurbænda í Bæjarfelli, rakin kennileiti og gengið eftir vörslugarðinum mikla á milli Bæjarfells og Arnarfells, yfir Vestari læk og framhjá Arnarfellsbænum. Tóftir hans eru vel greinilegar sunnan undir fellinu. Auk þeirra eru tóftir miðja vegu uppi í fellinu. Efst er Eiríksvarðan, nefnd eftir Eiríku galdrapresti í Selvogi. Nokkrar sögur honum tengdum gerðust í Krýsuvík, s.s. viðureign hans við Tyrkina, sem nú eru dysjaðir í svonefndum Ræningjahól neðan kirkjunnar, en allar eru þær því miður rangfeðraðar í tíma.

Bæjarfell

Bæjarfell.

Haldið var yfir ísilagða Bleiksmýrina og stefnt á heiðina. Eftir stutta göngu var komið að Jónsvörðuhúsi, stórri tótt á miðri Krýsuvíkurheiði. Sagt er að Magnús í Krýsuvík hafi verið hafður þar fyrrum yfir sauðum sumarlangt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Þaðan var haldið að hlöðnu húsi, sem gæti annað hvort hafa verið sæluhús (smalabyrgi) eða húsi tengt mannvirkjunum í Litlahrauni og öðrum nytjum í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg), sem þarna er suðaustan undan hæðinni.

Krýsuvíkurheiði

Smalabyrgi í Krýsuvíkurheiði.

Húsið er sunnan í heiðinni með útsýni um Krýsuvíkurberg frá Keflavík að Selöldu. Þá var haldið á Litla-hraun, skoðaðar minjarnar þar (tóft, hlaðið fjárskjól og rétt) og yfir í Klofninga þar sem komið var við Arnsgrímshelli, fornum fjárhelli, sem þar er á sléttlendi sunnan undir hraunkanti. Arngrímur, bóndi á Læk, hafði fé í hellinum fram undir 1700, er sylla úr berginu féll á höfuð hans – með tilheyrandi afleiðingum.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Þar gerist þjóðsagan um Grákollu o.fl. góðar sögur. Í hellinum eru hleðslur sem og fyrir opum hans. Við eitt opið er tótt undan húsi Krýsuvíkur-Gvendar, sem einnig nýtti hellinn sem fjárhelli um 1830. Gengið var í gegnum Bálkahelli, sem var klakaprýddur og skartaði sínu fegursta. Leitað var tveggja fjárskjóla efst í Eldborgarhrauni. Vitað er nú hvar þau eru og er ætlunin að finna þau óvænt síðar.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans í Kerlingadal.

Loks var staldrað við hjá dysjum Herdísar og Krýsu og rifjuð upp þjóðsaga þeirra kvenna.
Veðrið var gott – sól og lognið í bakið.
Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.