Suðurstrandarvegur

Suðurstrandarvegurinn nýi var formlega opnaður kl. 14:00 þann 21. júní s.l. að viðstöddum Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, Hreini Haraldssyni vegamálastjóra og fleiri gestum með hefðbundinni borðaklippingu. Athöfnin fór fram á veginum rétt austan við vegamótin við Krýsuvíkurveg.
Sudurstrandarvegur-502Undirbúningur að lagningu núverandi Suðurstrandarvegar hófst hjá Vegagerðinni á árinu 1996, þegar vegamálastjóri skipaði hönnunarhóp sem skildi hafa umsjón með hönnun vegarins. Vegurinn er 57 km langur frá Grindavík í vestri að Þorlákshöfn í austri (reyndar er hann jafnlangur hvora leiðina sem farin er). Liggur hann um þrjú sveitarfélög; Grindavík, Hafnarfjarðarbæ og sveitarfélagið Ölfus.
Áætlaður heildarkostnaður vegna verksins er rétt tæpir 3 milljarðar kr. uppreiknað til verðlags í dag.
Sudurstrandarvegur-503Markmið framkvæmdarinnar var að byggja upp varanlega og örugga vegatengingu milli Suðurlands og Suðurnesja til hagsbóta og öryggis fyrir atvinnulíf og íbúa á svæðunum. Auk þess að auka umferðaröryggi með vegi sem uppfyllir nútíma veghönnunarreglur og leggja bundið slitlag á veginn. Með framkvæmdinni hefur aðgengi ferðafólks verið stórbætt að svæði með stórbrotna náttúrufegurð og mikið útivistargildi. Auk þess gefur nýr Suðurstrandarvegur fyrirtækjum í ferðaþjónustu möguleika á að bjóða upp á áhugaverða tengingu og hringferðir frá Keflavíkurflugvelli að mikið sóttum ferðamannastöðum á Suðurlandi.
Til gamans er rétt að rifja upp tímaskeið fyrri vega á millum þessara staða nú þegar hinn nýi asfaltlagði vegur hefur verið lagður og gerður akfær (árið 2012).
Sudurstrandarvegur-505Fornar göngu og reiðleiðir hafa legið austur og vestur með suðurströnd Reykjanesskagans allt frá fyrstu tíð búsetu hér á landi. Eftir að Skálholtsstóll eignaðist flestar jarðirnar á svæðinu varð það eitt mesta forðabúr biskupssetursins. Jafnvel svo mikilvægt að dæmi eru um að fella hafi þurft niður skólahald í Skálholtsskóla þegar aflabrestur varð á vertíðum í og við Grindavík. Af meitluðum götunum í berghelluna má ætla að skreiðarlestar-ferðirnar hafi verið margar á þessu tímabili.
Við opnun nýja vegarins eru liðin nákvæmlega 80 ár frá því að fyrsti vagnvegurinn var lagður milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Það var Hlín Johnson, sem greiddi fyrir lagninguna sumarið 1932, en þá áttu hún og bóndi hennar, Einar Benediktsson, skáld, bæði Herdísarvík í Ölfushreppi og Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhreppi. Tilgangurinn var að búa til leið til að koma heyfeng síðarnefndu jarðarinnar í verð í Grindavík. Þessi vagnvegur var að mestu lagður ofan í gömlu reiðleiðina. Hann varð einnig, til að byrja með, farvegur fyrstu bílanna, sem þarna fóru á milli.
Árin 1946 og ’47 var síðan lagður akfær vegur milli Ölfus og Grindavíkur. Sá vegur hefur að mestu leyti legið í farvegi þess vegar er sá nýi leysir nú af hólmi, eða í 65 ár.
Suðurstrandarvegur

Vígsla Suðurstrandarvegar.