Fornleifaskráning vegna mats á umhverfisáhrifum Suðurstrandarvegar var gerð af Bjarna F. Einarssyni árið 2003. Ástæða er til að vekja athygli á eftirfarandi atriðum er vantar í skráninguna.
Í fornleifaskráningu við Arnarfell vantar skjól austan undir fellinu, brunn suðvestan undir fellinu, skjól norðan í fellinu og tvö vörðubrot sunnan undir fellinu á gamalli leið frá Arnarfellsbænum austur fyrri Bleiksmýrartjörn, áleiðis að Jónsbúð og um Klofninga.
Ögmundarvegur hinn forni er færður suður í Ögmundarhraun þar sem Húshólmastígur liggur frá austurjarðri Ögmundarhrauns inn í Húshólma. Norðar er Ögmundardys við hinn forna Ögmundarstíg. Árið 1932 var lögð vagngata ofan í stíginn fyrir tilstuðlan Hlínar Johnsen í Krýsuvík. Vegagerðin var greidd af henni. Þó sést sumstaðar í hinn forna Ögmundarstíg þar sem ofaníburðurinn hefur fokið burt.
Sæluhúsið undir Lat er nefnt fjárskjól og dundursvörður fóstbræðranna á Skála, Bergs og Brands, á fyrri hluta 20. aldar eru sagðar vera við forna þjóðleið. Þjóðleiðin lá mun sunnar enda sjást þess glögg merki í hrauninu. Vörðurnar hlóðu drengirnir hins vegar af gamni sínu – fjarri öllum leiðum.
Gömlu vagngötunnar um Siglubergsháls er hvergi getið, enda er hún nú komin að hluta undir hinn nýja Suðurstrandarveg um Siglubergsháls. Ekki er minnst á Gamlabrunn og ekki er að sjá að krossrefagildrunnar ofan við Sandleyni sé getið í skráningunni. Og þá ber að telja að “Tyrkjahellisins” á sunnaverðum Húsfellshálsi, Efri-Hellum, er hvergi getið í fornleifaskáningunni, en vegurinn á á liggja um hálsinn. Þar segir þjóðsagan að Grindvíkingar hafi ætlað að flýja undan Tyrkjanum, ef og þegar hann sneri aftur.
Þrátt fyrir vel meinta fornleifaskráningu er ljóst að taka ber slíkar skráningar með varúð. Svæði sem þetta verður seint fullkannað, enda erfitt yfirferðar á köflum. Hellar, sem víða leynast í hraununum, eru ágætt dæmi um vandmeðferðina. Ef vel ætti að verki staðið tæki skynsamleg fornleifakönnun á svæði sem þessu 2-3 ár.