Straumur

Gengið var frá Straumi að Þýskubúð og síðan að Jónsbúð um Tjörvagerði. Gerðið mun hafa verið notað sem nátthagi. Við Þýskubúð er talið að hafi verið verslunarhöfn á miðöldum og þangað sigldu þýzkir kaupmenn.

Straumur

Straumur 1935.

Straumshúsið var byggt árið 1926 af Bjarna Bjarnasyni, skólastjóra Barnaskóla Hafnarfjarðar, sem ætlaði að reka þar stórbú. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær húsið og leigði það til ýmisskonar starfsemi.
Tóftir Jónsbúðar eru lýsandi fyrir kot þeirra tíma. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur segir svo um Jónsbúð í fornleifaskýrslu sinni: “Rústirnar við Jónsbúð eru nær óspilltar af mannavöldum og vélvæðing nútímans hefur ekki náð að eyða eða fela mannvirki sem þar hafa staðið. Minjar af slíku tagi er ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Því eru minjarnar við Jónsbúð mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti fyrri tíma og styrkur þeirra fellst fyrst og fremst í heildinni, þ.e.a.s. staðurinn geymir allar þær minjar sem búast má við að þurrabúð/hjáleiga geymi svo sem bæjarhús, túngarð, skeppnuhús, vör, vörslugarð, sólþurrkunarreit, vatnsból o.fl.

Jónsbúð

Jónsbúð – uppdráttur BE.

Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en þess ber að geta að þurrabúða er ekki heldur getið við jarðirnar Lónakot, Óttarstaði og Þorbjarnarstaði, þó að enginn vafi sé á því að þurrabúðir hafi verið við eitthvert þessara býla, ef ekki öll. Hins vegar er hjáleiga getið við Óttarsstaði, Þorbjarnarstaði og Straums. Ekki er víst að greinarmunur hafi verið gerður á hjáleigu og þurrabúð og kemur jafnvel til greina að þær hjáleigur sem voru í eyði í byrjun 18 aldar hafi í raun verið þurrabúðir.

Straumur

Straumur 1935.

Í Manntali árið 1845 er þess getið að tómthúsmaður hafi verið í Straumi, Björn Pálsson að nafni. Var hann giftur Margréti Snorradóttur og áttu þau árs gamlan son, Jón að nafni (Manntal á Íslandi 1845. Suðuramt. Reykjavík 1982. :406). Bóndinn í Straumi hét þá Bjarni Einarsson. Ekki er tekið fram hvar Björn tómthúsmaður bjó nákvæmlega en vel getur verið að hann hafi búið í Jónsbúð.Â

Í manntali árið 1910 er Jónsbúð nefnd sem þurrabúð í landi Straums (Manntal á Íslandi 1910. IV. Gullbringusýsla og Kjósarsýsla. Reykjavík 1998.:228). Þá bjó þar Gunnar Jónsson, sjómaður á þilskipi, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau komu frá Meðalholti í Flóa árið 1882

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Í manntalinu er bæjarhúsum lýst og um Jónsbúð er sagt að þar hafi verið torfbær með einu heilþili og einu hálfþili.
Bæjarstæði Jónsbúðar er óspillt af seinni tíma athöfnum. Þar eru nær öll mannvirki byggð úr grjóti hvort sem um er að ræða bæjarhús, túngarð eða brunn. Grjótið er fengið úr næsta nágrenni, sérstaklega í hrauninu í kring, en yfirleitt ekki úr fjörunni eða sjávarkambinum. Sunnan við bæjarhúsinn er mikill og áberandi klettur og í gjótu við hann er sagt að hafi verið kolageymsla. Kletturinn er rakinn álfa- eða huldumannabústaður, þó ég þekki engar sögur af slíku um þennan klett.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Sennilega er ruslahaugurinn nokkra metra vestan við bæjarhúsið. Norðan megin við bæjarhúsið er rúst hjallsins (nr. 2) og austan við bæjarhúsið er sólþurrkunarreiturinn (nr. 3). Rúman metra vestan af bænum er garður (vörslugarður, nr. 4). Norðan við bæjarstæðið, í Jónsbúðartjörn sunnanverðri, er brunnur (nr. 7) og vatnsból (nr. 8). Skammt vestur af bænum er rúst, áfast við túngarðinn, sem er sennilega fjárhús (nr. 5). Vestan megin við túngarðinn hefur verið stekkur (nr. 9) og nátthagi umhverfis hann (ekki teiknað hér).
Austan við bæinn er vörin og þar má búast við að bátur eða bátar hafi verið dregnir yfir sjávarkambinn og hafðir á þurru vestan megin við sjávarkambinn.

Óttarsstaðir

Brunnur við Óttarsstaði eystri.

Gengið var um Óttarstaði, skoðaðar minjar, sem þar eru, s.s. útieldhús, útihús og brunnar. Yngsti brunnurinn er austan við Óttarstaði eystri (1944), annar sunnan við húsið og sennilega sá elsti norðan Óttarstaða vestri. Að sögn Bjarna eru eldri minjar verslunar norðan Óttarstaða. Sést móta fyrir útlínum húsa þar skammt ofan við fjörðugarðinn ef vel er að gáð. Miklir og fallegir grjótgarðar eru um Óttarstaðatúnin og fjárréttin er fagurlega formuð undir háum klapparhól sunnan vestari bæjarins.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gengið var með fjörunni yfir að Lónakoti, minjarnar þar skoðaðar sem og vatnsbólið, sem er í tjörninni fast sunnan við tóftir bæjarins. Skeljasandsfjara er í lóninu næst bænum og skemmtilegt er fyrir börn að busla þar á góðviðrisdögum. Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt þar myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Umhverfis túnið eru Lónakotsvatnagarðar. Nyrst í því eru Norðurfjárhúsin. Sunnan tóftanna er Gjögur.
Haldið var upp eftir Lónakotsselsstíg og síðan beygt til austurs eftir varðaðri götu áleiðis að Straumi. Við háa vörðu á Sigurðarhæð var beygt til hægri og gengið að Kúaréttinni, tilvöldum skjólgóðum áningarstað. Þaðan er stutt í Straumsréttina við Urtartjörn (Brunntjörn) og yfir að Straumi.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 2 klst og 31 mín.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.