Arnarfell

Starfsmaður hjá kvikmyndafyrirtækinu Truenorth, sem þessa dagana er að aðstoða bandaríska aðila við undirbúning á kvikmyndinni Flags of our Fathers, bauðst til að hitta FERLIRsfélaga við Arnarfell, en eins og kunnugt er munu tökur á kvikmyndinni fara fram þar og í Stóru Sandvík við Hafnir.
Starfsmaðurinn kvaðst hafa verið að fylgjast með greinum í blöðum síðustu dagana vegna kvikmyndatökunnar í Arnarfellinu og virtist honum sem þar væri nokkur misskilningur á ferðinni um raunverulegt umfang verksins og þá helst þeim hluta sem fer fram við Arnarfell.
Við Arnarfell var dregin fram loftmynd af svæðinu þar sem fyrirhuguð veglína og athafnasvæði voru merkt inn á. Starfsmaðurinn sagði töluverðar breytingar hafa verið gerðar frá fyrstu áætlunum. Þá hefði verið fyrirhugað að gera veg til austurs með Arnarfelli frá Ísólfsskálavegi, á móts við athafnasvæði skátanna, en þá var yfir nokkrar fornleifar að fara. Nú væri hins vegar ætlunin að gera vegspotta að norðaustanverðu Arnarfelli frá Herdísarvíkurvegi. Hann á að liggja um gróðurlitlar lænur í landslaginu og enda við lítið athafnasvæði við fellið. Jarðvegsdúkur verður settur yfir jarðveginn og á hann lagður sandur. Hvorutveggja væri hægt að fjarlægja að loknum kvikmyndatökum, en ef vilji Hafnarfjarðarbæjar stendur til að hafa veginn áfram sem og athafnasvæðið undir fellinu þá stendur það til boða. Ljóst væri að aðkoma að Arnarfelli verður mun betri á eftir.

Arnarfell

Byssubyrgi í Arnarfelli.

Til stóð að grafa sprengigíga við og í fellið, en nú hefur verið horfið frá því. Þeir verða grafnir í Stóru-Sandvík, en alls ekki í þeim stærðarhlutföllum sem lýst hefur verið. Við Arnarfell verður litlum gígum komið fyrir með gervisprengjum. Skotsprengjum verður komið fyrir víða, en þær ættu ekki að skilja eftir sig sár, sem ekki verður hægt að laga. Skotbyrgi úr spónarplötum verða byggð í fjallshlíðina, en þau verða öll fjarlægð. Svíða á gróðurtorfur í hlíðinni með gasloga, en það verður gert eftir leiðbeiningum Landgræðslunnar. Sáð verður í sárin og áburður borinn á. Gróðurinn ætti að geta jafnað sig á nokkrum árum. Reynt verður að valda eins litlu raski og mögulegt er og allt fært í samt lag aftur að athöfnum loknum.
Fáninn frægi (Flags of our Fathers) verður reistur við Eiríksvörðuna, en allur myndbúnaður verður fluttur á fellið með þyrlu. Til stendur að nota eitthvað suðurhlíðina, en þó óverulega.
Breyttar áherslur eru frá því sem var. Stórvirk tól verður ekki ekið um svæðið, heldur munu einhver standa kyrr undir fellinu á meðan á tökum stendur. Umferð starfsfólks (um 500 manns) mun verða takmörkuð við fellið, enda á engin að koma inn á myndasvæðið nema þeir, sem þangað eiga erindi í hvert sinn.
Ljóst er að athafnsvæðið er nú utan seilingar fornleifa, nema kannski gömlu þjóðleiðarinnar, sem farið var yfir með jarðýtu fyrir mistök. Sú fornleif, sem næst er, er skjól undir stórum steini, beint undir Stínuskúta. Hvorutveggja staðurinn ættu að vera utan látamarka.
Upptökur við Arnarfell munu líklega fara fram 24. – 29. ágúst n.k., en mun lengur í Stóru-Sandvík. Á meðan á upptökum stendur mun umferð um svæðið verða takmörkuð. FERLIR verður að sjálfsögðu velkominn í kurteisiheimsókn. Starfsmaðurinn sagðist hafa góðan skilning á mikilvægi þess að rödd almennings heyrðist þegar efasemdir kæmu upp um að rétt væri að málum staðið. Kvikmyndafélaginu væri hins vegar í mun að ganga þannig frá svæðum, sem það notaði, að sómi væri að.

Arnarfell

Virki í Arnarfelli.

Fram kom að aðallega þrjár ástæður athugasemda vegna kvikmyndatökunnar hafa verið tilgreindar; í fyrsta lagi vegna sögu og arfleiðar svæðisins, í öðru lagi vegna gróðurfars og mögulegra skemmda og í þriðja lagi vegna hugsanlegra röskunar fornleifa, sem tilheyra heildstæðum búsetuminjum Krýsuvíkurbæjanna og fólksins, sem þar bjó um aldir.
Sóknarprestur Hafnfirðinga vísiteraði Krýsuvík meðan á heimsókninni stóð. Var honum greinilega mikið í mun að svæðinu yrði sýnd sú virðing, sem því ber. Áhuga- og afskiptaleysi þeirra, sem ættu bæði að hafa vit og þor, væri í rauninni sorglegur vitnisburður um slæmt viðhorf til arfleifðarinnar. Tilfinningahliðin virðist sýnileg, en sjaldnast tiltekjanleg.

Arnarfell

Búðir við Arnarfell.

Það kom fram hjá starfsmanni kvikmyndaaðstoðarfyrirtækisins að öryggisverðir hafa verið beðnir um að amast ekki við áhugasömu göngufólki um svæðið. Kamranir munu verða þeirra meginverkefni. Hins vegar mun umferð þess verða takmörkuð á meðan á upptökum stendur, sem fyrr segir.
Þá kom fram í samtalinu að bæjarstjóri Grindvíkinga hafði boðið kvikmyndafyrirtækinu aðstöðu í einhverju Grindavíkurfellinu ef það þyrfti að hverfa frá Arnarfellinu af einhverjum orsökum. Þá er og hugmyndin að nýta Hesthelli við Grindavík, en hann er í óskiptu landi Þórkötlustaðahverfisbæjanna. Landeigendafélagið mun væntanlega skoða það.
Einn FERLIRsfélaganna hefur fengið svar bæjarstjóra Hafnfirðinga vegna athugasemda hans um að rétt hafi verið að málum staðið við afgreiðslu málsins. Í svarinu kemur m.a. fram að “umferð um beitarhólfið er óheimil skv. 1. tl. auglýsingarinnar um fólkvanginn”. Bæjarstjórinn virðist gleyma sér í hinum pólitíska orðaleik í stað þess að útskýra bara hvaða heimildir hann hafði og hvar þær er að finna. Allir aðrir vita að umferð um fólkvanginn og þar með talið beitarhólfið er opin bæði gangandi og akandi umferð. Þjóðvegur liggur um það og á honum er rimlahlið til að auðvelda aðgengið. Þá vita líka margir hvernig bæjarfulltrúi, alþingismaður og ráðherra tiltekins stjórnmálaflokks færði Hafnfirðingum Krýsuvíkursvæðið, sneið úr lögsögu Grindvíkinga, á slilfurfati. Það má heita pólitískur gjörningur, sem enginn myndi komast upp með í dag, um 50 árum síðar. Bæjarfulltrúar Hafnfirðinga ættu að hugsa um það í fullri alvöru hvort þeir ættu ekki að afhenda Grindvíkingum
Krýsuvíkursvæðið á nýjan leik.
Umhverfi Arnarfells er stórbrotið, fyrir þá sem hafa auga fyrir slíku (sjá myndir).
FERLIR þakkar framangreindum starfsmanni Truenorth fyrir upplýsingarnar og kynninguna, en þar eru gleggri en nokkur nefnd eða opinber stofnun hefur látið frá sér fara um málið fram að þessu.
Þá vonar FERLIR þess að leikstjórinn, Eastwood, eigi ánægjulega og eftirminnilega daga á Reykjanesskaganum meðan á upptökum stendur.
Frábært veður.

Arnarfell

Sprengigígur við Arnarfell.