Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og einn af FERLIRsfélögum, útskrifast frá BA-námi í fornleifafræði við Háskóla Íslands n.k. laugardag.

Vogar-21Að öllu jöfnu telst ekki í frásögu færandi að einhver nemi væri að útskrifast frá háskóla, þótt það ætti vissulega að gera það, en Ómar Smári getur varla talist til einhverra nemanda. Hann hafði starfað hjá lögreglunni á fjórða áratug, þar af helming tímans við rannsóknir sakamála og stjórnun, þegar hann ákvað að skrá sig í framangreinda fræðigrein. En hvers vegna að gera slíkt, kominn á gamalsaldur?
“Í fyrsta lagi er nú enginn eldri en honum finnst hann vera – aldur er jú afstæður.

Vogar-22Í öðru lagi gefur starfsmannastefna lögreglunnar svigrúm til náms samhliða starfinu. Starfsmenntunarsjóður Landssambands lögreglumanna hvetur einmitt starfsfólk til slíks. Og hvað er skyldara en lögreglurannsóknir og fornleifafræði? Í raun má segja að sérhver lögreglumaður ætti að byrja í fornleifafræði áður en hann fer í lögregluskólann því fræðigreinin tekur á frumatriðum rökrænna rannsókna, þ.e. niðurstöður þarf að byggja á vísindalegum og sannanlegum rökum. Tilgátur nýtast einungis sem möguleikar, en einungis sem slíkir. Segja má í grófum dráttum að lögreglurannsóknir byrji í raun þar sem fornleifafræðinni lýkur þótt vissulega eigi hvorutveggja samleið um margt.
Í þriðja lagi er vitað að starfstími opinberra starfsmanna, þ.m.t  lögreglumanna, er takmarkaður. Að margra mati er hann allt of langur m.v. stöðugt álag í langan tíma. Eftirlaunaaldursmörkin hjá stéttinni hafa lækkað svolítið síðustu ár, en betur má ef duga skal. Þau þyrftu, þótt ekki væri nema út frá manneskjulegu sjónarmiði, að vera mun lægri, t.d. um 60 ára aldur eða 95 ára samanlagðan líf- og starfsaldur.

Vogar-23Í fjórða lagi hef ég lengi haft það sem áhugamál að leita uppi og skoða fornleifar á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs. Afraksturinn má m.a. sjá á www.ferlir.is.
Námið í fornleifafræði við HÍ var því ágæt viðbót við áhugamálið og gat gefið nýja og áður ónýtta möguleika í þeim efnum.
Í fimmta lagi er hverjum og einum, þegar styttist í starfslok hjá hinu opinbera, hollt að huga að framtíðinni á nýjum og ekki síður áhugaverðum starfsvettvangi. Hvaða atvinnuveitandi myndi t.d. ekki þyggja liðsinni starfskrafts með hestaheilsu nýútskrifuðum úr háskóla með margra áratuga starfsreynslu á vinnumarkaði?

 

Garður

Garður – fornleifauppgröftur.