Lónakot

Kornelíus Jónsson (1915) úrsmiður og gullsmiður í Reykjavík byggði fjárhús fyrir ofan Lónakot um 1960 þegar hann keypti hluta Lónakots jarðarinnar af Sæmundi Þórðarsyni kaupmanni. Sæmundur keypt jörðina 1939 af Guðlaugi Engilbert Sveinssyni (1883-1955). Guðlaugur sem ætíð var nefndur Laugi Lóna, flutti þá búferlum frá kotinu inn í Hafnarfjörð.
lonakot-245Guðlaugur tók við Lónakoti árið 1902, en þá hafði jörðin verið í eyði í tvö ár eftir að Hallgrímur Grímsson og seinni kona hans Rannveig Ólafsdóttir fluttu þaðan ásamt fjórum börnum sínum. Fimmta barnið höfðu þau misst úr skarlatsótt aldamótaárið 1900. Þeim var gert ókleift að búa í Lónakoti eftir að bæjarhúsin voru brennd í kjölfar farsóttarinnar sem kom upp á bænum. Þegar Guðlaugur tók við jörðinni hófst hann handa með að byggja nýjan bæ á Bæjarhólnum. Hann bjó í Lónakoti ásamt sambýliskonu sinni Guðríði Jónsdóttur og þeim fæddist dóttirin Jónína Björg 1904. Þegar Guðlaugur og Guðríður fluttu frá Lónakoti á þriðja áratug 20. aldar eins og svo margir aðrir Hraunamenn, héldu þau áfram að nýta jörðina fyrir búfénað sinn. Þau bjuggu þá í litlu bakhúsi við Krosseyrarveg.

Lónakot

Lónakot – yrðlingabyrgi.

Þegar einir 30 metrar eru eftir að Suðurgarði Lónakots, tvíhlaðið túngerði sem er að mestu fallið, er sprunga á vinstri hönd sem búið er að fylla af grjóti. Þetta er Yrðlingabyrgið sem Hallgrímur Grímsson útbjó til að ala upp tófuyrðlinga nokkru fyrir aldamótin 1900, væntanlega í þeim tilgangi að slátra þeim og selja skinnin. Hallgrímur var bóndi í Lónakoti frá 1888 til 1900, en stundaði einnig róðra frá Suðurnesjum, m.a. frá bænum Kalmannstjörn í Höfnum.

Rétt innan suðurhliðsins, austanvert við götuna er þúfnakargi og lítil fjárhústóft með hlöðnum einföldum garði umhverfis, Kotagarði. Þetta svæði nefnist Kofinn eða Dys í Koti og rétt austar er fjárgerði sem kallast Kotagerði.
lonakot-246Þarna mun gamli Lónakotsbærinn hafa staðið áður en Landlæknir lét brenna kotið eftir að skarlatssótt kom upp. Tveimur árum síðar voru bæjarhúsin byggð upp á Bæjarhólnum, sprungnum hól í miðju túni við Norðurtjörn.
Austur af Bæjarhólnum er Vökhóll, einnig nefndur Krumfótur og Sönghóll. Efst á honum er Vökhólsþúfa eða Sönghólsþúfa. Sunnan hólsins var syðra túngarðshliðið og frá því lá Lónakotsgatan syðri í áttina að Brunntjörn vestan Straums og suður á Alfaraleið. Nyrðra túnhliðið var norðan hólsins, milli hans og Norðurfjárhúsanna, en tóftir þeirra standa enn á sjávarbakkanum. Þar austur með sjónum lá Lónakotsgatan nyrðri að Óttarsstöðum, einnig nefnd Sjávargatan.

lonakot-247Fyrir ströndu eru Lónakotsfjörur og út frá Norðurfjárhúsum eru sléttar hraunklappir sem nefnast Lónakotsnef. Þar vestur af er Gráasker, sem áður var grasi gróið og þurfti að vakta fé sem þangað sótti svo það flæddi ekki í skerinu.
Til austurs frá Lónakotsnefi liggur Gjögur allt austur að Sönduvík eða Sandavík og Söndu, sem er sendinn kafli innan við lábarið stórgrýti sem sjórinn hefur slípað af mikilli einurð. Söndugrjót nefnist þessi stórgrýtti sjávarkampur og innan hans er Söndutjörn.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Innan við Söndugrjótið er Markhóll, krosssprunginn hóll með Markhólsþúfu. Markaklettur stendur fram í fjörunni þar sem mörkin milli Lónakots og Óttarsstaða eru. Þessi klettur er að mestu horfinn í grjótið. Línan liggur síðan í gegnum Markhólinn sem áður er nefndur, um austasta hluta Lónakotsvatnagarða rétt vestan Vatnagarðafjárskjóls og þaðan suður í Sjónarhól sem er áberandi sprunginn hraunhóll sem sést víða að. Þaðan er línan í kletta austan Lónakostssels og í Mið-Krossstapa.

Með sjávarbakkanum frá Norðurfjárhúsum til vesturs var mikill tvíhlaðinn grjótgarður nefndur Norðurtúngarður eða Sjóvarnargarður. Miklar skemmdir urðu á honum í stórflóði og áhlaupi veturinn 1958.

Lónakot

Lónakot – fjaran.

Þótt reynt hafi verið að halda honum við eftir það hefur sjórinn haldið áfram af seiglu sinni og nú er garðurinn að mestu horfinn og Norðurtúnið hefur spillst verulega af sjávargangi. Sunnan Norðurtjarnar er Suðurtúnið en vestan hennar Seltúnið. Þar eru tóftir fjárhúss Sæmundar Þórðarsonar, en þakið fauk af húsinu stuttu eftir að hann hætti að nýta það og nú er þar tóftin ein eftir.
Frá Norðurtúngarðshliði til vesturs lá Sjávargatan sem enn markar fyrir. Þessi gata var gerð vagnfær um 1920 til að hægt væri að sækja rekavið sem töluvert var af á þessum slóðum. Enn er hægt að sjá hvar gatan hefur verið hlaðin og rudd en hún er ekki vagnfær lengur því mikið stórgrýti þekur svæðið að stórum hluta.

nypuskjol-245

Lónakotsvör, sumarvörin var vestan túngarðsins, en hún var með öllu ófær í illviðrum og á vetrum. Nokkru vestar er Brimþúfa uppi á kletti en í fjörunni er Mávahella, þar sem Mávar og Skarfar viðra sig gjarnan þegar svo ber undir.
Þó nokkru vestar er strýtulagaður hraunhóll sem nefnist Nípa. Suðaustan Nípu er einskonar jarðfall með skúta sem snýr til suður. Þar var í eina tíð hlaðið fyrir og reft yfir því sauðfé var haldið til beitar á vetrum á þessum slóðum. Enn er hægt að sjá hleðslurnar og fúna rafta sem eru löngu fallnir, þar sem áður var fjárskjólið Nípuskjól. Nær sjávarbakkanum er Nípurétt, nátthaginn þar sem smalinn bældi fé sitt að næturlagi.
Þegar komið er framhjá Nípu blasa við klettar upp af ströndinni með grösugum bölum sem umkringdir eru hlöðnum túngörðum. Þar eru einnig hlaðnar réttir sem klettarnir bera nafn af því þeir kallast Réttarklettar. Sauðfé sækir mjög í fjörubeit á þessum slóðum þegar það er látið ganga sjálfala í hrauninu á vetrum.
Dulatjarnir-245Nokkru vestar er áberandi klettar sem nefnast Dulaklettar og umhverfis þá eru grastór og tjarnir sem kallast Dulatjarnir. Þar gætir flóðs og fjöru og þorna tjarnirnar þegar lágsjávað er. Duli er gamalt fiskimið í Lónakotsdjúpi sem Seltirningar notuðu gjarnan og þar þótti mjög fiskisælt. Miðið er Keilir um Dula, sem þýðir að menn tóku mið af strýtulöguðum kletti og þúfu á öðrum kletti ofan við hann í fjallið Keili.
Nokkru vestan við Dulakletta eru Selasteinar og þegar komið er steinsnar vestar er Markaklettur á innanverðu Hraunsnesi, sem gengur hér í sjó fram. Þar eru mörkin milli Lónakots og Hvassahrauns, sömuleiðis sveitafélagamörk milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Áður fyrr var varða á Markaklöpp og sjást enn merki um hana. Frá henni er stefnan í Markaklett sem er sprunginn klettur, þaðan í Skógarhól og síðan í Stóra-Grænhól suður um Grænhólsker í Hólbrunnsvörðu, þaðan í Skorásvörðu og suður í Mið-Krossstapa.

Hvassahraun-245

Þegar komið er framhjá Markakletti tekur Hvassahraunsland við. Hér skerst vik inn í landið sem nefnist Hvassahraunsbót og er á milli tveggja nesja, Hraunsness að austan og Stekkjarness að vestan. Utar er Vatnsleysuvík sem nær milli Hvassahrauns og  Stóru-Vatnsleysu. Sjávargatan liggur ofan fjörunnar um Látur sem þykir merkilegt náttúrufyrirbæri og er friðað samkvæmt Náttúruminjaskrá. Gatan liggur ofan sjávarbakkans í áttina að Stekkjarnesi. Þegar þangað er komið er stekkurinn austan og neðan Stekkjarhóls sem er myndarlegur sprunginn hóll sem skartar áberandi fuglaþúfu, eins og svo margir hraunklettar á þessum slóðum. Stekkurinn er að mestu fallinn því löngu hætt að nota hann og viðhald ekkert. Lábarið sjávargrjót hefur hlaðist upp og er komið allnærri stekknum þar sem landbrot er töluvert á þessum stað.

Lónakot

Lónakot – fjárhús.

Hægt er að fylgja annarri leið sem liggur ofar í landinu en Sjávargatan, í áttina að Hvassahraunsbæjunum. Það var fjórbýlt í Hvassahrauni á 19. öld þegar hægt var að lifa að því að láta búsmalann ganga sjálfala um hagana árið um kring og drýgja tekjurnar með sjósókn. Bæirnir voru Hvassahraun I og II, auk kotanna Hvassahraunskots og Sönghóls.

Hvassahraun

Hvasssahraun – Bæjarvík.

Frá Stekkjarnesi blasir Bæjarvíkin við og vestan hennar er Fagravík. Enn standa bæjarhúsin í Hvassahrauni, en þar eru einnig þó nokkuð mörg sumarhús sem byggð voru um miðja 20. öldina og eitt heilsárshús sem byggt var í lok 20. aldar. Síðast var búskapur í Hvassahrauni um 1960, en í seinni tíð hafa frístundabændur haft sauðfé sitt í gömlu fjárhúsunum. Kornelíus í Lónakoti er nú eigandi Hvassahraunstúnsins en aðrir jarðapartar skiptast á margar hendur.

Lónakot

Lónakot – fjárhús.

Gengið er í áttina að Hvassahraunsbænum og snúið til baka þegar komið er að steinhlöðnum Norðutúngarði. Þar er gömlu Alfaraleiðinni fylgt að hluta til þar til hún sveigir til suðurs, þá er haldið beint af augum til austurs og í áttina að Lónakotsfjárhúsum og gömlu Vetrarleiðinni fylgt. Leiðin var vörðuð áður en Suðurnesjavegurinn var lagður uppúr aldmótunum 1900, en þegar hann var orðinn akfær voru vörðurnar á gömlu leiðinni felldar.

Hvassahraun

Hvassahraun – vörin.

Það getur því verið erfiðleikum bundið að rata þessa leið, sem er að mestu gróin upp. Ratvísum ferðalöngum ætti samt ekki að verða skotaskuld úr því að feta þessa fornu slóð og fylgja henni. Þegar komið er nokkurn spöl sést steypt Landmælingamerki rísa við sjóndeildarhring efst á Grænhól. – Jónatan Garðarsson.

Heimildir:
-Örnefnaskrá Lónakots, Gísli Sigurðsson, Ari Gíslason.
-Horfinn heimur – Árið 1900 í nærmynd, Þórunn Valdimarsdóttir.

Lónakot

Lónakotsbærinn undir það síðasta.