Færslur

Grísanes

Gengið var um Dalinn norðan Hamraness. Í grónum krika í Hellishrauninu er gamalt fjárskjól, að öllum líkindum frá Ási. Hleðslur eru við opið, en hluti loftsins er fallið niður. Dalurinn er vel gróinn og líklega verið mikið nýttur á tímum sauðbúskaparins. Þarna gæti hafa verið skjól fyrir sauði, en fé var á þeim tímum jafnan látið ganga úti um vetur.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás segir m.a.: “Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.” Ás hafði í seli við Hvaleyrarvatn um tíma og má sjá selstóftina á bakkanum austan við vatnið, skammt norðaustan við tóftir Hvaleyrarselsins. Þá eru minjar selstöðunnar uppi á og við Selhöfða, neðan hans og sunnan vatnsins.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjólið í dag, 2023.

Til baka var gengið eftir Stórhöfðastígnum, yfir Ásfjallsöxlina, áleiðis að Ási. Tóftir eru í norðanverðri öxlinni. Gengið var vestur með norðanverðu Grísanesi og yfir á Hvaleyrarhöfða, en þar munu áður hafa verið mörk strandarinnar á þessu svæði, áður en Hellnahraunin runnu. Undir austurbrún Hellnarhrauns er hlaðinn rétt og a.m.k. tvær tóftir skammt austan hennar. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir þetta svæði segir m.a.: “Það mun vera þetta svæði, flatir meðfram hrauninu, sem í skjali frá 1444 nefnist Hraunvellir, en nú nefnast þeir Grísanesflatir. Þá er hér klettatunga mikil, nefnist Grísanes, og norður [leiðrétt; suður] af því á holti er Grísanesfjárhús. Þar eru nú veggir einir uppistandandi. Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól“.
Fjárskjólið í Dalnum hefur nú verið eyðilagt vegna mistaka starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Grísanesfjárhús

Grísanesfjárhús.

K-9

Í Örnefnalýsingum er sagt frá vatnsstæði á Vatnsheiði.

Hraunkotsgata

Hraun – Hraunkotsgata. Siglubergsháls fjær t.h.

Ætlunin var að ganga frá Hrauni um Siglubergsháls, að Móklettum, landamerkjum Hrauns og Ísólfsskála, niður með Hrafnshlíð, með gígtoppunum þremur er mynda Vatnsheiðina, Vatnsheiðahnúkana, vestan Fiskidalsfjalls og Húsafjalls og skyggnast eftir vatnsstæðinu. Jafnframt að líta eftir hugsanlegum götum að austan, ofan við Siglubergsháls og fellin til Grindavíkur (inn á Skógfellaveginn). Þá var líka ætlunin að kíkja á K9 í leiðinni, “Tyrkjahellinn” svonefnda undir Húsafjalli, á krossrefagildruna ofan við Sandleyni og í Guðbjargarhelli ofan við Hraun.

Sigurður Gíslason

Sigurður Gíslason við hrossabyrgi við Húsfell.

Byrjað var á því að taka hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni. Hann var spurður um það hvort draumur eins FERLIRsfélagans um helli í túninu á Hrauni gæti átt við rök að styðjast. Siggi kvað það svo sem líklegt. Vestan í túninu væri hellir, að vísu lítill, en hann hefði sett lok yfir gatið því tvö lömb frá honum hefðu ratað niður í hann, en ekki komist upp aftur. Vísaði hann á hellisopið. Þegar lokið var fjarlægt sáust bein lambanna þar niður í. Sagði Siggi að hægt væri að skríða þarna inn undir hraunið, en rásin væri lág og erfið. Nokkrir litlir skútar væru og í túninu á Hrauni þar sem lágin mætti hraunkantinum.

Vatnagarður

Vatnagarður.

Sunnar á túninu eru miklar tóftir. Þær munu vera af háleigunni Vatnagarði, sem hafi verið í byggð a.m.k. árið 1703. Þá hefði búið þar ekkja, Drysíana Eyjólfsdóttir að nafni ásamt fimm börnum sínum. Konan leigði þá Hraunsbónda slægjuna, en líklega hafi verið um tómthús að ræða. Ekki er útilokð að bóndi Drysíönu hafi drukknað í róðri eins og svo títt var með útvegsbændur í þá daga. Sex nautgripir hefðu þó verið á fóðrum í Vatnagarði. Bakki hafi verið bær ofan við Hraun, skammt utan við túngarðinn. Þar má enn sjá tóftir. Þriðja hjáleigan á Hrauni hét Garðhús, en hún stóð einungis í skamman tíma. Hraunið vestan við bæinn heitir Slokahraun. Þar eru enn óraskaðir fjölmargir þurrkgarðar frá fyrri tíð. Girðing var ekki fyrir löngu sett upp niður í hraunið og var þá einhverjum garðanna rutt um koll. – því miður.

Hraun

Hraun – Gamli brunnur.

Skoðaður var brunnurinn sunnan Hrauns. Stór hella er yfir brunninum, en annars er hann fallega hlaðinn niður. Þá var litið á “skírnarforntinn”, sem kom upp nýlega við hrólf í tóft austan við bæinn. Þar segir sagan að hafi verið kirkja eða bænahús forðum. Steinninn gæti einnig hafa verið signingasteinn í kaþólsku, líkt og utan við kirkjuna á Kálfatjörn, eða hreinlega verið notaður undir stoð í húsinu, sem þar stóð. Síðastnefnda skýringin er jafnframt sú liklegasta. Steinninn er mjög líkur stoðsteininum í gamla bænum í Herdísarvík nema hvað innnmálið á þessum er margfalt stærra. Kirkja var á Hrauni allt fram yfir 1600, jafnvel frá a.m.k. 1397, og gæti það skýrt að nokkru tilurð steinsins.

Hraun

Hraun – tóft við garðinn.

Gengið var austur með ströndinni ofan við Hraunsvík. Utan girðingar, sjávarmegin, er heilleg tóft. Ströndin hefur breyst mikið þarna á tiltölulega skömmum tíma. Áður náði hún mun lengra út líkt og annars staðar með ströndum Reykjanesskagans. Enn mótar fyrir miklum görðum við Hraun. Bóndinn þar, Jón Jónsson, fékk m.a. Dannebrogsorðuna fyrir garðhleðslu á þeim tímum er konungur vildi hvetja bændur til garð- og vegghleðslu, ræktunar og uppbyggingar á bæjum sínum.
Skyggnst var eftir Gamlabrunni á grónum sandflötum austan Hrauns. Hann fannst eftir stutta leit. Um er að ræða fallega hlaðinn brunn, en nú er að mestu gróið yfir hann og sandur fyllt hann að nokkru. Vel sést þó móta fyrir hleðslunum. Í þennan brunn sóttu Þorkötlustaðabúar vatn áður fyrr, ef þurfa þótti.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Í Hraunsvíkinni eru hnyðlingar, en slíkir eru brot úr framandbergi sem berst upp með kvikunni og því ekki eiginleg gosefni. Brotin eru líklegast úr gígrásinni eða úr þaki kvikuþróarinnar. Oft eru slík brot úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassa hraunsins. Þetta sést vel í Hrólfsvíkinni. Hnyðlingarnir þeytast oft hátt upp úr gígnum og lenda síðan hjúpaðir storku kvikunnar. Slíkir hnyðlingar eru algengir umhverfis sprengigíginn Grænavatn við sunnanvert Kleifarvatn í Krýsuvík.

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Gengið var upp Kapellulágina og upp að kapellunni. Við hana er merki um friðlýstar minjar. Annars er járnadrasl þar í varpanum sem og all í kring. Kristján Eldjárn og fleiri grófu upp kapelluna á sjötta áratug síðustu aldar og fundu í henni bæði muni og minjar. Hún var síðan verpt sandi. Talið er að þarna hafi verið kapella eða bænahús frá því á 14. öld. Gera þarf vegsemd hennar meir en nú er. Segir sagan og að á þriðja tug manna hafi verið grafnir í Kapelluláginni sunnan undir kapellunni. Aðrar heimildir segja að það hafi verið við bænahúsið á Hrauni. Í annálum 1602 (Fitjaannáli) segir m.a.: “Þá drukknuðu ástóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaðií Grindavík… og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.
Skammt austan kapellunnar, vestan þjóðvegarins, sést enn gamla Ísólfsskálagatan áleiðis upp á Siglubergsháls. Húsafjall er þá á vinstri hönd, aftar, og Fiskidalsfjall. Í því er áberandi gil er nefnist Skökugil.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Á hægri hönd var Festarfjall. Þjóðsagan segir að neðan undir felli þessu sé hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

Siglubergsháls

Gamli vegurinn um Siglubergsháls.

Götunni var fylgt þangað til nýi vegurinn fór yfir hana upp hálsinn um Skökugil. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn, sést gamla gatan enn og var henni fylgt áfram upp, yfir nýja þjóðveginn og upp á þann gamla er liggur fast upp með Festarfjallinu. Hann liggur svo beint niður að Móklettum, vestanverðum. Af Siglubergshálsi er fallegt útsýni yfir Hrólfsvíkina og Hraunsvíkina sem og yfir Þorkötlustaðahverfið.

Í austanverðum Móklettum eru höggvin landamerki Ísólfsskála og Hrauns. Sjá má þar ártalið 1890 og merkið V undir því.

Móklettar

Móklettar – áletrun (landamerki).

Haldið var norður með austanverðum Móklettum og beygt til vesturs yfir Bleikshól (-háls). Framundan voru fallegar brekkur og nokkuð há hlíð á vinstri hönd. Nefnist hún Hrafnshlíð.
Neðan við hana voru fallegar hraunkúlur. Þegar kvikuflygsur þeytast hátt í loft upp snúast þær jafnframt um sjálfar sig þannig að þær verða kúlulaga. Á fluginu storknar yfirborð þeirra en kjarninn helst oft bráðinn, einkum hjá þeim stærri, uns þær lenda og fletjast út eða splundrast. Slíkar hraunkúlur eru ávallt með glerjuðu yfirborði en blöðróttar að innan og oft mótar fyrir stuðlun út frá miðju. Þessar hraunkúlur og brot úr þeim má mjög oft sjá í rofnu móbergi t.d. í Sveifluhálsi. Þarna var talsvert á þeim og sjaldan hafa þær sést fallegri.

Vatnshæð

Vatnsstæði á Vatnsheiði.

Vesturhlíð Fiskidalsfjalls var fylgt til suðurs. Á hægri hönd var Beinvörðuhraun. Mátti sjá vesturhlið Fagradalsfjalls (Borgafell, Einbúa, Görnina og Kastið), Sundhnúkagígaröðina, Sundhnúka, Svartsengisfjall og Hagafell. Framundan blöstu tvær dyngjur Vatnsheiðarinnar við. Þegar komið var á móts við Svartakrók við Fiskidalsfjall var stefnan tekin á hálsinn vestan við fjallið. Þar í lægð birtist hið ágætasta vatnsstæði. Að vísu hefur landi verið raskað þarna með efnistöku, en vatnsstæðið hefur fengið að vera í friði. Líklegt má telja að þarna hafi myndast góð tjörn á vorin eftir leysingar í hárri fjallshlíðinni og af heiðinni. Hefur vatnið að öllum líkindum dugað fram eftir sumri.

Vatnsheiði

Í Vatnsheiði.

Gangan með vestanverðu Fiskidalsfjalli er mjög auðveld. Reykjavegurinn liggur þar um.
Stefnan var tekin á syðstu dyngjuna á Vatnsheiðinni. Uppi í henni er stór gat, u.þ.b. 20 metra djúpt. Myndaðist það er Catepillar jarðýtu var ekið þar um fyrir nokkrum árum. Hrundi undan ýtunni, en stjórnandunum tókst að koma henni frá án skaða.
Gengið var niður að vesturöxl Húsafjalls og kíkt þar á op “Tyrkjahellisins” svonefnda, en sagnir segja að í hann hafi austanverðir Grindvíkingar ætlað að flýja ef Tyrkir létu sjá sig á ný við Grindavík. Norðurjarðri hraunsins var fylgt til suðurs vestan hæðarinnar og gengið að krossrefagildru þar í hrauninu skammt ofan við Sandleyni. Enn má sjá þrjá arma gildrunar heila. Þetta hefur verið mikil smíð á sínum tíma og væntanlega þjónað sínum tilgangi.

Hraun

Hraun – refagildra.

Skammt sunnar eru leifar af annarri refagildru, minni. Enn sunnar, skammt ofan við þjóðveginn við Hraun er hlaðin dys á hól. Segir sagan að þar hafi Tyrkir þeir tveir, er Rauðka drengsins frá Skála, hafi gefið undir sinnhvorn og drepið er þeir sóttu að honum.
Kíkt var á op Guðbjargarhellis ofan við Hraun. Þar á samnefnd kona frá Hrauni að hafa flúið er hún vildi fá að vera í friði fyrir öðrum. Opið er skammt ofan við garðana ofan við þjóðveginn.
Frábært veður – gangan tók 4 klst og 4 mín.

K-9

Op K-9.

Vatnsheiði

Gengið var með kunnugum um Vatnsheiði, litið í jarðfall er opnaðist er jarðýta var næstum fallin ofan í það á leið yfir hraunið og skoðað svæði þar sem myllusteinar voru höggnir til fyrr á öldum. Enn má sjá einn steinanna, sem hafði verið unnin að öðru leiti en því að augað vantar. Svo virðist sem hann hafi verið skilinn eftir þarna þegar hann klofnaði við augnsmíðina.

K-9

Nían – neðst í Vatnsheiði.

Jarðfallið var nefnt Nían eftir jarðýtunni, Caterpillar 9. Ýtustjórinn var á leið yfir syðsta Vatnsheiðargíginn þegar jörðin opnaðist skyndilega undir henni. Hann náði þó að koma ýtunni áfram og úr allri hættu. Síðan hefur opið stækkað smám saman. Nú er þarna hið myndarlegasta jarðfall, u.þ.b. 10-12 metrar á dýpt. Svo er að sjá, þegar staðið er á barminum, að rás liggi inn undir bakkann, en svo mun ekki vera. Gjallið í gígnum er rauð- og brúnleitt.
Grindvíkingar hafa fundið leið til að nýta jarðfallið. Hobbýbændur þar hafa losað sig við afgangssláturafurðir í holuna, líklega í von um að ná að fylla hana smám saman?

Vatnsheiði

Vatnsstæðið í Vatnsheiði.

Straumsvík

Eftirfarandi ábending barst FERLIR um hugsanlegan helli undir hluta álversins í Straumsvík:

Straumsvík

Straumsvík.

“Hef verið að reyna að grafast fyrir um hellinn sem er undir Ísal í Hafnarfirði. Það voru upphaflega þrjú stór síló (þessi rauðu og hvítu) en eitt var fjarlægt. Það síló var ekki notað nema að hluta til því að þegar þeir voru að setja það upp kom í ljós að það er líklega stór hellir undir. Það var sett mikið magn af steypu og sandi inn en virkaði ekki neitt. Steypan sást, sögðu þeir sem unnu við það, fljótandi fyrir utan höfnina. Það var ekki gerð nein hola niður en borarnir og gatið var rétt nóg fyrir steypuna til að renna niður. Gatið sem var gert er á milli mötuneytisins og Kerfóðrunar.” Skömmu síðar bárust svohljóðandi viðbótaruppýsingar um staðsetninguna: “Staðsetningin er líklega ekki nógu góð, en það sem ég vildi segja er að hellirinn er mötuneytismegin þ.e. syðstur af þeim sílóum.”
Samningar um byggingu álvers á Íslandi voru undirritaðir árið 1966, en viðræður milli svissneska fyrirtækisins Alusuisse og ríkisstjórnar Íslands höfðu þá staðið yfir í nokkur ár. Íslenska álfélagið hf. var stofnað og framkvæmdir hófust í Straumsvík. Þremur árum síðar hófst framleiðsla en verksmiðjan var formlega vígð í maí 1970.
Framleiðslugeta álversins var í upphafi um 33.000 tonn á ári í 120 kerum, en síðar var verkmiðjan stækkuð fjórum sinnum. Árið 1970 voru 40 ker til viðbótar tekin í rekstur, eftir að fyrsti kerskálinnn hafði verið lengdur, og 1972 var fyrri áfangi kerskála 2 tekinn í notkun. Síðari áfanginn (40 ker) var svo byggður nokkrum árum seinna og þar hófst framleiðsla árið 1980.

Straumsvík

Straumsvík.

Hrannari Péturssyni, upplýsingafulltrúa Alcan, var send framangreind lýsing með von um frekari upplýsingar, ef einhverjar væru. Hann svaraði: “Ég gat ekki fundið út úr þessu en mér dettur í hug að benda þér á Sveinbjörn Sigurðsson, tæknifræðing og fyrrverandi starfsmann, sem var um áratugaskeið ábyrgur fyrir ýmsum framkvæmdum og byggingum á svæðinu.”
Sveinbjörn sagðist aðspurður muna vel eftir þessu. “Eitt sílóið tók að halla um allt að 30 cm á 40 metrum (var 58 m hátt) svo sást móta fyrir krumpu í hlið þess. Þá voru gerðar rannsóknir á undirstöðunni. Í ljós kom að þar undir, eftir að borað hafði verið 8-9 metrar niður í hraunið, var stærðar gýmald, sennilega stór sjávarrhellir. Reynt var að aka dæla steypu stöðugt niður um holuna í tvo daga, en þá sáu menn hvar sjórinn utan við ströndina var orðinn litaður af steypunni. Þá var steypudælingunni hætt, en síðar ákveðið að rífa sílóið, enda ekki lengur þörf fyrir það vegna breyttrar vinnsluaðferðar. Utar er búið að bæta nokkru við ströndina, en ekki var gert nein tilraun til að stækka borgatið og kíkja niður í dýpið. Það er því í raun enn óljóst hvað er þarna undir.”
Sveinbjörn var einn helsti forvígsmaður að kaupum og endurbyggingu Gerðis, sem þá varð að aðstöðu fyrir starfsfólk álversins. Ísal keypti einnig Tjarnarkot, sem var þarna skammt vestar. Fróðleikur um Gerði mun birtast fljótlega á vefsíðunni.
Heimild m.a.:
-alcan.is – upphafið
-Sveinbjörn Sigurðsson.

Straumsvík

Straumsvík.

Ísólfsskáli
Eftir að sagt var frá opinberun  hellisgýmalds ofan Bjalla við Ísólfsskála, sem að öllum líkindum hefur verið þarna um tugþúsundir ára, þar af síðasta árþúsundið undir fótum manna og dýra, (örskammt inn undir Bjallabrúninni vestan Bólsins vottar reyndar fyrir þröngri rás inn undir móbergsstandinn og er munninn þakin kindabeinum – afurð fyrrum tófuveitinga), barst FERLIR eftirfarandi ábending.
Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Áður en kemur að henni er rétt að upplýsa um að þarna hafði tófan um tíma fundið sér skammskjól, stutt frá bústað mannanna, og ekki er ólíklegt að einhver hennar hafi einhvern tímann kíkt alla leið inn í gýmaldið. Úr því verður varla skorið úr þessu því nú er búið að eyðileggja það gersamlega og það án nokkurra undangenginna rannsókna eða í það minnsta einfaldrar skoðunnar, s.s. á mögulegum mann- eða dýrvistarminjum.
En hér kemur ábendingin eftirfylgjandi:
“Mundi eftir því þegar minnt var á hellafund ýtustjórans í MBL og á FERLIRsvefnum að ég átti einhverstaðar frásögn Ísólfs af dreng sem fór inn í helli þarna og var lengi að koma til baka. Svona svipaða sögu og er til um Breiðabáshellinn. Ég leitaði í öllum mínum blöðum, en ég tók upp samtal við Ísólf [á Skála] og hafði þann hátt á að skrifa svo samtalið inn á tölvu í rólegheitum. Loks fann ég viðtalið á spólu og hlustaði á það. Talið barst að hellum og Ísólfur fer að tala um Breiðabáshelli og eyðir drjúgum tíma í það að lýsa honum og talar um að efra gatið sé hátt uppi í Mosaskarði, kringlótt gat o.fl. [hér er sennileg átt við opið á Mosaskarðshelli uppi í miðju Mosaskarði].

Grafan

Þessa lýsingu Ísólfs lagði ég ekki fram þegar byrjað var að leita að Breiðabáshelli, mundi ekkert eftir henni á spólunni. Jæja, í viðtalinu fer hann að tala um að menn þurfi að hafa með sér súrefni og kaðla þegar farið er inn í hella. Ég strögglaði eitthvað varðandi súrefnisnotkun, taldi að nóg súrefni væri í hellum því ég hafði þá nýverið farið inn í Hýðið og Maístjörnuna. Þá fer hann að segja mér frá þessu atviki um strákinn sem var hjá honum og fór inn í hellinn og kom eftir langan tíma út í hálfgerðri andnauð. Hér kemur þetta orðrétt sem hann sagði, sem reyndar er ekki mikið. Ég tel mjög líklegt að þessi maður sé á lífi og ætti að vera tiltölulega auðvelt að finna hann. Vel gæti verið að Erling hefði heyrt þetta, eða jafnvel fleiri, sem voru í miklum tengslum við Ísólf: (Viðtal árið 1992 við Ísólf Guðmundsson á Ísólfsskála, afritað af segulbandi 30. maí 2006).
“Það var strákur sem var hjá mér, hann frændi minn. Það datt gat á klöpp þarna fyrir neðan húsið hjá mér, smá helvítis klöpp, og hann skreið inn í hellinn. Svo verð ég ekkert var við hann og ég fer að kalla í hann og hann ansar ekki. Andskotinn maður. Þá skreið hann þarna inn og ætlaði aldrei að koma út aftur, hann ætlaði aldrei að ná andanum. Hann gerði það ekki aftur.”

Ísólfsskáli

Erling sagðist aðspurður reka minni til að gat hafi verið við Skála. Hann væri þó ekki alveg viss. Ísólfur hafi búið í húsi því er Bergur reisti, s/a við núverandi hús. Þar við var matjurtargarður. Utan við garðinn var lítil hola, sem hægt að komast niður í. Líklega hafi verið fyllt upp í opið. Hann kvaðst myndi ræða við Guðmund Einarsson (Grindavík) eða Val Ármannsson (Keflavík), en þeir tveir frændur Ísólfs voru þeir er þarna voru lengstum.
Eftir að Erling hafði rætt við báða sagðist Guðmundur muna óljóslega eftir gatinu. Það hafi síðan verið fyllt og væri nú hluti af túninu eða jafnvel komið undir vegslóða á því. Hann taldi að þetta hefði verið lítill skúti, sem jafnvel hefði verið hægt að skríða inn í. Líklega hefði strákurinn í framangreindri sögu verið að fela sig fyrir Ísólfi, enda átti hann það til að vera helst til leiðinlegur við vinnumennina, sem hjá honum voru. Guðmundur gæti þó bent nokkurn veginn á staðinn þar sem gatið var, en leyfi landeigendafélagsins þyrfti til ef raska ætti bletti í túninu.
Ekki var talin ástæða til að leita staðfestingar á þessari sögu með kraftmiklum greftri, líkt og gert var í Draugshelli í Litlalandi í Ölfusi, en þar varð gröfturinn þó til að opinbera og staðfesta að hluta til forna þjóðsögu. Kannski væri því og þó, þrátt fyrir annað og í ljósi alls þessa, ástæða til að beita spaða á spönn í Ísólfsskálatúninu – og það fyrr en seinna. Þarna gæti leynst stærri hellir en talið er að óathuguðu máli.
Hellirinn

Hellisopið.

Ísólfsskáli
FERLIR bregst jafnan skjótlega við berist tilkynningar um áhugaverð og aðkallandi efni. Einn félaganna hafði haft spurnir að því að hellir hefði opnast við framkvæmdir við svonefndan Suðurstrandarveg austan Grindavíkur. Upplýsingarnar bárust svo til í beinu framhaldi af opinberuninni.
ÍsólfsskáliVegaframkvæmdir stóðu yfir á Suðurstrandarveginum ofan Grindavíkur, milli Hrauns og Ísólfsskála orið 2006. Þegar Arnar Helgason, stjórnandi stórrar (65 tonna) gröfu verktakans Háfells var [23. maí 2006] að grafa í Bjallarbrúnina vestan við Bólið, fyrrum fjárskjól frá Ísólfsskála, þar sem vegurinn á að liggja niður hann samhliða og austan núverandi vegstæðis, greip skóflan skyndilega í tómt. Í ljós kom að hún hafði verið rekin niður í geysistórt holrúm og stóð grafan uppi á miðju hvolfþakinu. Arnari brá skiljanlega í brún, dró þó andann djúpt og færði gröfuna varlega á örugga undirstöðu. Þarna hefði getað farið illa.
Verktakinn tilkynnti atvikið til jarðfræðings Vegagerðarinnar, sem á eftir að skoða fyrirbærið. Vegfarandi, sem leið átti þarna hjá um það leyti er jörðin opnaðist undan gröfukjaftinum, hafði þegar samband við þá er einna mestan áhuga hafa sýnt á svæðinu.
Þegar Björn Hróarsson, jarð- og hellafræðingur, og einn FERLIRsfélaganna, áhugamaður um útivist, minjar og náttúru- og jarðfræðifyrirbæri á Reykjanesskaganum, komu á vettvang skömmu eftir atvikið, blasti gímaldið við, 12-15 metra djúpt. Angar virtust liggja til norðurs og suðurs, m.a. undir núverandi vegstæði.
Gímaldið hefur myndast sem holrúm í blöndu af gjósku, jökulruðningi og sjávarmöl. Það er í jaðri móberghryggs ofan við Bjallann. Giskað er á að það hafi myndast er gos varð undir jökli er myndaði Slöguna. Risastórt klakastykki hefur þá brotnað úr jöklinum og jarðefni safnast umhverfis það. Ísstykkið hefur síðan bráðnað hægt og skilið þetta mikla holrúm eftir. Sjávarstaðan hefur þá verið þarna í brúninni. Vegna ísfargsins hefur landið legið mun lægra en nú er, en það síðan lyft sér við bráðnun jökulsins.  Einnig gæti verið um gamlan sjávarhelli að ræða, en það mun væntanlega upplýsast við nánari skoðun. Reynt var að nota arm og skóflu gröfunnar til Ísólfsskáliað koma manni til botns, en þrátt fyrir lengd hans náði hann einungis hálfa leið að botni.
Hér er að öllum líkindum um mjög sérstakt jarðfræðifyrirbæri að ræða, sennilega einstakt, jafnvel á heimsvísu. Það mun þó koma í ljós við nánari skoðun, sem væntanlega mun fara fram fljótlega. Þá þarf að taka ákvörðun um afdrif þess því það er í núverandi vegstæði.
Ekki ósvipuð myndun er á Höfðabrekkuafrétti við veginn upp í Lambaskarðshóla.
Benda má á að viðundirbúning Suðurstrandarvegar bentu félagar í Hellarannsóknarfélaginu m.a. á mikilvægi þess að vegstæðið yrði gaumgæft m.t.t. hella á svæðinu, því öruggt mætti telja að á því væru margir hellar og fleiri til viðbótar myndu koma í ljós þegar farið yrði að grafa fyrir veginum. Má segja að opinberun þessi séu sönnun þeirra orða og reyndar ekki sú fyrsta. Enn er verkið skammt á veg komið. Aðilar eru þó sammála um að vilja eiga með sér gott samstarf ef og þegar ástæða verður til eða gaumgæfa þarf eitthvað er finnst, líkt og í þessu tilviki.
Í örnefnaskrá fyrir Ísólfsskála, skráða af Ara Gíslasyni eftir heimildarmanninum Guðmundi Guðmundssyni, þáverandi bónda á Ísólfsskála, kemur m.a. eftirfrandi fram um þetta svæði og næsta nágrenni:
“Bjallinn er ofan við Ísólfsskála. Hjálmarsbjalli er fremstur. Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Skollahraun er suður af því. Niður af, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista. [Kistan sést vel úti í Skollahrauni þegar komið er að Bjallnum eftir Ísólfsskálavegi úr vestri]. Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból, við alllangan hamravegg.
Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar. Vestan við þá heitir Lágar. [Lágar eru ofan við Bjallan]. Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar. Er mikið Ísólfsskálihér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði.”
Loftur Jónsson skráði einnig örnefi á og við Ísólfsskála. Um þetta svæði segir hann: “Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur. Stór klettur er þar sem Hattur heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir. Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður. Stórusteinar er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos. Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur. Fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista.” Og þá erum við komin hringinn um nærsvæðið þar sem vegurinn kemur niður Bjallann vestan við Bólið.
Hér eru jafnframt tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Við spurningunni “Hvernig er Ból?” svarar hann: “Hellisskúti þar sem fé var geymt í.” Meðfylgjandi mynd er úr fjárskjólinu Ból undir Bjallnum.
Forvitnilegt verður að fylgjast með sérfræðingum er rannsaka munu gýmaldið nýopinberaða og skýringum þeirra á tilurð þess. Það mun þó kýrskýrt að þarna er um að ræða enn eina “dularperlu” Grindavíkur, en sannlega má segja að fleiri slíkar séu enn óopinberaðar í umdæmi hennar.
[Nokkrum dögum síðar var gýmaldið fyllt og þannig gert að engu. Líkast til var það óhjákvæmilegt, bæði vegna þess að ekki var um annað vegstæði að ræða á þessum stað og auk þess var um talsvert grjóthrun að ræða úr opi þess. Því var vettvangurinn varhugaverður og beinlínis hættulegur fyrir óvana].
Framangreint efni varð einungis til vegna glöggskyggni FERLIRsfélaga og markvissra viðbragða hans – þökk sé honum. Í raun er fyrirbærið dæmigert fyrir hellamyndanir á móbergssvæðum, s.s. á Suðurlandi þar sem margir “manngerðir” hellar ku vera.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Fálkaþúfa

Stapinn geymir ýmislegt ófyrirséð. Þegar FERLIR var á ferð þar nýlega, hafði gengið hina gömlu þjóðleið upp Reiðskarðið og beygt áleiðis yfir í Kvennagönguskarð, sló sólarblett á stóra grassyllu undir ofanverðu hamrabeltinu. Augljóst mátti telja að þarna hefði verið fjárathvarf fyrrum. Þegar komið var inn á sylluna kom í ljós lítill en aflangur skúti inn undir bergið. Þar fyrir innan var spýtnabrak og fleira er einhverjir höfðu komið þar fyrir. Frá munnanum var ágætt útsýni yfir Vogavíkina og Voga.
SyllanÍ örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Voga segir m.a: “Grímshóll er þar efstur, allfrægur úr þjóðsögum. Herjanssæti og Grímshóll mun vera tengt nafni Óðins, æðsta goðs Norðurálfumanna. [Herjanssæti er á landamerkjum Stóru-Voga og Innri-Njarðvíkur við svonefnda Kolbeinsskor.] Austur og inn frá Skor koma björgin með ýmsum nöfnum svo sem Hamarinn, Eggjar og Snös. Þarna er einnig að finna nöfn eins og Hamrabrúnir, Stapabrúnir eða Brúnir og svo eru þarna niður undan Hamraskriður eða Brúnaskriður. Þá kom laut í Brúnirnar og nefndist Gil og lá þar upp með stígur erfiður uppgöngu, nefndist Heljarstígur.
HellirinnHér nokkru innar er svo Brekkuskarð eða Brekkuskor og lá þar upp Brekkustígur og var þar sæmilega auðvelt uppgöngu. Litlu innar var svo Rauðastígur. Nokkru innar er svo Kvennagönguskarð og þar lá upp Kvennagöngu-skarðsstígur. Svo er litlu austar Reiðskarð með Almenningsveginum, Gamla- og var bratt upp að fara. Vestan í skarðinu er lítill hamar og þar í Skútinn eða Hellirinn, var þar fjárskjól allgott. Austan við Reiðskarð er svo Hamarinn, Eystri-. Upp á Hamrinum er Fálkaþúfa og Gjögur. Austan til við Hamarinn lá þjóðvegurinn upp á Stapann í sveig og nefndust þar Moldbrekkur. Upp og austur af Brekkuskarði er Kálgarðsbjalli og þar litlu austar er Miðbjalli og þá Lyngbjalli og Mýrarbjalli. Þar sem Reykjanesbraut liggur upp á Stapann nefndist Lágibjalli. Þar litlu vestar er Hærribjalli eða Stærribjalli og einnig nefndur Háibjalli. Undir bjöllunum eru svo Bjallabrekkur og þar er skógræktargirðing Félags Suðurnesjamanna.”
Þegar FERLIR var inni í Hellinum mátti allt í einu heyra barnsrödd fyrir utan: “Er þetta Hellirinn, pabbi?” Var þar kominn lítill snáði með pabba sínum, afkomendur Guðmundar Björgvinssonar frá Brekku undir Stapanum. Var faðirinn að sýna syninum hinn alkunna Helli, “sem sæist svo vel frá Vogum”.
Í leiðinni var kíkt á Fálkaþúfu, sem er áberandi á Stapanum frá fjárskjólinu séð. Vestan við það er stærðarinnar bjarg, sem hefur á jökulruðningstímanum náð að tylla sér um stund á smærri steina – og staðnæmst þar um þúsundir ára.
Frábært veður. Gangan tók 22. mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing Voga (GS).

Stapinn

Fjárskjól í Vogastapa.

 

Dollan

Farið var í Dolluna, sem er rétt við gamla Grindavíkurveginn, við bílastæðið á Gíghæð. Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um tvær mannhæðir og hallar síðan undir á alla vegu. Þarna hefur Grindavíkurbær komið fyrir góðum stiga fyrir ferðafólk enda var ástæða til að gera hellinn aðgengilegan svona ofurnálægt vegi. Fyrst þurfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hafði neðan við opið.

Dollan

Dollan.

Þegar haldið er inn í hellinn til vesturs opnast undrið. Hellirinn er kannski ekki með víðustu, hæstu eða lengstu hellum landsins, en í heild uppfyllir hann hins vegar öll skilyrði til að geta flokkast góður hellir.
Dollan er í heildina um 130 metra hraunhellir – rás, er myndaðist er hraunskelin hrundi undan vegavinnutækinu. Hellirinn er í raun dæmigerður fyrir fjöldann af slíkum hraunhellum á Reykjanesskaganum. Stærstir eru þeir í Klofningum, neðan Grindarskarða, ofan Stakkavíkurfjalls, í Bláfjöllum og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir fleiri hellar eru við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn, Hestshellir og Arnarseturshellir. Dátahellir er skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.

Dollan

Í Dollunni.

Vesturhluti Dollunnar er um 80 metra lönd rás sem stækkar í stóra og myndarlega hvelfingu eftir að innar er komið. Rásin er lægst og síðan þrengst fremst, en hækkar og víkkar snarlega. Þá lækkar loftið á ný, en hækkar síðan er opnast inn í allstóra hvelfingu. Botninn er hrjúfur, en í neðri hutanum sést vel hvernig síðusta deig hraunárinnar hefur staðnæmst og storknað. Í lofti má sjá sepa er myndast í hitanum, gljáa á veggjum og lítil hraunstrá, ef vel er að gáð.
Hellirinn er opinn öllu áhugasömu fólki með góð ljós. Næg bílastæði eru til staðar. Nú standa yfir úrbætur á bílastæðinu og mun það verða orðið “formlegt” og afsaltlagt innan skamms tíma. Leiðin að hellinum er greið og hentar öllum aldurshópum.

Gíghæð

Vegavinnubyrgi á Gíghæð.

Á Gíghæð, gegnt Dollunni (handan vegarins), má sjá nokkur hús vegavinnumanna frá því að Grindavíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 – 1918. Vegavinnubúðirnar hafa verið með ca. 500 m millibili frá Stapanum til Grindavíkur, einkum í gegnum hraunin. Hestshellir, sem er þar í leiðinni, hefur verið nýttur. Þá má enn sjá nokkur heilleg hús og húsaþyrpingar. Arnarseturshraunið rann árið 1226 (-1240). Mörg hraun, stór og smá, eru ofan og utan við byggðina í Grindavík. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi ca. 2400 ára. (Kunnugir eru fljótir að koma auga á aldur hrauna ef þurfa þykir).

Vegavinnubúðirnar á Gíghæð eru sennilega frá því um 1916, en byrjað var á Grindavíkurveginum 1913 og þá á Stapa. Sjá má ummerki eftir vegavinnumennina á u.þ.b. 500 metra millibili frá gatnamótunum. Líklegt má telja að þeir hafi reist nýjar búðir að jafnaði ár hvert. Njarðvíkursel við Seltjörn (Selvatn) hefur að öllum líkindum verið nýtt, sjá má götu og búðir skammt sunnar, skammt vestan við Hestshelli má sjá hús sem og á Gíghæð.

Grindavíkurvegur

Hús við Grindavíkurveginn.

Sunnan hæðarinnar er stígur og hús nálægt honum. Síðustu búðirnar 1918 voru við Hesthúsbrekkuna skammt fyrir ofan Grindavík. Um er að ræða skemmtileg og heilleg mannvirki um ákveðið verklag og mikilvægan þátt í samgöngusögunni, sem ástæða er til að varðveita. Fjarlægja þarf girðingu, sem hindrar aðgang að svæðinu, en jafnframt að ganga þannif grá því að gestir feti tiltekna slóð að svæðinu til að minnka líkur á skemmdum. Til marks um nauðsyn þessa má benda á að þegar FERLIR kom fyrst að búðunum fyrir u.þ.b. sex árum var mosinn í “þorpsgötunni” algerlega ósnortinn. Nú er hann vel troðinn. Fólk hefur almennt gengið vel um svæðið, en þó hefur mátt sjá þar umbúðir utan af ýmsu góðgæti er gestir hafa fleygt frá sér – um leið og þeir hafa notið innihaldsins. Hver er jú sjálfum sér næstur í þessum efnum, eins og konan á virkjanasvæðinu sagði fyrir stuttu. Reynt hefur verið að fjarlægja það jafnóðum, en best væri að fólk, sem skoðar svæðið, láti ógert að fleygja þarna rusli frá sér (jafnvel þótt enginn sjái til), enda sýnir það með því þessum merkilegu minjum áanna ákveðna óvirðingu. Og það viljum við ekki – eða er það?
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson (1990).

Dollan

Í Dollunni.

Snorri
Skýringin á yfirskriftinnni III við Snorra er sú að um er að ræða þriðju ferðina í hellinn eftir að hann fannst árið 2003.

Áður höfðu nokkrar ferðir verið farnar um hraunssvæðið við leit að hellinum (jarðfallinu) uns hann fannst loks í einni þeirra. Nú hefur hellirinn verið kortlagður með “nýmóðins” mælitækjum útlendinga. Það, að það þurfi tækjabúnað útlendinga til að mæla helli hér á landi, ætti að segja nokkuð til um stuðning hlutaðeigandi aðila við slíkar mælingar sem og rannsóknir á “hellaríkasta” svæði veraldar. Með líkindareikningum má áætla að einungis 1/10 hluti hella hér á landi sé mönnum kunnir. Hérlend stjórnvöld hafa hins vegar verið afar værukær við að styðja leit að hellum – eins merkileg og eftirtektarverð jarðfræðifyrirbrigði og þau annars eru. T.a.m. fannst nýlega einn stærsti hraunhellir landsins, einungis fyrir þrautseigju og viljafestu nokkurra manna, og það í örskotsfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. En hvers vegna og til hvers ætti að upplýsa aðra um návist hans?
Lagt var upp frá Sýslusteini á suðurmörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: “Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krísuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…”

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Sýslusteinar eru víðar á landinu, s.s. á sýslumörkum við Núpshlíðarveg, sýslumörkum við Þvottárveg í Krossanesi og sýslumörk við Gígju. Í sögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir um lokin að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.”
Um landamerki Kópavogs segir m.a. að “svo upp eftir farvegi Lyklafellsárinnar að sýslumörkum Árnessýslu, en sýslumörk fara þarna eftir beinni línu úr Sýsluþúfu á Mosfellsheiði í Sýslustein. Sýslusteinn er nú talinn vera steinn, ekki mjög stór, á holtinu skammt sunnan Lyklafellsár um 30 m frá árbakkanum á móts við ármót Engjadalskvíslar og kvíslar sem kemur norðaustan af Mosfellsheiði um 1,5 km suðaustan Lyklafells. (Sbr. samning og landamerkjabréf dags. hinn 23. janúar 1991.)”.
Smalinn Snorri á Vogsósum benti FERLIR á að stórt jarðfall væri í hrauninu ofan við Geitahlíð. Hann hafði séð það eitt sinn er hann hafði gengið frá Vörðufelli í gegnum mosahraun, komið að grasbrekkum neðan við Melhóla og haldið áfram til suðvesturs að geilinni á Geitahlíð ofan við Sláttudal. Austan Geitahlíðar eru allnokkrir eldgígar og eldborgir. Vestara hraunið hefur runnið til vesturs og niður í Kálfadali, en eystra hraunið hefur runnið til austurs og niður með austanverðri Geitahlíð vestan Sláttudals. Um er að ræða mikil hraun. Smalinn hafði á leið sinni gengið fram á jarðfallið, sem birtist fyrirvaralaust framundan í hrauninu. Yfir jarðfallið átti að vera falleg steinbrú.
Þegar FERLIR kom loks að jarðfallinu hafði steinboginn fallið niður í það, en hann hefur að öllum líkindum verið nokkuð stór. Gríðarlegt gat er inn í jarðfallið til vesturs. Þar hefur runnið mikið hraunmagn. Veggir eru sléttir og virtist rásin vera nær hringlaga. Fallið hefur úr loftinu, svo mikið að lokast hefur fyrir rásina rétt fyrir innan opið. Á milli steina fremst í rásinni sást þó niður í dimman “kjallara”. Með nokkrum tilfæringum var hægt að forfæra grjót og var þá hægt að láta sig síga niður um gat. Um mannhæðar hátt er niður á fast, en þar í frá lækkar hvelfingin, sem þar er undir, inn til miðjunnar. Hún er mikil um sig og er undir stóru hraunrásinni. Inni í enda hennar er lítið gat í um tíu metra hæð. Stiga þarf til að komast upp í hana. Út um gatið hefur seitlað þunnfljótandi hraun og myndar það fallegan storknaðan foss svo til beint niður úr gatinu.
Eystri rásin í jarðfallinu liggur fyrst til suðurs og beygir síðan til austurs. Mikið hrun er í henni. Var rásinni fylgt í um 20 metra, en þá lokaðist hún nær alveg í hruni. Loftið virtist ótryggt.
Í apríl 2004 hélt hópur FERLIRs og HRFÍ félaga í Snorra. Tilgangur ferðarinnar var að skoða djásnið og kortleggja, en helgina áður hafði Björn Hróarsson orðið fyrstur til að skoða hellinn. Hann fór þangað með aðstoð hálfstiga og klifraði upp í rásina. Samkvæmt kortlagningu er mjög líklegt að yfirborðsrásin hafi á einhverjum tímapunkti tengst meginrás hellisins (Hellirinn er nokkuð heillegur og aðeins eru nokkur meiriháttar hrun. Hellirinn lokast með hruni, og var reynt án árangurs að komast fram hjá því. Heildarlengd hellisins gæti verið um 300 metrar en rásin innan við hraunfossinn er um 200 metra löng og meðalþvermál hennar um fjórir metrar.

Snorri

Í Snorra.

Þegar Snorri hafði verið skoðaður fyrsta sinni af fagfólki varð fulltrúa HERFÍs að orði; “MEGAflott”. Síðan hefur ekki dregið úr flottheitunum, nema síður sé.
Nú var stefnan enn og aftur tekin á Snorra. Rúmlega tólf metra langur stigi, að jafnaði nýttur í Grindavík, var með í för, sá hinn sami og kom við sögu er Snorri var sigraður fyrsta sinni. Án hans urðu kynnin við þargreinda undirheima ekki endurnýjuð. Þoka var í fjöllunum og mosahraunið alls ekki auðratað.
Þegar komið var að Snorra þessu sinni blasti við geysistórt jarðfallið, sem fyrr segir. Niður í því eru mjög stórar rásir. Efri rásin er hrunin skammt eftir að inn er komið. Neðri rásin er stórgrýtt, beygir og þrengist eftir u.þ.b. 15 metra, uns hún lokast alveg. Loftið þar er mjög laust í sér.
Í jarðfallinu var allnokkur snjór, en enginn þar sem opið er niður í kjallarann.
Undir efri rásinni í Snorra er stór skálalaga kjallari, u.þ.b. 10 metra hár. Hann fannst eftir að aðframkomnir FERLIRsfélagar, sem fundið höfðu jarðfallið, neituðu að gefast upp við svo búið. Eftir að hafa fært til steina í jarðfallinu með miklu erfiði var hægt er að komast niður í kjallarann. Efst á vegg í kjallaranum er op, ca. tveir metrar að ummáli í hátt í tíu metra hæð. Út um opið virðist koma storknaður þunnfljótandi hraunfoss, en annars eru veggir kjallarans alþaktir glerkenndum smáhraungúlpum.
Enn og aftur var stiginn dreginn niður í kjallarann og reistur við vegginn. Þegar upp í gatið er komið sést hraunfossinn. Haldið var upp eftir rásinni, sem liggur að mestu upp á við. Mestu þrengslin eru fremst, en eftir það er leiðin allgreiðfær. Við tekur stór og mikil rás. Að þessu sinni náði þokan inn í rásina. Nokkur hrun eru á gólfi, sem fyrr segir, en víðast hvar er botninn sléttur. Dropsteinar er með veggjum og sumir allt að 30 cm háir. Hraunshrá liggja niður úr loftinu, sum nokkuð löng. Á einum stað má sjá “gullsalla” í loftsprungu.
Líklegt má telja að þakið sé ekki mjög þykkt eftir að upp í meginrásina er komið. Nokkuð draup úr því eftir rigningu næturinnar.
Aðkoman að Snorra, erfiðleikarnir við að komast upp í rásina og ferðalagið í gegnum hana er eftirmynnilegt. Þar eiga dropsteinar og hraunstrá ekki síst hluta að máli.
Með í þessari för var Snorri Þórarinsson, bóndi á Vogsósum, sá er hafði sagt FERLIRsfélögum frá jarðfallinu á sínum tíma. Ekki var annað að sjá en Snorri væri bara stoltur af nafna sínum.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.