Snorri
Skýringin á yfirskriftinnni III við Snorra er sú að um er að ræða þriðju ferðina í hellinn eftir að hann fannst árið 2003.

Áður höfðu nokkrar ferðir verið farnar um hraunssvæðið við leit að hellinum (jarðfallinu) uns hann fannst loks í einni þeirra. Nú hefur hellirinn verið kortlagður með “nýmóðins” mælitækjum útlendinga. Það, að það þurfi tækjabúnað útlendinga til að mæla helli hér á landi, ætti að segja nokkuð til um stuðning hlutaðeigandi aðila við slíkar mælingar sem og rannsóknir á “hellaríkasta” svæði veraldar. Með líkindareikningum má áætla að einungis 1/10 hluti hella hér á landi sé mönnum kunnir. Hérlend stjórnvöld hafa hins vegar verið afar værukær við að styðja leit að hellum – eins merkileg og eftirtektarverð jarðfræðifyrirbrigði og þau annars eru. T.a.m. fannst nýlega einn stærsti hraunhellir landsins, einungis fyrir þrautseigju og viljafestu nokkurra manna, og það í örskotsfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. En hvers vegna og til hvers ætti að upplýsa aðra um návist hans?
Lagt var upp frá Sýslusteini á suðurmörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: “Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krísuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…”

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Sýslusteinar eru víðar á landinu, s.s. á sýslumörkum við Núpshlíðarveg, sýslumörkum við Þvottárveg í Krossanesi og sýslumörk við Gígju. Í sögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir um lokin að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.”
Um landamerki Kópavogs segir m.a. að “svo upp eftir farvegi Lyklafellsárinnar að sýslumörkum Árnessýslu, en sýslumörk fara þarna eftir beinni línu úr Sýsluþúfu á Mosfellsheiði í Sýslustein. Sýslusteinn er nú talinn vera steinn, ekki mjög stór, á holtinu skammt sunnan Lyklafellsár um 30 m frá árbakkanum á móts við ármót Engjadalskvíslar og kvíslar sem kemur norðaustan af Mosfellsheiði um 1,5 km suðaustan Lyklafells. (Sbr. samning og landamerkjabréf dags. hinn 23. janúar 1991.)”.
Smalinn Snorri á Vogsósum benti FERLIR á að stórt jarðfall væri í hrauninu ofan við Geitahlíð. Hann hafði séð það eitt sinn er hann hafði gengið frá Vörðufelli í gegnum mosahraun, komið að grasbrekkum neðan við Melhóla og haldið áfram til suðvesturs að geilinni á Geitahlíð ofan við Sláttudal. Austan Geitahlíðar eru allnokkrir eldgígar og eldborgir. Vestara hraunið hefur runnið til vesturs og niður í Kálfadali, en eystra hraunið hefur runnið til austurs og niður með austanverðri Geitahlíð vestan Sláttudals. Um er að ræða mikil hraun. Smalinn hafði á leið sinni gengið fram á jarðfallið, sem birtist fyrirvaralaust framundan í hrauninu. Yfir jarðfallið átti að vera falleg steinbrú.
Þegar FERLIR kom loks að jarðfallinu hafði steinboginn fallið niður í það, en hann hefur að öllum líkindum verið nokkuð stór. Gríðarlegt gat er inn í jarðfallið til vesturs. Þar hefur runnið mikið hraunmagn. Veggir eru sléttir og virtist rásin vera nær hringlaga. Fallið hefur úr loftinu, svo mikið að lokast hefur fyrir rásina rétt fyrir innan opið. Á milli steina fremst í rásinni sást þó niður í dimman “kjallara”. Með nokkrum tilfæringum var hægt að forfæra grjót og var þá hægt að láta sig síga niður um gat. Um mannhæðar hátt er niður á fast, en þar í frá lækkar hvelfingin, sem þar er undir, inn til miðjunnar. Hún er mikil um sig og er undir stóru hraunrásinni. Inni í enda hennar er lítið gat í um tíu metra hæð. Stiga þarf til að komast upp í hana. Út um gatið hefur seitlað þunnfljótandi hraun og myndar það fallegan storknaðan foss svo til beint niður úr gatinu.
Eystri rásin í jarðfallinu liggur fyrst til suðurs og beygir síðan til austurs. Mikið hrun er í henni. Var rásinni fylgt í um 20 metra, en þá lokaðist hún nær alveg í hruni. Loftið virtist ótryggt.
Í apríl 2004 hélt hópur FERLIRs og HRFÍ félaga í Snorra. Tilgangur ferðarinnar var að skoða djásnið og kortleggja, en helgina áður hafði Björn Hróarsson orðið fyrstur til að skoða hellinn. Hann fór þangað með aðstoð hálfstiga og klifraði upp í rásina. Samkvæmt kortlagningu er mjög líklegt að yfirborðsrásin hafi á einhverjum tímapunkti tengst meginrás hellisins (Hellirinn er nokkuð heillegur og aðeins eru nokkur meiriháttar hrun. Hellirinn lokast með hruni, og var reynt án árangurs að komast fram hjá því. Heildarlengd hellisins gæti verið um 300 metrar en rásin innan við hraunfossinn er um 200 metra löng og meðalþvermál hennar um fjórir metrar.

Snorri

Í Snorra.

Þegar Snorri hafði verið skoðaður fyrsta sinni af fagfólki varð fulltrúa HERFÍs að orði; “MEGAflott”. Síðan hefur ekki dregið úr flottheitunum, nema síður sé.
Nú var stefnan enn og aftur tekin á Snorra. Rúmlega tólf metra langur stigi, að jafnaði nýttur í Grindavík, var með í för, sá hinn sami og kom við sögu er Snorri var sigraður fyrsta sinni. Án hans urðu kynnin við þargreinda undirheima ekki endurnýjuð. Þoka var í fjöllunum og mosahraunið alls ekki auðratað.
Þegar komið var að Snorra þessu sinni blasti við geysistórt jarðfallið, sem fyrr segir. Niður í því eru mjög stórar rásir. Efri rásin er hrunin skammt eftir að inn er komið. Neðri rásin er stórgrýtt, beygir og þrengist eftir u.þ.b. 15 metra, uns hún lokast alveg. Loftið þar er mjög laust í sér.
Í jarðfallinu var allnokkur snjór, en enginn þar sem opið er niður í kjallarann.
Undir efri rásinni í Snorra er stór skálalaga kjallari, u.þ.b. 10 metra hár. Hann fannst eftir að aðframkomnir FERLIRsfélagar, sem fundið höfðu jarðfallið, neituðu að gefast upp við svo búið. Eftir að hafa fært til steina í jarðfallinu með miklu erfiði var hægt er að komast niður í kjallarann. Efst á vegg í kjallaranum er op, ca. tveir metrar að ummáli í hátt í tíu metra hæð. Út um opið virðist koma storknaður þunnfljótandi hraunfoss, en annars eru veggir kjallarans alþaktir glerkenndum smáhraungúlpum.
Enn og aftur var stiginn dreginn niður í kjallarann og reistur við vegginn. Þegar upp í gatið er komið sést hraunfossinn. Haldið var upp eftir rásinni, sem liggur að mestu upp á við. Mestu þrengslin eru fremst, en eftir það er leiðin allgreiðfær. Við tekur stór og mikil rás. Að þessu sinni náði þokan inn í rásina. Nokkur hrun eru á gólfi, sem fyrr segir, en víðast hvar er botninn sléttur. Dropsteinar er með veggjum og sumir allt að 30 cm háir. Hraunshrá liggja niður úr loftinu, sum nokkuð löng. Á einum stað má sjá “gullsalla” í loftsprungu.
Líklegt má telja að þakið sé ekki mjög þykkt eftir að upp í meginrásina er komið. Nokkuð draup úr því eftir rigningu næturinnar.
Aðkoman að Snorra, erfiðleikarnir við að komast upp í rásina og ferðalagið í gegnum hana er eftirmynnilegt. Þar eiga dropsteinar og hraunstrá ekki síst hluta að máli.
Með í þessari för var Snorri Þórarinsson, bóndi á Vogsósum, sá er hafði sagt FERLIRsfélögum frá jarðfallinu á sínum tíma. Ekki var annað að sjá en Snorri væri bara stoltur af nafna sínum.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.