Gengið var með kunnugum um Vatnsheiði, litið í jarðfall er opnaðist er jarðýta var næstum fallin ofan í það á leið yfir hraunið og skoðað svæði þar sem myllusteinar voru höggnir til fyrr á öldum. Enn má sjá einn steinanna, sem hafði verið unnin að öðru leiti en því að augað vantar. Svo virðist sem hann hafi verið skilinn eftir þarna þegar hann klofnaði við augnsmíðina.
Jarðfallið var nefnt Nían eftir jarðýtunni, Caterpillar 9. Ýtustjórinn var á leið yfir syðsta Vatnsheiðargíginn þegar jörðin opnaðist skyndilega undir henni. Hann náði þó að koma ýtunni áfram og úr allri hættu. Síðan hefur opið stækkað smám saman. Nú er þarna hið myndarlegasta jarðfall, u.þ.b. 10-12 metrar á dýpt. Svo er að sjá, þegar staðið er á barminum, að rás liggi inn undir bakkann, en svo mun ekki vera. Gjallið í gígnum er rauð- og brúnleitt.
Grindvíkingar hafa fundið leið til að nýta jarðfallið. Hobbýbændur þar hafa losað sig við afgangssláturafurðir í holuna, líklega í von um að ná að fylla hana smám saman?