Skógfellavegur

Gengið var inn trönusvæðið austan Grindavíkurvegar.

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Í stað þess að fylgja veginum til austurs um svæðið var gengið beint áfram yfir úfið Skógfellahraunið til austurs. Það er erfitt yfirferðar og í rauninni leggjabrjótur, enda var gengið fram á löngu dauðan stakan legg lengst inni í hrauninu, sem einhver hafði misst þarna á leið sinni þar um. Svipast var um eftir öðrum beinum, en engin fundust. Það verður því að draga þá ályktun að viðkomandi hafi komist yfir það á a.m.k. öðrum fætinum. Loks var komið að fínum slóða til suðurs inn í hraunið. Honum var fylgt í átt að Litla-Skógfelli. Miðsvæðis við slóðann er stórbrotið hraun utan í kjarrivöxnum brekkum. Í því eru margir bollar og smáop, en hvergi rásir eða hellar, einungis smáskútar. Vottaði fyrir hleðslu á einum stað.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Þegar komið var upp á vestari öxlina á Litla-Skógfelli sást vel tilgangur slóðans – leitin að malarnámu. Rótað hafði verið upp á öxlinni og greinilega verið að kanna hvort Litla-Skógfell væri vænlegt til malartekju. (Þess skal getið til að taka af allan vafa að Litla-Skógfell er í óskiptu landi Þórkötlustaðahverfis og ekki er vitað til þess að eigendur þess hafi samþykkt malartekju þarna, hvað þá slóðagerðina, sem einnig er á þess landi).
Haldið var áfram til suðurs að Skógfellastígnum, sem liggur þarna á milli Skógfellanna á sléttu helluhrauni. Stígurinn er klappaður í helluna (sbr. mynd) á löngum kafla. Blankalogn og glaðvær lóukórssöngur í kvöldkyrrðinni við sólarspil. Slóðinn liggur áfram til suðurs inn í hraunið, í átt að Kastinu.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða.

Gengið var til vesturs um helluhraunið og þá komið aftur að hraunbrún Skógfellshrauns. Kanturinn með hlíðinni er vel gróinn og liggur stígur á milli hennar og hraunsins. Til vesturs mátti sjá slétt mosahraun og virtist þar vel greiðfært yfir hraunið. Ekki sást móta fyrir stíg, en þykkur mosi er þarna yfir. Ef taka ætti mið af svæðinu ofan við hlíðina og hugsanlegu framhaldi af leið vestur yfir hraunið þá væri hún einhvers staðar þarna, en hún væri þá beint framhald af Sandakraveginum til suðvesturs.
Ákveðið var að ganga slóðann til baka. Nyrst við hann er borhola.
Gangan tók 3 klst. Veður var frábært – logn, stilla og sól.

Skógfellavegur

Varða við Skógfellastíg. Litla Skógfell framundan.