Í fyrri lýsingu um leit að LM-merki á steini við gömlu götuna (Skógfellastíg/Vogaveg) – (sjá HÉR) – er sagt frá leitinni að staðfestu staðsetningar á réttum landamerkjum Vatnsleysustrandar-hrepps og Grindavíkur. Í framhaldi af henni var ákveðið að fara með upplýsingaraðila á vettvang merkjanna.
Þegar inn á svæðið var komið virtist ljóst að málið var alls ekki auðvelt viðureignar. Forsagan lét þó tilfinningar leitenda ekki alveg ósnortnar. Það lá í loftinu að umrætt merki væri þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði við götuna, en hvar nákvæmlega?
Þegar kennileiti á línunni milli Kálffells og Arnarkletts eru skoðuð kemur margt forvitnilegt í ljós. Hvarvetna eru fallnar grónar vörður á hólum, hæðum og á gjám eða ummerki um slíkt, s.s. uppreistar hellur, hringhleðslur o.fl. Á einum stað virtist augljóst að vörðu hafði verið raskað, af óljósri ástæðu.
Í landamerkjalýsingu Þórkötlustaða frá 1890, undirrituð af fulltrúum allra jarðanna og staðfest af sýslumanni, segir m.a. um markalínuna: “…sjónhending í toppinn á Stóra-Skógfelli, þá áfram sömu stefnu yfir Litla-Skógfell, að steini sem þar stendur við götuna, þaðan að Kálffelli… Einkennismark markalínunnar er L.M. er þýðir landmerki…”. Í lýsingunni er vitnað í landamerki frá 1270, endurnýjuðum 28. júní 1620.
Helsti heimildarmaður fyrir framangreindu er Ísleifur Jónsson, margrómaður verkfræðingur frá Einlandi í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Kann hann margar skemmtilegar sögur af gegnum Grindvíkungum. Ísleifur er nú (2009) 82 ára (f:1927) og ern eftir aldri. Sagðist hann hafa farið að smala inn á Skógfellahraunið norðan við Litla-Skógfell fyrir u.þ.b. 65 árum.
Þá hefðu smalarnir, hvort sem um var að ræða frá Vatnsleysuströnd eða Grindavík, safnast saman við “Steininn”, þ.e. landamerkjastein við gömlu götuna millum Grindavikur og Voga. Steinninn hafi verið nálægt mannhæða hár (m.v. hann þá) og á hann hafi verið klappað greinilegum stöfum LM. Grindvíkingar hefðu ekki mátt fara lengra en að Steininum því frá honum ráku þeir féð áleiðis til Grindavíkur en Strandarbúar niður á Vatnsleysuströnd. Stundum hefði verið bið eftir mönnum og var þá gott að skýlast við Steininn, sem reyndar hafi að nokkru verið smáhæð.
Áður en lagt var af stað staðfesti Elías Guðmundsson (nú íbúi í Reykjanesbæ, rúmlega fimmtugur) frá Efralandi í Grindavík frásögn Ísleifs. Sagðist hann fyrir mörgum árum verið sendur inn að Steininum til að smala, en lengra mátti hann ekki fara. Þar tækju Vogamenn við. Ofar hefði Stóravarða verið með stefnu í Kálffell. Steinninn hefði og verið áberandi á landamerkjunum við gömlu götuna. Hann hefði hins vegar heyrt á seinni árum að Kaninn, sem hafði æfingaraðstöðu í heiðinni, hefði notað Steininn sem skotmark. Hvort þeir hefðu hitt hann eður ei vissi hann ekki. Elías sagðist aðspurður vera orðinn lúinn til fótanna og gæti því ekki tekið þátt í þessari ferð – en kannski seinna.
Nú segir í stuttri lýsingu frá upphafi og endi ferðarinnar.
Safnast var saman sunnan við Arnarklett (landamerki Grindavíkur og Voga). Kobbi (Jakob) frá fjórhjólaleigunni ATV 4×4 í Grindavík, sem hafði góðan stuðning af lögreglunni við endurheimtur þá og þegar til kastanna kom, hafði eitt hjólanna meðferðis. Óskar, frá Saltfisksetri Íslands, Sævarsson var einnig mættur, enda hafði hann undirbúið ferðina gaumgæflega Grindavíkurmegin. Allt stóð af efndum.
Á staðnum klæddist Ísleifur tilheyrandi skjól- og hlífðarfatnaði, settist á fjórhjólið aftan við ökumanninn og lagt var af stað eftir ruddum slóða í gegnum úfið Arnarseturshraunið (rann 1226). Á undan gengu sem sagt nefndur Óskar, sonur Ísleifs (Einar) og fulltrúi FERLIRs, sem bara fylgdi með svona til að skrá ferðina líkt og allir fjölmiðlar landsins hefðu að sjálfsögðu gert (ef þeim hefði bara verið boðið).
Þegar komið var inn að Litla-Skógfelli þurfti að finna tilheyrandi slóð fyrir fjórhjólið. Hleypt var lofti úr dekkjum og tilraun gerð hvort för sæjust eftir þau í mosanum, en það reyndist ekki vera. Gömlu götunni var því að mestu fylgt að áfangastað. Þegar þangað var komið kannaðist Ísleifur við sig frá fyrri tíð. Hann sagðist aðspurður ekki hafa fylgt gömlu götunni að Steininum heldur farið beint að augum – “þangað inneftir”. Dró hann upp landakort (danska herforingjakortið) upp úr tösku og sýni hvernig markalínan ætti að liggja skv. fyrrnefndri landamerkjalýsingu. Landamerki Þórkötlustaða voru dregin (skv. lýsingunni) um hæstu bungu Stóra-Skófell og hæstu bungu Litla-Skógfells til norðurs að “Steininum við gömlu götuna”. Skv. því virtist eiga að vera augljóst hvar Steininn væri að finna. Þó var svo ekki, enda fór drjúgur tími í leitir á tiltölulega litlu svæði.
Miðað við uppdrátt Ísleifs virtist ljóst hvar Steininn var að finna. Um það bil 160cm há klapparhrúga virtist líklegasti staðurinn. Ef áletrunin væri þar myndi hún eflaust vera sem sólstafir að síðdegi. Utan við við staðinn er gróin varða á hól. Í línu við hólinn, milli Kálffells og Arnarkletts eru fleiri standandi og fallnar vörður er gætu gefið hin fyrrum landamerki til kynna – enda eflaust ekki komnar af engu.
Steinninn er um 1.8 km norðan við Litla-Skógfell og alls ekki auðfundinn. Hins vegar má ætla, meðan smalamennskan var eðlilegur hluti búskaparins, hafi staðsetningin verið á allra hlutaðeigandi vitorði – svo stutt frá gömlu götunni, sem ekki var hægt að villast út frá. Teknir hafa verið steinar úr nærliggjandi hól og búið til skjól, væntanlega fyrir þá sem biðu hinna.
Og þá var að halda til baka. FERLIR var beðinn um að halda staðsetningunni leyndri, a.m.k. fyrst um sinn. Ef þetta reynist rétt mun umdæmi Grindavíkur stækka um 1.5 km til norðurs, um tugi hektara, á kostnað Vatnsleysustrandar-hrepps. Á móti myndi Vatnsleysustrandar-hreppur (Vogar) hins vegar fá sambærilega landspildu á móti úr Grindavíkurlandi.
Auk framangreinds má bæta við eftirfarandi skráðri heimild frá um 1500:
“SKRÁ um landamerki milli Voga og Grindavíkr. – Landsbókasafn 108. 4to bls. 543 með hendi séra Jóns Haldórssonar í Hítardal „Eptir atgömlum rotnum blöðum úr herra Gísla Jónssonar bréfabók”. Sbr. Dipl. IBI. II, bls. 76.
“Um Landamerke i millum Voga og Grindavijkur.
Úr máldaga sem skrifadur var i tijd Byskups Stephanar.
Voru þesse landamerke höfd og halldin i millum voga á strönd og grindavijkurmanna meir enn upp á 30 vetur ákallslaust. ad vogar ætte ecke leingra enn nedan fra ad Kálfsfelli og upp ad vatnskötlum fyrer innan fagradal og upp ad klettnum þeim sem stendur vid Skogfell hid nedra vid götuna enn Þorkötlustader og Jarngerdarstader ættu ofan ad þessum takmörkum.”
Skv. þessari heimild ættu landamerki að líta út eins og sjá má á meðfylgjandi korti. Hún staðfestir í raun frásögn Ísleifs í einu og öllu. Auk þess má enn sjá Steininn við “gömlu götuna”. Á hann er klappað merkið “LM”.
Frábær ferð. Gangan (aksturinn) tók 6 klst og 6 mín.
Heimildir m.a.:
-Ísleifur Jónsson, f: 1927.
-Elías Guðmundsson.
-Íslenskt fornbréfasafn, 7. b. (1170-1505), bls. 457-458.