Færslur

Fornubúðir

“Eins og kunnugt er lauk “Ensku öldinni” með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót í Grindavík í júní 1532. Þar má enn sjá leifar virkisins sem og “Enskulágar” þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda. Árið 1518 varð t.d. stórbardagi í Hafnarfirði milli þýskra og enskra kaupmanna, sem lutu í lægra haldi eftir mjög mannskæða viðureign. Hrökkluðust þeir við svo búið úr bækistöðvum við Hafnarfjörð.

Gerðisvellir

Tómas Þorvaldsson við leifar virkis Jóhanns Breiða ofan við Stórubót.

Englendingarnir höfðu sest að í Fornubúðum við Hafnarfjörð og voru með fjölmenni á stóru skipi. Hamborgarar, sem ekki vildu una því, að ensku kaupmennirnir hefðu höfnina, söfnuðu liði meðal Þjóðverja á Vatnsleysuströnd, í Keflavík, Básendum og Þórshöfn (við Ósa) og fengu þaðan fjörutíu og átta menn til liðs við sig.
Hamborgarar klæddu síðan skip sín sængum í sjó niður og sigldu þannig búnir inn fjörðinn í útrænu. Elda kyntu þeir og á skipum sínum, svo að reykinn legði inn yfir Englendinga.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Þarna varð hinn grimmasti bardagi, og er til marks um mannfallið, að ekki komust heilir úr slagnum nema átta þeirra Þjóðverja, sem gengið höfðu í liðið á Suðurnesjum. Eigi að síður unnu Hamborgarar sigur á Englendingum, er nú eiga sér ekki lengur griðland annars staðar á Reykjanesskaga en í Grindavík.
Vorið 1532 sneru þýskir kaupmenn og skipstjórar sér til ráðsins í Hamborg og báðu það senda sér liðsauka, þar er þeir hefðu einsett sér að fara að Englendingum í Grindavík.
Það er skreiðin, sem í rauninni er bitist um. Hún er svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostnaði þess í Íslandssiglingu og vörufarmi, er það flytur til Íslands.”

-Úr Öldin okkar 1518 og 1532.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón við Hafnarfjörð. Fornubúðir voru á grandanum að handan.

Básendar

Í Fornbréfasafninu, 287 og síðar, er m.a. fjallað um Grindavíkurstríðið 1532, aðdraganda og eftirmála:
287 – [Um 4. apríl 1532] – [Básendum]

Basendar-222

Básendar.

“Afrit af sættargerð milli Ludkens Schmidts og manna hans annars vegar og Roberts Leggde, Thomasar Hirlacks, Harije Fijtzerths og Bartrams Farors hins vegar. Þeir síðarnefndu koma til hafnar að Básendum á páskadag (þann 31. mars 1532), þar sem L. Sm. liggur fyrir, og spyrja hann, hvort hann muni þola þeim hafnarvist. Þeir fá það svar, að þeim sé óheimilt að koma inn í höfnina, sökum þess að L. Sm. hafi tilkynnt Hinriki nokkrum Berndes að hann mundi halda höfninni honum til handa. Þá fær Robert Legghe John Willers í lið með sér og freista þeir á miðvikudagsmorgun eftir páska (þann 3. apríl) að komast inn á höfnina með valdi, lögðu aftan og framan við skip L. Sm. og skutu og slógu hann og menn hans eftir beztu getu. Árásin mistekst, og gáfu árásarmenn upp skip og góss til að bjarga lífi sínu…”.

288 – 16. maí 1532, bls. 539

Basendar-223

Básendar.

“Óstaðsett viðurkenning Roberts Legghe og félaga hans á því, að þeir hafi afhent í skip Ludtkyns Smuthe fjörutíu lestir samkvæmt gerðum samningi og skulu það með lausir allra mála út af atburðunum á Básendum.”

290 – 18. júlí 1532 [Reykjavík], bls. 541-542
“Tylftardómur útnefndur af Erlendi Þorvarðarsyni lögmanni til þess að dæma um líflát Jóns Breens og manna hans í Grindavík. – Þar er borið, að Jón Breen hafi tekið með ofbeldi í Grindavík (góss) frá Katli Jónssyni og Þorgrími Halldórssyni, bundið þá og pínt, en hótað Þórði Guðmundssyni að höggva af honum höfuðið, ef hann léti nokkurn fisk af hendi við aðra en Jón og menn hans; einnig hefði hann gripið fisk frá þýzkum kaupmönnum, 20 lestir eða meir; einnig hefði hann hindrað með valdi, aðrir menn flytti fisk sinni burt, og dæmist Jón Breen eftir lögbókarinnar hljóðan ránsmaður og fyllilega af lífi tekinn ásamt fylgjurum sínum, en skip hans og góss fallið undir konung og umboðsmann hans Diðrik frá Mynden. Einnig eiga þeir að dæma um skip og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Lutken (Smith) og Joen Wyler og dæmist það fallið undir konung, ásamt öðru, sem bréfið greinir.”

bls. 544-545

Gerdavellir-222

Virki Jóhanns breiða á Gerðavöllum.

Um þessa atburði er nokkrum sinnum getið í íslenzkum heimildum; elzt mun frásögn biskupasagna talin frá því um 1593 (SJ Biskupasögur Bókmenntafélagsins II. b. bls. 237 og 240), merkt a), en textinn tekinn eftir ritgerð Jóns Gissurarsonar; þá kemur frásögn Jóns Egilssonar í Biskupaannálum frá því um 1605 merkt b) og að lokum annálsgrein Björns Jónssonar á Skarðsá frá Ps um 1639, hér merkt c).

a) Á þeim tima lá skip í hverri höfn fyrir sunnan og sums staða ij: þýzkir víðast, utan í Grindavík lágu engelskir. Það bar eitt sinn til á dögum biskups Ögmundar, að engelskir lágu eitt ár í Grindavík á fimm skipum og voru ómildir við íslenzka, svo fólk gat ekki það liðið; réði fólk engu sínu og fékk ekkert fyrir sitt; voru, fyrir mönnum þeirra ij Jónar, kallaður Eldri-Bragur og Yngri-Bragur. Tóku íslenzkir sig þá saman og riðu til Bessastaða, kröfðu höfuðsmanninn, Didrech van Minden, liðveizlu móti slíkum í mennum. Varð hann vel við og sendi strax í alla kaupstaði, því íslenzkir hefðu ella látið illa að honum sjálfum, ef hann hefði ekki við orðið; skipaði hann þýzkum að finna sig við Þórðarfell sem er hjá Grindavík.

Grindavikurhofn-222

Grindavík.

Komu þeir saman að kveldi dags í tilsettan tíma, Lxxx menn annars hundraðs og gengu þaðan í Víkina fyrir sólaruppkomu; höfðu engelskir búizt við og gjört sér virki um torf og grjót, en þeir höfðu lítið gagn af því. Hlupu þeir í skip sín, sem það gátu, og sigldu út með iiij skipum, fimmta gátu þeir þýzku náð og drápu xviij engelska, en vij létu þeir lifa og pilt. Fylgdu þeir engelska skipinu til Bessastaða með þeim þýsku sem á það voru látnir, en eitt af hinum fjórum forgekk í Víkinni strax í útsiglingunni, og sökk það þar strax, svo ekki neitt náðist af því.
Ritgjörð Jóns Gissurarsonar, Safn til sögu Íslands, I. b. bls.658, Biskupasögur gefnar út af Hinu ísl. bókmenntafélagi, II. b. Khöfn 1878, bls. 238—’39.
b) Á dögum biskups Ögmundar slógust þeir þýzkir og engelskir í Grindavík og unnu þeir þýzku, því hinir voru ekki við búnir og þýskir villtu fyrir þeim daginn og komu á þá óvart drukkna; þar féllu 14 engelskir, og hét sá Ríki-Bragi, sem fyrir þeim var. Þeir voru dysjaðir í virkinu.
Biskupsannálar Jóns Egilssonar, Safn til sögu Íslands, I. b. bls. 79.
c) Anno 1532. — Var hér á landi í Grindavík einn engelskur kaupmaður, hét Jóhann Breiði. Hann var missáttur við kóngsfóveta á Bessastöðum og vildi ekki gjalda honum toll, sem vera átti. Einninn kom misgreiningur í með þessum Jóhann og Hamborgurum, sem lágu til kaupskapar á Suðurnesjum, og keypti hann og hélt skreið nokkurri, er þeir áttu að hafa, og komu og komu orð með í hvorutveggjum um þessi efni. Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki, og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku þeir sig þá til hinir þýsku menn og Bessastaða fóveti og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og góss og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra dysjar hjá virkisgarði.
Skarðsannáll, Annálar 1400—1800 I. b., bls. 92—93.)”

Gerdavellir-223

Fræðsluskilti um Grindavíkurstríðið á Gerðavöllum.

291 – 29. júlí 1532 [Lundúnum], bls. 545-546
Bréf öldurmanna kaupmannagildisins þýzka í Lundúnum (de Staalhof) til borgarstjóra og ráðs í Hamborg. Þeir segja, að á Síðasta ári hafi Englendingar kært fyrir Englandskonungi og ráði hans, að þýzkir sæfarar frá Hamborg og Brimum beittu sig ofbeldi á Íslandi, en af þeim sökum hafi þýskir kaupmenn í Englandi orðið fyrir óþægindum. Þeir fara þess á leit, að borgarstjórnin sjái til þess að Þjóðverjar, sem sigli til Íslands, ástundi friðsamleg samskipti við Englendinga. Nú segja þeir, að kæra hafi borist Englandskonungi á hendur Lutskenn Smith, William Kenet og Jóhanni Sowermer frá Biskups Lynn fyrir að hafa ráðist á skip frá Lynn, sært menn og drepið, rænt skipið, eyðilagt og sökkt því. Þeir senda Hamborgurum kæruskjal Englendinga og biðja þá að gera upptækt skip og góss L. Sm. og taka hann og menn hans höndum og senda Matthias van Emerszen, ritara sinn, til þess að fylgja fram máli sínu, auk annars sem bréfið greinir.”

Heimild;
Fornbréfasafn 287, bls. 537-546.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt á Gerðavöllum ofan Stóru-bótar.

 

Járngerðarstaðir
“Grindavíkurstríðið”
IV. hluti – 20. mars 2004.
Vettvangsferð.

Básendar

Básendar.

Farið var í vettvangsferð á Básenda og í Stóru-Bót undir leiðsögn Jóns Böðvarssonar og Reynis Sveinssonar. Í ferðinni komu m.a. fram eftirfarandi upplýsingar:
“Við erum nú á leiðinni í Sandgerði þar sem Reynir Sveinsson mun koma í bílinn til okkar og leiðsegja okkur um Básenda. Ég get sagt ykkur að Stafnes var eitt af höfðubólunum að fornu og þar var mikið útræði, en svo til engin selveiði. Þó segir sagan að nafngreind selskytta hafi verið á Stafnesi, farið jafnan út í Rósker, sem þar er skammt vestar, og setið fyrir selnum þar.
Um 1550-1760 var konungsútgerð á Básendum, en hún var bæði í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum. Ástæðan var mikil fiskimið út frá þessum landssvæðum. Konungsútgerðin var mikil tekjulind fyrir krúnuna. Aðallega var stunduð skreiðarverkun. Þegar útgerðin lagðist af seldu Danir skip sín. Dreifðust þau um Vesturlandið; flest fóru þó til Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafnarfjarðar. Má segja að íslensk þilskipaútgerð hafi komið í staðinn fyrir konungsútgerðina.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Þrír staðir á landinu voru svo til án landbúnaðar, en þar komu fiskveiðar í staðinn; Vestmannaeyjar, Suðurnes og Snæfellsnes. Á þessum svæðum var skreiðarverkun og skreiðarkaupmennska mikilvægust um langan tíma. Fiskveiðarnar voru stundaðar á grunnmiðum af Íslendingum, en lengra út frá landi af stærri skipum útlendinganna. Þar voru Englendingarnir atkvæðamestir, allt frá árinu 1420 og fram að Grindavíkurstríðinu árið 1532.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Hægt er að rifja upp að atburðirnir á Básendum byrjuðu 2. apríl 1532 með komu Ludviks Smith. Þar reyndist stuðningur bróður hans og um 80 Íslendinga mikilvægur er kom til átaka milli þeirra og Englendinga, er bar að Básendum tveimur dögum síðar. Eru atburðirnir raktir nokkuð ítarlega hér að framan.
Á leiðinni út að Stafnesi var rifjað upp að Hallgrímur Pétursson hafi verið prestur í Hvalsnesi, en búið að Bolafæti í Njarðvíkum. Hafi hann jafnan þurft að fara yfir heiðina til messu. Núverandi steinkirkja að Hvalsnesi var vígð á jóladag 1887.

Til fróðeiks, svo þegar horft er á Miðnesheiðina þar sem á þriðja tug manna urðu úti á á sínum tíma á tiltölulega fáum áratugum (svo til allir á leiðinni frá kaupmanninum í Keflavík á leið heim til sín), má vekja athygli á því að orðið heiðingjar var í upphafi notað um heiðarbúa, fólks er bjó upp á heiðum. Síðan varð merking orðsins önnur. Svo er um mörg orð í íslenskunni. Má þar nefna orðið eldhús. Það var áður notað um stað þar sem eldur brann og matur var eldaður. Nú brennur enginn eldur í eldhúsi, en það heitir sama nafni eftir sem áður. En þetta var nú útúrdúr”.

Gengið var um Básenda, en þar eru nú engin ummerki þess tíma er átökin urðu þar árið 1532, einungs minjar eftir konungsverslunina og seinni tíma búskap (rétt, garðar, bæjartóftir, brunnur, götur og vör). Legan er þó enn á Básendavík (Brennutorfuvík) þótt landásýndin hafi verið þarna önnur en nú er. Bæði hefur sjórinn brotið talsvert land og þá hefur landið sigið frá því sem var (8mm á ári að jafnaði).
Gengið var um Stórubót og hóll þar barinn augum. Sagt er að hann sé leifar af virki Jóhanns breiða og hans manna. Sandlág er austan við hólinn. Mun þar vera Engelska lág skv. sömu sögnum. Vestar, sunnan Gerðisbrunnanna, eru garðar er þjóðsagan segir að sé svonefnt Junkaragerði, þ.e. aðsetur Þjóðverjanna.
Bæði þessi svæði “anga af sögu”.

ÓSÁ (lesið yfir af JG, VG og SJF).

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Básendar

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í “Ensku öldinni“og “Tíu þorskastríð“, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
III. hluti – 17. mars 2004.

“Filmurnar reyndust við leit vera á Þjóðskjalasafninu. Þær liggja hins vegar ekki á lausu.
Í Fornbréfasafninu (nr. 16, bls. 536-717) er heilmikið af skjölum og gögnum vegna eftirmála Grindavíkurstríðsins, langflest á latínu og þýsku, en örfá á íslensku. Friðarviðræðurnar fóru fram í bænum Bad Segenberg, skammt norðan borgarinnar Lübeck í Þýskalandi.
Þorskastríðin voru 10 talsins.
1.  1415-1425. Í lok þess varð Ísland opinn fiskmarkaður.
2.  1447-1449, en eftir það tengdist Ísland danska ríkinu.
3.  1467-1473. Björn Þorleifsson var drepinn og loks samið um óbreytt ástand.
4.  1484-1490. Englendingar fengu heimild Danakonungs til fiskveiða og verslunar við Ísland. Árið 1484 hófst flotavernd Englendinga á Íslandsmiðum. 1485 var orrustan við Bosworth. Á árunum 1485-1509 var Hinrik VII. við völd í Englandi og Hinrik VIII. á árunum 1509-1547.
5.  1532-1533 var Grindavíkurstríðið.
6.  1896-1897 voru firðir, víkur og flóar opnaðir öllum til veiða.
7.  1952-1956 var landhelgin færð út í 4 mílur til verndunar fiskistofnum.
8.  1958-1961 var hún færð út í 12 mílur. 1972-1973 var hún færð út í 50 mílur og loks
10. (1975-1977) út í 200 mílur.

Básendar

Húsgrunnur á Básendum.

Grindavíkurstríðinu sjálfu lauk í raun 21. júní er Þóðverjar létu úr höfn á Peter Gibson. Erlendur Þorvarðarson á Strönd og önnur stjórnvöld voru eindregið á því að líta á atburðina sem lögregluaðgerð gegn lögbrjótum, en stjórnvöld út í heimi voru hins vegar á öðru máli. Helstu borgir Þjóðverja voru þá Lübeck og Hamborg. Þýskaland var í raun mörg nokkuð sjálfstæð borgríki. Danir stóðu t.d. í stríði við Lübeck, en Hamborgarar voru hliðhollir Danakóngi. Danir vildu styrkja umboðsstjórn sína á Íslandi og víðar og þeim þótti því þægð í því að hafa þýskar skipshafnir hér, sér til halds og trausts. Danakóngur lék þó tveimur skjöldum því hann var tilbúinn til að semja við Englendinga ef þurfa þótti gegn því að þeir versluðu ekki hér á landi. Íslendingar vildu hins vegar fyrir alla muni halda í verslunina við Englendinga. Samkeppnin skapaði lægra verð fyrir innfluttan varning og hærra verð fyrir útflutninginn. Þetta kom berlega í ljós eftir að Englendingar fóru héðan því þá breyttust hlutföllin Íslendingum í óhag. Mikið var gert að því að prjóna sokka og vettlinga til að selja Englendingum, en Danir reyndu að banna alla slíka verslun. Þeim tókst þó ekki að framfylgja banninu. (Skv. vísindavef HÍ barst prjón fyrst til Íslands á fyrri hluta 16. aldar).
Enskir sjóræningar rændu bæði ensk og þýsk skip á þessum tíma. Hinrik VIII. samdi t.a.m. við þá um að ræna einnig spænsk skip. Talsverðar skærur hlutust af. Þegar enskir sökktu þýskum skipum brugðust Þjóðverjar ókvæða við og reyndu jafnan að hefna hatrammlega fyrir slíkt.
Í upphafi var litið á átökin á Básendum og í Grindavík sem sjóræningjaskærur. Þjóðverjar lögðu hald á enska skipið á Básendum og íslensk yfirvöld, Erlendur á Strönd og hirðstjóri Danakonungs, Diðrik af Minden, hikuðu t.d. ekki við að leggja hald á herfang sitt í Grindavík. Eitt skipanna fórst á skerjum á flóttanum, en þremur tókst að komast til Englands. Þar bar áhöfnin umsvifalaust fram kvörtun og kærur við Englandskonung.

Básendar

Brunnur á Básendum.

Í Hamborg voru margir Íslendingar á þessum tíma, s.s. Gissur Einarsson, fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi. Líklegt er að þeir hafi verið Þjóðverjum til ráðgjafar vegna þess sem á eftir fylgdi. Yfirvöld hér á landi sendu Hinriki VIII. frekjulegt bréf og sögðust einungis hafa staðið í lögregluaðgerðum við Grindavík. Þjóðverjar í Hamborg skrifuðu einnig Hinriki VIII. bréf og töldu Englendinga á Íslandi hafa verið lögbrjótana, en ekki þá þýsku. Töldu þeir þar ýmislegt máli sínu til stuðnings, m.a. að Englendingar hefðu verið orðnir aðsópsmeiri við Ísland en Íslendingar sjálfir, lægju á djúpslóð og kæmu í veg fyrir fiskigengd í firði og víkur. Einnig að Englendingar neyddu Íslendinga til að afhenda sér fisk með illu og hefðu þar að auki á brott með sér fólk, settu það í land í Færeyjum eða hnepptu jafnvel í þrældóm. Þetta er kannski svolítið ýktar lýsingar hjá Þjóðverjum. Hið rétta er að fátækir bændur létu Englendinga stundum fá stráka um fermingu til að túlka fyrir þá. Þessir strákar fóru stundum út með þeim, ólust upp í Englandi og komu síðan með þeim sumir hverjir til landsins að vori þar sem þeir heimsóttu sitt fólk. Þá töldu Þjóðverjar upp að Englendingar ynnu leynt og ljóst gegn Danakonungi á Íslandi og teldu sig jafnvel eiga þar meiri rétt en aðrir. Stælu þeir fiski og jafnvel skatti frá Dönum.
Þjóðverjar ráku atvikin á Básendum í bréfi sínu til Hinriks VIII. og töldu síðan upp nokkur atvik um yfirgang Englendinga, sem þeir hefðu komist upp með fram að þessu vegna þess að ekkert lögregluvald væri til staðar í landinu, heldur “stjórnuðust viðbrögð af hefndum og gömlum vana”. Líklegt er að Gissur hafi hjálpað Þjóðverjum að semja bréfið til Hinriks VIII. Sá taldi hins vegar að þýskir hafi byrjað að skjóta á landsmenn sína og ritaði hástemmt bréf til baka og óskaði eftir samningaumræðum um skaðabætur og annað, sem tiltekið var. Friðrik II. Danakonungur svaraði hortugur fyrir sig og sagði sína þegna á Íslandi saklausa af öllum ásökunum Englendinga vegna lögregluaðgerðanna hér.
Hinrik VIII. vildi láta dæma Ludtkin Smith fyrir hans þátt í málinu, ekki síst fyrir að hafa haldið heljarinnar veislu í virkinu eftir drápin ofan við Stóru-Bót. Þjóðverjar svöruðu og bentu á að Englendingar hefðu nú áður ætlað að bjóða Íslendingum í “þjóðverjakjöt” eftir væntanlegan sigur þeirra yfir þýskum á Básendum. Englendingar reyndu þá að útskýra að þar væri um einhvern misskilning að ræða – kjöt frá Þjóðverjum hefði átt að vera þar í matinn.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir.

Hinrik VIII. sendi mann að nafni Thomas Lee til Danakonungs til viðræðna og samninga, en vegna tungumálaerfiðleika gekk hvorki né rak. Lee talaði einungis ensku og latínu. Úti í heimi voru átök um, verslun, trúarbrögð og stéttaskiptingu. Um var að ræða flókna blöndu. Hinrik VIII. var t.a.m. kaþólskur eins og meginþorri Evrópubúa, en Hansakaupmenn voru t.d. flestir lútherskir. Hinrik var studdur af borgarastéttinni, en lýðurinn bankaði á dyrnar. Inn í þett allt blönduðust kvennamál Hinriks.

Þannig stóðu málin við upphaf friðasamninga er fylgdu í kjölfarið. Fyrsti fundurinn var haldinn í Hamborg þann 30. janúar 1553. Hálfur mánuður fór í þýðingar gagna. Enski sendifulltrúinn var Thomas Lee. Hann skrifaði á latínu, en Þjóðverjar vildu hafa allt á þýsku. Kristján Friðriksson (Danakonungssonur) var einn fulltrúi Danakonungs. Hann hélt nokkuð vel á málstað Íslendinga, en þeir áttu sjálfir engan fulltrúa í viðræðunum.

Segeberg

Segeberg.

Nú kemur þar að er búið var að þýða öll gögn og undirbúningi lokið. Þá stóð í stappi um fundarstað. Varð úr að hann var fluttur til Segenbergs. Samningahöllin stóð þar sem nú er torg. Englendingar heimtuðu enn skaðabætur, en Þjóðverjar sögðust einungis hafa verið þátttakendur í lögregluaðgerðum. Lee dró þá upp drög að reglugerð um höndlun friðar vegna siglinga til Íslands. Þar sem minnst er á fiskveiðar í þeim eru þær taldar að hluta til jafngilda verslun. Annars var efni þeirra í megindráttum eftirfarandi:
1. Þeir sem fyrstir koma til hafnar á Íslandi mega ekki reka aðra er á eftir koma á brott, eins og verið hefur, heldur leyfa þeim að versla í friði.
2. Ef ekki er nægur fiskur á boðstólnum fyrir nógu mörg skip eiga þau forgang er fyrstir komu.
3. Sömu reglur gilda um öll skip.
4. Orðið viðskipti á einnig við um sölu á fiski.
5. Kaupmenn mega ekki sprengja upp verðið hver hjá öðrum.
6. Kaupmenn mega ekki merkja sér fisk áður en þeir greiða fyrir hann (flestar deilur milli kaupmanna höfðu stafað af því). Komi upp deildur eiga íslensk yfirvöld að fjalla um málið. (Hér er um merkilega viðurkenningu að ræða frá því sem var).
7. Skipstjórar skulu áminntir um að hafa ekki ofbeldismenn í áhöfn, einungis góða sjómenn.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Samningaviðræður hófust nú fyrir alvöru. Sáttarfundir stóðu í 3 daga, 15.-17. febrúar. Niðurstaðan varð sú að engar kröfur Englendinga voru teknar til greina. Þeir voru sagðir hafa sjálfir kallað yfir sig aðgerðirnar á Íslandi, auk þess sem Kristján hafði í hótunum um að svipta Englendinga öllum veiði- og verslunarheimildum á Íslandi. Lee varð auðsveipari og lofaði að Englendingar myndu ekki grípa til refisaðgerða gegn Þjóðverjum, en hann vildi í staðinn fá tryggingu fyrir áframhaldandi veiðiheimildum Englendingum til handa.
Skjöl og gögn frá viðræðunum eru varðveitt í ríkisbókasafninu í Hamborg. Björn Þorsteinsson er líklega eini Íslendingurinn (“Enska öldin – Fimm þorskastríð”) sem hefur skoðað þau. Friðarsamingurinn, sem loks var gerður, er þar í heild sinni. Í lok hans er samþykkt að “duggarasigling skipist burt undan landinu”, þ.e. að einungis verði leyft að fiskur verði keyptur hér, en ekki veiddur.
Að loknum samningum slógu Þjóðverjar upp mikilli veislu til heiðurs enska fulltrúanum, ekki síst vegna eftirlátssemi hans. Hann fór síðan til Englands mánuði síðar og í framhaldi af því skrifaði Hinrik VIII. Þjóðverjum bréf og þakkaði þeim beinan fulltrúa sínum til handa.

Englendingar höfðu haft 6 herskip tilbúin til Íslandssiglinga. Skotar voru um þessar mundir að hertaka ensk skip og ræna. Varð það til þess að verulega dró úr áhuga og getu Englendinga til siglinga til Íslands. Andstaðan gegn Englendingum hér var enn mikil eftir lætin fyrir og í kringum Grindavíkurstríðið og var ýmislegt fundið þeim til foráttu. Eymdi enn af fyrri reynslu. Kristján III. gerði loks erlenda fiskimenn brottræka af Íslandsmiðum.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Hinrik VIII. varð í raun til þess að bola Englendingum af Íslandsmiðum með aðgerðarleysi sínu. Völd þau er Englendingar höfðu haft á Íslandi með siglingum sínum voru ekki endurnýjuð. Kristján III. kvartaði enn yfir yfirgangi Englendinga við Hinrik VIII, einkum í Grindavík. Um 1539 hurfu Englendingar svo til af Íslandsmiðum. Danir voru þá orðnir staðráðnir í að ná undir sig versluninni til handa dönskum kaupmönnum. Á Alþingi 1545 voru eigur útlendra kaupmanna gerðar upptækar hér á landi. Englendingar urðu fyrir litlum skaða vegna þessa því þeir voru farnir frá öðrum stöðum en Vestmannaeyjum. Þær höfðu þeir fengið í spilaskuld frá Skálholtsbiskupi árið 1420, en urðu nú frá að víkja. Smám saman hröktu Danir einnig Þjóðverja frá landinu. Árið 1602 var einokun Dana til verslunar á Íslandi lögleidd.

Hafnarfjörður
Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Enn má sjá minjar veru, sjósóknar og verslunar útlendra ofan við Stóru-Bót. Þar er hóll sem sagður er hafa verið virki Jóhanns breiða og manna hans og Engelska lág er þar undir hólnum þar sem enskir eru sagðir hafa verið grafnir af eftirlifandi félögum sínum. Vestar má sjá móta fyrir görðum Junkaragerðis. Á Kóngsklöppinni í Staðarhverfi, litlu vestar á nesinu, ráku Danir verslun eftir að þeir komu til landsins og tóku við af Þjóðverjum. Þar má enn sjá talsverðar minjar eftir þá verslun, m.a. tóftir húsa”.
Sjá IV. hluta.

Grindavík

Frá Grindavík.

Gerðavellir

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í “Ensku öldinni“og “Tíu þorskastríð“, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
II. hluti – 10. mars 2004.

Jón Böðvarsson

Jón Böðvarsson.

Jón sagðist í framhaldi af I. hluta hafa spurst fyrir um nefndar filmur. Ræddi hann m.a. við Heimi Stígsson. Sá sagðist muna eftir því að hafa fengið “langan” renning af filmu hjá Grindavíkurbæ og framkallað tvö eintök; Grindavíkurbær hefði fengið annað eintakið og Þjóðskjalasafnið hitt. Hann hafi síðan skilað filmunni. Mundi bara ekki hvort það hafi verið til Grindavíkur eða á Þjóðskjalasafnið. Jón sagðist hafa vitað til þess að Reykjanesbær hefði fengið hluta filmusafns Heimis að gjöf, en Heimir hafi aðspurður sagt að þessar filmur væru ekki þar. Nú væri verið að svipast um eftir þeim á nokkrum stöðum, m.a. í geymslum og á skrifstofu bæjarstjórans í Grindavík. Ekki væri enn vitað hvar eintak Grindavíkurbæjar væri niður komið.

“Í dag er ætlunin að fara betur yfir bardagana, bæði á Básendum og í Grindavík, en eftir viku yrði farið yfir friðarsamningana. Þeir höfðu gríðarleg áhrif á alla framvindu mála í Evrópu á þeim tíma. Hafa þarf í huga að eftir 1500 kom tími líkur þeim sem síðar kom á 20. öldinni. Ný heimsmynd varð til í kjölfar siglingar Kólumbusar til Ameríku. En gæta þarf vel að því að sú villa sem Ítalir og Spánverjar hafa reynt að koma inn hjá fólki að Kólumbus hafi fundið Ameríku væri algjör della. Í ævisögu Kólumbusar, sem skráð var af syni hans, kemur fram að hann hafi farið með sjómönnum frá Bristol til Íslands árið 1478. Hafi hann mest verið á Ingjaldssandi, en einnig í Hafnarfirði og í Reykjavík. Í Kólumbusarsafninu á Kanaríeyjum kæmi þetta einnig vel fram. Englendingar vissu bæði um Grænland og Norður-Ameríku á þessum tíma. Þeir stunduðu fiskveiðar við Grænland og Nýfundnaland.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Kólumbus fór til Íslands gagngert til að afla upplýsinga um þessi óráðnu lönd í vestri. Gekk hann síðan á fund Ferdinands Spánarkóngs til að fá stuðning hans til siglinga þangað, en látið var liggja að því að hann ætlaði að sigla til Kína og þaðan til vesturs. Uppgötvanir lágu þá fyrir að jörðin væri hnöttótt, en ekki flöt. Markmið Spánverja var að hasla sér völl í Nýja heiminum í vestri, enda fór það svo að þeir flykktust þangað í stórum stíl eftir að uppgötvun hans varð ljós heima fyrir. Lögðu þeir m.a. undir sig lönd eins og Filippseyjar og aðrar eyjar í Kyrrahafi á meðan Portúgalar lögðust á Manhattansvæðið og Bretar á miðja Ameríku þar sem þeir strádrápu Indíánana.
Um 1500 voru Spánverjar um 10 milljónir talsins og drottnuðuá höfunum. Frakkar voru helmingi fleiri, eða 20 milljónir, en Englendingar hins vegar helmingi færri, eða 5 milljónir talsins. Nú eru á Bretlandseyjum tvöfalt fleiri íbúar en á Spáni. England, sem í raun var einungis Wales, var á þessum tíma nokkurs kona nýlenda. Hansakaupmenn stjórnuðu t.d. allri verslun í London og voru ráðandi afl í verslun í heiminum. Ítalar áttu og stjórnuðu námuréttindum í Englandi og Ítalir réðu yfir kirkjunni þar í landi. Fleiri ríki nutu og áhrifa í Englandi á þessum tíma. Spánverjar voru nýbúnir að reka Márana af höndum sér og í Austur-Evrópu sátu Tyrkirnir sem fastast þrátt fyrir grimmilega tilraunir þarlendra, s.s. Rúmverja, að reka þá af höndum sér.

Hverjar voru helstu þjóðirnar í Evrópu á þessum tíma? Í fyrsta lagi Spánn með Ferdinand og Ísabellu í broddi fylkingar, tengdaforeldra Hinriks VIII. Í öðru lagi var Maximillian Þýskalandskeisari með Habsborgaraveldið og í þriðja lagi Lúðvík XII Frakklandskonungur. Loks var það páfinn í Vatikaninu í Róm. Öll þessi ríki voru kaþólks, en sátu að svikráðum hvert við annað í stórum stíl. Frakkland vildi leggja undir sig England með aðstoð Skota, en Þýskalandskeisari spyrnti gegn því.

Um 1530 áttu Englendingar 440 hafskip. Af þeim stunduðu um 150 veiðar eða siglingar til Íslands. En hvað var það sem var þeim svona dýrmætt hér? Á þessum tíma lögðu kaþólikkar áherslu á föstna og að einungis væri á henni etinn fiskur. Hinrik VIII. framfylgdi því að farið yrði að föstulögum. Englendingar bæði veiddu og keyptu vorur hér á landi, einkum skreið og brennistein (í Hafnarfirði). Hann var notaður í púður og skotfæri og þótti einka mikilvægur í stríðunum er þá geisuðu í Evrópu.

Eftir að hirstjóri Danakonungs var niðurlægður og drepinn á Rifi lokuðu Danir dönsku sundunum og bönnuðu verslun Englendinga í ríki sínu. Hinrik VIII. (1485-1509) brást illa við. Lagði hann m.a. á stríðsskatta og efldi aðalinn. Honum datt þó ekki í hug að fara í stríð heldur notaði fjármunina til að byggja upp og smíða skip, efla siglingar og gera út landkönnuði. Kapphlaup var hafið til Ameríku eftir að fréttist af heimsálfunni eftir siglingu Kólumbusar. Frá Íslandi fengu þeir fisk og brennistein, eins og áður sagði. Leiðin til að verða stórveldi á þessum tíma var að leita auðs í Vesturálfu.

Hinrik VIII

Hinrik VIII.

Hinrik VII og síðar Hinrik VIII lögðu mikla áherslu á að tryggja og styrkja áhrif sín þar. Hinn síðarnefndi giftist Katrínu, dóttur Ferndinands Spánarkóngs, ekkju Arthurs, bróður hans. Fyrstu árin var hann greinilega undir áhrifum tengdaföðursins, en eftir að hann hafði safnað saman við hirðina fulltrúum breska aðalsins, sem haldið hafði til í köstulum sínum víða um landið og fór að bjóða honum í veislur jókst sjálfstæði hans til muna. Kom hann m.a. með því í veg fyrir hugsanlegar uppreisnir heima fyrir. Auk þess naut hann hylli fyrir sigra sína í Frakklandi. Þá notaði hann tækifærið til að taka krúnuerfingja af lífi í stórum stíl. Hótaði hann Katrínu skilnaði, enda orðinn hundleiður á henni þegar hingað var komið, efldi borgarastéttina og styrkti sjálfstæði borga, en á þeim tíma voru þjóðríkin m.a. í mótun í Evrópu. Buðu konungar víða borgarstéttinni hin bestu kjör til að afla fylgis. Katrín eignaðist mörg börn, en þau dóu kornung. Þegar Ferndinand dó gerði Hinrik VIII. bandalag við Frakkakonung. Katrín reiddist, en hann hótaði aðs kilja við hana og giftast Önnu Boleyn, en páfagarður bannaði það. Hinrik lét þá þingð samþykkja að bannað væri að taka mark á tilmælum páfa eða bera nokkuð undir hann. Yfirmaður ensku kirkjunnar í Kantaraborg var gerður að yfirmanni kirkjunnar þar í landi. Hinrik lét ógilda hjónaband hans og Katrínar. Með því komst kaþólska kirkjan í miklar hremmingar og greiddi fyrir aðgengi hins lútherska siðar í Evrópu. Hinrik giftist Önnu Boleyn. Eignaðist hún stúlku þremur mánuðum síðar er skírð var Elísabet (Elísabet I.). Páfinn bannfærði Hinrik VIII, en konungur bannaði lestur tilkynningarinnar. Síðar giftist hann þriðju konunni. Hún ól honum son, en hún dó af barnsburðinum. Sú næsta var ákærð fyrir hórdóm og lét Hirnik hálshöggva hana og alla, sem tengdust því máli. Giftist hann fjórum öðrum eftir það.

Afskipti Hinriks VIII. af Íslandi; Danakóngur sá að ekki var nokkur leið að koma Englendingum af Íslandsmiðum. Ákvað hann þá að þeir sem kæmu með ódýrar vörur til Íslands fengju þol til fiskveiða. Hinrik afnam lögin, sem bannað höfðu Englendingum takmarkaðar Íslandssiglingar. Árið 1528 komu 148 ensk skip til Íslands. Fimm árum síðar voru þau 85 talsins, að meðaltali um 84 lestir hvert.
Árið 1532 voru einungis Básendar og Grindavík aðsetur Englendinga hér á landi. Búið var að hrekja þá frá öðrum höfnum við Faxaflóann, m.a. Hafnarfirði. Öðru hverju voru Englendingar að gera þýskum skráveifur. Hertóku þeir m.a. þýskt skip í Straumsvík (1486), færðu það til Galloway á Englandi og seldu. Árið 1511 kom til átaka og 1514 tóku Englendingar þrjú Hansaskip og hirtu allt af þeim (Björn Þorsteinsson – Fimm þorskastríð). Árið 1528 réðst enskt skip á Hamborgarafar í höfninni á Rifi og hirtu úr því öll vopn. Árið 1529 sökkti Willys nokkur, enskur, Hamborgarafari í Eyjafirði.

Þann 31. mars (páskadagur) árið 1532 sigldi enskt 150 lesta skip, Anna, inn á mjótt lónið utan við Básenda, en fór ekki inn á leguna. Básendar höfðu þá verið verslunarstaður Englendinga um alllangt skeið. Þýskir höfðu hins vegar orðið á undan þeim (komu hingað 30. mars, á laugardegi) og nutu því þeirrar reglur að þeir sem fyrstir urðu í höfn að vori nytu þar forgangs um sumarið. Englendingarnir á skipunu vörpuðu akkerum, bátur var settur út og róið var í land. Þjóðverjar voru þá um 150 talsins í landi. Englendingarnir báðum um leyfi til að hafa aðstöðu á Básenum, en foringi Þjóðverja, Ludtkin Smith, hafnaði því. Hann sagði að allar aðrar hafnir stæðu þeim opnar, en sjálfur hefði hann nú forréttindi á Básendum, auk þess sem félaga hans væri von hvað úr hverju. Englendingar virtust ekki taka þessum viðbrögðum illa og réru út í skip sitt, en sýndu ekki á sér neitt fararsnið. Daginn eftir (mánudag) kom annað enskt skip (Thomas) með áðurnefndan Willys við stýrið. Margir kaupmenn voru um borð, en áhöfnin var um 160 manns. Skipin höfðu lagt samhliða úr höfn í Englandi, en orðið viðskila í hafi.

Básendar

Básendar – loftmynd.

Englendingarnir komu sér saman um að ráðast á Þjóðverjana í landi og drepa þá. Voru þeir það öruggir um yfirburði sína að þeir sendu boð til nálægra Íslendinga að koma í veislu þeirra að Básendum og þar sem yrði “þjóðverjakjöt á borðum til hátíðarbrigða”. Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði verið ásamt fleiri Þjóðverjum á Básendum um veturinn og vingast við Íslendingana svo þeir voru heldur hliðhollir Þjóðverjum á þessari stundu. Þeir hunsuðu því boð Englendinganna. Á þriðjudag, 2. apríl, hélt annað enska skipið (Thomas) inn á höfnina á Básendum. Skutu skipverjar þess á þýska skipið. Löskuðu þeir bæði stafn þess og búlka. Áhöfn Önnu hóf þá skothríð, en skipið rak stjórnlaust eftir að þjóðverjar höfðu náð að höggva í sundur akkerisfestina. Rak það upp í fjöruna. Þjóðverjarnir, sem voru mun færri (30 og 80 að auki sem voru þar fyrir) virtust hafa betur. Þó var komið á vopnahléi. Á flóðinu reyndu Englendingar að losa strandaða skipið, en Þjóðverjar hófu þá árás og skoruðu á Englendinga að leggja niður vopn sín og afhenda góssið gegn griða. Því var hafnað og lögðu Þjóðverjar undir sig strandaða skipið, en héldu hinu í herkví. Áhöfnin á skipinu beið næsta flóðs, en komst ekki út vegna norðlægsstrenginsvinds. Anna var því um kyrrt í höfninni, auk þess sem skipið komst ekki út nema sigla framhjá Hamborgarafarinu, sem lá utan við það. Þótti það ekki fýsilegu kostur. Enski skipstjórinn, sem eftir lifði, fór yfir í þýska skipið, en Ludtkin skipaði honum að afhenda öll vopn. Var gengið að því, en er Þjóðverjarnir ætluðu út í enska skipið mættu þeir mikilli mótspyrnu. Hjuggu þeir þá gat á byrðinginn, drápu nokkra Englendinga, handtóku aðra og skildu þá eftir klæðalitla.

Eftir átökin sendi Ludtkin eftir Hansakaupmönnum til Hafnarfjarðar. Englendingum var í framhaldi af því gert að gjalda sektir með skreið, en fengu að sigla skipi sínu til Grindavíkur. Erlendur Þorvaldsson, lögmaður, setti Tylftardóm og réttlætti formlega haldlagningu á góssi því er Englendingar skildu eftir á Básendum, m.a. hið sjórekna skip, sem þótti allnokkurs virði, metið á 1000 sterlingspund.
Englendingar báru því síðar við í skýrslum sínum að hafa þurft að leita hafnar að Básendum vegna óveðurs, en Ludtkin hafi þá ráðist á þá. Báðir kenndu þannig hvorum öðrum um upphaf átakanna.

Víkur þá sögunni enn og aftur til Grindavíkur. Englendingarnir, sem tekið höfðu þátt í átökunum á Básendum, en var griður gefinn, flúðu þangað. Tóku þeir allmikið af fiski til sín, sem tilheyrði m.a. Þjóðverjum. Erlendur lét þá enn og aftur setja dóm og dæmdi Englendinga í sektir. Um það leyti kom að landi í Grindavík John nokkur Braye, eða Jóhann Breiði, eins og landinn nefndi hann, á skipi sínu Peter Gibson. Lét hann þegar reisa virki á Járngerðarstöðum, ofan við Stóru Bót. Gerðust Englendingar bitrir út í Íslendinga vegna stuðnings þeirra við Þjóðverja á Básendum. Hótuðu þeir landanum og bönnuðu honum að selja þýskum fisk. Pyntaði Jóhann mann, hótaði öðrum og tók lömb og sauði frá manni sem sinnti ekki þessu verslunarbanni hans. Nam hann hest af manni og gerðist alldjarfur til kvenna. Flutti hann t.d. konu eina út í skip sitt og hélt eiginmanninum þar í böndum meðan hann hafði einhver not af henni.
Um þessar mundir var Diðrik af Minden fógeti á Bessastöðum. Skipaði hann þýskum og öðrum er hagsmuna áttu að gæta að finna sig við Þórðarfell ofan við Grindavík. Lofaði hann öllum þeim sem það gerðu mála í nafni konungs. Hafnarfjarðarkaupmenn tóku tilmælunum strax vel og safnaðist fljótt allnokkuð lið við Þórðarfell, eða um 280 menn (aðrar heimildir segja 180), þ.á.m. 8 skipshafnir frá Bremen, sveit Diðriks, liðsmenn frá Hafnarfirði, Njarðvíkum og frá Básendum. Diðrik lýsti Englendingana í Grindavík réttdræpa, en alla sem gegn þeim færu friðhelga að lögum. Ástæðuna fyrir aðförinni sagði hann m.a. virkisgerðina, sem hann taldi vera atlögu að sjálfum Danakonungi, auk yfirgangs Englendinganna og afbrota. Hér virtist því fyrst og fremst vera um nokkurs konar lögregluaðgerð að ræða.
Margir Englendinganna voru á sjó þennan dag, 10. júní 1532. Jóhann Breiði, fálkatemjari konungs, og 13 aðrir Englendingar voru í virkinu. Aðfararnótt 11. júní, kl. 02.00, læddust Hafnfirðingar og Njarðvíkingar að virkinu, en Básendamenn og Þjóðverjarnir héldu í átt að skipunum sem lágu utan við Stóru-Bót. Útsinningshraglandi var og úfinn sjór. Þegar menn nálguðust virkið var gert áhlaup á það með óhljóðum og látum. Vaknaði Jóhann Breiði og menn hans við vondan draum, en náðu ekki að verjast. Voru þeir allir drepnir á nýðingslegan hátt og lík Jóhanns illa leikið. Fimmtán voru drepnir. Náðist að kyrrsetja skip Jóhanns á legunni, en fjögur skip Englendinga lágu utar. Búðir annarra Englendinga voru þarna skammt frá og voru þeir, sem þar vorum, handteknir, átta talsins. Voru þeir látnir grafa félaga sínum undir virkisveggnum. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, en eitt fórst á grynningunum á leið út.
Diðrik sló upp veislu, en eftir nokkra daga gaf byr svo skipi Peter Gibson var siglt til Bessastaða, enda nú metið eign danska kóngsins. Erlendur setti enn einu sinni Tylftardóm með það að markmiði að réttlæta gjörningin og leggja “löglega” hald á allt góss Englendinganna, auk þess að dæma þá í sektir. Herinn var um kyrrt í Grindavík í 10 daga, enda Englendingarnir þar til alls vísir. Margir þeirra höfðu verið á sjó þegar atlagan var gerð og þótti þeim aðkoman að landi heldur kuldaleg.

Í styrjöldinni höfðu fjórar þjóðir tekið þátt; auk Englendinga voru það Þjóðverjar, Danir og Íslendingar. Með “Grindavíkurstríðinu” lauk ekki átökunum, því fór fjarri. Það var upphafið að átökum stórþjóða. Með því hófst “styrjöld”, sem átti eftir að standa í langan tíma.
Hinrik VIII. frétti fljótlega af átökunum. Svo virðist af skrifum hans um þetta mál að hann hafi verið mjög kunnugur hér á landi. Maximillian Þýskalandskeisari frétti einnig fljótlega af átökunum. Allar skýrslur Englendinga, Þjóðverja og Dana um aðdraganda átakanna á Básendum og í Grindavík, eða Grindaveg eins og það er ritað á þeim tíma, um átökin eru 70-80 skjöl. Friðarsamningarnir, sem fylgdu í kjölfarið, eru 33 blaðsíður og feikna merkilegir. Í fylgiskjölunum eru miklar upplýsingar, en þau eru svo til öll á latínu, þýsku og örfá á íslensku. Þessi skjöl þyrfti öll að þýða yfir á íslensku.

Gerðavellir

Gengið um söguslóðir Grindavíkurstríðsins.

Þetta er eina stríðið á Íslandi sem gera þurfti sérstaka friðasamninga um á milli voldugustu þjóða Evrópu á þeim tíma. Samningarnir gefa einnig góða sýn á lífskjörin á þessum tímum, einkum á Suðurnesjum.

Hinrik VIII. gafst síðar upp, m.a. vegna átaka annars staðar sem og innbyrðis átaka hans í kvennamálunum. Tímabilið er ekki einungis áhugavert fyrir Suðurnesin heldur og Ísland allt. Alveg frá 1420 til 1602 gerðust fleiri merkilegir atburðir á Suðurnesjum en nokkurs staðar annars staðar á Íslandi. Eftir Grindavíkurstríðið byrjuðu Danir að þoka Þjóðverjum á brott héðan og tókst það loks árið 1602 með tilkomu einokunarverslunarinnar, sem er síðan kapítuli út af fyrir sig.
Næst verður fjallað um friðarsamningana. Stuðst verður við gögn og ljósrit.
Loks verður farin ferð um söguslóðir Grindavíkurstríðsins, s.s. á Básenda og Stóru Bót”.
Sjá III. hluta.

ÓSÁ tók saman – yfirlestur: JG – VG og SJF.

Gerðavellir

Gerðavellir í Grindavík, virki Jóhanns Breiða – kort ÓSÁ.

Járngerðarstaðir

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í “Ensku öldinni“og “Tíu þorskastríð“, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
I. hluti – 3. mars 2004.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

“Atvinnuvegir á Íslandi voru aðallega landbúnaður. Þó voru þrjú svæði undanskilin; 1. Vestmannaeyjar, 2. Reykjanesskaginn (mikil hraun – gróðurspildur með ströndinni) og 3. undir Jökli. Á Reykjanesskaganum var þó merkilegur landbúnaður í Grindavík, alveg fram til 1800, en það var garðyrkja, s.s. á Skála og á Hrauni.

Gerðavellir

Gerðavellir við Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Fiskveiðar voru aðallega stundaðar á framangreindum svæðum. Fram til 1300 veiddu Íslendingar aðallega við landið. Skömmu fyrir 1300 gjörbreyttist ástandið. Noregskóngur hafði einkaleyfi á veiðum við allar eyjar er tilheyrðu Noregi. Aðrir þurftu að fá leyfi til að veiða þar eða versla. Yfirleitt var slíkt leyfi ekki veitt. Síðast á 14. öld breyttist þetta ástand. Englendingar urðu fyrstir til að sækja á fiskimiðin við Ísland, en af þessum eyjum Noregskóngs. Fram yfir 1380 voru fiskiskip yfirleitt lítil og yfirleitt ekki vel fallin til úthafssiglinga. Ný siglingatækni kom fram. Norðurlandabúar töpuðu forystunni á höfunum, en Englendingar tóku yfir; fyrst með tvímastra, þrímastra og jafnvel fjórmastra skipum. Fyrir 1400 voru Englendingar farnir að sigla á slíkum skipum hingað. Fyrstu frásagnir af siglingum Englendinga hingað eru frá 1396 er maður í Vestmannaeyjum var drepinn, en skv. frásögnum lágu 6 skip, útlensk, í höfninni þá nótt. Sextán árum síðar kom skip af Englandi er þá statt við Dyrhólaey. Róið var út að því. Reyndist skipið vera frá Englandi. Sögur af Ríkharði nokkrum komu skömmu síðar, en sá hafði “konungsbréf frá Noregskonungi” til siglinga hingað. Árið 1413 er til frásögn skipa enskra í Reykjavík.

Gerðavellir

Tómas Þorvaldsson við virki Jóhanns Breiða ofan við Stóu-Bót.

Fiskur var aðallega hertur. Árið 1432 kom fyrsta þýska skipið hingað, en það var á vegum Hansakaupmanna. Noregskóngur hélt fast í einkaleyfi sitt til vöru-, veiði- og verslunarferða á sínum svæðum. En vegna þess að norsk skip gátu veitt nær markaðinum í Evrópu var hann ekki eins fastheldinn á þennan rétt sinn er fjær dró. Er Englendingar fóru að koma til Íslands bannaði Noregskóngur för þeirra til landsins. Englendingar og Íslendingar tóku ekki mark á því banni. Íslendingar ömuðust að vísu í fyrstu við fiskveiðum Englendinga, en fögnuðu vöruflutningum þeirra og verslun. En fyrir vöruflutninga Englendinganna fengu þeir “þol til fiskveiða”. Englendingar voru sterkastir við landið og víða með aðstöðu, alveg frá Flatey á Breiðafirði og suður með vesturströndinni, en höfuðvígi þeirra var í Hafnarfirði. Réðu þeir uppsátrum og festarhælum í öllum höfnum.

Straumsvík

Straumsvík.

Þjóðverjar, sem komu um 1430 urðu fljótlega vinsælli. Þeir keyptu fisk og skreið á allt að 70% hærra verði og seldu sína vöru ódýrari. Mikil eftirspurn var eftir fiski í Evrópu svo þeir gátu selt hann á margfalt hærra verði þar. Trúarbrögð, fastan, var aðalástæðan. Þjóðverjar voru einnig vinsælli en Englendingar vegna þess að hinir síðarnefndu stálu oft á tíðum fiski frá Íslendingum; fiski sem safnað hafði verið saman til sölu um vorið. Þetta varð til þess að Englendingar töpuðu smám saman öllum höfnum sínum (sem að vísu voru ekki eiginlegar hafnir í okkar skilningi, heldur viðleguaðstaða). Englendingar höfðu haft Hafnarfjörð fyrir aðalhöfn (Grindavík var nr. tvö), en þeir sigldu jafnan til Straumsvíkur.

Básendar

Básendar.

Um 1480 ráku Þjóðverjar Englendinga frá Hafnarfirði og Straumsvík (Þýskabúð) og tóku sér fasta búsetu í Hafnarfirði. Reistu þeir kirkju og vöruskála. Staðinn nefndu þeir Flensborg. Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði. Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1532 varð Grindavíkurstríðið” eða “Fimmta þorskastríðið” (sjá Enska öldin og Tíu þorskastríð eftir Björn Þorsteinsson (tvær bækur)).
Fyrsta þorskastríðið var 1415-1425 að sögn Björns. Þá var öllu útlendingum bannað af Noregskóngi að sigla til Íslands. Jafnvel innlendum mönnum var það bannað. Siglingar Englendinga uxu þó heldur, enda tók Englandskóngur ekki undir ósk mágs síns, Danakóngs, um bannið. Ítrekaði einungis að hans menn mættu ekki sigla til Íslands, enda væri fyrir slíku ekki forn venja. Við þetta jókst Englendingum ásmegin. Hirðstjóri Dana og Norðmanna, Hannes Pálsson (danskur, en með íslenskt nafn), var handtekinn hér á landi og fluttur til Englands. Leyfi danska Noregskóngsins var þá skilyrt vöruflutningum með þá heimild til fiskveiða við landið “en bannað aðvífandi aðilum”.

1467-1449 var annað þorskastríðið. Danakóngur lét hertaka nokkur ensk skip á Breiðafirði. Englendingar lofuðu þá að stunda ekki siglingar nema að hafa til þess leyfi konungs. Eftir þetta stríð tengdust Íslendingar alveg Danakóngi.

Básendar

Básendar – festarhringur.

1449-1490 var þriðja þorskastríðið. Þeir, sem keyptu sér leyfi til Íslandsferða, voru í fullum rétti til siglinga til Íslands. Árið 1465 voru öll slík leyfi úr gildi felld. Englendingar létu ekki segjast. Björn Þorleifsson, hirðstjóri að Skarði, fór árið 1467 að Rifi og ætlaði að hindra verslun Englendinga þar, en þeir gerðu sér lítið fyrir, festu hann við staur og drápu. Kona hans, Ólöf hin ríka, gerðist þá hirðstjóri og sagði þau fleygu orð: “Ekki skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og hefna hans”. Lét hún handtaka Englendingana og gerði þeim m.a. að leggja stétt eina mikla að Skarði.
Danir reyndu að hrekja Englendinga héðan, en hömpuðu þýskum. Diðrik Píning hrakti t.d. Englendinga frá Hafnarfirði. Englendingar töpuðu þá flestum höfnum sínum.
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.

Skipsstígur

Skipsstígur ofan Grindavíkur.

Þá víkur sögunni til Grindavíkur. Englendingar voru þar, um 15 að talið var. Foringi þeirra er Joen Breen (Brier), nefndur Jóhann Breiði af heimamönnum. Líklega var hann fjarskyldur Englandskóngi. Annar mjög merkilegur Englendingur var þarna líka, en sá var yfirfálkatemjari Englandskóngs. Sennilega í þeim erindagjörðum að fanga hér fálka og temja, en þeir voru bæði konungasport og útflutningsvara. Þessi Englendingar reistu virki að Járngerðarstöðum. Svolítið öðruvísi var þá umhorfs þar en nú er. Sjórinn er búinn að “éta” mikið af landinu. Virkið var sennilega þar sem nú er Stóra Bót á Hellunum. Englendingar uggðu ekki að sér. M.a. vegna þess að í höfninni (líklega Stóru Bót eða austar) voru 5 ensk skip. Af einhverri ástæðu fréttu Þjóðverjar að til stæði að halda drykkjusvall hjá Englendingum í Grindavík. Þjóðverjar tryggðu sér þá stuðning danskra yfirvalda á Bessastöðum og söfnuðu liði frá Hafnarfirði og Njarðvíkum, auk áhafna átta þýskra skipa. Söfnuðust þeir saman við Þórðarfell ofan við Grindavík og skiptu liði. Um nóttina, aðfararnótt 11. júní 1532, og héldu sumir suður Árnastíg (Skipsstíg) að virkinu (Hafnfirðingar og Njarðvíkingar) og aðrir að skipunum. Voru 15 Englendingar drepnir í Virkinu, þ.á.m. Jóhann Breiði, en lík hans var illa leikið eftir átökin. Átta voru teknir höndum. Voru þeir látnir dysja félaga sína undir virkisveggnum, í svonefndri Engelsku lág. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, eitt strandaði og árásarliðið náði einu, Peter Gibson, skip Jóhanns Breiða.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir.

Lagt var hald á skipin og aðrar eigur Englendinga. Frásagnir eru af þessum atburði í nefndri bók Björns Þorsteinssonar; “Enska öldin” og sú frásögn er tekin upp í “Sögu Grindavíkur” eftir Jón Þ. Þór. Í kjölfarið sigli þras og síðan friðasamningar á milli Dana, Englendinga og Þjóðverja. Með “Grindavíkurstríðinu” lauk svonefndri “ensku öld” á Íslandi.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir.

Ólafur Ásgeirsson, núverandi þjóðskjalavörður, gerði gangskör í að fá skjöl varðandi átökin frá Hamborg til Íslands er til voru um nefnda atburði, a.m.k. afrit af þeim. Svar þýskra var út í hött í fyrstu, en síðar var Íslandi boðið að fá afrit af skjölunum ef það kostaði afritunina; um 500 arkir skjala (af þeim hafa um 30 verið þýdd). Þau eru flest á latínu, þýsku og 1-2 á íslensku. Engin fjárveiting var til svo Jón Bö. var sendur við annan mann til bæjarstjórans í Grindavík ( fyrir 15 árum) til að leita ásjár. Þeim var vel tekið og samþykkti bæjarstjórn að greiða kostnaðinn. Grindvíkingar fengu síðan filmur af skjölunum 500 og Þjóðskjalasafnið fékk afrit. Filmurnar eiga að vera til uppi á lofti í bæjarskrifstofunum, en enginn virðist vita hvað þær er nákvæmlega. Afrit af skjölunum er þó til á Þjóðskjalasafninu og mun Ólafur Ásgeirsson skýra þau nánar með Jóni í næstu fyrirlestrum. Tvö bréfanna eru undirrituð af Hinriki VIII., þ.á.m. skaðabótakrafan er fylgdi í kjölfar mannvíganna ofan við Stórubót þennan örlagaríka dag í júnímánuði árið 1532”.
Sjá II. hluta.

ÓSÁ skráði – yfirlestur JG – VG og SJF.

Grindavík

Grindavík.