Járngerðarstaðir
“Grindavíkurstríðið”
IV. hluti – 20. mars 2004.
Vettvangsferð.

Básendar

Básendar.

Farið var í vettvangsferð á Básenda og í Stóru-Bót undir leiðsögn Jóns Böðvarssonar og Reynis Sveinssonar. Í ferðinni komu m.a. fram eftirfarandi upplýsingar:
“Við erum nú á leiðinni í Sandgerði þar sem Reynir Sveinsson mun koma í bílinn til okkar og leiðsegja okkur um Básenda. Ég get sagt ykkur að Stafnes var eitt af höfðubólunum að fornu og þar var mikið útræði, en svo til engin selveiði. Þó segir sagan að nafngreind selskytta hafi verið á Stafnesi, farið jafnan út í Rósker, sem þar er skammt vestar, og setið fyrir selnum þar.
Um 1550-1760 var konungsútgerð á Básendum, en hún var bæði í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum. Ástæðan var mikil fiskimið út frá þessum landssvæðum. Konungsútgerðin var mikil tekjulind fyrir krúnuna. Aðallega var stunduð skreiðarverkun. Þegar útgerðin lagðist af seldu Danir skip sín. Dreifðust þau um Vesturlandið; flest fóru þó til Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafnarfjarðar. Má segja að íslensk þilskipaútgerð hafi komið í staðinn fyrir konungsútgerðina.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Þrír staðir á landinu voru svo til án landbúnaðar, en þar komu fiskveiðar í staðinn; Vestmannaeyjar, Suðurnes og Snæfellsnes. Á þessum svæðum var skreiðarverkun og skreiðarkaupmennska mikilvægust um langan tíma. Fiskveiðarnar voru stundaðar á grunnmiðum af Íslendingum, en lengra út frá landi af stærri skipum útlendinganna. Þar voru Englendingarnir atkvæðamestir, allt frá árinu 1420 og fram að Grindavíkurstríðinu árið 1532.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Hægt er að rifja upp að atburðirnir á Básendum byrjuðu 2. apríl 1532 með komu Ludviks Smith. Þar reyndist stuðningur bróður hans og um 80 Íslendinga mikilvægur er kom til átaka milli þeirra og Englendinga, er bar að Básendum tveimur dögum síðar. Eru atburðirnir raktir nokkuð ítarlega hér að framan.
Á leiðinni út að Stafnesi var rifjað upp að Hallgrímur Pétursson hafi verið prestur í Hvalsnesi, en búið að Bolafæti í Njarðvíkum. Hafi hann jafnan þurft að fara yfir heiðina til messu. Núverandi steinkirkja að Hvalsnesi var vígð á jóladag 1887.

Til fróðeiks, svo þegar horft er á Miðnesheiðina þar sem á þriðja tug manna urðu úti á á sínum tíma á tiltölulega fáum áratugum (svo til allir á leiðinni frá kaupmanninum í Keflavík á leið heim til sín), má vekja athygli á því að orðið heiðingjar var í upphafi notað um heiðarbúa, fólks er bjó upp á heiðum. Síðan varð merking orðsins önnur. Svo er um mörg orð í íslenskunni. Má þar nefna orðið eldhús. Það var áður notað um stað þar sem eldur brann og matur var eldaður. Nú brennur enginn eldur í eldhúsi, en það heitir sama nafni eftir sem áður. En þetta var nú útúrdúr”.

Gengið var um Básenda, en þar eru nú engin ummerki þess tíma er átökin urðu þar árið 1532, einungs minjar eftir konungsverslunina og seinni tíma búskap (rétt, garðar, bæjartóftir, brunnur, götur og vör). Legan er þó enn á Básendavík (Brennutorfuvík) þótt landásýndin hafi verið þarna önnur en nú er. Bæði hefur sjórinn brotið talsvert land og þá hefur landið sigið frá því sem var (8mm á ári að jafnaði).
Gengið var um Stórubót og hóll þar barinn augum. Sagt er að hann sé leifar af virki Jóhanns breiða og hans manna. Sandlág er austan við hólinn. Mun þar vera Engelska lág skv. sömu sögnum. Vestar, sunnan Gerðisbrunnanna, eru garðar er þjóðsagan segir að sé svonefnt Junkaragerði, þ.e. aðsetur Þjóðverjanna.
Bæði þessi svæði “anga af sögu”.

ÓSÁ (lesið yfir af JG, VG og SJF).

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.