Sjóbúð

“Þar voru kölluð útver. Fram undir aldamótin 1900 voru sjóbúðirnar sem hér segir, en um aldamótin lögðust þær niður.

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

Búðartóftin var hlaðin úr grjóti í innri hleðslu, en ytri hleðslu úr torfi og grjóti, hliðarveggir og gaflöð jafn hátt. Lengd tóftarinnar var þriggja rúma, en fyrir aftan rúmstæðin var allt að því rúmlengd, sem var notuð fyrir dót sjómanna. Flestar sneru búðirnar frá norðri til suðurs. Þegar búið var að hlaða tóftina voru reistir stafir upp með báðum hliðveggjum, og á þá neglt mjótt borð eftir endilangri tóftinni, þar á voru reistar sperrurnar og reft yfir með röftum. Bar þó við, að skarsúð væri í þeim, en mjög sjaldan. Af þeim gafli, sem dyrnar voru á, var reft á ská upp á endasperru og svo tyrft. — Sömuleiðis var þekjan úr torfi. — Oft var sniddutyrft utan yfir flattorfið. Í suðurendanum var glugginn. Hann var á miðjum gafli, reistur upp við þverásinn.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

Utan með glugganum var hlaðið upp í sperruenda og út á gaflað úr grjóti, mold og torfi. Það var kölluð gluggatóft. Í glugganum voru 4 til 6 rúður, hver rúða um 28 centimetrar á hvern veg. Að innan var glugga-gaflaðið þiljað upp í sperrutopp. Grjótbálkar voru hlaðnir upp með endilöngum veggjum, og stafir reistir framan við þá upp í sperru við hvert rúmstæði. Í þá stafi var negldur rúmstokkurinn, sem lagður var ofan á grjótpallinn, sömuleiðis var rúmgaflinn negldur í báða stafi, bæði þann, sem var við vegginn og þann, sem var framan við rúmstæðið. — Þannig mynduðust stæðin, sem voru sléttuð með ýmsu, svo sem lyngi, þangi og heyi. Moldargólf var á milli rúma. Tvær hurðir voru fyrir dyrum.
Þannig litu verbúðirnar út, þegar vermennirnir settust að í þeim á kyndilmessu, eftir sín löngu og erfiðu ferðalög yfir heiðar og fjallvegi í misjafnri tíð og færð um hávetur. Þar bjuggu þeir um sig eftir föngum, í von um að geta barist til sigurs, til 11. maí, við storma og reiðan sjó. En þeir voru hraustir og mörgu vanir og kviðu engu.”

Heimild:
-Þættir af Suðurnesjum, Ágúst Guðmundsson 1869, bls. 112-113.

Selatangar

Selatangar – verbúð.