Hóp

Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson er nam Selvog og Krýsuvík.

Hóp

Líkleg bólfesta fyrsta landnámsmannsins í Grindavík. Uppdráttur ÓSÁ.

Í Landnámabók segir svo frá Moldar-Gnúpi að hann hafi verið sonur Hrólfs höggvandi, sem bjó í Moldartúni á Norðmæri í Noregi. Þeir Gnúpur og Vémundur bróðir hans voru vígamenn miklir og vegna drápa þeirra fór Gnúpur til Íslands. Hann nam land á milli Kúðafljóts og Eyjarár og allt Álftaver. Þar bjó hann uns byggðin spilltist af hraunstraumi en þá hélt hann vestur til Höfðabrekku og reisti sér skála, þar sem nú heita Kaplagarðar og dvaldist þar um veturinn. Þar lenti hann enn í ófriði og hélt um vorið ásamt sonum sínum vestur til Grindavíkur og tóku þeir sér þar bólfestu.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

(Þessi saga er rituð í Sturlungabók, en í annarri gerð Landnámu, Hauksbók, segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir, Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík. Sérfræðingar geta ekki fullyrt hvort er rétt en telja meiri líkur en minni að Molda-Gnúpur hafi komist alla leið.)

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Erfitt er að tímasetja landnámið nákvæmlega. Nýlegar rannsóknir jarðfræðinga sýna að hraun hefur runnið yfir Álftaver og þau svæði sem Moldar-Gnúpur settist fyrst að á um og eftir 934. Þessu ártali kann að skeika um 1 eða 2 ár til eða frá, en ef það er notað til viðmiðunar hefur Moldar-Gnúpur og fólks hans komið til Grindavíkur um og eftir árið 940.
Fólkinu virðist hafa gengið vel að koma sér fyrir eins og fram kemur í hinni frægu sögu um Hafur-Björn: “Björn hafði nær ekki kvikfé; hann dreymdi að bergbúi kæmi at honum og byði að gera félag við hann, en hann játti. Þá kom hafr til geita hans litlu síðar; því var hann Hafr-Björn kallaðr. Hann gerðist bæði ríkr og stórauðigr. Þat sá ófresk kona, at allar landvættir fylgdu Hafr-Birni þá er hann fór til þings en Þorsteinn ok Þórði bræðrum hans þá þeir fiskuðu”.

Túnakort

Hóp – Túnakort 1918.

Vitneskja okkar um upphaf byggðar í Grindavík takmarkast við frásögn Landnámu af Moldar-Gnúpi og sonum hans og ekkert er vitað með vissu um byggðina og sögu hennar næstu 300 árin eftir landnám. Engu að síður verður að telja líklegt að flestar bújarðirnar hafi byggst þegar á 10. og 11. öld og með því að gefa hugarfluginu lausan tauminn til þess að reyna að lesa milli línanna í Landnámu og þætta saman frásögn hennar og alþekktrar þjóðsögu má geta sér til hvernig hin fyrsta byggð í Grindavík hefur risið.
Hvergi kemur fram hve margt fólk fylgdi Moldar-Gnúpi á ferð hans austan úr Álftaveri, en varla hafa það verið færri en 20-30 manns, fjölskylda og fylgdarlið.

Hóp

Hópnes – kort ÓSÁ.

Þegar landnemarnir voru komnir á áfangastað hafa þeir vafalaust byrjað á því að velja sér stað til vetursetu og reist þar skála. Sá staður hefur að öllum líkindum verið í námunda við Hópið, trúlega á einhverjum þeirra staða sem síðar risu bæirnir Húsatóftir, Hóp og Járngerðarstaðir. Hópið var ákjósanlegur staður til að setjast að og reisa skála. Þar var öruggt vatnsból, stutt sjávargata, góð lending fyrir báta og mikil fjörugæði. Hinn fyrsta vetur hafa landnemarnir vafalítið notað til að kanna landkosti í nýjum heimkynnum og ekkert var eðlilegra en þeir Molda-Gnúpssynir tækju að svipast um eftir löndum fyrir sjálfan sig. Að sögn Landnámu voru þeir allir fullorðnir er hér var komið sögu og frumbyggjasamfélagið krafðist þess að menn staðfestu ráð sitt og hæfu búskap eins fljótt og auðið var.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Við vitum ekki í hvaða röð þeir bræður giftust né hvar hver þeirra reisti sér bú. Við vitum að bræðurnir fjórir; Gnúpur, Björn (Hafr-Björn), Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjandi. Við vitum líka að Gnúpur (yngri) giftist Arnbjörgu Ráðormsdóttur og að Hafr-Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrollleifssonar. Björn og Jórunn bjuggu í Grindavík, en óvíst er hvort Gnúpur og Arnbjörg hafi gert það líka.
Flestir kannast við þjóðsöguna um þær Járngerði og Þórkötlu, sem bjuggu á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Þjóðsögur geyma oft löngu gleymda vitneskju. Það er því ekki ólíklegt að konur með þessum nöfnum hafi í fyrndinni búið í Grindavík á þessum tveimur jörðum og jarðirnar dragi nöfn sín af þeim. Er þá ekki hugsanlegt að þær hafi verið tengdardætur Molda-Gnúps, giftast Þorsteini hrugni og Þórði leggjanda, og þá fyrstu húsfreyjur á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Hafi svo verið hafa þeir bræður verið fyrstir til að búa á þessum tveim bæjum og á sama hátt getum við hugsað okkur Moldar-Gnúpur hafi búið á Hópi (Hofi), en Gnúpur eða Björn á Stað og hinn á Húsatóftum.
Þetta er aðeins tilgáta en skemmtilegt að velta þessu fyrri okkur. Það er staðreynd að allar stærstu jarðirnar í sveitinni hafa byggst strax á landnámsöld og hverfin 3 vaxið út frá höfðubólunum.
Í Krýsuvík er landnámsmaður talinn Þórir haustmyrkur. Hann hafi búið í á bæ, sem Hlíð hét og lagt veg yfir svonefnd Grindarskörð. Þar átti þá að hafa verið svo mikill skógur að hann hafi tekið börkinn af nokkrum trjám og búið til grind og sett á skarðsbrúnina vestanverða til að merkja hvar fara ætti þegar ferð lá yfir fjallið. Er ekki ósennilegt að sú skýring að örnefninu Grindavík og Grindarskörð séu dregin af veggrindum á fjöllum uppi eigi rætur að rekja til þessarar sögu.

Engar heimildir eru um tilvist Grindavíkur á 12. og fram eftir 13. öld. Talið er að byggðin hafi lagst af á meðan á eldgosahrinutímabilinu stóð ofan bæjarins sem og næstu áratugina eftir að því lauk.

-Úr Þættir um átthagafræði Grindavíkur – Jón Gröndal tók saman 1992.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.