Gengið var á Þorbjörn (Þorbjarnarfell) ofan við Grindavík. Að vísu liggur vegur upp á fellið, sem er hæst 243 m.y.s., en að þessu sinni var ákveðið að ganga upp á það að norðanverðu, upp frá Baðsvöllum.
“Þar er Selskógur, eitt af útivistarsvæðum Grindvíkinga. Þar fara fram skemmtanir á vegum bæjarfélagsins auk þess sem skógurinn nýtist til gönguferða. Hann er hluti af stærra útivistarsvæði ofan þéttbýlis sem kallast Þorbjörn – Arnarsetur. Frá Selskógi er ekki langt í Bláa lónið en þangað geta íbúar Grindavíkur einnig sótt útivist.””Selskógur í Þorbirni hefur verið ræktaður upp þó skógrækt ríkisins hafi mælt eindregið gegn skógrækt á flatlendi utan byggðar á Suðurnesjum. Þrjú skógræktarsvæði hafa talist hæf til skógræktar og er Selskógur eitt þeirra. Skógræktarfélag Grindavíkur sér um Selskóg og hefur unnið að ræktun þess myndarlega skógar sem nú er fyrir hendi. Félagið gerðist aðili að Skógræktarfélagi Suðurnesja til þess að tryggja plöntur á vægu verði frá Skógrækt ríkisins. Nú eru hin myndarlegustu grenitré í nokkrum aðskyldum lundum og svo þéttur að þegar hefur myndast skógarbotn í þeim.”
Framangreint kemur fram í greinargerð með aðalskipulagi Grindavíkur fram til ársins 2020.Að sögn Kristán Bjarnasonar, skógræktarmanns, er Selskógur ekki ræktaður á flatlendi, nema þá að mjög litlu leyti, þannig að það virðist vera mótsögn í textanum. Þá er það að Skógrækt ríkisins mæli eindregið gegn skógrækt á flatlendi utan byggðir. Síðan að “aðeins þrjú svæði á Suðurnesjum henti til skógræktar” hefur ekki verið fjallað um fyrr af hálfu Skógræktarinnar.Í Jarðabókinni 1703 segir að “selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar ofurlitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þeirrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleinn.” Sagt er að Baðsvellir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig. Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut, Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. “Þar austan við heitir Stekkjarhóll,” segir í örnefnaskrá.
Rústirnar eru undir Þorbirni norðanverðum, í hraunjaðri, vestan við skógarrjóður. Syðst er þyrping, 5 hólf og klettur í miðjunni, sem hólfin raðast utan um. Þar norðan af er önnur tóft, tvö hólf. Norðan við þessa tóft eru tvær tóftir til viðbótar. Trjám var plantað í eina megintóftina.Við Stekkjarhól eru greinilegar og mjög grónar tóftir. Þær eru norðaustan í skógarjaðrinum. Norðaustan við aðra tóftina er 2 m djúp hola. Hún er nær hringlaga. Sunnan við vegarslóða þar við er önnur hola, 1 m djúp, e.t.v. brunnur. Í skógarjarðrinum, sunnan brunnsins, er önnur tóft. Norðar eru mannvistarleifar í lágum hraunhól.Þegar FERLIR var þarna á ferð höfðu einhverjir verið við mælingar og m.a. skilið hluta af mælitækjunum eftir. Grafnir höfðu verið stuttir skurðir á fimm stöðum og leiðunum stungið þar niður áður en tyrft var yfir að nýju.
Líklega er verið að kanna leiðni jarðvegs auk annars, utan í selleifunum að vestanverðu. Án efa fara þessar framkvæmdir fram með fullu samþykki Fornleifaverndar ríkisins og annarra yfirvalda, en svo þarf að vera því þær eru vel innan hinna 20 metra friðunarmarka fornleifanna. Eflaust væri þetta í góðu lagi ef um væri að ræða fornleifagröft eða aldursgreiningu seljanna, en svo virðist því miður ekki vera.Þegar gengið var upp á Þorbjarnarfell var gömlum slóða fylgt upp á norðurbrúnina. Hér munu vera för eftir beltatæki er fyrst var ekið upp á Þorbjörn á stríðsárunum til undirbúnings bækistöðva þar í gígskálinni og uppsetningu loftskeytabúnaðar. Síðan var vegurinn ruddur niður með austurhliðinni. Enn má sjá leifar bragganna tíu, sem þarna stóðu í einföldum boga meðfram gígbotninum. Einnig má sjá leifar eftir 2 bragga á sunnanverðu fellinu sem og fótstykki undan möstrum. Kampur þessi hét Camp Vail, eftir Raymond T. Vail. Möstrin efst á Þorbirni tilheyra Símanum annars vegar og Flugþjónustunni hins vegar. Stóra mastrið, ca, 40 m hátt, er frá Flugþjónustunni og hin frá Símanum. Nýjasta mastrið [2009] þjónar gsm-sambandi Símans. Auk þess er þarna endurvarp frá Útvarpinu.Þegar komið var upp á norðurbrúnina og efri hluti fellsins barinn augum mátti vel sjá hvernig fellið hafði fallið niður í miðjunni þannig að austur- og vesturveggirnir standa eftir og ofar. Um er að ræða sigdæld (misgengi) í gegnum fellið. Ástæðan er sú að Þorbjarnarfell varð til á tveimur gostímabilum. Hluti þess myndaðist á fyrra ísaldarskeiði.
Þegar aftururðu jarðhræringar á síðasta ísaldarskeiði urðu þessar miklu umbreytingar í fellinu. Ekki kom afgerandi gosefni upp í seinna skiptið því bólstraberg frá fyrra gosinu eru ráðandi hvert sem litið er. Sést það sérstaklega vel í þverskorningum Þjófagjár.Gengið var vestur með suðvesturhlíðum fellsins. Háir klettadrangar marka brúnina á kafla. Frá þeim er hið ágætasta útsýni yfir hraunin (Illahraun og Eldvarpahraun (Bræðrahraun og Blettahraun)), yfir að Eldvörpum, Sandfelli og Þórðarfelli og allt að Eldey í vestri.Frá sunnanverðum Þorbirni er hið fegursta útsýni yfir óumdeilanlega fallegasta byggðalag suðurstrandar Reykjanesskagans, Grindavík – og þótt víðar væri leitað, t.a.m. á norðanverðum skaganum.Á vef Örnefnastofnunar Íslands segir um þetta efnisatriði: “Þó að þess séu dæmi, að nöfnin sem gætu verið mannanöfn séu til í samsetningum með orðunum fell eða fjall, t.d. Þorbjarnarfell, er ekki hægt að segja, að öll þessi nöfn séu þannig til komin, að þau séu styttingar, eins og Finnur Jónsson gerir ráð fyrir.
Upprunalega nafnið gæti allt eins verið Þorbjörn og orðinu felli bætt við sem merkingarauka (epexegese) til nánari skýringar.Algengt hefur verið á Norðurlöndum að gefa fjöllum nöfn eftir persónutáknunum, þar sem mönnum hefur fundist vera líking með þeim. Þetta hefur líka tíðkast hér. Nægir þar að nefna fjallanöfn, þar sem orðin karl og kerling koma fyrir, t.d. Karl úti fyrir Reykjanesi og Kerling í Eyjafirði. Nöfn með maður, strákur og sveinn vísa til hins sama. Þegar fjalli er valið nafnið Surtur, er verið að vísa til jötuns, og er þá líklegt að fjallið sé svart, af því að allir þekkja þá merkingu orðsins. Þegar það er athugað, að nöfnin Karl og Sveinn geta verið hrein mannanöfn, og að ýmis fjallanöfn geta líka verið mannanöfn, en einnig haft aðra merkingu, er það e.t.v. orðinn álitlegur hópur fjalla, sem ber mannanöfn. Þegar þetta er orðinn útbreiddur nafnsiður, og ýmis fjöll bera einnig nöfn dýra, þá verður ekki fráleitt að nota hvers konar mannanöfn um fjöll, án þess að útlit þeirra þurfi að ráða þar nokkru um.
Þá verður það tilviljun hvaða nafn er gefið fjalli, eins og það getur verið tilviljun hvaða nafn maður hlýtur. Útlit ræður því ekki hvort maður heitir Njáll eða Þorfinnur. Útlit fjalls getur tæpast ráðið því, að það fái nafnið Gunnhildur, Hálfdan, Jörundur, Njáll eða Ölver. Að líkindum urðu þessi nöfn til hér sem fjallanöfn í upphafi byggðar, m.a. vegna þess að menn vildu heiðra landnámsmennina með því að kenna fjöll eða tinda við þá.”Til mun vera önnur skráð söguskýring á örnefninu “Þorbjörn”. Leit hefur verið gerð að henni, en hún hefur ekki borið árangur -enn sem komið er. Gamlir Grindvíkingar vísuðu jafnan á “Þorbjörn karlinn” þegar ekið var eftir Grindavíkurveginum áleiðis til Grindavíkur um Gíghæð. Þá blasir við andlit bergrisans utan í vestanverðu fellinu, líkt og hann hefði lagt sig þar um stund og notað vesturöxl fellsins sem svæfil.
Aðrir hafa viljað tengja nafnið við Hafur-Björn, son Molda-Gnúps hins fyrsta landnámsmanns í Grindavík (um 930), en sú tenging virðist langsótt. Fornafnið “Þor” er Þórsskírskotun, þess allra heiðnasta. Nafnið virðist því vera frá fyrstu tíð landnáms hér á landi því kristni varð eigi lögtekin hér fyrr en árið eitt þúsund. Heitið “Björn” gæti hins vegar, aldursins vegna, verið komið frá nefndum Birni er bæði Landnáma og þjóðsögur JÁ kveða á um. Hann hefur þá mögulega geta verið nefndur, á rauntíma, eftir herraguði ásanna (Þórs-Björn), sem með kristninni hefði getað breyst í “Þorbjörn”. Þjóðsagan hefur síðan lifað af hvorutveggja og hann þá nefndur “Hafur-Björn” – slíkt er bæjarmerki Grindarvíkur nú grundvallast á. Stefnan var tekin upp í Þjófagjá. Þjófagjá er “stór sprunga er klýfur topp Þorbjarnarfells. Þar herma munnmæli, að flokkur útileguþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum. Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá og engar mannvistarleifar hafa fundist þar,” segir í Sögu Grindavíkur. Klettasprungan er með grasi grónum botni. Hún er um 10 m breið, en allt að 80 m djúp. Skúti er í sprungunni vestarlega. Einstigi er upp Þjófagjá og leiðin greið, ef rétt er að farið. Fýll lá með ungum í gjárveggjunum.Í heild er þjóðsagan svona: “Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá.
Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu. Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar.
Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.”Ef vel er að gáð, í ljósi aðstæðna fyrri alda, er ekki algerlega með öllu útilokað að hópur manna er sameiginlegra hagsmuna hafa átt að gæta hefði safnast saman um stund á Þorbjarnarfelli. Hafa ver í huga að fellið væri fyrir þá slíka landfræðilega vel í “sveit sett”. Auk þess gæti nafngiftin hafa gefið þeim hinum sömu ákveðna “inspirisjón” þess tíma hungurs, volæðis og vonleysis. Þegar upp úr gjánni var komið var stefnan tekin niður í braggabúðirnar fyrrnefndu, eða leifarnar af þeim. Þegar meðfylgjandi ljósmynd af braggabyggðinni var borin saman við minjarnar nú mátti vel sjá hvaða braggi var hvar. Jónsmessuhátið Grindvíkinga mun vera, í seinni tíð, haldin hátíðleg á Þorbirni – og er það vel við hæfi, enda mun siðurinn vera frá heiðni kominn (þótt hann hafi í seinni tíð verið eignaður Jóni (Jóhannesi) skírara upp kristinn sið (eins og svo margt annað)).Til baka var gengið niður gróningina að norðanverðu, niður á Baðsvelli.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-GRINDAVÍK greinargerð og umhverfisskýrsla drög 22. mars 2010
-Grindavíkurbær GRINDAVÍK aðalskipulag 2000 – 2020
-Kristján Bjarnason