“Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan, er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum og vor fyrr á tímum eða stunduðu þar sjóróðra á vertíðum, lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna.
Við gömlu þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Grindavíkur um Drykkjarsteinsdal, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Liggur annar vegurinn áfram til Grindavíkur, en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa. Þar, sem vegirnir skiptast, er steinn sá, er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár, eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því, að í honum eru holur nokkurar, þar sem vatn safnast fyrir, og er svo sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn, er þarna áttu leið um, þar sem hvergi er vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði, og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta, er að Drykkjarsteini kom, og svaladrykknum sárlega fegnir. Var steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum, og var ekki laust við, að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið, hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestur langviðrum. Þó gat það borið við, að vatnið þryti í steininum, eins og þessi saga sýnir.
Einhverju sinni bar svo við sem oftar, að ferðamenn áttu leið um veg þennan. Ekki er þess getið, hvaðan þeir voru eða hvert ferðinni var heitið, en líklegra er, að þeir hafi verið á suðurleið. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið, svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk, er þeir kæmu að Drykkjarsteini. en er þangað kom, bar nýrra við, því að allar holurnar voru tómar, og engan dropa að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög, eons og vænta máti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækjabragðs, að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hann hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við, að holan var jafnan þurr, og það engu að síður, þótt rigningum gengi. Liðu svo nokkur ár, sumir segja aðeins eitt ár, að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan, einn síns liðs, og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans, að hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar, er farið var um veginn, fannst hann dauður undir Drykkjarsteini, og kunni það enginn að segja, hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.
Saga þessi er skráð eftir sögnum gamalla Krýsvíkinga og Grindvíkinga með hliðsjón af frásögn síra Jóns Vestamanns í lýsingu Selvogsþinga 1840 (Landnám Ingólfs III, 108). – Handrit Guðna Jónssonar magisters).”
-Sagan er í Rauðskinnu hinni nýrri, II. bindi, bls. 120-122.