Færslur

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um “Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

“Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.”

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni “Vanhugsað fálm“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

“Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar”, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg” — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa” á grundvelli misskilnings og „rannsóknar”, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels”, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður” eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.” – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog”, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, “Vanhugsað fálm”, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

krýsuvíkurvegur

“Hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.

Krýsuvík

Hellan við Kleifarvatn.

Hér á Íslandi er vegagerð svo dýr, að nauðsyn er á að hver vegarspotti komi sem flestum að notum. En með þessu vegi virðist sú stefna þverbortin, því að þessi dýri vegur liggur um óbyggðir einar. Á allri leiðinni frá Hafnarfirði og austur í Selvog – um 50 km. – er engin byggð nema Herdísarvík. Frá Selvogi og inn í Ölfus er svo 20 km. Alls verður þá þessi nýa Suðurlandsbraut rúmir 70 km, eða snöggum mun lengri heldur en leiðin yfir Hellisheiði. En þetta á að verða vetrarvegur þegar Hellisheiði er ófær. Sumir hafa ekki mikla trú á því, að það sé miklum mun snjóléttara þarna suður í fjöllunum heldur en á Hellisheiði, og verður reynslan að skera úr því hvort réttara reynist.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

En hitt er öllum ljóst, að þetta verður dýrasta vegargerð hér á landi, þar sem ekki eru brýr á leiðinni. Í Vatnsskarðinu verður vegurinn að Keifarvatni lang dýrastur og örðugast að leggja hann. En þó voru örðuleikarnir ekkert á móts við það, sem tekur við, þegar farið er að leggja veginn meðfram vatninu að vestan.
Í fljótu bragði virðist svo sem vegurinn hefði átt að liggja fram með vatninu að austanverðu og þar hefði verið miklu auðveldara að gera hann. En fróðir menn sögðu, að þeim megin væri miklu meiri snjóþyngsli. Kyngdi þarna aðallega niður snjó í austan og norðaustan veðrum, þótt varla festi snjó vestan megin vatnsins. Þetta mun hafa ráið um það, að kosið var að leggja veginn vestan megin vatnsins.

Kleifarvatn

Hellan við Kleifarvatn.

Rétt innan við norðurlónið hefur verið reistur veitingaskáli, og það er fyrsta framkvæmdin í sambandi við Krýsuvíkurveginn. Þangað sækir fólk skemmtanir um helgar á sumrin, eða safnast þar saman til að skemmta sér. Þar við vatnsbotninn þrýtur hinn lagða veg. En þar eru tjöld í brekkunum, og hafast þar við vegavinnumenn þeir, sem vinna að því að halda veginum áfram suður með vatninu. Taka þarna þegar við klettar við vatnið og gangur ekki á öðru en sprengingum. Er klettunum rutt niður í vatnið og hafðir fyrir undirstöðu vegarins. Þetta er erfitt verk og seinlegt, því að það er svo sem ekki að það sé almennilegt grjót þarna. Ónei, það er öðru nær. Það er samryskja, sem hvorki er hægt að kljúfa né sprengja, höggva né handleika. Og svona er það alla leið suður fyrir Stapann syðri, hraun, móberg, móhella og sandsteinn hvað innan um annað.

Kleifarvatn

Kleifarvatn um Stapana.

Vegurinn á fyrst að liggja undir klettunum suður í vikið fyrir norðan Stapann innri. Þarf hann að vera hár yfir vatnsborð það, sem nú er, ef duga skal. Bæði er að vatnið getur hækkað mikið frá því sem nú er, og svo er öldugangur mikill þarna í sunnanveðrum og gengur brimlöðrið langt upp í kletta. En fallegt vegarstæði er þetta, og væri óneitanlega skemmtilegast ef vegurinn lægi alls staðar meðfram vatninu, undir klettunum, enda þótt hann yrði nokkuð krókóttur fyrir það, þar sem fara yrði kringum báða Stapana.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Og alveg óvíst að þær beygjumar hefði orðið mikið lengri heldur en samanlagðar allar þær beygjur og krókar, sem verða á honum þegar kemur upp í brattan norðan við innri Stapann og þar áfram yfir mjög mishæðótt land fyrir ofan báða Stapana og suður á sand. Er það að vísu ekki nema 3 km. leið, en þarna er eitthvert hið argvítugasta vegarstæði, sem hugsast getur.

Víðast hvar er hliðhalli og verður að höggva veginn niður í móberg og móhellur, annars staðar verður að hlaða hann upp margra mannhæða háan, svo að hann verður tilsýndar þegar búið er að hlaða grjóti utan að honum, líkastur brimbrjóti eða hafnargarði. Efni í þessa miklu upphleðslu er vandfengið og mikið haft fyrir því. Sums staðar verður að brjóta niður klettaborgir sem verða fyrir, og á öðrum stöðum verður að lækka vegarstæðið með því að höggva hlið í gegn um móberg og móhelluhóla.

Krýsuvík

Krýsuvíkurhver.

Móhellan er ekki lambið að leika sér við. Hún virðist í fljótu bragði ósköp auðunnin þar sem hægt er að tálga hana með hníf og mylja hana undir fæti. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar hún blotnar má hún heita óvinnandi. Það er svo sem sama hvaða verkfæri er þá beitt á hana. Það er eins og hún verði ólseig. Og þess vegna stendur móhellan í vegavinnumönnunum, þar sem grágrýti hefði ekki staðið þeim snúning.
Þannig er þá skilyrðin til vegarlagningar þarna, og er ekki að furða þótt hver meterinn verði dýr. Reynslan verður svo að skera úr um hvort þessi nýi vegur dugir, eða hvort vatnsflaumurinn, sem hlíðin kastar af sér stundum, verður þess eigi megnugur að sópa honum burt. Og hættulegur getur vegurinn orðið þegar svellbungu leggur yfir hann, eins og við má búast að verði á vetrum. En þá á þetta einmitt að vera aðalleiðin frá Reykjavík til Suðurlandsundirlendisins.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það er von að mörgum ofbjóði þessi dýra vegarlagning. Og það er hreint ekki von að mönnum geti skilist það, að samgönguerfiðleikar yfir “fjallið” á vetrum geti réttlætt það, að ráðist er í svo dýrt og tvísýnt fyrirtæki, sem þetta, allra helst þegar góður vetrarvegur er kominn yfir Mosfellsheiði og frá Þingvöllum niður í Grímsnes.
Með lögum var Krýsuvík tekin eignarnámi handa sýslunni og Hafnarfjarðarbæ. Hefur það verið á prjónunum að Hafnarfjörður kæmi sér þar upp kúabúi. En ekki mundi nú þetta nægja, að Hafnfirðingar kæmi sér þarna upp kúabúi. Það myndi seint geta borgað hinn dýra veg. Hvað gæti þá réttlætt það?
Þessi staður hefur ýmis skilyrði fram yfir flesta eða alla staði á landinu til þess að geta orðið merkilvægur í framtíðarsögu þjóðarinnar.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur – Arnarfell framundan.

Þarna er jarðhiti mikill og á allstóru svæði. Og þarna eru brennisteinsnámur. Syðst í Kleifarvatni eru hverir, og hita upp vatnið, en sandströnd á löngum kafla, og því tilvalinn baðstaður. Geisikraftur í stórum hver er ónotaður.

Að öllu athuguðu virðist þarna vera framúrskarandi baðstaður, og ekki ólíklegt aðmeð tíð og tíma verði þarna reist stórt gistihús fyrir baðgesti. Og enn fremur að þarna rísi upp heilsuhæli, sem keppt gæti við frægustu heilsuhæli á meginlandi álfunnar. Heilsuhæli með brennisteinsgufuböðum, og hveraleðjuböðum, þar sem þúsundir manna gæti fengið heilsubót.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Og engin goðgá er það, að vera svo bjartsýnn, að spá því, að hróður þess berist um víða veröld og að þangað sæki fólk úr öllum álfum og öllum löndum hins menntaða heims. Þegar svo er komið, þá hefur Krýsuvíkurvegurinn ekki orðið of dýr, og hann þarf þá ekki að ná lengra heldur en til Krýsuvíkur. Og þá gleymist það sennilega brátt að hann átti upphaflega að vera vetrarvegur milli höfðuborgarinnar og Suðurlands.

Krýsuvík

Krýsuvíkurvegur 1961.

Þá sér maður koma þarna stórkostlega ræktun við jarðhita. Umhverfis hagana, þar sem kýr Hafnfirðinganna eru á beit, og framleiða mjólk á sama hátt og formæður þeirra gerðu fyrir þúsundum ára, standa raðir af gróðurhúsum þar sem framleiddir eru suðrænir ávextir. Og í görðum, sem hitaðir er með jarðhita, vaxa óteljandi nytjajurtir bæði til manneldis og annarra þarfa. Verksmiðjur rísa þar upp til að vinna brennistein og máske ýmsu efni úr skauti jarðar (t.d. helium) og aðrar, sem vinna áburð úr loftinu og nota til þess gufukraft úr jörðinni. Öll byggðin er upphituð með gufu og við hvert hús standa fagrir trjálundir, sem veita skjól í hretveðrum og stormum.
Þá verður fagurt og búsældarlegt um að litast í Krýsuvík.”

Úr Landið mitt er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.

Krysuvik-607

Austurengjahver.

Grindavíkurvegur
Miðað við nýjustu rannsóknir eru vegalengdir á milli þéttbýlissvæða á Reykjanesi frekar stuttar ef tekið er mið af landsmeðaltali. Önnur merkileg niðurstaða þessara rannsókna staðfestir að vegalengdir milli tveggja tiltekinna staða eru nákvæmlega þær sömu, hvort sem farið er fram eða til baka.
Einn liður rannsóknanna var að mæla fjarlægðir frá vegi í áhugaverðustu útivistarsvæðin. Þær reyndust vera frá 3 metrum upp í 3 km, eftir því hvaðan farið var.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Leiðin frá Grindavík til Reykjavíkur er 51 km. Við athugun kom í ljós að sama leið frá Reykjavík til Grindavíkur reyndist einnig vera 51 km. Erfitt er að byggja niðurstöður rannsókna á einni niðurstöðu, m.a. vegna hugsanlegra efasemda um áreiðanleika, svo ákveðið var að sannreyna aðrar vegalengdir á Reykjanesi. Þær reyndust staðfesta fyrri niðurstöðu. Þannig reyndist fjarlægðin milli Keflavíkur og Reykjavíkur vera sú sama og á milli Reykjavíkur og Keflavíkur (48 km). Vegalengdin til og frá Reykjavík og Sandgerðis reyndist í báðum tilvikum vera 55 km. Til að taka af allan vafa var ákveðið að mæla vegalengdina milli staða, sem fólk nýtir sér sjaldnar, þ.e. Keflavíkur og Grindavíkur. Reyndist hún vera 23 km, sama í hvora áttina var farið.

Hafnir

Hafnir.

Ef farin var leiðin um Hafnir kom í ljós að 39 km skyldu þar á millum. Jafnvel var talið að vegalengdirnar fram og til baka þá leiðina gæti verið misvísandi vegna malarvegarins á hluta leiðarinar, en það virtist ekki hafa áhrif á niðurstöðuna, þrátt fyrir 9 tilraunir. Á sama hátt reyndist vegalengdin frá Reykjavík til Grindavíkur um Krýsuvíkurveg vera 62 km, í sama hvora áttina var farið.
Heildarniðurstaðan af þessari umfangsmiklu rannsókn er sú að óvíða er styttra frá Reykjavík til áhugaverða staða hér á landi en einmitt á Reykjanesinu – og heim aftur. Vegalengdir eru ekki meiri en svo að hver og einn ætti að geta farið nestislaus að heiman og skoðað sig um án þess að óttast að verða hungurmorða á ferðalaginu. Ef svengdin kveður að eru víðast hvar bæði söluturnar og betri veitingarstaðir með tiltölulega stuttu millibili.
Ef lagt er í lengri ferðalög um svæðið, t.d. að morgni, er fátt sem getur komið í veg fyrir að viðkomandi komist heim að kveldi – hvílt sig og sofnað í eigin rúmi.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur.

Lambhagarétt

Gengið var frá Vatnsskarði og áleiðis umhverfis Kleifarvatn; um Sveifluháls, Hellutinda, Stapatinda, Miðdegishnúk (Hádegishnúk), gengið niður að Kaldrana, elstu minjum í ofanverðri Krýsuvík að talið er, austur með sunnanverðu vatninu ofan við Hvamma, undir Geithöfða, til norðurs vestan Gullbringu og yfir Hvammahraun með viðkomu í Gullbringuhelli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Þá var gengið með vatninu undir Vatnshlíðinni, sem verður að teljast nokkuð óvenjulegur möguleiki. En skýring er þó á því, eins og flestu öðru. Þá var haldið vestur um Lambhaga, litið á rétt og athvarf smala fyrrum, og síðan gengið áfram eftir eyðinu milli Lambhagatjarnar og Kleifarvatns norðan þess, uns staðnæmst var við hellisskútann undir Hellunni. Fagurt útsýni var yfir Kleifarvatn alla gönguna. Á leiðinni var rifjaður upp ýmiss fróðleikur um vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli, a.m.k. ekki ofanjarðar. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, þannig að veiði (er) var um tíma ágæt. Sumir telja að besti veiðistaðurinn er syðst í vatninu þar sem heitt jarðvatn frá hverasvæðum sytrar út í vatnið, en reyndir veiðimenn vita að besti veiðistaðurinn er undan norðanverðu Hvannahrauni (Hvammahrauni) austan við vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hveravolgrur.

Kleifarvatn er mjög kalt frá náttúrunnar hendi, en volgrur þessar skapa bleikjunni ákjósanleg skilyrði. Eldbrunnið og hrjóstrugt umhverfi vatnsins er bæði sérstakt og fagurt. Í jarskjálftunum 17. og 21. júní 2000 opnuðust sprungur á vatnsbotninum og vatnsborðið lækkaði verulega, en byrjaði að hækka aftur árið 2004.

Krýsuvíkurland sunnan Kleifarvatns tilheyrir landi Hafnarfjarðar, sem í rauninni er forgangssök því í vitund landvætta vorra tilheyrir það umdæmi Grindavíkur. Núverandi ráðstöfun er afleiðing klækja mannanna í valdastöðum þess tíma.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Umhverfisráðuneytið ákvað ekki alls fyrir löngu að veita Náttúrufræðistofu Kópavogs 300.000 kr. styrk vegna fyrirhugaðra lífríkisrannsókna á Kleifarvatni. Ástæðan er sú að Kleifarvatn er afskaplega áhugavert vatn. Það er mjög djúpt og tært, í því er verulegur jarðhiti, það er án afrennslis á yfirborði og í því geta orðið verulegar vatnsborðssveiflur. Þrátt fyrir þetta hafa litlar rannsóknir farið fram á lífríki þess og vistkerfi. Fróðlegt verður að skoða niðursstöðurnar þá og þegar þær liggja fyrir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnsyfirborð 2000-2004 (Vatnamælingar Orkustofnunar).

Vatnið er (var og er þess á milli) þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97 m djúpt. Það hefur lítilsháttar aðrennsli en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Jarðhitinn er einkum syðst í vatninu og einnig út af Innristapa.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sést þar endrum og eins. Á það að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð.

Sveifluháls

FERLIR á Sveifluhálsi 17. júní 2000.

Síðan í jarðskjálftanum mikla (þeir reyndust vera tveir) í júní 200 lækkaði vatnsborð Kleifarvatns um 4 metra. Sprungur í vatnsbotninum opnuðust í Suðurlandsskjálftanum sem svo var nefndur og olli auknum leka úr vatninu. Við lækkaði vatnsborðið og flatarmál Kleifarvatns minnkaði um 20% eða úr 10 km2 í 8 km2, og sandur og leir, sem áður var undir vatnsborðinu, varð nú á þurru. Tanginn norðan í vatninu, undan Lambhagatanga, kom upp úr undirdjúpunum og þurrgegnt varð með vatninu að norðaustanverðu.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

FERLIR var staddur á Sveifluhálsi er jarðskjálftarnir riðu yfir 17. júni 2000 með nokkurra mínútna millibili. Fyrst heyrðist vaxandi hvinur úr suðri og siðan má segja með sanni að Sveifluhálsinn hafi risið undir nafni; hann gekk í bylgjum líkt og um öldugang væri um að ræða. Í kjölfarið fylgdi annar og öflugri jarðskjálfti, beint undir fótum. Þá var eins og lamið væri með sleggju upp undir yfirborðið. Grjót hrundi úr nærliggjandi hlíðum í báðum tilvikum, en þegar einn félaganna horfði niður á skóna sína tók hann eftir að þeir voru hálfgrafnir í sendinn jarðveginn.
Síðastliðið hálft ár hefur vatnshæð Kleifarvatns verið nokkuð stöðugt, en hefur þó sveiflast með veðurfari að venju, hækkað við úrkomu, en lækkað í þurrkatíð.
Ef til vill er Kleifarvatn að ná jafnvægi við grunnvatni en of snemmt er að fyllyrða að ekki lækki meira í Kleifarvatni að sinni. Vatnsborð Kleifarvatns mun smám saman þéttast á ný með leir og öðru seti, og vatnsborððið hækka. Það mun þó taka Kleifarvatn ár eða áratugi að ná þeirri vatnshæð, sem var fyrir Suðurlandskjálftann í júní 2000.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja í sprungustefnu landsins NA-SV. Við vatnsborðshæð 140 m y.s. er meðaldýpi þess 29,1 m, flatarmál Kleifarvatns 10 km2, sem fyrr sagði, og rúmmál þess er 290 Gl. Nú er vatnsborðshæðin 136,3 m y.s., flatarmálið er um 8 km2 og rúmmál þess hefur minnkað niður í um 255 Gl.
Aðrennsli í vatnið á yfirborði er nokkrir smá lækir að sunnanverðu. Auk þess rennur úr hlíðunum í kring í rigningu og er snjó leysir á vorin. Kleifarvatn er að öðru leyti afrennslislaust á yfirborði og gert hefur verið ráð fyrir að vatnsborðið falli saman við grunnvatnsflötinn í umhverfinu og sé háð sömu sveiflum og hann, en rannsaka þarf nánar tengsl þess við grunnvatn í nágrenninu. Kleifarvatn hefur um allnokkurt skeið verið notað sem úrkomumælir á suðvesturlandi. Mælirinn er (var) í litlu húsi vestan við vatnið, undir Hellunni.

Kaldrani

Kleifarvatn.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja. Vatnsbotn Kleifarvatns hefur þéttst í áranna rás með leir og öðru seti. Lekt vatnsbotnsins var því minni en jarðlaganna í kring og því stóð vatnsborðið hærra en grunnvatnið. Þegar sprungur opnast í botni Kleifarvatns þá breytist lekt þ.e. viðnám jarðlaganna og vatnið hripar niður um sprungurnar. Smám saman nær Kleifarvatn á ný jafnvægi við grunnvatnið í kring, sem fyrr segir.
Af nálægum ummerkjum að dæma hefur Kleifarvatn einhverju sinni, jafnvel oftar en einu sinni, risið hærra en þekkist. Þegar grant er skoðað má lesa lækjarfarveg til suðurs frá vatninu. Fremst varð Nýjaland til með tilheyrandi afleiðingum fyrir hinn mikla dyngjugýg norðan Stóra-Lambafells. Farvegurinn hefur legið yfir núverandi Grænavatn og mótað landslagið allt niður á Krýsuvíkurberg.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indjáninn.

Kleifarvatn er án afrennslis á yfirborði. Fyrir jarðskjálftana árið 2000 rann lækur úr vatninu norður í Lambhagatjörn og seig vatnið þaðan í gegnum móbergshryggina og hraunin til sjávar norður í Straumsvík. Sumarið 2000 opnaðist 20-40 cm víð sprunga við norðurenda vatnsins og þar streymir vatnið niður. Tvö hverasvæði hafa síðan komið í ljós suðurenda vatnsins og nú er manngengt í hella í Syðristapa sem áður voru í vatnsborðinu

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í gegnum tíðina hefur Kleifarvatn verið vinsæll köfunarstaður. Í vatninu eru nefnilega góðar aðstæður fyrir þá sem eru að læra eða hafa lokið námskeiði og vilja æfa sig. Vatnið er frekar tært svona 10-15 metrar og skyggnið breytist ekki líkt og það gerir í sjónum. Þess vegna geta kafarar nánast alltaf gengið að aðstæðum vísum. Þó bera að geta þess að í miklum vindum og þá sérstaklega í austanátt getur vatnið átt það til að gára og öldurnar verða þó nokkuð háar í slíkum aðstæðum. Gallinn við vatnið er sá að dýralíf í því er fábreytt. Þarna eru stangveiðar algengar en að sjá fiska undir ydirborðinu er sjaldgæfara. Köfurum finnst það því hálfpartinn skrítið að nokkuð veiðist þarna yfirleitt.
Eflaust er besti köfunarstaðurinn staðsettur við Indjánann en það er auðþekkjanlegur steinstapi sem stendur við Stefánshöfða. Indíáninn fer ekki á milli mála þegar komið er á staðinn því ef hann er grannt skoðaður má sjá andlitsmynd í honum sem svipar til indíána. Piltar á leið í Vinnuskólann í Krýsuvík um og eftir 1960 höfðu jafnan það að venju að reka upp indíánaöskur í rútunni þegar ekið var fram hjá steinstöpli þessum – svona til að minna á að nú væri komið að því að takast á við viðfangsefni sumarsins.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Botn vatnsins er sandbotn og þegar komið er u.þ.b 60 metra frá landi fer þessi botn að breytast í gróðursælan botn allt að brekkunni sem liggur niður á hyldýpi eða um 97 metrana, en hún er aurbrekka sem auðvelt er að þyrla upp.
Fræg skáldsaga ber nafn vatnsins. Kleifarvatn er áttunda skáldsaga Arnaldar Indriðasonar. Bækur hans hafa notið gríðarlegra vinsælda og verið þaulsætnar á mestöluslistum hér heima og erlendis á undanförnum árum og tvö ár í röð hlaut Arnaldur Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina og Grafarþögn. Kleifarvatn gefur bestu bókum hans ekkert eftir. Hún fjallar m.a. um beinagrind, sem fannst í vatninu er lækkaði í því í kjölfar jarðskjálfta.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Um Kleifarvatn gengu þó enn þá fleiri sögur. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni. 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.

Kleifarvatn

Kleifarvatn að kvöldi.

Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Stefánshöfði

Stefánshöfði – minningarskjöldur.

Stefán Stefánsson var kunnastur leiðsögumaður útlendra ferðamanna á landi hér. Hann gerþekkti landið af löngum ferðalögum á hestum hvert einasta sumar. Þó mun Krýsuvík hafa verið honum kærari en flestir aðrir staðir. Við Kleifarvatn hefur skjöldur verið felldur í klett til minningar um hann og höfði, áður Innristapi, verið nefndur eftir honum. Á þeim stað var ösku hans dreift út á vatnið að fyrirlagi hans sjálfs.
Kaldrani er talinn elstur bæja í Krýsuvík. Honum tengist þjóðsagan af Herdísi og Krýsu, sem gerð hefur verið góð skil í annarri leiðarlýsingu um svæðið sunnan og austan undir Stóru-Eldborg. Enn má sjá móta fyrir garðlagi og jafnvel tóftum undir lítilli hæð neðan við einn gíganna, sem þarna eru. Í þeim er friðlýsingarmerki Þjóðminjasafnsins.

Kleifarvatn

Ytristapi, öðru nafni Stefánshöfði.

Stefán Stefánsson sagði í skrifum sínum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.
Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði. Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetraræagi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Hellurhellir

Smiðjuhellir undir Hellunni.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.
Leirhver mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Austurnegjahver, eða Stórihver, eins og hann er stundum nefndur, sést vel frá sunnanverðu Kleifarvatni.
Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, við Seltún. Endur fyrir löngu mun hafa þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurengjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.
Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.”

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Árni Óla fjallar um nýja Krýsuvíkurveginn undir Hellunni. Þar segir hann m.a. að “hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.
Hér á Íslandi er vegagerð svo dýr, að nauðsyn er á að hver vegarspotti komi sem flestum að notum. En með þessu vegi virðist sú stefna þverbortin, því að þessi dýri vegur liggur um óbyggðir einar. Á allri leiðinni frá Hafnarfirði og austur í Selvog – um 50 km. – er engin byggð nema Herdísarvík. Frá Selvogi og inn í Ölfus er svo 20 km. Alls verður þá þessi nýja Suðurlandsbraut rúmir 70 km., eða snöggum mun lengri heldur en leiðin yfir Hellisheiði. En þetta á að verða vetrarvegur þegar Hellisheiði er ófær. Sumir hafa ekki mikla trú á því, að það sé miklum mun snjóléttara þarna suður í fjöllunum heldur en á Hellisheiði, og verður reynslan að skera úr því hvort réttara reynist.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

En hitt er öllum ljóst, að þetta verður dýrasta vegargerð hér á landi, þar sem ekki eru brýr á leiðinni. Í Vatnsskarðinu verður vegurinn að Keifarvatni lang dýrastur og örðugast að leggja hann. En þó voru örðuleikarnir ekkert á móts við það, sem tekur við, þegar farið er að leggja veginn meðfram vatninu að vestan.
Rétt innan við norðurlónið hefur verið reistur veitingaskáli, og það er fyrsta framkvæmdin í sambandi við Krýsuvíkurveginn. Þangað sækir fólk skemmtanir um helgar á sumrin, eða safnast þar saman til að skemmta sér. Þar við vatnsbotninn þrýtur hinn lagða veg.
En þar eru tjöld í brekkunum, og hafast þar við vegavinnumenn þeir, sem vinna að því að halda veginum áfram suður með vatninu. Taka þarna þegar við klettar við vatnið og gangur ekki á öðru en sprengingum. Er klettunum rutt niður í vatnið og hafðir fyrir undirstöðu vegarins. Þetta er erfitt verk og seinlegt, því að það er svo sem ekki að það sé almennilegt grjót þarna.
Vegurinn á fyrst að liggja undir klettunum suður í vikið fyrir norðan Stapann innri. Þarf hann að vera hár yfir vatnsborð það, sem nú er, ef duga skal. Er það að vísu ekki nema 3 km. Leið, en þarna er eitthvert hið argvítugasta vegarstæði, sem hugsast getur.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Innristapi.

Víðast hvar er hliðhalli og verður að höggva veginn niður í móberg og móhellur, annars staðar verður að hlaða hann upp margra mannhæða háan, svo að hann verður tilsýndar þegar búið er að hlaða grjóti utan að honum, líkastur brimbrjóti eða hafnargarði. Móhellan er ekki lambið að leika sér við. Hún virðist í fljótu bragði ósköp auðunnin þar sem hægt er að tálga hana með hníf og mylja hana undir fæti. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar hún blotnar má hún heita óvinnandi. Það er svo sem sama hvaða verkfæri er þá beitt á hana. Það er eins og hún verði ólseig. Og þess vegna stendur móhellan í vegavinnumönnunum, þar sem grágrýti hefði ekki staðið þeim snúning.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Landnám 2002; Litla Grindavík numin.

Það er von að mörgum ofbjóði þessi dýra vegarlagning, Og það er hreint ekki von að mönnum geti skilist það, að samgönguerfiðleikar yfir “fjallir” á vetrum geti réttlætt það, að ráðist er í svo dýrt og tvísýnt fyrirtæki, sem þetta, allra helst þegar góður vetrarvegur er kominn yfir Mosfellsheiði og frá Þingvöllum niður í Grímsnes.”
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Gullbringa er nafn á “fjalli” austan við Kleifarvatn. Aðrir segja að það sé nafnið á hlíðinni að baki henni, enda er hún er jafnan roðagylt af kvöldsólinni þar sem hún gæist yfir og til hliðar við Miðdegishnúk á fögru sumarkvöldi. Gamla þjóðleiðin lá um Hvannahraun (Hvammahraun). Við hana er Gullbringuhellir, gott skjól í vondum veðrum. Í hellinum er flórað bæli.

Kleifarvatn

Vatnshlíðarhorn.

Í Vatnshlíðinni eru sérstakar jarðmyndanir, s.s. hraunfoss, sem “frosið” hefur efst í einu gili hennar svo undrum sætir. Undir Lambhaga er hlaðin rétt og hvíluskúti smalanna er þeir komu með féð af fjalli. Lambhagatjörni er sérstakt jarðfræðifyrirbæri, sem og skútinn undir hellunni. Hann er til kominn, líkt og skútinn bak við Indíánann, vegna ágangs vatnsins. Þeir, sem og aðrir skúta við norðanvert vatnið, eru ágætir vitnisburðir um fyrrum hærri vatnsstöðu þess, en skútarnir eru tilkomnir vegna ágangs vatns á móbergið til lengri tíma.
Skútinn undir Hellunni er brotabergskenndur, en þar mun Þorsteinn frá Hömrum við Húsatóftir haft smiðju um tíma. Smíðaði hann það fyrir vegavinnumenn og aðra það er þeir þurftu. Þá var skútinn um nokkurt skeið afdrep veghefilsstjóra, er unnu að því að bæta Krýsuvíkurveginn, enda ekki vanþörf á oft á tíðum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 05 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is/
-http://www.reykjanes.is/
-http://www.os.is/
-http://www.natkop.is/
-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.
-Úr Sunnudagsblaði Tímans 25. júní 1967 – Stefán Stefánsson.
-Úr Landið mitt er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.
-Dulheimar 97.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – norðurljós.

Drykkjarsteinn

“Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan, er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum og vor fyrr á tímum eða stunduðu þar sjóróðra á vertíðum, lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna.
DrykkjarsteinnVið gömlu þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Grindavíkur um Drykkjarsteinsdal, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Liggur annar vegurinn áfram til Grindavíkur, en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa. Þar, sem vegirnir skiptast, er steinn sá, er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár, eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því, að í honum eru holur nokkurar, þar sem vatn safnast fyrir, og er svo sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn, er þarna áttu leið um, þar sem hvergi er vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði, og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta, er að Drykkjarsteini kom, og svaladrykknum sárlega fegnir. Var steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum, og var ekki laust við, að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið, hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestur langviðrum. Þó gat það borið við, að vatnið þryti í steininum, eins og þessi saga sýnir.
Skálar DrykkjarsteinsEinhverju sinni bar svo við sem oftar, að ferðamenn áttu leið um veg þennan. Ekki er þess getið, hvaðan þeir voru eða hvert ferðinni var heitið, en líklegra er, að þeir hafi verið á suðurleið. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið, svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk, er þeir kæmu að Drykkjarsteini. en er þangað kom, bar nýrra við, því að allar holurnar voru tómar, og engan dropa að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög, eons og vænta máti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækjabragðs, að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hann hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við, að holan var jafnan þurr, og það engu að síður, þótt rigningum gengi. Liðu svo nokkur ár, sumir segja aðeins eitt ár, að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan, einn síns liðs, og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans, að hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar, er farið var um veginn, fannst hann dauður undir Drykkjarsteini, og kunni það enginn að segja, hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.
Saga þessi er skráð eftir sögnum gamalla Krýsvíkinga og Grindvíkinga með hliðsjón af frásögn síra Jóns Vestamanns í lýsingu Selvogsþinga 1840 (Landnám Ingólfs III, 108). – Handrit Guðna Jónssonar magisters).”

-Sagan er í Rauðskinnu hinni nýrri, II. bindi, bls. 120-122.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Krýsuvíkurleið

Gengið var frá Skökugili um Siglubergsháls, eftir Krýsuvíkurleiðinni þar sem langar birgðarlestirnar fullhlaðnar þurrkfiski liðuðust um áleiðis til Skálholts forðum, gömlu gönguleiðinni austur til Krýsuvíkur, framhjá Drykkjarsteini og Hlínarvegi fylgt að Méltunnuklifi, haldið yfir Grákvíguhraun, yfir Núpshlíð og um Tófubruna niður af Lathólum og síðan var hinum forna Ögmundarstíg fylgt austur yfir Ögmundarhraun. Staðnæmst var við dys Ögmundar, þess er þjóðsagan segir að hafi rutt brautina í gegnum hraunið forðum daga.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Nýr Suðurstrandarvegur mun fara yfir hina fallegu leið á Siglubergshálsi svo hver var að verða síðastur til að berja hana augum.
Að sögn Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála var jafnan farið upp á Siglubergsháls um sneiðing utan í Skökugili. Nafnið er dregið af því að þar féll af hesti smjörskaka, en skaka hét smérstykkið, sem pressað hafði verið í strokknum. Nafnið er til komið líkt og Méltunnuklif nokkru austar, en þar munu menn hafa misst méltunnu af einum hestanna á leið sinni um klifið. Það var þá mun mjórra en nú er.
Jón sagði að elsta gatan um hálsinn hafi verið göngugatan er liggur upp með vestanverðu Festisfjalli. Guðmundur á Skála, faðir Jóns, og Bergur bróðir hans löguðu veginn að hluta árið 1930. Þá gerðu þeir götuna akfæra upp hálsinn. Sá hluti vegarins sést vel á honum vestanverðum þar sem hann liggur á ská niður brattann. Þessi hluti götunnar fer undir Suðurstrandarveginn.

Siglubergsháls

Vegur um Siglubergsháls.

Af Siglubergshálsi er fegurst útsýni til suðvesturs yfir fegurstu byggð á gjörvöllu landinu. Hún er og hefur verið fámenn, en með afbrigðum góðmenn. Fólkið þar hefur skilið tilgang lífsins betur en flest annað fólk, en borist lítið á, enda hreykir það fólk, sem veit og skilur, sér jafnan ekki hátt yfir meðvituð takmörk.

Gamla gatan frá Grindavík til Krýsuvíkur lá í gegnum Móklettana, en vegur þeirra Guðmundar og Bergs, sem sjá má ofan við Móklettana, lá áfram niður með og norður fyrir þá, þar sem nýi vegurinn mun liggja. Í austanverða Móklettana eru klöppuð landamerki Hrauns og Ísólfsskála (V 1890).

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Gamla gatan liggur undir núverandi vegarstæði austan Mókletta. Hún liðaðist niður með norðanverðu Festisfjalli og áfram milli Lyngfells og Litlahálss. Utan í honum eru klöppuð fangamörk fyrrum vegfarenda í móbergið. Götuna áleiðis niður að Skála má sjá rétt ofan við nýja veginn, vestan og utan í Lyngfellinu. Jón sagði að yfirleitt hafi verið reynt að sneiða hjá bjallanum ofan við Skála vegna þess hve brattur hann var. Sem dæmi mætti nefna að þegar Jóhannes Reykdal sendi vörubíl fullhlaðinn timbri í íbúðarhúsið á Skála hafi gengið þokkalega að koma honum niður brekkuna, sem þá var skammt vestan við núverandi vegarstæði, en þegar aka átti bílnum upp aftur hafi ekkert gengið. Varð að sækja 13 menn og reipi til Grindavíkur með til að draga hann upp brekkuna svo hægt væri að koma honum til baka.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsuvíkurvegur: Skála-Mælifell fjær.

Gömlu götunni til Krýsuvíkur var hins vegar fylgt frá Litlahálsi yfir Litla-Borgarhraun og áleiðis í Drykkjarsteinsdal. Gatan sést vel í gegnum hraunið. Fjárborgin í Borgarhrauni er skammt sunnan við götuna. Þar á hæð var hlaðið lítið ferkantað mannvirki.
Staðnæmst var við Drykkjarsteininn. Símon Dalaskáld orti um hann vísu og þjóðsaga er tengd steininum (sjá Drykkjarsteinn – saga – undir Fróðleikur).

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að steinninn hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera meinabót. Vatn var nú í báðum skálum hans, en sú sögn hefur fylgt steininum að vatnið í þeim ætti aldrei að þverra.

Krýsuvíkurvegur

Gamli_Krýsvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

Gengið var framhjá Stóra-Leirdal og Lyngbrekkum, inn á Hlínarveginn, sem Jón ásamt fjórum öðrum, þ.á.m. Indriða föðurbróðir hans, lögðu gegn kaupi fyrir Hlín Johnson í Herdísarvík árið 1932. Var lagður vagnfær vegur frá Skála ofan Slögu alla leið í Krýsuvík, aðallega fyrir fyrirhugaða heyflutninga þaðan til Grindavíkur. Hlínarvegurinn er beinn og mjög greinilegur á sléttum melnum. Fyrirhuguð efnistaka í Einihlíðum ofan við Lyngbrekkur vegna Suðurstrandarvegarins stefna þessum vegarkafla í hættu. Jón man að sérhver vegavinnumanna fékk kr. 100 greitt fyrir verkið úr hendi Hlínar. Vegurinn sést vel til hliðar við nýrri veg upp með Lyngbrekkum og síðan áfram áleiðis að Méltunnuklifi.

Méltunnuklif

Gamli-Krýsuvíkurvegurinn um Méltunnuklif.

Þegar komið var að Méltunnuklifi mátti vel sjá hvernig vegavinnumenn höfðu kroppað drjúgt úr berginu og sprengt sér leið fram hjá stóru bjargi í klifinu ofan við bjargbrúnina, mesta farartálmanum. Eftir það var leiðin nokkuð greið í gegnum Grákvíguhraun og Leggjabrjótshraun, upp og yfir Núpshlíð þar sem gatan er höggvin í gegnum móbergskletta efst á hálsinum, áfram niður á Djúpavatnsveg og síðan var gamla veginum fylgt yfir Tófubruna að Latsfjalli. Á Núpshlíðarhálsi eru nokkrir eldgígar. Undir einum þeirra er gat og sést þar niður í myndarlega hvelfingu undir. Stiga þarf til að komast niður. Forvitnilegt væri að skoða rýmið þarna niðri við tækifæri. Hellirinn hefur fengið nafnið S. Þá vantar bara Á-ið, en Óið er norðvestan Grindavíkur.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsuvíkurvegur um Ögmundarhraun.

Af hálsinum var ágætt útsýni yfir Ögmundarhraun. Nýi vegurinn er eftir gamla sneiðingnum niður hlíðina að austanverðu. Ögmundarstígnum gamla var síðan fylgt yfir Ögmundarhraun. Jón sagði að þeir hefðu lagt veginn 1932, ofan í gömlu göngu- og hestagötuna í gegnum hraunið. Þá hafi klöppin verið djúpt mörkuð eftir hófa og fætur liðinna alda. Sums staðar hafi komin göt í bergið og holrúm verið undir. Það hafi verið fyllt upp og gatan breikkuð. Ef hreinsað væri upp úr götunni kæmi sú gamla eflaust aftur í ljós. Nú sæist hins vegar ekkert eftir af gömlu götunni nema stuttur spotti austast í hrauninu, þar sem hún liggur framhjá Ögmundardys.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Staðnæmst var við dysina austur undir Krýsuvíkur-Mælifelli.
Best varðveittu kaflarnir á leiðinni frá Grindavík áleiðis til Krýsuvíkur eru á Siglubergshálsi, vestan við Méltunnuklífið og í gegnum Ögmundarhraunið vestan við Krýsuvíkur-Mælifell. Á þessum stöðum hefur þó verið farið yfir elstu götuna með nýrri vegagerð, nema á tveimur stöðum, þ.e. austast í Ögmundarhrauni og vestan við Tófubruna. Annars staðar hefur verið lagðir enn nýrri vegir yfir gömlu götuna eða þeir skemmdir með jeppaakstri. Þeir kaflar, sem heillegastir eru, eru vel þess virði að gefa góðan gaum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krysuvikurvegur-21

Gamli Krýsuvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

 

Portfolio Items