Færslur

Frykkjarsteinn

Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum haust og vor fyrr á tímum lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna. Milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Lá annar vegurinn áfram til Grindavíkur en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurgatan gamla.

Þar sem vegirnir skiptast er steinn sá er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því að í honum eru holur nokkrar þar sem vatn safnast fyrir. Svo var sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn er þarna áttu leið um, þar sem hvergi var vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta er að Drykkjarsteini kom og svaladrykknum sárlega fegnir. Varð steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum og var ekki laust við að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestu langviðrum.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn að vetrarlagi.

Þó gat það við borið að vatnið þryti í steininum eins og þessi saga sýnir. Einhverju sinni bar svo við sem oftar að ferðamenn voru á suðurleið um veg þennan. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir því mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk er þeir kæmu að Drykkjarsteini. En er þangað kom bar nýrra við því að allar holurnar voru tómar og engan dropa þar að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög eins og vænta mátti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækibragðs að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hanna hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við að holan var jafnan þurr og það engu að síður þótt rigningum gengi.
Liðu svo nokkur ár að ekki bar til tíðinda.
DrykkjarsteinnÁtti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans er hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar er farið var um veginn fannst hann dauður undir Drykkjarsteini og kunni það enginn að segja hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan. 

Ljóð hefur verið ort um Drykkjarsteininn í Drykkjarsteinsdal. Það er eftir Símon Dalaskáld og er svona:

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að hann hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera meinabót.”
Þegar FERLIR var á ferð um dalinn s.l. sumar hafði þornað í báðum skálum hans, enda óvenjumikil þurr- og og hlýviðri það sumarið.

-Sagan er úr Rauðskinnu, bls. 120, II. bindi.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Drykkjarsteinn

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar er m.a. fjalla um brýni. Í umfölluninni er getið um tvö örnefni, sem ekki lengur eru þekkt sem slík; Móháls og Drykkjarháls.

Mohals-21

Svo virðist sem þarna sé annars vegar átt við skarð þar sem gamla þjóðleiðin liggur um Mókletta norðan við Siglubergsháls milli Festarfjalls og Fiskidalsfjalls og hins vegar hálsinn vestan Drykkjarsteinsdals norðvestan Slögu. Örnefnið Móklettar er enn til norðaustan í fyrrnefnda hálsinum og Drykkjarsteinn er norðaustast í nefndum Drykkjarsteinsdal.
Í Ferðabókinni segir: “Móháls, stuttur fjallvegur á Suðurnesjum, er að mestu leyti úr grófgerðu þursabergi og eitlabergi. Frumefnið í því er dökkmórauður sandsteinn, sem hraunmolar og brimsorfnir smásteinar hafa blandast saman við.
Í Drykkjarhálsi, sem liggur nokkru fjær Grindavík er Móháls, er mikið móberg. Eru þar bæði fíngerð og Drykkjarsteinn-21gróf afbrigði þess. En af þeim er brýnissteinn (lapis cotarius particulis aequalibus mollissimis) bezta tegundin. Hann er mjög fíngerður og sléttur slípisteinn, brúngulleitur á lit. Háls þessi er merkilegur vegna nafnsins, en það er dregið af keri, sem höggvið er í sandsteinsklett uppi á fjallinu rétt við veginn vegfarendum til afnota. Kletturinn kallast Drykkjarsteinn, því að þar stóð fyrrum drykkur til reiðu þeim, sem um veginn fóru. Héraðið í kring er þurrt og vatnslaust, og því var þar maður, sem safna skyldi regnvatni eða sækja vatn lengra að, þegar þurrkar gengu, og hafa kerið ætíð fullt af súrblöndu, og sótti hann sýruna til byggða. Ef til vill var honum goldið fyrir þetta.”
Eggert Ólafsson (1726-1768) fór í rannsóknarferðir um Ísland með Bjarna Pálssyni, síðar landlækni, á árunum 1752-1757. Í þessari ferð könnuðu þeir náttúru landsins en einnig almennt ástand þess og gerðu tillögur til úrbóta.

Brynisteinn-21

Á veturna sat hann í Viðey hjá Skúla Magnússyni landfógeta – líkt og Árni Magnússon hafði hálfri öld áður setið í Skálholti milli ferða sinna um landið. Eggert samdi síðan ferðabók þeirra félaga á dönsku og kom hún út árið 1772.
Í Samvinnunni 1944 segir m.a. um Ferðabókina: “
Ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna er víðtækasta og gagnmerkasta heimildarrit um Ísland og íslendinga á 18. öld, sem skráð hefur verið. Ber fátt gleggra vitni um armóð Íslendinga en sú furðulega staðreynd, að Ferðabókin skuli aldrei hafa verið gefin út á máli Söguþjóðarinnar fyrr en nú, þótt senn séu 200 ár liðin siðan ritið var fært í letur. Nú hefur verið úr þessu boett. Ferðabókin kom út um síðustu áramót í þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, og hefur hann yfirleitt leyst verkið prýðisvel af hendi. Margir hefðu kosið snið og frágang bókarinnar nokkru vandaðra en raun ber vitni, en hvað sem því liður, er hitt víst, að bókinni var svo vel tekið, að upplagið seldist allt á skömmum tíma.”
Hafa ber í huga að staðar- og atvikslýsingar í Ferðabókinni eru ekki alltaf mjög nákvæmar, a.m.k. hvað Reykjanesskagann varðar. Til dæmis er getið um hverafugla, sem verpa harðsoðnum eggjum, hveri sem lita ullina ýmist svarta eða hvíta o.s.frv.
Í örnefnalýsingum fyrir Ísólfsskála segir eftirfarandi um Drykkjarstein og nágrenni: “
Norðanvert við Slöguna er Drykkjasteinn. Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun.
Hans er einnig getið í þjóðsögum. Norðan í, vestur af Skyggni, er svonefndur Litli-Leirdalur. En lægðin, sem Drykkjarsteinn er í, heitir Drykkjarsteinsdalur.” Og Brynisteinn-22
Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drekkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpum skálum en litlum um sig og þar stóð oftast vatn í sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.”
Þegar FERLIR skoðaði framangreinda staði virtist örnefnið Móháls augljóst þar sem gamla þjóðleiðin lá um hann ofarlega í Móklettum. Gatan er þar grópuð í móbergið þar sem hún liggur um unnið skarð. Skammt neðar eru mörkuð landamerki Ísólfsskála og Hrauns (V1890). Móklettar svara vel til lýsingar Eggerts á dökkbrúnu þursabergi og eitlabergi.
Þar sem gamla þjóðleiðin lá yfir Borgarhraun og upp á hálsinn vestan Drykkjarsteinsdals má sjá nefnt brúngulleitt slípiberg, kjörið til nota sem brýni. Bergið, sem virðist hluti af fornum berggangi, er langsneiðklofið svo auðvelt hefur verið að velja réttar þykktir á brýnin, allt eftir þörfum hverju sinni.

Heimild:
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, 1772, bls. 196
-Samvinnan 1944, bls. 119
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Ísólfsskála. Heimildarmaður er Guðmundur Guðmundsson frá Skála.
-Örnefnalýsing Lofts Jónssonar fyrrir Ísólfsskála

Frykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Drykkjarsteinn

“Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan, er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum og vor fyrr á tímum eða stunduðu þar sjóróðra á vertíðum, lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna.
DrykkjarsteinnVið gömlu þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Grindavíkur um Drykkjarsteinsdal, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Liggur annar vegurinn áfram til Grindavíkur, en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa. Þar, sem vegirnir skiptast, er steinn sá, er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár, eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því, að í honum eru holur nokkurar, þar sem vatn safnast fyrir, og er svo sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn, er þarna áttu leið um, þar sem hvergi er vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði, og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta, er að Drykkjarsteini kom, og svaladrykknum sárlega fegnir. Var steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum, og var ekki laust við, að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið, hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestur langviðrum. Þó gat það borið við, að vatnið þryti í steininum, eins og þessi saga sýnir.
Skálar DrykkjarsteinsEinhverju sinni bar svo við sem oftar, að ferðamenn áttu leið um veg þennan. Ekki er þess getið, hvaðan þeir voru eða hvert ferðinni var heitið, en líklegra er, að þeir hafi verið á suðurleið. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið, svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk, er þeir kæmu að Drykkjarsteini. en er þangað kom, bar nýrra við, því að allar holurnar voru tómar, og engan dropa að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög, eons og vænta máti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækjabragðs, að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hann hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við, að holan var jafnan þurr, og það engu að síður, þótt rigningum gengi. Liðu svo nokkur ár, sumir segja aðeins eitt ár, að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan, einn síns liðs, og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans, að hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar, er farið var um veginn, fannst hann dauður undir Drykkjarsteini, og kunni það enginn að segja, hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.
Saga þessi er skráð eftir sögnum gamalla Krýsvíkinga og Grindvíkinga með hliðsjón af frásögn síra Jóns Vestamanns í lýsingu Selvogsþinga 1840 (Landnám Ingólfs III, 108). – Handrit Guðna Jónssonar magisters).”

-Sagan er í Rauðskinnu hinni nýrri, II. bindi, bls. 120-122.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Sigurður Gíslason

Eftirfarandi er upprifjun, að gefnu tilefni, úr fyrrum FERLIRsferð frá Hrauni í Grindavík og nágrenni:

Hraun

Hraun – Gamli brunnur.

FERLIR gekk um sunnanverð Suðurnes s.l. laugardag. Tekið var hús á fjölfróðum merkismanni, Sigurði Gíslasyni, bónda á Hrauni austan Grindavíkur. Leiddi hann hópinn og sýndi honum m.a. fallega tilhöggvin stein, sem gæti verið forn skírnarfontur úr gömlu bænahúsi eða kirkju, sem hafði staðið þar skammt frá og getið er um í gömlum heimildum.

Hraun

Hraun – fontur.

Fonturinn er hinn merkilegasti gripur. Hann kom upp þegar verið var að grafa utan í fjárhús fyrir nokkrum misserum, en aftan þeirra átti bænahúsið að hafa staðið fyrrum. Fyrir stuttu var fonturinn síðan sóttur í gröftinn og komið á tryggari stað. Sigurður sýndi hópnum auk þess fallega hlaðinn brunn, Gamlabrunn, á söndunum ofan Hrólfsvíkur, en þangað sóttu íbúar Þórkötlustaða vatn á 19. og á framanverðri 20. öld. Brunnurinn hefur fallið í gleymsku og virðast fáir vita af tilvist hans nú orðið. Skammt austar er Kapellulág, en þar undir sandinum er kapella frá því á 15. öld, ein af gersemum svæðisins. Þá benti Sigurður á forna dys á hól vestan Hrauns, en í hana hafði Kristján Eldjárn áhuga að grafa, en entist ekki aldur til.

Hraun

Refagildra við Hraun.

Loks var skoðuð gömlu hlaðin krossrefagildra, líklega sú eina á landinu, svo vitað sé.
Sigurður sýndi hleðslur ofan Húsfells, sem og opin á “Tyrkjahellinum” á Efri-Hjalla.

Geldingadalur

Í Geldingadal – Dys Ísólfs.

Þá var gengið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal, en hann stendur við gamla Sandakraveginn (Krýsuvíkurleiðina) þar sem hann liggur á bak við Slögu að Méltunnuklifi og áfram austur úr til Krýsuvíkur.

Krýsuvíkurleið

Krýsuvíkurleið.

Gatan (leiðin) er mjög greinileg. Hún var gerð ofan í vagnveginn, sem lagður var millum Ísólfsskála og Krýsuvíkur 1923 um  hinn forna Ögmundarstíg.
Þaðan var gengið um Nátthaga, upp skarðið og yfir að Stórahrút og að ofanverðum Merardölum. Þar var beygt yfir í Geldingadal og litið á dys Ísólfs gamla á Skála, en sagan segir að hann hafi látið dysja sig í dalnum þar sem sauðir hans undur hags sínum svo vel.

Borgarhraun

Borgarhraun – stekkur.

Gengið var auðveldlega upp úr dalnum að vestanverðu og þá komið niður í Selskál norðan Borgarfjalls, en í skálinni er talið að Ísólfsskálasel hafi verið. Engar tættur er þó þar, enda landeyðing þarna mikil í seinni tíð. Skammt vestar er stekkur í hraunkanti Borgarhrauns. Líklegt er að selstaðan hafi þar verið og þá heimasel.

Neðan Einbúa var komið að gömlu leiðinni norður að Stóra-Skógfelli, en við hana er gamalt hlaðið aðhald. Við það er hlaðið lítið skjól. Skammt vestan þess má sjá gamalt fallega staðsett refabyrgi og enn vestar, undir hraunhrygg, er forn stekkur. Þar við gæti hafa verið heimaselstaða til einhvers tíma.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Sunnar er hlaðna Ísólfsskálaréttin (Borgarhraunsréttin) og Borgin forna (Viðeyjarborg) í Borgarhrauni, en hún gæti jafnvel verið frá þeim tíma er Viðeyjarklaustur nýtti staðinn því til handa.
Eins og sjá má er Reykjanesskaginn fjölbreytileg útivistarparadís – og það við hver fótmál. Stutt er í alla áhugaverða og fallegu staðina, hvort sem þeir tengjast merkilegum náttúrufyrirbrigðum, minjum eða sögu.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Hraun

Skoðaður var forn “skírnarfontur” úr grágrýti við Hraun austan Þórkötlustaðahverfis. Hann fannst þegar verið var að grafa við fjárhús, sem þarna eru, en í fyrri tíð átti bænahús að hafa staðið þar norðan húsanna. Steininum var hent til hliðar í fyrstu, en Siggi (Sigurður Gíslason) á Hrauni lét grafa hann upp fyrir skömmu og er hann hinn fallegasti og merkilegasti gripur.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Að vandlega skoðuðu máli virðist steinninn einnig geta verið svonefndur stoðsteinn. Þeir voru hafðir undir burðarstoðum bæja, höggvið í þá fyrir stoðinni og hún látin standa í holunni. Dæmi þessa má t.d. sjá í gömlu Herdísarvíkurbæjartóftinni, en þar er stoðsteinn þar sem önnur burðarstoðin við útidyrnar var.

Siggi sýndi FERLIRsfélögum dys ofan vegar sem Kristján heitinn Eldjárn hafði mikinn áhuga á, en gafst ekki tími til að kanna, auk þess sem skoðaðir voru brunnar við bæinn og Gamlibrunnur úti á sandinum ofan við Hrólfsvík.

Hraun

Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason ásamt Sesselju Guðmundsdóttur.

Um er að ræða fallega hlaðinn brunn, en er nú að mestu fylltur fosksandi. Loks var haldið upp Sandskarðið og upp í Hraunsleyni þar sem leynist ein fallegasta refagildra sem um getur. Um er að ræða krossgildru með fjórum inngöngum (en engum útgöngum).

Sigurður fór að rifja upp staðsetninguna eftir að FERLIR fór að grennslast um refagildrur á þessum slóðum. Niðurstaðan varð þessi ofan við Hraunsleyni. Hún er hlaðin úr hraungrýti. Tveir inngangar hennar er að mestu heilir og sá þriðji heillegur. Staðsetning hennar er nálægt refaslóð, með hraunkantinum.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinninn að vetrarlagi.

Eldri refagildrur eru einnig sunnan við Hraunsleyni, en mun minni. Nokkur hætta er á að gildrunni verði raskað þegar kemur að framkvæmdum við Suðurstrandarveginn því hún fellur vel inn í hraunmyndina.

Þá var haldið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal og hann skoðaður. Steinninn er við gömlu þjóðleiðina áleiðis yfir að Méltunnuklifi á bak við Slögu. Vísa hefur verið ort um steininn og til er þjóðsaga um hann. Sú sögn hvílir og á steininum að í honum þrjóti sjaldan vatn.
Haldið var inn eftir dalnum og áfram inn Nátthaga og gengið á skarðið. Var þá komið inn í slétta sendna dalbreiðu vestan Stóra-Hrúts.

Gengið var að brúnum Merardala og þaðan til vesturs ofan í Geldingadal. Dalurinn var skoðaður fram og aftur sem og meint dys Ísólfs gamla frá Skála.

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Gengið var upp úr dalnum að sunnanverðu og komið niður í Selskálina norðan Borgarfells. Á leiðinni yfir fellið blasti við stórkostlegt útsýni yfir allt vestanvert Reykjanesið.

Gengið var að Einbúa og skoðuð hlaðin forn hestarétt sunnan hans sem og lítið hlaðið skjól. Gömul leið liggur þarna þvert á og hefur verið talsvert kastað upp úr götunni. Líklega er þarna um að ræða hluta af Sandakravegi þeim, er jafnan er merktur inn á gömul landakort. Stefnir gatan á norðurhlíð Borgarfjalls. Skammt sunnar fannst haglega hlaðið refabyrgi og skammt sunnar þess fallegur stekkur.

Borgarhraun

Borgarhraun – stekkur.

Hraunkanturinn þarna er vel gróinn. Ekki er ólíklegt, ef vel væri leitað, að finna mætti seltóft í eða við einhvern hraunbollan, en afstaðan þarna er svipuð og í öðrum selsstöðum á svæðinu, enda líklegt að þessa svæði hafi verið nýtt til þeirra hluta.

Viðeyjarborg

Viðeyjarborg – fjárborg við Ísólfsskála.

Selskálin bendir til selstöðu, en í dag er ekki vitað hvar Ísólfsskáli hafði í seli fyrrum. Engin ummerki eru eftir selstöðu í sjálfri skálinni og ekki við Einbúa. Hins vegar bendir stekkurinn til selstöðu þarna á skjólsælum stað. Mikið af brönugrasi vex á börmum bollanna og talsvert gras er með köntunum, en óvíða annars staðar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Gengið var með hraunkantinum niður að Ísólfsskálaréttinni gömlu (Borgarhraunsréttinni) og áfram fram hjá hjá fjárborg (Borgarhraunsborg) áður en göngunni lauk. Sagnir eru um að Viðeyjarklaustur hafi haldið fé í borginni, en það hafði ítök í fjölmörgum jörðum, einkum á norðanverðum Reykjanesskaganum. Um það er fjallað annars staðar á vefsíðunni. Eitthvert samhengi gæti verið með borginni og stekknum norðan við hraunkantinn. Ef svo hefur verið aukast enn líkur á að finna megi tóft eða tóftir á svæðinu.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hraun

Hraun – uppdráttur ÓSÁ.