Drykkjarsteinn

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar er m.a. fjalla um brýni. Í umfölluninni er getið um tvö örnefni, sem ekki lengur eru þekkt sem slík; Móháls og Drykkjarháls.

Mohals-21

Svo virðist sem þarna sé annars vegar átt við skarð þar sem gamla þjóðleiðin liggur um Mókletta norðan við Siglubergsháls milli Festarfjalls og Fiskidalsfjalls og hins vegar hálsinn vestan Drykkjarsteinsdals norðvestan Slögu. Örnefnið Móklettar er enn til norðaustan í fyrrnefnda hálsinum og Drykkjarsteinn er norðaustast í nefndum Drykkjarsteinsdal.
Í Ferðabókinni segir: “Móháls, stuttur fjallvegur á Suðurnesjum, er að mestu leyti úr grófgerðu þursabergi og eitlabergi. Frumefnið í því er dökkmórauður sandsteinn, sem hraunmolar og brimsorfnir smásteinar hafa blandast saman við.
Í Drykkjarhálsi, sem liggur nokkru fjær Grindavík er Móháls, er mikið móberg. Eru þar bæði fíngerð og Drykkjarsteinn-21gróf afbrigði þess. En af þeim er brýnissteinn (lapis cotarius particulis aequalibus mollissimis) bezta tegundin. Hann er mjög fíngerður og sléttur slípisteinn, brúngulleitur á lit. Háls þessi er merkilegur vegna nafnsins, en það er dregið af keri, sem höggvið er í sandsteinsklett uppi á fjallinu rétt við veginn vegfarendum til afnota. Kletturinn kallast Drykkjarsteinn, því að þar stóð fyrrum drykkur til reiðu þeim, sem um veginn fóru. Héraðið í kring er þurrt og vatnslaust, og því var þar maður, sem safna skyldi regnvatni eða sækja vatn lengra að, þegar þurrkar gengu, og hafa kerið ætíð fullt af súrblöndu, og sótti hann sýruna til byggða. Ef til vill var honum goldið fyrir þetta.”
Eggert Ólafsson (1726-1768) fór í rannsóknarferðir um Ísland með Bjarna Pálssyni, síðar landlækni, á árunum 1752-1757. Í þessari ferð könnuðu þeir náttúru landsins en einnig almennt ástand þess og gerðu tillögur til úrbóta.

Brynisteinn-21

Á veturna sat hann í Viðey hjá Skúla Magnússyni landfógeta – líkt og Árni Magnússon hafði hálfri öld áður setið í Skálholti milli ferða sinna um landið. Eggert samdi síðan ferðabók þeirra félaga á dönsku og kom hún út árið 1772.
Í Samvinnunni 1944 segir m.a. um Ferðabókina: “
Ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna er víðtækasta og gagnmerkasta heimildarrit um Ísland og íslendinga á 18. öld, sem skráð hefur verið. Ber fátt gleggra vitni um armóð Íslendinga en sú furðulega staðreynd, að Ferðabókin skuli aldrei hafa verið gefin út á máli Söguþjóðarinnar fyrr en nú, þótt senn séu 200 ár liðin siðan ritið var fært í letur. Nú hefur verið úr þessu boett. Ferðabókin kom út um síðustu áramót í þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, og hefur hann yfirleitt leyst verkið prýðisvel af hendi. Margir hefðu kosið snið og frágang bókarinnar nokkru vandaðra en raun ber vitni, en hvað sem því liður, er hitt víst, að bókinni var svo vel tekið, að upplagið seldist allt á skömmum tíma.”
Hafa ber í huga að staðar- og atvikslýsingar í Ferðabókinni eru ekki alltaf mjög nákvæmar, a.m.k. hvað Reykjanesskagann varðar. Til dæmis er getið um hverafugla, sem verpa harðsoðnum eggjum, hveri sem lita ullina ýmist svarta eða hvíta o.s.frv.
Í örnefnalýsingum fyrir Ísólfsskála segir eftirfarandi um Drykkjarstein og nágrenni: “
Norðanvert við Slöguna er Drykkjasteinn. Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun.
Hans er einnig getið í þjóðsögum. Norðan í, vestur af Skyggni, er svonefndur Litli-Leirdalur. En lægðin, sem Drykkjarsteinn er í, heitir Drykkjarsteinsdalur.” Og Brynisteinn-22
Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drekkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpum skálum en litlum um sig og þar stóð oftast vatn í sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.”
Þegar FERLIR skoðaði framangreinda staði virtist örnefnið Móháls augljóst þar sem gamla þjóðleiðin lá um hann ofarlega í Móklettum. Gatan er þar grópuð í móbergið þar sem hún liggur um unnið skarð. Skammt neðar eru mörkuð landamerki Ísólfsskála og Hrauns (V1890). Móklettar svara vel til lýsingar Eggerts á dökkbrúnu þursabergi og eitlabergi.
Þar sem gamla þjóðleiðin lá yfir Borgarhraun og upp á hálsinn vestan Drykkjarsteinsdals má sjá nefnt brúngulleitt slípiberg, kjörið til nota sem brýni. Bergið, sem virðist hluti af fornum berggangi, er langsneiðklofið svo auðvelt hefur verið að velja réttar þykktir á brýnin, allt eftir þörfum hverju sinni.

Heimild:
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, 1772, bls. 196
-Samvinnan 1944, bls. 119
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Ísólfsskála. Heimildarmaður er Guðmundur Guðmundsson frá Skála.
-Örnefnalýsing Lofts Jónssonar fyrrir Ísólfsskála

Frykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.