Grindavík

Jökull Jakobsson gengur með Tómasi Þorvaldssyni forstjóra um Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Þetta er fjórði þáttur, frá 11. mars 1973.

“Handan við stíginn og hér rétt við endann á þessum forna grjótgarði, sem við minntumst á áðan, rísa fleiri hús. Ekki veit ég hvort þarna hafi búið hagyrðingar eða skáld, Tómas”.
Jú, það vill svo til að í a.m.k. einu þeirra hefur búið hagyrðingur. Ég kem að því á eftir. Húsið hér næst stendur sjó heitir Akur. Þegar ég man fyrst eftir mér bjó hér Jón Sveinsson og Margrét. Þau að ég held hafi byggt þetta hús. Þau bjuggu hér með tveimur sonum sínum. Þau byggðu síðan annað hús hér ofar í byggðalaginu. Ung hjón keyptu síðan húsið af þeim. Þau hétu Kristján Þorvaldsson og Krístin Guðmundsdóttir. Þau byrjuðu sinn búskap þarna. Hann var duglegur formaður og þau voru dugleg að bjarga sér. Svo skeði sá atburður að þau dóu bæði á sóttarsæng í sömu viku frá þremur ungum börnum. Þeim var komið fyrir hjá skyldmennum hér í byggðarlaginu, sem komu þeim í foreldrastað. Þetta er nú sagan um þetta hús.
HamraborgSíðan er þetta hús selt og þá Vilmundi Stefánssyni og Maren Jónsdóttur frá Sjólyst. Þau búa þar enn, eru orðin fullorðið fólk. Ég kom þarna inn síðast í morgun og drakk kaffi með Vilmundi, en Margrét er á spítala sem stendur. Vilmundur var eini maðurinn sem bjargaðist af skipinu af rúmsjó er ég gat um í upphafi þessa þáttar að það var hann sem var sá eini sem lifði um borð í marrandi flakinu af Óskabirninum sem Guðmundur heitinn Erlingsson var með og ég minntist á fyrr.”
“Hér eru fleiri hús?”
“Þessi tvö hús vinstra megin við okkur heita Steinar, hér nær. Það var í allt öðru formi þegar ég man fyrst eftir mér, timburhús. Þá bjuggu hér tvenn hjón. Yngri hjónin voru Guðmundur Tómasson og Steinunn Guðmundsdóttir, en Guðmundur var hagyrðingur. Þau eru einu hjónin sem ennþá lifa bæði frá þeim tíma sem við erum að rekja söguna. Í öðrum dæmum eru annað hvort annað farið eða bæði. Þau eru að byggja sér nýtt hús ofar í byggðinni. Þau eiga hér tvo syni og dætur. Annar er Tómas og gerir við öll þessi flóknu tæki sem eru í fiskiskipaflotanum.
BorgargarðurSeinasta húsið sem við komum að er Garðar. Þar stóð lítið hús upp úr 1920, baðstofubygging. Þar bjuggu þá Ívar Magnússon og Guðný. Guðný var frá Stöðvarfirði en Ívar var hér fæddur og uppalinn. Hjá þeim var eldri maður sem Hákon hét og ég man að mér fannst það afar einkennilegt að hann gæti heitið Hákon því hann var með allra lægstu mönnum, en hann var knár og það sannaðist á honum að maður gat verið knár þótt hann væri smár. Þeirra börn búa hér og koma við sögu atvinnulífsins. Síðan var húsið rifið niður og breytt í það form sem það er í dag. Síðan hefur búið í því færeyingur sem heitir Niels og hann hefur ekki verið eftirbátur Grindvíkinga að leggja sitt í þjóðarbúið.”
Bræðraborg“Þá höfum við gengið hér um gamla hverfið í Grindavík og lýst því sem fyrir augu bar. Nú stöndum við upp á hól nálægt sjávarströndinni og við blasa ný hverfi. Kanntu deili á þeim?”
“Í þessum hús býr yfirleitt ungt fólk og mikið af aðkomufólki. Þessi stóra breiða er afrakstur og árangur þrautseigju þess fólks sem við höfum verið að segja frá í þáttunum.”
“Hvernig var bæjarbragurinn þegar þú varst að alast upp? Getur þú lýst honum?”
“Ég skal reyna það. Við höfum nú í seinustu þáttum gengið um hlaðið hjá fólki sem bjó hér í Járngerðarstaðahverfi á þriðja áratug þessara aldar. Þetta voru svo um það bil 30 hús sem voru þá í byggð. Í þessum húsum voru þrjár kynslóðir, þ.e. afinn og amman, unga fólkið í blóma lífsins á sínum manndómsárum og síðan börnin. Þetta fólk bjó í sambýli. Lífsreynsla þeirra eldri fluttist til þeirra yngri svona mann fram af manni og það var meginuppistaðan í kennslu og lífsskóla þessa fólks að öðlast handleiðslu þessa gamla fólks sem er löngu horfið undir græna torfu og velflest af því fólki, þ.e.a.s. unga fólkið, er líka horfið af sjónarsviðinu. Guðmundur og Steinunn á Steinum eru einu hjónin sem eftir eru.
Eftir sitjum Hliðvið fólkið á mínum aldri og við eigum þessu fólki mikið að þakka því Grindavík hefur bæði verið gjöful og tekið mikið. Járngerðar-staðavíkin hefur verið erfið lending og hér hefur þurft að þreyja þorrann og góuna hvernig sem viðraði og hvernig sem gekk að ná afla úr sjó. Á mörgum þessum heimilum hagaði þannig til að bæði var landbúnaður og sjávarútvegur jöfnum höndum. Daglegt líf fólksins, sem bæði dró björg úr sjó og erjaði landið, og hafði þannig sitt viðurværi, segja má að saga fólksins sé svipuð á þessum bæjum, en þar sem ekki var landbúnaður var aðeins frábrugðið, en það sem viðvék sjó var mjög svipuð saga allra.
Ég ætla að draga svolitla mynd frá Jángerðarstöðum þar sem ég fæddist og ólst upp og foreldrar mínir, afi og amma, langafi og langamma. Það myndi vera nokkur spegilmynd af daglegu lífi fólksins. Byrjum á árinu. Þegar jólagleðin var um garð gengin og alvara lífsins tók við á ný tók hélt áfram undirbúningur að vetrarvertíð. Það var hugað að skipum, farmi, árum, seglum, belgjum, lóðum og netum og öllu sem að sjónum laut og sjósók, allt var að laga og lagfæra og nytja allt sem nothæft var því engu mátti kasta.

Grindavík

Lífið snerist mikið um þetta samfara því sem sinna þurfti búnfénaði og þá var a.m.k. sá búfénaður sem var látinn út á daginn, þ.e. sauðféð – það var margt sauðfé þá. Það var rekið í fjöruna og síðar var það rekið upp til heiða þegar hækkaði í sjó og staðið yfir því þar þegar hægt vað beita því þar vegna snjóa og klaka. Síðan var það tekið í hús þegar fór að rökkva. Kveikt var á olíulömpum og unnið að hnýtningu og gerð alls kyns veiðifæra. Vertíðin er talin byrja á kyndilmessu, þ.e. 2. febrúar. Hver varð að vera kominn við sinn keip á kyndilmessu. Menn, venjulega sömu mennirnir, úr sveitum á Suðurlandsundirlendi komu til að róa héðan og svo náin tengsl og vinskapur skapaðist milli heimila að sá vinskapur stendur enn það í dag.
BáturSvo eftir að vertíð hófst snerist daglega lífið mest um sjósókn og að komast á sjó þegar fært var en víkin er brimasöm og dögum saman var ekki hægt að komast á sjó. En þessir menn voru duglegir og sóttu sjóinn fast og þeir fóru þegar fært var. Sjórinn tók til sín og sagnir eru um það margir hafa farist hér á Járngerðarstaðarsundi. Kvenfólkið sinnti aftur fénaði og öllum verkum er laut að landi, en þegar landlegur voru langar hjálpuðu piltanir til við þessi störf.
Afla var skipt í fjöru á þessum tíma og hver gerði að sínum hlut, átti lítinn kofa og saltaði þar sinn afla. Aflinn var síðan lagður inn að vorinu til ýmissa aðila sem keyptu fullverkaðan eða fullstaðinn saltfisk. Síðan breyttist þetta fyrir 1930 og þá var farið að vinna saman að þessu og fletja og salta allan afla bátsins saman og síðan skipt úr flöttum og söltuðum fiski í vertíðarlok. Vertíðarlok voru 11. mai og aldrei kvikað frá því. Þá var kátt á hjalla líkt og réttardagurinn upp til sveita.
BátrSíðan tók við alvara lifsins enn á ný. Þá urðum við að fara að snúa okkur að sinna verkum á túnum, bera á, laga girðingar og allt er laut að því að rækta jörðina og búa hana undir sumarið. Síðan að taka fiskinn og vaska hann og ganga frá honum til útflutnings eða út á fiskreitina til að byrja með og þessir hlutir stóðu fram til jónsmessu en um jónsmessu var venjulega búið að ljúka þessum þætti.
Þá kom sumarið og þá byrjaði sláttur fljótlega og breiða fisk þegar þerrir var. Byrjað var venjulega á því á morgnana að breiða fiskinn og síðan hraðað sér heim til að “breyja” þegar tekið var sem kallað var. þ.e. þegar döggin var þornuð á túnunum. Allir höfðu nóg að gera. Þegar kvöldaði var fiskurinn tekinn saman og síðan heyið. Allir höfðu nóg að gera. Þetta var langur vinnudagur, frá kl. 6 á morgnana til kl. 10 á kvöldin. Allt átti sér þó ljósa daga innan um. Til dæmis var geysilega mikil tilhlökkun hjá okkur til útiskemmtunar sem haldin var hér árlega hjá Kvenfélaginu í Svartsengi. Okkur fannst ákaflega notarlegt að geta verið búnir að ljúka sem mestu af þessum störfum þegar skemmtunin fór fram því þá nutum við hennar betur.
GrindavíkÁ fjórða áratugum fór fólk út á land í kaupavinnu. Þegar fór að hausta voru stopulir haustróðrar en gátu gefið nokkuð í aðra hönd. Þá hófst líka undirbúningur undir vetrarvertíðina. Við stóðum alla daga við að riða eða gera við notuð net. Þetta var höfuðvinna okkar sérstaklega á kvöldin. Við vorum látin læra þetta og allir tóku þátt í þessu þegar ekki var verið að sinna búpeningi.
Um haustið var öllu fé smalað heim, þá var sláturtíð, í seinni hluta septembermánaðar og mörg af þessum heimilum hafði nóg til matar yfir veturinn af því fé sem það átti. Ekki var mikið um atvinnu nema undirbúa veturinn. Þrautseigja þessa fólks var með fádæmum og ég myndi segja að þessar þrjár kynslóðir sem ég hef nefnt hafa fyrst og fremst valdið hér aldarhvörfum með því að hopa ekki af hólminum.
HópiðVið vorum að mörgu leyti verulega á eftir hér í Grindavík. Við vorum með áraskip lengur en víðast annars staðar og við höfðum trillubáta mun lengur en í öðrum verstöðum enda var hér algert hafnleysi. Verulegur fólksflótti varð og byggð lagðist niður í Staðarhverfi.
Fólki fækkaði um heilan tug. Það sem breytir kannski fyrst og fremst hlutunum var þegar ráðist var í að að grafa inn í Hópið með haka og skóflu í gegnum eyðið sem aðskilur það frá Járngerðarstaðavíkinni. Grindvíkurbændur höfðu þó áður grafið inn lænu í gegnum rifið til að komast inn á Hópið og liggja þar inni.

Járngerðarstaðir

Ósinn heitir Barnaós. Ósinn heitir eftir því að maður sem hafði farið með börn sín til þangskurðar hafi flætt þarna út á og maðurinn bjargaðist en börnin drukknuðu í ósnum. Þegar grafið var inn í ósinn 1939 breytti það öllu. Á stríðsárunum lagðist þó útgerð niður en eftir stríðið óx þetta hröðum skrefum. Samstarfsmaður minn um langt árabil, Sigurður Þorleifsson frá Neðri-Grund, var hér hafnarstjóri og á sinn þátt í hvernig Grindavíkurhöfn er í dag. Árni Magnússon í Tungu var með mér í stjórn björgunarsveitarinnar og unnum við lengi saman á þeim vettvangi.
Ég myndi vilja endurtaka það að þessu fólki eigum við mikið upp að unna og við vonum það að unga kynslóðin sem tekur við sem þetta fólk hefur komið hér á fót, byggt upp, fyrst af vanefnum en mikilli framsýni og dugnaði og þrautseigju, haldi áfram á sömu braut, enda get ég ekki séð annað en að svo sé.
EJárngerðarstaðirins og búið er að koma fram höfum við fraum um garð hjá öllu þessu fólki, nefnt nöfn þess, sagt frá dugnaði, áhuga og kjarki þess og líka dregið fram ýmsar spaugilegar hliðar lífsins. Einmitt þessir menn lyftu öðrum yfir hversdagsleikann og umkomuleysið sem gjarnan settist að fólki sem bjó svona afskekkt – með ekkert rafmagn, engin lífsþægindi og þessa hörðu lífsbaráttu.
Milli 1920 og 1930, sem þetta kemur nú mest við, fór það ekki framhjá þjóðinni að hér í Grindavík bjó dugmikið fólks. Ég minnist eins atviks. Þegar Fylle var hér og átti að sinna strandgæslunni var sagt að þeir lægju oft í landi, einkum í Reykjavík. Einhverju sinni skoruðu þeir á Íslendinga í kappróður. Þá var vandi í efnum. Einhverjir mundu þá eftir dugmiklum mönnum hér suður með sjó sem voru aldir upp með árahlunninn í hendinni. Leitað var á náðir Grindvíkinga í þessum efnum og það var úr að nokkrir fóru til að keppa við Fylledáta. Þeir sem fóru í þennan fræga kappóður var Eiríkur Tómasson frá Járngerðarstöðum, formaður og móðurbróðir minn, Jón Sigurðsson, líka formaður, bjó á Sólheimum með konu sinni Guðríði sem var hér lengi ljósmóðir, Kristinn Jónsson frá Hraunkoti í Þórkötlustaðahverfi, bjó lengst af á Brekku í Þórkötlustaðahverfi, giftur Guðríði, og Sigurgeir Guðjónsson frá Hliði og Benóný Benediktsson frá Þórkötlustöðum, en þeir feðgar, sem voru þrír voru allir þrjár álnir að stærð. Þessir ungu menn fóru til Reykjavíkur og kepptu við Fylledáta. Þeir fengu grásleppukænu til að keppa á móti rennilegu fleyi Fylledáta. En þeir báru þó sigur úr bítum á sinni grásleppukænu.”
“Þakka þér fyrir Tómas. Eftir þessa göngu er þetta litla þorp ekki eins umkomulaust og áður, með Þorbjörn hið efra og brimgarðinn í neðra”.


Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Tómasi Þorvaldssyni forstjóra um Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Frá 11.mars 1973. www.ruv.is – rás I – Gatan mín…

Grindavík

Grindavík.