Húshólmi

Fyrir u.þ.b. fimm árum tók Minjastofnun Íslands að sér að útbúa og setja upp minjaskilti í og við Húshólma f.h. Grindavíkurbæjar – á kostnað bæjarins. Húshólmi geymir einar merkustu mannvistarleifar Grindavíkur – sem og Íslands alls.

Húshólmi

Húshólmi – fremra skiltið liggur enn niðri, eftir fimm ára aðkomu.

Sett voru upp fjögur skilti við aðkomuna að Húshólma sunnan Suðurstrandarvegar. Eitt þeirra lýsir minjasvæðinu, tvö segja frá jarðfræði svæðisins og það fjórða frá fuglalífinu.
Við uppganginn að Húshólmastíg við jaðar Ögmundarhrauns að austanverðu var sett upp eitt skilti.
Vestast í Húshólma átti að setja upp tvö skilti. Annað skiltið, er getur minjanna inni í hrauninnu skammt vestar, var sett upp. Hitt, er segir frá görðunum, sem rannsakaðir voru fyrrum og gáfu til kynna að þeir væru eldri en norræna landnámið, sem jafnan hefur verið miðað við varðandi upphaf byggðar hér á landi, fór aldrei upp, heldur var stjakað á staura og komið fyrir í holum við hraunkantinn þar sem gengið að að hinum fornu skálum, er hraunið hlífði ~1151. Þarna hefur skiltið legið óhreyft, jarðlægt, í 5 ár.
Fulltrúar Grindavíkurbæjar virðast ekki hafa hinn minnsta áhuga á að koma síðastnefnda skiltinu sómasamlega fyrir á þessu merkasta minjasvæði bæjarfélagins og Minjastofnun hefur lítið gert til að fullkomna verkið það, er stofnunin tók að sér fyrir fimm árum.

Húshólmi

Húshólmi – jarðlæga skiltið.

Þess má einnig geta, að fjórir steinsteypustöplar, sem burðast var með inn í hólmann í hjólbörum fyrir fimm árum, og áttu að bera leiðbeiningaskilti til handa aðkomandi göngufólki að minjasvæðinu, standa enn einir og yfirgefnir á þeim tveimur stöðum, er þeim var komið fyrir á – hingað til án nokkurs tilgangs.
Segja má, með fullri virðingu fyrir starfsfólki Minjastofnunar og Grindavíkurbæjar, að framkvæmdin, eins og hún stendur núna, fimm árum eftir að hún hófst, er báðum aðilum til lítils sóma.

Fjallandi um skiltin þá tók framangreind stofnun að sér auk þess skiltagerð á Selatöngum. Burtséð frá óvaranleika skiltanna þar, sem hafa nú þegar nánast fokið út í veður og vind, má geta þess að upplýsingarnar á báðum skiltunum er verulega ábótavant.  T.d. eru augljósar vitleysur á báðum stöðunum, sem eru til verulegra vansa áhugasömum þegar á hólminn er komið.

Í FERLIRsferð um miðjan ágúst 2022 var framangreint enn óbreytt.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.