Gerðavellir

Björn Þorsteinsson skrifaði um Grindavíkustríðið 1532 í Faxa árið 1981. Skrifin voru framhald af skrifum hans um Básendaorustuna sama ár:

Björn Þorsteinsson„Það er nauðsynlegt að hefta frelsi manna til þess að merkja sér fisk, áður en hann er keyptur, því að allar deilur milli kaupmanna eru venjulega sprottnar af þeim ósið. Jafnskjótt og kaupmenn koma til hafnar, þjóta þeir út um allar trissur og merkja sér hvern fisk, sem þeir finna. Þá ber það oft við, að þeir merkja sér annarra manna fiska, sem eru seldir fyrir löngu, en kaupendunum gafst aldrei tími til að merkja sér. Því næst verður það, þegar fyrri kaupendur koma og heimta fisk sinn, að hann er seldur öðrum og griðarlegar deilur hefjast. Af þessum sökum er það gott og rétt, að menn spyrjist fyrir um réttan eiganda eða umboðsmann þeirra fiskbirgða, sem þeir ætla sér að kaupa, áður en þeir ganga frá samningum, og merki sér ekki fiskinn fyrr en kaupin hafa verið gerð“.
Þessi klausa er úr „Reglugerð til þess að varðveita frið milli allra höndlunarmanna á Íslandi” — og er frá árinu 1533. Hún veitir okkur dágott hugboð um það geysilega kapphlaup, sem þá er háð um íslenzka skreið. Jafnskjótt og kaupmenn eru orðnir landfastir, þjóta þeir um nágrenni hafnarinnar með brennimerki á lofti og setjast við fiskstaflana og helga sér skreiðina með því að brennimerkja hvern fisk. Síðar komu aðrir kaupmenn, stundum úr næstu höfn, og töldu sig eiga fiskinn samkvæmt viðskiptasamningi síðastliðins árs og tóku hann í sína vörzlu, ef þeir gátu. En brennimerkið varð ekki þvegið af skreiðinni, og því auglýsa kaupmenn í borgum Englands og Þýzkalands eftir íslenzkum fiski, sem frá sér hafi verið tekinn, merktur S eða R eða einhverjum öðrum stöfum, litlum eða stórum, og út af þessu spinnast alls konar bréfaskriftir og málaferli.
Básendar
Geysilega hörð keppni kaupmanna um íslenzka skreið gefur örugglega til kynna, að verzlunin við Ísland hafi verið mjög ábatasöm. Því miður er erfitt að henda reiður á því, hver sé raunverulegur gróði Íslandskaupmanna í sæmilegum árum, því að heimildir eru fáar um verð skipa og úthaldskostnað og innkaupsverð á fjölmörgum vörum, sem hingað eru fluttar. Það hafa með öðrum orðum ekki varðveitzt neinir viðhlítandi reikningar útgerðarfélags Íslandskaupmanna frá 15. öld og fyrra hluta þeirrar 16., en ýmsar heimildir gefa þó til kynna, að gróði þeirra hefur verið geysimikill. Frá árinu 1532 eru til skýrslur og útreikningar eiðsvarinna manna um útgerðarkostnað nokkurra enskra skipa og áætlað verðgildi þess farms, sem þau flytja venjulega frá Íslandi til Englands.

Viðskipti

Teikning af fiskviðskiptunum fyrrum.

Samkvæmt þeim skýrslum getur verðgildi eins skreiðarfarms frá Íslandi orðið um 80% af heildarverðmæti skipsins að viðbættum öllum úthaldskostnaði og verðmæti þess farms, sem skipið flutti til Íslands. Íslandsfar getur því með öðrum orðum greitt nærfellt allan úthaldskostnað og verð sitt í einni ferð. Svo feitum hesti hafa auðvitað ekki allir riðið úr Íslandssiglingu, en minnsti gróði, sem ég þekki eftir slíka ferð á fyrri hluta 16. aldar, eru 40% af verðmæti skipsins. Þegar búið var að greiða verð útfluttrar vöru, kaup skipverja og allan úthaldskostnað með verðmæti aflans, þá voru eftir peningar sem jafngiltu um 40% af verðmæti kaupfarsins. Íslandssiglingin tók venjulega 6—7 mánuði, en hinn hluta ársins eru Íslandsförin oft í leiðöngrum með ströndum Evrópu, og auðvitað hafa þau ekki tapað í þeim ferðum. Það er því ekkert undrunarefni, að kóngar og æðstu prelátar gerðu stundum út skip til Íslands. Hins vegar má ekki gleyma því, að um þessar mundir og lengi síðan voru margs konar hættur á höfunum, sjórán alltíð og skipstapar af völdum veðra. Siglingar eru því áhættusamar, en freistandi.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum.

Síðustu grein lauk á því að Ludtkin Smith, kaupmaður og útgerðarmaður frá Hamborg, hafði unnið frægan sigur á Englendingum í orrustunni að Básendum dagana 2.—3. apríl 1532. Skömmu síðar að því er virðist rita þýzkir kaupmenri í Hafnarfirði til Hamborgar og biðja borgarráðið að senda sér liðsauka, því að þeir ætli í stríð við Englendinga, sem sitji í Grindavík og haldi skreið fyrir þeim.

Grindavík

Grindavík – horforingjaráðskort 1910.

Mönnum kann að virðast, að það hafi verið seint að bíða þess liðsafla, eins og samgöngum var háttað, en slíkt er á misskilningi byggt. Skipaferðir voru alltíðar milli Íslands og Hamborgar vor og sumar og siglingaleiðin ekki lengri en svo, að liðsaukinn gat verið kominn til Íslands tæpum tveimur mánuðum eftir að bréfið var skrifað. En hjálparsveitirnar hafa aldrei komið, því að atburðarásin var hraðari en menn hafa e.t.v. ætlað, og hjá styrjöld varð ekki komizt.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Í bréfinu, sem Þjóðverjar skrifa, segir m.a. að Englendingar í Grindavík hafi að ástæðulausu tekið fisk, „sem við höfum keypt og borgað, en bjóða að greiða hann með vörum á landsvísu eða í Englandi á einn nóbíl hundraðið”. Þjóðverjar segjast ætla að ná fiskinum, hvað sem það kosti. Í skýrslu Hamborgara um Grindavíkurstríðið frá sumrinu 1532 segir, að John nokkur Breye, kaupmaður í Grindavík, hafi tekið „réttlaust og með ofbeldi“ 35 lestir af fiski frá Þjóðverjum þá um sumarið, en 12 hundruð fiska frá Danakonungi.

Virki

Virkið ofan við Stórubót.

Þann 18. júlí 1532 útnefnir Erlendur lögmaður Þorvarðarson tylftardóm í Reykjavík til þess að dæma um atburðina í Grindavík, en þar segir, að Yón Beren hafi gripið 20 lestir eða meira af fiski frá þýzkum kaupmönnum. Hins vegar segir í enskri skýrslu um málið, að misklíðarefnið hafi verið fjögur hundruð fiskar, sem John Breye sagðist hafa tekið upp í skuld frá fyrra ári, en Hamborgarar og Brimarar gerðu kröfu til. — öllum heimildum ber því betur saman um orsök styrjaldarinnar en algengt er, þegar stríð hefjast.

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Um 1532 höfðu Englendingar alllengi haft eina af helztu bækistöðvum sínum við Ísland suður í Grindavík. Þar munu þeir oft hafa haft vetursetumenn, og var Marteinn Einarsson, síðar biskup, þar verzlunarstjóri hjá þeim um tveggja ára skeið. Systir hans, Guðlaug, giftist enskum kaupmanni, og fylgdi Marteinn systur sinni utan, þá barn að aldri. Hann var 9 ár í Englandi og hlaut þar skólamenntun, en um tvítugt kom hann út, sennilega á vegum mágs síns, og settist að í Grindavík. Það mun hafa verið laust eftir 1520. Þegar hér var komið, var einkum fyrir enskum kaupmönnum þar suður frá fyrrnefndur John Breye frá Lundúnum. Í íslenzkum heimildum kallast hann Ríki-Bragi, Jóhann Breiði eða Eldri Bragur. Jón Gissurarson segir í ritgerð um siðaskiptin, að fyrir Englendingum í Grindavík hafi verið Jónar tveir, kallaðir Eldri-Bragur og Yngri-Bragur. Þetta kemur heim við samtímaheimildir, því að þar getur um nafnana John Bryee, og er annar á skipinu Peter Gibszon frá Lundúnum, en hinn á Thomasi frá Húll, sem var sökkt í orrustunni við Básenda. Eftir þá orrustu hafa þeir, sem af komust, flúið til Grindavíkur.
Þangað kemur Jóhann Breiði á skipinu Peter Gibszon annað hvort snemma í apríl eða um miðjan maí. Skipið er talið um hundrað lestir að stærð. Jóhann setur upp markað og gerir út til þess að veiða þorsk og löngu, eins og segir í heimildum, en fær þegar fregnir af óförum landa sinna við Básenda. Honum þykir ekki friðvænlegt og lætur reisa virki við búðirnar hjá Járngerðarstöðum. Þar var saman komið harðsnúið lið, sem vildi gjarnan hefna harma sinna á Þjóðverjum, og lét reiði sína í þeirra garð bitna að nokkru á Íslendingum.
Jóhann lét þegar þau boð út ganga til Íslendinga í vikinni, að þeim sé stranglega bannað að flytja nokkurn fisk burt úr verzlunarstaðnum eða selja Þjóðverjum og hótaði afarkostum. Þá hefur hann gripið skreið, sem Þjóðverjar töldu sér á einhvern hátt. Einnig hefur hann sennilega viljað skammta Íslendingum verzlunarskilmála að öðru leyti, því að í dómi Erlendar lögmanns eru nafngreindir þrír Íslendingar í Grindavík, sem Jóhann á að hafa rænt, bundið og pínt, og einum þeirra hótaði hann lífláti, ef hann verzlaði við aðra en sína menn. Jón. Gissurarson segir, að Englendingar hafi verið „ómildir við íslenzka, svo að fólk gat ekki það liðið; réð fólk engu sínu og fékk ekkert fyrir sitt“.

Grindavík

Járngerðarstaðir.

Í þýzkri heimild segir, að Jóhann Breiði hafi tekið 80 lömb og sauði frá Íslendingi, sem skeytti ekki verzlunarbanni hans og taldi, að hann hefði ekkert vald yfir sér, og beitti aðra fátæka menn svipuðu ofbeldi. Hann lét taka hest af Íslendingi og barði manninn til ólífis, þegar hann krafðist að fá hann aftur. Einnig gerðist hann djarftækur til kvenna og tók konu nokkra með valdi um borð í skip sitt, en geymdi mann hennar þar hjá sér í hlekkjum á höndum og fótum, svo að hann gerði sér ekki ónæði, á meðan hann hélt konuna.
Um þessar mundir var Diðrik af Bramstað höfuðsmaður á Íslandi, en hann dvaldist erlendis og hafði hér fyrir sig nafna sinn, Diðrik fógeta af Mynden, sem frægur er í íslenzkri sögu fyrir afskipti sín af siðaskiptunum.

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Diðriki þessum bar að halda uppi lögum og reglu í landinu, en Jóhann Breiði gerði honum margt til miska. Prestur nokkur varð sekur um margs konar illvirki, en flýði á náðir Jóhanns, svo að fógeti fékk ekki fangastað á honum. Einnig hafði Jóhann Breiði í heitingum við fógeta og hótaði að hengja hann hvar sem hann næði honum, og fór smánarorðum um Danakonung. Jón Gissurarson segir, að Íslendingar hafi að lokum ekki þolað lögleysur Jóhanns Breiða og manna hans. „Tóku íslenzkir sig þá saman og riðu til Bessastaða, kröfðu höfuðsmanninn, Diðrik fógeta af Mynden, liðveizlu móti slíkum illmennum. Varð hann vel við og sendi strax í alla kaupstaði, því íslenzkir hefðu ella látið illa að honum sjálfum, ef hann hefði ekki við orðið; skipaði hann þýzkum að finna sig við Þórðarfell, sem er hjá Grindavík“. Þessi frásögn er margstaðfest af skjölum að því leyti, að Diðrik af Mynden gengst fyrir herútboði til þess að hindra yfirgang Englendinga, sem höfðu vígbúizt í Grindavík. Fógeti sneri sér fyrst til þýzkra kaupmanna í Hafnarfirði og hét á þá að duga sér í herferð til Grindavíkur. Hann hvatti þá með því að brýna nauðsyn bæri til þess að tryggja hér frið og frelsi til verzlunar og lét lesa mikið kæruskjal á hendur Englendingum fyrir allt það, sem þeir hefðu unnið gegn Danakonungi á Íslandi. Af þeim sökum kvað hann nauðsynlegt, að þeim yrði straffað, og lofaði hverjum manni mála í nafni konungs, ef hann veitti sér lið gegn óaldarseggjunum.

Gerðavellir

Gerðavellir í Grindavík, virki Jóhanns Breiða – kort ÓSÁ.

Hafnarfjarðarkaupmenn tóku vel málaleitan fógeta, ef hann fengi nægan liðsafla, því að Jóhann Breiði væri mannmargur. Diðrik skrifaði þá í aðra verzlunarstaði um Suðurnes, m.a. Ludtkin Smith á Básendum. Hann bað Ludkin í nafni Danakonungs að koma eins og aðra skipara og kaupmenn frá Hamborg og Brimum og hjálpa sér gegn fjandsamlegum Englendingum, sem vinni gegn konungi landsins. Ludtkin segir fógeta, að því miður eigi hann illa heimangengt frá Básendum, því að enn hafi Englendingar á tveimur skipum valið sér þar legu; færi hann í herferð, mundu þeir hertaka skip hans og búðir á meðan. Það varð því úr, að Ludtkin varð eftir á Básendum og gætti skipa með nokkru liði, en félagi hans, Hinrik Berndes, fór með 34 manna sveit til Grindavíkur til fundar við fógeta.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Eftir orustuna að Básendum var saminn friður milli enska skipstjórans Roberts Legge og Ludtkin Smiths. Samkvæmt íslenzkum lögum mátti ekki víkja kaupskipi úr höfn, ef það rauf ekki hafnargrið, og virðist Ludtkin hafa sætt sig við að hlíta þeim ákvæðum um sinn. Íslenzk verzlunar- og fiskveiðilöggjöf hafði lengi verið þverbrotin, sérstaklega af Englendingum, en nú sáu Hamborgarar, að þeir gátu eflt hag sinn á Íslandi með því að styrkja íslenzku landstjórnina. Ludtkin leyfir því Robert Legge hafnarvist, en nokkru síðar kom skipið Mary James frá Lynn í Englandi og lagðist á Básendahöfn. Þar hélzt sæmilegur friður um skeið, en Þjóðverjar voru heimaríkir og hindruðu alla útgerð Englendinga á staðnum.

Grindavík

Grindavíkurleiðir fyrrum.

Þegar herförin til Grindavíkur var ráðin, taldi Ludtkin sig ekki lengur bundinn af ákvæðunum um hafnargrið og réðst á skipið Mary James, laskaði það með skothríð, réðst um borð, drap skipstjórann og særði nokkra menn. Hann rænti úr skipinu öllum vopnum og skotfærum, en að því búnu taldi hann sig öruggan á höfninni og sendi Hinrik Berndes með liðið til Grindavíkur.
Jón Gissurarson segir, að liðið hafi komið saman að kvöldi dags við Þórðarfell í tilsettan tíma, og hafi það verið 80 manns annars hundraðs. Flestum þýzkum og enskum heimildum ber hins vegar saman um það, að í liðinu hafi verið 280 menn eða 8 skipshafnir frá Hamborg og Brimum að viðbættri sveit Diðriks fógeta. Ein allörugg þýzk heimild segir þó, að einungis 180 manns hafi verið í hersveitinni, sem réðst á Grindavík, og er það líkast til rétt.

Prestastígur

Prestastígur – frá Höfnum til Grindavíkur.

Þórðarfell er inni í hrauninu um 7 km. norður af Grindavík, og þangað komu liðsveitirnar á hestum úr Hafnarfirði, Njarðvíkum og Básendum. Diðrik talaði fyrir liðinu, rakti ofbeldisverk Englendinga og fann þeim einkum til saka, að þeir hefðu gerzt uppreistarmenn gegn Danakonungi og löglegri stjórn landsins með því að reisa sér virki og vígbúast í víkinni og neita að greiða skylda tolla og skatta. Hann lýsti að lokum alla Englendinga í Grindavík ófriðhelga og réttdræpa, en friðhelgi yfir öllum, sem að þeim færu.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli – söguslóðir Grindavíkurstríðsins 1532.

Aðfaranótt Barnabasmessu eða þess 11. júní hélt herinn síðan niður í víkina. Hann var alvæddur handbyssum, lásbogum, spjótum og sverðum, búinn léttum brynjum og stálhúfum. Þær njósnir höfðu verið látnar berast til Grindavíkur, að fógeti biði liðsstyrks frá Hamborg og treysti sér ekki til árásar að svo komnu. Íslendingar úr víkinni gátu því borið hernum þau tíðindi, að Englendingar uggðu ekki að sér, margir þeirra væru á sjó við fiskveiðar, en Jóhann Breiði hefði setið veizlu mikla um kvöldið og svæfi í búð sinni innan virkisins ásamt valfangara hertogans af Suffolk í Englandi og 13 öðrum Englendingum; varðhöld væru lítil, svo að nú bæri vel í veiði.

Skyggnisrétt

Gerðavellir – Skyggnisrétt.

Liðinu var skipt í sveitir, og var Hafnfirðingum og Njarðvíkingum boðið að slá hring um virki Jóhanns Breiða og ráðast þar til uppgöngu, en Básendamönnum falið að gæta hafnarinnar og hindra, að skip, sem væru á legunni, kæmust undan. Árásarherinn hélt skipulega og hljótt niður í Grindavík þessa vorbjörtu nótt. Það var útsynningshraglandi og úfinn sjór. Það reyndist rétt, að Englendingum hafði engin njósn borizt af herútboði fógeta, og sannar það okkur, að Íslendingar hafa verið mjög fjandsamlegir Englendingum á þessum slóðum. Klukkan tvö um nóttina var gert áhlaup á virki Jóhanns Breiða. Hafnarfjarðarliðið komst mótspyrnulaust upp á virkisveggina og réðst þá með öskrum og óhljóðum á tjaldbúðirnar. Jóhann Breiði og menn hans vöknuðu við illan draum og þurftu ekki griða að biðja. Fæstir þeirra náðu að tygjast, en allir voru þeir drepnir miskunnarlaust og sumir á níðingslegan hátt. Eftir skamma hríð lágu 15 Englendingar í blóði sínu í virkinu og meðal þeirra sundurhöggvinn líkami Jóhanns Breiða.

Gerðavellir

Leifar virkis Jóhanns Breiða við Gerðisvelli í Grindavík.

Nú varð uppi fótur og fit í Grindavík. Á legunni voru 5 ensk skip, og léttu þau þegar akkerum, er þau urðu ófriðar vör. Skipið Peter Gibszon lá við landfestar, og þangað brunaði nokkur hluti árásarliðsins, komst um borð og náði tafarlaust stjórn þess í sínar hendur. Utarlega í hverfinu voru búðir kaupmanna frá Lynn. Þangað hélt nokkur hluti Hafnarfjarðarliðsins, þegar virkið var unnið, og drap þar menn og rænti. Fjórum enskum skipum tókst að leggja frá landi, þótt átt væri suðlæg og allmikill sjór. Eitt þeirra strandaði í útsiglingu og fórst þar með allri áhöfn.
Eftir skamma stund var Grindavík algjörlega á valdi Diðriks fógeta og Þjóðverja. Sigurinn var ekki dýrkeyptur, því að hvergi var þeim veitt skipulagt viðnám. Þegar mannvígum var lokið, bauð Diðrik að flytja allt herfang um borð í skipið Peter Gibszon og hreinsa valinn. Átta Englendingar höfðu verið teknir til fanga, og voru þeir látnir dysja falina landa sína undir virkisveggnum, en inni í tjaldbúðum Jóhanns Breiða sló Diðrik og aðrir fyrirmenn upp veizlu, létu þeyta lúðra og berja bumbur og drukku siguröl. Herinn hélt kyrru fyrir í Grindavík um daginn, en næsta morgun, sem var miðvikudagur, var nokkur hluti liðsins sendur burt, en hinn varð eftir undir stjórn Diðriks og beið byrjar, en Diðrik ætlaði að sigla skipinu Peter Gibszon til Bessastaða með fangana og herfangið.

Miðaldarskip

Enskt miðaldarskip.

Um þessar mundir var Erlendur lögmaður Þorvarðarson hinn sterki á Strönd í Selvogi einn af aðsópsmestu valdamönnum á Íslandi. Þess er ekki getið, að hann hafi verið í herferðinni til Grindavíkur. Hins vegar setur hann tylftardóm í Reykjavík þann 18. júní um sumarið eða réttri viku eftir herferðina, og sitja í dóminum helztu höfðingjar og sýslumenn Sunnlendinga.
Það mun engin hending, að þeir eru þar saman komnir, því að enn þá var nokkur tími til alþingis. Sennilega hafa flestir þeirra verið í sveit fógeta í herferðinni. Dómurinn fjallaði um atburðina í Grindavík, og eru niðurstöður hans þær, að Jóhann Breiði og allir hans fylgjarar dæmast eftir lögbókarinnar hljóðan ránsmenn og réttilega af lífi teknir, en skip þeirra og góss fallið undir konung og umboðsmenn hans, Diðrik af Mynden. Allar réttmætar skuldir skyldu þó greiðast af góssinu, ef þeirra væri krafizt löglega fyrir 10. ágúst. Síðar var þessi dómur staðfestur af biskupum og lögréttu um sumarið, en þau gögn eru öll glötuð.

Miðaldarskip

Skip á 13. til 18. aldar.

Herinn, sem skilinn hafði verið eftir í Grindavík, sat þar í 10 daga eða til 21. júní; þá fyrst gaf byr, svo að hægt var að sigla fyrir Reykjanes. Meðan hann sat í víkinni, dreif þangað Englendinga, sem legið höfðu úti við fiskveiðar. Þeim þótti að vonum heldur köld aðkoma, er öllu hafði verið rænt og ruplað, eitt skip þeirra hertekið og fyrirliðar drepnir. Sjálfir voru þeir hraktir og svívirtir, og þóttust sælir að sleppa við meiðingar.
Grindavíkurstríðinu lýkur í raun og veru þann 21. júní, er Þjóðverjar láta úr höfn á Peter Gibszon, en þó var eftir að semja frið. Í styrjöldinni höfðu fjórar þjóðir átzt við og stjórnir þeirra létu sig atburðina miklu skipta.
Stríðið hófst að vísu á mjög óformlegan hátt, og Erlendur lögmaður Þorvarðarson og íslenzkir dómsmenn úrskurðuðu, að hér hefði einungis verið um að ræða eins konar lögregluaðgerðir gegn lögbrjótum, en stólkonungar og ríkisráð úti í heimi voru á öðru máli. Hér var hafin styrjöld, og þeirri styrjöld varð að ljúka með friðargerð.”

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1981, Grindavíkurstríðið 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 42-43 og 45.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.