Færslur

Hallgrímshella

SG tók eftirfarandi saman um “Hallgrímshelluna”, byggt á heimildum og umfjöllun um helluna. Þar kemur m.a. fram að HPS-steinninn, sem nú er í geymslu Þjms. þarf ekki endilega að vera Hallgrímshella sú, sem um er getið í heimildum. Nafnið gæti einnig átt við um bungulaga klapparhæð, en nafnið síðan hafa færst yfir á nálægan ártalsssteininn – eða öfugt. Aðrar heimildir kveða á um að ártalssteinninn hafi verið í vörðu á Hallgrímshellu (Prestaklöpp). Spurningin er því; hvort kom á undan, eggið eða hænan.

Þórshöfn

Áletrun, HP, á klöpp við Þórshöfn.

“Í Árbók hins Ísl. Fornleifafélags árið 1903 er grein e. Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi og þar segir: „Milli Básenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamerki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangmarkið er HP; en ártalið er 1728.“

(Jón Dan á Stafnesi segir 2005: “Hallgrímshellan” var í vörðubroti á Prestsklöpp.” Flest það sem Brynjúlfur safnaði á Reykjanesi fékk hann frá heimafólki. Allflest skoðaði hann sjálfur með eigin augum og skráði. Mest af því sem hann skráði virðist hafa verið rétt staðsett sem og rétt skráð. Brynjúlfur vandaði sig mjög, en hann skráði m.a. þjóðsögur fyrir Jón Árnason, auk þess sem hann skráði til birtingar sögur, sem hann heyrði er hann dvaldi t.d. á vertíð hjá bóndanum í Klöpp í Grindavík (Guðmundi Jónssyni) fyrir aldamótin 1900. Hvernig hann fékk ártalið 17 hundruð er ekki gott að segja. Það gæti bent til þess að hann hafi ekki séð steininn sjálfur).

Ósar

Varða við Ósa.

Eftirfarandi er í endurriti frá Örnefnastofnun Íslands. Ritað eftir segulbandsupptöku, sem Guðleifur Sigurjónsson tók upp á heimili Guðm. Guðm. bónda (eldri) á Bala 24. nóv. 1986, en Guðmundur var fæddur 30. okt.árið 1902 og varð ca 95 ára gamall: „Annars var slóði hér suður með sjónum, og það er hérna á leiðinni, skammt fyrir utan Þórshöfn, hérna nær. Það er svona klapparbunga, sem er kölluð Hallgrímshella, og þar liggur vegaslóði, sem að hefur verið farinn einhverntíma, en hann er kominn undir sjó. Sjórinn gengur bara orðið yfir hann núna, en það sést fyrir því. Þegar farið er niður af þessari klapparbungu, þá sést slóði, og þar er vörðubrot og það er auðséð, að þessi vegur sem var nú farinn hérna seinna sem ég man eftir, að hann liggur mikið ofar í hrauninu heldur en þetta er. Og við þetta vörðubrot sem þarna er, þegar farið er niður af þessari klapparbungu. Þar var steinn og á honum stóð H.P.S. 1628, En það er búið að taka þennan stein, en hvert hann er kominn, það get ég ekki vitað. Ég hef verið að halda spurnum fyrir um hann, en einskis orðið vís, meira að segja ekki hjá þjóðminjaverði. Hvort setuliðið hefur tekið hann?. Hann er búinn að vera þarna síðan þetta var sett á hann.“

Hallgrímshella

Hallgrímshellan.

(Í skráningu Þjóðminjasafnsins um “Hallgrímshelluna” segir m.a. “Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.” Gripurinn hefur númerið 1974-120 í safninu.)

(Ljóst er að margir vegslóðar lágu jafnan næst ströndinni, en sjórinn braut þá jafnan undir sig. Nýir slóðar voru því gerðir ofan strandar jafnóðum. Klapparbungan “Hallgrímshella” hefur verið fyrir ofan gamlan vegslóða, en ofan hennar hefur annar myndast. Það passar við aðstæður nú því Guðmundur á Bala fór með FERLIRsfélögum að klapparbungu neðan núverandi “Gamlavegar” þegar hann var að leita að áletrunarsteininum. Þá sást enn móta fyrir hluta að gamalli götu neðan “hellunnar”. Letursteinninn átti þá að vera á bungunni (væntanlega í vörðu). Það hafa því verið óljós nafnaskil milli bungunnar og vörðunnar (letursteinsins). Þess vegna gæti bungan alveg eins hafa dregið nafn sitt af letursteininum í vörðunni. Letursteinninn gæti einnig hafa verið í vörðu við gamla leið nær sjónum, en verið bjargað og færð ofar, yfir á holtið þar sem hún var 1974. Þá var hún ekki í neinni vörðu).

Ósar

Varða við gömlu Kaupstaðagötuna.

Næst kemur í sama viðtali við Guðmund:
„Ég var að halda að þetta gæti verið eftir Hallgrím Pétursson, því að hann átti nú leið þarna um þegar hann þjónaði Höfnunum, því að þessi Hallgrímshella hefur sennilega verið einhverskonar áningarstaður á leiðinni. Nú hann mynnist á hana hann Jón heitinn Thorarensen í bókinni Útnesjamenn. Ég veit nú ekkert meira um þetta, en ártalið passar víst ekki, því að hann hefði þá ekki átt að verna nema 14 ára. Hann var fæddur 1614. En ártalið var greinilegt á steininum 16Z8, fyrst kom 16, þá Z í staðinn fyrir 2, og svo 8. Þá erum við komnir suður í Þórshöfn, þar er ósköpin öll af allra handa nöfnum á klöppunum fyrir ofan Þórshöfn, alveg skelfing.“

Svo kemur aðeins meira um Hallgrímshelluna: „. . . Skarfurð byrjar þarna fyrir utan þessa klapparbungu sem ég sagði þér um Hallgrímshelluna, en Hallgrímshella er rétt fyrir sunnan og ofan, fyrir endann á Skarfurð þar sem hún endar, því þetta er langur kampur, Skarfurðin, hún nær alla leið undir Djúpuvík . . . “

(Þessi athugasemd um tölustafinn 2 á letursteininum á vel rétt á sér því hann líkist meira bókstafnum Z. Jón Thorarsensen gæti ruglað fólk í rýminu með skáldsögugerð sinni, en skáldsögu má aldrei taka til jafns við “skráðar heimildir” sbr. meðfylgjandi).

Hallgrímshella

Hallgrímshellan.

Í bókinni Útnesjamenn (skáldsögu) segir:„ Milli Grímvarar [Bárðarvarar, innsk.SG] og Útsala [Hvalsness, innsk. SG] er lág og hrjóstrug heiði, það er Tangaheiðin (Miðnesheiðin, innsk.SG). Hún er bungumynduð og ber hæst um miðbikið. Þar er á staðnum kúpt blágrýtishella, Hallgrímshellan. Við suðurenda hennar var djúpur, grasi gróinn bolli fyrrum, sem nú er löngu eyddur og uppblásinn.“ „ þegar þeir eru komnir að Hallgrímshellunni, heyrði sýslumaður til mannaferða nokkuð suður á heiðinni; …. “ Það var nokkuð áliðið dags, er hann lagði aftur af stað frá Útsölum. Hann fór aftur upp Tangaheiðina og stefndi til Hallgrímshellunnar. Þegar hann nálgaðist heiðarbunguna, blasti við honum mikið víðsýni. . .
Þegar Þorkell nálgaðist Hallgrímshelluna reikaði hugur hans til liðna tímans. Þar við helluna höfðu þau Ásdís bundizt heitum, og sameinuð sigruðu þau alla erfiðleika.“

(Ekki er víst að Jón Thorarensen hafi verið meðvitaður um letursteinininn og vörðuna. Einnig gæti varðan þá hafa verið fallin og letursteinninn legið einn og yfirgefinn eftir um skeið, án þess að nokkur gæfi honum gaum, umkomulaus (skáldsagnalegt)…).

Í Fornleifaskrá Miðnesheiðar eftir Ragnheiði Traustadóttur árið 2000 segir á bls. 24-25: „S-181039-40-6…
Tegund og hlutverk: Fangamark…
Heiti: „Hallgrímshella“…
Lega: 21:42:29.75—- 63:57:12.76
..Staðhættir og lýsing: Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „ Milli Básenda ….. og Þórshafnar …. “ Sjá tilvitnun hér ofar í skrif séra Brynjúlfs.
Svo segir Ragnheiður Traustadóttir: „Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þufi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.
Hættumat: Hætta vegna veðrunar.“

Ósar

Ósar.

(Skráningin er í heild tekin með fyrirvara.
Uppgefnir GPS-punktar passa ekki – eiga sennilega að vera: 63571276 – 22422975, þ.e. 1 breytist í 2 í 21422975 (J.G. og V.G) því þá passar staðsetningin við HP-áletrunina ofan við Þórshöfn. Hitt hnitið er í Heiðinni há. Þá hafa rústir Gamla-Kirkjuvogs færst austar, eða í Djúpavog, en þar eru einnig tóftir o.fl.)

Hér koma mínar niðurstöður (S.G.), við fyrstu sýn:
a) Brynjólfur frá M-Núpi virðist fyrstur setja á prent villu varðandi letursteininn í vörðubrotinu með því að sleppa ESS-inu í skrifum sínum og hann nefnir ekki Hallgrímshelluna einu orði! Brynjólfur virðist hafa fengið fræið um Hallgríms Péturssonarletursteininn frá heimamönnum. Engin vafi er á því í mínum huga eftir lestur þessara heimilda að Hallgrímshellan er nokkur klöpp en ekki letursteinn. Nafn hennar þarf alls ekki að tengjast HPSletursteininum sem á henni var í eða við vörðubrot og við elstu þjóðleiðina (3 þjóðleiðir misgamlar eru þarna hver ofan annarrar). Enda segir Guðmundur greinilega að vörðubrotið og letursteinninn sé NEÐAN (nær sjó) Hallgrímshellunnar.

Ósar

Utan við Ósa.

(Reyndar nefndir Brynjúlfur bæði stein og vörðu, áletrun og ártal. Hann hefur varla komist hjá því því steinninn mun hafa verið þarna frá því um fyrri hlutar 17. aldar og því vel kunnur heimafólki. Brynjúlfur sleppir hins vegar ESS-inu, en hann hefur varla talið ástæðu til að gefa hellunni nafn, enda hefur hún (í vörðu) varla haft sérstakt nafn á þessum tíma (aldamótin 1900). Hann setur það sem hann telur réttast á prent, væntanlegast til að varðveitast.
Elsta þjóðleiðin er ekki til þegar Brynjúlfur er þarna, ekki heldur sú næstelsta. Sjórinn er búinn að margtaka til sín gamlar þjóðleiðir, enda má með réttu fullyrða að hann taki þarna til sín u.þ.b. 50 metra af landi á einni mannsævi (skv. upplýsingum heimamanna). Einungis frá því að elstu núlifandi menn voru ungir á þessu svæði hefur ströndin gjörbreyst, sbr. viðtöl við þá).

b) Séra Jón Thorarensen styður þetta með klöppina Hallgrímshellu margsinnis í bók sinni en nefnir ekki letursteininn.

(Séra Jón styður í rauninni ekki neitt með skáldsögu sinni því skáldsaga er eitt og nákvæm heimildarskráning annað. “Heimild” skáldsögunnar segir því í rauninni ekki neitt um sögulegar staðreyndir. Hún lýsir einungis frásagnalist og efnisumfjöllun höfundar, stundum þó með vísan til ónákvæmra staðhátta).
Ágætt dæmi um sambærilega tilfærslu á heitum er Hunangshellan. Þjóðsagan segir hana slétta grágrýtisklöpp fyrir Ósabotnum, en saga, sem um hana fjallar og landamerkjalýsing nefna vörðuna á hellunni “Hunangshellu”. Um er að ræða markavörðu, en mörk Sandgerðis (nú) og Hafna (nú) liggja einmitt um Hunangshelluna. Á henni (klöppinni) er einmitt fallin varða. Milli Hunangshellu og Hallgrímshellu eru Litla- og Stóra-Selhella, sléttir tangar við Djúpavog.

Þórshöfn

Þórshöfn.

c) Árið 1986 styður Guðm. á Bala þetta um að letursteinninn á Hallgrímshellunni, þ.e. að hann tengist séra Hallgrími og ósköp skiljanlegt því Brynjúlfur setur þetta á prent árið 1903 í virtu tímariti. Guðmundur heldur því alls ekki fram að Hallgrímshellan sé letursteinn!

(Brynjúlfur setur þetta fram með bestu vitund. Guðmundur á Bala hefur væntanlega orðið efins því búið var að fjarlægja letursteininn 12 árum fyrir viðtalið (1974)).

d) Ragnheiður Traustadóttir „finnur “ og staðsetur Hallgrímshelluna með fangamarkinu HP og nefnir að: „Ritaðar heimildir geti ekki um heitið ”Hallgrímshella”.

(Ragnheiður er einungis að vitna í Brynjúlf – aðrar heimildir virðist hún ekki hafa. Hún veit ekki að leita beri frekari heimilda í gagnasafni (viðtalasafni) Örnefnastofnunar, enda byggir hún einungis á skráðum heimildum og hafði bæði lítinn tíma til verksins og lítið fjármagn (að eigin sögn). Heimildir virðast mjög af skornum skammti á þessu svæði, sbr. framangreint, sem og reyndar heimildir um annað gamalt á Suðurnesjum. Hér á Ragnheiður sennilega við “Hallgrímshelluna við Þórshöfn, en hnitið hennar (lagfært) gefur vísbendingu um staðsetningu áletrunarinnar til kynna).

Hallgrímshella

Hallgrímshellan.

(Í rauninni segir ekkert um það að “Hallgrímshellan” og letursteinninn séu ekki eitt og hið sama. Sumar ritaðar heimildir styðja sagnir um “letursteinn í vörðu”, á klapparholti (Prestaklöpp), aðrar að “Hallgrímshellan” hafi verið klapparbunga. Hvort kom á undan; hænan eða eggið? Það er spurningin?

Þess má geta að Jón Ben á Stafnesi sagði nýlega, sem fyrr sagði, í eftirfarandi viðtali um “Hallgrímshelluna”: “Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var í vörðu á Prestaklöpp þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónustað Hafnafólkið.”

Heimildir m.a.:
-Árbók hins Ísl. Fornleifafélags árið 1903 er grein e. Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi.
-Endurrit frá Örnefnastofnun Íslands, ritað eftir segulbandsupptöku, sem Guðleifur Sigurjónsson tók upp á heimili Guðm. Guðm. bónda (eldri) á Bala 24. nóv. 1986, en Guðmundur var fæddur 30. okt.á rið 1902.
-Fornleifaskrá Miðnesheiðar e. Ragnheiði Traustadóttur árið 2000 .
-Viðtal við Jón Ben á Stafnesi 2005.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu.

Þórshöfn
Farið var í Þórshöfn með Jóni Borgarssyni í Höfnum. Ætlunin var að finna og skoða festarhringina. Jón hafði séð hringina fyrir allmörgum árum ásamt Þóroddi Vilhjálmssyni frá Merkinesi og fleirum.
ÞórshöfnÁður en lagt var í’ann þurfti að sækja um leyfi til gegnumaksturs um Vallarverndarsvæðið. Með góðum skilningi og aðstoð góðra manna fengu nokkrir FERILRsfélagar heimild til að aka inn á Völlinn, í gegnum hann, út af honum að handan og inn á svonefnt DEY-5 svæði. Þar voru fyrrum stórir radarskermar sjóhers Bandaríkjanna sem og önnur hlustunarmannvirki. Nú hafa þau verið fjarlægð.
Við 100 milljóna króna aðallhliðið utan við varnarsvæðið fengust dvalarpassar fyrir þátttakendur eftir allnokkra, skemmtilega, en flókna rekistefnu. Ameríkanarnir vildu tala sitt tungumál, en innlendir, sem stóðu þarna á íslenskri grundu utan við sprengiheldan varðturninn, héldu sig við íslenskuna af grundvallarástæðum og það þrátt fyrir að sumir þeirra hafi bæði dvalið og numið ýmislegt af þarlendum í Ameríku um allnokkurt skeið. “Í Róm gera menn sem Rómverjar”, segir forn málsháttur – og FERLIR er þekktur fyrir að halda sig við fornar meðvitaðar venjur. Á sama hátt má lögjafna að á Íslandi geri menn sem Íslendingar. Á Íslandi tala menn íslensku og þar ráða Íslendingar ríkjum, þrátt fyrir og með fullri virðingu fyrir öllum gestkomandi. Frakkar tala t.d. ekki ensku í Frakklandi við Englendinga eða Ameríkana. Þeir tala frönsku þegar þeir eru í Frakklandi. Annars staðar tala þeir þarlend tungumál – af kurteisisástæðum. Mikilvægt er að Íslendingar og aðrir séu vel meðvitaðir hverjum landið tilheyrir (to whom the land belongs to). Sjálfstæði þjóðar byggir m.a. á meðvitundinni. Ef hún er ekki til staðar má gleyma öllu öðru.
Að frágenginni pappírsvinnunni undir byssubröndum og öllum mikilvægum formsatriðum var ferðinni haldið áfram. Jón Borgarson sat í framsætinu.
ÞórshöfnLæst hliðið að Þórshafnarsvæðinu varð hins vegar ekki auðopnað. Leitað var að lykli meðal varnarliðsins. Skotið var á samráðsfundi. Lykillinn fannst loks eftir nokkur símtöl og nokkrar komur og að mestu vinsamlegar athugasemdir varðliða meðan beðið var. Fyrst kom kurteis dökkur maður í hermannabúningi á hvítri Mitsubishi-jeppabifreið og sagðist eiga von á manni með lykilinn. Hann hafði úrið á hægri hendi. Þá komu gulur maður ásamt öðrum hvítum, á miklum hraða meðfram girðingunni í Mitsubishi-jeppabifreið, staðnæmdist og hrópaði að viðstöddum: “What in focking are you doing here”. Með kunnri yfirvegun FERLIsmanna tókst auðveldlega að útskýra viðveruna. Hermennirnir héldu för sinni áfram. Loks komu tveir vopnaðir ameríkanar, annar hvítur og hinn litaður, í hermannabúningum á staðinn. Sá litaði hafði úrið á hægri handlegg. Að loknum aðfinnslum og samningagerðum tóku þeir upp lykil, ýttu frá hindrunum og opnuðu lásinn á hliðinu. Við verkið notaði annar hermannanna framdregna lögreglukylfu.
Ferðalangarnir héldu að lokinni þessari skemmtulegu töf för sinni áfram áleiðis niður að Þórshöfn. Í umræðum á leiðinni var vakin athygli á því að sennilega væri þetta eitt stærsta og flóknasta viðfengsefni varnarliðsins í langan tíma – að hleypa nokkrum Íslendingum í gegnum varnarsvæðið (eigið land) og í gegnum hlið, sem enginn virtist vita um. Ekki er ólíklegt að skrifað verði um atburðinn í næstu útgáfu af “White Falcon”. Ef þessir, einna mestu Íslandsvinir er um getur, hefðu hugsanklega verið hryðjuverkamenn gegndi öðru máli. En þá hefðu þeir aldrei látið sér detta í hug að sækja um leyfi til gegnumaksturs um varnarsvæðið. Þeir hinir sömu hefðu einfaldlega ekið inn á það frá Hafnavegi eða með girðingunni frá Stafnesi. Þaðan væri leiðin greið inn á varnarsvæðið hvert sem þeir kysu.
ÞórshöfnÞegar komið var niður að Þórshöfn (þakka ber sérstaklega fyrir gegnumaksturinn því hann sparaði hlutaðeigendum þrátt fyrir allt umtalsverðan tíma) fannst Jóni Borgarssyni hann ekki alveg á eftirminnilegum grösum. Í innanverðri Þórshöfn stóð fyrrum stór ferhyrndur tréstöpull, grafinn djúpt niður í sandinn. Þar var fremsta festi hinna fornu verslunarskipa fyrirkomið. Nú hafði varnarliðið fjarlægt staurinn, enda var þarna um tíma einn ábyggilegasti hlustunarkafbátakapall NATOhersins. Enn má sjá stálhólka honum tengdum, en búið er að rífa allar byggingar og mannvirki ofan við Þórshöfn er þeirri sögu tengdist.
Gengið var bæði um sunnanverða og norðanverða Þórshöfn í leit að þeim festarhringjum er fyrrum staðfestu hin gömlu verslunarskip enskra og þýskra í höfninni.
Jón sagði að minni sitt frá því á áttunda áratugnum segði til um festarhringi á klöppum beggja vegna hafnarinnar. Í hans minni hafi hringirnir verið í festarhringjum á klöppum beggja vegna víkunnar. Margir hefu séð þá þarna sama sinni.

Þórshöfn

Áletranir á Köpp við Þórshöfn.

Höfnin í Þórshöfn er við austanverða Ósa þar niðurundan er fyrrum var athafnasvæði sjóhersins. Skammt norðar voru hinir eftirminnilegu radarskermar og það ekki af minni gerðinni. M.a. er þar áletrunin HP á sléttri jarðfastri klöpp undir klapparholti. Sumir vilja halda því fram að sammstöfunin eigi við Hallgrim Pétursson, prest í Hvalsnesi er einnig þjónaði Höfnum um tíma (eftir 1644). Skammstöfunin er á miðri jarðfastri klöpp utan í jökulsorfnu klapparholti. Umhverfis áletrunina eru síðan aðrar skammstafanir og jafnvel ártöl. Ofan við hlöppina eru áletrnir og útflúr. Til hliðar eru nýrri áletranir, m.a. frá 20. öld.
Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga.
ÞórshöfnMeð einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs. Sendu verslanir í Keflavík oft skip sín þangað með salt, timbur og aðra þungavöru en tóku í staðinn fisk af bændum á Miðnsesi og í Höfnum. Í byrjun 20. aldar fór skipakomum að fækka til Þórshafnar, enda tók Sandgerði þá við hlutverki verslunarstaðar á Miðnesi.
Ofan við Þórshöfn er varða og á hana fest upplýsingaspjald um Ósasvæðið. Þar segir m.a. af áletrununum og hugsanlegum fornminjum á svæðinu er komið gætu í ljós ef það væri kannað nánar,
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.
Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því seglbúnaður þess og reiði var horfinn að mestu leyti.
Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður.
ÞórshöfnÍ Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir. Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.
Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins og gerir því skóna að þetta hafi hugsanlega verið silfur. Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,,Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Isle hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.”
ÞórshöfnLágsjávað var þegar gengið var um hálar þaraklappirnar beggja vegna Þórshafnar, en án árangurs að þessu sinni. Bráðlega verður farið aftur sömu leið að Þórshöfn, enda ærin ástæða að staðsetja fyrrnefna festarhringi í þessari merkilegu verslunarhöfn forðum daga.
Litið var á álertunina á klöppununum ofan Þórshafnar. Á skilti í nýlegri vörðu ofan við Þórshafnarsvæðið er m.a. áletrað að “steinar með áletrunum er m.a. steinn með áletruninni HP. Engar fornminjar tengdum honum hafa fuundist, en mögulegt er að frekari fornleifarannsóknir myndu með öllum líkindum leiða ýmislegt í ljós á þessum slóðum”.
Ekki er ólíklegt að Jón Borgarson og félagar muni nú í framhaldi af þessu samræma minningar sýnar um festarhringina í Þórshöfn og að næsta ferð muni þá skila einhverjum árangri umfram það sem verið hefur.
Í bakaleiðinni var komið við í Gálgum. Roðagyllt kvölsskíman myndaði fagurfræðilegan bakgrunn fyrir dökka klettaborgina. Ljóst er að efst á henni virðist trjóna gróinn hóll, hugsanlega ókönnuð dys eða fornmannahaugur, enda staðurinn tilvalinn sem grafstæði. Utan í hólinn hefur verið lagt seinni tíma drasl. Eitt er þó deginum auglósara; þetta svæði þarf að gaumgæfa enn betur en gert hefur verið.
Frábært veður. Gangan um Þórshöfn tók 1 klst og 1 mín.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Gerðavellir

Björn Þorsteinsson skrifaði um Grindavíkustríðið 1532 í Faxa árið 1981. Skrifin voru framhald af skrifum hans um Básendaorustuna sama ár:

Björn Þorsteinsson„Það er nauðsynlegt að hefta frelsi manna til þess að merkja sér fisk, áður en hann er keyptur, því að allar deilur milli kaupmanna eru venjulega sprottnar af þeim ósið. Jafnskjótt og kaupmenn koma til hafnar, þjóta þeir út um allar trissur og merkja sér hvern fisk, sem þeir finna. Þá ber það oft við, að þeir merkja sér annarra manna fiska, sem eru seldir fyrir löngu, en kaupendunum gafst aldrei tími til að merkja sér. Því næst verður það, þegar fyrri kaupendur koma og heimta fisk sinn, að hann er seldur öðrum og griðarlegar deilur hefjast. Af þessum sökum er það gott og rétt, að menn spyrjist fyrir um réttan eiganda eða umboðsmann þeirra fiskbirgða, sem þeir ætla sér að kaupa, áður en þeir ganga frá samningum, og merki sér ekki fiskinn fyrr en kaupin hafa verið gerð“.
Þessi klausa er úr „Reglugerð til þess að varðveita frið milli allra höndlunarmanna á Íslandi” — og er frá árinu 1533. Hún veitir okkur dágott hugboð um það geysilega kapphlaup, sem þá er háð um íslenzka skreið. Jafnskjótt og kaupmenn eru orðnir landfastir, þjóta þeir um nágrenni hafnarinnar með brennimerki á lofti og setjast við fiskstaflana og helga sér skreiðina með því að brennimerkja hvern fisk. Síðar komu aðrir kaupmenn, stundum úr næstu höfn, og töldu sig eiga fiskinn samkvæmt viðskiptasamningi síðastliðins árs og tóku hann í sína vörzlu, ef þeir gátu. En brennimerkið varð ekki þvegið af skreiðinni, og því auglýsa kaupmenn í borgum Englands og Þýzkalands eftir íslenzkum fiski, sem frá sér hafi verið tekinn, merktur S eða R eða einhverjum öðrum stöfum, litlum eða stórum, og út af þessu spinnast alls konar bréfaskriftir og málaferli.
Básendar
Geysilega hörð keppni kaupmanna um íslenzka skreið gefur örugglega til kynna, að verzlunin við Ísland hafi verið mjög ábatasöm. Því miður er erfitt að henda reiður á því, hver sé raunverulegur gróði Íslandskaupmanna í sæmilegum árum, því að heimildir eru fáar um verð skipa og úthaldskostnað og innkaupsverð á fjölmörgum vörum, sem hingað eru fluttar. Það hafa með öðrum orðum ekki varðveitzt neinir viðhlítandi reikningar útgerðarfélags Íslandskaupmanna frá 15. öld og fyrra hluta þeirrar 16., en ýmsar heimildir gefa þó til kynna, að gróði þeirra hefur verið geysimikill. Frá árinu 1532 eru til skýrslur og útreikningar eiðsvarinna manna um útgerðarkostnað nokkurra enskra skipa og áætlað verðgildi þess farms, sem þau flytja venjulega frá Íslandi til Englands.

Viðskipti

Teikning af fiskviðskiptunum fyrrum.

Samkvæmt þeim skýrslum getur verðgildi eins skreiðarfarms frá Íslandi orðið um 80% af heildarverðmæti skipsins að viðbættum öllum úthaldskostnaði og verðmæti þess farms, sem skipið flutti til Íslands. Íslandsfar getur því með öðrum orðum greitt nærfellt allan úthaldskostnað og verð sitt í einni ferð. Svo feitum hesti hafa auðvitað ekki allir riðið úr Íslandssiglingu, en minnsti gróði, sem ég þekki eftir slíka ferð á fyrri hluta 16. aldar, eru 40% af verðmæti skipsins. Þegar búið var að greiða verð útfluttrar vöru, kaup skipverja og allan úthaldskostnað með verðmæti aflans, þá voru eftir peningar sem jafngiltu um 40% af verðmæti kaupfarsins. Íslandssiglingin tók venjulega 6—7 mánuði, en hinn hluta ársins eru Íslandsförin oft í leiðöngrum með ströndum Evrópu, og auðvitað hafa þau ekki tapað í þeim ferðum. Það er því ekkert undrunarefni, að kóngar og æðstu prelátar gerðu stundum út skip til Íslands. Hins vegar má ekki gleyma því, að um þessar mundir og lengi síðan voru margs konar hættur á höfunum, sjórán alltíð og skipstapar af völdum veðra. Siglingar eru því áhættusamar, en freistandi.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum.

Síðustu grein lauk á því að Ludtkin Smith, kaupmaður og útgerðarmaður frá Hamborg, hafði unnið frægan sigur á Englendingum í orrustunni að Básendum dagana 2.—3. apríl 1532. Skömmu síðar að því er virðist rita þýzkir kaupmenri í Hafnarfirði til Hamborgar og biðja borgarráðið að senda sér liðsauka, því að þeir ætli í stríð við Englendinga, sem sitji í Grindavík og haldi skreið fyrir þeim.

Grindavík

Grindavík – horforingjaráðskort 1910.

Mönnum kann að virðast, að það hafi verið seint að bíða þess liðsafla, eins og samgöngum var háttað, en slíkt er á misskilningi byggt. Skipaferðir voru alltíðar milli Íslands og Hamborgar vor og sumar og siglingaleiðin ekki lengri en svo, að liðsaukinn gat verið kominn til Íslands tæpum tveimur mánuðum eftir að bréfið var skrifað. En hjálparsveitirnar hafa aldrei komið, því að atburðarásin var hraðari en menn hafa e.t.v. ætlað, og hjá styrjöld varð ekki komizt.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Í bréfinu, sem Þjóðverjar skrifa, segir m.a. að Englendingar í Grindavík hafi að ástæðulausu tekið fisk, „sem við höfum keypt og borgað, en bjóða að greiða hann með vörum á landsvísu eða í Englandi á einn nóbíl hundraðið”. Þjóðverjar segjast ætla að ná fiskinum, hvað sem það kosti. Í skýrslu Hamborgara um Grindavíkurstríðið frá sumrinu 1532 segir, að John nokkur Breye, kaupmaður í Grindavík, hafi tekið „réttlaust og með ofbeldi“ 35 lestir af fiski frá Þjóðverjum þá um sumarið, en 12 hundruð fiska frá Danakonungi.

Virki

Virkið ofan við Stórubót.

Þann 18. júlí 1532 útnefnir Erlendur lögmaður Þorvarðarson tylftardóm í Reykjavík til þess að dæma um atburðina í Grindavík, en þar segir, að Yón Beren hafi gripið 20 lestir eða meira af fiski frá þýzkum kaupmönnum. Hins vegar segir í enskri skýrslu um málið, að misklíðarefnið hafi verið fjögur hundruð fiskar, sem John Breye sagðist hafa tekið upp í skuld frá fyrra ári, en Hamborgarar og Brimarar gerðu kröfu til. — öllum heimildum ber því betur saman um orsök styrjaldarinnar en algengt er, þegar stríð hefjast.

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Um 1532 höfðu Englendingar alllengi haft eina af helztu bækistöðvum sínum við Ísland suður í Grindavík. Þar munu þeir oft hafa haft vetursetumenn, og var Marteinn Einarsson, síðar biskup, þar verzlunarstjóri hjá þeim um tveggja ára skeið. Systir hans, Guðlaug, giftist enskum kaupmanni, og fylgdi Marteinn systur sinni utan, þá barn að aldri. Hann var 9 ár í Englandi og hlaut þar skólamenntun, en um tvítugt kom hann út, sennilega á vegum mágs síns, og settist að í Grindavík. Það mun hafa verið laust eftir 1520. Þegar hér var komið, var einkum fyrir enskum kaupmönnum þar suður frá fyrrnefndur John Breye frá Lundúnum. Í íslenzkum heimildum kallast hann Ríki-Bragi, Jóhann Breiði eða Eldri Bragur. Jón Gissurarson segir í ritgerð um siðaskiptin, að fyrir Englendingum í Grindavík hafi verið Jónar tveir, kallaðir Eldri-Bragur og Yngri-Bragur. Þetta kemur heim við samtímaheimildir, því að þar getur um nafnana John Bryee, og er annar á skipinu Peter Gibszon frá Lundúnum, en hinn á Thomasi frá Húll, sem var sökkt í orrustunni við Básenda. Eftir þá orrustu hafa þeir, sem af komust, flúið til Grindavíkur.
Þangað kemur Jóhann Breiði á skipinu Peter Gibszon annað hvort snemma í apríl eða um miðjan maí. Skipið er talið um hundrað lestir að stærð. Jóhann setur upp markað og gerir út til þess að veiða þorsk og löngu, eins og segir í heimildum, en fær þegar fregnir af óförum landa sinna við Básenda. Honum þykir ekki friðvænlegt og lætur reisa virki við búðirnar hjá Járngerðarstöðum. Þar var saman komið harðsnúið lið, sem vildi gjarnan hefna harma sinna á Þjóðverjum, og lét reiði sína í þeirra garð bitna að nokkru á Íslendingum.
Jóhann lét þegar þau boð út ganga til Íslendinga í vikinni, að þeim sé stranglega bannað að flytja nokkurn fisk burt úr verzlunarstaðnum eða selja Þjóðverjum og hótaði afarkostum. Þá hefur hann gripið skreið, sem Þjóðverjar töldu sér á einhvern hátt. Einnig hefur hann sennilega viljað skammta Íslendingum verzlunarskilmála að öðru leyti, því að í dómi Erlendar lögmanns eru nafngreindir þrír Íslendingar í Grindavík, sem Jóhann á að hafa rænt, bundið og pínt, og einum þeirra hótaði hann lífláti, ef hann verzlaði við aðra en sína menn. Jón. Gissurarson segir, að Englendingar hafi verið „ómildir við íslenzka, svo að fólk gat ekki það liðið; réð fólk engu sínu og fékk ekkert fyrir sitt“.

Grindavík

Járngerðarstaðir.

Í þýzkri heimild segir, að Jóhann Breiði hafi tekið 80 lömb og sauði frá Íslendingi, sem skeytti ekki verzlunarbanni hans og taldi, að hann hefði ekkert vald yfir sér, og beitti aðra fátæka menn svipuðu ofbeldi. Hann lét taka hest af Íslendingi og barði manninn til ólífis, þegar hann krafðist að fá hann aftur. Einnig gerðist hann djarftækur til kvenna og tók konu nokkra með valdi um borð í skip sitt, en geymdi mann hennar þar hjá sér í hlekkjum á höndum og fótum, svo að hann gerði sér ekki ónæði, á meðan hann hélt konuna.
Um þessar mundir var Diðrik af Bramstað höfuðsmaður á Íslandi, en hann dvaldist erlendis og hafði hér fyrir sig nafna sinn, Diðrik fógeta af Mynden, sem frægur er í íslenzkri sögu fyrir afskipti sín af siðaskiptunum.

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Diðriki þessum bar að halda uppi lögum og reglu í landinu, en Jóhann Breiði gerði honum margt til miska. Prestur nokkur varð sekur um margs konar illvirki, en flýði á náðir Jóhanns, svo að fógeti fékk ekki fangastað á honum. Einnig hafði Jóhann Breiði í heitingum við fógeta og hótaði að hengja hann hvar sem hann næði honum, og fór smánarorðum um Danakonung. Jón Gissurarson segir, að Íslendingar hafi að lokum ekki þolað lögleysur Jóhanns Breiða og manna hans. „Tóku íslenzkir sig þá saman og riðu til Bessastaða, kröfðu höfuðsmanninn, Diðrik fógeta af Mynden, liðveizlu móti slíkum illmennum. Varð hann vel við og sendi strax í alla kaupstaði, því íslenzkir hefðu ella látið illa að honum sjálfum, ef hann hefði ekki við orðið; skipaði hann þýzkum að finna sig við Þórðarfell, sem er hjá Grindavík“. Þessi frásögn er margstaðfest af skjölum að því leyti, að Diðrik af Mynden gengst fyrir herútboði til þess að hindra yfirgang Englendinga, sem höfðu vígbúizt í Grindavík. Fógeti sneri sér fyrst til þýzkra kaupmanna í Hafnarfirði og hét á þá að duga sér í herferð til Grindavíkur. Hann hvatti þá með því að brýna nauðsyn bæri til þess að tryggja hér frið og frelsi til verzlunar og lét lesa mikið kæruskjal á hendur Englendingum fyrir allt það, sem þeir hefðu unnið gegn Danakonungi á Íslandi. Af þeim sökum kvað hann nauðsynlegt, að þeim yrði straffað, og lofaði hverjum manni mála í nafni konungs, ef hann veitti sér lið gegn óaldarseggjunum.

Gerðavellir

Gerðavellir í Grindavík, virki Jóhanns Breiða – kort ÓSÁ.

Hafnarfjarðarkaupmenn tóku vel málaleitan fógeta, ef hann fengi nægan liðsafla, því að Jóhann Breiði væri mannmargur. Diðrik skrifaði þá í aðra verzlunarstaði um Suðurnes, m.a. Ludtkin Smith á Básendum. Hann bað Ludkin í nafni Danakonungs að koma eins og aðra skipara og kaupmenn frá Hamborg og Brimum og hjálpa sér gegn fjandsamlegum Englendingum, sem vinni gegn konungi landsins. Ludtkin segir fógeta, að því miður eigi hann illa heimangengt frá Básendum, því að enn hafi Englendingar á tveimur skipum valið sér þar legu; færi hann í herferð, mundu þeir hertaka skip hans og búðir á meðan. Það varð því úr, að Ludtkin varð eftir á Básendum og gætti skipa með nokkru liði, en félagi hans, Hinrik Berndes, fór með 34 manna sveit til Grindavíkur til fundar við fógeta.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Eftir orustuna að Básendum var saminn friður milli enska skipstjórans Roberts Legge og Ludtkin Smiths. Samkvæmt íslenzkum lögum mátti ekki víkja kaupskipi úr höfn, ef það rauf ekki hafnargrið, og virðist Ludtkin hafa sætt sig við að hlíta þeim ákvæðum um sinn. Íslenzk verzlunar- og fiskveiðilöggjöf hafði lengi verið þverbrotin, sérstaklega af Englendingum, en nú sáu Hamborgarar, að þeir gátu eflt hag sinn á Íslandi með því að styrkja íslenzku landstjórnina. Ludtkin leyfir því Robert Legge hafnarvist, en nokkru síðar kom skipið Mary James frá Lynn í Englandi og lagðist á Básendahöfn. Þar hélzt sæmilegur friður um skeið, en Þjóðverjar voru heimaríkir og hindruðu alla útgerð Englendinga á staðnum.

Grindavík

Grindavíkurleiðir fyrrum.

Þegar herförin til Grindavíkur var ráðin, taldi Ludtkin sig ekki lengur bundinn af ákvæðunum um hafnargrið og réðst á skipið Mary James, laskaði það með skothríð, réðst um borð, drap skipstjórann og særði nokkra menn. Hann rænti úr skipinu öllum vopnum og skotfærum, en að því búnu taldi hann sig öruggan á höfninni og sendi Hinrik Berndes með liðið til Grindavíkur.
Jón Gissurarson segir, að liðið hafi komið saman að kvöldi dags við Þórðarfell í tilsettan tíma, og hafi það verið 80 manns annars hundraðs. Flestum þýzkum og enskum heimildum ber hins vegar saman um það, að í liðinu hafi verið 280 menn eða 8 skipshafnir frá Hamborg og Brimum að viðbættri sveit Diðriks fógeta. Ein allörugg þýzk heimild segir þó, að einungis 180 manns hafi verið í hersveitinni, sem réðst á Grindavík, og er það líkast til rétt.

Prestastígur

Prestastígur – frá Höfnum til Grindavíkur.

Þórðarfell er inni í hrauninu um 7 km. norður af Grindavík, og þangað komu liðsveitirnar á hestum úr Hafnarfirði, Njarðvíkum og Básendum. Diðrik talaði fyrir liðinu, rakti ofbeldisverk Englendinga og fann þeim einkum til saka, að þeir hefðu gerzt uppreistarmenn gegn Danakonungi og löglegri stjórn landsins með því að reisa sér virki og vígbúast í víkinni og neita að greiða skylda tolla og skatta. Hann lýsti að lokum alla Englendinga í Grindavík ófriðhelga og réttdræpa, en friðhelgi yfir öllum, sem að þeim færu.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli – söguslóðir Grindavíkurstríðsins 1532.

Aðfaranótt Barnabasmessu eða þess 11. júní hélt herinn síðan niður í víkina. Hann var alvæddur handbyssum, lásbogum, spjótum og sverðum, búinn léttum brynjum og stálhúfum. Þær njósnir höfðu verið látnar berast til Grindavíkur, að fógeti biði liðsstyrks frá Hamborg og treysti sér ekki til árásar að svo komnu. Íslendingar úr víkinni gátu því borið hernum þau tíðindi, að Englendingar uggðu ekki að sér, margir þeirra væru á sjó við fiskveiðar, en Jóhann Breiði hefði setið veizlu mikla um kvöldið og svæfi í búð sinni innan virkisins ásamt valfangara hertogans af Suffolk í Englandi og 13 öðrum Englendingum; varðhöld væru lítil, svo að nú bæri vel í veiði.

Skyggnisrétt

Gerðavellir – Skyggnisrétt.

Liðinu var skipt í sveitir, og var Hafnfirðingum og Njarðvíkingum boðið að slá hring um virki Jóhanns Breiða og ráðast þar til uppgöngu, en Básendamönnum falið að gæta hafnarinnar og hindra, að skip, sem væru á legunni, kæmust undan. Árásarherinn hélt skipulega og hljótt niður í Grindavík þessa vorbjörtu nótt. Það var útsynningshraglandi og úfinn sjór. Það reyndist rétt, að Englendingum hafði engin njósn borizt af herútboði fógeta, og sannar það okkur, að Íslendingar hafa verið mjög fjandsamlegir Englendingum á þessum slóðum. Klukkan tvö um nóttina var gert áhlaup á virki Jóhanns Breiða. Hafnarfjarðarliðið komst mótspyrnulaust upp á virkisveggina og réðst þá með öskrum og óhljóðum á tjaldbúðirnar. Jóhann Breiði og menn hans vöknuðu við illan draum og þurftu ekki griða að biðja. Fæstir þeirra náðu að tygjast, en allir voru þeir drepnir miskunnarlaust og sumir á níðingslegan hátt. Eftir skamma hríð lágu 15 Englendingar í blóði sínu í virkinu og meðal þeirra sundurhöggvinn líkami Jóhanns Breiða.

Gerðavellir

Leifar virkis Jóhanns Breiða við Gerðisvelli í Grindavík.

Nú varð uppi fótur og fit í Grindavík. Á legunni voru 5 ensk skip, og léttu þau þegar akkerum, er þau urðu ófriðar vör. Skipið Peter Gibszon lá við landfestar, og þangað brunaði nokkur hluti árásarliðsins, komst um borð og náði tafarlaust stjórn þess í sínar hendur. Utarlega í hverfinu voru búðir kaupmanna frá Lynn. Þangað hélt nokkur hluti Hafnarfjarðarliðsins, þegar virkið var unnið, og drap þar menn og rænti. Fjórum enskum skipum tókst að leggja frá landi, þótt átt væri suðlæg og allmikill sjór. Eitt þeirra strandaði í útsiglingu og fórst þar með allri áhöfn.
Eftir skamma stund var Grindavík algjörlega á valdi Diðriks fógeta og Þjóðverja. Sigurinn var ekki dýrkeyptur, því að hvergi var þeim veitt skipulagt viðnám. Þegar mannvígum var lokið, bauð Diðrik að flytja allt herfang um borð í skipið Peter Gibszon og hreinsa valinn. Átta Englendingar höfðu verið teknir til fanga, og voru þeir látnir dysja falina landa sína undir virkisveggnum, en inni í tjaldbúðum Jóhanns Breiða sló Diðrik og aðrir fyrirmenn upp veizlu, létu þeyta lúðra og berja bumbur og drukku siguröl. Herinn hélt kyrru fyrir í Grindavík um daginn, en næsta morgun, sem var miðvikudagur, var nokkur hluti liðsins sendur burt, en hinn varð eftir undir stjórn Diðriks og beið byrjar, en Diðrik ætlaði að sigla skipinu Peter Gibszon til Bessastaða með fangana og herfangið.

Miðaldarskip

Enskt miðaldarskip.

Um þessar mundir var Erlendur lögmaður Þorvarðarson hinn sterki á Strönd í Selvogi einn af aðsópsmestu valdamönnum á Íslandi. Þess er ekki getið, að hann hafi verið í herferðinni til Grindavíkur. Hins vegar setur hann tylftardóm í Reykjavík þann 18. júní um sumarið eða réttri viku eftir herferðina, og sitja í dóminum helztu höfðingjar og sýslumenn Sunnlendinga.
Það mun engin hending, að þeir eru þar saman komnir, því að enn þá var nokkur tími til alþingis. Sennilega hafa flestir þeirra verið í sveit fógeta í herferðinni. Dómurinn fjallaði um atburðina í Grindavík, og eru niðurstöður hans þær, að Jóhann Breiði og allir hans fylgjarar dæmast eftir lögbókarinnar hljóðan ránsmenn og réttilega af lífi teknir, en skip þeirra og góss fallið undir konung og umboðsmenn hans, Diðrik af Mynden. Allar réttmætar skuldir skyldu þó greiðast af góssinu, ef þeirra væri krafizt löglega fyrir 10. ágúst. Síðar var þessi dómur staðfestur af biskupum og lögréttu um sumarið, en þau gögn eru öll glötuð.

Miðaldarskip

Skip á 13. til 18. aldar.

Herinn, sem skilinn hafði verið eftir í Grindavík, sat þar í 10 daga eða til 21. júní; þá fyrst gaf byr, svo að hægt var að sigla fyrir Reykjanes. Meðan hann sat í víkinni, dreif þangað Englendinga, sem legið höfðu úti við fiskveiðar. Þeim þótti að vonum heldur köld aðkoma, er öllu hafði verið rænt og ruplað, eitt skip þeirra hertekið og fyrirliðar drepnir. Sjálfir voru þeir hraktir og svívirtir, og þóttust sælir að sleppa við meiðingar.
Grindavíkurstríðinu lýkur í raun og veru þann 21. júní, er Þjóðverjar láta úr höfn á Peter Gibszon, en þó var eftir að semja frið. Í styrjöldinni höfðu fjórar þjóðir átzt við og stjórnir þeirra létu sig atburðina miklu skipta.
Stríðið hófst að vísu á mjög óformlegan hátt, og Erlendur lögmaður Þorvarðarson og íslenzkir dómsmenn úrskurðuðu, að hér hefði einungis verið um að ræða eins konar lögregluaðgerðir gegn lögbrjótum, en stólkonungar og ríkisráð úti í heimi voru á öðru máli. Hér var hafin styrjöld, og þeirri styrjöld varð að ljúka með friðargerð.”

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1981, Grindavíkurstríðið 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 42-43 og 45.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar

Björn Þorsteinsson skrifaði um “Básendaorustuna 1532” í Faxa árið 1980. Skrifin voru fyrri hluti og aðdragandi af skrifum hans um Grindavíkurstríðið sama ár.

Björn Þorsteinsson“Þann 11. marz 1532 hélt allstórt kaupskip úr höfn í Hamborg. Þetta var rammbyggt skip og skipshöfnin, um 30 manns, alvopnuð byssum, sverðum, lásbogum og öxum. Undir þiljum voru fimm fallbyssur fólgnar, þungir hólkar með víðum hlaupum. Öll útgerð skipsins gaf til kynna, að þær stundir kæmu, þegar hauskúpumerkið væri dregið að hún og beinagrindin með rýtinginn og rommglasið á lofti hlykkjaðist á þöndu stórsegli yfir morðóðum sjóræningjum á stórum rosabullum með reifuð höfuð. En skipið hélt ekki venjulega leið sjóræningjasagna og víkinga, sigldi ekki í suður og vestur til þess að ræna gulli og gimsteinum nýfundinna landa, heldur hjó það bárur Norðursjávar og stefndi á leiðarstjörnu. En e.t.v. var gulls einnig að leita í þeirri átt, jafnvel öruggura gull, en þess, sem reyfarar greina frá. Hafið er vorúfið að þessu sinni, átt óstöðug og vindar snarpir. Áhöfn Hamborgarfarsins liggur auðsæilega allmikið á.
Vikum saman ann hún sér ekki hvíldar, en siglir og beitir ósleitilega, og skipið þokast norður og vestur yfir Atlantshaf. Vörður stendur stöðugt í körfunni á stórsiglunni og gefur nákvæma skýrslu um skipaferðir. En ekkert ber til tíðinda. Englendingar virðast liggja enn í heimahöfnum, þeir eru ekki lagðir í „sjóferðina löngu“ að þessu sinni, nema nokkrar skútur, sem eru komnar á miðin undan Færeyjum. E.t.v. ætla þær ekki lengra. Hansafarið siglir djúpt undan eyjunum, og skipstjórinn, Ludtkin Smith, kaupmaður í Hamborg fer sjálfur upp í stórsiglukörfuna og tekur mið, þegar þær hverfa í sæ.

Miðaldaskip

Skip Hansamanna á miðöldum.

Ludtkin Smith er maður um fertugt. Hann hafði nokkrum sinnum verið kaupmaður á Íslandsförum, en þetta er í fyrsta sinn, að hann er skipstjóri og foringi leiðangurs norður til eyjarinnar. Áður en hann lét úr höfn í Hamborg, hét hann ráðherra í borginni að vinna íslenzka höfn úr höndum Englendinga og drepa hvern þann, sem reyndi að hindra það áform sitt. Menn véfengdu ekki, að hann hefði fullan hug á því að standa við heitið, en hingað til höfðu Englendingar verið aðsópsmiklir á Íslandsmiðum og Þjóðverjum þungir í skauti.
Fyrir tæplega hálfri öld hafði frændi Ludtkins Smiths siglt þessa sömu leið og lent í Hafnarfirði á Íslandi kvöldið fyrir allrapostulamessu eða 1. maí. Við Straum, sunnan fjarðarins, lá skipið Vighe frá Lundúnum. Um nóttina vígbjóst skipshöfnin, létti akkerum og sigldi til Hafnarfjarðar. Í morgunsárið greiddu Englendingar aðför að Hansamönnum óviðbúnum, skutu nokkra til ólífis, en tóku skipið herskildi. Þeir ráku skipstjórann, Ludtkin Steen, og nokkra Þjóðverja með honum í skipsbátinn, en héldu 11 af áhöfninni um borð og sigldu með feng sinn til Írlands. Þar lentu þeir í Galway og seldu skipið, farm þess og fangana 11 nafngreindum Írum. Kröfum og kærum fyrir þetta Sjórán og mansal hafði ekki verið sinnt til þessa. Enn þá var veröldin lítið breytt og þrælamarkaðir á brezku eyjunum. Vopnabúnaður Hamborgarfarsins var því ekki ástæðulaus.

Miðaldaskip

Enskt miðaldaskip.

Árið 1511 höfðu Englendingar tekið Hamborgarfar við Ísland og farið með það og áhöfn þess til Húllar, en þaðan slapp skipstjórinn með miklum ævintýrum; hitt skipið tóku þeir í hafi.
Árið 1514 tóku þrjú ensk herskip Hamborgarfar í hafi á leið til Íslands, særðu skipstjórann og vörpuðu honum lifandi fyrir norð, og drápu nokkra af áhöfninni. Með skipið fóru þeir til Newcastle og héldu því í tvo mánuði. Að þeim tíma liðnum réðust Englendingar um borð í skipið, tóku stýrimann og hjuggu hann í stykki og vörpuðu þeim útbyrðis, einnig hálshjuggu þeir tvo háseta, en særðu 5 hættulega í ryskingum, sem urðu við ofbeldisverkin. Þannig voru 15 af áhöfn skipsins drepnir, þegar því var skilað að lokum með nokkrum hluta farmsins.

Rif

Rif á Snæfellsnesi.

Árið 1528 réðust 7 ensk skip á Hamborgarfar í höfninni að Rifi við Snæfellsnes, og tóku úr því öll vopn, byssur, púður og matvæli og meginhlutann af farmi þess. — Ári síðar réðst Englendingurinn Jón Willers frá Lynn á Hamborgarfar norður í Eyjafirði og sökkti því í hafið með 36 manna áhöfn.
Að lokum birtast hvítar jökulbungur yzt við sjóndeildarhring í norðri, og blásvört háfjöll teygja sig upp fyrir hafsbrún hvert af öðru. Ísland rís úr hafi í grárri vormorgunskímu, kaldranalegt en heillandi. Sjómenn töldu, að fjöll þess byggju yfir geigvænum töframætti, þau væru svo segulmögnuð, að þau soguðu skip upp að hafnlausum söndum og brytu þau í spón með því að draga að sér nagla úr byrðingum þeirra. Árlega fórust hér skip með ströndum fram, en samt sem áður hættu menn aldrei að sigla til Íslands, ef þá hafði einu sinni borið þangað. Í heimabyggðum þeirra lék það ekki á tveimur tungum, að Íslandsfarar yrðu fyrir gerningum; þar bjuggu seiðkonur í fjöllum.

Viðskipti

Teikning af fiskviðskiptunum fyrrum.

Hamborgarfarið hélt djúpt undan Vestmannaeyjum og stefndi fyrir Reykjanes. Nokkrar enskar duggur voru á leið inn til eyjanna, annars voru engin skip sjáanleg. Skipshöfnin hafði unnið kappsiglinguna til Íslands að þessu sinni og gat valið sér verzlunarhöfn samkvæmt því ákvæði íslenzkra laga, að sá á höfn, sem fyrstur lendir þar að vorinu. Á laugardagskvöldið fyrir páska hélt skipið að lokum inn á lónið að Básendum við Stafnes.
Höfnin að Básendum er langt og mjótt lón eða gjögur, sem skerst vestan í Romshvalanes innanvert. Siglingaleið inn á lónið er alllöng og tæp milli skerja, en fyrir innan er útfiri og þröng lega. Hér var því einu skipi gott að verjast.
Fyrir sunnan Básenda skerast svipaðir básar inn í nesið eins og Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíubás og Þórshöfn. Frá sumum þessum stöðum var dálítið útræði, og Básendar urðu verzlunarstaður Erglendinga á 15. öld, en Hamborgarar náðu höfninni sum árin seint á öldinni. Verzlunarbúðir voru norðan hafnarinnar, og þar lagði Ludtkin Smith skipi sínu við fjögur akkeri og lét binda landfestar eftir því sem menn kunnu bezt.

Hvalsnes

Hvalsnes – herforingjaráðskort frá 1908.

Daginn eftir voru heilagir páskar og guðsþjónustur í kirkjunni að Hvalsnesi og Kirkjuvogi, en menn Ludtkins Smiths unnu að því að skipa upp vörum og búa um skipið á legunni, en gerðu sér síðan glaðan dag. Þegar leið á daginn, sáu þeir, að skip kom af hafi og stefndi til Básenda. Þeir tygjuðust þegar til varnar, ef óvinir væru á ferð, en komumenn felldu segl og vörpuðu akkerum fyrir utan höfnina. Skömmu síðar var báti róið frá skipinu að Hamborgarfarinu, en á honum var enskur kaupmaður að nafni Thomas Haerlack, auk stýrimanns. Þeir Ludtkin tóku þeim félögum vel og glöddu þá með mat og góðum bjór. Þeir fréttu, að hér var komið skipið Anna frá Harwich í Englandi, um 120 lestir að stærð og með um 80 nanna áhöfn.

Básendar

Básendar.

Englendingar höfðu lagt úr höfn þann 15. marz og hreppt mjög hagstætt veður Þeir báðu leyfis, að mega leggjast á höfnina, en þeirri málaleitan tók Ludtkin Smith þunglega. Hann bað þá félaga að skila aftur til manna sinna, að þeim væri ráðlegast að leita sér annarrar hafnar, því að skip þeirra væri svo stórt, að nægur fiskur yrði ekki fáanlegur í bæði skipin að Básendum. Hann benti þeim á, að allar hafnir við Ísland stæðu opnar hverjum sem vildi, og væru frjálsir verzlunarstaðir þeim, sem þangað kæmu fyrstir að vorinu. Samkvæmt þeirri hefð sagðist Ludtkin eiga einkarétt til Básendahafnar að þessu sinni, en þar að auki hefði hann heitið Hinriki nokkrum Berndes, kauppláss hjá sér í íslenzkri höfn, ef hann yrði á undan honum til landsins. Ludtkin Smith fór um það mörgum fögrum orðum, að hefðu Englendingar orðið fyrri til hafnar við Ísland að þessu sinni, þá hefði hann hvorki vænzt þess né krafizt af þeim, að þeir vikju úr höfninni fyrir sér, og nú ætlaðist hann til þess sama af Englendingum. Þeir Thomas Haerlack tóku vel boðskap Þjóðverja og kváðust ekki ætla að bíða boðanna, en sigla tafarlaust til Grindavíkur, þegar hann gengi í norður og byr gæfi. Síðan kvöddust þeir með virktum, og héldu. Englendingar út í skip sitt.

Básendar

Reykjanesskagi – kort.

Það var allt kyrrt og friðsamt við Básenda næstu nótt; enska skipið sýndi einungis ekki á sér neitt fararsnið. Á annan í páskum kom enn skip af hafi og stefndi til Básendahafnar. Þar biðu menn Ludtkins óþreyjufullir eftir því að sjá, hvers konar skip hér væri á ferð. Undir kvöld kom það að höfninni og varpaði þegar akkerum við hliðina á Önnu frá Harwich. Hér var komið frægt Íslandsfar, Thomas frá Húll í Englandi. Því hafði lengi verið haldið til Íslands og háð þar marga hildi. Frægasta afrek þess var að sökkva Hamborgarfari með allri áhöfn norður í Eyjafirði 1529. Að þessu sinni hafði skipstjórinn, Jón Willers, bundizt samtökum við Thomas Hamond, skipstjóra á önnu frá Harwich, og höfðu þeir lagt samtímis úr höfn í Lynn í Englandi, en dregið í sundur með þeim á leiðinni.

Básendar

Básendar – bærinn.

Skipið Thomas frá Húll var 60 lestir að stærð og með 52 manna áhöfn. Aðalfarmur beggja ensku skipanna var salt, og voru 24 lestir í Thomasi frá Húll. Hins vegar var þýzka skipið hlaðið drykkjarföngum, mjöli, malti, smjöri og hunangi. Hansafarið var kaupskip, hingað komið til þess að stunda verzlun, kaupa skreið í skiptum fyrir varning sinn. Ensku skipin voru hins vegar aðallega komin hingað norður til þess að stunda fiskveiðar og útgerð, en til þeirra hluta voru þeim nauðsynlegar bækistöðvar á landi. Af þeim sökum voru áhafnir enskra skipa miklu fjölmennari en þýzkra, því að Englendinga beið hér umfangsmeira starf en Þjóðverja.

Básendar

Báendar – tóftir bæjarins.

Englendingar voru flestir með smávöruslatta í skipum sínum til þess að geta drýgt eigin afla með verzlun við Íslendinga. Það var því ekki nema að nokkru leyti rétt hjá Ludtkin Smith, að næg skreið fengist ekki á Básendum í skipið Önnu frá Harwich, því að Englendingar ætluðu að draga fiskinn að mestu leyti sjálfir, og Básendar liggja vel við góðum miðum. Englendingar höfðu lagt svo snemma í „löngu sjóferðina” að þessu sinni til þess að njóta síðari hluta vorvertíðarinnar við Suðurland. En þeir þurftu höfn til útgerðarinnar engu síður en til verzlunar, og nú lágu þeir fyrir framan höfnina, en fyrir innan lá eitt Hansaskip og bannaði þeim hafnarvist.

Básendar

Básendar – drónamynd.

Thomas Hamond, skipstjóri á Önnu frá Harwich, steig þegar í skipsbátinn, er Thomas frá Húll hafði varpað akkerum, og fór að hitta landa sína og félaga. Honum var vel tekið, og bundust Englendingar samtökum um að ráðast á Hamborgarfarið og ræna það. Þeir töldu sig hafa mikla yfirburði yfir Þjóðverja í skipum og mannafla, og ákváðu að drepa hvern þann, sem veitti þeim mótþróa, en hengja Ludtkin Smith á bugspjótinu. Einnig segir í þýzkri skýrslu um þetta mál, að Englendingar hafi boðið Íslendingum að koma til veizlu að Básendum, því að þar yrði Þjóðverjakjöt á borðum næsta dag.

Básendar

Básendar – minjar.

Inni á höfninni lágu Ludtkin Smith og félagar hans ekki aðgerðarlausir. Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði legið að Básendum um veturinn og keypt skreið af mönnum. Hann var uppi við búðimar og tók á móti varningnum, sem skipað var á land. Nú fékk Ludtkin hann til þess að safna 80 manna liði Þjóðverja og Íslendinga og vera við öllu búinn án þess þó að láta mikið á liðsafnaðinum bera. Ludtkin vildi gjarnan að Englendingar gengju í gildru og honum gæfist kostur á að launa Jóni Willers fyrir margs konar hrellingar og ofbeldisverkin norður á Eyjafirði.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Snemma á þriðjudagsmorgun 2. apríl lét Thomas Hamond á skipinu Anna frá Harwich vinda upp segl og létta akkerum, en í stað þess að sigla suður með landi til Grindavíkur, eins og menn hans höfðu talað um, þá hélt hann inn á höfnina á Básendum. Þegar styrjaldir hefjast, er venjulega vant að fá úr því skorið, hver hleypti af fyrsta skotinu, og svo er hér. Ludtkin Smith ber það síðar, að Thomas Hamond hafi siglt inn á Básendahöfn þennan morgun í fögru veðri og fyrir hagstæðum byr og tekið formálalaust að skjóta á stjórnborðshliðina á skipi sínu með bogum, fallstykkjum og kastspjótum og eyðilagt stafn og skut á skipinu og allt að þeim hluta þess, sem nefnist búlki. Hins vegar segjast Englendingar hafa neyðzt til þess að leita hafnar að Básendum sökum óveðurs, en þar hafi Ludtkin Smith ráðizt á þá óvara með skothríð. Að öðru leyti ber enskum og þýzkum skýrslum sæmilega saman um atburðarásina.

Básendar

Frá Básendum.

Þótt Ludtkin hafi e.t.v. ekki hleypt af fyrsta skotinu, þá er það víst, að Anna frá Harwich hafi ekki siglt langt inn á Básendahöfn, þegar hann lét senda henni innihald fallstykkja sinna og skipshöfn hans hóf skothríð með öllum þeim vopnum, sem henni voru til tæk. Í þessari hrotu féll Thomas Hamond skipstjóri fyrir skoti, en kúlnahríð Þjóðverja var svo nærgöngul við lyftinguna aftan til á skipinu, að stýrimaðurinn hrökklaðist frá stjórnvölnum. Þá ætluðu skipverjar að kasta út akkeri til þess að forða árekstri, er skipið rak stjórnlaust, en Þjóðverjum tókst að höggva akkeriskaðalinn sundur fyrir þeim, svo að skipið rak suðaustur yfir lónið og strandaði. Í þessum svifum kom Thomas frá Húll fyrir fullum seglum og réðst með skothríð framan að Hansafarinu. Þeim tókst að slíta eina akkerisfesti, sem skip Ludtkins var fest með, en komu krókstjökum á bugspjótið og greiddu þar atlögu. Í þessu áhlaupi féllu tveir Þjóðverjar, varð annar fyrir skoti, en hinn rekinn í gegn, og margir særðust. Ludtkin tók það fangaráð að höggva bugspjótið af skipi sínu og losa sig þannig úr tengslum við enska skipið, en jafnframt hófu menn hans ofsalega skothríð að því.

Básendar

Básendar – loftmynd.

Sökum vigamóðs gætti Jón Willers ekki að því, hvað var að gerast, en skip hans rak suður yfir lónið. Maður nokkur hljóp þá til og ætlaði að varpa út akkeri, en var skotinn til bana, og sá næsti, sem reyndi féll óvígur. Skipið kenndi brátt grunns sunnan hafnarinnar, og skipaði Jón Willers mönnum sínum að róa út með akkeri í skipsbátnum og ná skipinu út á næsta flóði. Ludtkin beindi strax skothríð að skipsbátnum, svo að Englendingar gáfust upp við þá fyrirætlun, þegar einn af mönnum þeirra var fallinn og báturinn laskaður. Þar með voru bæði ensku skipin strönduð, annað innst á höfninni, en hitt sunnan hennar vestarlega á lóninu. Norðan til á höfninni lá Hamborgarfarið og beindi skothríð að skipi Jóns Willers, en á landi beið lið Hans Ludtkins albúið að taka á móti Englendingum, ef þeir reyndu að yfirgefa skipin.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Allan þriðjudaginn sátu Englendingar í herkví á skipum sínum og biðu flæðar á miðvikudagsnóttina, en þá ætlaði Jón Willers að gera nýja tilraun til þess að ná skipi sínu út, en tilraunin misheppnaðist. Vindur var norðlægur og skipið hrakti einungis lengra upp á grynningarnar. Hins vegar tókst áhöfninni á Önnu frá Harwich að ná skipinu út á flóðinu og leggja því við akkeri, og létu Þjóðverjar það afskiptalaust. Anna komst ekki úr höfninni nema með því að sigla rétt hjá Hamborgarfarinu, og Þjóðverjar vissu, að Englendingum þótti sú leið ekki greiðfær, eins og sakir stóðu. Öðru hverju kallaði Ludtkin til Englendinga að gefast upp skilyrðislaust, aðstaða þeirra væri vonlaus.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Allar heimildir gefa til kynna, að Englendingar hafi verið nokkru liðfleiri en Þjóðverjar í þessari orustu, en hamingjan var þeim ekki hliðholl, og á miðvikudagsmorgun tilkynntu þeir Jón Willers og Robert Legge, er tekið hafði við stjórn á Önnu frá Harwich eftir fall Thomasar Hamonds skipstjóra, að þeir væru fúsir að koma til friðarsamninga. Þegar þeir voru komnir um borð í Hansafarið, kúgaði Ludtkin Smith þá til þess að bjóða skipshöfnum sínum að láta öll vopn af hendi við Þjóðverja. Þessu var hlýtt, og voru vopnin flutt um borð í skip Ludtkins. Að því búnu skipaði hann mönnum sínum að fara um borð í skipið Thomas frá Húll og tæma það af öllu fémætu. Skipið stóð nú að mestu á burru um fjöru, svo að Þjóðverjum var greið leið að skipinu, en Englendingar snerust enn til varnar, þótt þeir hefðu fátt vopna. Ludtkin lét þá höggva gat á byrðinginn og menn sína ganga þá leið inn í skipið og ræna. Nú var ekki um annað að gera fyrir áhöfnina en flýja á land upp. Þar umkringdu Þjóðverjar þá og tóku tvo þeirra, sem þeir töldu sakbitnasta fyrir margs konar ofbeldisverk, m.a. fyrir að hafa átt drjúgan þátt í að sökkva Hamborgarfarinu norður á Eyjafirði árið 1529. Þessa menn lét Ludtkin hálshöggva, en misþyrmdi öðrum tveimur og skilja þá eftir klæðlausa, nær dauða en lífi. Meðan á þessu gekk, fékk skipið Anna frá Harwich að liggja í friði á höfninni við Básenda.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

En nú kom röðin að því, meðan orustan stóð, að Ludtkin sendi sendiboða til Hafnarfjarðar og bað þýzka kaupmenn í firðinum að koma til Básenda og gera um deilur sínar og Roberts Legge og félaga hans. Þeir bregða við og koma til Básenda, en þar var Robert Legge neyddur til að skrifa undir skýrslu, sem Þjóðverjar sömdu um atburðina, en einnig urðu þeir að afhenda allan varning sinn úr skipinu og greiða 40 lestir skreiðar í skaðabætur.

Básendar

Kengur á Básendum.

Skreiðina afhenda þeir þann 16. maí, og fengu þeir þá að halda skipi sínu og töldust lausir allra mála fyrir þátttöku í orustunni að Básendum. Eftir það sigldu þeir burtu, en Erlendur lögmaður Þorvarðarson lét tylftardóm ganga um ,,skip það og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Ludtkins Smiths og Jóns Willers” og dæmist það réttilega fallið undir konung.

Básendar

Básendar – merki um friðlýstar minjar.

Þar með voru þessir atburðir úr sögunni í bráð, en ýmsir aðrir áttu eftir að gerast. Seint í apríl kom skipið Thomas frá Lundúnum að Rifi á Snæfellsnesi, en þar lá fyrir Hamborgarfar á sama hátt og við Básenda. Englendingar gerðu út bát á fund skipstjórans á Hansaskipinu og báðu leyfis að mega koma inn á höfnina, en fengu synjun. Þá héldu Engiendingar til Grundarfjarðar og lágu þar í þrjár vikur og veiddu og verzluðu. Að þeim tíma liðnum kom þar skip frá Brimum ásamt Hamborgarfarinu, sem lá við Rif. Í þrjá eða fjóra daga lágu Hansaskipin á Grundarfirði og höfðust ekki að, en þann 20. maí lögðu þau að landi. Fjörutíu eða fimmtíu manns gengu af skipunum og héldu þangað, sem Englendingar voru með búðir sínar. Þjóðverjar réðust með alvæpni inn í búðirnar, brutu upp kistur kaupmanna og höfðu allt fémætt á braut með sér. Síðan fóru þeir um borð í enska skipið og tóku þaðan öll vopn og skotfæri.

Hér er um beint rán að ræða, en nú voru nýir og miklu alvarlegri atburðir á döfinni. Til er staðfest afrit, en ódagsett, af bréfi þýzkra skipstjóra og kaupmanna í Hafnarfirði til ráðsins í Hamborg. Þar segir, að Englendingar í Grindavík hafi tekið fisk, sem Hansamenn höfðu keypt og greitt. Þjóðverjar segjast vilja, að ráðinu sé kunnugt, að þeir ætli að ná fiskinum með valdi og leggja líf og góss í sölurnar. Þeir æskja liðsstyrks og bjóða ráðinu hluta í herfanginu.”

Heimild:
-Faxi, 7. tbl. 01.12.1980, Básendaorustan 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 242-243 og 191.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Ósabotnar

Í Faxa 1984 fjallar Jón Thorarenssen um “Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi”.

“Árbók Ferðafélags Íslands 1984 er helguð Reykjanesskaganum vestan Selvogsgötu og mun þá átt við Selvogsgötu í Hafnarfirði.
ÓsabotnarÁður fyrr höfðu Selvogsbúar mikil verslunarviðskipti í Hafnarfirði og munu hafa komið af Selvogsheiði niður á þessa Hafnarfjarðargötu er þeir fóru í kaupstað og ber hún síðan nafn þeirra.
Öll er Árbók þessi hin vandaðasta að efni og útliti og hin forvitnilegasta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Höfundar eru fjórir, þeir séra Gísli Brynjólfsson, vel þekktur hér á Suðurnesjum, hann skrifar um byggðir Suðurnesja. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar kaflann „Um heiðar og hraun”. Hann er mjög kunnur jarðfræði Skagans hefur lengi stundað þar rannsóknir. Þá skrifa náttúrufræðingarnir Hörður Kristinsson og Arnþór Garðarsson í ritið. Hörður um gróðurskilyrði en Arnþór um björgin og fuglalíf, sem er fjölskrúðugra hér en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Ég hvet Suðurnesjabúa til að eignast og lesa þessa ágætu Árbók.
Við sem búum norðanverðu á Skaganum erum flestir kunnugir þeim miklu athöfnum og jarðarbótum sem Hestamannafélagið Máni hefur unnið að. Iðgræn tún hylja nú stór landssvæði, sem áður voru fokmelar vegna hrjúfra handa er þar höfðu um gengið. Svipað má segja um Leiruna þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert stórvirki í fegrun og ræktun lands sem bændur höfðu yfirgefið þar sem aðal afkomuleið Leirubúa, fiskveiðar, var brostin en landkostir rýrir.
Ég vona að séra Gísli Brynjólfsson bregðist ekki illa við þó að ég taki hér upp eftir honum þar sem frásögn hans um Leiru hefst.
“Miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála liggur við sjávarsíðuna Leiran, sem er eitthvert það besta fiskiver, með því að þar má sækja sjó á báðar hendur” segir í sóknarlýsingu 1839. En nú mun langt síðan nokkurri fleytu hefur verið róið til fiskjar úr Leirunni enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn nú hina síðari áratugi. En fyrst nokkur orð um byggðaþróun í Leirunni samanborið við næsta nágrennið, Keflavík. Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík.
Árið 1880 voru nákvæmlega jafnmargir íbúar í Keflavík og Leiru eða 154. Nú búa 2 menn í Leirunni en í Keflavík eru íbúar 6747.”
Þessi stutta tilvitnun í Árbókina sýnir okkur glöggt hve sveiflurnar í tilverunni eru hraðar. Það sem var brúnn melur í gær getur verið iðgrænt engi á morgun og sjórinn sem var fullur af lífsbjörg á báðar hendur fyrir fáum árum er sem dauðahaf í dag. Allt er þetta athöfnun okkar mannanna að þakka eða kenna. Hugsum því fyrir morgundeginum.” – J.T.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726.

“Skúli Magnússon, landfógeti, segir í sýslulýsingu sinni um Básenda: “Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum á milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í véstanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farist þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á þessa höfn um hríð. Höfnin er því eigi örugg, nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum, og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrrnefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 faður í hinu síðarnefnda. Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet, þegar stórstreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi. Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar”.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Nokkru sunnar er Þórshöfn. Þar er hin forna höfn verzlunarskipa á síðari hluta 19. aldar. Samkvæmt lýsingu Skúla fógeta, er leiðin 170 faðmar inn, en breidd 51 faðmur, ef skip rista 6 fet. Þessi höfn var notuð er Hansakaupmenn og Þjóðverjar ráku verzlun hér, en árið 1601 var síðasta verzlunarár brim væri, því að skerjagarður að þeirra þar. Flest gátu 5 skonnortur legið þar í einu, allar bundnar. Þarna í Þórshöfn gerðist sá atburður á árunum 1890-1895, að útvegsbændur á Suðurnesjum komu þar saman til þess að ræða fiskverð. Segja má að hér hafi verið eins konar upphaf íslenzkrar kjarabaráttu sjómanna um fiskverð. Þarna var mættur Ketill dbrm. í Kotvogi með sonum sínum og Salómon Björnsson frá Kirkjuvogi, Einar Sveinbjörnsson í Sandgerði, Jón Sveinbjörnsson frá Húsatóftum, Magnús Bergmann í Fuglavík, og úr Grindavík Sæmundur Jónsson og Tómas Guðmundsson.
Rétt austan við Þórshöfn er Hvalvík og Hvalvíkurhólmi þar ytra. Nokkru austar og innar er komið að hinum gamalkunna og merka stað Bárðarvör (sjá Útnesjamenn), sem áður var stundum kölluð Prestatorfa, þegar Hvalsnessprestar þjónuðu Kirkjuvogssókn, en Hvalsnes var lagt niður sem prestsetur árið 1811.
Fram til þess tíma var Bárðarvör ferjustaður Hvalsnesspresta yfir Ósana í Kirkjuvogsvör, og þessa leið notaði síra Hallgrímur Pétursson stöðugt á árunum 1644-1651, þegar hann þjónaði Kirkjuvogskirkju frá Hvalsnesi. Eftir það var Bárðarvör kölluð Grímsvör um tíma, en það nafn hvarf fljótt og frá síðustu aldamótum er óhætt að segja, að vörin hafi aldrei verið kölluð annað en Bárðarvör. Bárðarvör er smá vík, er skerst inn norðan við Einbúa, sem er hár hringmyndaður grashóll, og sést víða að, bæði á landi og af sjó, og er því mikið kennimerki sjósóknarmanna.
Fyrir utan Bárðarvör er Hestaklettur (sjá Útnesjamenn), stór og mikil klettaborg. Við austurhorn Hestakletts var ætíð farið, þegar ferjað var yfir Ósa. Á austurhorni Hestakletta sitja ætíð dílaskarfar og blaka vængjum til að þurrka sig.

Vörðuhólmi

Einbúi og Vörðuhólmi.

Nokkuð austur af Hestakletti er Selsker, hættulegt sker. Það er alltaf talið hættulegt að fara nærri því. Þar drukknaði síra Árni Hallvarðsson og sjö manns með honum 31 . marz 1748.
Einbúi er eins konar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á f jörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt. Suðurendinn heitir Vörðuhólmi. Við suðurenda hans fellur sjór með útfallinu frá þessari löngu eyju, en skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfirinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta ér stórhættulegur staður fyrir báta. Einu sinni fór ég niður þennan ós, einn á tveggja manna fari. Ég var að grafa sandmaðk og mig langaði að fara niður beljandann. Ég hef líklega verið 16 ára, sterkur og liðugur þá, og mér fannst ég geta allt. Þar hallaði niður í ósinn eins og brekku. Ég lagði í ósinn, en straumkastið tók strax af mér ráðin og fyrir Guðs mildi slapp ég lifandi, en ég skammaðist mín mikið fyrir þetta tiltæki. Það er fyrst nú að ég segi frá þessu, sem gerðist fyrir 65 árum.
Fyrir utan Runkhólma er svokallaður Síðutangi, þá Skotbakki. Að Síðutanga og Skotbakka bárust hlutir eða partar úr hinu fræga strandi „James Town”. (Við Einbúa og Skotbakka var ágætur maðkasandur).
Fyrir austan Skotbakka er svo Gamli Kirkjuvogur, sem hét fyrrum Vogur á Rosmhvalanesi, vegna þess, að öll ströndin frá Stafnesi, inn með öllum Ósum að Hunangshellu er á Rosmhvalanesi. Það sýnir bezt breytta landskosti í tímanna rás, að Espólín segir frá því í 2. deild Árbókarinnar, að árið 1467 hafi Björn Þorleifsson, hirðstjóri, selt Eyjólfi Arnfinnssyni nokkrum Voga á Rosmhvalanesi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar segir að 1703 hafi Gamli Kirkjuvogur legið í auðn lengur en 120 ár, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. Af þessum orðum Árna Magnússonar, að bæjarstæðið hafi verið í Kirkjuvogslandi má ætla, að landamerkin milli Stafness og Kirkjuvogs hafi ekki verið um Djúpavog, heldur um Bárðarvör, eða Runkhólmaós, þó kannski heldur, eftir því sem gamalt fólk í Höfnum og fóstri minn, Ketill, töluðu um.
Fyrir innan Gamla Kirkjuvog kemur svo Djúpivogur, þar næst Beinanes, þá Seljavogur, þá Stóra-Selhella, þá Stóru-Selhelluvogur, þá Litla-Selhella, þá Litlu-Selhelluvogur, þá Brunnvogsklettar, þá Steinbogi og svo loks hin fræga varða Hunangshella, sem nú er hálf hrunin og brot af vörðunni eftir.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort.

Hér endar Rosmhvalanes, því að Hunangshella var og er landssvæðavarða. Lína sem hugsaðist dregin frá Hunangshellu í Háaleitsþúfu (var norðaustast á Keflavíkurflugvelli, en er horfin nú), og frá Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík. Allt fyrir norðvestan þessa hnu er Rosmhvalanes. Það er stór hluti Reykjanesskagans.
Hunangshella dregur nafn sitt af sögu, sem prentuð er hjá Jóni Arnasyni, þjóðsagnasafnara, (1. b., bls. 613). Það var skrímsli grimmt, hættulegt og skotharðast allra dýra. Maður einn tók sig til og bar hunang á helluna, því óvætturin var sólgin í það. Maðurinn lá svo í leyni þar hjá. Óvætturinn kom og tók að sleikja hunangið af hellunni. Þá skaut maðurinn skrímslið með vígðum silfurhnöppum. Það hreif. Síðan heitir staðurinn Hunangshella. Hjá Hunangshellu endar Rosmhvalanes, eins og áður er sagt.
Hjá Hunangshellu enda Ósabotnar. Hunangshella er merkur staður. Varðan þar í hellunni er í ólagi. Ég skora á útivistarmenn eða einhver félagasamtök, eða Lionsmenn á Suðurnesjum, að reisa þessa gömlu vörðu við á björtum og blíðum sumardegi. Það er ræktarsemi við gamla tímann og virðing fyrir hinum gömlu landamerkjum Suðurnesjamanna, sem eru milli Rosmhvalaness og Reykjanes skagans. Ennþá eiga Suðumesin gott fólk, hraust og afkastasamt til að gera þetta.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Þegar farið er frá Hunangshellu suður koma næst Þríhólar þá Leirdalur og Leirdalshólmi, þá Stekkir, Stekkjarnes og Stekkjarneshólmar, þá Hellisvik, innan við Hellishæð (hjá Hellisviki beið Oddur V. Gíslason eftir því að Anna Vilhjálmsdóttir kæmi til sín á vökunni 30. des. 1870). Þá kemur Torfdalsvík síðan Torfdalur, þar á tanganum er hin ævaforna sundvarða sveitarinnar. Þá kemur Maðkasandur, Maðksandsklöpp, þá Bótin, Langaklöpp, Svartiklettur, síðan Þvottaklettar, sem eru austan við Kirkjuvogsvör. Nú er þar ekkert skip og engin mannaferð. Kirkjuvogsvör má muna sinn fífil fegri, þegar um og yfir 100 ungra manna réru úr vörinni á hverjum róðrardegi á vertíðum. Upp af Kirkjuvogsvör voru tvö naust, austurnaust, sem voru víð og stór og rúmuðu marga teinæringa, og svo vesturnaust, sem rúmuðu í mesta lagi þrjá teinæringa. Bæði voru þessi naust vel varin fyrir sjógangi, veðrum og vindum. Fyrir vestan og utan Kirkjuvogsvör er Kirkjuskerið, stórt sker og hátt, sem er aðalskjólið fyrir Kirkjuvogsvör og hlífir henni í briminu. Þar utar, en fast við Kirkjusker, er Flatasker, sem hlífir sömuleiðis. Með aðfalli fór strax að koma lá í Kirkjuvogsvör, þegar Flatasker var komið í kaf. Kirkjuvogssund er langt. Sundið er tekið þegar Bælið er um Junkaragerði, en Keilir um Svartaklett. Þegar komið er inn fyrir Flataskersenda og Einbúa og Kiðaberg úti á Stafnesheiði ber saman, þá er vinkilsnúið inn í vörina.
Ingigerður Tómasdóttir, húsfreyja í Kotvogi, d. 1804, sagði, að full sáta af heyi hefði fengist síðast af Kirkjuskerinu og grastónni þar, sem síðast var á kollinum á skerinu. Sömuleiðis hefði í þá tíð varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og heimatúnsins. Nú er þar stórt og breitt svæði. Sýnir þetta hver ósköp landið hefur eyðst á liðnum tímum.
Vestan við Kirkjuvogsvörina eru Þvottavötnin, bergvatnsuppspretta úr lágri klöpp. Þar var ætíð skolaður þvottur og þvegin ull. Þá kemur sker fyrir vestan, sem heitir Fúsi, sem við krakkarnir veiddum við varaseiði. Músasund heitir sundið á milli Kirkjuskersins og lands. í sundinu er smá sker, sem heitir Árarbrjótur, smá tangi á móts við Kotvog. Hola nefnist lendingin fyrir neðan Kotvogsbæinn. Þá kemur Skellisnoppa vestar, sker sem brim skellur mikið á, en í mínu ungdæmi kallað Skellir, hitt nafnið mun eldra. Við Skelli er bundin smá frásögn, er nú skal greina: Árið 1912, seint í maí, var sem oftar háskólaborgari einn gestur í Kotvogi nokkrar nætur. Dýrafræði og grasafræði voru eftirlætisgreinar hans. Hann eyddi dögum sínum seint og snemma í fjörunni.

Kotvogur

Kotvogur.

Dag einn, er var orðið nokkuð hásjávað, sá hann steypireiði mikla koma á mikilli ferð að sunnan og þræða rétt utan við ystu sker. Kom hún rétt af Skelli, vinkilbeygði þar og tók stefnu norður og djúpt út af Stafnestöngum, og svo var ferðin mikil á skepnunni, að hún var brátt horfin úr augsýn norður í Nesdjúpið svokallaða. Þennan dag var hányrðingur, ládeyða og hreinviðri. Nú hafa þessi dýr verið svo ofsótt, að þau þræða ekki við ystu sker Íslands lengur.
Sunnan við Skelli og lengra úti eru Hásteinar, sérstæðir klettar, sem ekki sjást nema um stærstu fjörur. Þar hafa skip oft farist, og árið 1872 varð þar skipsskaði og manntjón frá Kirkjuvogi í tíð Þórunnar Brynjólfsdóttur, er átti skipið og gerði það út (sjá Rauðskinnu, Guðmundur í Réttarhúsum, stórmerk frásögn). Sunnar í fjörunni, Snoppa, stór klöpp ofarlega í fjörunni, með djúpa sprungu eftir endilöngu í áttina til hafs. Fyrir neðan Snoppu er brúðhjónasæti álfanna í klettahrygg þar. Sunnar eru svo Haugsendafjörur þar var þangskurður ágætur og var ég þar oft í þangfjörum á unglingsárum mínum. Þar er Markasker og Haugsendavarðan aðeins sunnar uppi á kampinum. Hún er sundmerki fyrir Merkines, og þegar hana ber við Bræður, klofinn hól þar efra, þá er farið inn Merkinessund.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Við höldum stöðugt áfram suður með ströndinni. Þá koma næst Merkinesklettar, Skiptivík, Dilkar, hár hóll og annar minni fyrir innan Junkaragerði, þá Junkaragerðisklettar, klakkar norðan við Kalmanstjarnarsund þá Hólmi, Draugar, Stekkjarvikið (sbr. Marínu), Kirkjuhafnarvikið, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, Sandhafnarlending, Kópa, Eyrarvík og Eyrarbær, þar sér fyrir bæjarrústum, nálægt sjávarbakkanum og grasi gróið umhverfis. Þar er mjög fallegt. Lendingin beint niður af bænum, örstutt nokkrir metrar. Stutt hefur verið að sækja fisk þaðan, meðan hann var nógur við landið, og hægt hefur verið að kalla heim að bænum, þegar veður voru góð. Eyri eða Hafnareyri, eins og sóknarpresturinn á Hvalsnesi kallaði bæinn, var síðasti byggður bær fyrir sunnan Kalmanstjörn, á Eyrartanganum rétt við norðurendann á Hafnabergi. Bærinn fór í eyði árið 1776.
Til gamans set ég hér húsvitjun sóknarprestsins á Hvalnesi 1773, sem er á þessa leið: Hafnareyri 1773: Ormur Þórarinsson, húsbóndi, 46 ára., Gunnvör Árnadóttir, húsfreyja, 49 ára., Katrín Hjaltadóttir, 20 ára., Magnús Hjaltason, 10 ára., Bartólomeus Jónsson, lausamaður, 61 árs.
Út af Eyraroddanum er röst, Eyrarröst, og stórt sker, Eyrarsker, rétt sunnan við tangann. Ég spurði Bjarna Guðnason, sem var í Kotvogi og formaður í 50 ár, hvar hann hefði fengið verstan sjó á allri formannstíð sinni. Hann svaraði: i ,Það var í Eyrarröstinni, þó var ég þá með teinæring”. Þetta var um Eyrarbæinn, en nú held ég áfram örnefnaröðinni.

Hafnaberg

Hafnaberg.

Næst fyrir sunnan norðurenda Hafnabergs kemur svo skerið Murtungur (Guðmundur Salórnonsson, fræðimaður, bóndi og meðhjálpari Kirkjuvogskirkju um í áraraðir, kallar sker þetta Murling. Þetta getur verið réttara, því að hann var talinn fróður og minnu gur, og eftir hann er afbragðs ritgerð í 3. bindi Rauðskinnu). Þá kemur Klaufln, sprungnir klettar, þá Hafhaberg. Berg þetta er um hálfa viku sjávar á lengd og rúmir 20 faðmar þar sem hæst er, en ógengt. Í berginu er stór geigvænlegur hellir, sem heitir Dimma. Þá kemur Stráksrif (Bjarghóll þar upp af), þá Boðinn, Lendingarmelar, Rekavík, Skjótastaðir (eyðijörð), Stóra-Sandvík, Litla-Sandvík, Mölvík, Kistuberg, Þyrslingasteinar, Kinnarberg, þá Önglabrjótanef. Út af þessu nefi er norðurstrengur Reykjanesrasta rinnar, sem talin er sterkari en suðurstrengurinn, þá Karlinn, klettur hrikalegur í sjó fram. Einu sinni í sumarblíðu og logni var ég á háti, er fór milli Karlsins og lands.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þá er næst Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Valahnjúkur (þar sem fyrsti vitinn var), Valahnjúksmöl, Skarfasetur, þar út af þessu nefi er suðurstrengur Reykjanesrastarinnar, og er hann talinn minni en norðurstrengurinn, eins og áður Segir. Rétt fyrir austan Skarfasetur er Blásíðubas.
Þar með endar þessi örnefnakeðja, sem fylgt hefur verið eftir minni og bestu vitund.” – Lokadagur 11. maí 1984 – Jón Thorarensen.

Heimild:
-Faxi, 6. tbl 01.07.1984, Jón Thorarenssen, Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi, bls. 207-211.
Faxi

Stafnes

Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.

Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.

Bátsendar

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.

Básendar

Festarkengir á Básendum.

Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.

Hallgrímshellan

“Hallgrímshellan” í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.

Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; íangamarkið er HP; en ártalið er 1728.

Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.”

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.

Ósabotnar

Ósabotnar – götukort.

Básendar

Í “Fornleifaskráningu á Miðnesheiði” sunnanverðri árið 2000 er m.a. fjallað um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gömlu-Kirkjuhöfn, auk Kaupstaðarvegarins og aðrar merkar minjar.

Stafnes (býli/konungsútgerð)

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes hefur verið á sama stað frá öndverðu. Landamerki milli Hvalsness og Stafnesshverfis eru í viki einu litlu sem heitir Mjósund, stundum kallað Skiptivík, sunnan við Ærhólma. Endar landið í Djúpavogi í Ósabotnum. Átti Stafnesin í land að Beinhól og Háaleiti. Stafnes var fyrr á tíð eitt mesta stórbýli Suður-nesja. Í gömlum jarðabókum eru taldar þar 20 hjáleigur og tómthús. Þó er ekki víst að þau hafi öll verið byggð samtímis.
Jarðardýrleiki er sagður óviss í Jarðabók Árna Magnússonar sem tekin var saman árið 1703. Mjög er nú mannfátt í Stafnesshverfi og enginútgerð hefur þar verið seinustu áratugi. Eflaust hefur útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi sem og annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19. þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita að Stafnes væri í eyði um aldarmótin 1800. Útgerð á Stafnesi mun hafa lagst niður fyrir fullt og allt um árið 1945 og hafði þá áður mjög úr henni dregið.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Á öldum áður var þó útræði mikið og hófst konungsútgerð á Stafnesi um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldugir að róa á árabátum þaðan fyrir harla lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum. Töluverð selveiði var á Stafnesi fyrr á árum.
Stafnes er í fornum máldögum oftast kallað Starnes. Ef það er upprunalegt nafn bæjarins bendir það til þess að þar hafi verið starengi. Þá er líklegast að það sé komið undir sjó.
Hrjóstrugt er umhverfis Stafnes, einkum í heiðinni ofan við byggðina. Hefur jarðvegur fokið burt og er nú aðeins bert grjótið eftir. Samhliða þessu hefur sjór gengið mjög á landið, enda bera skerjaflákar undan ströndinni þess merki. Mörg skip hafa farist á Stafnesskerjum.
Árið 1928 fórst þar togarinn Jón forseti. Drukknuðu 15 skipverjar en 10 varð bjargað.
Annað botnvörpuskip, Admiral Toco, strandaði þar í foráttu brimi árið 1913 og fórust allir með því.

Friðlýsingar

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í landi Stafness eru tveir staðir friðlýstir:
Básendakaupstaðarleifar, á hraunnefi milli 2ja víka skamt fyrir austan Stafnes. Sbr. Árb. 1903:40; Blöndu III: 48-49.b).
„Lögrjetta“, svo nefnd, forn hringur í Stafnesstúni, fyrir norðan bæinn. Sbr. Árb. 1903: 39-40. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst15.11.1938.
Lögréttan er utan hins skráða svæðis og er aðeins lítillega vikið að henni í þessari fornleifaskráningu. Um Básenda er fjallað í sérstökum kafla svo sem fyrr segir. Í landi Stafness eru samkvæmt heimildum um 73 fornminjar sem rétt væri að kanna og skrá í heildarúttekt á svæðinu, en hér verða skráðar 11 sem teljast vera innan yfirráðasvæðis Varnarliðsins.

Gálgaklettar (aftökustaður)

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Magnús Grímsson skrifar að spölkorn suður frá Draughól „í hrauninu og ekki rétt fram við sjó eru lettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Þá kalla menn Gálgakletta. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt menn á, þegar þá greindi mjög á við einhverja. Er það í munnmælum, að beinum hinna hengdu hafi verið kastað í gjótu undir annan klettinn og borið grjót fyrir að framan.“ Magnús Grímsson hefur staðarlýsinguna upp úr örnefnalýsingu Stafness, en bætir við sögninni. Í örnefnalýsingunni segir enn fremur að hraunið upp af Gálgaklettum sé nefnt Gálgahraun. Páll Sigurðsson, lagaprófessor, segir að Gálgaklettar þessir séu einnig nefndir Gálgar: „Að Stafnesi er varðveitt örnefnið Lögrétta, sem kynni að benda til þinghalds af einhverju tagi, en hins vegar var þingstaður hreppsins fyrrum að Bæjarskerjum, sem ekki eru í næstu grennd.“ Páll Sigurðsson fer nánar í málin í bæklingi um aftökustaði í landnámi Ingólfs, en nefnir þó ekki sögnina úr ritgerð Magnúsar um meðferðina á beinum hinna afteknu: „Gálgaklettar eru tveir aflangir en sundursprungnir klettar með allbreiðu sundi á milli, sem greinilega er of breitt til að þar megi koma fyrir gálgatré milli klettanna. Kann því aðvera um náttúruörnefni að ræða, en þröngar sprungur í klettunum geta að vísu komið til álita í þessu sambandi þótt ekki virðist þær sérlega líklegar. Upp við klettana hefði hins vegar máttreisa gálga.“ Mannvistarleifar eru engar sýnilegar við Gálgakletta.

Þórshöfn (lending)

Þórshöfn

Þórshöfn.

Litlu sunnar en Básendar er Þórshöfn. Elsta heimild umÞórshöfn mun vera skrá Resens frá síðari hluta 16. aldar um íslenskar hafnir „sem skip sigla nú til og skip hafa áður siglt og nú er ekki siglt til, landinu til stórtjóns.“ Skúli Magnússon fógeti (1711-1794) lýsir höfninni sem lítilli og lélegri: „Skipaleiðin inn að henni er ekki nema 65 faðma breið og stefnan inn sundið er í norðaustur til hálfausturs. Mesta lengd innsiglingarinnar er 170 faðmar, en breiddin 51 faðmur, en þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet. Þangað geta skip ekki leitað nema í góðu veðri; og í blásanda byr af suðvestri verður að festa þau með 4 köðlum og 3 akkerum að minnsta kosti. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér álandi. Nú er þar ekkert graslendi eða land, sem byggja má á, á ½ mílu svæði frá höfninni, heldur aðeins grjót og sandur, og er því eigi hægt að hafa þar verzlunarstað.“
Í Lýsingu Útskála-prestakalls 1839 segir: „[Þórshöfn] fóru að reyna fiskiskútur fyrir 2 árum, þegar liggja vildu af sér veður, og voru mið sett á landi, til leiðarvísis handa þeim í inn- og útsiglingu; hefir það vel gefizt, og geta þar 20 snekkjur legið í senn. –Vatnsból er þar nýfundið, og þannig þeim örðugleika úr vegi rutt, sem vatnssókn fyrir skipin kostaði. Þórshöfn stendur í sjókortum farmanna og liggur á millum Bátsenda [Básenda] og Ósanna.“ Við vettvangsskráningu fundust engin mannvirki á svæðinu utan ein uppistandandi varða og vörðubrot.

Þórshöfn (fangamörk)

Þórshöfn

Þórshöfn – fangamörk.

Skammt austan við Þórshöfn, uppi í landi, eru klettar og steinar með fangamörkum. Ártöl sem hafa verið höggvin í stein, 1844 til 1891, benda til aðfangamörkin séu frá seinna helmingi nítjándu aldar þegar höfnin var aftur tekin í notkun eftir langt hlé. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar, en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessum áletrunum áður en veður og vindar má þær út.

„Hallgrímshella“ (áletrun)

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.“ Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, var á Suðurnesjum frá árinu 1637 til 1651, prestur í Hvalsnesi síðustu 7 árin, en þá fluttist hann þaðan fyrir fullt og allt og gerðist prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann andaðist 27. október árið 1674, sextugur að aldri. Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.

Preststorfa (ferjustaður)

„Ósar heitir vogur sá hinn mikli, sem hér gengur til austurs inn í landið. Norðan megin við Ósana, gagnvart Kirkjuvogi [í Höfnum], er kölluð Preststorfa, því þar er prestur vanur að fá flutning yfir að Kirkjuvogi, þegar hann fer þá leiðina.“

Einbúi (sjóbúðir)

Einbúi

Tóft í Einbúa.

„Litlu innar í Ósunum [en Preststorfa] er einstakur hólmi dálítill, sem heitir Einbúi. Þar á eru rústir af sjómannabúðum, sem líklega hafa verið þar fráVogi […].“ Á innrauðum loftmyndum má sjá rústir í Einbúa. Var ekki unnt að komast þurrum fótum út í hólmann sumarið 2000, þótt heimildir geti um að það sé hægt.

Stafnessel (sel)

Stafnessel

Stafnessel.

„Austan Stórubjarga er gamalt sel, sem heitir Stafnessel.“ (ÖS). „Enn sést móta fyrir rústum af Stafnesseli.“ (ÖS, 1980). Sel þetta fannst ekki við vettvangsskráningu og er hugsanlega horfið undir mannvirki.
[Stafnesselin eru tvö; annað skammt ofan við Gamla-Kirkjuvog og hitt ofar í heiðinni, upp undir varnargirðingunni.]

Háaleitisvarða (varða)
Í landamerkjabréfi frá 1270 segir um vörðu þessa að hún hafi staðið uppi á Háaleiti þar sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. Hennar er getið víðar seinna, en nú er hún horfin undir flugvöll.

Básendar (verslunarstaður)

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi og sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Höfnin var lón mjótt og langt, svo sem bás austur og inn í landið. Skipaleiðin inn á leguna var nokkuð löng, milli skerja, og í líkri stefnu. Landslaginu er þannig lýst í Blöndu á þriðja áratug 20. aldar að umhverfis Básenda séu fjörur og sandauðn með litlum grasflesjum frá öldinni á undan að austan og norðanverðu. Þær séu að brotna, eða blása og gróa á víxl, allt heim að túni á Stafnesi, en sjór mylji framan af. Þá er lýst boðum miklum, skerjum og lónum.
Skúli Magnússon, fógeti, lýsti Básendum svo um 1785: „Kring um hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar.“
Nafnið Básendar mun ekki vafalaust, en er í góðu samræmi við landslagið eins og það hefur verið frá fyrstu tíð. Nöfnin Bátsendar og Bátsandar, sem einnig má sjá í heimildum, eru taldar vera ambögur, enda eru til fleiri básar enn sunnar á nesinu, s.s. Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíusbás. Básendahöfn hefur sjálfsagt lengi verið notuð til bátaútræðis og fiskiveiða á vertíðum – þó lítið séum þetta kunnugt. En samkvæmt Blöndu voru þó merkustu notin af hinni góðu hafskipalegu og versluninni sem telja má víst að þar hafi oftast verið rekin í rúmar þrjár aldir (1484-1800)og sennilega fyrr á öldum líka.

Básendar

Básendar – bærinn.

Enskir og þýskir kaupmenn börðust blóðugri baráttu um verslunina innbyrðis og við Dani uns þeir síðastnefndu urðu hlutskarpastir. Til dæmis að taka fóru Þjóðverjar frá Básendum og víðsvegar af Suðurnesjum í bardaga við enska kaupmenn í Hafnarfirði og varð þar mikið mannfall.
Samkvæmt Skúla Magnússyni var á Básendum: […] höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá.[…] Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi.

Þegar mjög er stórstreymt, hefur borið við, að sjór hefir flætt inn í verzlunarhúsin, en það hefir þó eigi valdið verulegu tjóni.
Hálfum öðrum áratug eftir að þetta var skrifað eyddust Básendar í einhverju ofsalegasta fárviðri og sjávarflóði sem sögur fara af hér á landi. Aðfararnótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Snæfellsnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu svo að nokkuð sé nefnt. Á Básendum tók þó út yfir allan þjófabálk. Þar sópaði flóðið á einni nóttu flestum ef ekki öllum húsum hins forna kaupstaðar burt, kona einroskin og lasin drukknaði en annað heimilisfólk bjargaði sér við illan leik. Þrátt fyrir öll ósköpin og þó að tvær aldir séu liðnar síðan sér vel til rústa á tanganum. Eyðingu Básenda er lýst í skýrslu hins „fjárþrota“ danska kaupmanns H[inriks] Hansen sem er í vörslu Þjóðskjalasafnsins, skrifuð 16. mars sama ár til að sýna „hversu ofurefli sævarins, hef[ði] eyðilagt verslunarstaðinn og margskonar fjármuni [kaupmannsins], og í hvílíkum dauðans vandræðum [hann] var staddur, með [s]ínum nánustu.“Hér verður stuðst við endursögn skýrslunnar í Blöndu, en því er svo nákvæmlega greint frá þessum atburðum að frásögnin gæðir hinar mállausu tóttir lífi og kann að verða til þess að auka áhuga nútímamanna á varðveislu þessara fornuminja: Eptir að við öll (eg, kona, 4 börn og vinnukona) vorum háttuð, varð eg þess var um nóttina (á að gizka kl. 2) hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auki fóru að heyrast skellir, hver eptir annan, eins og veggbrjótur væri að vinnu á hlið hússins og undirstöðu. Af þessu fór eg á fætur, til þess að líta eptir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk eg upp húsdyrum eldhúsmegin, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergin á lítilli stundu. Flúðum við þá í skyndi upp á húsloptið, hálfnakin upp úrrúmunum, því við óttuðumst, að við myndum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris; svo vissum við líka að allt umhverfis húsið var hulið sjó. Og megum við víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndisúrræði, því þá hefðum við öll farizt. Þarna stóðum við nú langan tíma á loptinu í sífelldum dauðans ótta, að veður og sjór mundi þá og þegar mola húsið niður að grundvelli. Ofviðrishrinurnar og brimið lamdi sífellt á húsinu, svo að það var nú farið að brotna, mótstöðuafl þess rýrnaði og sjórinn streymdi út og inn. Hér um bil kl. 7 (að við héldum) treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loptinu. Braut eg því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum (hálfnakin). Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en í staðinn var þar kominn hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, tilað komast inn. Þarna stóðum við skjálfandi nokkurn tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blaktaði fram og aptur, eins og blaðsnepill. Til þess enn að reyna að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagða kaupstaðinn, leiddumst öll saman og héldum áleiðis til bygða. Vóðum svo og skriðum í rokinu, unz við eptir miklar þrautirnáðum á næstu hjáleigu, er nefnist Lodda (Loðvíksstofa), rétt hjá Stafnesi.

Stafnes

Lodda.

Í Loddu tók Jón Björnsson, fátækur bóndi, og kona hans við fjölskyldunni, nærri „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki.“ Hafðist hún þar við í hálfan mánuð. Til þess að níðast ekki á gestrisninni frekar fluttist fjölskyldan í baðstofuna á eyðibýlinu Stafnesi. Þegar veðrinu slotaði og aftur fjaraði út var allt á tjá og tundri á Básendum: Eins og hr. sýslumaðurinn mun sjá eru húsin mín öll á verzlunarstaðnum sama sem hrunin að grundvelli, og bærinn, sem þar var, líka. Fólkið úr honum bjargaði sér upp um þekjuna, og tókst því þann veg um nóttina að bjarga lífi sínu, með guðs hjálp, nema aldraðri konu, sem veðrið lamdi niður, svo hún drukknaði í flóðinu. Eptir að hvíld og næði færðist yfir hagi mína hefi eg varið tímanum til þess að setja stoðir undir það, sem uppi hangir af húsaskrokkum verzlunarstaðarins, moka úr þeim fjörumölinni og grafa upp dótið mitt úr rústum þessa ömurlega staðar, svo og að safna saman borðum, trjám og brotum húsa (og húsbúnaðar). Við allt þetta árangurslitla strit, dag og nótt, er eg og konan orðin svo lasburða, að eg treysti mér tæplega að vinna lengur þetta erfiði. Og erfiðið verður því árangursminna, þar ekki þarf hér eptir að vonast eptir fólki til útróðra á þessum stað.
Var það hverju orði sannara. Í matsgerð yfirvalda um skemmdirnar á verslunarstaðnum fáum mánuðum eftir óveðrið segir: Verzlunarstaðurinn og umhverfi húsanna er svo hlaðið sandi, möl og grjóti, að það verður ekki lagfært til notkunar, nema með mjög miklum kostnaði, því hér eru [steinar], svo stórir, að naumast verða færðir úr stað af 6 mönnum, með tækjum, sem hér eru til. …
Verzlunarstaðurinn sýnist alveg óbyggjandi til frambúðar, því grundvöllurinn virðist vera 1 – 2 álnum lægri en áður.
Til frekara marks um hve hátt flóðöldurnar risu er að sjór komst hátt í 300 m upp fyrir verslunarstaðinn og rekadrumbur skolaðist upp á þakið á einu verslunarhúsinu meira en 2,3 m frá jafnsléttu.

Brennitorfuvík – Básendahöfn (lending)

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar stóðu á grjótrima milli tveggja víka. Í örnefnalýsingu Magnúsar Þórarinssonar segir: „Sunnan við malartangann hjá Básenda er ílangt lón, það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefur verið löngmilli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Básendahöfn mun heitaréttu nafni Brennitorfuvík.“ Enn má sjá merki um varir þar sem höfnin hefur verið.

Festarhringur (kengur)

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í þangi vaxinni klöpp, 42m niður frá suðvesturhorni húsgrunnsins mikla (vöruhúsið), er járnkarl velgildur en ryðbrunninn, greyptur og tinsteyptur við klöppina. Hann er um 15 sm á þykkt og 30 sm á hæð með áföstu hringbroti í gati ofarlega. „Þetta var hestasteinninn á hlaðinu, fyrir stjórnborðabeizli sjóhesta. [Aðrir festarhringir fundust ekki sem áttu að vera utar og í klöppum við suðurhlið legunnar. Þannig hafa skipin verið „svínbundin“ á báðar hliðar og frá báðum stöfnum.“ Svo segir í Blöndu, en Magnús Grímsson segir þau skip „svínbundin“sem bundin séu landfestum „svo að ei máttu snúast fyrir vindi.“
Samkvæmt heimildum ættu fleiri festahringir en sá sem lýst er að vera við leguna, en við vettvangskráninguna fundust þeir ekki. „Annar slíkur er dálítið utar, niður undan kotinu og eru tveir eða fleiri festarhringir þar á móti, í klöppunum við suðurhlið skipalegunnar,“ segir í Blöndu. Magnús Grímsson ritar að festarnar séu „5 á landskerjum eða landi, en 4 á útskerjum.“ Hann segist einungis hafa séð 2 þessara stólpa, fyrrgreindan og annan sem hringurinn var úr: „Sjómaður einn svarf hann úr með launung, en Stafnesbóndi komst þó að því um það leyti hann var ónýtur orðinn, hringurinn. Varð bóndi þá reiður, kvaðst ei vilja berja manninn, en á meðan hann lifði, mætti enginn hreifa neitt af menjum þessum.“

Fangamörk (áletur)

Básendar

Básendar – áletur.

Magnús Grímsson segir að við landfestar þær sem hann sá og hringurinn var úr hafi verið klappað í steininn fangamarkið ASS. Var honum sagt að á skeri einu væru ótal slík fangamörk, þ.e. að austanverðu við syðri voginn og kvað vera gengt í skerið á fjöru.

Básendar (býli)

Básendar

Básendar – bærinn.

Framan við Básenda er malartangi með sljóu horni. Er sagt frá því í ýmsum heimildum, þ. á m. í Blöndu, að þar hafi kotbær „staðið vestast á rimanum, má þar greina fimm sambyggðar kofatættur, þó að nokkru sé gróið yfir þær.“ Rústirnar eru mjög greinilegar og hafa veggir verið hlaðnir úr torfi og grjóti, veggjaþykkt er mest um 2 m en minnst 60 sm. Veggir eru frá 30 sm til 130 sm á hæð. – Um bæinn segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 að jarðardýrleiki sé óviss, ábúandinn Árni Þorgilsson, landsskuld engin í skjóli kaupmanna og að við til húsabótar leggi kaupmaður. Kúgildi var ekkert. Kvaðir voru engar nema þær að gæta búðanna meðan ei var eftir liggjari. Kvikfénaður fjórar ær sem gengu í Stafnesslandi, geldir sauðir þrír veturgamlir, tvö lömb, einn hestur; í óleyfi bóndans á Stafnesi allt saman. Grasnyt engin. Heimilismenn sjö. – Hér drukknaði að öllum líkindum konan í Básendaflóðinu 1799. Hún hét Rannveig Þorgilsdóttir, 79 ára gömul, og hafði verið niðursetningur á Básendum frá 1791 eða fyrr. Aðrir íbúar í kotinu höfðu bjargað sér upp um þekjuna, vinnumaðurinn Ásmundur Jónsson, vinnukonan Þjóðbjörg Jónsdóttir og húskonan Bergljót Arngrímsdóttir. Í matsgerð yfirvalda um tjónið á íslenska bænum segir samkvæmt Blöndu: „Fimm litlir kofar voru byggðir að íslenskum sið, úr grjóti og torfi. Hafa þeir hrunið og spýtur brotnað og skolast út, svo nú er þar umhverfis aðeins ein grjóthrúga.“
Í Blöndu segir: „Aust-suðaustur frá bænum (kotbær), 28 m frá honum, hefur staðið vöruhús mikið. Sér þar fyrir grunni sem er 20 m á lengd frá suðri til norðurs og 12-15 m á breidd, ef til vill með gangstétt.“ Enn má vel greina þessar rústir. Ekki eru neinar leifar af veggjum, enda hefur húsið sennilega allt verið byggt úr timbri. Það hefur snúið í S-N. Framangreind mál eru rétt og sjá mátti að stétt hefði verið fyrir framan húsið. Í Blöndu segir um mat fulltrúa yfirvaldsins á tjóni á „vöruhúsinu mikla“ eftir Básendaflóðið 1799:„Þar er undirstaðan farin undan norðurgafli og austurhlið, fóttré brotið og sigið um ½ alin. Helmingurinn af austurþekjunni er fokinn, og var þó tvöföld. Sperra hefur farið þar líka. Grjót og sandur hefur borist á gólfflötinn. Í norðurenda húss þessa ætlar kaupmaðurinn að þilja af litla sölubúð, til þess að geta haft þar vörusölu í sumar, því ekki er kostur á öðrum stað, fyrir vörur þær, sem von er á með skipinu þangað á næsta vori.“

Húsgrunnur (sölubúð)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Um 10 m austan við vöruhúsið er annar húsgrunnur samkvæmt Blöndu, „mun þar hafa verið sölubúðin.“ Grunnurinn að húsinu sést enn vel og er um 9 m á lengd og 6 m á breidd. Ekki sjást neinar leifar af veggjum, enda trúlega verið timburhús. Fulltrúar yfirvaldsins mátu skemmdirnar eftir sjávarflóðið 1799: „Syðri hliðin (= suð-suðvestur) var alveg farin og flotin burt, en hálf norðurhliðin opin, þar sem sjórið hafði brotizt í gegn. Hleðslan undan vesturendanum farin, svo það sem af húsinu hangir uppi, stendur á tveimur stafgólfum við eystri endann, og á litlum undirbita í miðjum vesturenda. Og kaupmaður hefur látið stoðir undir grindina hér og þar, svo húsið steyptist ekki á endann. Gólfið hefur sjórinn flutt með sér, en hlaðið möl og grjóti í aðsetursstaðinn („Værelset“ – austurendann) allt að 2 álnum á hæð.“

Hús kaupmannsins (bústaður)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

„Hússtæði kaupmanns hefur sennilega verið enn austar en vöruhúsið og sölubúðin, en í sömu röð. Þar er nú grastorfa yfir,“ segir í Blöndu. Við vettvangskráningu mátti greina rústir á þessum stað. Ekki var unnt að átta sig nákvæmlega á umfangi og gerð hússins, en nokkuð öruggt er að þetta eru leifar af húsgrunni. Hús kaupmannsins varð sævarrótinu 1799 að bráð. Af lýsingu kaupmannsins að dæma á flótta hans og fjölskyldu hans undan flóðinu, eins og hún kemur fyrir í Blöndu, var íbúðin nokkur herbergi og loft yfir þar sem unnt var að standa uppréttur. Að minnsta kosti tvennar dyr virðast hafa verið á húsinu því að kaupmaðurinn tiltekur að hafa opnað dyr eldhúsmegin eins og til aðgreiningar frá aðaldyrum. Fulltrúar yfirvaldsins mátu skemmdirnar og rituðu um íbúðarhúsið: „Það hefur farið eins [og sölubúðin], suðurhliðin burt, sú er að sjónum sneri, og sömuleiðis hálf norðurhliðin. Gluggar allir brotnir og burtu. Herbergi öll hlaðin sandi, 1-2 álnir á dýpt. Undirhleðslan umrótuð, en undirviðirnir og tvö stafgólfin í vesturenda hússins hafa bjargað því frá gjöreyðing.“

Lýsisbúð (búð)
„Í Básendaflóðinu árið 1799 eyðilagðist Lýsisbúðin, svo ekki er ein spýta eftir,“ sagði í mati fulltrúa yfirvaldsins á skemmdum eftir flóðið samkvæmt Blöndu: „og meira að segja hússtæðinu rótað burt, en í staðinn komin möl og sjávargrjót. Hús þetta byggði kaupmaðurinn í fyrra.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja, sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar lýsisbúðarinnar að vera því að þar virðist vera meira varðveitt en lýsing af lýsisbúðinni gefur til kynna. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Lifrarbræðsluhús (hús)

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Matsgerð yfirvalda vegna skemmda á húsum og munum í Básendaflóðinu 1799 greinir frá lifrarbræðsluhúsi: „Norðurgaflinn er brotinn og öll austurhliðin. Inni er 1½ alin af sandi og möl. Húsið væri nú hrunið alveg, ef ekki hefðu verið bornar að því stoðir eins fljótt og gert var.“ Svo segir í Blöndu. Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna leifar lifrarbræðsluhússins að vera, en sú ályktun byggist á því að þar stóð meira uppi eftir flóðið en af öðrum húsum sem ekki er unnt að staðsetja eða gera grein fyrir.

Húsgrunnur (hús)
Við vettvangsskráningu fundust norður af húsi kaupmannsins en sunnan við rústirnar þrjár leifar af grunni húss, trúlega timburhúss, sem örðugt er að greina hvaða tilgangi hafi þjónað, svo lítið hefur varðveist, heimild um lýsisbúð, heimild um litla vörugeymslu, heimild um skemmu, en einkum heimild um lifrarbræðsluhús. Lýsingin á lifrarbræðslunni virðist helst geta átt við þennan grunn af þeim mannvirkjum sem til er að dreifa. Um þetta verður þó ekkert fullyrt. Í grunni þessum fundust múrsteinsbrot.

Skemma (hús)
Fulltrúar yfirvaldsins tóku út húsin á Básendum eftir sjávarflóðið 1799 og segir í matsgerð þeirra samkvæmt Blöndu að skemman hafi verið „byggð að sið landsmanna, með þili, 4 stafgólf. Hún hefur sópast alveg úr stað.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar skemmunnar að vera, þó tæplega því að þar virðist meira vera varðveitt en lýsing af skemmunni gefur til kynna. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Vörugeymsluhús (hús)
Fulltrúar yfirvalda mátu skemmdirnar á Básendum eftir flóðið 1799 og sögðu um litla vörugeymslu samkvæmt Blöndu:„Gjörhrunið bæði þak og veggir. Bæði þessi hús voru byggð úr grjóti og torfi.“ Staðsetning er óviss. En við vettvangsskráningu fundust norðan við sölubúðina og íbúðarhús kaupmannsins leifar fjögurra mannvirkja sem ekki er vitað hvaða tilgang höfðu, svo illa voru þau farin. Meðal þeirra kunna fátæklegar leifar vörugeymsluhússins að vera því að þar virðist vera meira varðveitt en lýsing af vörugeymslunni litlu gefur til kynna.

Básendar

Básendar – garður.

Garður (garður)
Garðsbrot er norður af þeim stað sem vöruhúsið, sölubúðin, og hús kaupmannsins stóðu, að mestu hlaðið úr grjóti, mest um 1,2 m á breidd. Sést garður þessi best á 10-14 m kafla, er víðast horfinn, en sums staðar djarfar fyrir honum á yfirborðinu. Í Blöndu segir að garðurinn hafi legið „í hálfhring að ofanverðu kring um húsin og verslunarsvæðið, hann var byggður úr stóru grjóti, en skemmdist í Básendaflóðinu árið 1799.“

Fjós (hús)
Norðaustur af garðinum „er kálgarður eða rétt með hesthúsi, geymslu og fjósi að baki. Hús þessi hafa staðið hæst og norðaustur á rimanum og stendur enn meira og minna af grjótveggjum þeirra, eftir 125 ár.“ Svo segir í Blöndu sem skrifuð var á miðjum þriðja áratug 20. aldar. Verður að telja ólíklegt að um kálgarð hafi verið að ræða. Rústin er hlaðin úr grjóti og ber öll merki þess að vera rétt eða gerði, 14 m á lengd og breidd með inngangi á suðurhliðinni fast við vesturgaflinn. Yst er hólf, hugsanlega hesthús, 7m á breidd frá vesturgafli og 3 m á lengd, aðgreint frá réttinni með lágum vegg sem nú er hruninn. Viðbygging við norðurgaflinn er 12 x 3m að flatarmáli og skagar út frá vesturgafli réttarinnar eina 5 eða 6 m. Er gengið inn í viðbygginguna fram og utan með vesturgafli réttarinnar. Til vinstri þegar inn er komið er fjós, 5 x 3 m á stærð, en til hægri trúlega geymsla eða hesthús. Grjóthleðslurnar eru 30 til 80 sm á hæð, réttin heillegust. – Hingað virðist síðasti kaupmaðurinn á Básendum, Hinrik Hansen, hafa flúið meðfjölskyldu sinni í myrkrinu og vetrarkuldanum árla morguns 9. janúar 1799 þegar sjórinn var að mola undan þeim íbúðarhúsið í Básendaflóðinu: „Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur.“

Brunnur (vatnsból)

Básendar

Brunnur.

Í lægðinni, 100 m austar en réttin, var samkvæmt Blöndu vel upp hlaðinn brunnur, fullur af sandi. Viðvettvangsskráninguna fannst brunnurinn ekki, hvernig sem leitað var, sennilega er hann sokkinn auk þess sem gróður á svæðinu er mikill og hár og gerði að verkum að erfitt reyndist að leita.

Fiskbyrgi (geymsla)

Básendar

Fiskibyrgi.

Í Blöndu segir: „Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga úr einhlöðnu grjóti hafa verið þar á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu. Þar hefur fiskurinn verið hengdur á rár og hertur.“ Við vettvangsskráninguna var aðeins skráð eitt fiskbyrgi í landi Básenda. Það er með skeifulagi, hlaðið úr grjóti og stendur við matjurtagarðinn.

Brennitorfa (brenna)

Básendar

Brennitorfa.

Í örnefnalýsingu og heimildum er örnefnið Brennitorfa fyrir ofan Básendahöfn og áttu Básendamennað hafa haft þar brennur. „Básendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík,“ segir Magnús Þórarinsson. Ekki sáust nein ummerki um brennur á vettvangi.

Draughóll (þjóðtrú)

Í fleiri en einni heimild segir frá örnefninu Draughól og að hann sé sunnan við Brennitorfu. Að þar hafi verið dys kemur aðeins fram í greininni Fornminjar um Reykjanessskaga. Þar segir: „Nokkru sunnar, upp á hrauninu er hóll hár, sem kallaður er draughóll. Þar átti að hafa verið dys til forna, og rótuðu sjómenn henni alveg um. Þar fundu þeir lítið fémætt.“ Auðvelt var að þekkja þetta kennileiti, en ekki var hægt sjá neitt manngert við hóllinn eða í námunda hans.

Kaupstaðavegur (leið)

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Séra Sigurður B. Sívertsen segir um hina fornu og þá aflögðu leið í Lýsingu Útskálaprestakalls 1839: „Frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það var gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.“ Við vettvangsskráningu var leiðin gengin frá Kirkjuvogi að Þórshöfn. Þá var hún gengin frá Gálgaklettum að Básendum. Hún er á köflum frábærlega vel varðveitt. Víða meðfram götunni hafa myndast háir kantar eftir því sem grjót hefur verið tínt úr henni. Hún er tveggja hesta breið. Með leiðinni eru 10-15 vörður sem virðast fornar, en víða á Miðnesheiðinni eru nýlegar vörður.

Gamli Kirkjuvogur (býli)

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar er að finna eftirfarandi frásagnir:
Herjólfr hét maðr, Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Íngólfs landnámsmanns; þeim Herjólfi gaf Íngólfur land á milli Vogs ok Reykjaness.
Þórir haustmyrkr nam Selvog ok Krísuvík, en Heggrson hans, bjó at Vogi, en Böðmóðr, annar son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar.
Herjólfr, sá er fyrr var frásagt, var frændi Íngólfs ok fóstbróðir, af því gaf Íngólfr honum land á milli Reykjaness ok Vogs; hans son var Bárðr, faðir Herjólfs þess, er fór til Grænalands, ok kom í hafgerðingar […]
Nokkuð er nafn bæjarins á reiki, hann virðist ýmist kallaður Vogur eða Kirkjuvogur í gömlum heimildum. Líkur benda eindregið til að um sé að ræða einn og sama bæinn – og að bæst hafi framan við bæjarnafnið þegar kirkja var reist á jörðinni. Kenningar um að Djúpivogur við Ósabotna sé þriðja nafnið á sama bænum geta vart staðist því að í landamerkjabréfi frá 1270 segir: „En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsnessskilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi.“

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – bæjarhóllinn.

Hér virðist Djúpivogur vera bæjarnafn, en ekki annað nafn á Kirkjuvogi sem nefndur er í sömu málsgrein. Enda hafa Árni Magnússon og Páll Vídalín nokkurn fyrirvara á þegar þeir ráða í forn skjöl um að Kirkjuvogur hafi heitið Djúpivogur til forna.
Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16. aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.
Til forna lá jörðin hins vegar langt inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústa bunga, grasi gróin, sem snýr í suður-norður, rúmir 23 m á lengd, 10 m á breidd og hæst um 2 m. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðins brunns vestan við hann, en tóftir enn lengra í vestur sem gætu verið rústir útihúsa. Enn fremur eru greinilegar traðir frá bænum í norður upp á kaupstaðaleiðina. Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. Hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 verða válegir atburðir sem eru færðir í annála: “Á þessu ári gerðust þau hræðilegu tíðindi, að Þorleifur Þórðarson drap Þorbjörn prest Þorsteinsson í kirkju, suður á nesjum, í Kirkjuvogi, á Mikjáls-messudag, þá er hann var skrýddur og stóð fyrir altari. Síðan lagði þessi Þorleifur sjálfan sig með hnífi til bana í kirkjunni. Þorbjörn Þorsteinsson var prestur á Hvalsnesi,en hefur þjónað í Kirkjuvogi.”

Gamli-Kirkjuvogur

Gerði.

Tveir máldagar eða eignaskrár hafa varðveist um Vogskirkju. Sá eldri er í Hítardalsbók frá 1367. Það er þó aðeins ágrip af máldaga kirkjunnar, en allur máldaginn hefur varðveist í Vilchinsbók biskups í Skálholti frá 1397. Þar stendur: Maríukirkja í Vogi á þriðjung í heimalandi, hálft Geirfuglasker, tíu kýr, tvö hross kúgildi. Hún á viðreka önnur hver misseri millum Klaufar og Ósa, fimm álna tré og þaðan af stærri, og þriðjung í Valagnúpafjörum. Hún á Róðukross og með líkneski, Maríuskript, Pétursskript, tabulum [þ.e. töflu] fyriraltari og brík forna. Item [þ.e. einnig] messuklæði, kantarakápur tvær, glóðarker, glergluggur, klukkur fjórar, kaleikur brotinn og annar nýr minni, sloppur, bók er tekur tólf mánaða tíðir, allar nema seqventiur, og sérdeilis söng um Langaföstu, formælabók, Lectaresacrarium, munnlaug, tvær merkur vax, kola.Portio Ecclesiæ [þ.e. reikningur kirkjunnar] sérlega mörk. Item gafst kýr frá Galmatjörn að Kirkjuvogi. Portio xvc so langan tíma sem Svarthöfði átti jörðina.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll.

Kirkjan var í pápísku helguð Maríu guðsmóður og var rík af eignum, enda enginn vafi um að Kirkjuvogur hafi fyrrum verið höfuðból. Hafa ekki lítil hlunnindi verið að sækja í Geirfuglasker og eiga það hálft, en Kirkjubólskirkja og Hvalsneskirkja áttu sinn fjórðunginn hvor. Klettaeyja þessi var að stærð „hér um mældur kýrfóðurs völlur“ og svo mikil mergð svartfugls á henni „að engin sjást skil á neinu“; geirfugl þó ekki nærri eins mikill sem skerið hefur nafn til. Lending við skerið fór smáversnandi og strjáluðust ferðir þegar „á tvær hættur [var] að leggja líf og dauða þar upp að fara“ og mannskaðar urðu. Árið 1732 var gerð ferð í skerið í fyrsta sinn í 75 ár. Fundust þá skinin mannabein í skerinu og gátu menn sér til að dugga hefði orðið að skilja þar eftir mann sem settur hefði verið í land til að taka fugl og egg. Stef séra Hallkels á Hvalsnesi vottar að einnig gat verið illt að sækja í Geirfuglasker í fornöld þótt lending hafi áreiðanlega verið betri í þann tíð: Eg get ekki gefið mig í Geirfuglasker, eggið brýtur báran því brimið er. Um hættuför í Geirfuglasker orti Ólína Andrésdóttir í kvæði sínu Útnesjamönnum: Ekki nema ofurmenni ætluðu sér að brjótast gegnum garðinn kringum Geirfuglasker. Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för, en betri samt en björg að sækja í Básenda vör. Betri samt en björg að sækja Básendum að; ræningjarnir dönsku réðu þeim stað.
Nú eru Geirfuglasker, þetta mikla forðabúr, sokkin í sæ og brýtur á þeim á fjöru.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll.

Hinn 19. apríl 1467 selur Björn Þorleifsson Eyjólfi Arnfinnssyni jarðirnar Voga á Rosmhvalanesi og Gunnólfsá í Ólafsfirði fyrir fimm jarðir á Vestfjörðum.
Einn helsti fornfræðingur landsins um aldamótin 1900, Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, skráði minjar á Miðnesheiði. Á grundvelli þess að enginn bær hafi verið í Rosmhvalaneshreppi sem hét Vogar dró Brynjúlfur þá ályktun í skýrslu sinni að hér hlyti að vera átt við Kirkjuvog hinn forna.
Árni Magnússon og Páll Vídalín skráðu eftirfarandi um „gamla Kirkjuvog“ sumarið 1703 í Jarðabók:
Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé hvort hún liggi í Kirkjuvogs eður Stafness löndum, item að munnmæli séu að Kirkjuvogs bær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hver bær verið, Kirkjuvogur, sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er, að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því svo vel túnstæðið sem landið alt um kríng af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn, og er hér ágreiningur um landamerki.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – varða.

Tekið er fram að gamli Kirkjuvogur sé forn teyðibýli árið 1703. Í Jarðabók er enn fremur þetta skjal um jörðina, skrifað í ágúst sama ár í Kirkjuvogi í Höfnum:
Forn eyðijörð, hefur legið í auðn yfir stórt hundrað ár. Eru munnmæli að Kirkjuvogs bær sé þaðan fluttur, þangað sem nú stendur hann, og vill þá þetta bæjarstæði í Kirkjuvogslandi verið hafa. Aðrir halda að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi.
Hvað sem líður landamerkjadeilum varpa þessi gögn ljósi á að jörðin við norðanverða ósa hafi farið í eyði um 1580 eða þar um bil.
Bæjarhóllinn stendur við norðanverða Ósa. Hann er grasi gróinn, snýr í suður-norður, rúmir 23 m á lengd, 10 m á breidd og um 2 m þar sem hann er hæstur. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Ýmsar heimildir eru til um gamla Kirkjuvog og verður hér látið nægja að vísa í samnefndan kafla hér að framan.

Brunnur (vatnsból)

Gamli-Kirkjuvogur

Brunnur.

8 m vestur af bæjarhólnum er óvenjulega vel varðveittur brunnur, fallega hlaðinn úr grjóti, 1,30 x 1,50 m að utanmáli.

Túngarður (garður)
Ofan og norðan við bæjarhólinn eru ógreinilegar leifartúngarðs sem hefur verið hlaðinn úr grjóti.

Kirkjugarður (legstaður)

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera kirkjugarður, enda var Kirkjuvogur kirkjujörð. Heimildir herma að mannabein hafi verið flutt héðan í kirkjugarð í Kirkjuvogi í Höfnum, síðast um aldamótin 1800. Rústirnar eru ógreinilegar, en augsýnilega leifar mannvirkis.

Kirkjuvogssel (sel)

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Nokkuð langt austur af Hvalhólum er Kirkjuvogssel. Þar eru talsverðarrústir og nokkrar sagnir eru til um það. Í Rauðskinnu hinni nýrri segir Ólafur Ketilsson, refaskytta, frá viðskiptum sínum við draug í selinu. Heyrir hann kallað nafn sitt ótt og títt svo að hann herðir för sína til byggða, en það verður honum til lífs því að foráttuveður skellur á.

Hvalsnessel (sel)

Hvalsnessel

Hvalsnessel.

Í ofanverðri heiðinni eru tvær selstöður, önnur frá Stafnesi og hin frá Hvalsnesi. Báðar eru vel greinilegar (sjá má húsaskipan) á gróðnum bleðlum í annars viðfeðmum sandflákum.

Beinhóll (blóðvöllur)
„Þar var slátrað hrossum til refafóðurs,“ segir í örnefnalýsingu.

Hunangshella (þjóðtrú)

Hunangshella

Hunangshella.

„Við landsuðurhorn Ósanna hjá alfaravegi (Keflavíkurveginum) er flöt hraunklöpp, eigi alllítil, sem kölluð er Hunangshella,“ segir í Fornminjum um Reykjanessskaga eftir Magnús Grímsson: „Sagan segir, að dýr það, sem heitir finngálkn (þ.e. afkvæmi tófu og kattar), hafi lagzt á fénað manna og gjört tjón mikið. Reyndu menn til á ýmsa vega að drepa það, en gátu ei sökum styggðar þess og fráleika. Þá hitti maður einn upp á því að bera hunang á hellu þessa og lagðist þar hjá í leyni. Dýrið rann á lyktina og sleikti hunangið, því finngálkn eiga að vera mjög sólgin í það. Þar skaut maðurinn dýrið, en hellan er síðan kölluð Hunangshella.“ Ólafur Ketilsson, refaskytta, getur þess í framhjáhlaupum í draugasögu að hafa árið 1886 í desember tekið stefnuna á Hunangshellu á leið sinni til byggða.

Heimild:
-Fornleifaskráning á Miðnesheiði, Þjóðminjasafn Íslands, 2000.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Básendar

Gengið var um Básenda frá Stafnesi í fylgd Magnúsar frá Bala. Farið var um gömlu steinbrúna austan Básendahóls á leið að gamla brunninum austan gömlu búðanna. Brunnurinn er greinilegur. Efstu hleðslur sjást, en að öðru leyti er hann fullur af sandi. Í fornleifaskrá fyrir Básenda er brunnurinn sagður horfinn í sandinn. En raunin virðist önnur. Þá var gamla hústóttin á Básendum skoðuð, en bærinn, ásamt öðrum húsum, s.s. búðinni, lýsisbræðslunni, fjósinu og hlöðunni, eyðilögðust í Básendaflóðinu árið 1799. Verslunarhúsið var flutt í spýtum til Keflavíkur. Sjá má grunn hússins á Básendum.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Mesta flóð sem sögur fara af á Suðurnesjum og raunar landinu öllu er svokallað Básendaflóð, heitið eftir Básendum. Það er að öllum líkindum flóð sem aðeins gerist með mjög margra alda millibili. Í Suðurnesjaannál, Rauðskinnu hinni nýrri, er svohljóðandi lýsing:
“1799. Eftir nýár, aðfaranótt 9. janúar, gjörði ofsalegt sunnanveður af hafútsuðri, höfðu þó komið önnur lík, en eigi jafnmikil. Fylgdi veðri þessu mikið regn, þrumur og leiptranir í stórstraum og var himinninn allur ógurlegur að líta. Það með fylgdi óskaplegt stórbrim og hafrót með miklum fallþunga og ægilegri flóðbylgju. Urðu skemmdir miklar hvarvetna…. Í Grindavík eyðulögðust tún á tveim bæjum, og önnur stórskemmdust, fimm hjáleigur spilltust, sex skip brotnuðu, átta manns meiddust og hundruð fjár fórust….

Básendar

Básendar – bærinn.

Básendakaupstaðurinn hjá Stafnesi eyðilagðist alveg, því að öll höndlunarhús braut sjór og veður, svo að þar stóð ekkert eftir og rótaðist grundvöllurinn sjálfur, enda gekk sjór 164 faðma upp fyrir efstu hús kaupstaðarins. Fórst einn maður, en Hannes kaupmaður bjargaðist í dauðans angist með konu sína og börn hálfnakin heim að Loddu, hjáleigu frá Stafnesi. (Lodda er tóft austan við Stafnes, en fyrirhugað er að rissa Stafnessvæðið upp við tækifæri). Fiskigarðar og túngarðar á Nesinu sópuðust heim á tún, sums staðar tóku af skipsuppsátur og brunna og átta skip brotnuðu. Tveir bátar fuku í Njarðvíkursókn og fundust eigi síðan og einn brotnaði, 4 bátar í Útskálasókn. Miklir skaðar á Vatnsleysuströnd og Innnesjum og vestur um allt land, sem menn vissu ekki dæmi til eins stórkostlegt, um allt land á einni nóttu”.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Neðan tóttarinnar að norðanverðu er Básendavörin og má enn sjá för eftir kjalför bátanna á klöppunum. Austan tóttarinnar er gamla réttin og vestan hennar eru kengir, sem bátar í víkinni voru festir við allt frá því á 16. öld.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Ef vel er gáð má sjá einar 5 til 7 kengi með víkinni og á skerjum, en í allt eru þeir 9 talsins. Draughóll með dysinni upp á var skoðaður og síðan gengin gamla Hrossagatan yfir að Þórshöfn. Á leiðinni lýsti Magnús miðum og kennileitum, s.s. Svartakletti með ströndinni, en hann var notaður sem mið í Keili, Mjóuvörðu efst á Miðsnesheiðinni, en hún var notuð sem sundvarða o.fl. Á leiðinni fann göngufólk m.a. vínleirkúta í fjörunni og var tappinn enn í sumum þeirra.
Leitað var að áletruðu Hallgrímshellunni á holti norðan Þórshafnar og síðan litið á leturklöppina ofan hennar. Á henni má sjá ýmis ártöl og fangamörk. Í bakaleiðinni var komið við í Gálgum, gömlum aftökustað, sem heimildir eru
til um.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Gengið var í ágætu veðri. Rigningin beið uns göngunni var lokið. Til fróðleiks er gaman að geta þess að FERLIR hefur, þrátt fyrir reglulegar ferðir, einungis tvisvar lent í rigningu á ferðum sínum.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Portfolio Items