Þórshöfn
Farið var í Þórshöfn með Jóni Borgarssyni í Höfnum. Ætlunin var að finna og skoða festarhringina. Jón hafði séð hringina fyrir allmörgum árum ásamt Þóroddi Vilhjálmssyni frá Merkinesi og fleirum.
ÞórshöfnÁður en lagt var í’ann þurfti að sækja um leyfi til gegnumaksturs um Vallarverndarsvæðið. Með góðum skilningi og aðstoð góðra manna fengu nokkrir FERILRsfélagar heimild til að aka inn á Völlinn, í gegnum hann, út af honum að handan og inn á svonefnt DEY-5 svæði. Þar voru fyrrum stórir radarskermar sjóhers Bandaríkjanna sem og önnur hlustunarmannvirki. Nú hafa þau verið fjarlægð.
Við 100 milljóna króna aðallhliðið utan við varnarsvæðið fengust dvalarpassar fyrir þátttakendur eftir allnokkra, skemmtilega, en flókna rekistefnu. Ameríkanarnir vildu tala sitt tungumál, en innlendir, sem stóðu þarna á íslenskri grundu utan við sprengiheldan varðturninn, héldu sig við íslenskuna af grundvallarástæðum og það þrátt fyrir að sumir þeirra hafi bæði dvalið og numið ýmislegt af þarlendum í Ameríku um allnokkurt skeið. “Í Róm gera menn sem Rómverjar”, segir forn málsháttur – og FERLIR er þekktur fyrir að halda sig við fornar meðvitaðar venjur. Á sama hátt má lögjafna að á Íslandi geri menn sem Íslendingar. Á Íslandi tala menn íslensku og þar ráða Íslendingar ríkjum, þrátt fyrir og með fullri virðingu fyrir öllum gestkomandi. Frakkar tala t.d. ekki ensku í Frakklandi við Englendinga eða Ameríkana. Þeir tala frönsku þegar þeir eru í Frakklandi. Annars staðar tala þeir þarlend tungumál – af kurteisisástæðum. Mikilvægt er að Íslendingar og aðrir séu vel meðvitaðir hverjum landið tilheyrir (to whom the land belongs to). Sjálfstæði þjóðar byggir m.a. á meðvitundinni. Ef hún er ekki til staðar má gleyma öllu öðru.
Að frágenginni pappírsvinnunni undir byssubröndum og öllum mikilvægum formsatriðum var ferðinni haldið áfram. Jón Borgarson sat í framsætinu.
ÞórshöfnLæst hliðið að Þórshafnarsvæðinu varð hins vegar ekki auðopnað. Leitað var að lykli meðal varnarliðsins. Skotið var á samráðsfundi. Lykillinn fannst loks eftir nokkur símtöl og nokkrar komur og að mestu vinsamlegar athugasemdir varðliða meðan beðið var. Fyrst kom kurteis dökkur maður í hermannabúningi á hvítri Mitsubishi-jeppabifreið og sagðist eiga von á manni með lykilinn. Hann hafði úrið á hægri hendi. Þá komu gulur maður ásamt öðrum hvítum, á miklum hraða meðfram girðingunni í Mitsubishi-jeppabifreið, staðnæmdist og hrópaði að viðstöddum: “What in focking are you doing here”. Með kunnri yfirvegun FERLIsmanna tókst auðveldlega að útskýra viðveruna. Hermennirnir héldu för sinni áfram. Loks komu tveir vopnaðir ameríkanar, annar hvítur og hinn litaður, í hermannabúningum á staðinn. Sá litaði hafði úrið á hægri handlegg. Að loknum aðfinnslum og samningagerðum tóku þeir upp lykil, ýttu frá hindrunum og opnuðu lásinn á hliðinu. Við verkið notaði annar hermannanna framdregna lögreglukylfu.
Ferðalangarnir héldu að lokinni þessari skemmtulegu töf för sinni áfram áleiðis niður að Þórshöfn. Í umræðum á leiðinni var vakin athygli á því að sennilega væri þetta eitt stærsta og flóknasta viðfengsefni varnarliðsins í langan tíma – að hleypa nokkrum Íslendingum í gegnum varnarsvæðið (eigið land) og í gegnum hlið, sem enginn virtist vita um. Ekki er ólíklegt að skrifað verði um atburðinn í næstu útgáfu af “White Falcon”. Ef þessir, einna mestu Íslandsvinir er um getur, hefðu hugsanklega verið hryðjuverkamenn gegndi öðru máli. En þá hefðu þeir aldrei látið sér detta í hug að sækja um leyfi til gegnumaksturs um varnarsvæðið. Þeir hinir sömu hefðu einfaldlega ekið inn á það frá Hafnavegi eða með girðingunni frá Stafnesi. Þaðan væri leiðin greið inn á varnarsvæðið hvert sem þeir kysu.
ÞórshöfnÞegar komið var niður að Þórshöfn (þakka ber sérstaklega fyrir gegnumaksturinn því hann sparaði hlutaðeigendum þrátt fyrir allt umtalsverðan tíma) fannst Jóni Borgarssyni hann ekki alveg á eftirminnilegum grösum. Í innanverðri Þórshöfn stóð fyrrum stór ferhyrndur tréstöpull, grafinn djúpt niður í sandinn. Þar var fremsta festi hinna fornu verslunarskipa fyrirkomið. Nú hafði varnarliðið fjarlægt staurinn, enda var þarna um tíma einn ábyggilegasti hlustunarkafbátakapall NATOhersins. Enn má sjá stálhólka honum tengdum, en búið er að rífa allar byggingar og mannvirki ofan við Þórshöfn er þeirri sögu tengdist.
Gengið var bæði um sunnanverða og norðanverða Þórshöfn í leit að þeim festarhringjum er fyrrum staðfestu hin gömlu verslunarskip enskra og þýskra í höfninni.
Jón sagði að minni sitt frá því á áttunda áratugnum segði til um festarhringi á klöppum beggja vegna hafnarinnar. Í hans minni hafi hringirnir verið í festarhringjum á klöppum beggja vegna víkunnar. Margir hefu séð þá þarna sama sinni.

Þórshöfn

Áletranir á Köpp við Þórshöfn.

Höfnin í Þórshöfn er við austanverða Ósa þar niðurundan er fyrrum var athafnasvæði sjóhersins. Skammt norðar voru hinir eftirminnilegu radarskermar og það ekki af minni gerðinni. M.a. er þar áletrunin HP á sléttri jarðfastri klöpp undir klapparholti. Sumir vilja halda því fram að sammstöfunin eigi við Hallgrim Pétursson, prest í Hvalsnesi er einnig þjónaði Höfnum um tíma (eftir 1644). Skammstöfunin er á miðri jarðfastri klöpp utan í jökulsorfnu klapparholti. Umhverfis áletrunina eru síðan aðrar skammstafanir og jafnvel ártöl. Ofan við hlöppina eru áletrnir og útflúr. Til hliðar eru nýrri áletranir, m.a. frá 20. öld.
Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga.
ÞórshöfnMeð einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs. Sendu verslanir í Keflavík oft skip sín þangað með salt, timbur og aðra þungavöru en tóku í staðinn fisk af bændum á Miðnsesi og í Höfnum. Í byrjun 20. aldar fór skipakomum að fækka til Þórshafnar, enda tók Sandgerði þá við hlutverki verslunarstaðar á Miðnesi.
Ofan við Þórshöfn er varða og á hana fest upplýsingaspjald um Ósasvæðið. Þar segir m.a. af áletrununum og hugsanlegum fornminjum á svæðinu er komið gætu í ljós ef það væri kannað nánar,
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.
Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því seglbúnaður þess og reiði var horfinn að mestu leyti.
Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður.
ÞórshöfnÍ Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir. Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.
Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins og gerir því skóna að þetta hafi hugsanlega verið silfur. Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,,Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Isle hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.”
ÞórshöfnLágsjávað var þegar gengið var um hálar þaraklappirnar beggja vegna Þórshafnar, en án árangurs að þessu sinni. Bráðlega verður farið aftur sömu leið að Þórshöfn, enda ærin ástæða að staðsetja fyrrnefna festarhringi í þessari merkilegu verslunarhöfn forðum daga.
Litið var á álertunina á klöppununum ofan Þórshafnar. Á skilti í nýlegri vörðu ofan við Þórshafnarsvæðið er m.a. áletrað að “steinar með áletrunum er m.a. steinn með áletruninni HP. Engar fornminjar tengdum honum hafa fuundist, en mögulegt er að frekari fornleifarannsóknir myndu með öllum líkindum leiða ýmislegt í ljós á þessum slóðum”.
Ekki er ólíklegt að Jón Borgarson og félagar muni nú í framhaldi af þessu samræma minningar sýnar um festarhringina í Þórshöfn og að næsta ferð muni þá skila einhverjum árangri umfram það sem verið hefur.
Í bakaleiðinni var komið við í Gálgum. Roðagyllt kvölsskíman myndaði fagurfræðilegan bakgrunn fyrir dökka klettaborgina. Ljóst er að efst á henni virðist trjóna gróinn hóll, hugsanlega ókönnuð dys eða fornmannahaugur, enda staðurinn tilvalinn sem grafstæði. Utan í hólinn hefur verið lagt seinni tíma drasl. Eitt er þó deginum auglósara; þetta svæði þarf að gaumgæfa enn betur en gert hefur verið.
Frábært veður. Gangan um Þórshöfn tók 1 klst og 1 mín.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.