Geirfugl

FERLIRsfélagar voru á leið í Sandgerði og áttu stutt eftir ófarið þegar maður má segja hljóp í veg fyrir bíl þeirra. Maðurinn baðaði út öllum öngum og virtist hrópa: “Hann er ekki dauður. Hann er ekki dauður”. Allir önduðu léttar.

Geirfugl

Geirfuglinn í Sandgerðisfjöru.

Maðurinn benti áleiðis niður í fjöru. Stigið var út og maðurinn eltur. Þar staðnæmdist hann og benti á eitthvað sem virtist fugl. “Sjáið”, sagði hann og benti af enn meiri ákveðni. Myndavél var brugðið á loft og smellt af, en við það virtist fuglinn taka viðbragð og hvarf sjónum áhorfenda. Skv. síðustu rannsóknum eru fuglar taldir heyra 200 sinnum betur en menn. Mun það m.a. hjálpa þeim að rata langar leiðir. Eldey er hins vegar ekki svo langt frá Sandgerði.

“Nei”, það getur ekki verið, sagði hver ofan í annan. Síðasti geirfuglinn var drepinn í júní árið 1844 í Eldey. Síðan hefur hvorki sést slíkur fugl hér við land né annars staðar. Nema kannski sá uppstoppaði, sem keyptur var dýrum dómi (9.000 sterlingspund) til landsins frá Englandi árið 1971.
Geirfuglinn var um 75 cm á hæð á meðan hann var og lifði. Þessi var stór, a.m.k. 75 cm. Hann átti að vera frændi álkunnar. Þessi var mjög álkulegur á að líta.
Ákveðið var að koma við í Fræðasetrinu og bera málið undir Reyni Sveinsson, sem fylgist vel með öllu.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir sagðist aðspurður ekki alveg getað neitað því að hafa heyrt menn, sem höfðu það eftir öðrum, einkum upp á síðkastið, að þeir hefðu talið sig hafa séð geirfugl við Sandgerði, en sjálfur sagðist hann ekki hafa séð neinn slíkan. Nú myndi hann hins vegar gefa því mun betri gaum en áður því gaman væri að berja fuglinn augum ef hann væri þarna einhver staðar. Það væri þó ekki útilokað að einhver hefði tekið hann fyrir geirfugl því hann ætti tíðgengið um svæðið.
Og hver segir að eitthvað sé alveg útdautt þótt það hafi ekki sést um langan tíma. Ekki er alveg útilokað að einhver heppinn, sem á leið um fjörur Sandgerðis á næstunni berji eitthvað augum, sem ekki hefur sést alllangt.

Annars er hin opinbera saga geirfuglsins eftirfarandi:
Geirfuglinn (Pinguinus impennis) var ákaflega algengur á Norður-Atlantshafi fyrr á öldum, meðal annars undan ströndum Íslands, Færeyja og Grænlands, á nyrstu eyjum Bretlandseyja og við Noreg og Kanada. Talið er að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður en menn fóru að veiða hann í stórum stíl, en ekki er þó alveg ljóst hve stór stofninn var hér við land.

Geirfugl

Geirfugl – teikning.

Upp úr 1800 fór heldur betur að halla undan fæti hjá geirfuglinum sökum ofveiði. Aðallega voru það sjómenn sem veiddu hann á löngum veiðiferðum sínum á þessum slóðum enda var geirfuglinn stór og kjötmikill og auðveldur viðureignar enda ófleygur. Geirfuglinn var einnig veiddur vegna fjaðranna sem voru notaðar í fatnað.
Geirfuglinn var mjög stór fugl, rúmir 70 sentímetrar á lengd og langstærsti fuglinn í ættinni Alcae eða svartfuglaætt. Ýmsar aðrar tegundir í þessari ætt eru algengar hér á landi í fuglabjörgum allt í kringum landið eins og álka (Alca torda), langvía (Uria aalga), stuttnefja (Uria lomvia) og lundi (Fratercula arctica).
Ofveiði er sem fyrr segir meginástæða þess að geirfuglinn dó út en síðustu tveir fuglarnir voru veiddir í Eldey þann 4. júní 1844 þegar þrír íslenskir sjómenn, Sigurður Ísleifsson, Ketill Ketilsson og Jón Brandsson, voru beðnir um að safna nokkrum eintökum fyrir danska náttúrugripasafnarann Carl Siemsen. Þeir Jón Brandsson og Sigurður Ísleifsson fundu fljótt sinn fuglinn hvor og drápu en Ketill kom til baka tómhentur enda voru þá síðustu tveir geirfuglarnir fallnir í valinn og þar með lokið sögu þessara mörgæsa norðurhafanna. Sorgarsagan um örlög geirfuglsins staðfestir það að stjórnlausar veiðar geta þurrkað út tegundir á mjög skömmum tíma.

En nú virðist ekki öll von úti ef marka má nýlegar sagnir úr Sandgerði.

Geirfugl

Geirfugl á Reykjanesi.