Efra-Sandgerði er elsta íbúðarhúsið í Sandgerði. Nýlega komu snillingarnir í Lions, þeir Gunnar og Eðvarð, upp glæsilegu skilti við innkeyrsluna að húsinu. Á skiltinu er sögð saga hússins. Sagan ætti ekki að framhjá neinum því hún er sú sama á bak og fyrir:
Færslur
FERLIRsfélagar voru á leið í Sandgerði og áttu stutt eftir ófarið þegar maður má segja hljóp í veg fyrir bíl þeirra. Maðurinn baðaði út öllum öngum og virtist hrópa: “Hann er ekki dauður. Hann er ekki dauður”. Allir önduðu léttar.
Maðurinn benti áleiðis niður í fjöru. Stigið var út og maðurinn eltur. Þar staðnæmdist hann og benti á eitthvað sem virtist fugl. “Sjáið”, sagði hann og benti af enn meiri ákveðni. Myndavél var brugðið á loft og smellt af, en við það virtist fuglinn taka viðbragð og hvarf sjónum áhorfenda. Skv. síðustu rannsóknum eru fuglar taldir heyra 200 sinnum betur en menn. Mun það m.a. hjálpa þeim að rata langar leiðir. Eldey er hins vegar ekki svo langt frá Sandgerði.
“Nei”, það getur ekki verið, sagði hver ofan í annan. Síðasti geirfuglinn var drepinn í júní árið 1844 í Eldey. Síðan hefur hvorki sést slíkur fugl hér við land né annars staðar. Nema kannski sá uppstoppaði, sem keyptur var dýrum dómi (9.000 sterlingspund) til landsins frá Englandi árið 1971.
Geirfuglinn var um 75 cm á hæð á meðan hann var og lifði. Þessi var stór, a.m.k. 75 cm. Hann átti að vera frændi álkunnar. Þessi var mjög álkulegur á að líta.
Ákveðið var að koma við í Fræðasetrinu og bera málið undir Reyni Sveinsson, sem fylgist vel með öllu.
Reynir sagðist aðspurður ekki alveg getað neitað því að hafa heyrt menn, sem höfðu það eftir öðrum, einkum upp á síðkastið, að þeir hefðu talið sig hafa séð geirfugl við Sandgerði, en sjálfur sagðist hann ekki hafa séð neinn slíkan. Nú myndi hann hins vegar gefa því mun betri gaum en áður því gaman væri að berja fuglinn augum ef hann væri þarna einhver staðar. Það væri þó ekki útilokað að einhver hefði tekið hann fyrir geirfugl því hann ætti tíðgengið um svæðið.
Og hver segir að eitthvað sé alveg útdautt þótt það hafi ekki sést um langan tíma. Ekki er alveg útilokað að einhver heppinn, sem á leið um fjörur Sandgerðis á næstunni berji eitthvað augum, sem ekki hefur sést alllangt.
Annars er hin opinbera saga geirfuglsins eftirfarandi:
Geirfuglinn (Pinguinus impennis) var ákaflega algengur á Norður-Atlantshafi fyrr á öldum, meðal annars undan ströndum Íslands, Færeyja og Grænlands, á nyrstu eyjum Bretlandseyja og við Noreg og Kanada. Talið er að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður en menn fóru að veiða hann í stórum stíl, en ekki er þó alveg ljóst hve stór stofninn var hér við land.
Upp úr 1800 fór heldur betur að halla undan fæti hjá geirfuglinum sökum ofveiði. Aðallega voru það sjómenn sem veiddu hann á löngum veiðiferðum sínum á þessum slóðum enda var geirfuglinn stór og kjötmikill og auðveldur viðureignar enda ófleygur. Geirfuglinn var einnig veiddur vegna fjaðranna sem voru notaðar í fatnað.
Geirfuglinn var mjög stór fugl, rúmir 70 sentímetrar á lengd og langstærsti fuglinn í ættinni Alcae eða svartfuglaætt. Ýmsar aðrar tegundir í þessari ætt eru algengar hér á landi í fuglabjörgum allt í kringum landið eins og álka (Alca torda), langvía (Uria aalga), stuttnefja (Uria lomvia) og lundi (Fratercula arctica).
Ofveiði er sem fyrr segir meginástæða þess að geirfuglinn dó út en síðustu tveir fuglarnir voru veiddir í Eldey þann 4. júní 1844 þegar þrír íslenskir sjómenn, Sigurður Ísleifsson, Ketill Ketilsson og Jón Brandsson, voru beðnir um að safna nokkrum eintökum fyrir danska náttúrugripasafnarann Carl Siemsen. Þeir Jón Brandsson og Sigurður Ísleifsson fundu fljótt sinn fuglinn hvor og drápu en Ketill kom til baka tómhentur enda voru þá síðustu tveir geirfuglarnir fallnir í valinn og þar með lokið sögu þessara mörgæsa norðurhafanna. Sorgarsagan um örlög geirfuglsins staðfestir það að stjórnlausar veiðar geta þurrkað út tegundir á mjög skömmum tíma.
En nú virðist ekki öll von úti ef marka má nýlegar sagnir úr Sandgerði.
Farið var að Stafnesi, rifjuð upp sagan af gamla manninum og tilurð nafnsins, skoðaður dómhringurinn og brunnurinn við hið gamla Lindarkot.
Á Básendum var litið á einn stálkenginn, sem konungsskipin voru bundin við fyrr á öldum og gengið um garða og tóttir gamla bæjarins, sem var “dæmigerður íslenskur torfbær”. Skoðaðar voru undirstöðurnar undir gömlu verslunarhúsin og Básendaflóðið 1799 rifjað upp, en í óveðrinu lögðust flest húsin af sem og mörg hús önnur við suðvesturströndina, bátar flutu upp og brotnuðu og fólk og skepnur drápust.
Haldið var að Gálgum, sem eru tvær klettaborgir og forn aftökustaður innan verndarsvæðisins. Þaðan var haldið niður að Þórshöfn. Brimið fór mikinn og í gegnum það glytti í Hafnir sunnan Ósa. Útsýnir var stórbrotið og skýheft sólarbirtan gaf umhverfinu dulrænan blæ. Eftir nokkra leit fannst jarðfasti klapparsteinninn með áletruninni HP auk annarra stafa og ártala. Gerð verður tilraun til þess síðar að rýna nánar ofan í letrið á steininum.
Letursteinninn við Kistugerði.
Gengin var hin Gamla gata til baka að Stafnesi. Leitað var að “Hallgrímshellunni” með áletrunni HP16??, en hún á að vera þarna á klapparhrygg við vörðubrot. Hún fannst ekki að þessu sinni. (Sjá nánar.) Á leiðinni fannst enn ein fjárborgin, nú ofan Básenda. Hún var staðsett og skráð á GPS-tækið.
Frá Stafnesi var haldið að Skagagarðinum mikla og hann skoðaður og metinn. Við enda hans, Útskálamegin, var gengið að fornmannagröf norðan Vegamóta. Yfir gröfinni er stór hella og áletrun yfir hana miðja. Einungis ein gömul heimild er um hellu þessa sem og þjóðsöguna, sem að henni lítur. Sagt er frá henni í annarri FERLIRslýsingu.
Farið var í Kistugerði og litið á Kistuna og rúnasteininn neðan hennar. Kistan á að vera, skv. þjóðsögum, gömul fornmannagröf. Flestir þekkja söguna af gullkistunni, sem þar á að vera. Rúnasteinninn liggur nú nokkuð frá gröfinni, en bændur, sem grófu í Kistuna færðu hann úr stað á sínum tíma. Garðbúar hafa af miklli samviskusemi merkt merka staði í grennd við Garð, þ.á.m. Kistugerði, en því miður á röngum stað.
Frábært veður.
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1951 fjallar Helgi S. Jónsson um “Hallgrímskirkju á Hvalsnesi”:
“Út við gráa sanda, á milli Stafness og Sandgerðis á Rosmhvalanesi, skagar Hvalsnesið í sjó fram. Þar eru veðrabrigði auðsæ, því brim leggur þar að landi ef sjór gerist úfinn á hafii úti.
Hvalsnes er hvorki merkara nje ómerkara en fjöldi annara staða á þessu landi. Fyrir augum flestra, sem aka þar hjá, er Hvalsnes aðeins fátæk bygð, með lítilli hlaðinni steinkirkju og bárujárnsbæ, hvar gamall kirkjugarður hreykir sjer hið eystra. Ef þú stöðvar farkostinn við túnfót og rennir augum yfir staðinn, þá vakna margar spurningar um fortíð hans og má ske framtíð. Þeim spurningum er flestum best svarað í viðræðum við þá mágana Gísla og Magnús á Hvalsnesi, sem eru margfróðir, þjóðlegir, hagleiks og dugnaðarmenn.
Við knýum dyra að Hvalsnesi og finnum þar forna höfðingslund — boðið er til stofu, þó Gísli bóndi sje að verkum í fjósi. Hann er djákni í Hvalsneskirkju og mágur hans, Magnús, er þar organleikari og hefur verið það hart nær 30 ár.

Magnús Pálsson á Hvalnesi – 1892-1970.
Við göngum frá bænum eftir steinlögðum stíg, meðfram þeim gamla Guðs-akri, Hvalsneskirkjugarði. Þar hvíla gamlir sóknarar til lands og sjávar, svo og riddarar Fálkaorðunnar og nafnlaust fólk með steinlausa græna torfu að skjóli.
Við fyrstu kynningu er Hvalsneskirkja frábrugðin öðrum stöllum sínum hjerlendis, hún er opin — ólæst — í trausti þess að kristið fólk gangi þar um. Hið innra er hátt til lofts þó ekki sje vítt til veggja og kærleiki fólksins sem á kirkjuna, hefur að 20. aldar sið látið mála hana bronsí og olíufarfa. Mislitt gler var látið í glugga, þó litar á birtunni gæti mjög skammt og kirkjan því altof björt, sem aðrar hjerlendar. Yfir litlu altari er mynd eftir Sigurð Guðmundsson, málara (1867). Myndin er af hermönnum Rómaveldis, sem falla til jarðar fyrir ásjónu Krists, og er það vel á bríkum altaris eru messuklæði prestsins að Útskáum, en dúkur sá er barnsmóðir Rauðhöfða skildi eftir, er horfinn og lifir nú aðeins þjóðsagan um þann atburð.

Hallgrímur Pétursson.
Við Hvalsnes er tengd minning mikils andans frömuðar, eða rjettara sagt, að mikill andans maður er tengdur við Hvalsnes. Þangað kom Hallgrímur Pjetursson fátækur og vegalaus, til þess að þjóna þeim drotni, er hann síðar söng svo dýrðlegt lof.
Um Hallgrím eru engar minjar á Hvalsnesi. Steinn sá, sem sagt er að hafi átt að vera yfir Steinunni, 4 ára dóttur hans, er með öllu horfinn, en sannað þykir að þessi litla dóttir hans hafi andast að Hvalsnesi. Sagt er að steinninn hafi verið merktur: St. H. D. 16. 4. 1649. Það sem síðast er vitað, er að steinninn var notaður í gangstjett heim til kirkjunnar, en sjest nú hvergi.
Steinar glatast og hverfa fyr en munnmæli: — steinninn, sem sálmaskáldið mikla grjet við, er farinn veg allra vega, en sögnin um hann lifir. Heimildir geta lítið um dvöl Hallgríms Pjeturssonar að Hvalsnesi, nema helst til þess, sem miður má fara. Þrátt fyrir það er hann ein sú persóna hins liðna, sem nú er í mestum hávegum höfð.

Tyrkja-Gudda – málverk Jóhannesar Kjarvals.
Sagt er að Hallgrímur hafi fundið meðal þeirra, sem aftur komu úr Tyrkjaherleiðingunni, konu þá er hann feldi hug til, sem Guðríður Símonardóttir hjet, en sagnir kalla jafnan Tyrkja-Guddu. — Þau komu til Keflavíkur 1637 og fekk Hallgrímur þá vinnu hjá dönskum kaupmanni þar, en þau virðast hafa búið hjá Grími Bogasyni í Ytri-Njarðvík, því þar ól Guðríður son þeirra Eyólf. Þá eins og endranær reis smámenskan upp á móti ástinni og dæmdi kærleika þeirra Guðríðar og Hallgríms frillulíf, en ekki hórdóm, því fyrri maður Guðríðar reyndist dáinn áður en ást þeirra bar ávöxt.
Margar sögur eru til um komu Hallgríms Pjeturssonar að Hvalsnesi. Sumar telja að hann hafi komið þangað fyrirmannlega, ríðandi sínum eigin Eik, er Skálholtsbiskup hafi gefið honum, sakir góðs þokka. Aðrar sögur segja að hann hafi komið að Hvalsnesi all förumannlegur og illa til fara, kom hann þar á bæ nokkurn og baðst hressingar, sem honum var veitt, og átti hann að launa beinan með nýum frjettum þar í fásinninu. Hafði hann fátt tíðinda að segja annað en að búið væri að vígja Hallgrím Pjetursson að Hvalsnesi. Varð þá kerlingu einni að orði þetta landfræga svar: „Allan fjandann vígja þeir.”
Hvernig sem sagnirnar reika virðist það staðreynd að Hallgrími Pjeturssyni er veitt Hvalsnes 1644 og þjónaði hann þar, búandi við hrekkvísi, eymd og fátækt í 7 ár, eða þar til hann fekk veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Þar um mun mestu hafa ráðið vinsemd Brynjólfs biskups í Skálholti.
Það er ekki greiðfært að rekja sögu kirknanna að Hvalsnesi, þó má í elstu heimildum finna, að fyrsta kirkjan þar er vígð heilagri Maríu og öllum heilögum, árið 1370 og var þá presti fenginn bústaður að Nesjum og gert að flytja messu annan hvern helgan dag að Bæjaskerjum, en þar mun þá hafa verið bænahús eða kapella. Örnefni benda til þess að svo hafi verið, því enn heitir þar Kirkjuklettur.
Allar Hvalsneskirkjur, til forna, munu hafa verið bygðar úr torfi og grjóti, sem er lítt varanlegt efni og því fæstar átt sjer mjög langa sögu. Það er aðeins unt að rekja byggingasögu þeirra aftur á bak, með nokkrri vissu, til fyrrihluta 19. aldar.
Árið 1814 er Hvalsneskirkja lögð niður með konungsbrjefi og sóknin lögð til Útskála. Var svo fyrir mælt að kirkjan skyldi rifin, en ilt reyndist að fá menn til verksins. Um síðir rjeðust 4 menn til að rífa kirkjuna og hlutu 3 þeirra vofveiflegan dauða að verkinu loknu, en hinn fjórði lamaðist og lá rúmfastur í 15 ár. Maður sá hjet Erlendur Guðmundsson og bjó á Kirkjubóli. Var síðan kirkjulaust að Hvalsnesi í 6 ár, eða til 1820, en þá hóf Tómas Jónsson hinn ríki, smíði nýrrar kirkju og var hún gerð af timbri, með standandi klæðningu og tjörguð hið ytra.
Þegar kirkjan var risin af grunni fór Erlendur á Kirkjubóli að telgja með hníf sínum skírnarfont handa kirkjunni og sóttist smíðin seint, sem von var, en þegar henni var lokið og skírnarfonturinn vígður, þá hvarf lömun Erlendar og hann fekk fulla heilsu. Skírnarfontur þessi er enn í Hvalsneskirkju og á honum tinskál sem ber ártalið 1824. Þau árin sem kirkjulaust var á Hvalsnesi eru til annála færð sem hin mestu fiskleysis og annara hörmunga ár þar um slóðir. Eftir 1820 verður konungskirkja á Hvalsnesi, en um 1860 er Hvalsnes í eigu Kotvoga í Höfnum og lætur Ketill í Kotvogi þá hefja þar kirkjubyggingu og var sú kirkja úr timbri og stóð fram til þess að núverandi kirkja var bygð, því hvelfing í lofti er úr eldri kirkjunni, svo og predikunarstóllinn, en hann er smíðaður úr Mahognitrje einu, sem rak á Bústhúsafjörur. Svo vænt var trje það, að einnig voru smíðuð úr því tvö stór borð, sem nú munu glötuð.
Stærri kirkjuklukkan mun hafa kallað til messu í þremur kirkjum, því á hana er letrað “T. Ionsson — Hvalsnes 1820” og er klukkan mjög hljómfögur og steypt í Kaupmannahöfn. Allar kirkjurnar, fyrir utan þá sem nú stendur, voru innan kirkjugarðs og hafa vafalítið staðið allar á sama stað, sem ráða má af uppgreftri, síðan farið var að grafa í gamla kirkjustæðið, sem nú er í vesturenda hins nýstækkaða kirkjugarðs.

Ketill Ketilsson í Höfnum.
Það tilefni er talið til byggingar núverandi kirkju, að eitt sinn var Ketill bóndi í Kotvogi við fermingarmessu að Hvalsnesi og komust þá ekki allir kirkjugestir inn. Ketill kvað að svo búið mætti ekki standa að þeir sem messu vildu hlýða væru utandyra. Skömmu síðar ljet Ketill hefja byggingu nýrrar kirkju, sem reist var fyrir utan garð, á hól nokkrum skammt frá.
Kirkjan er hlaðin úr tilhöggnu grjóti. Smiður var Magnús Guðmundsson frá Reykjavík en hleðslu annaðist Magnús múrari frá Miðhúsum, en hann mun hafa dáið meðan á verkinu stóð, en það tók 3 ár að fullgera kirkjuna.
Í sama mund var Ásbjörn Ólafsson í Njarðvík að láta hlaða kirkju þá sem enn stendur í Innri-Njarðvík. Metingur var á milli höfðingjanna um það hver byggði stærra og sigraði Ketill þar, svo sem sjá má, því báðar eru kirkjurnar eins, nema Hvalsneskirkja er nokkru stærri.
Núverandi Hvalsneskirkja er vígð 1887 og þjónað af Útskálapresti, sem einnig þjónar fjórum öðrum kirkjum og gætir eins af stærstu prestaköllum landsins.
Hvalsneskirkja er máttug og góð til áheita, um það eru margar sagnir en jeg kann þær fæstar. Þó hafa núlifandi menn sagt mjer nokkrar sem þeir vita deili á og telja sannar. Ein þessara sagna greinir frá Hákoni bónda að Stafnesi. Hann var skytta góð og stundaði tófuveiðar. Eitt sinn var hann í tófuleit skammt frá Stafnesi og komst þá í kast við sjóskrímsli eitt ferlegt. Berst viðureign þeirra sunnan undir túngarð og þótti Hákoni sinn hlutur óvænkast. Hjet hann þá að gefa Hvalsneskirkju gjöf nokkra ef hann slyppi frá skrímslinu. Brá þá svo við, að hann komst innfyrir túngarðinn sem gerður var úr háum rekaplönkum og skildi þar með þeim Hákoni og skrímslinu. Hákon færði kirkjunni ljósahjálm mikinn — 12 kerta — sem nú hangir næst altari og sannar þessa sögu.
Tveir aðrir ljósahjálmar eru í kirkjunni og er annar til minningar um Ólaf Sigurðsson frá Hvalsnesi en hinn gjöf frá Guðmundi bónda í Nesjum og má vera að einnig sá hjálmur sje áheit.
Kirkjudyr horfa beint móti innsiglingunni um Hvalsnessund, sem oft er brimsöm og vart fær á stundum. Liggur sundið fyrir opnu hafi og brimar því oft skjótt og illa.
Sú venja hefur haldist frá ómunatíð að opna kirkjudyrnar þegar sundið brimar og fullyrtu þeir Hvalsnesbændur, Gísli og Magnús, að aldrei hefði farist bátur fyrir opnum kirkjudyrum.
Vantrúarsvipur minn mun hafa valdið því að Magnús Pálsson, organisti og fyrverandi sjósóknari, krosslagði sínar sigggrónu hendur á brjósti og sagði eigin sögu: „Við vorum á sjó þegar sundið brimaði snögglega. Er við komum að fjell á fjórum og var lending með öllu ófær. Rjett þegar við vorum að snúa frá og freista lendingar annarstaðar, þá voru kirkjudyrnar opnaðar og gerði samstundis sljett lag og við rjerum inn svo sem í logni væri. Þegar skip mitt var komið í vör, hóf brimið sig á ný og hefði þá enginn mátt landi ná. — Best er að hver trúi því sem hann vill um kirkjunnar mátt — en sjálfur veit jeg hver hastar á vind og sjóa lægir —”.
Við göngum út á hlaðið, þar sem gamall myllusteinn liggur í stjett, og lítum yfir staðinn. — í kirkjugarðinum er verið að steypa nýmóðins rúmgafla og gamlir legsteinar hallast. Hvalsneskirkju — undur fagra og samræmda í ytri línum, ber við regngráan himininn. — Um þessa kirkju veit jeg lítið, nema að það er sál kirkjunnar — gleði og sorg kynslóðanna, sem gefa henni eilíft líf. Því löngu eftir að trúin er týnd, bera steinar þessara veggja því vitni, að einu sinni var samband milli guðs og manna.”
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 47. tbl. 24.12.1951, Hallgrímskirkja á Hvalsnesi – Helgi S. Jónsson, bls. 596-600.
Í Faxa 1980 spyr Skúli Magnússon “Hvort er réttara; Býjasker eða Bæjarsker?“
“Halldóra á Bæjarskerjum sendi Faxa pistil um örnefnið Bæjarsker, sem birtist í 2. tbl. 1980. Hallaðist hún jafnvel að því að kalla eigi jörðina Býjasker. Vitnar hún þar í nokkrar heimildir frá seinni tímum máli sínu til stuðnings.

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan Reykjanesskaga. Væntanlega heftir Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög. Víkin fyrir innan eyrina var kölluð Sandgerðisvík. Víkin þótti ákjósanleg til útgerðar mótorbáta. Fyrsti mótorbáturinn, sem kom til Sandgerðis, hét Gammur RE 107. Kom hann 4. febrúar 1907 og komu þar með mótoristar til starfa. Sá fyrsti hét Olaf Olsen, sem var síðar þekktur maður í Njarðvíkum.
Meðal annars til ritgerðar eftir Magnús Þórarinsson frá Flankastöðum. Líklega mun óhætt að treysta frásögnum hans, enda hefur maðurinn skráð einhverjar bestu ritgerðir sem til eru um Suðurnes. Greinarnar eru nákvæmar, á góðu máli og bera vott um mikla glöggskyggni höfundarins á umhverfi sitt. Bókin “Frá Suðurnesjum“, sem út kom 1960, er að miklu leyti handverk Magnúsar, og ber þess glöggt vitni. Þátturinn um leiðir og örnefni á Miðnesi er t.d. stórmerkur og virðist traust heimild. Bókin er eflaust sú besta sem komið hefur frá Suðurnesjum, enda skrifuð af heimamönnum, er þekktu nágrenni sitt allt frá æsku.
En svo ég snúi mér að efninu var erindið að skýra frá nokkrum niðurstöðum, sem ég fann, eftir að hafa kannað lítillega heimildir um örnefnið Býjasker.
Eftir því sem ég komst næst við lestur Fornbréfasafnsins, sem er ein aðalheimild Íslendingasögunnar, hefur snemma orðið venja að skrifa „Býja-” í stað „Bæjar-“. Í nafnaskrá Fornbréfasafns er orðið býr gefið upp í merkinu bær. Vel má vera að þarna liggi ráðningin. Í orðabók Menningarsjóðs er hins vegar talað um býjarbyggð, “að hafa býjarbyggð”, í merkingunni að annast févörslu. Orðið er gamalt og tíðkast lítið í nútímamáli. Einhverjum kynni að detta í hug skyldleika orðsins við dönsku, jafnvel að áhrifa gæti þaðan. Ekki þarf það að koma til greina, þar eð orðmyndin „Býja-” kemur strax fyrir um 1270. Skyldleiki getur hafa orðið við norskuna, enda höfðu Íslendingar meiri samskipti við Norðmenn á þessum tíma, en suður til Danmerkur.
Nafnið Bæjarsker kemur fyrst fyrir í Landnámu. Þar er frásögn af hólmgönguáskorun Hrolleifs í Heiðabæ í Þingvallasveit gegn Eyvindi í Kvíguvogum syðra.
Segir, að þeir hafi í staðinn „keypt löndum. Eyvindr bjó nokkra vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja …”. (Ísl.sögur I, bls. 230-31. Rvík 1953).
Fram að þessu hefur gullaldarmálið staðið fyrir sínu, og trúlega er þetta upphaflegur ritháttur nafnsins. En er á leið breyttist orðið í meðförum, og um 1270 er það: „bíasker”, í skrá yfir hvalskipti Rosmhvelinga, sem prentuð er stafrétt í Fornbréfasafni. (II. bindi, bls. 77).
Í Hítardalsbók, sem hefur að innihalda kirknaskrá, frá um 1367, (handritið talið skr. um ca. 1650), er rætt um „Býjasker”. (Fornbr.sa. III, bls. 221). Á Bæjarskerjum var þá kirkja, helguð heilögum Úlafi Noregskonungi. Þarna kemur nafnið fyrst fyrir í núverandi mynd. Er það síðan skrifað þannig allar götur til 1570, nema í reikningum Kristjáns skrifara á Bessastöðum. Þeir reikningar eru yfir tekjur af konungsjörðum víða um land fyrir árin 1547-48. Þar er jörðin kölluð „Beersker”. Trúlega kennir þar þýskra áhrifa, enda var Kristján ættaður frá Þýskalandi (Fornbr.s. XII, bls. 116). Hins vegar kemur fram í VII. bindi Fornbréfasafns, bls. 53, að máldagi Brautarholtskirkju á Kjalarnesi, var lesinn upp, á héraðsþingi á „Bæjarskerjum” 6. febr. 1749. Máldaginn var hins vegar frá miðöldum og hefur trúlega verið lagður fram sem sönnunargagn í einhverju máli, sem þá var háð. Þarna kemur orðið í ljós, við upplestur og bókfærslu á 18. öld.
Ekki hafði ég tíma til að kanna ítarlega Alþingisbækurnar, gerðabækur þingsins, allt frá miðöldum, sem eru önnur aðalheimild (Íslandssögunnar, ásamt Fornbréfasafni). Einnig Alþingisbækur eru gefnar út stafrétt, og hafa því töluvert málsögulegt gildi. En við lauslegt yfirlit bókanna sýndist mér, að þar kæmi oftar fyrir Býjasker en Bæjarsker.
Ég hygg að Bæjarsker sé upphaflega nafngiftin, og skírskota þá til Ara fróða.
Fljótt virðist málvenjan hafa orðið Býjasker, sú orðmynd orðið algengust, en hin horfin. Því er ekki óeðlilegt þó gamalt fólk hafi notað meir það orð. Síðan hefur nafngiftin komist á prentaðar bækur og loks á landakort á 19. öld.
Sjálfur finnst mér fara betur í málinu orðið Bæjarsker en Býjasker. Hið seinna er svolítið dönskuskotið þrátt fyrir allt. Ég held því, að það sé ekki röng þróun þó jörðin hafi [í seinni tíð frekar gengið undir nafninu Bæjarsker, því líklega er það upphaflega nafnið.” – Skúli Magnússon
Í tveimur tölublöðum Faxa 1983 fjallar Halldóra Thorlacius um Jón Jónsson, bónda, og ættbálk hennar á Bæjarskerjum:
“Á Bæjarskerjum í Miðneshreppi býr Jón Jónsson, 87 ára gamall. Hann er fæddur laugardag í mið-þorra 1896.
Jón segir svo frá: “Á Bæjarskerjum hefur sama ættin búið í 128 ár. Árið 1855 fluttist afi minn, Oddur Bjarnason austan úr Vestur-Skaftafellssýslu til Suðurnesja. Keypti hann Bæjarskerin og bjó þar til æviloka.
Með honum komu, faðir hans Bjarni Oddson, eiginkona Guðný Sveinsdóttir og börn þeirra, Bjarni, Ragnhildur og Jón faðir minn. Hann var fæddur að Borgarfelli 13. apríl 1855 og því ekki nema rétt mánaðar gamall þegar foreldrar hans lögðu upp í þessa löngu ferð, sem tók hálfan mánuð.
Nærri má geta að það hefur verið erfið ferð fyrir móður og barn að fara þessa löngu leið. Á þessum tíma voru vegir ekki eins góðir og nú gerist. Aðeins hestavegir og óbrúaðar ár. Ekki er heldur víst að hestar hafi verið til fyrir alla fjölskylduna.
Árið 1870, 4. febrúar, varð afi minn úti á Miðnesheiði. Hafði hann farið til Keflavíkur í kaupstaðarferð. En þangað voru flestar vörur sóttar á þeim tíma. Oft kom það fyrir að menn voru ekki vel búnir þegar farið var að heiman. Þegar svo til Keflavíkur kom þurftu þeir að bíða hálfu og heilu dagana eftir afgreiðslu. Þeir voru orðnir þreyttir og svangir þegar lagt var aftur af stað á heiðina. Þó Miðnesheiði þyki ekki erfið yfirferðar nú voru vegir lélegir á þessum tíma og kennileiti fá. Þá var hún villugjörn í stormum og stórhríð á vetrum.
Þegar afi minn dó var faðir minn 15 ára. Hann varð aðalstoð móður sinnar. Vegna erfiðleika missti amma mín jörðina. Þá eignaðist hana séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum. Amma og faðir minn fengu þar ábúð áfram.
Og þegar faðir minn giftist fékk hann lífstíðarábúð.
Móðir mín, Þuríður Einarsdóttir, var fædd á Kirkjubóli í Útskálasókn. Í móðurætt var hún ættuð úr Garðinum en faðir hennar Einar Pálssonar var úr Vestur-Skaftafellssýslu.
Foreldrar mínir giftu sig 21. júní 1890 og bjuggu á Bæjarskerjum til æviloka. Eins og víða á Suðurnesjum munu efnin ekki hafa verið mikil. Faðir minn var laginn við tré og járn. Hafði hann smiðju og smíðaði fyrir nágrannana. Ég minnist þess að hann smíðaði nálar og skeifur en þó mest ljábakka. Einnig gerði hann við ýmis amboð. Mun þessi vinna hans hafa drýgt tekjurnar nokkuð. En með sparsemi og mikilli vinnu voru foreldrar mínir alltaf sjálfum sér nógir.
Foreldrar mínir eignuðust fimm börn. Oddur var elstur. Fæddur árið 1884. Kona hans var Helga Bjarnadóttir, ættuð austan úr Árnessýslu. Þau bjuggu í Norður-Miðkoti. Einar var fæddur 1886. Hann var alla ævi til heimilis hér að Bæjarskerjum. Ragnhildur var fædd 1890. Hún var alltaf hér heima. Missti hún unnusta sinn Jónas Bjarna Benónýsson í febrúar 1914. Hún eignaðist einn son Jónas Bjarna Jónasson, fæddan 24. maí 1914. Ragnhildur var með hann hér á Bæjarskerjum. Hún annaðist foreldra okkar þegar aldur færðist yfir þá. Síðan okkur bræðurna og var okkur stoð og stytta meðan henni entist aldur og heilsa til. Bjarni var fæddur 1893. Kona hans var Guðrún Benediktsdóttir. Móðir hennar var ættuð úr Garðinum, en faðir hennar austan af fjörðum. Bjarni og Guðrún byggðu sér hús í Sandgerði er þau nefndu Haga. Börn þeirra eru Sigurður og Jóna. Ég var yngstur. Fæddur laugardag í mið-þorra 1896.
Þegar foreldrar okkar systkinanna voru látin keyptum við Einar og Ragnhildur jörðina Bæjarsker aftur. Var hún þá komin í eigu Bjarna Péturssonar blikksmiðs í Reykjavík. Það er árið 1938 sem hún kemur aftur í eigu ættar okkar.
Ekki er hægt að segja að búið hafi verið stórt á nútíma mælikvarða. Þar voru 30-40 fjár og 3-6 kýr. En svo var alltaf töluvert útræði héðan. Faðir minn gerði alltaf út. Það var aðaltekjulind heimilisins. Hann gerði út Heklu sem var 8 – 10 manna far. Við vorum allir feðgarnir á sama báti. Faðir minn hafði meiri áhuga á sjómennsku en landbúnaði. En honum þurfti líka að sinna. Oft þegar komið var að landi mátti maður fara að smala og huga að skepnunum.
Þegar ég var að alast upp var fjölmennara hér í hverfinu en nú er. Það var stór hópur ánægðra barna sem lék sér hér á túnunum þegar tími gafst til leikja, en börn þá voru látin vinna strax og kraftar leyfðu.
Hér var saltfiskverkun. Fiskurinn var vaskaður niður við sjó. Sjórinn var borinn í stór kör uppi á kampinum og vaskaður þar. Það voru aðallega konur sem vöskuðu en börn og unglingar breiddu fiskinn til þerris. Seinnipart sumars komu skip hér á víkina og tóku bæði þurrkaðan saltfisk og þurrkaða fiskhausa til útflutnings.
Heyskapur byrjaði yfirleitt ekki fyrr en í júlí. Hér var allt slegið með orfi og ljá á mínum uppvaxtardögum. Farið var á fætur kl. 3-4 á næturnar til þess að slá. Það var gert til þess að nota rekjuna (náttfallið). Þá beit betur. Var staðið við slátt fram undir hádegi og þá lagði maður sig oft. Ef rekjan var næg var slegið allan daginn. Það var ánægjulegt að koma út um lágnættið í góðu veðri og finna þögnina og kyrrðina. Sjá og heyra fuglana og allt líf vakna þegar kom fram á morgun.
Smalamennskan var mér nú hugljúfust. Að ganga um heiðar og líta að fé. Ég tala nú ekki um á vorin þegar ærnar voru að bera. Finna nýborin löb og hlúa að þeim og ánni.
Í Leirunni var mjög góð fjörubeit og okkar fé sótti þangað mikið yfir Miðnesheiðina. Aðallega sótti það í Bergvík og Sjálfkvíar sem eru fyrir utan Litla-Hólmsjörðina. Einnig sótti það í Helguvíkina. Þangað niður var einstigi og því erfitt að fylgja því eftir. Það þurfti að vakta féð því það vildi sækja langt út í fjöru í þarann. Það uggði ekki að sér þegar féll að. Varð því að fara og reka frá fjörunni áður en hálffalið var að.
Göngur og réttir þóttu mér skemmtilegar. Héðan áttu smalar að fara lengst austur í Selvog. Voru sendir 4- 5 menn og voru 3-4 daga í ferðinni. Farið var austur í Selvog og gist þar. Síðan var réttað í Selvogsrétt fé sem austanmenn höfðu smalað. Okkar fé var svo rekið til Grindavíkur. Þar var gist og réttað daginn eftir. Þaðan var rekið í Vogarétt. Þegar búið var að draga þar var fé Miðnesinga rekið áfram gegnum Njarðvíkurnar og áfram yfir Miðnesheiði og réttað í réttinni fyrir ofan Bæjarsker.
Tvisvar fór ég þessar ferðir og gisti ég þá hjá Þórarni í Vogsósum. Þangað var gott að koma, góður matur og gott rúm fyrir þreytta smala.
Lengst hef ég komist norðan megin á Reykjanesskaganum, inn að Hvassahrauni og réttað í Vogarétt. Ekki voru allir sáttir við það að ég færi ekki nær höfuðstaðnum en þetta. Var mér einu sinni skipað í Gjárétt og þá þurfti ég að fara í Hafnarfjörð. Því hafði ég nú ekki áhuga á svo ég fékk mann fyrir mig. Var það Ólafur Pétursson frá Knarrarnesi. Gerði hann það með glöðu geði. Þurfti ég því ekki að fara lengra en að Hvassahrauni.
Nú er maður orðinn gamall og stirður. Hættur að fara til kinda um Miðnesheiði. Ég læt mér nægja að horfa á kindurnar sem frændur og vinir eiga hér á túnunum í kring.
Mánudaginn 2. ágúst lést Jón Jónsson á Sjúkrahúsi Keflavíkurlæknishéraðs eftir stutta legu. Hann var 87 ára og yngstur fimm Vesturbæjarsystkina, en svo voru börn Jóns Oddssonar og Þuríðar á Bæjarskerjum nefnd í daglegu tali af sveitungum sínum. Þau voru: Oddur, Einar, Ragnhildur, Bjarni og Jón.
Ég sem þetta skrifa átti því láni að fagna að kynnast þessum systkinum er ég kom hingað ung kona með manni mínum, Jónasi syni Ragnhildar. Þau reyndust mér ávallt góðir vinir og leiðbeinendur.
Við Jón vorum búin að vera samtíða hér í rúm 40 ár. Tvö síðustu árin vorum við tvö ein. Vil ég þakka þessu fólki samfylgdina.” – Halldóra Thorlacius
Heimildir:
-Faxi, 4. tbl. 01.01.1980, Býjasker – Bæjarsker; hvort er réttara?, bls. 109-110.
-Faxi, 6. tbl. 01.06.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 152-153.
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 181.
Í Faxa 1991 er birt ritgerð Skúla Magnússonar um “Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð“:
Hér á eftir mun verða brugðið nokkru Ijósi á híbýli Suðurnesjamanna á 18. og 19. öld, eftir því sem aðgengilegar heimildir leyfa. Reynt hefiir verið að leita í gögn samtímamanna og sjónarvotta, stuðst við lýsingar þeirra. Heimildirnar mega því yfirleitt teljast trúverðugar. Að visu rituðu þrír sögumenn frásagnir sínar á gamals aldri en ekki er þó ástœða til að rengja þœr að svo komnu. Þessir menn voru: Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924), Kristleifur Þorsteinsson frá Stóra-Kroppi (1861-1952) og Ágúst Guðmundsson frá Halakoti (f. 1869, á lífi 1941).
Sjálfri ritgerðinni er skipt í tvo megin þœtti. Sá fyrri fjallar nokkuð um torfbæi og þurrabúðir á 18. öld. Síðari hlutinn segir einkumfrá upphafi timburhúsa og lítillega er minnst á steinhús á 19. öld. Kirkjum er sleppt. Eingöngu verður fjallað um híbýli til íbúðar.
Bæir og þurrabúðir á 18. öld – lýsingar húsa 1740
Jarðeignir á Suðurnesjum eyddust mjög er aldir liðu. Olli því geysilegt landbrot og foksandur sem bitnaði jafnt á býlum ríkra sem fátækra. Þess ber þó að geta að á sama tíma, frá 1300-1600, hækkuðu jarðirnar í verði vegna þess að gildi fiskveiða óx í hlutfalli við landbúnaðinn. Ríkismenn sóttust því eftir að koma ár sinni fyrir borð þar syðra.
Í byrjun 18. aldar átti konungur flestar jarðir frá Kirkjuvogi að Garðskaga og þaðan inn Vatnsleysuströnd allt að Sundum við Kollafjörð.
Þar sem jarðir þessar urðu mjög illa úti vegna eyðingar kvaddi amtmaður til 4 bændur á Miðnesi til að skoða þar 5 jarðir. Það var 1735. En ítarlegust var skoðunin 1740. Þá skoðuðu 6 menn 25 jarðir frá Stafnesi að Skaga og þaðan inn í Keflavík.
Gallinn á þessum úttektum er þó sá, að hjáleigum var að mestu sleppt, en stærri jarðir og höfuðból komust á blöð skoðunarmanna.
Alls staðar byrjuðu skoðunarmenn lýsingar sínar í bæjardyrum. Á flestum bæjum var skálinn þar fyrir innan, þá búr og eldhús, en baðstofan aftasta húsið að baki hinum. Þessi húsaskipan var á öllum bæjum sem skoðaðir voru, nema á Meiðastöðum í Garði. Þar var enginn skáli. Þar hafði um vorið 1740 verið reist nýtísku baðstofa sem var næst bæjardyrum. Á Stafnesi virðist baðstofan hafa verið á svipuðum stað.
Á þessum tíma var venja að gefa upp lengdir húsa í stafgólfum, þ.e. lengd á milli sperra eða bita, sem jafnvel gat verið ein rúmlengd í baðstofu. Svo einfalt var þetta byggingarlag í raun. Þetta bil var mælt í álnum og var hvert stafgólf 2-3 álnir, oftast 3 eða örlítið minna.
Á mörgum bæjum voru bæjardyr ekki nema eitt stafgólf að lengd, en tvö til þrjú á sumum og fjögur á stærsta bænum. Skálar voru 3 eða 4 stafgólfa (8-10 álna langir) nema á Másbúðum á Miðnesi. Þar var skálinn 9 stafgólf og var trúlega ætlaður sjómönnum. Skálinn á Kirkjubóli virðist hafa verið að baki tveimur stofum er næstar voru taldar bæjardyrum. Á stöku bæ var og ein stofa. En bærinn á Kirkjubóli var þó bæði stærri og frágangur og efniviður í húsum þar mun betri en á öllum hinum bæjunum. Þar voru t.d. báðar stofur þiljaðar innan, 3 stafgólf hvor og með gluggum, sem voru á mjög fáum bæjum. Í fremri stofu var gluggi á hlið með karmi, en tveir á innri stofunni. Þar var líka háborð með sæti og pílárum. Enn fremur bekkir eins og hjá heldri mönnum. Á Kirkjubóli bjó þá Kort Jónsson lögréttumaður.
En skjótt bregður sól sumri. Árið 1837 var bærinn á Kirkjubóli færður af heimajörðinni á eina hjáleiguna. Svo mikið var landbrotið að þessi höfuðjörð Suðurnesja var að engu orðin.
Árið 1740 voru stofur og baðstofur yfirleitt óþiljaðar að innan að nokkru eða öllu leyti. Raftar en ekki súð var á þekjum. Þó var á nokkrum bæjum svokallað milliþil og á fáeinum bæjum alþiljaður endi í baðstofu.
Að Kirkjubóli frátöldu voru best húsakynni á Stóra-Hólmi í Leiru og á Bæjarskerjum á Miðnesi. Á síðari bænum var þiljuð stofa með glugga og tvær baðstofur.
Eggert og Bjarni lýsa þurrabúð
Árið 1755 ferðuðust Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Gullbringu-sýslu. Samkvæmt frásögn þeirra voru húsakynni við sjávarsíðuna yfirleitt „lélegri en í meðallagi”, en „lang lélegust og sóðalegust” voru húsakynnin í verstöðvunum sunnan- og suð-vestanlands, þ.á m. á Suðurnesjum.
Meðal annars kvarta þeir Eggert og Bjarni undan ólykt sem hafi verið í þessum húsum, „einkum á vertíðinni…”. Eiga þeir félagar greinilega við fiskilykt sem gjarnan fylgir sjósókn og fískvinnslu. Hér, og að ofan, birtast m.a. hleypidómar og andúð þeira Eggerts og Bjarna gagnvart sjávarbændum. Viðhorf sem voru aldagömul og komu víða fram í hinu forna bændasamfélagi.
Í verstöðvunum voru víða verbúðir þar sem menn bjuggu á vetrarvertíðum, en á öðrum árstímum stóðu búðirnar auðar. Verbúðirnar voru oft í eign stórbænda er bjuggu á höfuðbóli þaðan sem útræði var stundað. Ennfremur fylgdu heimajörðunum oft kot eða hjáleigur. Ef hjáleigurnar höfðu ekki grasnyt voru þær kallaðar þurrabúðir. Þær voru víða á Suðurnesjum. Íbúar þeirra lifðu af afla er fékkst úr sjó. Ennfremur mikið á innfluttum vörum sem þeir fengu í skiptum fyrir fisk. Einnig á landbúnaðarafurðum er guldust með fiskmeti.
Þeir Eggert og Bjarni geta þess að þurrabúðir á Snæfellsnesi og á Suðumesjum hafi stundum verið 5 húsa. Göng í miðju en íveruhús út frá þeim til beggja handa. Næst dyrum voru skálar karlmanna og sjómanna, þá búr og eldhús. Innst og aftast var baðstofan. Hér er trúlega átt við þurrabúðir efnabetri manna en stærð búðanna fór að sögn eftir fátækt íbúanna.
Lýsing Skúla fógeta á betri býlum
Á betri býlum í Gullbringusýslu voru bæjarhús oft 5 að tölu að sögn Skúla Magnússonar landfógeta. Göng voru í miðju á þeim bæjum, líkt og í þurrabúðum, en til beggja handa voru stofa og skáli, búr og eldhús, aftast var baðstofa.
Stundum var gler í gluggum en oftast líknarbelgir. Gler tíðkaðist einungis hjá mjög efnuðum bændum. Baðstofan var aftasta húsið svo þar héldist hiti, en göngin löng. Ofnar voru óþekktir. Hér er verið að lýsa eins konar gangabæ, forvera burstabæja, eins og þeir tíðkuðust síðará 19. öld.
Bæir og timburhús á 19. öld
Árið 1880 skrifaði hinn aldurhnigni sveitarhöfðingi, Sigurður B. Sívertsen, þegar hann rifjar upp hvernig hfbýli manna voru 1830 er hann kom sem ungur prestur til Suðurnesja: „Húsakynni voru hörmuleg og engin herbergi í þeim er inn í væri bjóðandi. Allt torfbæir með löngum göngum og mjóum, eins og nú aumustu kotum (þ.e. árið 1880.). Óþrifnaður átti sér víða stað og var eigi hægt annað, eins og átti sér stað í moldarkofum þessum. Voru forir þá víða fyrir utan bæjardyr hvar hellt var í skólpi og mykju undan kúm, einnig slori úr fiski. Í bæjardyrum var flórlagt gólf með hellum sem lagðar voru yfir forarræsi, sem lágu út í forina. Skinnklæði og færi voru látin hanga í bæjardyrum. Aðeins á Stafnesi var hreinlegur bær. Ekkert sást þá timburhús hjá bændum.”.
Grindavík
Í Grindavík virtust ekki komin timburhús á helstu jarðirnar 1840-41 nema á Hrauni. Þar hafði Jón Jónsson hreppstjóri og eigandi hálfrar jarðarinnar „uppbyggt í seinni tíð þrjú stjór og reisuleg timburhús”. Rekaviður var mest notaður til húsagerðar en einnig borðviður úr kaupstað.
Hafnir
Þar virðast ekki komin timburhús 1839 þegar sr. Sigurður B. Sívertsen ritaði lýsingu Útskálaprestakalls.
Á höfuðbólinu Kirkjuvogi var þríbýli: Austur-, Mið- og Vesturbær. Sá austasti var næstur kirkjunni. Þar höfðu búið ríkir landsetar. Þarna var „reisulegur og vel húsaður bær”, segir sr. Sigurður. Fyrrum bjó þar Guðni Sigurðsson, (1714-80) sýslumaður og settur landfógeti 1749.
Árið 1859 kom Finnur Jónsson, fræðimaður, í Hafnirnar í fyrsta sinn, þá 17 ára. Þóttu honum hús þar reisuleg og einhver þau bestu er hann þekkti í sveitum hér á landi.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson (1812-1869) bjó þá í „stóru og vönduðu tvílyftu timburhúsi, og annað minna timburhús var þar, sem var geymsluhús hans, enda var fjáður vel…”.”, en Vilhjálmur bjó í Austurbænum í Kirkjuvogi. Ekki verður sagt hvenær Vilhjálmur reisti þetta stóra timburhús, en hann hóf sjálfur búskap þarna 1841. Ekki er fjarri lagi að áætla að hann hafi reist húsið á árunum 1845-55.
Ketill Jónsson (1793-1869) flutti suður í Hafnir um 1829 og bjó lengst af í Kotvogi í „stórum torf- eða grjófbæ, en á hlaðinu var snoturt timburhús með málaðri stofu, voru í henni sum húsgögn dýrmæt..”.
Gunnar Halldórsson (1824-76) hreppstjóri hóf búskap í Kirkjuvogi 1848. Hann reisti „stórt tvíloftar timburhús…” og bjó þar til dánardægurs. Í þessu húsi bjó Gunnar 1859.
Á Kalmanstjörn var þá hjá Stefáni Sveinssyni (d. 1864) „reisulegur torfbær og allstórt timburhús við, með stofu laglegri í öðrum enda þess”.
Rekatimbur til húsa
Eins og víðar á Suðurnesjum nýttu bændur í Höfnum rekavið til húsa. Ráku t.d. oft stór tré á fjörur Kalmanstjarnar. Þótti sá reki „allarðsamur til húsabóta…”.
Um nýár 1836 gerði ofsaveður á Suðurnesjum. Rak þá á Valahnjúkamöl syðst við Reykjanestá, svo mikið timbur að fáheyrt þótti. Var talið að farmur þessi væri úr þrímöstruðu skipi sem fórst suður af Indinu. Ekki er þess getið í heimildum að viðurinn hafi verið almennt notaður til bygginga, en mjög trúlegt er það.
James Town strandar
Að morgni 26. júní 1881, rak á land norðanvert við Ósabotna, stórt skip. Var það amerískt og hér James Town. Skipsstrand þetta markaði þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum og því er þess getið hér. James Town var upphaflega þriggja mastra, og allt úr timbri. Lestar og þrjú þilför voru full af alls lags viði. Heimildum ber ekki saman um stærð skipsins. Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum, segir að skipið hafi verið 360 feta langt en 65 fet á breidd. (Gullfoss yngri, sem kom 1951, var 355 fet stafna á milli, en 47 1/2 fet á breidd.) SigurðurB. Sívertsen segir aftur á móti að James Town hafi verið 256 fet, en 54 fet á breidd jafnvel nokkru breiðari.™ Talið var að í skipinu væru alls um 100.000 plankar af öllum stærðum og gerðum. Auk plankabúta og borðviðar.
Björgun hófst strax og veður leyfði. Þann 10. ágúst var mikið selt á uppboði af timbri er á land var komið. En 9. september gerði SV-ofsaveður sem braut skipið og bar timbrið um allar fjörur. Mest af timbrinu kom í hlut Hafnamanna. Þeir reistu úr því a.m.k. 9 hús. En mikið timbur barst um allt Suð-Vesturland. Þorvaldi Thoroddsen fannst hús Hafnarmanna „mjög vönduð”, er hann var þar á ferð 1883.
Sama ár getur sr. Sigurður B. Sívertsen þess í annál sínum, að mörg hús væru í smíðum hjá bændum um haustið. „Þeirra mest í Sandgerði hjá Sveinbirni bónda.
Miðnes
Árið 1859-60 bjó Ketill Ketilsson (1823-1902) á Hvalsnesi. Þar reisti hann „timburhús og stóra steintóft við sjóinn fyrir sjávarafla, sömuleiðis heim við bæinn stórt fjós úr steini”. Þá var á Stafnesi „reisulegur torfbær nokkuð forn, með timburhúsi”.
Óvíst er að þetta hafi verið fyrstu timburhúsin á Miðnesi, en ekki er það ólíklegt. Ketill reisti síðar steinkirkju á Hvalsnesi.
Eins og áður sagði reisti Sveinbjörn Þórðarson (1817-93) veglegt hús í Sandgerði 1883. Líklega af timbrinu úr James Town. Þarna fékk Sveinbjörn efnivið fyrir lítinn pening. en sjálfur var hann svo auðugur að aðeins Hafnamenn stóðu honum framar. Sandgerðishúsið stendur enn í dag.
Garðurinn
Ekki getur Sigurður B. Sívertsen um timburhús á bæjum í Garði og Leiru í lýsingu Útskálaprestakalls 1839. Líklega hafa þau hvergi verið komin þá. Þó segir klerkur að að Útskálum sé „all snotur timburkirkja og vel húsaður bær”. En 1859 voru komin timburhús í Garðinum „á stöku stað…”.
Árið 1871 var reist í Gerðum skólahús fyrir almenn samskot. Og árið 1878 var húsið endurbyggt úr grjóti með kalklími. Líklega er skólahús þetta fyrsta steinhús á Suðurnesjum.
Athygli vakti 1873, þegar Einar Sigurðsson, bóndi í Vörum, reisti sér „mjög vandað timburhús með prýðilegum herbergjum, eins og best mátti verða…”. Þrátt fyrir hátt verð á timbri.

Þorsteinn Gíslason 7. nóvember 1855 – 30. janúar 1931. Útvegsbóndi á Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Fósturmóðir: Kristín Magnúsdóttir, f. 23.3.1823, d. 19.6.1877.
Árni Þorvaldsson (1824-1901) á Meiðastöðum lengdi timburhús sitt 1874 og setti á það kvist „í gegn”. Um svipað leyti létu margir bændur í Garðinum endurnýja baðstofur. Þrifnaður fór þá vaxandi. Þeir Árni og Einar í Vörum voru meðal ríkustu bænda á Suðurnesjum. Hjá Árna voru t.d. 50 manns í heimili á vertíðum.™
Árið 1879 reisti Einar í Vörum „mikla og vandaða bekkbaðstofu úr tilhöggnu grjóti lukt í kalk…”.
Var talið að kostnaðurinn hefði numið nærri 2000 kr. Alls var talið að Einar hafi lagt a.m.k. 7000 kr. í byggingar í Vörum.
Keflavík
Keflavík hafði sérstöðu, þar var döns verslun og timburhús komin þegar á 18. öld. Tómthúsfólk þar bjó í litlum torfbæjum.
Árið 1839 voru í Keflavík fjögur verslunarhús „og hefur fjölgað þar timburhúsum á seinni árum. Þau eru nú 16″.
Árið 1859 voru auk þriggja verslana komin þar 5-6 lítil einlyft timburhús, en þorri fólks bjó í bæjum.
Árið 1871 byggði Skotfélagið í Keflavík samkomuhús er kostaði 900 dali. Svendsen byggði pakkhús. (Líklega svonefnt Miðpakkhús, sem nú er horfið.) Hans Duus byggði nýja sölubúð, er enn stendur endurbyggð eftir bruna. Húsið er sennilega fyrsta portbyggða húsið í Keflavík. Skammt frá reisti Duus tvílyft pakkhús 1877. Kostaði það a.m.k. 16.000 kr. Stendur það enn og er það fyrsta tvflyfta húsið í Keflavík, að höfundur þessarar ritgerðar telur.
Alls var talið að H.P. Duus hefði varið um 30.000 kr. fram til ársins 1880 til húsabóta á lóð sinni í Keflavík.
Sumarið 1881 lét Fischer kaupmaður reisa stórt tvflyft verslunarhús á lóð sinni. Talið eitt vandaðasta timburhús sunnanlands á þeim tíma. Kostaði það a.m.k. 20.000 rk. Stendur húsið enn í dag. Árið 1888 reisti Knudtzon kaupmaður nýtt einlyft verslunarhús á sinni lóð. Lét hann þá rífa gamalt verslunarhús, er líklega var reist snemma á 19. öld og því komið til ára sinna. Segir í Suðurnesjaannál að 1888 sé íbúðarhús Duus kaupmanns eina húsið í „fornum stíl” sem eftir sé í Keflavík. Það er: Með háu risi og lágum veggjum. Um leið getur hann þess að nú séu öll hús í Keflavík „byggð í nýju formi eins og í Reykjavík”.
Ljóst er að mikið hefur verið byggt í Keflavík á 8. og 9. tug síðustu aldar. Þrjár aðalverslanir þorpsins endurnýjuðu húsakost sinn að mestu leyti.
Vatnsleysuströnd
Í sóknarlýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsókna 1840 getur sr. Pétur Jónsson á Kálfatjörn þess að sléttun túna og hleðsla grjótgarða hafi smám saman aukist í sóknunum, svo og byggingar timburhúsa.
Mest notuðu bændur innflutt timbur til húsagerðar enda reki lítill á Ströndinni.
Munur ríkra og fátækra var mikill þar syðra á 19. öld. Kristleifur Þorsteinsson fullyrðir að allt fram á sjöunda tug 19. aldar hafi þar eingöngu verið búið í torfbæjum.
Finnur frá Kjörseyri segir að 1859-64 hafi timburhús í sveitum inn með Faxaflóa verið tiltölulega fá. Ágúst Guðmundsson staðhæfir að fyrsta timburhúsið hafi verið reist á Kálfatjörn, en getur ekki hvenær. Faðir Ágústs, Guðmundur Ívarsson, reisti á Neðri-Brunnastöðum, timburhús 1865 og annað jafnstórt” 1869. Segir Ágúst að þessi hús hafi verið næst í röðinni á eftir húsinu á Kálfatjörn. Kristleifur segir að eftir 1865 hafi stöku bændur reist lítil og íburðarlaus timburhús.
Sumarið 1872 var reist skólahús úr timbri á Brunnastöðum. Lárus Pálsson, hómópati, reisti nýbýlið Hellur 1873. Varð það „loftbyggður bær úr grjóti og sementi…”.
Fyrsta húsið af því tagi á Ströndinni
Um 1880 reisti Ari Egilsson frá Minni-Vogum fyrsta steinhúsið á Vatnsleysuströnd til íbúðar. Stóð það á hraunklöpp rétt inn við Vogabæina. Hét húsið Grænaborg. Það brann 1882 og urðu af því hörmuleg eftirmál sem ekki verða rakin hér. Líklega var þetta fyrsta húsið úr steini sem búið var í á Suðurnesjum.
Lokaorð
Á 18. öld voru algengir svokallaðir gangabæir, forverar burstabæja á 19. öld. Báðar þessar húsagerðir tíðkuðust á Suðurnesjum. Á
milli 1835-40 komu fyrstu timburhúsin ef frá eru talin timburhúsin í Keflavík sem komin voru þegar á 18. öld. Um 1860-70 birtust fyrstu steinbæirnir. Á árunum 1880-90 náðu húsbyggingar á Suðurnesjum hámarki, ekki síst eftir að James Town strandaði við Ósabotna 1881. Það skipsstrand markar þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum. Þaðan fékk almenningur ódýrt timbur. Um þetta leyti endurnýjuðu kaupmenn í Keflavík húsakost sinn að mestu leyti. Farið var að reisa tveggja hæða timburhús. Á sama tíma var reist fyrsta steinhúsið til íbúðar. Tvær veglegar steinkirkjur voru reistar. Hér höfðu einstakir efnamenn oftast forystu, einkum í Höfnum og Garði. Virðist sem metnaður hafi ríkt á milli þeirra um að byggja sem veglegast. – Samið á Nýja-Garði (okt. 1990).
Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.09.1991, Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð – Skúli Magnússon, bls. 142-146.
Í Faxa 1993 er sagt frá gamalli sögn um Stafnes undir fyrirsögninni “Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes”:
“Mælt er, að til forna hafi verið 24 hjáleigur og tómthús á Stafnesstorfunni. Taldi Jón Jónsson hreppstjóri frá Fuglavík, sem síðast bjó í Glaumbæ við Stafnes, mjög glöggur maður og fróður um margt, upp 14 af hjáleigum þessum, sem nú hafa verið fjölda mörg ár í eyði, og voru þær þessar: Nes, Hólmi (tvíbýli), Sandhús, Garðar, Rif, Refshalakot, Gosa, Hattakollur, Sveinshöfði, Vallarhús, Halakot, Lodda og Þemba.
Kvaðst hann á yngri árum sínum hafa heyrt fleiri bæjamöfn nefnd, en ekki muna þau. Sum af býlum þessum voru með vissu grasbýli frá Stafnesi, en þó flest þurrabúðir. Fiskveiðar munu óvíða hafa verið stundaðar með meiri dugnaði og betri hagnaði en frá Stafnesi, enda er þaðan örskammt að sækja á fiskimiðin. Fiskur var þá almennt hertur eða þá kasaður, svo sem skata og hákarl. Var fiskurinn hertur í grjótbyrgjum, sem byggð voru hingað og þangað upp um hraun, og sést þeirra víða merki enn í dag.
Á Stafnesi eru nú þessi býli: Stafnes, Glaumbær, Nýlenda, Bali, Litlibær, Hólakot og Grund, og eru hér talin 21 alls, ef byggð hinna síðarnefndu býla er svo gömul sem hinna. Er þá ekki nema þremur fátt í þá tölu, sem hin forna sögusögn greinir.
Svo er sagt, að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir, og er hún skráð eftir því, sem sagði Jón fyrrum hreppstjóri í Fuglavík árið 1888, og var hann þá um áttrætt.
Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi, og mun bærinn þá hafa staðið, þar sem nú er kallað Urð, og er þar nú rif, sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur, þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu, er stunduðu sjómennsku og reru til fiskjar frá Nesi.
Einn dag að áliðnum vetri, er þeir voru á sjó að vanda, brimaði snögglega svo mikið, að ólendandi var talið. gerðist gamli maðurinn órór, gekk til smíðahúss og tegldi þar staf einn eða kelli, en bað vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér, hvers þær yrðu áskynja úm afdrif skipsins.
Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir, að ekki muni lengur þurfa að bíða þess, að synir hans lendi, því að þær stúlkurnar höfðu horft á þá bræður leggja í sundið, en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan; hafði honum þá þegar hvolft og hann borist upp á skerið. Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá, sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund, og þá tvær saman.
Þegar stúlkumar komu til karls, hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt, svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill, en haglega gerður og með útskurði allmiklum.
Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið, þar sem Boðinn falli á land, segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum, sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega, þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér.
Gera þær nú, sem karl leggur fyrir, og þegar Boðinn rís hæst, tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: „Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða, sé rétt sundleið farin, og leiðið mig nú heim”.
Það fylgir sögu þessari, að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum, því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farist á sundinu, þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega.
Á þeim tímum, er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma, fórst þó eitt skip þama með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því, sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan við aðallendinguna.” – Eftir heimildum frá Vilhjálmi Kr. Hákonarsyni frá Stafnesi. – Rauskinna.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1923 skrifar Hannes Þorsteinsson um “Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi”, þ.á.m. Stafnes:
“Starnes (Stafnes). Stafnes í A. M. og síðan, en Starnes í fjölda fornbréfa frá 1270 og fram á 17. öld eða lengur, og vafalaust hið rétta, upphaflega nafn; er og enn nefnt svo hjá A. M. (í jarðabókinni í Rangárvallasýslu undir Nefsholt). Stiernes nefnist jörðin í Jarðab. Bockholts c. 1600 (A. M. 459 fol.), og eru það leifar af hinum gamla framburði, en Starnes beinlínis í Jb. Jens Söffrenssonar 1639 (A. M. 460 fol.). í ritgerð eptir séra Sigurð Br. Sívertsen á Útskálum er þess getið, að á þeim slóðum hafi verið stör mikil, þótt nú 8é eydd. Starnes verður því að teljast sem aðalnafn, en Stafnes sem varanafn, þótt það reyndar ætti að falla alveg burtu.”
Heimildir:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1993, Gömul sögn um Stanes – “Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes”, Vilhjálmur Kr. Hákonarson, Stafnesi, bls. 57.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1923, Hannes Þorsteinsson – Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi. Tileinkað minningu séra Guðmundar prófasts Helgasonar. Bls. 30.
Árið 2018 gerðu Kanon arkitektar skýrslu um byggða- og húsakönnun í Sandgerði:
Sögubrot
Í Landnámu er sagt frá því að Ingólfur Arnarson hafi numið Reykjanesskagann sem og Rosmhvalanesið allt.
Óvíst er hvenær byggð hófst í Sandgerði, en trúlega hefur það verið á fyrstu áratugum búsetu norrænna manna á Suðvesturlandi.
Árið 1886 skildu Miðnesingar sig frá öðrum byggðarkjörnum á nesinu og þá varð til Miðneshreppur sem náði frá Lambarifi við Garðskaga í norðri, meðfram strandlengjunni nánast að Garði og Leiru að austan og allt til Ósabotna við Hafnir að sunnan. Í desember 1990 varð Miðneshreppur svo að bæjarfélagi þegar Sandgerðisbær fékk kaupstaðarréttindi.
Öldum saman var stunduð sjósókn frá Sandgerði á opnum bátum, enda stutt í fengsæl mið. Sandgerði var upphaflega útvegsjörð og með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum þar sem fiskurinn í sjónum var bústofninn. Það er fyrst með tilkomu vélbátaútgerðar sem Sandgerði fer að byggjast upp sem þéttbýlisstaður, en frá þessari mikilvægu verstöð landsins hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð.
Árið 1901 varð Sandgerðisvík löggiltur verslunarstaður. Um það leyti voru nokkrir bæjarkjarnar á svæðinu, allir álíka stórir. Árið 1907 hófust framkvæmdir við bryggjustúf í Sandgerði á vegum Ísland-Færeyjar félagsins sem og tilraunir með vélbátaútgerð. Má rekja upphaf hafnarframkvæmda í Sandgerði til umsvifa þess félags, en félagið réð Matthías Þórðarson til þess að koma upp útgerðarstöð í Sandgerði.
Á svonefndum “Hamri” voru reistar miklar byggingar og þar fyrir framan byggð steinbryggja. Matthías fékk lánuð áhöldin sem notuð voru til byggingar steinbryggjunnar í Reykjavík. Verkfæri og efni í steinbryggjuna var flutt til Sandgerðis um áramótin 1907-1908 og timbrið skömmu síðar. Byggð var traust trébryggja á grandanum milli Hamarsins og lands. Guðmundur Einarsson steinsmiður hafði veg og vanda af hleðslu bryggjumannvirkjanna.
Útgerð þessa félags stóð ekki lengi, en mannvirkin sem reist höfðu verið nýttust síðar í útgerð sem aðrir stóðu fyrir.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið staðfesti að Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður verði eitt sveitarfélag 30. apríl 2018.
Umhverfi
Búsetulandslag er meðfram ströndinni. Staðhættir á Rosmhvalanesi hafa leitt til byggðarmynsturs mótuðu af landbúnaði og útgerð. Byggðin þræðir víkur og voga meðfram ströndinni. Húsnæði var staðsett á hæðardrögum og lágsvæðin ræktuð í skjóli garða. Þéttbýli Sandgerðisbæjar einkennist af sandfjörum, skerjum og víkum og byggt er út frá bújörðunum sem nú hafa tengst saman, þ.e. Flankastaðir.
Ágangur sjávar hefur löngum valdið miklum usla í Miðneshreppi, eins og víðar á Reykjanesskaga. Dæmi eru um bæi sem hurfu einfaldlega smátt og smátt í sjó af völdum sjávarágangs.
Myndarlega hlaðna garða er víða að finna sem sumir voru t.d. notaðir til skjóls við kálgarða.
Í riti Þorsteins Jósepssonar og Steindórs Steindórssonar, Landið þitt Ísland segir m.a.: “Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes.
Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil.
Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er”… “Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.
Upp af Lækjamótum og Hólahverfi eru Uppsalir. Suður af Oddstóft er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot… .”
Saltfiskreitir voru víðs vegar um hreppinn, í öllum hverfum hans. Einn af þekktari reitunum var Gulllágin.
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði er sagt frá því að Sandgerði hafi heitið Sáðgerði. Má og sjá merki akurlanda í landi jarðarinnar.”
Í annarri örnefnalýsingu segir: “Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Á þessum hól eru rústir.
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði er m.a. getið um kotin Krókskot, Landakot og Tjarnarkot. Nálægð við sjó, tjarnir og mólendi gefur bæjarumhverfinu sérkenni og margbreytileika. Trjágróður er ekki áberandi í bæjarlandinu, en víða má sjá tré í húsagörðum.
Þróun byggðar
Upphaf þorpsmyndunar í Sandgerði er rakið til ársins 1914 er Akurnesingarnir Haraldur Böðvarsson, Þórður Ásmundsson og Loftur Loftsson hófu útgerð þaðan. Á vetrarvertíð 1916 er talið að um eða yfir 40 bátar hafi stundað róðra frá Sandgerði á þeirra vegum. Stóð þessi útgerð í miklum blóma næstu fimmtán árin og með aukinni útgerð óx byggð í Sandgerði umfram aðra staði í sveitarfélaginu.
Árið 1915 voru umsvif útgerðar Haraldar Böðvarssonar orðin það mikil að hann taldi sig þurfa að útvega íbúðarhúsnæði á vertíð fyrir á annað hundrað sjómanna. Til viðbótar þessu var fjöldi starfsfólks í landi. Hann réðst því í húsbyggingar auk bryggjuframkvæmda og byggingu rafstöðvar í Sandgerði ásamt Lofti Lofssyni og var hún opnuð árið 1918. Rafstöðin, sem lýsti upp hús þeirra félaga, mun vera ein sú fyrsta sem byggð var á Suðurnesjum.
Þegar þeir Loftur og Haraldur keyptu jörðina Sandgerði árið 1916, voru þeir fyrst og fremst að tryggja sér aðstöðu fyrir útgerð, fiskvinnslu og verslun.
Á þriðja áratug 20. aldar dróst útgerð Akurnesinganna mikið saman. Árið 1941 hætti Haraldur Böðvarsson rekstri í Sandgerði og seldi þeim félögum Sveini og Ólafi Jónssyni fyrirtæki sitt. Stofnuðu þeir hlutafélagið Miðnes. Allt fram til ársins 1946 var notast við bryggjurnar tvær sem byggðar voru snemma á 20. öld. Þá keypti Miðneshreppur bryggjurnar og voru þær endurbættar og stækkaðar. Árið 1974 var hafist handa við að loka höfninni fyrir úthafsöldu, með grjótgörðum og hafa stöðugar hafnarbætur átt sér stað síðustu áratugina.
Húsnæðismál í Sandgerði báru þess ótvírætt vitni fram eftir 20. öld að þar var bær í hraðri uppbyggingu. Vandi var við að hýsa fjölda aðkomufólks sem kom á vertíð og margir úr þeim hópi settust að í Sandgerði. Byggingarfélag verkamanna í Sandgerði var stofnað árið 1947 og árið 1950 fékk félagið lóðir undir íbúðahús í Hjarðarholtstúninu. Gatan þar sem húsin voru reist fékk nafnið Túngata.
Um bæinn Sandgerði segir í sömu lýsingu: “Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta 19. aldar var byggt tiltölulega stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanu.
Seint á fjórða áratug 20. aldar urðu mikil umskipti á aðstöðu til skólahalds í Miðneshreppi. Á árunum 1937 – 1938 var reist nýtt og myndarlegt skólahús í Sandgerði. Skólahúsið hefur verið stækkað nokkuð oft.
Kynding húsa var með mismunandi sniði í hinum ýmsu hverfum Miðneshrepps í upphafi 20. aldar. Mest fór það eftir því hvaða eldsneyti var nærtækt á hverjum stað. Kol voru mikilvæg til kyndingar um miðja 20. öld og var kolakynding ríkjandi fram yfir 1960. Kolageymslur voru við hvert hús í bænum. Þegar uppbygging þéttbýliskjarnans í Sandgerði var orðin skipulegri fjölgaði þeim húsum verulega sem höfðu olíukyndingu. Nýir orkugjafar til húshitunar komu svo til sögunnar þegar Hitaveita Suðurnesja hóf starfsemi sína.
Vitinn við Sandgerðishöfn var hækkaður um miðjan fimmta áratug 20. aldar, um tíu metra, í þá hæð sem hann er nú, sem er nítján metrar. Þegar byggðin stækkaði og lýsing húsa varð algengari fór lýsingin að trufla vitaljósið. Fyrir tilstuðlan sjómanna, sem skoruðu á Vitamálastofnun að hækka vitann, var það gert og lokið við hækkun í ársbyrjun 1946.
Ein fyrsta umsvifamikla gatnagerðin í Sandgerði var gatan sem lá um Sandgerðistún og lögð var sumarið 1943. Lagning götunnar þótti það mikill þrældómur að hún fekk nafnið “Burma – braut” eftir þrælavinnu breskra hermanna í Burma á stríðsárunum. Nú eru þetta göturnar Brekkustígur og Tjarnargata sem eru innan könnunarsvæðisins.
Í núgildandi aðalskipulagi segir: “Þéttbýlið í Sandgerðisbæ hefur þróast upp af höfninni og markast nú af bænum Sandgerði í norðri og Býjarskeri í suðri.
Elsta byggðin í þéttbýlinu er frá 19. öld og í norðurhluta þéttbýlisins milli Brekkustígs og Austurgötu eru gömul hús sem mynda þar heildstæða götumynd sem vert er að vernda og styrkja.
Strandgatan er helsta umferðar- og athafnagata bæjarins og við hana norðanverða er miðsvæðið Varðan, sem hýsir bæjarskrifstofur og ýmiss konar þjónustu og almenningsgarð. Þar sem Strandgatan mætir Vitatorgi er nú þegar komin starfsemi sem snýr að ferðaþjónustu, s.s. listagallerí og veitingastaður.
Ný byggð hefur risið til austurs s.l. fjóra áratugi í Lækjamótum og Hólahverfi, sem enn er í byggingu”.
Heimild:
-Sandgerðisbær – byggða- og húsakönnun, Kanon arkitektar 2018.
Í Alþýðublaðinu 17. sept 1965 skrifar Grétar Oddsson um Sandgerði – og birtir myndir af bænum.
“SANDGERÐI liggur vestan á Reykjanesskaganum og er um stuttan lágheiðarveg að fara frá Keflavík, ekki er það meira en svo sem tíu mínútna akstur. —
Heiðin er auðnarleg, eins og Reykjanesskaginn allur, en efst á henni er ratsjárstöð, með hvítum kúplunni, minnir í fljótu bragði á máríska virkisborg.
Það fyrsta sem maður sér í Sandgerði er urmull af nýjum og fallegum íbúðarhúsum og þorpið hefur yfir sér þokkalegan svip, þrátt fyrir auðnarlegt og ívið kuldalegt umhverfið.
Sandgerði er ekki gamalt pláss, frekar en svo mörg önnur kauptún á Íslandi. Fyrstu drög að þorps myndun á staðnum munu hafa verið gerð, þegar Matthías Þórðarson, faðir Ástþórs Matthíassonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, stofnaði þar til útgerðar með vélbáti rétt eftir aldamótin. Þá var ekki önnur byggð á staðnum, en jörðin Sandgerði og frá henni mun hafa verið sóttur sjór frá því hún byggðist. Hvenær það var, veit enginn og ekki er vitað til að hún sé landnámsjörð.
Mesta útræði í nágrenni Sandgerðisjarðarinnar var um aldaraðir frá Stafnesi. Þaðan var ívið styttra á miðin, en sá litli munur var mikill á tímum áranna og seglanna. Þegar vélbátarnir komu til sögunnar var engin leið að koma þeim við á Stafnesi, vegna þess, hve höfn er þar ótrygg, en hins vegar er dágóð smábátahöfn frá náttúrunnar hendi í Sandgerði. Varð því úr að útgerðin fluttist þangað, en Stafnes lagðist af sem verstöð, þó að þar hafi efalaust vérið ein allra stærsta útgerðarstöð á landinu um aldabil.
Skammt sunnan við Stafnes stóð verslunarstaðurinn Básendar, þar til nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, að staðurinn eyddist í ægilegu flóði, sem einnig eyddi þá verslunarstaðnum í Hraunhöfn á Snæfellsnesi, þar sem nú standa Búðir. Er þetta mesta flóð sem um getur á Suðurnesjum og jafnframt það afdrifaríkasta. Það mun hafa verið á Básendum, þar sem Skúli Magnússon síðar landfógeti var innanbúðar hjá Danskinum og neitaði að pretta viðskiptavinina.
Næst kemur það sögu Sandgerðis að árið 1913 selur Matthías Þórðarson Lofti Loftssyni útgerðarmanni aðstöðu sína í verstöðinni og skömmu síðar settist Haraldur Böðvarsson þar að með sinn útgerðarrekstur og einnig fleiri. Haraldur var í Sandgerði um skamma hríð milli þess sem hann hætti útgerð frá Vogum á Vatnsleysuströnd og flutti til Akraness. Segir sagan að meðan Haraldur stóð við, hafi verið hörð keppni milli hans og Lofts um útgerðaraðstöðuna í landi. Ekki fer hjá því að öll þessi umbrot í útgerðinni hafi kallað á hafnarframkvæmdir og var fyrst gerð trébryggja og bólverk, en byrjað var á núverandi hafnargarði einhvern tímann á árunum upp úr 1940 og er hann nú orðinn 300 metra langur.”
Innsiglingin inn til Sandgerðis hefur löngum verið örðug stærri bátum. Hafa þeir gjarnan orðið að sæta sjávarföllum til að komast út og inn um Hamarssund, en svo heitir innsiglingin. Síðan 1962, eða sl. 3 ár hefur stöðugt verið unnið að hafnarbótum. Garðurinn lengdur um 42 metra og Grettir hefur unnið að dýpkun á sundinu 4-6 mánuði á ári hverju. Það er seinunnið verk og erfitt, enda stórgrýtt í botni. Til þessa hafa framkvæmdirnar kostað um 20 milljónir króna.
Sú sögn er til um Hamarssund að þar eigi aldrei að farast skip, en sá fyrirvari fylgir, að fara verði rétt í sundið. Þjóðsagan segir, að kerling ein, sem bjó á Bæjarskerjum hafi átt börn tvö, pilt og stúlku. Þeim barst á í sundinu og fórust bæði. Kerlingu varð svo um þetta slys, að hún mælti svo um, að aldrei skyldi farast þar skip, væri rétt farið. Boðar tveir, sem eru norðan og sunnan við sundið heita eftir börnum kerlingar, Þorvaldur og Bóla. Raunin hefur líka orðið sú, að bát hefur aldrei svo vitað sé hlekkst á í sundinu sjálfu, en komið hefur fyrir að borið hefur út úr því og getur þá verið tvísýnt um afdrifin.
Verslunarstaður myndaðist fyrst í Sandgerði um leið og útgerð hófst þaðan, eða á árunum 1907-1908 og þar hefur verið verslað stöðugt síðan. Búsettu fólki fer fyrst að fjölga fyrir alvöru á árunum upp úr 1940 og nú eru um 1000 íbúar í Miðneshreppi, en svo heitir sveitarfélagið.
Hér áður á árum var fjörugt verbúðalíf í Sandgerði. Þá mátti heita að tvöföld áhöfn væri á hverjum báti. Helmingur áhafnarinnar var í landi og beitti línuna, gerði að fiskinum og vann önnur aðkallandi störf, en sjómennirnir réru yfirleitt með skrínukost. Þá hafði hver bátur sína verbúð, þar sem mennirnir nutu svefns og matar og höfðu ráðskonu til halds og trausts. —
Yfirleitt voru verbúðir þannig innréttaðar að fiskhús og beitingaaðstaða var niðri, en íbúðir uppi. Frægust hrakningasaga tengd við Sandgerði, er um það, þegar vélbáturinn Kristján hraktist vélarvana um hafið í vondum veðrum í hálfan mánuð eða meira og var löngu búið að telja hann af. Þá bjarg það lífi áhafnarinnar, að vélstjórinn hafði fengist eitthvað við brugg og gat eimað drykkjarvatn úr sjó í litlum mæli þó. Þegar þeir loks gátu hleypt bátnum á land við Stafnes í vitlausu veðri voru þeir búnir að brenna hann hér um bil upp til agna til að halda þessari einstæðu bruggun í gangi.
Nú hefur orðið ákaflega mikil breyting á. Verbúðalífið, eins og það þekkist fyrr á árum er að mestu horfið, enda línuvertíð úr sögunni svona hér um bil. Nú munu skráðir 10 stórir vélbátar í Sandgerði og urmull smærri báta og trilla. Sú var þó tíðin, að vertíðarbátar voru þar miklu fleiri, en smærri. 1918 voru til dæmis gerðir 90 bátar út frá Sandgerði, en ekki voru það allt merkilegar fleytur að stærðinni til. Nú landa 40—60 bátar í Sandgerði á hverri vertíð, en sú breyting hefur orðið á, að bátarnir eru lausari við en áður og geta notfært sér löndunarmöguleika víðar jafnframt. –
Fyrir tveimur árum eða svo byggði Guðmundur Jónsson á Rafnkelsstöðum síldarverksmiðju í Sandgerði, þá fyrstu á staðnum. Fyrir var lítil beinamjölsverksmiðja,- sem Garðar h.f. hafði reist í upphafi, en Guðmundur keypti hána og stækkaði og breytti. Bátar hans lenda allir í Sandgerði, þó að þeir séu skráðir í Garðinum.
Aðal útgerðarfélögin á staðnum í dag eru Miðnes og Garður: Miðnes er stöðin sem Haraldur Böðvarsson byggði upphaflega, en Guðmundur á Rafnkelsstöðum á Garð, sem Matthías Þórðarson lagði grundvöllinn að, og Loftur Loftsson eignaðist síðar.
En þetta eru aðeins stærstu aðilarnir sem reka útgerð frá Sandgerði. Aðrir minni eru ótaldir, fyrirtæki eins og Djúpáll h.f., Arnar h.f. og Barðinn á Húsavík, sem á útgerðaraðstöðu í Sandgerði. Og líklega eru þeir fleiri.
Þó að Sandgerðishöfn hafi nú í áraraðir ekki verið talin með öndvegishöfnum landsins, er nú svo komið eftir stöðugar hafnarbætur og dýpkun á innsiglingunni, að hafskipafært er orðið inn á glóði. 1000-1500 tonna skip geta hiklaust farið þar inn og athafnað sig við garðinn, sem er öruggur legugarður í öllum veðrum. Sú tíð er löngu liðin að formenn flýðu með báta sína frá garðinum og út á leguna í vondum veðrum.
Geysimikið er byggt af húsum í Sandgerði, ekki síður en annars staðar á SV landi. Þar eru að rísa, eða eru risin stór hverfi af fallegum einbýlishúsum og óðum er verið að snyrta til í kringum þau. Áður en langt um líður verður subbuskapurinn, sem löngum hefur auðkennt íslensk útgerðarpláss horfinn með öllu og ekkert eftir sem minnir á bernskuárin annað en rauðu Miðneshúsin, sem eru hvað mest áberandi umhverfis höfnina og upp af garðinum.
Sveitarstjóri í Sandgerði er Þórir Sæmundsson, ungur maður. Hann fræddi okkur um það helsta sem er á döfinni hjá sveitarfélaginu. Hafnarbæturnar hafa að sjálfsögðu verið kjarni framkvæmdanna, en margt fleira kemur til. Sveitarfélagið er að láta reisa áhaldahús niðri á fjörukambinum alllangt innan við höfnina, en þar á kambinum er líka að rísa nokkur fjöldi fiskverkunarhúsa. Suðurgata, sem er aðalgata bæjarins og sú sem fyrst er komið á ofan af heiðinni verður malbikuð í haust.
Bygging íþróttahúss átti að hefjast í sumar, en sú framkvæmd var stöðvuð af ríkisvaldinu, en Þórir fullyrðir að byrjað verði á því næsta sumar. Þá er verið að virkja nýtt vatnsból og verður neysluvatn þá bæði nægt og gott.
Borað var eftir vatninu og gekk það vel. Þá hefur verið lokið við að leggja Vallargötu.
Mjög knýjandi nauðsyn er að stækka barnaskólann og verður það gert eftir að íþróttahúsið hefur verið reist. T.d. um þann fjölda sem sækir skóla í Sandgerði má taka, að íbúar Miðneshrepps eru í dag 1031, en þar af eru ekki nema tæp 500 á kjörskrá, þannig, að meira en helmingur íbúanna er innan við 21 árs aldur. Í sambandi við þetta má svo geta þess, að skólastjórabústaður hefur verið endurnýjaður.
Þá er talið það helsta sem bæjarfélagið, eða eigum við heldur að segja sveitarfélagið, hefur á sinni könnu í bili og er þá ekki minnst á eilífðarmál hvers bæjarfélags, eins og vatns og skolplagnir.
Til þessa hefur lítið verið um annan iðnað í Sandgerði en fiskiðnaðinn einan og má eiginlega segja, að svo sé enn. Þó eru nú sem óðast, eftir því sem bærinn vex örar að spretta upp þjónustufyrirtæki við útgerðina og byggingariðnaðinn, vélsmiðjur, trésmiðjur og þess háttar.
Þá held ég, að Sandgerði sé að nokkru lýst, en mikið skortir sjálfsagt á, að fullnægjandi mynd fáist af staðnum. En það sem á vantar geta menn séð af eigin raun, ef þeir eru staddir í Keflavík á annað borð, nenna að skreppa 10 mínútna leið eftir greiðfærum vegi suður í Sandgerði, þar sem úthafsbáran þagnar aldrei að eilífu sunnan frá Reykjanestá norður á Garðskaga.”
Heimild:
-Alþýðublaðið 17. sept. 1965, Sandgerði, Texti og myndir: Grétar Oddsson, bls. 7-10.
Þriðjudaginn 23. desember 2014 mátti lesa eftirfarandi í Víkurfréttum:
“Grímsvarða við Sandgerðisveg hefur verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.
Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina.
Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hverrgi sást til ljósa.
Heimild:
-https://www.vf.is/frettir/minnisvardi-um-latna-a-midnesheidi-1

Á hinni nýju Grímsvörðu er kross sem Guðmundur Sigurbergsson byrjaði að höggva til á Þorláksmessu 2013.