Færslur

Sandgerðissel
Athygli FERLIRs hafði fyrir nokkrum árum verið vakin á svonefndri “Grænulaut” ofan við Sandgerði. Sá, sem það gerði, sagðist hafa leikið sér þar sem barn. Eftirtektarvert hefði verið að svæði í lautinni, sem raunar er aflíðandi breitt gróið gil, hefði jafnan grænkað fyrr á vorin en önnur svæði í nágrenninu.
SelstaðanLýsingin vakti strax forvitni því hér var komin vísbending um að þarna kynnu að leynast gamlar tóftir; beitarhús, kot eða jafnvel gömul selstaða.
Í gamalli lýsingu á Sandgerði segir m.a.: “Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.”

Tóftir

Um bæinn Sandgerði segir í sömu lýsingu: “Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.”
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði segir m.a. um kotin: “Hjáleigur 1703 eru nefndar Bakkakot, sem einnig er til 1847; Krókskot, er einnig til enn; Landakot, er einnig til enn; Tjarnarkot, er einnig til enn; Harðhaus og Gata munu horfin. Stöðulkot var komið í eyði 1703, svo og Bakkabúð og Helgakot. Sums staðar er sagt frá því, að Sandgerði hafi heitið Sáðgerði. Má og sjá merki akurlanda í landi jarðarinnar.”

Tóftin

Þá segir í annarri örnefnalýsingu: “Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur.”
Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Hvort fyrstnefnd tóft hafi verið svonefnd Gvendartóft eða Oddstóft er erfitt að segja nokkuð til um. Þó er það ósennilegt.
FuglTóftin í Grænulaut er aflöng með þremur rýmum. Hún er of lítil til að geta hafa verið bær og tæplega nógu stór til að geta hafa verið kot, en hæfileg sem selstaða. Miðað við stærð rýma og skipulag þeirra gæti þarna hafa verið sel frá Sandgerði (Sáðgerði). Fjórða rýmið, aflangt, vestast gæti þá hafa verið stekkur undir selhúsinu.
Auðvitað gæti þarna hafa byggst upp örkot eða önnur nytsöm mannvirki um skamman tíma, en þegar horft er til aðstæðna má leiða að því líkum að þarna hafi verið selstaða fyrrum. Reyndar er ekki minnst á selstöðu frá Sáðgerði í Jarðabókinni 1703, en það segir þó lítið um fyrri not.
Grasgróningar eru þarna í skjóli og lægðum, en hvergi er ræktaðan blett að finna. Það styrkir tilgátuna um selstöðu svo ofarlega í heiðinni.
Tóftin er í skjóli fyrir austanáttinni. Neðan við þær hefur runnið lækur fram á sumarið. Neðan við þær hafa myndast tjarnir, ákjósanlegar til beitar. Tóftin sjálf er gróin, en þó má sjá í henni grjóthleðslur í veggjum og lögun rýma. Lítill ágangur hefur verið á tóftina í seinni tíð.
Ef um selstöðu hefur verið að ræða er hún sambærileg við það sem sjá má í Bæjarskersseli undir Álaborginni og Fuglavíkurseli í Miðnesheiði, undir Selhólum. Hvalsnesselin tvö hafa enn ekki verið skoðuð, en það verður gert fljótlega.
Þarna gæti verið komin 253. selstaðan í fyrrum landnámi Ingólfs. Annars væri forvitnilegt að glugga í fornleifaskráningu, sem unnin var fyrir Sandgerðisbæ v/nýbyggingarsvæðis ofan bæjarins. Hún var lögð fram á fundi byggingarnefndar bæjarins 21. maí 2008.
Frábært veður. Gangan tók 12. mínútur.
Heimildir m.a.:
-Reynir Sveinsson.
-Jarðabók 1703.
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.

Efra-Sandgerði

Garðaskagaviti

Gengið var frá Útskálum um Garðskaga og með Skagagarðinum að Hafurbjarnastöðum, Kirkjubóli og um Flankastaði að Sandgerði.

Garðsskagaviti

Gamli Garðsskagaviti.

Strönd suðvesturhornsins og Reykjanesskagans er mjög fjölbreytt; sandstrendur, sjávarbjörg, grýttar fjörur eða ýmis konar bergmyndanir í flæðarmálinu. Svæðið hentar því vel til gönguferða og er mátulega langt frá höfuðborginni. Við ströndina er fjölskrúðugt fuglalíf, ekki síst á vorin. Þar fer saman stórkostleg náttúra og lífríki, hreint umhverfi og að mestu óbyggt svæði. Að þessu sinni var gengið ofan strandar, en víða má finna skoðunarverða staði á svæðinu.

Garður

Útskálar.

Útskálar var og er kirkjustaður og prestsetur í Garði, eða Sveitarfélaginu Garði eins og það heitir nú. Útskálar voru eitt mesta höfuðból á Suðurnesjum ásamt Stóra Hólmi í Leiru og Kirkjubóli á Miðnesi. Útskálakirkja var helguð Pétri postula og Þorláki biskupi fyrr á tíð. Kirkja sú er nú stendur á Útskálum var reist á árunum 1861-1863, timburhús á hlöðnum grunni, með sönglofti, forkirkju og turni. Kirkjugarðurinn er athygluverður enda tengjast mörg leiðin fólki og atburðum í Garði og nágrenni, ekki síst miklum sjósköðum fyrrum.

Garðskagi

Garðskagi. Nýi vitinn.

Vitinn á Garðskaga trjónir til lofts hvaðan sem litið er í Garði. Hann var byggður árið 1944, en eldri vitinn á Garðskagatá var reistur 1897, en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884.
Garðskagi er nyrzti hluti skagans, sem gengur til norðurs, yzt á Reykjanesi. Þar var viti fyrst reistur árið 1897, þar sem hafði verið leiðarmerki, varða frá 1847 með með ljóskeri frá 1884. Árið 1944 var byggður nýr viti. Gamli vitinn var notaður sem fuglaathugunarstaður á vegum Náttúrufræðistofnunar á árunum 1962-1978.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – kort.

Garðskagi er einn af beztu fuglaskoðunarstöðum Reykjaness og er mikið um farfugla þar vor og haust. Fuglaskoðarar flykkjast þangað til að heilsa upp á vini sína og vonast til að eignast nýja. Gamli Vitinn, sem fremst stendur er vinsælt efni ljósmyndara og í honum má sjá kort af Garðskaga þar sem skipströnd fyrri ára eru merkt og ýmsar upplýsingar eru þar um strandlengjuna.
Greinileg merki um akuryrkju hafa fundizt á Garðskaga, enda dregur hann nafn af Skagagarðinum, sem liggur á milli túnsins á Útskála og Túnsins á Kirkjubóli. Þessi garður var byggður til varnar akurlendinu. Fyrir aldamótin 1900 sást móta fyrir 18 akurreinum, sem voru aðskildar með görðum.
Frá Útskálum var gömlu kirkjugötunni fylgt áleiðis að og ofan við íþróttahúsið ofan við Síkið. Við hana eru tóftir gamalla kota sem og fornmannagröf, að talið er. Við hana er letursteinn, sem ekki hefur tekist að ráða í.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Gengið var til baka eftir götunni og beygt upp að enda Skagagarðsins, sem enn er sýnilegur, ofan við aðalgötuna í gegnum þorpið. Þar liggur hann beint upp í hæðina, áleiðis að Kirkjubóli.
Skagagarðurinn, sem mun vera forn, girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn var aðlíðandi norðanmeginn, en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.
Fáum mun kunnugt um Skagagarðinn sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum. Engu að síður er hér um að ræða einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefa okkur vísbendingar um löngu horfna starfshætti.

Garðsskagi

Skagagarðurinn – loftmynd 1954.

Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.

Garðskagi

Garðsskagaviti.

Garðinum var fylgt til vesturs. Ofarlega í hæðinni eru tóftir Skálareykja. Þar við var læst hlið á Skagagarðinum. Vörslumaður hliðsins bjó að Skálareykjum.
Garðinum var fylgt áfram yfir þjóðveginn milli Garðs og Sandgerðis og þá var stutt eftir að Hafurbjarnarstöðum.
Hafurbjarnastaðir hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar. Bein og gripir voru flutt í Forngripasafnið, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við. Alls voru í teignum 9 kuml og í þeim bein 7 eða ef til vill 8 manna og hafa þau verið rannsökuð. Einnig var mikið af beinaleifum hunda og hesta. Allmargt gripa fannst þar, vopn, skartgripir og fleira og sennilega hefur verið þar bátskuml.
Haldið var yfir að Kirkjubóli, sem nú er á golfvelli Sandgerðinga. Kirkjuból var mikil jörð og oft setin áður af höfðingjum. Það var áður þar sem nú heitir Gamlaból. Sá atburður gerðist vorið 1433 að hópur manna, sveinar Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forustu Magnúsar nokkurs kæmeistara hafði beðið Margrétar, dóttur Vigfúsar hirðstjóra Hólms, en fengið hryggbrot. Reiddist Magnús og ákvað að brenna Margréti inni á Kirkjubóli. Hún var þó eina manneskjan sem komst úr eldinum komst á þreveturt trippi og gat flúið. Hét hún að giftast þeim manni sem hefndi hennar. Það gerði Þorvaldur Loftsson á Möðruvöllum og fékk hann Margrétar.

Kirkjuból

Kirkjuból – loftmynd 1954.

Árið 1550 var síðasti kaþólski biskupuinn á Íslandi tekinn af lífi. Sá sem kvað upp úrskurðinn um að biskup skyldi líflátinn hét Kristján og var umboðsmaður danska hirðstjórans á Íslandi. Í ársbyrjum 1551 fór Kristján með fjölmennu liði á Suðurnes í erindum konungs og tók sér gistingu að Kirkjubóli. Um nóttina réðust Norðlendingar að bænum fengu leyfi bóndans þar til að rjúfa þekjuna, réðust að Kristján og mönnum hans og drápu þá fleiri eða færri. Voru Kristján og fylgdarmenn hans dysjaðir fyrir norðan túngarð á Kirkjubóli, á Draughól. Þótti þar reimt, svo að Norðlendingar fóru aftur, grófu líkin upp og hjuggu höfuðin en settu nefin milli þjóana. Þetta þótti mönnum hin mesta smán og svívirðing og er fréttin barst til Danmerkur og töldu að níðst hefði verið á líkunum.

Garður

Letursteinn á fornmannaleiði í Garði.

Leiddi þessi atburður til þess að árið eftir komu danskir hermenn að Kirkjubóli, tóku bóndann og fluttu í Straum og hálshjuggu þar. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.
Gengið var um Flankastaði, en að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.
Þá var komið í Sandgerði. Það er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi. Elsta húsið í Sandgerði, Sáðgerði eða Efra-Sandgerði, sem er nyrst í plássinu við Sandgerðistjörn. Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_gardskagi.htm
-http://www.islandsvefurinn.is/landshlutar.asp?lysing=sws&hluti=sws&menu=sw
-http://www.sandgerdi.is/igen.asp?ID=361&pID=348&rvID=6358

Hafurbjarnastaðir

Gripir sem fundust í kumli við Hafurbjarnastaði.

Stafnes

Í Faxa 1993 er sagt frá gamalli sögn um Stafnes undir fyrirsögninni “Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes”:

Faxi 1993“Mælt er, að til forna hafi verið 24 hjáleigur og tómthús á Stafnesstorfunni. Taldi Jón Jónsson hreppstjóri frá Fuglavík, sem síðast bjó í Glaumbæ við Stafnes, mjög glöggur maður og fróður um margt, upp 14 af hjáleigum þessum, sem nú hafa verið fjölda mörg ár í eyði, og voru þær þessar: Nes, Hólmi (tvíbýli), Sandhús, Garðar, Rif, Refshalakot, Gosa, Hattakollur, Sveinshöfði, Vallarhús, Halakot, Lodda og Þemba.
Kvaðst hann á yngri árum sínum hafa heyrt fleiri bæjamöfn nefnd, en ekki muna þau. Sum af býlum þessum voru með vissu grasbýli frá Stafnesi, en þó flest þurrabúðir. Fiskveiðar munu óvíða hafa verið stundaðar með meiri dugnaði og betri hagnaði en frá Stafnesi, enda er þaðan örskammt að sækja á fiskimiðin. Fiskur var þá almennt hertur eða þá kasaður, svo sem skata og hákarl. Var fiskurinn hertur í grjótbyrgjum, sem byggð voru hingað og þangað upp um hraun, og sést þeirra víða merki enn í dag.
Stafnes
Á Stafnesi eru nú þessi býli: Stafnes, Glaumbær, Nýlenda, Bali, Litlibær, Hólakot og Grund, og eru hér talin 21 alls, ef byggð hinna síðarnefndu býla er svo gömul sem hinna. Er þá ekki nema þremur fátt í þá tölu, sem hin forna sögusögn greinir.
Svo er sagt, að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir, og er hún skráð eftir því, sem sagði Jón fyrrum hreppstjóri í Fuglavík árið 1888, og var hann þá um áttrætt.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi, og mun bærinn þá hafa staðið, þar sem nú er kallað Urð, og er þar nú rif, sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur, þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu, er stunduðu sjómennsku og reru til fiskjar frá Nesi.

Einn dag að áliðnum vetri, er þeir voru á sjó að vanda, brimaði snögglega svo mikið, að ólendandi var talið. gerðist gamli maðurinn órór, gekk til smíðahúss og tegldi þar staf einn eða kelli, en bað vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér, hvers þær yrðu áskynja úm afdrif skipsins.
Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir, að ekki muni lengur þurfa að bíða þess, að synir hans lendi, því að þær stúlkurnar höfðu horft á þá bræður leggja í sundið, en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan; hafði honum þá þegar hvolft og hann borist upp á skerið. Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá, sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund, og þá tvær saman.
Þegar stúlkumar komu til karls, hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt, svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill, en haglega gerður og með útskurði allmiklum.

Stafnes

Stafnes.

Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið, þar sem Boðinn falli á land, segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum, sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega, þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér.
Gera þær nú, sem karl leggur fyrir, og þegar Boðinn rís hæst, tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: „Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða, sé rétt sundleið farin, og leiðið mig nú heim”.
Það fylgir sögu þessari, að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum, því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farist á sundinu, þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega.
Á þeim tímum, er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma, fórst þó eitt skip þama með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því, sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan við aðallendinguna.” – Eftir heimildum frá Vilhjálmi Kr. Hákonarsyni frá Stafnesi. – Rauskinna.

Stafnes

Stafnesviti.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1923 skrifar Hannes Þorsteinsson um “Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi”, þ.á.m. Stafnes:

“Starnes (Stafnes). Stafnes í A. M. og síðan, en Starnes í fjölda fornbréfa frá 1270 og fram á 17. öld eða lengur, og vafalaust hið rétta, upphaflega nafn; er og enn nefnt svo hjá A. M. (í jarðabókinni í Rangárvallasýslu undir Nefsholt). Stiernes nefnist jörðin í Jarðab. Bockholts c. 1600 (A. M. 459 fol.), og eru það leifar af hinum gamla framburði, en Starnes beinlínis í Jb. Jens Söffrenssonar 1639 (A. M. 460 fol.). í ritgerð eptir séra Sigurð Br. Sívertsen á Útskálum er þess getið, að á þeim slóðum hafi verið stör mikil, þótt nú 8é eydd. Starnes verður því að teljast sem aðalnafn, en Stafnes sem varanafn, þótt það reyndar ætti að falla alveg burtu.”

Heimildir:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1993, Gömul sögn um Stanes – “Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes”, Vilhjálmur Kr. Hákonarson, Stafnesi, bls. 57.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1923, Hannes Þorsteinsson – Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi. Tileinkað minningu séra Guðmundar prófasts Helgasonar. Bls. 30.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Sandgerði 1910

Árið 2018 gerðu Kanon arkitektar skýrslu um byggða- og húsakönnun í Sandgerði:

Sögubrot

Sandgerði

Skýrslan.

Í Landnámu er sagt frá því að Ingólfur Arnarson hafi numið Reykjanesskagann sem og Rosmhvalanesið allt.
Óvíst er hvenær byggð hófst í Sandgerði, en trúlega hefur það verið á fyrstu áratugum búsetu norrænna manna á Suðvesturlandi.
Árið 1886 skildu Miðnesingar sig frá öðrum byggðarkjörnum á nesinu og þá varð til Miðneshreppur sem náði frá Lambarifi við Garðskaga í norðri, meðfram strandlengjunni nánast að Garði og Leiru að austan og allt til Ósabotna við Hafnir að sunnan. Í desember 1990 varð Miðneshreppur svo að bæjarfélagi þegar Sandgerðisbær fékk kaupstaðarréttindi.
Öldum saman var stunduð sjósókn frá Sandgerði á opnum bátum, enda stutt í fengsæl mið. Sandgerði var upphaflega útvegsjörð og með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum þar sem fiskurinn í sjónum var bústofninn. Það er fyrst með tilkomu vélbátaútgerðar sem Sandgerði fer að byggjast upp sem þéttbýlisstaður, en frá þessari mikilvægu verstöð landsins hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð.
Árið 1901 varð Sandgerðisvík löggiltur verslunarstaður. Um það leyti voru nokkrir bæjarkjarnar á svæðinu, allir álíka stórir. Árið 1907 hófust framkvæmdir við bryggjustúf í Sandgerði á vegum Ísland-Færeyjar félagsins sem og tilraunir með vélbátaútgerð. Má rekja upphaf hafnarframkvæmda í Sandgerði til umsvifa þess félags, en félagið réð Matthías Þórðarson til þess að koma upp útgerðarstöð í Sandgerði.
Á svonefndum “Hamri” voru reistar miklar byggingar og þar fyrir framan byggð steinbryggja. Matthías fékk lánuð áhöldin sem notuð voru til byggingar steinbryggjunnar í Reykjavík. Verkfæri og efni í steinbryggjuna var flutt til Sandgerðis um áramótin 1907-1908 og timbrið skömmu síðar. Byggð var traust trébryggja á grandanum milli Hamarsins og lands. Guðmundur Einarsson steinsmiður hafði veg og vanda af hleðslu bryggjumannvirkjanna.
Útgerð þessa félags stóð ekki lengi, en mannvirkin sem reist höfðu verið nýttust síðar í útgerð sem aðrir stóðu fyrir.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið staðfesti að Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður verði eitt sveitarfélag 30. apríl 2018.

Umhverfi
Sandgerði
Búsetulandslag er meðfram ströndinni. Staðhættir á Rosmhvalanesi hafa leitt til byggðarmynsturs mótuðu af landbúnaði og útgerð. Byggðin þræðir víkur og voga meðfram ströndinni. Húsnæði var staðsett á hæðardrögum og lágsvæðin ræktuð í skjóli garða. Þéttbýli Sandgerðisbæjar einkennist af sandfjörum, skerjum og víkum og byggt er út frá bújörðunum sem nú hafa tengst saman, þ.e. Flankastaðir.
Ágangur sjávar hefur löngum valdið miklum usla í Miðneshreppi, eins og víðar á Reykjanesskaga. Dæmi eru um bæi sem hurfu einfaldlega smátt og smátt í sjó af völdum sjávarágangs.
Myndarlega hlaðna garða er víða að finna sem sumir voru t.d. notaðir til skjóls við kálgarða.
Í riti Þorsteins Jósepssonar og Steindórs Steindórssonar, Landið þitt Ísland segir m.a.: “Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes.
Sandgerði
Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil.
Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er”… “Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.
Upp af Lækjamótum og Hólahverfi eru Uppsalir. Suður af Oddstóft er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot… .”
Saltfiskreitir voru víðs vegar um hreppinn, í öllum hverfum hans. Einn af þekktari reitunum var Gulllágin.
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði er sagt frá því að Sandgerði hafi heitið Sáðgerði. Má og sjá merki akurlanda í landi jarðarinnar.”
Sandgerði
Í annarri örnefnalýsingu segir: “Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Á þessum hól eru rústir.
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði er m.a. getið um kotin Krókskot, Landakot og Tjarnarkot. Nálægð við sjó, tjarnir og mólendi gefur bæjarumhverfinu sérkenni og margbreytileika. Trjágróður er ekki áberandi í bæjarlandinu, en víða má sjá tré í húsagörðum.

Þróun byggðar
SandgerðiUpphaf þorpsmyndunar í Sandgerði er rakið til ársins 1914 er Akurnesingarnir Haraldur Böðvarsson, Þórður Ásmundsson og Loftur Loftsson hófu útgerð þaðan. Á vetrarvertíð 1916 er talið að um eða yfir 40 bátar hafi stundað róðra frá Sandgerði á þeirra vegum. Stóð þessi útgerð í miklum blóma næstu fimmtán árin og með aukinni útgerð óx byggð í Sandgerði umfram aðra staði í sveitarfélaginu.
Árið 1915 voru umsvif útgerðar Haraldar Böðvarssonar orðin það mikil að hann taldi sig þurfa að útvega íbúðarhúsnæði á vertíð fyrir á annað hundrað sjómanna. Til viðbótar þessu var fjöldi starfsfólks í landi. Hann réðst því í húsbyggingar auk bryggjuframkvæmda og byggingu rafstöðvar í Sandgerði ásamt Lofti Lofssyni og var hún opnuð árið 1918. Rafstöðin, sem lýsti upp hús þeirra félaga, mun vera ein sú fyrsta sem byggð var á Suðurnesjum.
Sandgerði
Þegar þeir Loftur og Haraldur keyptu jörðina Sandgerði árið 1916, voru þeir fyrst og fremst að tryggja sér aðstöðu fyrir útgerð, fiskvinnslu og verslun.

Sandgerði

Frá Sandgerði fyrrum.

Á þriðja áratug 20. aldar dróst útgerð Akurnesinganna mikið saman. Árið 1941 hætti Haraldur Böðvarsson rekstri í Sandgerði og seldi þeim félögum Sveini og Ólafi Jónssyni fyrirtæki sitt. Stofnuðu þeir hlutafélagið Miðnes. Allt fram til ársins 1946 var notast við bryggjurnar tvær sem byggðar voru snemma á 20. öld. Þá keypti Miðneshreppur bryggjurnar og voru þær endurbættar og stækkaðar. Árið 1974 var hafist handa við að loka höfninni fyrir úthafsöldu, með grjótgörðum og hafa stöðugar hafnarbætur átt sér stað síðustu áratugina.

Sandgerði

Húsnæðismál í Sandgerði báru þess ótvírætt vitni fram eftir 20. öld að þar var bær í hraðri uppbyggingu. Vandi var við að hýsa fjölda aðkomufólks sem kom á vertíð og margir úr þeim hópi settust að í Sandgerði. Byggingarfélag verkamanna í Sandgerði var stofnað árið 1947 og árið 1950 fékk félagið lóðir undir íbúðahús í Hjarðarholtstúninu. Gatan þar sem húsin voru reist fékk nafnið Túngata.
Sandgerði
Um bæinn Sandgerði segir í sömu lýsingu: “Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta 19. aldar var byggt tiltölulega stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanu.

Sandgerði

Frá Sandgerði fyrrum.

Seint á fjórða áratug 20. aldar urðu mikil umskipti á aðstöðu til skólahalds í Miðneshreppi. Á árunum 1937 – 1938 var reist nýtt og myndarlegt skólahús í Sandgerði. Skólahúsið hefur verið stækkað nokkuð oft.
Kynding húsa var með mismunandi sniði í hinum ýmsu hverfum Miðneshrepps í upphafi 20. aldar. Mest fór það eftir því hvaða eldsneyti var nærtækt á hverjum stað. Kol voru mikilvæg til kyndingar um miðja 20. öld og var kolakynding ríkjandi fram yfir 1960. Kolageymslur voru við hvert hús í bænum. Þegar uppbygging þéttbýliskjarnans í Sandgerði var orðin skipulegri fjölgaði þeim húsum verulega sem höfðu olíukyndingu. Nýir orkugjafar til húshitunar komu svo til sögunnar þegar Hitaveita Suðurnesja hóf starfsemi sína.
Vitinn við Sandgerðishöfn var hækkaður um miðjan fimmta áratug 20. aldar, um tíu metra, í þá hæð sem hann er nú, sem er nítján metrar. Þegar byggðin stækkaði og lýsing húsa varð algengari fór lýsingin að trufla vitaljósið. Fyrir tilstuðlan sjómanna, sem skoruðu á Vitamálastofnun að hækka vitann, var það gert og lokið við hækkun í ársbyrjun 1946.
SandgerðiEin fyrsta umsvifamikla gatnagerðin í Sandgerði var gatan sem lá um Sandgerðistún og lögð var sumarið 1943. Lagning götunnar þótti það mikill þrældómur að hún fekk nafnið “Burma – braut” eftir þrælavinnu breskra hermanna í Burma á stríðsárunum. Nú eru þetta göturnar Brekkustígur og Tjarnargata sem eru innan könnunarsvæðisins.
Í núgildandi aðalskipulagi segir: “Þéttbýlið í Sandgerðisbæ hefur þróast upp af höfninni og markast nú af bænum Sandgerði í norðri og Býjarskeri í suðri.
Elsta byggðin í þéttbýlinu er frá 19. öld og í norðurhluta þéttbýlisins milli Brekkustígs og Austurgötu eru gömul hús sem mynda þar heildstæða götumynd sem vert er að vernda og styrkja.
Strandgatan er helsta umferðar- og athafnagata bæjarins og við hana norðanverða er miðsvæðið Varðan, sem hýsir bæjarskrifstofur og ýmiss konar þjónustu og almenningsgarð. Þar sem Strandgatan mætir Vitatorgi er nú þegar komin starfsemi sem snýr að ferðaþjónustu, s.s. listagallerí og veitingastaður.
Ný byggð hefur risið til austurs s.l. fjóra áratugi í Lækjamótum og Hólahverfi, sem enn er í byggingu”.

Heimild:
-Sandgerðisbær – byggða- og húsakönnun, Kanon arkitektar 2018.

Sandgerði

Sandgerði – byggða og húsakönnun.

Sandgerði

Í Alþýðublaðinu 17. sept 1965 skrifar Grétar Oddsson um Sandgerði – og birtir myndir af bænum.

“SANDGERÐI liggur vestan á Reykjanesskaganum og er um stuttan lágheiðarveg að fara frá Keflavík, ekki er það meira en svo sem tíu mínútna akstur. —

Sandgerði

Sandgerði 1965.

Heiðin er auðnarleg, eins og Reykjanesskaginn allur, en efst á henni er ratsjárstöð, með hvítum kúplunni, minnir í fljótu bragði á máríska virkisborg.

Það fyrsta sem maður sér í Sandgerði er urmull af nýjum og fallegum íbúðarhúsum og þorpið hefur yfir sér þokkalegan svip, þrátt fyrir auðnarlegt og ívið kuldalegt umhverfið.

Sandgerði er ekki gamalt pláss, frekar en svo mörg önnur kauptún á Íslandi. Fyrstu drög að þorps myndun á staðnum munu hafa verið gerð, þegar Matthías Þórðarson, faðir Ástþórs Matthíassonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, stofnaði þar til útgerðar með vélbáti rétt eftir aldamótin. Þá var ekki önnur byggð á staðnum, en jörðin Sandgerði og frá henni mun hafa verið sóttur sjór frá því hún byggðist. Hvenær það var, veit enginn og ekki er vitað til að hún sé landnámsjörð.

SandgerðiMesta útræði í nágrenni Sandgerðisjarðarinnar var um aldaraðir frá Stafnesi. Þaðan var ívið styttra á miðin, en sá litli munur var mikill á tímum áranna og seglanna. Þegar vélbátarnir komu til sögunnar var engin leið að koma þeim við á Stafnesi, vegna þess, hve höfn er þar ótrygg, en hins vegar er dágóð smábátahöfn frá náttúrunnar hendi í Sandgerði. Varð því úr að útgerðin fluttist þangað, en Stafnes lagðist af sem verstöð, þó að þar hafi efalaust vérið ein allra stærsta útgerðarstöð á landinu um aldabil.

Básendar

Básendavík.

Skammt sunnan við Stafnes stóð verslunarstaðurinn Básendar, þar til nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, að staðurinn eyddist í ægilegu flóði, sem einnig eyddi þá verslunarstaðnum í Hraunhöfn á Snæfellsnesi, þar sem nú standa Búðir. Er þetta mesta flóð sem um getur á Suðurnesjum og jafnframt það afdrifaríkasta. Það mun hafa verið á Básendum, þar sem Skúli Magnússon síðar landfógeti var innanbúðar hjá Danskinum og neitaði að pretta viðskiptavinina.

SandgerðiNæst kemur það sögu Sandgerðis að árið 1913 selur Matthías Þórðarson Lofti Loftssyni útgerðarmanni aðstöðu sína í verstöðinni og skömmu síðar settist Haraldur Böðvarsson þar að með sinn útgerðarrekstur og einnig fleiri. Haraldur var í Sandgerði um skamma hríð milli þess sem hann hætti útgerð frá Vogum á Vatnsleysuströnd og flutti til Akraness. Segir sagan að meðan Haraldur stóð við, hafi verið hörð keppni milli hans og Lofts um útgerðaraðstöðuna í landi. Ekki fer hjá því að öll þessi umbrot í útgerðinni hafi kallað á hafnarframkvæmdir og var fyrst gerð trébryggja og bólverk, en byrjað var á núverandi hafnargarði einhvern tímann á árunum upp úr 1940 og er hann nú orðinn 300 metra langur.”

Innsiglingin inn til Sandgerðis hefur löngum verið örðug stærri bátum. Hafa þeir gjarnan orðið að sæta sjávarföllum til að komast út og inn um Hamarssund, en svo heitir innsiglingin. Síðan 1962, eða sl. 3 ár hefur stöðugt verið unnið að hafnarbótum. Garðurinn lengdur um 42 metra og Grettir hefur unnið að dýpkun á sundinu 4-6 mánuði á ári hverju. Það er seinunnið verk og erfitt, enda stórgrýtt í botni. Til þessa hafa framkvæmdirnar kostað um 20 milljónir króna.

Sú sögn er til um Hamarssund að þar eigi aldrei að farast skip, en sá fyrirvari fylgir, að fara verði rétt í sundið. Þjóðsagan segir, að kerling ein, sem bjó á Bæjarskerjum hafi átt börn tvö, pilt og stúlku. Þeim barst á í sundinu og fórust bæði. Kerlingu varð svo um þetta slys, að hún mælti svo um, að aldrei skyldi farast þar skip, væri rétt farið. Boðar tveir, sem eru norðan og sunnan við sundið heita eftir börnum kerlingar, Þorvaldur og Bóla. Raunin hefur líka orðið sú, að bát hefur aldrei svo vitað sé hlekkst á í sundinu sjálfu, en komið hefur fyrir að borið hefur út úr því og getur þá verið tvísýnt um afdrifin.

SandgerðiVerslunarstaður myndaðist fyrst í Sandgerði um leið og útgerð hófst þaðan, eða á árunum 1907-1908 og þar hefur verið verslað stöðugt síðan. Búsettu fólki fer fyrst að fjölga fyrir alvöru á árunum upp úr 1940 og nú eru um 1000 íbúar í Miðneshreppi, en svo heitir sveitarfélagið.

Hér áður á árum var fjörugt verbúðalíf í Sandgerði. Þá mátti heita að tvöföld áhöfn væri á hverjum báti. Helmingur áhafnarinnar var í landi og beitti línuna, gerði að fiskinum og vann önnur aðkallandi störf, en sjómennirnir réru yfirleitt með skrínukost. Þá hafði hver bátur sína verbúð, þar sem mennirnir nutu svefns og matar og höfðu ráðskonu til halds og trausts. —

Yfirleitt voru verbúðir þannig innréttaðar að fiskhús og beitingaaðstaða var niðri, en íbúðir uppi. Frægust hrakningasaga tengd við Sandgerði, er um það, þegar vélbáturinn Kristján hraktist vélarvana um hafið í vondum veðrum í hálfan mánuð eða meira og var löngu búið að telja hann af. Þá bjarg það lífi áhafnarinnar, að vélstjórinn hafði fengist eitthvað við brugg og gat eimað drykkjarvatn úr sjó í litlum mæli þó. Þegar þeir loks gátu hleypt bátnum á land við Stafnes í vitlausu veðri voru þeir búnir að brenna hann hér um bil upp til agna til að halda þessari einstæðu bruggun í gangi.

SandgerðiNú hefur orðið ákaflega mikil breyting á. Verbúðalífið, eins og það þekkist fyrr á árum er að mestu horfið, enda línuvertíð úr sögunni svona hér um bil. Nú munu skráðir 10 stórir vélbátar í Sandgerði og urmull smærri báta og trilla. Sú var þó tíðin, að vertíðarbátar voru þar miklu fleiri, en smærri. 1918 voru til dæmis gerðir 90 bátar út frá Sandgerði, en ekki voru það allt merkilegar fleytur að stærðinni til. Nú landa 40—60 bátar í Sandgerði á hverri vertíð, en sú breyting hefur orðið á, að bátarnir eru lausari við en áður og geta notfært sér löndunarmöguleika víðar jafnframt. –

Fyrir tveimur árum eða svo byggði Guðmundur Jónsson á Rafnkelsstöðum síldarverksmiðju í Sandgerði, þá fyrstu á staðnum. Fyrir var lítil beinamjölsverksmiðja,- sem Garðar h.f. hafði reist í upphafi, en Guðmundur keypti hána og stækkaði og breytti. Bátar hans lenda allir í Sandgerði, þó að þeir séu skráðir í Garðinum.

Aðal útgerðarfélögin á staðnum í dag eru Miðnes og Garður: Miðnes er stöðin sem Haraldur Böðvarsson byggði upphaflega, en Guðmundur á Rafnkelsstöðum á Garð, sem Matthías Þórðarson lagði grundvöllinn að, og Loftur Loftsson eignaðist síðar.

Sandgerði

Sáðgerði í Sandgerði.

En þetta eru aðeins stærstu aðilarnir sem reka útgerð frá Sandgerði. Aðrir minni eru ótaldir, fyrirtæki eins og Djúpáll h.f., Arnar h.f. og Barðinn á Húsavík, sem á útgerðaraðstöðu í Sandgerði. Og líklega eru þeir fleiri.

Þó að Sandgerðishöfn hafi nú í áraraðir ekki verið talin með öndvegishöfnum landsins, er nú svo komið eftir stöðugar hafnarbætur og dýpkun á innsiglingunni, að hafskipafært er orðið inn á glóði. 1000-1500 tonna skip geta hiklaust farið þar inn og athafnað sig við garðinn, sem er öruggur legugarður í öllum veðrum. Sú tíð er löngu liðin að formenn flýðu með báta sína frá garðinum og út á leguna í vondum veðrum.

Sandgerði

Sandgerði – erfið innsigling.

Geysimikið er byggt af húsum í Sandgerði, ekki síður en annars staðar á SV landi. Þar eru að rísa, eða eru risin stór hverfi af fallegum einbýlishúsum og óðum er verið að snyrta til í kringum þau. Áður en langt um líður verður subbuskapurinn, sem löngum hefur auðkennt íslensk útgerðarpláss horfinn með öllu og ekkert eftir sem minnir á bernskuárin annað en rauðu Miðneshúsin, sem eru hvað mest áberandi umhverfis höfnina og upp af garðinum.

Sveitarstjóri í Sandgerði er Þórir Sæmundsson, ungur maður. Hann fræddi okkur um það helsta sem er á döfinni hjá sveitarfélaginu. Hafnarbæturnar hafa að sjálfsögðu verið kjarni framkvæmdanna, en margt fleira kemur til. Sveitarfélagið er að láta reisa áhaldahús niðri á fjörukambinum alllangt innan við höfnina, en þar á kambinum er líka að rísa nokkur fjöldi fiskverkunarhúsa. Suðurgata, sem er aðalgata bæjarins og sú sem fyrst er komið á ofan af heiðinni verður malbikuð í haust.

Bygging íþróttahúss átti að hefjast í sumar, en sú framkvæmd var stöðvuð af ríkisvaldinu, en Þórir fullyrðir að byrjað verði á því næsta sumar. Þá er verið að virkja nýtt vatnsból og verður neysluvatn þá bæði nægt og gott.

Sandgerði

Sandgerðishöfn í dag.

Borað var eftir vatninu og gekk það vel. Þá hefur verið lokið við að leggja Vallargötu.

Mjög knýjandi nauðsyn er að stækka barnaskólann og verður það gert eftir að íþróttahúsið hefur verið reist. T.d. um þann fjölda sem sækir skóla í Sandgerði má taka, að íbúar Miðneshrepps eru í dag 1031, en þar af eru ekki nema tæp 500 á kjörskrá, þannig, að meira en helmingur íbúanna er innan við 21 árs aldur. Í sambandi við þetta má svo geta þess, að skólastjórabústaður hefur verið endurnýjaður.

Þá er talið það helsta sem bæjarfélagið, eða eigum við heldur að segja sveitarfélagið, hefur á sinni könnu í bili og er þá ekki minnst á eilífðarmál hvers bæjarfélags, eins og vatns og skolplagnir.

Til þessa hefur lítið verið um annan iðnað í Sandgerði en fiskiðnaðinn einan og má eiginlega segja, að svo sé enn. Þó eru nú sem óðast, eftir því sem bærinn vex örar að spretta upp þjónustufyrirtæki við útgerðina og byggingariðnaðinn, vélsmiðjur, trésmiðjur og þess háttar.

Þá held ég, að Sandgerði sé að nokkru lýst, en mikið skortir sjálfsagt á, að fullnægjandi mynd fáist af staðnum. En það sem á vantar geta menn séð af eigin raun, ef þeir eru staddir í Keflavík á annað borð, nenna að skreppa 10 mínútna leið eftir greiðfærum vegi suður í Sandgerði, þar sem úthafsbáran þagnar aldrei að eilífu sunnan frá Reykjanestá norður á Garðskaga.”

Heimild:
-Alþýðublaðið 17. sept. 1965, Sandgerði, Texti og myndir: Grétar Oddsson, bls. 7-10.

Sandgerði

Frá Sandgerðishöfn.

Grímsvarða

Þriðjudaginn 23. desember 2014 mátti lesa eftirfarandi í Víkurfréttum:

Guðmundur

Guðmundur Sigurbergsson.

“Grímsvarða við Sandgerðisveg hefur verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hverrgi sást til ljósa.

Heimild:
-https://www.vf.is/frettir/minnisvardi-um-latna-a-midnesheidi-1

Grímsvarða

Á hinni nýju Grímsvörðu er kross sem Guðmundur Sigurbergsson byrjaði að höggva til á Þorláksmessu 2013.