Básendar

Farið var að Stafnesi, rifjuð upp sagan af gamla manninum og tilurð nafnsins, skoðaður dómhringurinn og brunnurinn við hið gamla Lindarkot.

Básendar

Kengur á Básendum.

Á Básendum var litið á einn stálkenginn, sem konungsskipin voru bundin við fyrr á öldum og gengið um garða og tóttir gamla bæjarins, sem var “dæmigerður íslenskur torfbær”. Skoðaðar voru undirstöðurnar undir gömlu verslunarhúsin og Básendaflóðið 1799 rifjað upp, en í óveðrinu lögðust flest húsin af sem og mörg hús önnur við suðvesturströndina, bátar flutu upp og brotnuðu og fólk og skepnur drápust.
Haldið var að Gálgum, sem eru tvær klettaborgir og forn aftökustaður innan verndarsvæðisins. Þaðan var haldið niður að Þórshöfn. Brimið fór mikinn og í gegnum það glytti í Hafnir sunnan Ósa. Útsýnir var stórbrotið og skýheft sólarbirtan gaf umhverfinu dulrænan blæ. Eftir nokkra leit fannst jarðfasti klapparsteinninn með áletruninni HP auk annarra stafa og ártala. Gerð verður tilraun til þess síðar að rýna nánar ofan í letrið á steininum.

Kistugerði

Letursteinninn við Kistugerði.

Gengin var hin Gamla gata til baka að Stafnesi. Leitað var að “Hallgrímshellunni” með áletrunni HP16??, en hún á að vera þarna á klapparhrygg við vörðubrot. Hún fannst ekki að þessu sinni. (Sjá nánar.) Á leiðinni fannst enn ein fjárborgin, nú ofan Básenda. Hún var staðsett og skráð á GPS-tækið.
Frá Stafnesi var haldið að Skagagarðinum mikla og hann skoðaður og metinn. Við enda hans, Útskálamegin, var gengið að fornmannagröf norðan Vegamóta. Yfir gröfinni er stór hella og áletrun yfir hana miðja. Einungis ein gömul heimild er um hellu þessa sem og þjóðsöguna, sem að henni lítur. Sagt er frá henni í annarri FERLIRslýsingu.
Farið var í Kistugerði og litið á Kistuna og rúnasteininn neðan hennar. Kistan á að vera, skv. þjóðsögum, gömul fornmannagröf. Flestir þekkja söguna af gullkistunni, sem þar á að vera. Rúnasteinninn liggur nú nokkuð frá gröfinni, en bændur, sem grófu í Kistuna færðu hann úr stað á sínum tíma. Garðbúar hafa af miklli samviskusemi merkt merka staði í grennd við Garð, þ.á.m. Kistugerði, en því miður á röngum stað.
Frábært veður.

Stafnes

Á Stafnesi.