Letursteinn

Löng leit hafði verið gerð að “Hallgrímshellunni” svonefndu, en hún átti að vera aflöng steinhella á klöpp skammt norðan Þórshafnar við Ósa. Á hellunni átti að vera áletrun (HPS), sem m.a. hefur verið eignuð séra Hallgrími Péturssyni, presti í Hvalsnesi. Leitinni löngu lauk loks í munasafni Þjóðminjasafns Íslands í Kópavogi þar sem Lilja Árnadóttir, yfirmaður munasafnsins, gat upplýst aðspurð að umrædd hella væri í vörslu safnsins.

Flekkuleiði

Flekkuleiði – rúnasteinn.

Þar var steinninn innskráður með eftirfarandi hætti: “Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.” Gripurinn hefur númerið 1974-120 í safninu og átti að vera í einu gripahúsa þess.
Af ljósmynd að dæma, sem tekin var af hellunni á vettvangi árið 1964, virtist ártalið vera 1638.
Lilja og starfsfélagi hennar, Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, starfsmaður munasafns Þjóðminjasafns Íslands, gátu síðan staðsett helluna og buðu FERLIR að koma og skoða hana.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu

FERLIRsfélagar héldu þá og þegar á fund “Hallgrímshellunnar”. Hún hafði legið í geymslum Þjóðminjasafnsins í 31 ár, eða allt frá því að hún var brottnumin af af klapparholtinu norðan Þórshafnar við Ósa árið 1974, þar sem hún hafði verið allt frá fæðingu. Jafnvel áhugasamasta fólkið á Stafnessvæðinu hafði ekki hugmynd um að hellan hefði verið fjarlægð eða hvað hafði orðið um hana. Flest hélt það reyndar að hellan væri þarna ennþá.

Sem fyrr segir hafa sumir tengt þessa áletrun séra Hallgrími Péturssyni, sem varð prestur í Hvalsnesi um og eftir 1644. Hann þjónaði jafnframt kirkjunni í Höfnum, sem er handan við Ósana. Þar eru örnefni er gefa til kynna ferjusiglingar milli Hafna og austanverða Ósa.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan á vettvangi á 20. öld.

Hallgrímur kom til Njarðvíkur eftir dvöl í Kaupmannahöfn árið 1637 ásamt Tyrkja-Guddu og öðrum Íslendingum, sem numdir höfðu verið á brott af “Tyrkjum” tíu árum fyrr (1627). Það skipti því máli hvaða ártal var nákvæmlega á þessari tilgreindu hellu. Þess ber að geta að mikið er um áletranir á klöppum á þessu svæði við Ósa, bæði við Þórshöfn og við Básenda. Á fyrrnefnda staðnum eru klappaðir bókstafirnir HP á hásæti (miðju) klappar og á síðarnefnda staðnum eru m.a. nokkrar áletranir frá 16. og 17. öld.

Við nákvæma skoðun á hellunni í geymslu Þjms. virtist ártalsáletrunin vera 1628. Eða hvað? Er hugsanlegt að þarna sé ekki um ártal að ræða, heldur eittvað annað? Gæti áletrunin verið HSP 16Z og 8? Gæti áletrunin falið í sér hugsun umfram staðhæfingu? Hvað bjó að baki áletruninni? Hvert var tilefnið?

Básendavegur

Básendavegur að Stafnesi.

Hvað fær einhvern til að fara með áhöld á stað nálægt alfaraleið til að klappa vandlega áletrun á stein á þeim tiltekna stað? Hvers vegna að klappa haglega á stein milli mikilla verslunarhafna, en ekki þar og þá? Svaranna er reyndar að leita í nálægð við staðinn. Hann er mitt á milli Þórshafnar og Básenda (sjá aðrar umfjöllun á vefsíðunni – sem gæti nú hafa fallið í “faldar síður”).

Ljóst má vera að “Hallgrímshellan”, eins og henni er nú fyrir komið, verður að teljast ómerkilegur innanhússsafngripur, en í ljósi fyrrum staðsetningar og sögulegs samhengis, má með nokkurri sanngirni telja hana allmerkilega væri hún á sínum upprunalega stað.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Ef hellan tengist ekki séra Hallgrími þá tengist hún áreiðanlega einhverjum öðrum. T.d. gæti hún verið grafskrift manns, sem varð úti á þessum stað þetta tiltekna ár. Fjölmörg dæmi eru um slíkt á og við Miðnesheiðina, eins og annálar kveða á um. Slíkar grafskriftir eru á nokkrum stöðum á þessu svæði, t.a.m. við Dauðsmannasvörðuna neðri, auk þess vandlega er klappað í hellu við Prestsvörðuna þar sem séra Sig. Sívertssen hafði næstum orðið úti fyrr á öldum. Þá gæti áletrunin verið eftir einhvern er tengdist versluninni í Þórshöfn eða á Básendum.

Ýmislegt annað kemur til greina, en þótt ekki væri fyrir annað en grafskriftina gæti “Hallgrímshellan” talist merkileg og jafnvel orðið tilefni frekari rannsóknar á tilefni skriftarinnar.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletrun.

Vonast er til að framkvæmdaráð Þjóðminjasafnsins bjóði heimamönnum helluna einhvern tímann til varðveislu á ný eða að heimamenn og aðrir áhugasamir biðji um að fá hana aftur á heimaslóðir.

Margir merkilegir steingripir eru í geymslum Þjóðminjasafnsins og jafnvel víðar. Flestir þeirra bárust Þjms. á fyrri hluta 20. aldar. Síðustu áratugi hefur lítið borist þangað af steinum, nema ef vera skyldi eftir björgunaruppgrefti, því svæðisbundin byggðasöfn hafa að mestu tekið að sér að varðveita þá heima í héraði.
Ekki er ljóst hvaða áletrunarstein megi telja elstan í safninu, en eflaust væri hægt að komast að því með því að skoða skriflegar heimildir og skrár safnsins.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Vel færi á því að vekja upp málefnalega umræðu hér á landi um “eignarhald” og eðlilega staðsetningu fornleifa, ekki síst með hliðsjón af þeirri athygli er þær kunna að fá af hálfu ferðalanga sem og nýtan- og heimanleika (upprunaleika) þeirra á einstökum svæðum. Ferðamálasamtök víðs vegar um landið, sveitarstjórnarfólk og jafnvel fleiri aðilar, mættu gefa sér svolítinn tíma frá dagsins amstri og taka þátt í slíkri samræðu. “Hallgrímshellan” gefur og bæði tilefni til hugleiðinga og spurninga, s.s.: “Hver á fornleifarnar í landinu?” og “hvar eiga þær að vera?” Eiga þær t.d. að vera sem næst upprunastað sínum og heimafólki, því og sem flestum gestum þess til fróðleiks, áhugasvölunar og áminningar um gildi þeirra. Eða eiga þær að vera varðveittar í lokuðum geymslum á einu landsvæði frekar en öðru þar sem örfáir fá að nálgast þær? Og hvers vegna ætti frekar að vera hægt að varðveita “sérstaka” fornmuni í geymslum á höfðuborgarsvæðinu en í öðrum sambærilegum geymslum annars staðar á landinu, t.d. á Raufarhöfn?

Hallgrímshella

Hallgrímshellan skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Forngripir, eins og allar aðrar jarðfundnar fornleifar, eru eign ríkisins. Má rekja þá löggjöf aftur til 18. aldar. Ljóst er að byggðasöfnin um allt land, auk Þjms., varðveita fornleifar af ýmsum toga. Hlutverk þeirra hefur verið skilgreint í seinni tíð. Aðstæður hafa því breyst frá því að hinir ýmsu ártalssteinar eða steinar með öðrum áletrunum bárust Þjóðminjasafninu eða Hinu íslenska fornleifafélagi á undan því.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu.

Ástæða er til í ljósi breyttra aðstæðna að endurmeta og endurskoða matið, sem lagt var til grundvallar því hvar minjum skyldi safnað saman og þær varðveittar? Er jafnvel kominn tími til, í ljósi breyttra aðstæðna, nýrra krafna og annarra nýtingamöguleika, að endurmeta staðsetningu áður uppsafnaðra fornminja með það fyrir augum að gera sem flesta þeirra sýnilegri og meðvitaðri almenningi og gestum landsins? Horfa má til þess að gildi þeirra enduspeglast af sýnileikanum, en auk þess geta fornleifar haft tilfinningagildi.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan – áletrun.

Áður fyrr var fornmunaverðmætum safnað saman miðlægt til varðveislu og til að koma í veg fyrir eyðingu þeirra. Í dag býr sérhver landshuti og jafnvel einstök minni svæði yfir ákjósanlegum varðveisluskilyrðum. Og í dag ferðast fornleifafræðingar um malbikaða vegi landsins í bílum eins og annað fólk. Það gerir flest forvörslufólk einnig. Allir aðilar, sem áhuga hafa, komast nú á milli landshluta á tiltölulega skömmum tíma, flesta daga ársins. Hvað er því til fyrirstöðu í dag að forngripir fái að dvelja og varðveitast “heima” þar sem þeir eiga sínar sögulegu rætur? Lagaákvæði um fornleifaskráningu, bann við röskun minja og virkara eftirlit minnka líkur á að fornleifar glatist. Viðkvæmari gripi má hæglega varðveita í staðbundnum söfnum, kirkjum, opinberum byggingum eða öðrum slíkum. Geymslur Þjóðminjasafnis eru engum til gagns og ánægju.

Heródes

Heródes; álaga- og rúnasteinn. Hefur verið látinn ósnertur.

Skv. 3. gr. “Þjóðminjalaga” (107/2001) er Þjóðminjasafn Íslands höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslunnar í landinu. Það “annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á minjum um menningarsögu þjóðarinnar”. Safnið hefur sinnt sínu hlutverki vel þrátt fyrir þröngan stakk. En “hver á fornleifarnar?” Er það sá, sem ber ábyrgð á þeim? Hver ber ábyrgð á þeim skv. lögum? Svarið er bæði ENGINN og ALLIR. Enginn má raska eða færa fornleifar úr stað nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins og allir eiga að ganga þannig um fornleifar að þær skemmist ekki. Á fornleifum í vörslu safna bera ekki aðrir ábyrgð, a.m.k. ekki skv. lögunum.

Af hverju ekki að leyfa, a.m.k. þeim fornleifum er það þola, að vera sem næst þeim stað sem þeir eiga sinn “sögulega uppruna”, þ.e.a.s. ef þess er nokkurs kostur?

Letursteinar

Letursteinar í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Í 9. gr. sömu “Þjóðminjalaga” er ýtarleg skilgreining á fornleifum:
“Þær eru hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum… Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar”.

Í flókinni “Reglugerð um þjóðminjavörslu” frá árinu 1998 segir í
8. gr. að “meginstarfsemi Þjóðminjasafns Íslands fer fram á vettvangi þriggja sviða. Nefnast þau safnsvið, útiminjasvið og fjármálasvið.” Í 21. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um söfnun fornleifa, sbr.: “Útiminjasvið skal, ýmist eitt sér eða í samvinnu við aðrar starfseiningar, söfn, stofnanir eða þjónustuaðila, láta safna minjum, sem falla undir sviðið, skrá þær, varðveita, forverja og rannsaka og sinna sýningarhaldi og fræðslu um minjarnar.”

Garður

Garður – rúnasteinn á fornmannaleiði.

Í 16. gr. reglugerðarinnar segir að “munadeild varðveitir, skráir, rannsakar og sýnir muni Þjóðminjasafns Íslands og veitir ráðgjöf og fræðslu á sínu fagsviði. Í umsjá deildarinnar eru allir munir skráðir í Þjóðminjasafn sem og munir í sérsöfnum innan vébanda þess nema hlutaðeigandi sérsafn hafi stöðu deildar innan safnsviðs.”. Lán á munum eru bundin takmörkunum því skv. 76. gr. reglugerðarinnar segir að “safnstjóri getur, með samþykki þjóðminjavarðar, heimilað að safngripir í eigu Þjóðminjasafns Íslands séu hafðir til sýnis í þeim húsum, er undir það heyra. Safnstjóra er heimilt, með samþykki þjóðminjavarðar, að lána söfnum, stofnunum eða öðrum ábyrgum aðilum safngripi í eigu Þjóðminjasafns Íslands á sérstakar sýningar á þeirra vegum, en skilyrði skal þá setja um tryggingar og örugga vörslu, sbr. 10. gr. þjóðminjalaga.” Reyndar er um ranga tlvísun að ræða því reglugerðin er eldri en núgildandi lög. Ný reglugerð hefur enn ekki verið samnin.

Letursteinn

Letursteinn í geymslu Þjóðminjasafnsins.

En á yfirleitt að geyma minjar, hverju nafni sem þær nefnast, á einum miðlægum stað? Svarið er auðvitað bæði nei og já. Almennt eiga minjar heima sem næst uppruna sínum. Þó geta verið til svo sérstakar, verðmætar eða viðkvæmar minjar að þær þarf að varðveita við sérstök skilyrði. Einstakar minjar, sem telja má á einstakan hátt sameiginlegan arf þjóðar og endurspegla með áhrifaríkum hætti menningu hennar, gætu hugsanlega átt heima á þjóðminjasafni, en þó einungis þær helstu. Á tímum aukinnar ferðamennsku og áhuga er þörf á að dreifa og draga athygli ferðamanna að sögulegum minjasvæðum. Með það í huga er t.d. er mikilvægt að endurmeta hvort og hvar t.a.m. einhverjar minjar, sem nú eru geymdar í lokuðum geymslum, ættu betur heima með hliðsjón að framansögðu. Á vefsíðu Byggðasafns Hafnarfjarðar er m.a. fjallað um skráningu og varðveislu fornleifa. Þar segir að “hún muni jafnframt einfalda bæjaryfirvöldum stefnumörkun t.d. varðandi umgengnireglur og merkingar og einnig getur ferðaþjónustan haft mikinn hag af slíkri heildarskrá.” Hér er gert ráð fyrir að ferðamenn hafi áhuga á fornleifum innan bæjarlandsins.

Hallgrímshella

Hafnir – letursteinn.

“Hallgrímshellan” er vel til þess fallin að vera “steingervingur” (sbr. persónugervingur) fyrir aðrar fornleifar (forngripi, fornmuni), sem nú hvíla í lokuðum geymslum (gripahúsum), en mættu með réttu vera úti í mörkinni þar sem atburðir eða tilefni gáfu til tilurðar þeirra.
Vonandi verður “Hallgrímshellan” tilefni til uppbyggilegrar umræðusköpunar og hugsanlega til að breyta afstöðu einhverra til þess hvar geymdar og gleymdar fornleifar eiga að varðveitast í framtíðinni hér á landi. Hafa ber í huga að fornleifar eru verðmæti í fleiri en einum skilningi.

Starfsfólki Þjóðminjasafnsins, sem var boðið og búið til að upplýsa um “Hallgrímshelluna” og gefa FERLIRsþátttakendum tækifæri til að skoða hana, er hér með þakkað fyrir liðsinnið.

Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimildir m.a.:
-Þjóðminjalög – 101/2001.
-Reglugerð um þjóðminjavörslu – 1998.
-Byggingarlög nr. 73/1997.
-http://www.natmus.is/thjodminjar/fornleifar/
-Lovsamling for Island II, 276; III, 131-13; VII, 673-74.
-Kristján Eldjárn: Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi, Reykjavík 2000.
-Orri Vésteinsson – Fornleifar, heimildir og samtíminn (2001).
-http://www.kistan.is/efni.asp?n=503&f=3&u=2
-http://www.hafnarfjordur.is/byggdasafn/fornleifar.html

Básendar

Básendar – letursteinn.