Kirkjuvogskirkja

Gott er að hefja gönguna við vitann á Stafnesi, þar sem Reykjanesskaginn skagar lengst til vesturs. Gengið er með ströndinni til suðurs. Á þessari leið eru margir áhugaverðir staðir að skoða. Fjaran er mjög falleg með öllu sínu lífríki. Þegar gengið hefur verið um 1 km er komið fram á nokkrar tóftir í þyrpingu, þar voru Básendar, verslunar- og útgerðarstaður á 15.öld. Verslun lagðist þar af eftir mikið sjávarflóð aðfararnótt 9. janúar 1799, þá missti kaupmaðurinn á staðnum allar eigur sínar og ein kona drukknaði. Áfram er gengið með ströndinni. Gálgar nefnast tveir háir klettar um 1 km suður af Básendum örlítið ofar í heiðinni, en á milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund. Gamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir þar og ef það á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að í nágrenninu hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Margar víkur og vogar ganga inn í skagann á þessu svæði og þótti bátalægi þar gott fyrr á öldum. Einna þekktust er Þórshöfn, sem var einn helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún þá af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en af því varð ekki.
Næsta vík við Þórshöfn nefnist Hvalvík þar má sjá hólma úti í sjó sem nefnist Hvalvíkurhólmi.

Þegar komið er lengra inn í Ósana er komið að tóftum sem nefnast Gamli Kirkjuvogur, forn kirkjujörð sem talin er hafa farið í eyði á 16.öld, hugsanlegt er að það hafi verið landnámsjörð Herjólfs Bárðarsonar.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Mikill og djúpur vogur gengur inn í landið þegar komið er enn innar og nefnist Djúpivogur. Þegar komið er fyrir Djúpavog er gengið fyrir Seljavog sem er öllu styttri. Á milli Djúpavogs og Seljavogs má sjá virðulegann klett uppi í heiðinni sem nefnist Hestaskjól. Þegar komið er fyrir Seljavog taka við margir litlir vogar sem nefnast Stóruselhelluvogur, Litluselhelluvogur og Brunnvogur, þar sveigir gangan til vesturs í átt að Höfnum.

Hafnir
HafnirUm miðja 18.öld hófst uppgangstími í Höfnum sem stóð fram á öndverða 20.öld. Á þessu tímabili bjuggu stöndugir útvegsbændur stórbúi í Kotvogi og Kirkjuvogi, þeir ráku þar mikla útgerð stórra áraskipa og húsuðu bæi sína með þeim hætti, að ekki var reisulegra um að litast í öðrum plássum. Á þessu tímabili fjölgaði fólki stöðugt í Höfnum, og margir fluttust þangað úr öðrum byggðarlögum á Reykajnesi. En blómaskeiðið tók enda þegar að ný tækni tók að riðja sér til rúms í íslenskum sjávarútvegi. Vélbátarnir þurftu betri hafnarskilyrði og meiri þjónustu en áraskipin, en þar stóðu Hafnarmenn höllum fæti. Þess vegna dróst útgerðin saman í Höfnunum á meðan að hún efldist annarsstaðar á svæðinu, í kjölfarið fór fólki að fækka. Má segja að Hafnir hafi orðið fórnarlamb vélvæðingar.

Margt áhugavert er að skoða í Höfnum:

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

• Fornleifauppgröft, árið 2002 fundust leifar af landnámsskála á túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju. Við rannsóknir kom í ljós að þessi bústaður er frá því fyrir árið 900.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness,“ sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.
• Ankeri sem stendur á túni á móts við kirkjuna en það er úr skipi sem nefndist Jamestown sem rak inn Ósabotna árið 1881 eftir að áhöfnin hafði yfirgefið það úti á Atlantshafi, skipið var álíka stórt og fótboltavöllur, skipið var þríþilfarað, fullt af eðalvið og öðrum verðmætum. Varð þessi fengur til þess að farið var að byggja timburhús í Gulbringusýslu.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

• Kirkjan í Höfnum var byggð af óðalsbóndanum í Kotvogi Vilhjálmi K. Hákonarsyni árið 1861 og er elsta kirkja á Suðurnesjum. Altaristöfluna málaði Sigurður Guðmundsson árið 1865. Kirkju á þessum stað er fyrst getið á ofanverðri 14.öld, en áður hafði kirkja verið norðan Ósabotna í Vogi (gamla Kirkjuvogi), gæti hafa verið þar fram á 16.öld.
Óhætt er að ætla sér 6-7 klst í þessa göngu.

Heimildir:
-www.sandgerdi.is ,Jón Þ. Þór, Hafnir á Reykjanesi.
-Skoðum kirkjur á Reykjanesi (bæklingur).

Kotvogur

Kotvogur í Höfnum.