Í Faxa árið 1967 ræddi Hallgrímur Th. Björnsson við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára gamla sækempu, um “Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum“. Skipið, sem strandaði, var hið sögufræga Jamestown:
“Fyrir tveimur árum, eða nánar til tekið í jólablaðinu 1965, birtist hér í Faxa langt og fróðlegt viðtal við hinn háaldraða sægarp og heiðursmann, Friðrik Gunnlaugsson, sem nú er langt til búinn að klifa sitt 95. aldursár. Sagði hann þar nokkuð frá aldamótaárunum í lífi þjóðarinnar, sjómannsferli sínum og samskiptum við ýmsa merka menn, t. d. Eldeyjar-Hjalta og brezkan togaraskipstjóra.
Nú á dögunum leit ég inn til Friðriks til að fræðast af honum um merkisatburð, sem skeði í Höfnum á bernskudögum hans þar, fyrir 85 árum, þegar hið mikla timburflutningaskip strandaði þar. Sótti ég furðu vel að gamla manninum, sem hafði lagt sig fyrir með reykjarpípuna sína og las í bók. Friðrik mun eini núlifandi Íslendingurinn, sem sá þenna atburð.
— Er þér þetta enn í fersku minni, Friðrik?
— Já, ég held ég muni það eins og það hefði skeð í gær, þó ég væri þá aðeins á 10. árinu.
— Á hvaða árstíma gerðist þetta?
— Það var um vorið, um vertíðarlokin.
Tíðin hafði verið góð, en í Höfnum hafði þá verið alveg fiskilaust. Ég man, að daginn áður en skipið strandaði voru vertíðarlok og vermenn því allir farnir. Aðeins 1 var á sjó, Marteinn Ólafsson í Merkinesi, sem var á stóru 6 manna fari. Piltar hans voru enn ófarnir.
Þennan dag hafði hann farið í Röstina til að fá lúðu og þar höfðu þeir komið auga á þetta stóra skip, sem þeir þá héldu að væri herskip eða eitthvað svoleiðis. Þeir ályktuðu þetta vegna stærðar skipsins, en það var nokkuð úrleiðis þeim stað, sem þeir voru að fiska. Jæja, svo um nóttina rauk hann upp á vestan, og um fótaferðartíma kemur þessi stóri barkur siglandi alveg beint undan vindinum og heldur áfram upp í klettana fyrir austan Þórshöfn, sem er í Miðneslandi.
— Og þið hafið séð þetta greinilega úr Höfnum ?
— Já, ég held nú það. En það sást ekki frá Stafnesi, né bæjunum þar í kring.
— Geturðu nokkuð lýst skipinu, stærð þess og lögun?
— Þetta var þrímastra skip, afskaplega skelfing stórt. Gæti ég helzt líkt því við m. s. Gullfoss, eins og hann er núna.
Þegar skipið strandaði, hrökk í sundur toppstöngin af miðmastrinu. Var þá kominn það mikill hroði, að enginn treysti sér að fara út, til að grennslast eftir, hvort fólk væri á skipinu. En það var ekki hægt að sjá úr landi, þar sem skipið hafði lenzað undan. Var nú farið út fyrir á Skotbakkanum, sem svo er kallað og fékk ég að vera þar með. Komumst við út í urðina fyrir austan Þórshöfn, en þaðan var stutt á strandstað. Við höfðum kíkir meðferðis og með honum sáum við vel át í skipið. Þar sást enginn maður, hvorki lífs né liðinn, það er greint varð. Svo komum við úr þessari könnunarferð og var þá sent til Reykjavíkur að láta vita um atburðinn.
— Hvað var þá langt um liðið frá því skipið strandaði?
— Aðeins stundarbil, meðan við skruppum út í urðina. Þegar svo veðrið batnaði, komu sendimenn úr Reykjavík og var þá farið út í skipið til að rannsaka það og innihald þess.
— Þú líktir skipinu áðan við Gullfoss, Friðrik. Hefurðu nokkrar tölur við að styðjast um stærð þess?
— Sjálfur hefi ég það ekki. En það vill nú svo vel til, að í Suðurnesjaannál, frá þessum tíma, eftir sr. Sigurð B. Sívertsen, prest að Útskálum, er að finna allnákvæma lýsingu á skipinu. Þar segir: „en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gegndi, og svo að menn hefðu eigi trúað, ef menn hefðu eigi séð. Eftir því, sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar á digurð, akkerin á að gizka, hvert af þremur 100 skippund, eða 3000… Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns til borðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligerð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar var allt fúið. Samt er óvíst, hve lengi það hefir verið í sjó eða hvenær því hefir borizt á. En að því var komizt, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitið þar „James Town,” sem líka er staðarnafn allnærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.”
— Þetta er nú orðin all nákvæm lýsing á skipinu, en getur þú sagt mér, Friðrik, hvaða skýring var á því gefin, að skipið hafði verið rænt og rúið öllu skrauti sínu og húsbúnaði og hvers vegna það rak mannlaust að landi?
— Okkur var sagt, að stýrisútbúnaður þess hefði bilað með einhverjum hætti og áhöfninni verið bjargað í annað skip. Eftir það hafi skipið borizt um hafið fyrir vindum og straumi og þannig legið opið og varnarlaust fyrir óvönduðum ævintýramönnum, sem áttu leið fram hjá því, enda var þar sjón sögu ríkari, eins og framanskráð ber með sér.
— Hvað er talið að timbrið í skipinu hafi verið mikið?
— Sé það rétt, sem ég hefi heyrt, að úr efstu lestinni hafi komið yfir 15.000 plankar, sem ég tel ekki vera of reiknað, og hafi svipað magn verið í hinum lestunum, hvorri fyrir sig, þá lætur nærri, að alls hafi í skipinu verið 45—50 þúsund plankar og annað timbur. Þetta er vitaskuld bara ágizkun mín, en ég hygg samt, að þetta geti látið nokkuð nærri.
— Svo að við víkjum aftur að sjálfu skipinu, Friðrik, var þetta tréskip?
— Já, og allt eirslegið í sjó niður. Á dekki þess voru 2 ákaflega stórir salir og fannst þar mikið af barna- og kvenfatnaði, sem þótti benda til, að um borð í skipinu hafi búið fjölskyldur, foreldrar með börn sín.
— Þóttu ykkur ekki ljótar fregnirnar um ófarir þessa mikla skips og ránin þar um borð?
— Jú, fólki blöskraði slíkt athæfi. En á þessu lék aldrei neinn vafi, enda höfðu ýmsir farmenn héðan bæði haft spurnir af þessu mannlausa skipi og jafnvel komið í það sjálfir, á leið sinni milli landa. Þeirra á meðal var Petersen, skipstjórinn á Ástu frá Duus, sem hingað kom alltaf á sumrin frá Þórshöfn, að taka fisk.
— Lenti skipið upp í kletta, þegar það strandaði ?
— Nei, ekki alveg. Það rann þar upp að klöpp og sneri þá stafninum hér um bil í landsuður, en hinum endanum í útnorður. Þannig lá það meðfram klöppinni, og hafa þá verið um 30 faðmar frá skipinu að henni, og hallaðist það þá lítið eitt til suðurs í stjórnborða.
— Víkjum nú aftur að söguþræðinum, Friðrik. Við vorum þar komnir, sem rannsókn hafði leitt í ljós, að farmur skipsins væri timbur og aftur timbur. Hvað gerðist svo næst?
— Yfirmenn úr Reykjavík voru sendir suður, sem skyldu hafa umsjón með uppskipuninni. Einn þessara yfirmanna hét Sigurður og var járnsmiður. Þótti hann vera mjög orðljótur og harður við lærlinga sína og hlaut af því viðurnefnið Siggi svínabezt. Svo var það einhvern tíma, að alls ókunnur maður, sem aðeins hafði heyrt hann kallaðan þessu nafni, þurfti að finna hann og kom heim til hans og spurði í fáfræði sinni konu hans, hvort Siggi svínabezt væri heima. Konan varð ókvæða við og byrjaði að skamma manninn, sem þá fljótlega áttaði sig, baðst afsökunar á mismæli sínu og kvaðst hafa verið að spyrja eftir Sigurði, sem smíðaði bezt. Hafði þá allt viðhorf eiginkonunnar til málanna breytzt til hins betra og hún boðið manninum til stofu, að þiggja hjá sér góðgerðir.
— Já, þetta hefir verið býsna úrræðagóður náungi. En segðu mér, Friðrik, hvað var svo gert við timbrið?
— Það var verið að skipa því upp allt vorið og allt sumarið, bæði þarna út frá í Hvalvíkinni og einnig suður í Kirkjuvogi. Uppskipunin í Hvalvík gekk fremur seint, því að þangað var ekki unnt að koma skipum, vegna mikils aðgrynnis, nema á hásjávuðu, en þá var líka burðurinn upp enginn. Meðal þeirra, sem skipuðu upp suður í Kirkjuvogi, var t.d. Ketill heitinn í Kotvogi, sem lét sína menn annast þetta verk. Einn þeirra man ég að var sonur hans, Ólafur. Öllu timbrinu var þar skipað upp fyrir neðan Kotvog með háum sjó og eins í Vörina, því að þar var örstutt að bera varninginn upp. Ég minnist þess, að það voru býsna stórir búnkar af timbri, sem þar komu á land. Þeir, sem við uppskipunina unnu, áttu að fá helming timbursins, eða andvirði þess, fyrir vinnu sína, enda lögðu þeir til mennina og bátinn, sem skipað var upp á. Nú, nú, þegar svo fór að lækka í fyrstu lestinni, var sett stórt gat á stjórnborðssíðu skipsins og timbrið rétt þar út. Að þessu var hinn mesti flýtisauki, enda komu nú margar skútur, sem lögðust hver af annarri að skipshliðinni og var timbrinu þá skipað út í þær um þetta gat, sem var mjög fljótlegt. Var verið að skipa út í þessar litlu skútur dag eftir dag, en þær voru frá 20—30 tonn að stærð. Timbrið var flutt í Hafnarfjörð, Reykjavík og víðs vegar hér um Suðurnes.
— Og selt þá jafnóðum?
— Það tel ég ekki ósennilegt, þó ég viti það ekki. En það veit ég, að þeir fengu viðstöðulaust að fylla skipin, sem báru lítið, og hefir þá sjálfsagt verið vitað, hvað í þau fór, og þannig verið hægt að fylgjast með því, sem hver og einn tók.
— Ætli yfirstjórn þessara mála hafi ekki verið í höndum amtmanns og viðkomandi konsúls?
— Það tel ég sennilegt.
— Unnuð þið Hafnarmenn ekki fyrst og fremst við þessa uppskipun?
— Jú, að sjálfsögðu allir, sem til einhvers voru nýtir. Ég kom þar hvergi nærri, sakir bernsku minnar. En svo var mikið af timbrinu, Hallgrímur, að þegar þessi uppskipun hafði staðið langt fram á sumar, var ekki nærri búið allt úr fyrstu lestinni. Hér vil ég geta þess, að önnur af þeim akkeriskeðjum, sem til náðist, var anzi mikið flókin og ekki unnt að greiða hana. Hin var alveg greið og var neðri endi hennar fastur í botni við kjölsvínið. Með þessari keðju var akkerið látið falla, til þess að festa skipið, að það ekki gæti tekið út. En eftir því sem skipið léttist og hækkaði í sjó, kom það náttúrlega ennþá hærra og nær klöppinni. En svo gerir hann þetta ofsa, óskapa veður á vestan í septembermánuði, og var flóðið eftir því mikið. Þá klofnaði skipið í tvennt og voru þá tvær lestarnar eftir ósnertar, og eins og fyrr segir, nokkuð í hinni þriðju. Jæja, þegar skipið var klofnað, flutu síðurnar upp og rak aðra í tvennu lagi upp í Einbúa, sem svo er nefndur, en hin á tangann, rétt hjá Skotbakkanum, og var hún í heilu lagi. En kjölsvínið lenti á skeri, sem er rétt norðan við Hestaklettinn og brotnaði þar.
Mörgum árum síðar fórum við oft og tíðum þangað í beitifjöru, með Bjarna heitnum Guðnasyni. Í einni þeirri ferð fundum við endann á keðjunni upp við skerið og skírðist þetta þá nokkuð fyrir okkur. Annars hefði endinn sennilega aldrei fundizt og enginn þá vitað neitt um afdrif keðjunnar. Nú, nú, þetta varð svo til þess, að Bjarni keypti „sjóboðið,” sem svo var kallað, fyrir 2 krónur.
— Hvað fólst í þessu sjóboði?
— Allt það úr skipinu, sem enn var ekki komið í land. En eins og ég gat um, fundum við keðjuna mörgum árum eftir strandið.
— En þú hefir enn ekki sagt mér, hvað varð um timbrið úr tveimur neðri lestunum, Friðrik?
— Þegar skipið brotnaði, barst það upp um allar fjörur og lá þar í hrönnum um alla ströndina, alla leið inn í Djúpavog.
— Það var sem sé ekki með í sjóboðinu?
— Nei, alls ekki. Í sjóboðinu fólst einungis vonin um eitthvað, sem ekki hefði rekið á land, væri það þá nokkuð. Enda var sjóboðið í þessu tilviki eins og ég sagði, slegið Bjarna á 2 krónur, sem náttúrlega var engin fjárhæð.
— Hann hefir þá séð sér leik á borði, þegar hann fann keðjuna?
— Já, það er rétt. Og eftir að hann þannig var orðinn eigandi sjóboðsins og þar með keðjunnar, fór þetta að fréttast.
Þorvaldur Bjarnason í Hafnarfirði, ættaður úr Höfnum, faðir Herdísar leikkonu, heyrði um keðjufundinn. Fékk hann áhuga á málinu og keypti vonina í keðjunni af Bjarna. Fékk hann Þorbjörn Klemenzson í lið með sér, en hann var þá einnig búsettur í Hafnarfirði. Hafði Þorvaldur samið við Vestmannaeyinga, um að þeir keyptu af honum keðjuna, ef honum tækist að ná henni upp. Strax þá um sumarið hófust þeir félagar handa við björgunarstarfið. Útbjuggu þeir stóran fleka, sem hvíldi á 8 olíufötum, settu á hann sveifarspil og fleira, sem að gagni mátti verða. Síðan fóru þeir á hverri fjöru og sveifuðu upp það sem þeir gátu, en hitt reif flekinn upp sjálfur, þegar hækkaði í sjónum, því að hann hafði verið rammlega festur við keðjuna.
En svo lásuðu þeir alltaf jafnóðum frá hvern lás, sem var 15 faðmar, og fóru með þá hvern um sig upp á Hestaklettinn og geymdu þar. Þannig höfðu þeir upp alla keðjuna, 7 liði, samtals 105 faðma og seldu hana síðan Vestmanneyingum þarna á klettinum, og þeir komu síðan þar á stórum mótorbát og fluttu heila kladdann til Eyja. Keðjan var síðan strengd þar yfir höfnina og settir á hana sigurnaglar með jöfnu millibili, handa bátunum til að festa sig við.
— Veiztu nokkuð, hvað Þorvaldur fékk fyrir keðjuna?
— Nei, en það hlýtur að hafa verið töluvert. Ég held nú annars, að þetta hafi þá verið orðin félagseign þeirra Þorbjörns, og sjálfsagt tel ég að þeir hafi fengið ríflega uppborinn útlagðan kostnað og sæmilegt sumarkaup, hvort sem þeir hafa nú grætt annað á fyrirtækinu. En auk keðjunnar náðu þeir þarna einnig upp akkerinu, sem var gríðarlega stórt, en það var með eikarási, er var í burtu, og lá akkerið því flatt. Þeir komu því með keðjunni upp á klöppina, þar sem það mun liggja enn, því að Eyjarskeggjar hirtu aldrei um að taka það. Nú er það auðvitað mosagróið þar á klöppinni, en þó tel ég alveg víst, að enn sjáist það þar. Mundi Vilhjálmur Magnússon manna líklegastur þar í Höfnum til að benda á þessa klapparflúð.
— Jæja, Friðrik. Mig langar að heyra nánar um timbrið í fjörunni og hvernig því reiddi af?
— Já, það var strax farið að númera timbrið, sem rak á fjörurnar, og voru margir við það verk, sem stóð yfir í vikutíma, að mig minnir. Jafnóðum og timbrið var númerað, gat salan á því hafizt, og svo þurfti ekkert annað, þegar númerin voru tekin, en að fleygja timbrinu örlítið hærra upp í fjöruna, svo að sjórinn tæki það ekki, enda var það þá komið úr allri hættu.
— Hvað þýddi þessi númering?
— Það var gert til þess, að hver gæti keypt það sem hann hafði hug á að fá, því að í hverju númeri voru ákveðnar lengdir og tiltekið magn. Sum voru með eintómum löngum plönkum, önnur með styttri og enn önnur með spýrur og borðvið og annað þess háttar. Svo buðu menn í hvert númer fyrir sig. Sumir kannske keyptu 5—6 og upp í 10 númer af þessu. Já, það held ég nú.
— Hve lengi stóð þessi verzlun þarna í fjörunni?
— Hún stóð í 4 daga.
— Hverjir komu þar til að verzla?
— Þangað komu menn víðs vegar að, frá Reykjavík, Hafnarfirði og alls staðar hér af Suðurnesjum, enda munu hafa verið byggð einhver ósköp af húsum úr þessu timbri. Ég minnist þess, að Einar í Garðhúsum keypti mjög mörg númer af þessu timbri, fyrir utan Ósa. Svo kom hann um sumarið, fékk skip í Höfnum og fór út eftir, þar sem hann átti timbrið, lét menn sína búnka því öllu í geysistóran fleka og binda saman rammlega. Minnir mig, að í flekanum væru um 200 miklir og stórir plankar, þetta 10—12 álna langir, 3ja þumlunga þykkir og 8—9 feta breiðir. — Jæja, svo þegar þeir voru búnir að koma flekanum af stað í norðan roki, héldu þeir suður úr og út ósinn og ætluðu með flekann suður í Kirkjuósvör, en þar átti að taka plankana í land og geyma þá þar, og þangað ætlaði svo Einar að sækja þá á sínum eigin skipum sumarið eftir. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Útfallið var að byrja, þegar þeir komu á móts við vörina og hafði þá straumurinn út úr ósnum betur, svo að þeir lentu fyrir utan Flataskerið og enn bárust þeir lengra út. Þannig héldu þeir suður með öllu landi og þó að þeir leituðust stöðugt við að koma flekanum nær og nær, þá hafði straumurinn sífellt betur og virtist einn hafa vald yfir flekanum, enda misstu þeir hann alveg að síðustu út fyrir eyrina á Kalmanstjörn og út á reginhaf. Þar með var sá draumur búinn.
— Svo Einar hefir ekki byggt hús úr þessu timbri?
— Nei, hann varð þarna fyrir talsverðum skaða.
— Urðu nú ekki fleiri en Einar fyrir tjóni í sambandi við þessa flutninga?
—Jú, það tel ég sennilegt, þó að mig reki ekki minni til þess. Menn sóttu timbrið ýmist á skipum, sem þeir þá sigldu inn á höfnina og lögðu þeim þar meðan verið var að hlaða þau, og fluttu þá litlir bátar timbrið út í skipin, eða þá að timbrið var flutt á hestum, en það gerðu t. d. bæði Keflvíkingar og Njarðvíkingar. Ég minnist þess, að hjá Bjarna heitnum Guðnasyni voru þá vermenn undan Eyjafjöllum og úr Fljótshlíðinni, sem hann gerði út, einnig voru hjá honum sjómenn, þeir Páll og Sigurður frá Hvalsnesi, sem nú eru báðir löngu horfnir af sjónarsviðinu.
Allir voru þessir menn meira og minna við smíðar þennan vetur, að smíða úr þessu ódýra timbri ýmiss konar búshluti og áhöld. — Náttúrlega hafa þeir fengið til þess leyfi Bjarna, enda munu þeir aðallega hafa gert það í landlegum og öðrum frístundum, en báðir ætluðu þeir að fara að búa á Hvalsnesi þá um vorið, svo að þetta hefir komið sér vel fyrir þá. Um vertíðarlokin fluttu þeir svo alla smíðina heim með sér. Fljótshlíðingarnir og þeir hinir undan Eyjafjöllunum, munu einnig hafa smíðað nokkuð þenna vetur og flutt gripina heim með sér. Voru það aðallega laupar, byttur, fötur og svo vefstólar. Sigurður heitinn á Hvalsnesi smíðaði handa sjálfum sér vefstól, völundarsmíði, sem var svo léttur og fíngerður, að krækja varð honum niður að aftan, svo að hann ekki lyftist upp, þegar ofið var í honum. Tiltekið var, hve gripur þessi var vandaður að allri gerð, enda var Sigurður orðlagður gæðasmiður.
— Hvað fleira manstu að segja af þessu, var lokið við timbursöluna þá um sumarið?
— Nei, nei, ég held nú síður, það entist í fleiri ár úr skipinu. Og ennþá lengur var þó verið að vinna úr sjálfum skipsskrokknum og búta síðurnar niður. Það var nú engin smáræðis vinna að rífa þetta allt í sundur, því að allt var það samanrekið með sterkum járn- og koparboltum.
— Voru það þá menn frá skipseigendum, sem sáu um þetta?
— Nei, bara frá þeim, sem keyptu skipsflakið, en það gerðu Hafnarmenn í félagi og voru þeir svo alltaf smátt og smátt að rífa þetta í fleiri ár. Og svo jafnóðum og timbrið losnaði úr flakinu, notuðu þeir það ýmist til eigin þarfa eða þeir seldu það öðrum, sem fengu það þá við mjög vægu verði. Síðan bútuðu þeir það með stórviðarsögum í mátulegar lengdir, t. d. rárnar og flettu síðan bútunum og gátu þannig fengið mjög heppilegt timbur.
— Þannig hefir allur skipsskrokkurinn meira og minna verið nýttur?
— Já, mjög mikið af honum. Bæjardyrnar í Kotvogi voru t. d. byggðar úr þessum viði, svokölluðum tappaplönkum. Nafnið kom til af því, að tappar voru settir í plankana, þar sem boltarnir höfðu verið.
— Telur þú að menn hafi hagnazt á þessu?
— Það er nú enginn vafi. Þeir fengu þetta svo að segja fyrir ekki neitt. Það var bara vinnan á þessu. Ekki man ég nú hvað skipssíðurnar kostuðu, en það var sáralítið, enda þýddi engum að kaupa þetta nema Hafnarmönnum. Þeir einir höfðu aðstöðu til að hagnýta sér brakið.
— En var ekki timbrið, sem flaut úr lestunum upp í fjörurnar, selt hærra verði?
— Jú, það var selt á uppboði fyrir eitthvað meira, en samt var það líka afar billegt, t. d. kostuðu þessir stóru plankar aldrei meira en 2 krónur og heil númer af öðru timbri voru seld á 1—2 krónur, heil búntin.
— Var ekki stundum margt um manninn þarna í fjörunni?
— Jú, það var það oft, t. d. var alltaf dálítill hópur manna, sem fór í einu til að rífa síðurnar.
— Manstu fleira að segja mér, Friðrik, viðkomandi þessu skipsstrandi?
— Já, ég held ég geti bætt hér við þessa frásögn athyglisverðum hlut. Þegar mörg ár voru liðin frá þessum atburði, kvisaðist sú fregn, að ballestin í þessu fræga skipi, er sökk með því í hafið, hafi ein út af fyrir sig, kostað mikið meira en skipið sjálft, með öllum hinum mikla timburfarmi. Þetta er að mínu viti það merkilegasta við þessa frásögn.
— Hvers konar ballest var það?
— Það var silfurberg, talið mjög verðmætt.
— Og hvað varð svo um það?
— Það situr þarna á botninum, þar sem skipið liðaðist í sundur. Jæja, svo var það löngu síðar, ég var þá fluttur hingað til Keflavíkur, að kafarar voru sendir suður í Hafnir að leita hinna týndu fjársjóða, ballestinni úr skipinu. Fóru þeir eftir leiðsögn Sigurðar H. Ólafssonar, sem vísaði þeim á staðinn, þar sem við Bjarni Guðnason fundum keðjuendann, er vikið var að fyrr í þessu spjalli.
En vitanlega gripu kafararnir þarna í tómt, fundu þar aðeins ósköp venjulegan þaragróður, enda ekki við öðru að búast, eins og ég skal nú skýra nánar: Þú minnist þess í frásögn minni, er óveðrið gerði og skipið klofnaði, þar sem það lá við klöppina, að þá var akkerið og hin greiða akkeriskeðja látin falla, til að fyrirbyggja, að skipið tæki út aftur. Flóknu keðjuna, sem þeir ekki gátu greitt, létu þeir þar einnig með hinu akkerinu. Mundi ég vilja álíta, að það síðarnefnda hafi losnað við skipið, þegar það brotnaði, og liggi nú þar við klöppina, sem órækt sönnunargagn um hvar ballestarinnar er að leita.
— En hvar álítur þú þá að týnda akkerið sé?
— Það liggur 150—200 föðmum utan við skerið, sem við fundum keðjuna á. Þar er klöppin, sem skipið klofnaði við og þar hlýtur því bæði akkerið og ballestin að hafa farið niður.
— En hvaða skýring er á því, að þið funduð hitt akkerið ásamt keðjunni svona miklu nær landi?
— Það var vegna þess, að sú keðja var föst í kjölsvíninu, sem hefir dregið hana þarna upp að skerinu, rétt norðan við Hestaklettinn, þar sem við Bjarni fundum hana. Vegna þessa fundar okkar héldu svo ýmsir, að þar hefði skipið klofnað, og þar væri því silfurbergsins að leita. Þarna liggur skekkjan, Hallgrímur. En ég er viss í minni sök, ég veit nákvæmlega um staðinn, þar sem ballestin liggur og hefði einhver hug á að finna hana, meðan ég er ekki lakari til heilsunnar en þetta, þá væri ég fús að skreppa út í Hafnir og gefa upp hin réttu mið..
— Það er nú vel boðið og ekki ólíklegt, að einhver notfæri sér það. En hvað getur þú ímyndað þér, Friðrik, að sjálf strandklöppin sé langt frá landi á stórstraumsfjöru?
— Þá er hún eiginlega í fjöruborðinu, hún kemur þá öll upp úr sjó. En eins og ég hefi fyrr sagt þér, lá skipið meðfram þessari klöpp, er það brotnaði, og hafa þá í mesta lagi verið um 30 faðmar frá því og upp á klöppina.
— Mundi þar vera mikið dýpi?
— Nei, í mesta lagi svona 7 faðmar.
— Og þar liggur fjársjóðurinn?
— Já, áreiðanlega, og annar þungavarningur, sem í því kynni að hafa verið. Til frekari glöggvunar vil ég geta þess, að þarna innan við klöppina er stórt lón, og þar lá oft þessi ósköp af sel inni í þessu lóni, en eftir því miðju liggur djúp renna, þar sem selirnir gátu farið út og inn um fjöru. Ég man, að þeir lágu þarna oft í hópum saman í lóninu og uppi á klöppinni. Við fórum oft í beitifjöru í þetta lón, því að það var stundum talsverð öðubeita þar innan við kampinn. Fann ég þar þá stundum all sérkennilega steina á stærð við kaffibolla, eða hnefa manns og suma þaðan af minni.
Allir þessir steinar voru hvítglitrandi og fallegir, en samt tók ég aldrei neinn þeirra. Og uppi í Hvalvíkinni, þar sem útstreymið er svo mikið, var ég stundum í maðkasandi. Þar fann ég eitt sinn stóran stein á stærð við mjólkurkönnuna þarna, og var hann hvítglitrandi eins og hinir. En maður hugsaði þá bara ekkert út í, hvað þetta var og lét því kyrrt liggja, enda hafði maður þá annað við tímann að gera en að leika sér að fallegum steinum í fjörunni. Eftir á þóttist ég vita, að þetta hefði einmitt verið úr ballest skipsins og að steinarnir hefðu skolast inn í lónið, sem lá hringlaga inn frá klöppinni.
Ekki tel ég ósennilegt, að nokkurt magn af steinum þessum hafi þannig komizt inn í lónið, sem er gríðarlega djúpt.
— En eru nú ekki meiri líkur fyrir því, að silfurbergið, eða hvað þetta nú er, hafi orpist þarna sandi og verði torfundið úr þessu ?
— Það fer náttúrlega nokkuð eftir því, hvernig botninn þarna utan við klöppina er, ég hygg nú að þar sé bara leir og þaragróður, sem naumast ætti að spilla verulega.
— Og að lokum, Friðrik, er þetta þá í Hvalvíkinni?
— Nei, það er ekki í henni sjálfri, heldur austast í urðinni fyrir austan Þórshöfn.
Hér lýkur viðtali okkar Friðriks Gunnlaugssonar, hins hartnær hálftíræða öldungs, sem á að baki sér langa manndómsog merkisævi, þeirrar athafnasömu kynslóðar, sem vann hörðum höndum fyrir sínu daglega brauði og skóp undirstöðuna að okkar háþróaða menningarríki. — Og svo, góðir Suðurnesjamenn: Nú er að taka til höndunum og leita hins týnda fjársjóðs.” – Hallgrímur Th. Björnsson.
Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.
-Fylkir, 5. tbl. 01.12.2018, Minnismerki um botnfestar á fyrstu áratugum vélbátaaldar í Eyjum, bls. 17.
-Tíminn – Sunnudagsblað, 36. tbl. 13.09.1964, Suður með sjón, Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, bls. 856.