Færslur

Jamestown

Í Ægi árið 1930 er m.a. fjallað um “Reykjanesstrandið mikla” utan við Valahnúksmöl á Reykjanesi og “Stóra strand” Jamestown við Hvalvík utan við Ósa, gegnt Höfnum:

“Hr. hreppstjóri Ólafur Ketilsson á Óslandi í Höfnum, hefur sent »Ægi« ágæta grein um skipströnd þar syðra. Með því hér er um langt mál að ræða, en rúm í «Ægi« af skornum skammti, er eigi unnt að birta greinina í einu lagi, en þar eð hún er bæði ítarleg og skemmtileg, verður hún að birtast í pörtum eftir því sem rúm leyfir.

Valahnúksmöl (Reykjanesstrandið mikla).

Valahnúkur

Valahnúkur og Valahnúskmöl.

Á fyrsta tug 19. aldarinnar, rak á land á svo nefndri Valahnúkamöl á Reykjanesi, geysilega stór timburfloti; var flotinn benslaður með sverum járnböndum þversum og langsum. Í flota þessum voru mörg hundruð ferköntuð tré frá 12—18 álna löng, og frá 12—18 þml. á kant.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Flest voru trén úr furu — Pitch-pine, og svo nokkur eikartré. Um stærð flotans má nokkuð marka af því, að 18 al. löng trén stóðu upp á endann, sem bindingur til og frá í flotanum, og svo haganlega var hann byggður, að hvergi var hægt að fela hönd á millum trjánna, en fleiri þúsund smá eikarbútar frá 1—3 al. voru líka í flotanum, kallaðir tylftarstykki, til uppfyllingar í allar holur millum trjánna. Sagt var að floti þessi hefði átt að fara til Englands frá Ameríku, en að skipið hefði farist, sem hafði hann í drætti en sennilega hefur skipið verið komið upp undir Reykjanes er það fórst, því mikið af fataræflum og öðru dóti var á flotanum, sem sýndi að menn höfðu verið á honum, fyrir skemmstu, áður en hann bar að landi.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Uppboð var haldið á öllum trjánum, eftir að búið var að bjarga öllu undan sjó, en um verð á trjánum er mér ekki vel kunnugt, en dýrasta tréð fór á 12 dali (24 kr.) og keypti það Brandur heitinn Guðmundsson langafi Björns Þórðarsonar kaupmanns á Laugavegi 46.
Tugi ára var svo verið að saga niður í borðvið öll þessi tré, sem keypt voru mestmegnis af Vatnsleysustrandar, Rosmhvalaness, Grindavíkur og Hafnahreppsbúum; var allt reitt á hestum, þegar búið var að koma því í borð. Aðeins Hafnahreppsmenn fluttu flest trén heil sjóveg, höfðu stundum 5—6 tré aftan í skipinu í einu; var þá lagt á stað frá Reykjanesi um stórstraumsfjöru, og norðurstraumurinn svo látinn hjálpa til með róðrinum. Síðustu tré Hafnamanna voru sótt 1852, af Gunnari sál. Halldórssyni, föður séra Brynjólfs sál. mágs mín, sem var prestur að Stað í Grindavík.*

Jamestown (stóra strandið).

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki, var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinum, að það mundi mannlaust með öllu. Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á »Þórshöfn« skammt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverzlun í Keflavík.

Jamestown

Jamestown – ankeri í Höfnum.

Skipstjórinn hét Petersen; sagði hann okkur strax, sem skipið var strandað, að það væri amerískt timburskip, fullt stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra, sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofandekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefur skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hér við land.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist var um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið!

Jamestown

Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.

Og aldrei gleymi ég þeirri stund, þegar ég, þá 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inn á þilfari »Jamestown«, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma langa skipsbákn 1 Set ég hér stutta lýsingu á »Jamestown« hinu stærsta skipi, sem strandað hefur við Ísland, síðan landið byggðist.
»Jamestown« var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man ég ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því.
Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiptur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn þá eftir 50 ár blasir við augum mínum einn óskaplegi geimur, efsta lestin, þegar búið var loks að tæma hana, 60 faðma langa, og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, á af því nokkurn veginn gera sér grein fyrir, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.
Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn Willum aftasta og mið siglutrés, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða réttara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefur að öllum líkindum verið forðabúr skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m. m., og hrannir af spýtnabraki, póleruðu mahoni, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangaðúr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita, og mahoníþiljur voru sums staðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru og minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skipt í svefnherbergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar afborðbúnaði, eða neinu því, sem verðmæti var í.
Af öllu því tröllasmiði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrennt, sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutréð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afarsverumjárngjörðum, annað undirbugtspjótið, sem kallað er, 36 þml. á kant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get ég ekki gert neina ágiskun um, en ég vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hékk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). —

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum

Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hana úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brennt bréf hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mélaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæva af landinu, kom um sumarið til þess að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur ! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokk skipsins.
Eftir að »Jamestown« strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem enn þá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir félagar mikið af verkafólki hér, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun, þótti þá óheyrilega hátt kaup, og allt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskvöldi. Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur i uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þekktust ekki tálsnörur núlímans, bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!

JamestownHvað margir »Loggortu«farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man ég ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum flotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft frá 12—20 plankar á hvern mann, í helmingaskiptum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnanstormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600—800 st. í einu!
Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu. í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt í sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10—20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd 6—11 tom. Kristján sál. Jónsson, hæstaréttardómari, var þá sýslumaður i Gullbringusýslu, og hélt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25—50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú. Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr„ en skipið sjáltt með öllu timbri sem í því var í mið og neðstu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 301,00, en hann bauð í það fyrir föður minn og aðra suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.

Jamestown

Grjót úr ballest Jamestown.

Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og allt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Ég minnist þess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hét Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíulesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Allt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kg. til Englands af kopar. Það eina, sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af suðurnesjabændunum söfnuðu að sér af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hafði verið tekið.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir í Hraunu. Húsið var að mestu byggt úr viðum Jamestown.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afar mikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt enn þá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti þessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei séð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.

Jamestown

Ankeri úr Jamestown. Viktor Guðmundsson stendur hjá.

Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var ég oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sagast fram í briminu og hvolft þar úr sér á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hins vegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa i þessi 50 ár.

Ólafur Ketilsson

Ólafur Ketilsson í Höfnum.

Það eina, sem mér er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður Ólafsson, bóndi í Merkinesi náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola. Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fékk af silfri veit ég ekki, því ég sá það aldrei.
Eg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótal margt sé enn þá ósagt, en sökum þess að mér er ekki kunnugt um, að nokkur maður, allt til þessa hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi ég ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi.”
Sjá meira um Reimleika í Valahnúkshelli í tengslum við “Reykjanesstrandið mikla og einnig meira um Jamestown-strandið.

Heimildir:
-Ægir – 11. Tölublað (01.11.1930) – bls. 138-140.
-Ægir – 12. Tölublað (01.12.1930) – bls. 273-275.

Ásláksstaðir


Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd eru að mestu byggðir úr viðum Jamestown.

Jamestown
FERLIRsmeðlimir hafa ánafnað gönguhópnum brot úr seglskipinu Jamestown er strandaði fyrir utan Hafnir í júnímánuði árið 1881.
Eftirfarandi brot úr frásögn um Jamestown má sjá á vefsíðu Leós M. Jónssonar í Höfnum:

Jamestown

Strandsstaður Jamestown.

”Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes [Hvalvík] á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því allur seglbúnaður þess og reiði var horfinn.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið unnum borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður. Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.

Í annálum er þessa strands getið . Í jólablaði tímaritsins Faxa frá árinu 1967 er merkilegt viðtal við Friðrik Gunnlaugsson (þá 95 ára) þar sem hann segir ítarlega frá björgun farmsins úr Jamestown. Ennfremur er að finna frásögn Ólafs Ketilssonar, fyrrum hreppstjóra Hafnahrepps, af þessu strandi í bókinni Sunnlenskir sagnaþættir (sem Gunnar S. Þorleifsson safnaði) en þar segir Ólafur frá strandinu, björgun farms og afdrifum skipsins.

Jamestown

Ankeri Jamestown í Sandgerði.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 20 m á breidd (til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90-100 m á lengd). Þetta risaskip átti sér talsverða sögu sem ef til vill skýrir orsök þess að það strandaði mannlaust á Suðurnesjum.
Jamestown var með 3 þilför á sama tíma og flest stærri seglskip voru tveggja þilfara. Það var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

Skipið Jamestown var yfirgefið úti á rúmsjó þegar eimskipið Ethiopia bjargaði skipverjum. Það var þá undir stjórn Wm. E. Withmore skipstjóra sem er frá borginni Bath. Hinn 10. nóvember lagði skipið Jamestown af stað undir stjórn Withmore skipstjóra með verðmætan farm sem sigla skyldi með til Liverpool.

Scott skipstjóri á eimskipinu Lake Manitoba skýrði frá því að hann hafi farið um borð í Jamestown frá Boston þar sem það var á reki mannlaust og mikið laskað. Hann segir að 17 feta djúpur sjór hafi verið í skipinu sem var hlaðið timbri. Þrátt fyrir skemmdirnar hafi möstrin verið uppi en mikið skemmd, mest af seglabúnaði hafi verið horfið en lítill hluti lafað útfyrir borðstokkinn. Scott segir að þeir hafi gert ítrekaðar tilraunir til að draga skipið en ekki tekist að festa dráttartaug í það og orðið að hætta við.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Eftir að hafa rekið um á Norður-Atlantshafinu mánuðum saman hefur yfirgefið flakið rekið á land á strönd Íslands”.
Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins.
Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Island hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.”

Georg H. Wadleigh

Georg H. Wadleigh.

Svo vill til að sumarið 1881 var staddur hér á landi bandarískur sjóliðsforingi og skipstjóri á bandaríska gufuskipinu Alliance sem þá kom til Reykjavíkur, Georg H. Wadleigh að nafni. Hann skýrði svo frá: ,,Skipið Jamestown frá Boston, hlaðið timbri, rak að landi og strandaði þann 26 júní 1881 norðan við Reykjanestá um 30 mílum frá Reykjavík. Hér með greini ég frá öllu því sem ég hef skráð varðandi strand þessa skips og aðstæður. Hafís hefur verið óvenjumikill þennan vetur og náð lengra til suðurs með ströndinni en venjulega. Greinilegt er að áhöfn Jamestown hefur yfirgefið það nokkru fyrir strandið.”

Wadleigh sjóliðsforingi áætlar stærð skipsins um 1200 tonn í skýrslu sinni. Hann getur þess að rannsókn yfirvalda á staðnum hafi leitt í ljós að afturmastrið hafi verið höggvið af niður við dekk og axarför hafi verið sjáanleg á miðmastrinu og greinileg ummerki um að reynt hafi verið að höggva það sundur. Þá hafi allan stýrisbúnað vantað á skipið. Stærstur hluti reiðans hafi hangið út yfir borðstokkinn og illa farinn. Á bógum hafi nafnið Jamestown verið lesanlegt en undir því aðeins mátt greina ,,Boston”.

Jamestown

Jamestown – auglýsing.

Á koparplötu yfir káetu hafi staðið nafnið Jamestown og á einni af þremur þilfarsvindum hafi mátt lesa merkingu. Allar lestarlúgur voru opnar, segir Wadleigh, og allt lauslegt horfið að undanskildu úldnu fleskstykki. Hann segist einnig hafa tekið eftir grasvexti á þilfarinu sem bendi til þess að skipið hafi verið lengi á reki. Timbri sem bjargað hafi verið úr skipinu segir Wadleigh að hafi verið skipt þannig að þriðjungur fór til Þeirra sem unnu að björgun þess en 2/3 hlutar hafi verið boðnir upp á staðnum fyrir um 10 þúsund krónur. Ætla má að einungis um helmingur af farmi skipsins hafi bjargast á land, segir Wadleigh í skýrslu sinni og getur einnig um danskan skipstjóra sem segist hafa farið um borð í Jamestown úti á rúmsjó 21. júní 1881 og þá hafi allt lauslegt ásamt mestu af tréskrauti skipsins verið horfið”.
Sjá meira um strandið HÉR.

Leó M. Jónsson:
Upphaflega birtist þessi grein í heild í tímaritinu Skildi nr. 34. 4tbl. 10. árg. 2001. Skjöldur er gefinn út af Útgáfufélaginu Sleipni í Reykjavík. Ritstjóri: Páll Skúlason.
http://www.leoemm.com/jamestown.htm

Jamestown

Jamestown – saga.

Þórshöfn

Haldið var í Þórshöfn. Leitað var tveggja festarhringja. Ofan við Þórshöfn, þann gamla verslunarstað, eru auk þess áletranir á klöppum, m.a. skammstöfunin HP. Nýlega hafði fundist þarna nokkurt brak úr Jamestown, sem strandaði utan við Hestaklett 1881, en einnig hafa menn talið sig hafa fundið silfurberg, sem átti að hafa verið ballest skipsins.

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Til að komast sem fyrirhafnarminnst á vettvang og nýta tímann sem best var á kosið var sótt um leyfi til að fara um varnarsvæðið og af því niður að gömlu höfninni, um svonefnt Dei-five-svæði. Höfnin er við austanverða Ósa þar niðurundan er fyrrum var athafnasvæði sjóhersins. Skammt norðar voru hinir eftirminnilegu radarskermar og það ekki af minni gerðinni.
Góðfúslegt leyfi fékkst til að fara um varnarsvæðið. Hlið var opnað og farartálmar voru dregnir til hliðar. Leiðin var greið. Tíminn nýttist vel til leitarinnar sem og að skoða næsta nágrenni.
Svæðið er í rauninni utan varnarsvæðisins. Gamall vegur liggur frá Hafnavegi upp að svæðinu, en þar er lokað hlið, einhverra hluta vegna. Ef einhver svolítil hugsunarglóra væri í huga einhvers, sem gerði sér grein fyrir útivistarmöguleikum svæðisins, myndi sá hinn sami biðja um að lás af hliðinu yrði fjarlægður og svæðið um leið gert aðgengilegt áhugasömu fólki.
Áletranir eru á klöppum austan við Þórshöfn. M.a. er þar áletrunin HP á sléttri jarðfastri klöpp undir klapparholti. Sumir vilja halda því fram að sammstöfunin eigi við Hallgrim Pétursson, prest í Hvalsnesi er einnig þjónaði Höfnum um tíma (eftir 1644). Skammstöfunin er á miðri jarðfastri klöpp utan í jökulsorfnu klapparholti. Umhverfis áletrunina eru síðan aðrar skammstafanir og jafnvel ártöl. Ofan við hlöppina eru áletrnir og útflúr. Til hliðar eru nýrri áletranir, m.a. frá 20. öld.

Þórshöfn

Áletranir á klöpp við Þórshöfn.

Gengið var út með víkinni beggja vegna og festarhringjanna leitað. En þrátt fyrir útfjöru fundust hringirnir ekki. Jón Borgarson í Höfnum kvaðst hafa siglt þangað yfir fyrir nokkrum árum og þá m.a. litið festarhringina augum. Næsta skref verður að fara með Jóni í Þórshöfnina og skoða hringina.
Vestan þræsingur stóð inn í Ósana og því auðvelt að ímynda sér við hvaða aðstæður þurfti að takast á við er koma þurfi vélavana skipunum inn fyrir skerjagarðinn og inn í örugga höfnina í Þórshöfn. Utan hennar var hvítfyssandi öldurótið, en innan var lygna og angurværð. Auðvelt var að sjá fyrir sér hversu góð Þórshöfn var skipum hér fyrr á öldum.
Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs. Sendu verslanir í Keflavík oft skip sín þangað með salt, timbur og aðra þungavöru en tóku í staðinn fisk af bændum á Miðnsesi og í Höfnum. Í byrjun 20. aldar fór skipakomum að fækka til Þórshafnar, enda tók Sandgerði þá við hlutverki verslunarstaðar á Miðnesi.

Hestaklettur

Hestaklettur.

Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.
Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því seglbúnaður þess og reiði var horfinn að mestu leyti.
Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður.
Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir. Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.

Gamli-kirkjuvogur

Kaupstaðagatan.

Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins og gerir því skóna að þetta hafi hugsanlega verið silfur. Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Isle hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.” Það sem er örugglega rétt í þessu, og ber saman við blaðagreinar frá þessum tíma, er að barlestin var málmgrýti frá Deer Isle-námunni. Ástæða þess að einhvern grunaði að um silfur hefði verið að ræða er líklega vegna þess að saman við hefur verið svokallaður ,,klinker” sem myndast í málbræðsluofnum. Þar með telst kenningin um silfurbarlestina afsönnuð.
Til að nýta tímann, og hið frábæra veður, sem allra best var gengið yfir að Stafnesseli, yfir á gamla Kaupstaðarveginn ofan Illaklifs, en upp á það liggur gata frá rústunum vestan Djúpavogs. Sú gata heldur áfram niður að rústum Gamla-Kirkjuvogs. Ýmislegt forvitnilegt bar þar fyrir augu, ekki síst varða sú er stendur nyrst og norðan rústanna. Neðan undir rústunum er hringlaga gerði, sem nú fer jafnan undir sjó á háflæði. Í Gamla-Kirkjuvogi kennir ýmssa grasa.
Reyndar er Gamli-Kirkjuvogur merktur á kortum norðan við Djúpavog og þar hafa verið gerðar fornleifaskráningar, enda kannski ekki óeðlilegt því þar er rústir að finna. Þær rústir bera þó fremur keim af skammæru útræði en langtíma búsetu. Hins vegar eru miklar rústir sunnan Skotbakka, bæði hús og garðar. Bæjarhóll trjónir efst á rústarsvæðinu og ofan við hann mikil varða. Utan um hana hefur verið allnokkur hleðsla. Líklegra má telja að þarna hafi verið hinn gamli Kirkjuvogur er tilgreindur er í gömlum heimildum og janvel kirkjugarður. Ofan hans er Stafnessel. Í einni heimild er selið sagt mun ofar í heiðinni, en það verður að teljast varhugaverð ályktun.

Gamli-Kirkjuvogur

Gerði við Gamla-Kirkjuvog.

Gengið var um Síðutanga og reyna átti að komast út í Einbúa og Vörðuhólma, en það tókst ekki. Ekki verður komist út í hólmann nema á bát. Líklegt má telja að úti í honum geti verið einhverjar rústir. Hólminn hefur fyrrum verið landfastur. Vestast á honum er stór varða, sem sá hluti hólmans tekur nafn af. Hestaklettur er þar utar. Hann er skammt fyrir innan skerjagarðinn svo ekki brýtur á honum, en utar er iðandi sjórinn.
Norðan og landmegin við Einbúa er Torfan; allvel gróin. Vestan hennar er Hvalvík. Ætlunin var að reyna að finna “steinhjarta” það á klöpp er fannst forðum, en ljóst er að ekki verður gengið að því gefnu.
Þegar horft var yfir að Höfnum frá Torfunni sást vel í Veggina; skerjaklasa, vestan við Eyjuna svonefndu. Innar eru Ósarnir; lygnir og öruggir þeim er þangað rötuðu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
1) Leó M. Jónsson f. 1942 í Reykjavík. Skrifað haustið 2000.
2) sr. Sigurður Brynjólfsson Sívertsen (1808-1887). Suðurnesjaannáll hans er m.a. prentaður í Rauðskinnu hinni nýrri (III). Höf. sr. Jón Thorarensen.
3) Faxi. Tímarit útgefið af Málfundafélaginu Faxa í Keflavík. 4) Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum. f. 1864, d. 1947. Hreppstjóri Hafnahrepps í um 40 ár.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Thermopylae

Í Sjómannablaðinu Víkingur 1973 er fjallar Skúli Magnússon um “Skipsstrand við Básenda árið 1881“:

“Flestir hafa hugmynd um að strönd Reykjanesskaga er mjög skerjótt og hættuleg skipum. Þau hafa ekki svo fá farist við þessa strönd þar sem úthafsaldan brotnar án afláts. Hér á eftir mun fara frásögn af einu skipsstrandinu er átti sér stað á Reykjanesskaga, nánar tiltekið skammt sunnan við Básenda, nálægt Þórshöfn, sem er smá vík eða vogur er skerst inn í landið, rétt utan við Ósabotna, þar sem þorpið Hafnir er.

Jamestown

Strandsstaður Jamestown, skammt v.m. við Hestaklett.

Um Básenda er það að segja að þar var til forna kaupstaður og sér þess enn sæmileg merki. Smá tanga er þar skagar út í sjóinn eru búðatóftir og forn garðbrot, þar munu húsin í verzlunarstaðnum hafa staðið. Ennfremur má sjá einn járnpolla allmikinn og sveran þar sem hann stendur uppúr klöppinni og kemur á þurrt við fjöru. Annar slíkur mun hafa verið hinum megin við víkina en nú sjást engin merki eftir hann lengur. Um Básenda hefur margt verið skráð og skilmerkilegust er frásögn sú er á sínum tíma birtist í Blöndu, tímariti Sögufélagsins. Þar segir gjörla frá ofviðri því er grandaði kaupstaðnum að fullu og öllu. Átti þetta sér stað í janúarbyrjun árið 1799. Eftir þetta hófst aldrei framar verzlun á þessum sögufræga stað, Keflavík varð aðalverzlunarstaður okkar Suðurnesjamanna og hefur verið alla tíð síðan.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Víkin Þórshöfn var einnig notuð til kaupskapar. Hennar er getið í sögu einokunarverzlunarinnr eftir Jón Aðils. Var verzlað þar á tímum hinnar illræmdu umdæmaverzlunar eða jafnvel fyrr, um 1500 eða þar um bil. Hafa þar vafalaust verið Þjóðverjar á ferð eða Englendingar.
Sama er uppá teningnum um Keflavík, þar hófst verzlun sennilega um svipað leyti, kannski fyrr, en um það höfum við nú engar áreiðanlegar heimildir. Þó er til eitt örnefni á Vatnsnesi við Keflavík, er það Þýzkavör, og liggur hún í Vatnsnesvík, sem er suður af sjálfri Keflavíkinni, en Vatnsnes liggur á milli. Höfnin er í dag í Vatnsnesvík.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Árin um og eftir 1880 munu verða minnisstæð í Íslandssögunni fyrir þrennt, hallæri, ísa og Vesturheimsferðir. Sumir lögðu árar í bát og létu ginnast af gylliboðum hinna kanadísku agenta, um allslags dásemdir í Vesturheimi, hinni nýju og framfarasinnuðu veröld, því þar hafði hvorki verið aðall, kóngar, né kirkjuveldi til að drepa niður framfaraviðleitni samfélagsins. En margir þraukuðu samt enn á gamla Fróni og aðrir sneru úr dýrðinni vestra og settust aftur að í landinu.
Fáir munu hafa farið vestur úr Keflavík og frá Suðurnesjum, það var sjávarútvegurinn sem hélt líftórunni í mönnum, og sem dæmi um það má nefna að í hallærum inni í landi streymdi fólk til sjávarbyggðanna í leit að mat og skjóli. Hér má því segja að sjórinn hafi gefið vel þó hins verði ekki síður getið að hann tók sinn skatt af auðæfum sínum.

Sigurður B. Sívertsen

Sigurður B. Sívertsen.

Eftirfarandi ritar merkisklerkurinn og fræðimaðurinn sr. Sigurður Br. Sívertsen í Suðurnesjaannál sinn árið 1881: „Fór nú sjóinn óðum að leggja, með því líka, að stórar íshellur bárust að landi að ofan og innan. Var nú gengið yfir Stakksfjörð fyrir utan Keflavík og inn að Keilisnesi á Vatnsleysuströnd, og hefi ég ekki lesið, að slíkt hafi viðborið, síðan árið 1699. Sjófuglar fundust dauðir með sjónum.
Ekki veit ég hvort nógar matvörur hafi flutzt til landsins, a.m.k. var svo á Norðurlandi, að þangað barst lítil sem engin björg frá útlöndum enda allt ófært af hafís, sem lá inn á fjörðum fram eftir öllu sumri. Sama hlýtur að hafa verið hér Sunnanlands, eftir því sem annállinn segir. Og um timburflutninginn veit ég lítið með vissu, en allavega skeði nú atburður, sem átti eftir að hleypa mönnum nokkuð upp hér á Rosmhvalanesi, en það var skipsstrand. Mun ég hér eftir tína sitthvað uppúr Suðurnesjaannál varðandi strand þetta, því það er merkilegt fyrir byggingasögu okkar Suðurnesjamanna.
Árið 1881 segir sr. Sigurður í annál sínum (Suðurnesjaannáli er prentaður í Rauðskinnu VII-VIII heftum og kom út 1953):

Jamestown

Jamestown.

„Með stórtíðindum má á þessu ári telja þann viðburð, að sunnudagsmorguninn 26. júní, rak að landi afarstórt farmskip, hlaðið af trjáviði, nálægt Þórshöfn á Suðurnesjum (skammt sunnan við Básenda) og stóð þar á flúð eða skeri, mannlaust, þrímastrað með þrem þilförum. Hafði þriðja mastrið verið höggvið í sundur áður en skipsfólkið hafði farið af því, að líkindum um leið og það hefir á hliðina farið, en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gengndi, og svo að menn höfðu eigið trúað,
ef menn hefðu eigi séð. Eftir því sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar að digurð, akkerin á að gizka, hver af þremur 1000 skippund, eða 3000.
Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns tilborðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið af öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligjörð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar, var allt fúið.
S

James Town

James Town, nýlenda landnema við Jamesá í Ameríku 1607.

amt er óvíst, hve lengi það hefur verið í sjó eða hvenær því hefur borist á. En að því var komist, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitir það „James Town”, sem líka er staðarnafn all nærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo vel var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Þegar þetta tröllskip barst þarna að landi, þar sem svo var brimasamt og illt við að eiga, hugðu menn úr þessum og nærliggjandi hreppum, að óhugsandi og ógjörlegt væri að eiga nokkuð við uppskipun og björgun að svo stöddu, og gerðu sér líka þær vonir, að sýslumaður mundi í einu boði, selja þetta mikla rekald.
Fyrir því að þetta mætti álítast vonarpening, hugðu margir að geta hlotið hin beztu kaup, ef allir fjórir næstu hreppar gengju í félag undir eins manns ábyrgð, og var af öllum kosinn til þess kaupmaður Duus í Keflavík. En nú brást þeim illa sú ætlun sín, og máttu þó sjálfum sér um kenna eða hreppstjóranum, eftir áeggjan annarra, því þegar vandræði eða ráðaleysi viðkomanda bárust héðan, hófst félag eitt í Reykjavík, og tókst á hendur að fengnu einkaleyfi frá amtmanni, að bjarga eða skipa upp svo miklu af trjáfarmi þessum, sem framast væri þeim mögulegt, mót 2/3 fyrir fyrirhöfn og ómak.
Tóku þeir þegar til óspilltra mála, sem svo ágætlega vel hepnaðist þeim, að þeir, eftir hart nær þriggja vikna vinnu, voru búnir að skipa í land mest öllum farmi af efsta þilfari sem eftir ágizkun mun hafa orðið 15.000 plankar.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Frá upphafi og leikslokum með fleiru hér að lútandi skal seinna verða nákvæmar sagt.
Þegar seinna var brotið upp milliþilfarið, sem innihélt ekki minni trjávið en hið efra, og ekki þótti sjá högg á vatni, þó haldið væri með kappi áfram uppskipunni, var enn að nýju fengið amtsleyfi fyrir héraðsmenn að skipa nú upp til helminga, en þó að margar hendur ynnu hér að úr fjórum nærliggjandi hreppum, var ekki búið að ljúka uppskipuninni af milliþilfari, þegar sýslumaður hélt uppboð, miðvikudaginn þann 10. ágúst.

Duus

Duus – bryggjuhús.

Varð hið vægasta verð að kalla mátti gjafverð á öllum plönkum og timbri. Taldist svo til, að hver planki seldist á 50 aura, 6 álna, eða 8 aura alinin, en þó tók út yfir góðkaupin, þegar skipið með fullri hleðslu á neðsta þilfari með fullum farmi o.s.frv. seldist fyrir 330 krónur, en fyrir þá skuld var ekki boðið hærra, að hlutaðeigandi félagsmenn voru búnir að semja sín á milli, ekki aðeins að ljúka ekki upp munni sínum, heldur stuðla til með samtökum, og sjá um, að aðrir spilltu ekki góðum málum. Varð svo herra Duus hæstbjóðandi eftir áðurgjörðum samningi.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn, vagnvegurinn, ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

Hér á eftir fóru menn úr öllum áttum á skipum, og í flotum að ná heim til sín hinu keypta timbri, en þó að veðurblíðan héldist áfram, var þó minna en helmingur ósóttur. Því næst fóru allir úr öllum hreppum að vinna að uppskipun á því, sem hafði orðið eftir á miðþilfari, en þó að allvel gengi, hugðu flestir, að ekki væri hugsandi að halda áfram með neðsta þilfar, ef veður breyttist. En þá bar svo við, að mánudaginn þann 9. sept. gekk í landsunnan sterkviðri og stórbrim um stórstraumsflóð, svo að allur skipsskrokkurinn liðaðist í sundur á þremur tímum, og bárust að landi plankar og skipsflekar. Var það ógrynni og feikn saman komið, að meira var en nokkurn tíma fyrir uppboðið.

Jamestown

Jamestown – opinber auglýsing um strandið.

Eins og þetta mikla strand er og verður fáheyrt, ekki aðeins hér sunnanlands, heldur í landssögunni, að annað eins timbur hafi komið á einn stað af einu skipi, eins og þetta, má kalla hið mesta happ fyrir öll Suðurnes og nærliggjandi hreppa, sem Drottinn allsherjar rétt hefir mönnum upp í hendur án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar, og án þess að neinar slysfarir hafi þar af orsakast eða tjón. Eins yrði það
óafmáanlegur blettur eða svívirðing í sögu Suðurnesja, ef menn skyldu á endanum ekki koma sér saman um réttsýn skipti meðal félagsmanna sín á milli”.
Þetta hefur sr. Sigurður að segja um þessa stóru skútu. Síðar við sama ár í annál sínum (1881) segir klerkur:

Garður

Unuhús í Garði, eitt margra húsa byggt upp úr standgóssi Jamestown.

„Eftir að félagsmenn hins strandaða skips, James Town, höfðu lengi verið búnir að vinna að uppburði timbursins af skipinu, voru þá í nóvember tekin fyrir skiptin í 4 aðalhluti eins og til stóð og fóru þó ekki eins og til var ætlast skiptin fram á þeim helmingi skipsins, sem þessum hrepp var fyrirhugað, því að vissir menn vildu þar öllu ráða, svo að óánægja varð af, þó að allt væri íátið kyrrt liggja, með því að allir félagsmenn, fengu svo mikið í sinn hlut, að þeim mátti nægja, og ekki fyrir neinn ójöfnuð annarra þess vert að láta verða úr misklíð. Plankarnir töldust í allt rúm 16000, svo að í hvern fjórða part komu 4000. Skipsflekum var eigi skipt, sem mjög mikill slægur var í, en voru þó komnir uppá þurrt land, og einn þeirra, önnur hliðin, var mæld 40 fet á lengd.” Það kom sér mjög vel fyrir alþýðu manna, hve ódýrt timbur var úr skipinu, eða 50 aura plankinn. Með því móti gátu margir fengið gnótt viðar og notað til margs konar smíða og bygginga.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri, byggðir að hluta úr rekaviði  úr Jamestown.

T.d. getur prestur þess í annálum, að timbrið hafi mjög víða verið notað í húsbyggingar. Og víst er, að mörg hús hér í Keflavík voru byggð úr timbrinu úr James Town. Sum þeirra eru nú horfin af sjónarsviðinu, önnur allmikið breytt frá fyrri tíð.
Meðal húsa hér að lútandi má nefna Þorvarðarhús, sem stendur svo til óbreytt hið ytra. Hús Þórðar héraðslæknis Thoroddsen (sem stóð hér við Hafnargötu) var víst líka byggt úr timbri hins strandaða skips. Þórður var fyrsti læknir sem settist að hér í Keflavík og var upphafsmaður að mörgu, t. d. aðaldriffjöðrin í stúkunni Vonin nr 15, stofnaði Kaupfélag Rosmhvalaneshrepps árið 1889, stofnaði sparisjóð Rosmhvalaneshvepps um 1890. Á Thoroddsensheimilinu ríkti mikill menningarbragur. Því má við bæta að Emil pianóleikari er einmitt sonur Þórðar, og er fæddur hér í Keflavík. Sjálft Thoroddsenshús mun hafa verið rifið að mestu um 1930 er Eyjólfur Ásberg byggði hús sitt á sama stað við Hafnargötu. Þar varð síðar greiðasala, verzlun og bakarí.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

En það var ýmislegt fleira, er leiddi af strandi James Town, en annállinn fræðir okkur um. Um það mál fáum við nokkra vitneskju í blaðinu Þjóðólfi, vorið og sumarið 1884, en þá var Jón Ólafsson, alþingismaður, ritstjóri blaðsins.
Svo er mál með vexti, að í 7. og 8. tölublöðum Þjóðólfs þetta ár, ræðir Guðmundur Guðmundsson, bóndi og hreppstjóri í Landakoti á Vatnsleysuströnd um fiskveiðasamþykktina fyrir Faxaflóa. Þeir Útskálafélagar, prestarnir Sigurður og Helgi Sívertsen, senda Guðmundi síðan svargrein í 9. tbl. sama blaðs. Ekki ætla ég samt að ræða það mál nánar hér, enda er það tómt persónulegt pex. (Síðar getur samt svo verið að ég muni gera hér fiskveiðasamþykktir að umtalsefni, en ennþá hef ég þó ekki nægar heimildir undir höndum varðandi það efni). En málið var þar með ekki úr sögunni.
Í 11. tölubl. Suðra, sem Gestur Pálsson var ritstjóri fyrir, svara „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps” greinum Guðmundar, svo hann neyðist til að taka aftur til pennans og svara, enda var dróttað að honum persónulega í grein þessari. Við skulum nú grípa niður í svargreinar Guðmundar frá Landakoti, en þær birtust í 20. og 33. tbl. Þjóðólfs. Ræðir þar um strand skipsins James Town.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Í 20. tbl. er inngangur eftir ritstjórann (J.Ó.) með fyrirsögninni: „Uppljóstur á stórþjófnaði”. Ræðir þar um fyrri greinar Guðmundar og þeirra Útskálafeðga og allt það persónulega pex, sem þar birtist. Síðan segir: „Þegar vér nú tökum eftirfylgjandi svargrein frá hr. Guðmundi Guðmundsyni, þá er það af því, að hér er orðið um alveg nýtt mál að ræða — það mál, sem ekki má þegjandi niður falla.
Þegar eins merkur maður og hr. Guðmundur ber fram svo stórvægilega sakargift um stórþjófnað, þá er sú sakargift svo vaxin, að yfirvöld geta ekki og mega ekki ganga þegjandi fram hjá henni — og gjöra það nú vonandi því síður, sem orðrómurinn um þetta athæfi er fyrir löngu hljóðbær orðinn”.
Jamestown
Þá kemur grein Guðmundar sem hefur að inngangi: „Þann ég kalla að þekkja lítt þekkir ei sjálfan sig”. Hann skýrir nú frá því, að „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps” hafi í Suðra svarað greinum sínum er birtust í Þjóðólfi. Síðan segir orðrétt: „Þeir minnast, þessir göfugu greinasmiðir, á félagseignina í James Fown (?) er þeir nefna svo, það er líklega timbrið á Stafnesfjörum, sem þeir meina, þó skipsnafnið sé ekki sem allra réttast (okkur mun vera hollast að gefa okkur ekki mikið út í það að rita ensku, samt hafa aðrir sett ,,T”, þar sem þeir setja „F” í skipsnafnið) og lítur helzt út fyrir að þeir vilji telja lesendum Suðra trú um, að ég hafi við það tækifæri sýnt mig í óráðvendni, og jafnvel komið einhverjum kunningjum mínum til að vera mér til aðstoðar í því. Þessu ætla ég ekki að svara með öðru en því, að segja söguna svo sanna og rétta, sem mér er unnt, en sannanir fyrir henni mun ég geta framlagt síðar, ef með þarf, þó ég, að líkindum ekki sæki þær í uppboðsbók Rosmhvalaneshrepps….” .

Jamestown

Ankeri Jamestown í Höfnum.

Þá getur Guðmundur um það, að menn úr Höfnum hafi verið viðstaddir er hann kom að ná í sinn ákveðin timburpart og hafi hann sagt á þá leið við þá, að þeir vissu að hann ætlaði að taka nokkrar spýtur til að fylla þilskip sitt er hann var þangað (að Þórshöfn) kominn á. Hann skyldi greiða andvirði þeirra seinna við tækifæri. Þetta tóku allir gott og gilt og Guðmundur hélt heim með farminn.
Eftir þessa frásögn sína segir Guðmundur: „En ef íbúar Rosmhvalaneshrepps (að undanskildum Keflavíkurmönnum) eiga jafnhægt með að gjöra grein fyrir, að allar aðferðir þeirra á Stafnesfjörum þessi ár hafi verið leyfilegar og lögmætar, eins og mér veitir hægt að sanna framanritaða sögu mína, þá er of miklu upp á þá logið. Að þessir piltar skuli vera svo fífldjarfir að minnast á samvizku í plankamálinu, það er hrein furða, hún hefur þó að líkindum ekki ónáðað þá eða sveitunga þeirra suma hverja í undanfarin 2 ár, en máske hún sé að bregða blundi hjá einhverjum þeirra. Gott ef svo væri”.
Og litlu síðar kemur þetta:

Jamestown

Jamestown – silfurberg.

„Skal ég þá leyfa mér að spyrja þá (þ. e. íbúa Rosmhvalaneshrepps) að, hverja skilagrein þeir hafi gjört fyrir koparhúð þeirri sem þeir heimildarlaust bæði nótt og dag rifu utan af skipsflekunum? Hafa þeir samkvæmt áskorun og skipun þeirra manna, sem áttu koparinn með þeim, skilað honum á þá staði, sem þeim var boðið?”
Guðmundur getur þess að þeir Strandarmenn hafi ekkert fengið af koparnum, sem þeir þó áttu að fá í sinn hlut, svo sem aðrir þeir, er unnu að björgun timbursins úr skipinu.
Enn segir Guðmundur: Timburhvarfið ætla ég sem minnst að minnast að tala um í þetta sinn, það tekur svo út yfir allan ósóma, að flestir, sem kunnugir eru því máli, þykjast vissir um, að síðan Suðurland byggist muni ekki hér í sýslu hafa verið framin annar eins stórþjófnaður og sá, sem þessi ár hefir átt sér stað þar syðra, og ef íbúar Rosmhvalaneshrepps vilja brýna okkur Strandarmenn, þá er ekki víst að við þurfum að hafa fyrir að tína saman tvo eða þrjá gemsa þaðan úr hreppnum, sem yfirvaldið þyrfti og ætti að ná í lagðinn á, það er ekki ómögulegt, úr því tveir eða þrír væru handsamaðir, að hópurinn kynni að stækka”.
Og að endingu segir Guðmundur þessi orð í grein sinni: Vilji íbúar Rosmhvalaneshrepps róta betur upp í þeim saur, sem þeir eru nú byrjaðir að moka, þá vildi ég með aðstoð kunnugra manna vera þeim til liðveizlu, en ekki get ég að því gjört, þó af honum leggi fýlu.”

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Enn er málinu þó ekki lokið, því í Þjóðólfi, 12. júlí 1884, ymprar ritstjórinn, Jón Ólafsson, enn á því að rannsókn þurfi endilega að fara fram á málinu. En Guðmundur í Landakoti ritar ein grein enn og er það svar við grein sem Jón ritaði í blað sitt 12. ágúst þar sem hann segir að Guðmundur sé of hægur á sér að birta ástæðurnar fyrir þjófnaðium. Guðmundur tekur það fram eins og til að forða frekari misskilningi að þeir Útskálafeðgar, Helgi Sívertsen og faðir hans, sr. Sigurður, séu ekkert við málið riðnir, og sömuleiðis Keflvíkingar en það tekur hann reyndar fram áður.. .
Landakot
Guðmundur segir svo í grein sinni (12. júlí í 33. tbl.): „Síðasta og 3. ástæðan (þ.e. fyrir því að hann birtir ekki sannanir fyrr í málinu) er sú, að ég vissi til þess, að einn heiðvirðasti maðurinn þar í Rosmhvalaneshreppi, sá, sem mest hafði að segja yfir félagseigninni, lét í fyrra sumar semja kæru eður kvörtun til sýslumanns út af timbur- og koparmissinum, bjóst ég því við að réttarrannsókn yrði þá og þegar hafin, og að opinber málssókn mundi, þegar minnst varði, gjósa upp, en verkanirnar af áminnstri kæru hefi ég ekki orðið var við. Ég held helzt að hún hafi aldrei komizt til sýslumannsins”.
Og að endingu segir Guðmundur: „Aðaltilgangur minn var aldrei sá, að verða þess valdandi að nokkur maður þar syðra yrði sakfelldur, en ég þykist hafa unnið Rosmhvalahreppi gott verk og þarft, ef þeir menn, sem oftast hafa unnið sér óráðvendisorð við hvert strand, sem þar hefur komið fyrir, bæta nú svo ráð sitt, fyrir þá hreyfingu, sem komin er á málið út af grein minni, að þeir framvegis leitist við að sýna sig, sem heiðvirða og vandaða menn við slík tækifæri. Þá hefi ég náð tilgangi mínum, og þá vona ég að allir þar í hreppi, sem nokkurs meta gott mannorð, þakki mér fyrir þetta nauðsynlega og holla læknislyf, þó sumum þyki það súrt á bragðið”. Svo mörg voru orð Guðmundar í Landakoti.
Lýkur hér með að segja frá strandi þessu þó hins vegar viðbúið sé að hér hafi ekki öll kurl um þetta mál til grafar komið.”

Í Eyjafréttum 2017 tók Ómar Garðarsson viðtal við Theódór Ólafsson undir fyrirsögninni “Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum“:

Jamestown

Jamestown – keðjuminningin í Vestmannaeyjum. Kári Bjarnarson og Theódór Ólafsson.

“Þann níunda september 1919 skrifar Þorvaldur Bjarnason, Höfnum á Reykjanesi bréf til hafnarnefndar Vestmannaeyja og segist hafa til sölu akkeri og keðjur sem séu mjög hentug sem öflug legufæri. „Keðjan er að stærð, hver hlekkur tólf þumlungar að lengd og sjö að breidd og lengd keðjunnar er ellefu liðir,“ segir í bréfinu þar sem kemur fram að akkerið sé um tvö tonn að þyngd. Verðið er 450 krónur á lið eða 5950 krónur þar sem keðjan var niðurkomin við Hafnir. Eftir bréfa- og skeytasendingar var niðurstaðan sú að keðjan var keypt til Eyja og var hún notuð sem legufæri í áratugi en akkerið var ekki keypt.
Þetta á sér merkilega forsögu því keðjan er úr bandarísku skipi sem rak mannlaust um Norður Atlantshaf og strandaði að lokum þann 26. júní 1881 á milli Hestakletts og Þórshafnar í Rosmhvalaneshreppi, síðar Miðneshreppi á Suðurnesjum. Það var, samkvæmt seinni tíma mælingum um fjögur þúsund tonn og að líkindum meðal stærstu skipa sem komið höfðu til Íslands á þeim tíma.

Áhugi Theódórs vaknar
Jamestown
Þessa sögu þekkja fáir betur en Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður á Sæbjörgu VE. Hefur Theódór aflað sér gagna um skipið, sögu þess og örlög. Líka hvað varð um akkeriskeðjurnar sem hafa enst ótrúlega vel. Skipið flutti verðmætan timburfarm frá Bandaríkjunum sem átti að fara til Liverpool á Englandi en lenti í aftakaveðri undan vesturströnd Írlands. Skemmdist mikið og var skipverjum bjargað um borð í annað skip og settir á land í Glasgow í Skotlandi. Jamestown rak stjórnlaust um Norður Atlantshafið í fjóra mánuði þangað til það strandaði við Ísland.
Ein ástæðan fyrir áhuga Theódórs á Jamestown er tenging hans við Stafnes og að hluti akkeriskeðjunnar hafnaði í Vestmannaeyjum.
„Teddi hefur ekki setið auðum höndum þótt hann sé hættur að vinna. Hann hefur lagst í ýmiss konar grúsk,“ segir Sigurgeir Jónsson um Theódór í viðtali sem hann tók við hann og birtist í Fréttum. Þá hafði hann barist við krabbamein í tvö ár. Lýsir hann því einnig hvernig kona hans, Margrét Sigurbjörnsdóttir sem er frá Stafnesi, stóð við hlið hans í veikindunum og greinilegt að hann kann að meta það. Tilheyrði fjaran þar sem Jamestown strandaði Stafnesbæjunum og er Margrét frá Vestur Stafnesi.

Jamestown var alvöru skip

Jamestown

Eyjahöfnin – Bólið 1930.

„Í þessum veikindum mínum átti ég oft erfitt með svefn og fór þá að láta hugann reika, ekki síst að hugsa um þau skipsströnd sem ég hef sjálfur lent í og kannski ekki síður öðrum skipsströndum. Fór síðan að lesa mér til um hin ýmsu strönd. Þar á meðal skipsströnd við Stafnesið, úti fyrir æskuheimili Margrétar. Þar strandaði t.d. Jón forseti, fyrsti togarinn í eigu Íslendinga og fórust fimmtán skipverjar en tíu tókst að bjarga. Sigurbjörn, faðir Margrétar, var einn af björgunarmönnum þar,“ segir Theódór.
En svo var það eitt skipsstrand sem vakti sérstaka athygli mína. Það var þegar ameríska skútan Jamestown strandaði ekki langt frá Stafnesi árið 1881. Þessar amerísku skútur voru flutningaskip, stærstu skútur í heimi og hétu allar eftir bandarískum borgum. Þessi skúta var, samkvæmt okkar mælingum í dag, um 2000 tonn, var hundrað metra löng og 16 metra breið. Í henni voru fjögur þilför og fjögur möstur, sem sagt alvöru skip.
Jamestown fór frá Bandaríkjunum á leið til Englands, fullhlaðið af smíðatimbri sem átti að fara í undirstöður fyrir járnbrautarteina.

Silfurgrjót

Silfurgrjót.

Áður hafði skipið verið ballestað með silfurgrýti. Þegar skipið átti eftir um 600 mílur í Írland lenti það í ofsaveðri og stýrisbúnaður þess brotnaði. Lítið gufuskip gerði tilraunir til að taka Jamestown í tog en þær tilraunir mistókust þar sem tógið slitnaði alltaf. Þá var ákveðið að áhöfnin yfirgæfi skipið. Þetta gerðist í mars 1881 og síðan rak skipið stjórnlaust norður eftir Atlantshafi, upp að Íslandsströndum, fyrir Reykjanes og strandaði.“
Meira að segja Eyjamenn nutu góðs af rekanum. Þannig lýsir Theódór þessari síðustu ferð þessa glæsilega skips, Jamestown sem strandaði á Hestakletti þann 17. júní 1881, mannlaust. Varð að vonum uppi fótur og fit á Stafnesbæjunum. Hafist var handa við að koma timbrinu í land og gekk það vel um sumarið eða þar til gerði stórviðri um haustið og skipið brotnaði. Mikið af timbri rak á land víðs vegar um land, m.a. í Vestmannaeyjum og Þorsteinn Jónsson í Laufási minnist í bók sinni á plankarekadaginn mikla. „Ég held að flest hús í Sandgerði á þessum tíma hafi verið byggð úr timbri úr Jamestown og mörg hús í öðrum byggðarlögum. Og þegar ráðist var í endurbætur á Menntaskólanum í Reykjavík, árið 1883, þá var notað timbur úr þessum farmi,” segir Teddi.

Mikil vinna

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Landeigendur vildu eigna sér strandið og stóðu forráðamenn hreppsins fyrir því en landsstjórnin var á öðru máli og yfirtók skipið og það sem í því var. „Hún útvegaði menn, vélstjóra, vélsmið og mann sem sá um peningamálin og þrír komu af svæðinu. Þeir leigðu litla skútu og vildu fá fleira fólk í nágrenninu til að koma að verkinu með sér. Það var ekki tilbúið fyrr en því var lofað vikulegri greiðslu í gulli í hverri viku. Þá slógu menn til, enda ekki algengt að fá greitt í peningum á þessu árum,“ segir Theódór.
Skútan er fyllt af viði og siglt til Reykjavíkur en verkinu er haldið áfram og því sem kom úr skipinu staflað í stæður uppi á landi. „Þannig gekk þetta en að lokum voru stæðurnar boðnar upp og gat hver sem er keypt. Það nýttu sér margir sem þarna bjuggu.“
Þarna er akkerið og keðjurnar komnar við sögu því eitt þeirra var fest í landi og keðjan strekt til að varna því að skipið losnaði af strandstað. Það hafði þó lítið að segja í stórviðrinu þegar það brotnaði um haustið.
Það er svo 38 árum síðar að maður sem var unglingur þegar Jamestown strandaði sagðist muna hvar keðjan lá og vildi ná henni upp. Hann hafði ekki leyfi en keypti keðjurnar í sjónum á tvær krónur af ríkisstjórninni. „Hann hét Sigurður og smíðaður var fleki sem notaður var við að ná keðjunum upp. Á hverri stórstraumsfjöru var farið niður að keðjunni og hún fest við flekann sem var svo dreginn á land á flóðinu. Þannig tóku þeir einn og einn lið í einu,“ segir Theódór.

Keðjurnar góðu

Jamestown

Jamestown – ankerið í Höfnum.

Það líða fjörtíu ár og aftur kemur Jamestown við sögu í Vestmannaeyjum og nú eru það akkeriskeðjan sem Vestmannaeyjahöfn keypti. Mikil vandræði voru með báta í höfninni og oft skaðar þegar aldan gekk óbrotin inn höfnina. Þorsteinn í Laufási var þá í hafnarstjórn og frétti að því að akkeriskeðjan úr Jamestown væri enn um borð í skipinu á strandstað. Hann fór til Sandgerðis og keypti keðjurnar en ekki akkerið sem heimamenn vildu einnig selja Eyjamönnum. Minna akkerið stendur nú við kirkjuna í Höfnum en stóra akkerið er í Sandgerði.
En aðalerindi Þorsteins var að festa kaup á akkeriskeðjunni úr Jamestown sem hann gerði. Dugði hún í þrjár lagnir og gátu 50 til 60 bátar legið við hana.

Hluti af sögunni
Keðjurnar luku sínu hlutverki og Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður lagðist í grúsk þegar hann kom í land.
Þegar dýpkun hófst í höfninni voru þær teknar upp. Ekki var hugað að því að hér væru merkar sögulegar minjar og lágu keðjurnar lengi vel uppi við Sorpu. Þær týndu tölunni þegar útgerðarmenn fóru að nota hlekkina til að þyngja flottroll. Eftir að Theódór fór að kanna sögu þeirra fann hann þrjá hlekki við FES-ið sem eru til skrauts í garði hans í Bessahrauninu.
„Þetta er stokkakeðja og hlekkirnir eru sjö kg að þyngd. Aftur á móti voru endahlekkirnir mun stærri og þyngri, eða um 50 kg. Hvað merkilegast finnst mér, hvað þeir eru enn heillegir og óskemmdir, eftir að hafa legið í 40 ár í sjó við Stafnesið og síðan í 50 ár í höfninni í Vestmannaeyjum. En ég vil endilega að þeir sem enn eru með þessa hlekki í fórum sínum sjái um að koma þeim á viðeigandi stað. Þeir eiga heima í Sandgerði, til minja um þetta strand og svo auðvitað líka á Byggðasafninu í Vestmannaeyjum, en ekki í ruslahaugum einhvers staðar,” segir Teddi um þetta áhugamál sitt og greinilegt að hugur fylgir máli. Sérstaka athygli hans hefur vakið endingin á keðjunni og að þeir skuli enn vera heilir og engin tæring sjáanleg.

Mikill happafengur

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Skipið þótti mikill happafengur á Íslandi enda erfitt að verða sér úti um timbur hérlendis. Voru plankarnir notaðir í brúargerð og húsagerð og enn stendur að minnsta kosti eitt hús sem smíðað er úr viði úr Jamestown, húsið Efra Sandgerði, heimili Lionsklúbbsins í Sandgerði. Einnig var „gamla“ húsið að Krókskoti í Sandgerði byggt úr Jamestown timbri. Timbrið úr því húsi var síðan notað í „nýja“ húsið að Krókskoti og stendur það enn þá.
Árið 2002 fannst annað akkeri skipsins undan Höfnum, og hinn 24. júní 2008 var það híft upp af meðlimum umhverfisverndarsamtakanna Blái Herinn og því komið fyrir við húsið Efra Sandgerði. Áður hafði hitt akkerið fundist og er það fyrir utan kirkjuna í Höfnum. Þetta kemur fram í grein eftir Leó M. Jónsson sem birtist upphaflega í tímaritinu Skildi 2001. Segir að við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því.

Með stærstu seglskipum

Jamestown

Jamestown.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 16 m á breidd, til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90 til 100 m á lengd.
Jamestown var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879 og, að sögn Dan Conlin, er það horfið af skránni yfir amerísk og erlend skip upp úr 1880 og fyrir 1884. Hann segir að fjöldi smærri seglskipa hafi borið nafnið Jamestown eða James Town og verið á skrá um þetta leyti en hægt sé að útiloka þau öll þar sem ekkert þeirra hafi verið yfir 200 tonnum að stærð og öll styttri en 100 fet. Dan sagðist einnig hafa athugað skipaskrá Lloyds (Lloyd’s Register of Shipping) frá þessum tíma og ekki fundið þar neitt annað skip jafnstórt og Jamestown frá Richmond.

Glæsilegustu skipin á höfunum

Jamestown

Jamestown.

Stóru seglskipin sem voru í langferðum á milli heimsálfa á 19. öld og fram yfir 1900 voru tilkomumikil sjón á höfunum þar sem þau skriðu undir fullum seglum, iðulega framúr gufuskipum. Frægust langferðaskipanna voru bresku Cutty Sark og Thermopylae (sem fór á 28 dögum frá Newcastle á Englandi til Shanghai í Kína – met sem stóð lengi) en þau voru rétt innan við 1000 tonn að stærð (þess tíma mæling) og þau amerísku ,,Yankee clippers” á borð við Young America og hið fræga breska Lightning (kennt við Macey) sem fór reglulega með póst á milli Bretlands og Ástralíu árum saman.”

Í Útvarpinu, Sumarmálum á Rás 1 árið 2020, er fjallað um “Mörg hús á Íslandi smíðuð úr mannlausu draugaskipi” í viðtali við Tómas Knútsson:

Jamestown

Ólafur Ketilsson.

“Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann því dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist mikil sneypuför. „Þetta var svona Titanic-dæmi,“ segir Tómas Knútsson um Jamestown-strandið. Mannlaust skipið rak á land við Hafnir á Reykjanesskaga árið 1881.
Þann 26. júní árið 1881 varð sá óvenjulegi atburður í Höfnum á Reykjanesskaga stórt og voldugt seglskip rak þar á land í aftakaveðri. Jamestown hafði rekið um höfin í fjóra mánuði og var mannlaust. Það reyndist að miklu leyti gæfa fyrir Íslendinga að skipið skyldi reka á fjörur landsins því það var smekkfullt af brúklegum harðviði sem átti eftir að nýtast landsmönnum til bygginga næstu árin.

„Þetta er guðsgjöf, allt þetta timbur“

Jamestown

Jamestown – ankeri.

Jamestown var með stærri seglskipum sem smíðuð höfðu verið á þessum tíma. Það var drekkhlaðið af viði og var á leið til Englands til að setja viðinn undir járnbrautarteina. Skipið lagði af stað með farminn frá Ameríku og var búið að vera í vandræðum þegar það lendir í miklu óviðri á Norður-Atlantshafi með þeim afleiðingum að stýrið brotnar. „Þá kemur skip og bjargar áhöfninni en svo er meiningin að bjarga skipinu en þá finnur enginn skipið,“ segir Tómas Knútsson sem er í hópi áhugafólks um Jamestown-strandið. Þegar skipið loks fannst við Íslandsstrendur hafði það eigrað stefnu- og mannlaust um höfin mánuðum saman. „Svo gerir suðvestan hvell og skipið mölbrotnar og rekur á land svo það var hægt að bjarga öllu úr skipinu sem var nýtt til agna,“ segir Tómas. „Þetta var náttúrulega guðsgjöf, allt þetta timbur.“

Dóttir skipstjórans með í för
Skipið var mannlaust því áhöfninni var bjargað við illan leik. Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist svo mun ævintýralegri en skipstjórinn hafði viljað. „Þetta var svona Titanic-dæmi. Þetta voru endalokin hjá þessu stóra mikla fyrirtæki sem skipstjórinn hafði unnið fyrir alla sína ævi og þá fer hann í svona sneypuför,“ segir Tómas.

Svíta skipstjórans varð predikunarstóll í Hvalneskirkju

Hvalsnes

Hvalsneskirkja.

Áhugahópurinn sem hefur einbeitt sér að örlögum skipsins síðustu ár hittist tvisvar, þrisvar á ári og hefur haldið tvær sýningar þar sem munir úr skipinu sem fundist hafa í hafinu eru til sýnis. „Við höfum látið Byggðasafnið hafa þetta allt saman eins og til dæmis seglvindu, svaka flott hjól og svo er akkerið.“

Hópurinn hefur staðið í ströngu við það síðustu ár að kortleggja þau hús á Íslandi sem byggð hafa verið úr timbri úr skipinu. „Gröndalshús í Reykjavík er eitt og brúargólfið í Elliðárbrúnni,“ segir Tómas. „Þetta fór um allt Suðurland og Suðurnes, það eru nokkur hús í Keflavík, nokkur í Sandgerði, eitt hús í Höfnum, einhver í Hafnarfirði, Vatnleysuströnd og það er eitthvað í Grindavík líka. Predikunarstóllinn í Hvalsneskirkju er úr mahóní sem kom úr svítu skipstjórans.“

Heimildir:
-Sjómannablaðið Víkingur, 3. tbl. 01.03.1973, Skipsstrand við Básenda árið 1881 – Skúli Magnússon, bls. 68-71.
-Eyjafréttir, 23. tbl. 08.06.2017, Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum – viðtal við Theódór Ólafsson, bls. 22-23.
-https://www.ruv.is/frett/2020/08/09/morg-hus-a-islandi-smidud-ur-mannlausu-draugaskipi

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Hlemmur

Í Morgunblaðinu 1981 skrifar Gunnar M. Magnússon “Hundrað ára minningu Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará“:

“Séra Björn Halldórsson, hinn kunni klerkur og sálmaskáld, bjó í Laufási við Eyjafjörð. Hann var fæddur 1823. Kona hans var Sigríður Einarsdóttir frá Saltvík á Tjörnesi, fædd 1819. Þeirra börn voru Vilhjálmur, fæddur 1846, Svava, fædd 1854, og Þórhallur, fæddur 1855.

Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur ólst að mestu upp hjá afa sínum, séra Halldóri Bjarnasyni, prófasti á Sauðanesi.
Sextán ára að aldri hóf hann smíðanám hjá Tryggva Gunnarssyni, timburmeistara á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Að námi loknu, tók hann upp tvíþætt störf: stundaði smíðar á veturna, en hóf ræktunarstörf að vorinu og stjórnaði búi foreldra sinna að sumrinu. Þótti þá þegar sýnt, að hinn ungi prestssonur væri afbragð annarra manna, þrekmikill, kappsamur til hvers konar starfa, logandi af fjöri, opinn fyrir framförum, góðgjarn og óádeilinn og lagði hverju góðu máli lið.
Rúmlega tvítugur að aldri sigldi Vilhjálmur til Danmerkur, dvaldist árlangt í Kaupmannahöfn og lagði stund á málaraiðn. Þegar heim kom, tók hann að stunda þess iðn til jafns við fyrri störf og málaði nokkrar kirkjur á Norðurlandi, ein þeirra var Grímseyjarkirkja.
Árið 1872 gekk Vilhjálmur að eiga Sigríði Þorláksdóttur prests á Skútustöðum Jónssonar. Hún var fædd 1853. Nokkru síðar keypti séra Björn jörðina Kaupang í Eyjafirði og ungu hjónin fluttust þangað. Vilhjálmur hætti nú að mestu störfum út á við, en einbeitti atorku sinni að búi sínu og heimili. Hann tók að byggja uþp á jörðinni, smíðaði allstórt timburhús og vönduð peningshús, stækkaði tún og hóf töðufall til muna.

Rauðará

Rauðará um 1900 – hús Shiederbergs.

Vilhjálmur var fjörmaður og lagði oft saman nótt með degi, einkum við vorverk og heyannir. Á þeim árum sló hann dagsláttuna á rúmum sex klukkustundum, og þótti ekki heiglum hent að leika það eftir honum. Hann komst brátt í röð fremstu og gildustu bænda við Eyjafjörð og hlotnaðist sú viðurkenning að fá verðlaun úr heiðurssjóði Kristjáns konungs IX.
En mitt í þessum blóma skeði sá atburður að hjónin í Kaupangi seldu eigur sínar og fluttust úr héraðinu. Í stað þess að berast með straumnum til Vesturheims, héldu þau með fjórum börnum sínum suður að Kollafirði og settust þar að á Rauðará, örreytiskoti austan Reykjavíkur. Börn þeirra voru Þóra, Halldór, Laufey og Þorlákur.

Rauðará

Rauðará um 1950. Holdveikraspítalinn á Laugarnesi fjær.

Rauðará var fornt býli, en hvorki stórt né nytjagott. Reykjavík varð snemma stórbýli og bendir allt til þess, að á 10. öld hafi hún verið eitt af stærstu höfuðbólum landsins.
Í lýsingu Árna Magnússonar og Páls Vídalíns í jarðabók frá árinu 1703 segir að á Rauðará hafi verið fimm kýr, ein kvíga veturgömul, sex ær, fimm sauðir veturgamlir, tvö lömb og eitt hross. Engjar voru engar, en torfrista, stunga og móskurður nægjanlegur í heimalandi. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon lítil. Hrognkelsafjara lítil mjög. Skelfiskafjara næstum engin. Murukjarna, bjöllur og þess konar má finna, ef vill. Heimræði er árið um kring, en langræði mikið. Kvaðir eru þó ýmsar og á þessari litlu og kostarýru jörð: Mannslán um vertíð, dagslættir tveir til Viðeyjar. Hríshestar tveir heim til Bessastaða. Hestlán einn dag til að flytja Viðeyjar-eldiviðartorf af þerrivelli til skips. Skipaferðir, þegar Bessastaðamenn kalla. Heyhestur einn til fálkanna, síðan þeir sigldu í Hólminn. Og þó var ekki allt upptalið.

Rauðará

Rauðará.

Það var vorið 1893 að Vilhjálmur Bjarnarson keypti þessa jörð af Schierbeck landlækni fyrir 4500 krónur. Vilhjálmur var þá 47 ára að aldri og Sigríður, kona hans, stóð á fertugu.
Jörðinni fylgdi landsvæði, um 30 dagsláttur alls, en mestur hluti þess var óræktaður, nema túnið, sem í bestu nýtingu gaf af sér eitt hundrað hesta eða tæplega það. Kringum túnskikann voru mýradrög og fúafen, en annars staðar blásinn melur eða klapparholt.

Rauðará

Rauðará – Árið 1891 reisti Hans J. G. Schierbeck landlæknir steinhlaðið hús á jörðinni. Árið 1908 reif Vilhjálmur Bjarnarson niður gamla íbúðarhúsið og reisti nýtt í þess stað.” – Húsaskrá Borgarsögusafns. Sjá má gamla bæinn á Rauðará v.m.

Lítið steinhús var á Rauðará, þegar Vilhjálmur og Sigríður settust þar að. Bakvið það var gamall bær og fornfálegur.
Goshóll var norðan við túnið, þar var grásteinsnáma. Þar sat löngum Magnús steinsmiður og klauf grjót í legsteina. Fyrir neðan Goshól var Gvendarbrunnur. Þar var grjótruðningur, er líktist dys. Ágætt drykkjarvatn spratt þar upp. Mótak átti Rauðará austur í mýri, þar sem nú er Nóatún.
Rauðará
Af hlaðinu á Rauðará sá stök og smá býli í átt til bæjarins. Leiðin ofan úr sveitum til Reykjavíkur lá talsvert sunnar, en annar vegur frá bænum lá með sjónum inn að Rauðará og Laugarnesi. Þessi stígur fyrir ofan fjöruna var kallaður ástarbrautin. Þar var fáförult „inn á Hlemm”. En Hlemmur var brúin á Rauðarárlæknum, þar sem hann fellur til sjávar. Þessi lækur átti upptök sín í dýjadrögum inn við Kringlumýri. Þar seytluðu vætlurnar í vesturátt. Og í drögunum norðan Öskjuhlíðar sameinuðust þær öðrum vætlum og mynduðu svolítinn læk, þegar dró niður í Norðurmýrina. Þaðan hallaði svo til fjarðarins. Þar heitir nú Hlemmtorg.

Greinarhöfundur hefur áður skrifað um Rauðarárævintýrið. Verður hér birt orðrétt lýsing úr þeim skrifum: „Bóndinn á Rauðará varð þess brátt áskynja, að hér þurfti víða höndum til að taka. Hann var kominn í nýtt landnám, stóð í þýfðu túni, sem teygði skækla út í óræktina, og þegar til kom, var jörðin ekki nema smáskák, miðað við það land, sem hann hafði áður fórnað kröftum sínum. Hann greip torfristuljáinn hverju sinni, er tóm gafst til, og tók að slétta þúfurnar í túninu. Linnti hann ekki, fyrr en túnið var orðið slétt til allra átta, svo langt sem það náði. Þá tók hann að færa túnið út, eftir því sem föng voru á, vakti upp grjót og sléttaði yfir, en hlóð vallarfarið úr hnullungunum. Hann sótti mold langar leiðir í hjólbörum og myndaði jarðveg, þar sem þunnt var á klöppunum. Og forarfen ræsti hann fram og fyllti upp. Hann sýndi að hann var jarðræktarmaður, svo að þess voru fá dæmi, vann sem ungur væri og var sífellt með ný verkefni á prjónunum. Þannig stækkaði túnið ár frá ári, en jafnframt fann hann nauðsyn þess að fá meira olnbogarúm. Þar í kring var landinu skipt í stykki, sem ýmsir embættismenn í Reykjavík áttu. Þar austur af Rauðará var Hagastykki, síðan Jónsjenssonarstykki, og enn austar var jarðarskikinn Fúlatjörn.

Einar Benediktsson

Schierbeck landlæknir átti Rauðará, svo sem fyrr er sagt frá, Jón Jensson yfirdómari átti vitanlega Jónsjenssonarstykkið, og Halldór Danielsson átti Fúlutjörn.
Svo komu aðrir menningarfrömuðir og menntamenn til að fala þessi stykki. Þannig var það til dæmis með lögfræðinginn Einar Benediktsson skáld. Hann langaði til að eignast Fúlutjörn og bað bæjarfógetann að selja sér skikann. Þetta ætlaði bæjarfógetinn að gera. Þegar samningarnir um þetta voru tilbúnir, svo að ekki var eftir annað en að skrifa undir, segir Einar: – Þetta er eiginlega afleitt nafn, það verður að slá af verði á jörð með svona ljótu nafni.
Halldór Danielsson þykktist við af þessari athugasemd, og mælti: – Jæja, þá skulum við láta það vera að/skrifa undir. Og þar við sat.
Þetta atvik varð til þess, að Halldór bæjarfógeti bauð Vilhjálmi á Rauðará Fúlutjörn til kaups. Vilhjálmur hugsaði sig ekki lengi um og festi samstundis kaup á jarðarpartinum.
Börnum Vilhjálms fór líkt og Einari Benediktssyni. Þeim þótti nafnið óviðfeldið og tóku að kalla þennan nýja landauka Lækjarbakka. En Vilhjálmur var á öðru máli.
– Mér þykir nú eins vænt um að kalla það Fúlutjörn, sagði hann, – því að einmitt fyrir nafnið fékk ég landið.

Rauðará
Bóndinn á Rauðará lét ekki þar við sitja með jarðarkaupin. Allmikið erfðafestuland festi hann sér til viðbótar og fékk sér það mælt út hjá bæjarstjórn. Þar að auki keypti hann slægnaland upp við Elliðavatn, og færði nýræktina út jafnt og þétt.”
Vilhjálmur bóndi átti því láni að fagna, að öll fjölskylda hans var honum samhent við búskapinn. Þó ber einkum að nefna Þorlák, son hans. Hann hafði frá unga aldri fyrir norðan verið þátttakandi í búskapnum á Kaldbak og var rúmlega tvítugur að aldri, þegar fjölskyldan fluttist að Rauðará. Upp úr aldamótunum voru börnin komin á manndómsár og héldu sínar leiðir út í lífið. Þóra, sem var elst barnanna, fluttist norður og giftist Stefáni Jónssyni á Munkaþverá í Eyjafirði, Halldór fór utan og lærði búfræði, varð síðar skólastjóri á Hvanneyri. Hann var kvæntur Svövu Þórhallsdóttur, frændkonu sinni, Laufey giftist Guðmundi Finnbogasyni, landsbókaverði, og Þorlákur kvæntist eftir lát föður síns, árið 1919, og gekk að eiga Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Árnessýslu.

Rauðará

Rauðará – Ljósmyndin er af námunni fyrir norðan Sjómannaskólan árið 1944, þar var Grjótnám Reykjavíkur.
Hús á þessum stað tilheyrði líklega Grjótnámi Reykjavíkur, í húsaskrá er hús skráð við Suðurlandsbraut/Laugarveg. Það var byggt 1926 og hefur verið rifið fyrir 1956. Var þar sem nú er Skipholt 33.
Náman í Rauðaárholti varð síðar eign bæjarins og árið 1923 voru um 60 manns í atvinnubótavinnu í grjótnáminu. Sama ár var keypt ný grjótmulningsvél á vegum bæjarins (Grjótnám Reykjavíkur) og var hún staðsett í námunni. Námunni var síðan lokað árið 1945 og voru þá vélarnar fluttar í nýja námu við Elliðaárvog.

Þorlákur var hinn efnilegasti maður, skýr og greinagóður, hneigður til rannsókna og áhugasamur við ræktunar- og önnur búnaðarmál. Hann vann með föður sínum að öllum framkvæmdum og tók snemma að skrifa hjá sér athuganir um líf húsdýranna og draga þar af lærdóma um búnaðinn. Hann leitaðist við að finna á hvern hátt væri hagkvæmast að nytja bústofninn. Birti hann skýrslur um þetta í Búnaðarritinu.
Upp úr aldamótunum sendi Vilhjálmur Þorlák son sinn í landbúnaðarskóla í Danmörku.
Þegar Þorlákur kom heim að námi loknu, tók hann við bústjórn á Rauðará. Haft var eftir Vilhjálmi, að sá námskostnaður hefði komið inn á einu ári. – Kýrnar bættu því meira við sig, sem betur var kunnað með þær að fara, sagði hann. Búskapur þeirra feðga á Rauðará hafði snemma vakið athygli. Áður var litið á Rauðará sem kot, en innan fárra ára var þarna risið stórbýli. Rauðarármjólkin varð fræg sem mesta kostamjólk, auk þess tóku Rauðarárkýrnar að setja mjólkurmet, hvert af öðru. Búgarðurinn, sem þarna hafði risið, varð einnig stolt Reykjavíkur.
RauðaráBæjarbúar áttu nú kost á meiri og betri mjólk en áður tíðkaðist, og litið var með virðingu til mannsins, sem þarna hafði sáð og uppskorið. Hann fékk nú öðru sinni opinbera viðurkenningu fyrir störf sín, að þessu sinni verðlaun úr Ræktunarsjóði.
Árið 1908 var lokið við að reisa mikið og vandað íveruhús á Rauðará. Þaðan mátti líta yfir fagurgræna túnbreiðuna til allra átta, — 35 dagsláttur, sem ræktaðar höfðu verið til viðbótar við gamla túnið, mest sáð sléttur og einnig matjurtagarðar. Heyskapur á heimatúni hafði sexfaldast á fyrsta áratugnum, var nú 5—600 hestar, kýrnar voru orðnar tuttugu eða rúmlega það, hestar fimm og allmargt sauðfjár.
Vilhjálmur Bjarnarson lést árið 1912, 66 ára að aldri, en Sigríður, kona hans, andaðist 1933, áttræð að aldri.
Á leiði þeirra hjóna voru settir bautasteinar úr Rauðarárlandi.
Þorlákur V. BjarnarÞorlákur hafði nú alla búsforustu í sínum höndum. Tvö systkini hans voru farin af heimilinu, en Laufey var enn heima. Auk þess var á heimilinu Theódór, hálfbróðir hans og Anna Nordal. Bjó Þorlákur með móður sinni, þar til hann kvæntist árið 1919 Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Sandvíkurhreppi. Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Þorkelsdóttir og Sigurður Þorsteinsson bóndi, síðar fasteignasali í Reykjavík. Systkini Sigrúnar voru Árni fríkirkjuprestur, Ásgeir skipstjóri, Þorkell vélstjóri, Sigurður Ingi, lengi sveitarstjóri á Selfossi og Steinunn, búsett í Reykjavík.
Sigrún var glæsileg stúlka. Hún var fædd 1896, og þegar hún tók við búsforráðum á Rauðará reyndist hún mikil húsfreyja á alla lund. Þau bjuggu með myndarbrag og héldu uppi heiðri Óðalsins. En í þeirra tíð tók borgin mjög að sækja að Rauðará. Byggðin færðist hröðum skrefum inn og austur, og þar kom, að Reykjavík tók að heimta skika jarðarinnar undir götur og hús. Og mitt í þessari ásókn féll Þorlákur í valinn, langt fyrir aldur fram, árið 1932, fimmtíu og eins árs að aldri.
Sigrún S. BjarnarÞau Sigrún og Þorlákur eignuðust fjögur börn. Elstur var Vilhjálmur, sem fluttist vestur um haf og gerðist umsjónarmaður Fiske-safnsins við Cornell-háskóla í Íþöku í New York-ríki. Hann er kvæntur Dóru Eiríksson, vesturíslenskri konu. Annað barn þeirra Sigrúnar og Þorláks var Ingibjörg, er giftist Jóni K. Hafstein tannlækni. Hún lést 1959.
Þriðji í röðinni er Þorsteinn, sem er kvæntur Elfu Thoroddsen, og yngst barnanna er Sigríður Aðalbjörg, gift Sigurði H. Egilssyni stórkaupmanni.
Sigrún hélt uppi búskapnum af dugnaði og kom börnum sínum til mennta.
„En borgin hélt áfram hinni miskunnarlausu sókn að Rauðará.
Að lokum var jörðin umkringd, og um stund stóð húsið eins og einmana vin í eyðimörk.” Fólkið varð að flýja. Sigrún fluttist að Laugabrekku, sem er nokkru austar við Suðurlandsbraut. Þar bjó hún með Þorsteini syni sínum til ársins 1966, er þau létu af búskap og fluttust vestur á Kvisthaga. Sigrún lést 10. ágúst 1979.
Þorlákur Bjarnar var fæddur 10. desember 1881. Og í dag minnumst við hundrað ára afmælisdags þessa íðilmennis.
Og borgin þrengdi sér nær og nær, þrýsti loks að hjartarótunum, skóf burtu hina glæsilegu viðreisn aldamótaáranna, nagaði hverja rót, eins og hungrað dýr.
Hula tímans og skurn borgarinnar liggur nú yfir gömlu Rauðará.”

Rauðará.
Í Óðni 1909 er einnig fjallað um Vilhjálm og Sigríði:  “Vorið 1893 kaupir Vilhjálmur Rauðará við Reykjavík af Schierbeck landlækni, fyrir 4500 kr. Í kaupinu var lítið steinhús til íbúðar. Erfðafestulandið var fast að því 30 dagsláttur, en minstur hluti ræktaður og heyfengur ekki 100 hestar.
Nú hefur Vilhjálmur 20 kýr á Rauðará, eða fleiri, og hesta. Allmikið erfðafestuland hefur hann keypt til viðbótar og fengið mælt sjer hjá bæjarstjórn. Slægnaland á hann og uppi á Elliðavatni. Heyskapur heima er orðinn 5—600 hestar. Hann mun hafa sljettað hjer syðra einar 35 dagsláttur; mest er það sáðsljettur hin síðari ár. Nytina í sumar bætti hann við 3 dagsláttum. Nú er Þorlákur sonur hans fyrir búinu. Hann gekk fyrir 8 árum síðan á landbúnaðarskóla í Danmörku, og segir Vilhjálmur, að sá námskostnaður hafi komið inn á einu ári. Kýrnar bættu það við sig, er betur var kunnað með að fara. Þorlákur hefur um allmörg ár sett í Búnaðarritið fóður- og mjólkurskýrslur frá Rauðará, og sýna þær að kýrnar hafa gert gott gagn. Alt er það af aflafje á Rauðará, að Vilhjálmur hefur reisl hið mikla og vandaða íveruhús sitt, sem myndin er af hjer í blaðinu. Það var reist sumarið 1908. Öll eru húsin virt 28,000 kr. Alt er það dropinn úr kúnum. Nú mun það rjett samhljóða dómur og reynsla þeirra hjer í bæ, sem stundað hafa kúarækt með nýju og nýju fólki hvert árið, að vart hafi svarað kostnaði, og er það ljóst dæmi þess, hvaða munur er á því að kunna með að fara og ekki.
Rauðará
Búnaðarmálaritgerð á Vilhjálmur í 18. ári Búnaðarritsins: »Nýir siðir með nýjum tímum«, og þótti greinin bæði viturleg og stórhuga.
Sá, sem þetta ritar, spurði Vilhjálm, hverju hann þakkaði það, að honum hefur búnast svo vel um dagana. Hann hugsaði sig dálítið um, og sagði ekki annað en það: »Jeg hef tímt að bera á«.
Vilhjáhnur ljek sjer að því í Kaupangi á yngri árum að slá dagsláttuna í túni á 6 klukkustundum, svo var kappið og fjörið.
Heldur leiddi Vilhjálmur hjá sjer almenn mál. En margir leituðu ráða og liðs hjá honum. Og varla var annar bóndi vinsælli í Eyjafirði. Eldri dóttir þeirra hjóna, Þóra, er gift Stefáni bónda Jónssyni á Munka-Þverá í Eyjafirði. Laufey er kennari í Reykjavík. Elstur sona hans er Halldór skólastjóri á Hvanneyri.”

Rauðará

Rauðará – Myndin sýnisr bílinn Re-24 og prúðbúið fólk á ferð, árið 1924, á bak við er Gasstöðin og nær er Laugavegur og brú yfir Rauðarárlæk; “Hlemmur”.

Í Heimsmynd 1990 segir frá “Stórbóndanum á Rauðará og syninum á Hvanneyri“: “Þá er komið að bróður Þórhalls Bjarnarsonar biskup og afkomendum hans sem ekki hafa verið taldir upp til þessa. Hann var Vilhjálmur Bjarnarson (1845-1912) bóndi á Rauðará í Reykjavík. Vilhjálmur lærði smíðar hjá Tryggva Gunnarssyni, síðar bankastjóra, og koma þar til enn ein tengsl Laufásfjölskyldunnar við þann merka mann. Hann sigldi til Kaupmannahafnar og lærði þar einnig málun og málaði nokkrar kirkjur nyrðra eftir að hann kom heim. Sumarið 1872 kvæntist Vilhjálmur Sigríði, dóttur Þorláks prests á Skútustöðum Jónssonar, en hann var einn hinna þekktu Reykjahlíðarsystkina sem Reykjahlíðarætt er talin frá. Fimm árum síðar reistu þau bú í Kaupangi í Eyjafirði og fékk hann þá verðlaun fyrir búnaðarframkvæmdir.
Vilhjálmur keypti Rauðará í útjaðri Reykjavíkur árið 1893 og gerði það að stórbýli á íslenskan mælikvarða, rétt eins og Þórhallur biskup, bróðir hans, Laufás. Hin glæstu hús á Rauðará stóðu þar sem nú er Frímúrarahöll við Borgartún, rétt við endann á Rauðarárstíg.
Rauðará
Vilhjálmur og Sigríður áttu fjögur börn en auk þeirra átti Vilhjálmur eitt utan hjónabands. Elstur var fyrrnefndur Halldór Vilhjálmsson (1875-1936) skólastjóri á Hvanneyri. Hann var búnaðarfræðingur frá Landbúnaðarskólanum í Kaupmannahöfn, en skólastjóri og jafnframt stórbóndi á Hvanneyri 1907 til dauðadags. Halldór gerði miklar kröfur til sín og nemenda sinna en kjörorð hans var: “Hollur er heimafenginn baggi”. Þess vegna voru nægtir matar í búrunum á Hvanneyri. Sagt var um skólastjórann að hann ætti viðkvæma lund undir harðri skel. Kona hans var Svava Þórhallsdóttir, frænka hans, eins og áður sagði.”

Í bókinni “Strand Jamestown” segir Halldór Svavarsson frá því að “timbrið úr Jamestown hafi einnig verið notað í brýr, en mismikill metnaður var í smíði þeirra eins og gengur. Þannig voru plankar lagðir yfir Rauðará, svo að brúin líktist í raun eins konar hlemmi. Upp frá því var sú brú kölluð Hlemmurinn. Það heiti festist í hugum Reykvíkinga og er það nú eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur, samanber Hlemmtorg”.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 273. tbl. 12.12.1981, Hundrað ára minning Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará eftir Gunnar M Magnúss, bls. 50-51.
-Óðinn, 4. tbl. 01.07.1909, Vilhjálmur Bjarnason, bls. 25-26.
-Heimsmynd, 4. tbl. 01.05.1990, Stórbóndinn á Rauðará og sonurinn á Hvanneyri, bls. 95-96.
-Hamar, jólablað des. 2021 – Hús í Hafnarfirði byggð úr timbri strandaðs skips – Halldór Svavarsson (Strand Jamestown), bls. 6.
Rauðará

Faxi

Í Faxa  árið 1967 ræddi Hallgrímur Th. Björnsson við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára gamla sækempu, um “Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum“. Skipið, sem strandaði, var hið sögufræga Jamestown:

Friðrik Gunnlaugsson

“Fyrir tveimur árum, eða nánar til tekið í jólablaðinu 1965, birtist hér í Faxa langt og fróðlegt viðtal við hinn háaldraða sægarp og heiðursmann, Friðrik Gunnlaugsson, sem nú er langt til búinn að klifa sitt 95. aldursár. Sagði hann þar nokkuð frá aldamótaárunum í lífi þjóðarinnar, sjómannsferli sínum og samskiptum við ýmsa merka menn, t. d. Eldeyjar-Hjalta og brezkan togaraskipstjóra.
Nú á dögunum leit ég inn til Friðriks til að fræðast af honum um merkisatburð, sem skeði í Höfnum á bernskudögum hans þar, fyrir 85 árum, þegar hið mikla timburflutningaskip strandaði þar. Sótti ég furðu vel að gamla manninum, sem hafði lagt sig fyrir með reykjarpípuna sína og las í bók. Friðrik mun eini núlifandi Íslendingurinn, sem sá þenna atburð.
— Er þér þetta enn í fersku minni, Friðrik?
— Já, ég held ég muni það eins og það hefði skeð í gær, þó ég væri þá aðeins á 10. árinu.
— Á hvaða árstíma gerðist þetta?
— Það var um vorið, um vertíðarlokin.

Jamestown

Hafnir og nágrenni – kort,

Tíðin hafði verið góð, en í Höfnum hafði þá verið alveg fiskilaust. Ég man, að daginn áður en skipið strandaði voru vertíðarlok og vermenn því allir farnir. Aðeins 1 var á sjó, Marteinn Ólafsson í Merkinesi, sem var á stóru 6 manna fari. Piltar hans voru enn ófarnir. Þenna dag hafði hann farið í Röstina til að fá lúðu og þar höfðu þeir komið auga á þetta stóra skip, sem þeir þá héldu að væri herskip eða eitthvað svoleiðis. Þeir ályktuðu þetta vegna stærðar skipsins, en það var nokkuð úrleiðis þeim stað, sem þeir voru að fiska. Jæja, svo um nóttina rauk hann upp á vestan, og um fótaferðartíma kemur þessi stóri barkur siglandi alveg beint undan vindinum og heldur áfram upp í klettana fyrir austan Þórshöfn, sem er í Miðneslandi.
— Og þið hafið séð þetta greinilega úr Höfnum ?
— Já, ég held nú það. En það sást ekki frá Stafnesi, né bæjunum þar í kring.
— Geturðu nokkuð lýst skipinu, stærð þess og lögun?

Jamestown

Skip líkt Jamestown.

— Þetta var þrímastra skip, afskaplega skelfing stórt. Gæti ég helzt líkt því við m. s. Gullfoss, eins og hann er núna.
Þegar skipið strandaði, hrökk í sundur toppstöngin af miðmastrinu. Var þá kominn það mikill hroði, að enginn treysti sér að fara út, til að grennslast eftir, hvort fólk væri á skipinu. En það var ekki hægt að sjá úr landi, þar sem skipið hafði lenzað undan. Var nú farið út fyrir á Skotbakkanum, sem svo er kallað og fékk ég að vera þar með. Komumst við út í urðina fyrir austan Þórshöfn, en þaðan var stutt á strandstað. Við höfðum kíkir meðferðis og með honum sáum við vel át í skipið. Þar sást enginn maður, hvorki lífs né liðinn, það er greint varð. Svo komum við úr þessari könnunarferð og var þá sent til Reykjavíkur að láta vita um atburðinn.
— Hvað var þá langt um liðið frá því skipið strandaði?
— Aðeins stundarbil, meðan við skruppum út í urðina. Þegar svo veðrið batnaði, komu sendimenn úr Reykjavík og var þá farið út í skipið til að rannsaka það og innihald þess.
— Þú líktir skipinu áðan við Gullfoss, Friðrik. Hefurðu nokkrar tölur við að styðjast um stærð þess?

Sigurður B. Sívertsen

Séra Sigurður B. Sívertsen. Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík) og Steinunnar Helgadóttur konu hans.

— Sjálfur hefi ég það ekki. En það vill nú svo vel til, að í Suðurnesjaannál, frá þessum tíma, eftir sr. Sigurð B. Sívertsen, prest að Útskálum, er að finna allnákvæma lýsingu á skipinu. Þar segir: „en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gegndi, og svo að menn hefðu eigi trúað, ef menn hefðu eigi séð. Eftir því, sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar á digurð, akkerin á að gizka, hvert af þremur 100 skippund, eða 3000… Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns til borðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligerð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar var allt fúið. Samt er óvíst, hve lengi það hefir verið í sjó eða hvenær því hefir borizt á. En að því var komizt, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitið þar „James Town,” sem líka er staðarnafn allnærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.”

Hestaklettur

Hestaklettur. Hafnir í bakgrunni.

— Þetta er nú orðin all nákvæm lýsing á skipinu, en getur þú sagt mér, Friðrik, hvaða skýring var á því gefin, að skipið hafði verið rænt og rúið öllu skrauti sínu og húsbúnaði og hvers vegna það rak mannlaust að landi?
— Okkur var sagt, að stýrisútbúnaður þess hefði bilað með einhverjum hætti og áhöfninni verið bjargað í annað skip. Eftir það hafi skipið borizt um hafið fyrir vindum og straumi og þannig legið opið og varnarlaust fyrir óvönduðum ævintýramönnum, sem áttu leið fram hjá því, enda var þar sjón sögu ríkari, eins og framanskráð ber með sér.
— Hvað er talið að timbrið í skipinu hafi verið mikið?
— Sé það rétt, sem ég hefi heyrt, að úr efstu lestinni hafi komið yfir 15.000 plankar, sem ég tel ekki vera of reiknað, og hafi svipað magn verið í hinum lestunum, hvorri fyrir sig, þá lætur nærri, að alls hafi í skipinu verið 45—50 þúsund plankar og annað timbur. Þetta er vitaskuld bara ágizkun mín, en ég hygg samt, að þetta geti látið nokkuð nærri.
— Svo að við víkjum aftur að sjálfu skipinu, Friðrik, var þetta tréskip?
— Já, og allt eirslegið í sjó niður. Á dekki þess voru 2 ákaflega stórir salir og fannst þar mikið af barna- og kvenfatnaði, sem þótti benda til, að um borð í skipinu hafi búið fjölskyldur, foreldrar með börn sín.
— Þóttu ykkur ekki ljótar fregnirnar um ófarir þessa mikla skips og ránin þar um borð?

Jamestown

Strandið – auglýsing.

— Jú, fólki blöskraði slíkt athæfi. En á þessu lék aldrei neinn vafi, enda höfðu ýmsir farmenn héðan bæði haft spurnir af þessu mannlausa skipi og jafnvel komið í það sjálfir, á leið sinni milli landa. Þeirra á meðal var Petersen, skipstjórinn á Ástu frá Duus, sem hingað kom alltaf á sumrin frá Þórshöfn, að taka fisk.
— Lenti skipið upp í kletta, þegar það strandaði ?
— Nei, ekki alveg. Það rann þar upp að klöpp og sneri þá stafninum hér um bil í landsuður, en hinum endanum í útnorður. Þannig lá það meðfram klöppinni, og hafa þá verið um 30 faðmar frá skipinu að henni, og hallaðist það þá lítið eitt til suðurs í stjórnborða.
— Víkjum nú aftur að söguþræðinum, Friðrik. Við vorum þar komnir, sem rannsókn hafði leitt í ljós, að farmur skipsins væri timbur og aftur timbur. Hvað gerðist svo næst?
— Yfirmenn úr Reykjavík voru sendir suður, sem skyldu hafa umsjón með uppskipuninni. Einn þessara yfirmanna hét Sigurður og var járnsmiður. Þótti hann vera mjög orðljótur og harður við lærlinga sína og hlaut af því viðurnefnið Siggi svínabezt. Svo var það einhvern tíma, að alls ókunnur maður, sem aðeins hafði heyrt hann kallaðan þessu nafni, þurfti að finna hann og kom heim til hans og spurði í fáfræði sinni konu hans, hvort Siggi svínabezt væri heima. Konan varð ókvæða við og byrjaði að skamma manninn, sem þá fljótlega áttaði sig, baðst afsökunar á mismæli sínu og kvaðst hafa verið að spyrja eftir Sigurði, sem smíðaði bezt. Hafði þá allt viðhorf eiginkonunnar til málanna breytzt til hins betra og hún boðið manninum til stofu, að þiggja hjá sér góðgerðir.

Hafnir

— Já, þetta hefir verið býsna úrræðagóður náungi. En segðu mér, Friðrik, hvað var svo gert við timbrið?
— Það var verið að skipa því upp allt vorið og allt sumarið, bæði þarna út frá í Hvalvíkinni og einnig suður í Kirkjuvogi. Uppskipunin í Hvalvík gekk fremur seint, því að þangað var ekki unnt að koma skipum, vegna mikils aðgrynnis, nema á hásjávuðu, en þá var líka burðurinn upp enginn. Meðal þeirra, sem skipuðu upp suður í Kirkjuvogi, var t.d. Ketill heitinn í Kotvogi, sem lét sína menn annast þetta verk. Einn þeirra man ég að var sonur hans, Ólafur. Öllu timbrinu var þar skipað upp fyrir neðan Kotvog með háum sjó og eins í Vörina, því að þar var örstutt að bera varninginn upp. Ég minnist þess, að það voru býsna stórir búnkar af timbri, sem þar komu á land. Þeir, sem við uppskipunina unnu, áttu að fá helming timbursins, eða andvirði þess, fyrir vinnu sína, enda lögðu þeir til mennina og bátinn, sem skipað var upp á. Nú, nú, þegar svo fór að lækka í fyrstu lestinni, var sett stórt gat á stjórnborðssíðu skipsins og timbrið rétt þar út. Að þessu var hinn mesti flýtisauki, enda komu nú margar skútur, sem lögðust hver af annarri að skipshliðinni og var timbrinu þá skipað út í þær um þetta gat, sem var mjög fljótlegt. Var verið að skipa út í þessar litlu skútur dag eftir dag, en þær voru frá 20—30 tonn að stærð. Timbrið var flutt í Hafnarfjörð, Reykjavík og víðs vegar hér um Suðurnes.

Kotvogur

Kotvogur.

— Og selt þá jafnóðum?
— Það tel ég ekki ósennilegt, þó ég viti það ekki. En það veit ég, að þeir fengu viðstöðulaust að fylla skipin, sem báru lítið, og hefir þá sjálfsagt verið vitað, hvað í þau fór, og þannig verið hægt að fylgjast með því, sem hver og einn tók.
— Ætli yfirstjórn þessara mála hafi ekki verið í höndum amtmanns og viðkomandi konsúls?
— Það tel ég sennilegt.
— Unnuð þið Hafnarmenn ekki fyrst og fremst við þessa uppskipun?
— Jú, að sjálfsögðu allir, sem til einhvers voru nýtir. Ég kom þar hvergi nærri, sakir bernsku minnar. En svo var mikið af timbrinu, Hallgrímur, að þegar þessi uppskipun hafði staðið langt fram á sumar, var ekki nærri búið allt úr fyrstu lestinni. Hér vil ég geta þess, að önnur af þeim akkeriskeðjum, sem til náðist, var anzi mikið flókin og ekki unnt að greiða hana. Hin var alveg greið og var neðri endi hennar fastur í botni við kjölsvínið. Með þessari keðju var akkerið látið falla, til þess að festa skipið, að það ekki gæti tekið út. En eftir því sem skipið léttist og hækkaði í sjó, kom það náttúrlega ennþá hærra og nær klöppinni. En svo gerir hann þetta ofsa, óskapa veður á vestan í septembermánuði, og var flóðið eftir því mikið. Þá klofnaði skipið í tvennt og voru þá tvær lestarnar eftir ósnertar, og eins og fyrr segir, nokkuð í hinni þriðju. Jæja, þegar skipið var klofnað, flutu síðurnar upp og rak aðra í tvennu lagi upp í Einbúa, sem svo er nefndur, en hin á tangann, rétt hjá Skotbakkanum, og var hún í heilu lagi. En kjölsvínið lenti á skeri, sem er rétt norðan við Hestaklettinn og brotnaði þar.
Mörgum árum síðar fórum við oft og tíðum þangað í beitifjöru, með Bjarna heitnum Guðnasyni. Í einni þeirri ferð fundum við endann á keðjunni upp við skerið og skírðist þetta þá nokkuð fyrir okkur. Annars hefði endinn sennilega aldrei fundizt og enginn þá vitað neitt um afdrif keðjunnar. Nú, nú, þetta varð svo til þess, að Bjarni keypti „sjóboðið,” sem svo var kallað, fyrir 2 krónur.

Hafnir

Hafnir.

— Hvað fólst í þessu sjóboði?
— Allt það úr skipinu, sem enn var ekki komið í land. En eins og ég gat um, fundum við keðjuna mörgum árum eftir strandið.
— En þú hefir enn ekki sagt mér, hvað varð um timbrið úr tveimur neðri lestunum, Friðrik?
— Þegar skipið brotnaði, barst það upp um allar fjörur og lá þar í hrönnum um alla ströndina, alla leið inn í Djúpavog.
— Það var sem sé ekki með í sjóboðinu?
— Nei, alls ekki. Í sjóboðinu fólst einungis vonin um eitthvað, sem ekki hefði rekið á land, væri það þá nokkuð. Enda var sjóboðið í þessu tilviki eins og ég sagði, slegið Bjarna á 2 krónur, sem náttúrlega var engin fjárhæð.
— Hann hefir þá séð sér leik á borði, þegar hann fann keðjuna?
— Já, það er rétt. Og eftir að hann þannig var orðinn eigandi sjóboðsins og þar með keðjunnar, fór þetta að fréttast.
Þorvaldur Bjarnason í Hafnarfirði, ættaður úr Höfnum, faðir Herdísar leikkonu, heyrði um keðjufundinn. Fékk hann áhuga á málinu og keypti vonina í keðjunni af Bjarna. Fékk hann Þorbjörn Klemenzson í lið með sér, en hann var þá einnig búsettur í Hafnarfirði. Hafði Þorvaldur samið við Vestmannaeyinga, um að þeir keyptu af honum keðjuna, ef honum tækist að ná henni upp. Strax þá um sumarið hófust þeir félagar handa við björgunarstarfið. Útbjuggu þeir stóran fleka, sem hvíldi á 8 olíufötum, settu á hann sveifarspil og fleira, sem að gagni mátti verða. Síðan fóru þeir á hverri fjöru og sveifuðu upp það sem þeir gátu, en hitt reif flekinn upp sjálfur, þegar hækkaði í sjónum, því að hann hafði verið rammlega festur við keðjuna.

Jamestown

Í byrjun desember 2018 var vígt við anddyri Safnahússins minnismerki um síðustu og um leið öflugustu botnfestar sem lagðar voru á botni Vestmannaeyjahafnar árið 1920. Theódór S. Ólafsson, vélstjóri og fyrrv. útgerðarmaður hafði frumkvæði að verkinu. Keðjan er frá strandi Jamestown.

En svo lásuðu þeir alltaf jafnóðum frá hvern lás, sem var 15 faðmar, og fóru með þá hvern um sig upp á Hestaklettinn og geymdu þar. Þannig höfðu þeir upp alla keðjuna, 7 liði, samtals 105 faðma og seldu hana síðan Vestmanneyingum þarna á klettinum, og þeir komu síðan þar á stórum mótorbát og fluttu heila kladdann til Eyja. Keðjan var síðan strengd þar yfir höfnina og settir á hana sigurnaglar með jöfnu millibili, handa bátunum til að festa sig við.
— Veiztu nokkuð, hvað Þorvaldur fékk fyrir keðjuna?
— Nei, en það hlýtur að hafa verið töluvert. Ég held nú annars, að þetta hafi þá verið orðin félagseign þeirra Þorbjörns, og sjálfsagt tel ég að þeir hafi fengið ríflega uppborinn útlagðan kostnað og sæmilegt sumarkaup, hvort sem þeir hafa nú grætt annað á fyrirtækinu. En auk keðjunnar náðu þeir þarna einnig upp akkerinu, sem var gríðarlega stórt, en það var með eikarási, er var í burtu, og lá akkerið því flatt. Þeir komu því með keðjunni upp á klöppina, þar sem það mun liggja enn, því að Eyjarskeggjar hirtu aldrei um að taka það. Nú er það auðvitað mosagróið þar á klöppinni, en þó tel ég alveg víst, að enn sjáist það þar. Mundi Vilhjálmur Magnússon manna líklegastur þar í Höfnum til að benda á þessa klapparflúð.
— Jæja, Friðrik. Mig langar að heyra nánar um timbrið í fjörunni og hvernig því reiddi af?
— Já, það var strax farið að númera timbrið, sem rak á fjörurnar, og voru margir við það verk, sem stóð yfir í vikutíma, að mig minnir. Jafnóðum og timbrið var númerað, gat salan á því hafizt, og svo þurfti ekkert annað, þegar númerin voru tekin, en að fleygja timbrinu örlítið hærra upp í fjöruna, svo að sjórinn tæki það ekki, enda var það þá komið úr allri hættu.
— Hvað þýddi þessi númering?
— Það var gert til þess, að hver gæti keypt það sem hann hafði hug á að fá, því að í hverju númeri voru ákveðnar lengdir og tiltekið magn. Sum voru með eintómum löngum plönkum, önnur með styttri og enn önnur með spýrur og borðvið og annað þess háttar. Svo buðu menn í hvert númer fyrir sig. Sumir kannske keyptu 5—6 og upp í 10 númer af þessu. Já, það held ég nú.

Jamestown

Árið 1883 segir Þorvaldur Thoroddsen, að byggingar séu „hvergi jafngóðar á Íslandi” eins og á Vatnsleysuströnd, „svo að segja eintóm timburhús, vel vönduð og útbúin”. Timburhúsin voru flest reist úr farmi Jamestown, sem rak á fjórur í Höfnum 1881. Strandið olli tímamót um í húsagerð manna suður með sjó.

— Hve lengi stóð þessi verzlun þarna í fjörunni?
— Hún stóð í 4 daga.
— Hverjir komu þar til að verzla?
— Þangað komu menn víðs vegar að, frá Reykjavík, Hafnarfirði og alls staðar hér af Suðurnesjum, enda munu hafa verið byggð einhver ósköp af húsum úr þessu timbri. Ég minnist þess, að Einar í Garðhúsum keypti mjög mörg númer af þessu timbri, fyrir utan Ósa. Svo kom hann um sumarið, fékk skip í Höfnum og fór út eftir, þar sem hann átti timbrið, lét menn sína búnka því öllu í geysistóran fleka og binda saman rammlega. Minnir mig, að í flekanum væru um 200 miklir og stórir plankar, þetta 10—12 álna langir, 3ja þumlunga þykkir og 8—9 feta breiðir. — Jæja, svo þegar þeir voru búnir að koma flekanum af stað í norðan roki, héldu þeir suður úr og út ósinn og ætluðu með flekann suður í Kirkjuósvör, en þar átti að taka plankana í land og geyma þá þar, og þangað ætlaði svo Einar að sækja þá á sínum eigin skipum sumarið eftir. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Útfallið var að byrja, þegar þeir komu á móts við vörina og hafði þá straumurinn út úr ósnum betur, svo að þeir lentu fyrir utan Flataskerið og enn bárust þeir lengra út. Þannig héldu þeir suður með öllu landi og þó að þeir leituðust stöðugt við að koma flekanum nær og nær, þá hafði straumurinn sífellt betur og virtist einn hafa vald yfir flekanum, enda misstu þeir hann alveg að síðustu út fyrir eyrina á Kalmanstjörn og út á reginhaf. Þar með var sá draumur búinn.
— Svo Einar hefir ekki byggt hús úr þessu timbri?
— Nei, hann varð þarna fyrir talsverðum skaða.
— Urðu nú ekki fleiri en Einar fyrir tjóni í sambandi við þessa flutninga?
Vestmannaeyjar
—Jú, það tel ég sennilegt, þó að mig reki ekki minni til þess. Menn sóttu timbrið ýmist á skipum, sem þeir þá sigldu inn á höfnina og lögðu þeim þar meðan verið var að hlaða þau, og fluttu þá litlir bátar timbrið út í skipin, eða þá að timbrið var flutt á hestum, en það gerðu t. d. bæði Keflvíkingar og Njarðvíkingar. Ég minnist þess, að hjá Bjarna heitnum Guðnasyni voru þá vermenn undan Eyjafjöllum og úr Fljótshlíðinni, sem hann gerði út, einnig voru hjá honum sjómenn, þeir Páll og Sigurður frá Hvalsnesi, sem nú eru báðir löngu horfnir af sjónarsviðinu. Allir voru þessir menn meira og minna við smíðar þennan vetur, að smíða úr þessu ódýra timbri ýmiss konar búshluti og áhöld. — Náttúrlega hafa þeir fengið til þess leyfi Bjarna, enda munu þeir aðallega hafa gert það í landlegum og öðrum frístundum, en báðir ætluðu þeir að fara að búa á Hvalsnesi þá um vorið, svo að þetta hefir komið sér vel fyrir þá. Um vertíðarlokin fluttu þeir svo alla smíðina heim með sér. Fljótshlíðingarnir og þeir hinir undan Eyjafjöllunum, munu einnig hafa smíðað nokkuð þenna vetur og flutt gripina heim með sér. Voru það aðallega laupar, byttur, fötur og svo vefstólar. Sigurður heitinn á Hvalsnesi smíðaði handa sjálfum sér vefstól, völundarsmíði, sem var svo léttur og fíngerður, að krækja varð honum niður að aftan, svo að hann ekki lyftist upp, þegar ofið var í honum. Tiltekið var, hve gripur þessi var vandaður að allri gerð, enda var Sigurður orðlagður gæðasmiður.
— Hvað fleira manstu að segja af þessu, var lokið við timbursöluna þá um sumarið?
— Nei, nei, ég held nú síður, það entist í fleiri ár úr skipinu. Og ennþá lengur var þó verið að vinna úr sjálfum skipsskrokknum og búta síðurnar niður. Það var nú engin smáræðis vinna að rífa þetta allt í sundur, því að allt var það samanrekið með sterkum járn- og koparboltum.

Jamestown

Húsið var byggt úr timri úr Jamestown.

— Voru það þá menn frá skipseigendum, sem sáu um þetta?
— Nei, bara frá þeim, sem keyptu skipsflakið, en það gerðu Hafnarmenn í félagi og voru þeir svo alltaf smátt og smátt að rífa þetta í fleiri ár. Og svo jafnóðum og timbrið losnaði úr flakinu, notuðu þeir það ýmist til eigin þarfa eða þeir seldu það öðrum, sem fengu það þá við mjög vægu verði. Síðan bútuðu þeir það með stórviðarsögum í mátulegar lengdir, t. d. rárnar og flettu síðan bútunum og gátu þannig fengið mjög heppilegt timbur.
— Þannig hefir allur skipsskrokkurinn meira og minna verið nýttur?
— Já, mjög mikið af honum. Bæjardyrnar í Kotvogi voru t. d. byggðar úr þessum viði, svokölluðum tappaplönkum. Nafnið kom til af því, að tappar voru settir í plankana, þar sem boltarnir höfðu verið.
— Telur þú að menn hafi hagnazt á þessu?
— Það er nú enginn vafi. Þeir fengu þetta svo að segja fyrir ekki neitt. Það var bara vinnan á þessu. Ekki man ég nú hvað skipssíðurnar kostuðu, en það var sáralítið, enda þýddi engum að kaupa þetta nema Hafnarmönnum. Þeir einir höfðu aðstöðu til að hagnýta sér brakið.
— En var ekki timbrið, sem flaut úr lestunum upp í fjörurnar, selt hærra verði?
— Jú, það var selt á uppboði fyrir eitthvað meira, en samt var það líka afar billegt, t. d. kostuðu þessir stóru plankar aldrei meira en 2 krónur og heil númer af öðru timbri voru seld á 1—2 krónur, heil búntin.
— Var ekki stundum margt um manninn þarna í fjörunni?

— Jú, það var það oft, t. d. var alltaf dálítill hópur manna, sem fór í einu til að rífa síðurnar.
— Manstu fleira að segja mér, Friðrik, viðkomandi þessu skipsstrandi?
— Já, ég held ég geti bætt hér við þessa frásögn athyglisverðum hlut. Þegar mörg ár voru liðin frá þessum atburði, kvisaðist sú fregn, að ballestin í þessu fræga skipi, er sökk með því í hafið, hafi ein út af fyrir sig, kostað mikið meira en skipið sjálft, með öllum hinum mikla timburfarmi. Þetta er að mínu viti það merkilegasta við þessa frásögn.
— Hvers konar ballest var það?
— Það var silfurberg, talið mjög verðmætt.

Jamestown

Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.

— Og hvað varð svo um það?
— Það situr þarna á botninum, þar sem skipið liðaðist í sundur. Jæja, svo var það löngu síðar, ég var þá fluttur hingað til Keflavíkur, að kafarar voru sendir suður í Hafnir að leita hinna týndu fjársjóða, ballestinni úr skipinu. Fóru þeir eftir leiðsögn Sigurðar H. Ólafssonar, sem vísaði þeim á staðinn, þar sem við Bjarni Guðnason fundum keðjuendann, er vikið var að fyrr í þessu spjalli. En vitanlega gripu kafararnir þarna í tómt, fundu þar aðeins ósköp venjulegan þaragróður, enda ekki við öðru að búast, eins og ég skal nú skýra nánar: Þú minnist þess í frásögn minni, er óveðrið gerði og skipið klofnaði, þar sem það lá við klöppina, að þá var akkerið og hin greiða akkeriskeðja látin falla, til að fyrirbyggja, að skipið tæki út aftur. Flóknu keðjuna, sem þeir ekki gátu greitt, létu þeir þar einnig með hinu akkerinu. Mundi ég vilja álíta, að það síðarnefnda hafi losnað við skipið, þegar það brotnaði, og liggi nú þar við klöppina, sem órækt sönnunargagn um hvar ballestarinnar er að leita.
— En hvar álítur þú þá að týnda akkerið sé?
— Það liggur 150—200 föðmum utan við skerið, sem við fundum keðjuna á. Þar er klöppin, sem skipið klofnaði við og þar hlýtur því bæði akkerið og ballestin að hafa farið niður.
— En hvaða skýring er á því, að þið funduð hitt akkerið ásamt keðjunni svona miklu nær landi?

— Það var vegna þess, að sú keðja var föst í kjölsvíninu, sem hefir dregið hana þarna upp að skerinu, rétt norðan við Hestaklettinn, þar sem við Bjarni fundum hana. Vegna þessa fundar okkar héldu svo ýmsir, að þar hefði skipið klofnað, og þar væri því silfurbergsins að leita. Þarna liggur skekkjan, Hallgrímur. En ég er viss í minni sök, ég veit nákvæmlega um staðinn, þar sem ballestin liggur og hefði einhver hug á að finna hana, meðan ég er ekki lakari til heilsunnar en þetta, þá væri ég fús að skreppa út í Hafnir og gefa upp hin réttu mið..

Jamestown

Hljóðfæri smíðað úr timbri úr Jamestown.

— Það er nú vel boðið og ekki ólíklegt, að einhver notfæri sér það. En hvað getur þú ímyndað þér, Friðrik, að sjálf strandklöppin sé langt frá landi á stórstraumsfjöru?
— Þá er hún eiginlega í fjöruborðinu, hún kemur þá öll upp úr sjó. En eins og ég hefi fyrr sagt þér, lá skipið meðfram þessari klöpp, er það brotnaði, og hafa þá í mesta lagi verið um 30 faðmar frá því og upp á klöppina.
— Mundi þar vera mikið dýpi?
— Nei, í mesta lagi svona 7 faðmar.
— Og þar liggur fjársjóðurinn?
— Já, áreiðanlega, og annar þungavarningur, sem í því kynni að hafa verið. Til frekari glöggvunar vil ég geta þess, að þarna innan við klöppina er stórt lón, og þar lá oft þessi ósköp af sel inni í þessu lóni, en eftir því miðju liggur djúp renna, þar sem selirnir gátu farið út og inn um fjöru. Ég man, að þeir lágu þarna oft í hópum saman í lóninu og uppi á klöppinni. Við fórum oft í beitifjöru í þetta lón, því að það var stundum talsverð öðubeita þar innan við kampinn. Fann ég þar þá stundum all sérkennilega steina á stærð við kaffibolla, eða hnefa manns og suma þaðan af minni.

Allir þessir steinar voru hvítglitrandi og fallegir, en samt tók ég aldrei neinn þeirra. Og uppi í Hvalvíkinni, þar sem útstreymið er svo mikið, var ég stundum í maðkasandi. Þar fann ég eitt sinn stóran stein á stærð við mjólkurkönnuna þarna, og var hann hvítglitrandi eins og hinir. En maður hugsaði þá bara ekkert út í, hvað þetta var og lét því kyrrt liggja, enda hafði maður þá annað við tímann að gera en að leika sér að fallegum steinum í fjörunni. Eftir á þóttist ég vita, að þetta hefði einmitt verið úr ballest skipsins og að steinarnir hefðu skolast inn í lónið, sem lá hringlaga inn frá klöppinni.
Ekki tel ég ósennilegt, að nokkurt magn af steinum þessum hafi þannig komizt inn í lónið, sem er gríðarlega djúpt.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

— En eru nú ekki meiri líkur fyrir því, að silfurbergið, eða hvað þetta nú er, hafi orpist þarna sandi og verði torfundið úr þessu ?
— Það fer náttúrlega nokkuð eftir því, hvernig botninn þarna utan við klöppina er, ég hygg nú að þar sé bara leir og þaragróður, sem naumast ætti að spilla verulega.
— Og að lokum, Friðrik, er þetta þá í Hvalvíkinni?
— Nei, það er ekki í henni sjálfri, heldur austast í urðinni fyrir austan Þórshöfn.
Hér lýkur viðtali okkar Friðriks Gunnlaugssonar, hins hartnær hálftíræða öldungs, sem á að baki sér langa manndómsog merkisævi, þeirrar athafnasömu kynslóðar, sem vann hörðum höndum fyrir sínu daglega brauði og skóp undirstöðuna að okkar háþróaða menningarríki. — Og svo, góðir Suðurnesjamenn: Nú er að taka til höndunum og leita hins týnda fjársjóðs.” – Hallgrímur Th. Björnsson.

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.
-Fylkir, 5. tbl. 01.12.2018, Minnismerki um botnfestar á fyrstu áratugum vélbátaaldar í Eyjum, bls. 17.
-Tíminn – Sunnudagsblað, 36. tbl. 13.09.1964, Suður með sjón, Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, bls. 856.
Jamestown