Hlemmur

Í Morgunblaðinu 1981 skrifar Gunnar M. Magnússon “Hundrað ára minningu Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará“:

“Séra Björn Halldórsson, hinn kunni klerkur og sálmaskáld, bjó í Laufási við Eyjafjörð. Hann var fæddur 1823. Kona hans var Sigríður Einarsdóttir frá Saltvík á Tjörnesi, fædd 1819. Þeirra börn voru Vilhjálmur, fæddur 1846, Svava, fædd 1854, og Þórhallur, fæddur 1855.

Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur ólst að mestu upp hjá afa sínum, séra Halldóri Bjarnasyni, prófasti á Sauðanesi.
Sextán ára að aldri hóf hann smíðanám hjá Tryggva Gunnarssyni, timburmeistara á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Að námi loknu, tók hann upp tvíþætt störf: stundaði smíðar á veturna, en hóf ræktunarstörf að vorinu og stjórnaði búi foreldra sinna að sumrinu. Þótti þá þegar sýnt, að hinn ungi prestssonur væri afbragð annarra manna, þrekmikill, kappsamur til hvers konar starfa, logandi af fjöri, opinn fyrir framförum, góðgjarn og óádeilinn og lagði hverju góðu máli lið.
Rúmlega tvítugur að aldri sigldi Vilhjálmur til Danmerkur, dvaldist árlangt í Kaupmannahöfn og lagði stund á málaraiðn. Þegar heim kom, tók hann að stunda þess iðn til jafns við fyrri störf og málaði nokkrar kirkjur á Norðurlandi, ein þeirra var Grímseyjarkirkja.
Árið 1872 gekk Vilhjálmur að eiga Sigríði Þorláksdóttur prests á Skútustöðum Jónssonar. Hún var fædd 1853. Nokkru síðar keypti séra Björn jörðina Kaupang í Eyjafirði og ungu hjónin fluttust þangað. Vilhjálmur hætti nú að mestu störfum út á við, en einbeitti atorku sinni að búi sínu og heimili. Hann tók að byggja uþp á jörðinni, smíðaði allstórt timburhús og vönduð peningshús, stækkaði tún og hóf töðufall til muna.

Rauðará

Rauðará um 1900 – hús Shiederbergs.

Vilhjálmur var fjörmaður og lagði oft saman nótt með degi, einkum við vorverk og heyannir. Á þeim árum sló hann dagsláttuna á rúmum sex klukkustundum, og þótti ekki heiglum hent að leika það eftir honum. Hann komst brátt í röð fremstu og gildustu bænda við Eyjafjörð og hlotnaðist sú viðurkenning að fá verðlaun úr heiðurssjóði Kristjáns konungs IX.
En mitt í þessum blóma skeði sá atburður að hjónin í Kaupangi seldu eigur sínar og fluttust úr héraðinu. Í stað þess að berast með straumnum til Vesturheims, héldu þau með fjórum börnum sínum suður að Kollafirði og settust þar að á Rauðará, örreytiskoti austan Reykjavíkur. Börn þeirra voru Þóra, Halldór, Laufey og Þorlákur.

Rauðará

Rauðará um 1950. Holdveikraspítalinn á Laugarnesi fjær.

Rauðará var fornt býli, en hvorki stórt né nytjagott. Reykjavík varð snemma stórbýli og bendir allt til þess, að á 10. öld hafi hún verið eitt af stærstu höfuðbólum landsins.
Í lýsingu Árna Magnússonar og Páls Vídalíns í jarðabók frá árinu 1703 segir að á Rauðará hafi verið fimm kýr, ein kvíga veturgömul, sex ær, fimm sauðir veturgamlir, tvö lömb og eitt hross. Engjar voru engar, en torfrista, stunga og móskurður nægjanlegur í heimalandi. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon lítil. Hrognkelsafjara lítil mjög. Skelfiskafjara næstum engin. Murukjarna, bjöllur og þess konar má finna, ef vill. Heimræði er árið um kring, en langræði mikið. Kvaðir eru þó ýmsar og á þessari litlu og kostarýru jörð: Mannslán um vertíð, dagslættir tveir til Viðeyjar. Hríshestar tveir heim til Bessastaða. Hestlán einn dag til að flytja Viðeyjar-eldiviðartorf af þerrivelli til skips. Skipaferðir, þegar Bessastaðamenn kalla. Heyhestur einn til fálkanna, síðan þeir sigldu í Hólminn. Og þó var ekki allt upptalið.

Rauðará

Rauðará.

Það var vorið 1893 að Vilhjálmur Bjarnarson keypti þessa jörð af Schierbeck landlækni fyrir 4500 krónur. Vilhjálmur var þá 47 ára að aldri og Sigríður, kona hans, stóð á fertugu.
Jörðinni fylgdi landsvæði, um 30 dagsláttur alls, en mestur hluti þess var óræktaður, nema túnið, sem í bestu nýtingu gaf af sér eitt hundrað hesta eða tæplega það. Kringum túnskikann voru mýradrög og fúafen, en annars staðar blásinn melur eða klapparholt.

Rauðará

Rauðará – Árið 1891 reisti Hans J. G. Schierbeck landlæknir steinhlaðið hús á jörðinni. Árið 1908 reif Vilhjálmur Bjarnarson niður gamla íbúðarhúsið og reisti nýtt í þess stað.” – Húsaskrá Borgarsögusafns. Sjá má gamla bæinn á Rauðará v.m.

Lítið steinhús var á Rauðará, þegar Vilhjálmur og Sigríður settust þar að. Bakvið það var gamall bær og fornfálegur.
Goshóll var norðan við túnið, þar var grásteinsnáma. Þar sat löngum Magnús steinsmiður og klauf grjót í legsteina. Fyrir neðan Goshól var Gvendarbrunnur. Þar var grjótruðningur, er líktist dys. Ágætt drykkjarvatn spratt þar upp. Mótak átti Rauðará austur í mýri, þar sem nú er Nóatún.
Rauðará
Af hlaðinu á Rauðará sá stök og smá býli í átt til bæjarins. Leiðin ofan úr sveitum til Reykjavíkur lá talsvert sunnar, en annar vegur frá bænum lá með sjónum inn að Rauðará og Laugarnesi. Þessi stígur fyrir ofan fjöruna var kallaður ástarbrautin. Þar var fáförult „inn á Hlemm”. En Hlemmur var brúin á Rauðarárlæknum, þar sem hann fellur til sjávar. Þessi lækur átti upptök sín í dýjadrögum inn við Kringlumýri. Þar seytluðu vætlurnar í vesturátt. Og í drögunum norðan Öskjuhlíðar sameinuðust þær öðrum vætlum og mynduðu svolítinn læk, þegar dró niður í Norðurmýrina. Þaðan hallaði svo til fjarðarins. Þar heitir nú Hlemmtorg.

Greinarhöfundur hefur áður skrifað um Rauðarárævintýrið. Verður hér birt orðrétt lýsing úr þeim skrifum: „Bóndinn á Rauðará varð þess brátt áskynja, að hér þurfti víða höndum til að taka. Hann var kominn í nýtt landnám, stóð í þýfðu túni, sem teygði skækla út í óræktina, og þegar til kom, var jörðin ekki nema smáskák, miðað við það land, sem hann hafði áður fórnað kröftum sínum. Hann greip torfristuljáinn hverju sinni, er tóm gafst til, og tók að slétta þúfurnar í túninu. Linnti hann ekki, fyrr en túnið var orðið slétt til allra átta, svo langt sem það náði. Þá tók hann að færa túnið út, eftir því sem föng voru á, vakti upp grjót og sléttaði yfir, en hlóð vallarfarið úr hnullungunum. Hann sótti mold langar leiðir í hjólbörum og myndaði jarðveg, þar sem þunnt var á klöppunum. Og forarfen ræsti hann fram og fyllti upp. Hann sýndi að hann var jarðræktarmaður, svo að þess voru fá dæmi, vann sem ungur væri og var sífellt með ný verkefni á prjónunum. Þannig stækkaði túnið ár frá ári, en jafnframt fann hann nauðsyn þess að fá meira olnbogarúm. Þar í kring var landinu skipt í stykki, sem ýmsir embættismenn í Reykjavík áttu. Þar austur af Rauðará var Hagastykki, síðan Jónsjenssonarstykki, og enn austar var jarðarskikinn Fúlatjörn.

Einar Benediktsson

Schierbeck landlæknir átti Rauðará, svo sem fyrr er sagt frá, Jón Jensson yfirdómari átti vitanlega Jónsjenssonarstykkið, og Halldór Danielsson átti Fúlutjörn.
Svo komu aðrir menningarfrömuðir og menntamenn til að fala þessi stykki. Þannig var það til dæmis með lögfræðinginn Einar Benediktsson skáld. Hann langaði til að eignast Fúlutjörn og bað bæjarfógetann að selja sér skikann. Þetta ætlaði bæjarfógetinn að gera. Þegar samningarnir um þetta voru tilbúnir, svo að ekki var eftir annað en að skrifa undir, segir Einar: – Þetta er eiginlega afleitt nafn, það verður að slá af verði á jörð með svona ljótu nafni.
Halldór Danielsson þykktist við af þessari athugasemd, og mælti: – Jæja, þá skulum við láta það vera að/skrifa undir. Og þar við sat.
Þetta atvik varð til þess, að Halldór bæjarfógeti bauð Vilhjálmi á Rauðará Fúlutjörn til kaups. Vilhjálmur hugsaði sig ekki lengi um og festi samstundis kaup á jarðarpartinum.
Börnum Vilhjálms fór líkt og Einari Benediktssyni. Þeim þótti nafnið óviðfeldið og tóku að kalla þennan nýja landauka Lækjarbakka. En Vilhjálmur var á öðru máli.
– Mér þykir nú eins vænt um að kalla það Fúlutjörn, sagði hann, – því að einmitt fyrir nafnið fékk ég landið.

Rauðará
Bóndinn á Rauðará lét ekki þar við sitja með jarðarkaupin. Allmikið erfðafestuland festi hann sér til viðbótar og fékk sér það mælt út hjá bæjarstjórn. Þar að auki keypti hann slægnaland upp við Elliðavatn, og færði nýræktina út jafnt og þétt.”
Vilhjálmur bóndi átti því láni að fagna, að öll fjölskylda hans var honum samhent við búskapinn. Þó ber einkum að nefna Þorlák, son hans. Hann hafði frá unga aldri fyrir norðan verið þátttakandi í búskapnum á Kaldbak og var rúmlega tvítugur að aldri, þegar fjölskyldan fluttist að Rauðará. Upp úr aldamótunum voru börnin komin á manndómsár og héldu sínar leiðir út í lífið. Þóra, sem var elst barnanna, fluttist norður og giftist Stefáni Jónssyni á Munkaþverá í Eyjafirði, Halldór fór utan og lærði búfræði, varð síðar skólastjóri á Hvanneyri. Hann var kvæntur Svövu Þórhallsdóttur, frændkonu sinni, Laufey giftist Guðmundi Finnbogasyni, landsbókaverði, og Þorlákur kvæntist eftir lát föður síns, árið 1919, og gekk að eiga Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Árnessýslu.

Rauðará

Rauðará – Ljósmyndin er af námunni fyrir norðan Sjómannaskólan árið 1944, þar var Grjótnám Reykjavíkur.
Hús á þessum stað tilheyrði líklega Grjótnámi Reykjavíkur, í húsaskrá er hús skráð við Suðurlandsbraut/Laugarveg. Það var byggt 1926 og hefur verið rifið fyrir 1956. Var þar sem nú er Skipholt 33.
Náman í Rauðaárholti varð síðar eign bæjarins og árið 1923 voru um 60 manns í atvinnubótavinnu í grjótnáminu. Sama ár var keypt ný grjótmulningsvél á vegum bæjarins (Grjótnám Reykjavíkur) og var hún staðsett í námunni. Námunni var síðan lokað árið 1945 og voru þá vélarnar fluttar í nýja námu við Elliðaárvog.

Þorlákur var hinn efnilegasti maður, skýr og greinagóður, hneigður til rannsókna og áhugasamur við ræktunar- og önnur búnaðarmál. Hann vann með föður sínum að öllum framkvæmdum og tók snemma að skrifa hjá sér athuganir um líf húsdýranna og draga þar af lærdóma um búnaðinn. Hann leitaðist við að finna á hvern hátt væri hagkvæmast að nytja bústofninn. Birti hann skýrslur um þetta í Búnaðarritinu.
Upp úr aldamótunum sendi Vilhjálmur Þorlák son sinn í landbúnaðarskóla í Danmörku.
Þegar Þorlákur kom heim að námi loknu, tók hann við bústjórn á Rauðará. Haft var eftir Vilhjálmi, að sá námskostnaður hefði komið inn á einu ári. – Kýrnar bættu því meira við sig, sem betur var kunnað með þær að fara, sagði hann. Búskapur þeirra feðga á Rauðará hafði snemma vakið athygli. Áður var litið á Rauðará sem kot, en innan fárra ára var þarna risið stórbýli. Rauðarármjólkin varð fræg sem mesta kostamjólk, auk þess tóku Rauðarárkýrnar að setja mjólkurmet, hvert af öðru. Búgarðurinn, sem þarna hafði risið, varð einnig stolt Reykjavíkur.
RauðaráBæjarbúar áttu nú kost á meiri og betri mjólk en áður tíðkaðist, og litið var með virðingu til mannsins, sem þarna hafði sáð og uppskorið. Hann fékk nú öðru sinni opinbera viðurkenningu fyrir störf sín, að þessu sinni verðlaun úr Ræktunarsjóði.
Árið 1908 var lokið við að reisa mikið og vandað íveruhús á Rauðará. Þaðan mátti líta yfir fagurgræna túnbreiðuna til allra átta, — 35 dagsláttur, sem ræktaðar höfðu verið til viðbótar við gamla túnið, mest sáð sléttur og einnig matjurtagarðar. Heyskapur á heimatúni hafði sexfaldast á fyrsta áratugnum, var nú 5—600 hestar, kýrnar voru orðnar tuttugu eða rúmlega það, hestar fimm og allmargt sauðfjár.
Vilhjálmur Bjarnarson lést árið 1912, 66 ára að aldri, en Sigríður, kona hans, andaðist 1933, áttræð að aldri.
Á leiði þeirra hjóna voru settir bautasteinar úr Rauðarárlandi.
Þorlákur V. BjarnarÞorlákur hafði nú alla búsforustu í sínum höndum. Tvö systkini hans voru farin af heimilinu, en Laufey var enn heima. Auk þess var á heimilinu Theódór, hálfbróðir hans og Anna Nordal. Bjó Þorlákur með móður sinni, þar til hann kvæntist árið 1919 Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Sandvíkurhreppi. Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Þorkelsdóttir og Sigurður Þorsteinsson bóndi, síðar fasteignasali í Reykjavík. Systkini Sigrúnar voru Árni fríkirkjuprestur, Ásgeir skipstjóri, Þorkell vélstjóri, Sigurður Ingi, lengi sveitarstjóri á Selfossi og Steinunn, búsett í Reykjavík.
Sigrún var glæsileg stúlka. Hún var fædd 1896, og þegar hún tók við búsforráðum á Rauðará reyndist hún mikil húsfreyja á alla lund. Þau bjuggu með myndarbrag og héldu uppi heiðri Óðalsins. En í þeirra tíð tók borgin mjög að sækja að Rauðará. Byggðin færðist hröðum skrefum inn og austur, og þar kom, að Reykjavík tók að heimta skika jarðarinnar undir götur og hús. Og mitt í þessari ásókn féll Þorlákur í valinn, langt fyrir aldur fram, árið 1932, fimmtíu og eins árs að aldri.
Sigrún S. BjarnarÞau Sigrún og Þorlákur eignuðust fjögur börn. Elstur var Vilhjálmur, sem fluttist vestur um haf og gerðist umsjónarmaður Fiske-safnsins við Cornell-háskóla í Íþöku í New York-ríki. Hann er kvæntur Dóru Eiríksson, vesturíslenskri konu. Annað barn þeirra Sigrúnar og Þorláks var Ingibjörg, er giftist Jóni K. Hafstein tannlækni. Hún lést 1959.
Þriðji í röðinni er Þorsteinn, sem er kvæntur Elfu Thoroddsen, og yngst barnanna er Sigríður Aðalbjörg, gift Sigurði H. Egilssyni stórkaupmanni.
Sigrún hélt uppi búskapnum af dugnaði og kom börnum sínum til mennta.
„En borgin hélt áfram hinni miskunnarlausu sókn að Rauðará.
Að lokum var jörðin umkringd, og um stund stóð húsið eins og einmana vin í eyðimörk.” Fólkið varð að flýja. Sigrún fluttist að Laugabrekku, sem er nokkru austar við Suðurlandsbraut. Þar bjó hún með Þorsteini syni sínum til ársins 1966, er þau létu af búskap og fluttust vestur á Kvisthaga. Sigrún lést 10. ágúst 1979.
Þorlákur Bjarnar var fæddur 10. desember 1881. Og í dag minnumst við hundrað ára afmælisdags þessa íðilmennis.
Og borgin þrengdi sér nær og nær, þrýsti loks að hjartarótunum, skóf burtu hina glæsilegu viðreisn aldamótaáranna, nagaði hverja rót, eins og hungrað dýr.
Hula tímans og skurn borgarinnar liggur nú yfir gömlu Rauðará.”

Rauðará.
Í Óðni 1909 er einnig fjallað um Vilhjálm og Sigríði:  “Vorið 1893 kaupir Vilhjálmur Rauðará við Reykjavík af Schierbeck landlækni, fyrir 4500 kr. Í kaupinu var lítið steinhús til íbúðar. Erfðafestulandið var fast að því 30 dagsláttur, en minstur hluti ræktaður og heyfengur ekki 100 hestar.
Nú hefur Vilhjálmur 20 kýr á Rauðará, eða fleiri, og hesta. Allmikið erfðafestuland hefur hann keypt til viðbótar og fengið mælt sjer hjá bæjarstjórn. Slægnaland á hann og uppi á Elliðavatni. Heyskapur heima er orðinn 5—600 hestar. Hann mun hafa sljettað hjer syðra einar 35 dagsláttur; mest er það sáðsljettur hin síðari ár. Nytina í sumar bætti hann við 3 dagsláttum. Nú er Þorlákur sonur hans fyrir búinu. Hann gekk fyrir 8 árum síðan á landbúnaðarskóla í Danmörku, og segir Vilhjálmur, að sá námskostnaður hafi komið inn á einu ári. Kýrnar bættu það við sig, er betur var kunnað með að fara. Þorlákur hefur um allmörg ár sett í Búnaðarritið fóður- og mjólkurskýrslur frá Rauðará, og sýna þær að kýrnar hafa gert gott gagn. Alt er það af aflafje á Rauðará, að Vilhjálmur hefur reisl hið mikla og vandaða íveruhús sitt, sem myndin er af hjer í blaðinu. Það var reist sumarið 1908. Öll eru húsin virt 28,000 kr. Alt er það dropinn úr kúnum. Nú mun það rjett samhljóða dómur og reynsla þeirra hjer í bæ, sem stundað hafa kúarækt með nýju og nýju fólki hvert árið, að vart hafi svarað kostnaði, og er það ljóst dæmi þess, hvaða munur er á því að kunna með að fara og ekki.
Rauðará
Búnaðarmálaritgerð á Vilhjálmur í 18. ári Búnaðarritsins: »Nýir siðir með nýjum tímum«, og þótti greinin bæði viturleg og stórhuga.
Sá, sem þetta ritar, spurði Vilhjálm, hverju hann þakkaði það, að honum hefur búnast svo vel um dagana. Hann hugsaði sig dálítið um, og sagði ekki annað en það: »Jeg hef tímt að bera á«.
Vilhjáhnur ljek sjer að því í Kaupangi á yngri árum að slá dagsláttuna í túni á 6 klukkustundum, svo var kappið og fjörið.
Heldur leiddi Vilhjálmur hjá sjer almenn mál. En margir leituðu ráða og liðs hjá honum. Og varla var annar bóndi vinsælli í Eyjafirði. Eldri dóttir þeirra hjóna, Þóra, er gift Stefáni bónda Jónssyni á Munka-Þverá í Eyjafirði. Laufey er kennari í Reykjavík. Elstur sona hans er Halldór skólastjóri á Hvanneyri.”

Rauðará

Rauðará – Myndin sýnisr bílinn Re-24 og prúðbúið fólk á ferð, árið 1924, á bak við er Gasstöðin og nær er Laugavegur og brú yfir Rauðarárlæk; “Hlemmur”.

Í Heimsmynd 1990 segir frá “Stórbóndanum á Rauðará og syninum á Hvanneyri“: “Þá er komið að bróður Þórhalls Bjarnarsonar biskup og afkomendum hans sem ekki hafa verið taldir upp til þessa. Hann var Vilhjálmur Bjarnarson (1845-1912) bóndi á Rauðará í Reykjavík. Vilhjálmur lærði smíðar hjá Tryggva Gunnarssyni, síðar bankastjóra, og koma þar til enn ein tengsl Laufásfjölskyldunnar við þann merka mann. Hann sigldi til Kaupmannahafnar og lærði þar einnig málun og málaði nokkrar kirkjur nyrðra eftir að hann kom heim. Sumarið 1872 kvæntist Vilhjálmur Sigríði, dóttur Þorláks prests á Skútustöðum Jónssonar, en hann var einn hinna þekktu Reykjahlíðarsystkina sem Reykjahlíðarætt er talin frá. Fimm árum síðar reistu þau bú í Kaupangi í Eyjafirði og fékk hann þá verðlaun fyrir búnaðarframkvæmdir.
Vilhjálmur keypti Rauðará í útjaðri Reykjavíkur árið 1893 og gerði það að stórbýli á íslenskan mælikvarða, rétt eins og Þórhallur biskup, bróðir hans, Laufás. Hin glæstu hús á Rauðará stóðu þar sem nú er Frímúrarahöll við Borgartún, rétt við endann á Rauðarárstíg.
Rauðará
Vilhjálmur og Sigríður áttu fjögur börn en auk þeirra átti Vilhjálmur eitt utan hjónabands. Elstur var fyrrnefndur Halldór Vilhjálmsson (1875-1936) skólastjóri á Hvanneyri. Hann var búnaðarfræðingur frá Landbúnaðarskólanum í Kaupmannahöfn, en skólastjóri og jafnframt stórbóndi á Hvanneyri 1907 til dauðadags. Halldór gerði miklar kröfur til sín og nemenda sinna en kjörorð hans var: “Hollur er heimafenginn baggi”. Þess vegna voru nægtir matar í búrunum á Hvanneyri. Sagt var um skólastjórann að hann ætti viðkvæma lund undir harðri skel. Kona hans var Svava Þórhallsdóttir, frænka hans, eins og áður sagði.”

Í bókinni “Strand Jamestown” segir Halldór Svavarsson frá því að “timbrið úr Jamestown hafi einnig verið notað í brýr, en mismikill metnaður var í smíði þeirra eins og gengur. Þannig voru plankar lagðir yfir Rauðará, svo að brúin líktist í raun eins konar hlemmi. Upp frá því var sú brú kölluð Hlemmurinn. Það heiti festist í hugum Reykvíkinga og er það nú eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur, samanber Hlemmtorg”.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 273. tbl. 12.12.1981, Hundrað ára minning Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará eftir Gunnar M Magnúss, bls. 50-51.
-Óðinn, 4. tbl. 01.07.1909, Vilhjálmur Bjarnason, bls. 25-26.
-Heimsmynd, 4. tbl. 01.05.1990, Stórbóndinn á Rauðará og sonurinn á Hvanneyri, bls. 95-96.
-Hamar, jólablað des. 2021 – Hús í Hafnarfirði byggð úr timbri strandaðs skips – Halldór Svavarsson (Strand Jamestown), bls. 6.
Rauðará