Árbæjarsafn

Eftirfarandi ábending barst FERLIR um tiltekna “steinhellu” við kirkjuna í Árbæjarsafni:

Árbæjarsafn - steinhella

Árbæjarsafn – steinhella.

“Við kirkjuna í Árbæjarsafni er leturhella. Hún fannst á Túngötu 4 og var þar yfir þró. Gæti mögulega hafa verið við landnámsbæinn fyrrum. Síðan var hún flutt í Árbæjarsafn og hefur legið þar óbætt hjá garði.
Getið þið frætt mig meira um helluna þá arna, t.d. hvað stendur á henni og hvaðan hún er upprunnin?”

Fyrirspurn var send Árbæjarsafninu.  Anna Lísa Guðmundsdóttir, fornleifafræðingur svaraði bæði fljótt og vel:
“Þetta er ekki leturhella svo ég viti. Hún fannst upphaflega við Tjarngötu 4. Í Sapur.is er m.a. getið um steinhelluna”; “Steinhella við kirkjugarðsvegginn, sunnan við kirkjuna á Árbæjarsafni. Þegar grafinn var grunnur fyrir húsinu Tjarnagötu 4, Steindórsprent árið 1944, var við uppgröftinn komið niður á fornleifar, þar á meðal þessa stóru hellu. Hellan lá yfir þró eða ræsi, hellan var fjarlægð og flutt að húsi Steindórs, Suðurgötu 8 B. Síðan árið 1966 á Árbæjarsafn. Þorkell Grímsson, fornleifafræðingur, rannsakað helluna, og taldi að líkindum væri um stéttarhellu eða gólfhellu að ræða úr fornaldarhúsi því, sem leifar fundust af, þegar grafið var fyrir grunni Steindórsprents vorið 1944. Bjarni F. Einarsson telur helluna ekki vera gangahellu.”

Steinhellan
Í Tímanum 1963 er fyrirsögn yfir frétt um “Helluna, sem kom af tilviljun í leitirnar eftir 19 ár“:
“Nýlega komst upp um tilvist fornaldarhellu, sem legið hefur að húsabaki að Suðurgötu 86 í ein nítján ár. Bílstjóri nokkur, sem keyrt hafði helluna að Suðurgötunni fyrir nítján árum, minntist á hana nýlegia af tilviljun við Helga Hjörvar, og varð það til þess að farið var að rannska, hvernig á henni stæði.

Tjarnargata

Málverk Jóns Helgasonar sem sýnir Reykjavík um aldamótin 1800. Örin bendir á torfbæi sem voru þar sem nú er Tjarnargata 4-6. Þarna stóðu á þessum tíma bæirnir Brúnsbær, Teitsbær auk þess stóð Zuggersbær á sömu slóðum, rétt austan við Brúnsbæ. Óljóst er hvenær fyrst var búið á þeim stað sem Brúnsbær stóð en getið er um bæinn sem hluta af Reykjavíkurbæjunum 1759, en bærinn var rifinn 1834. Teitsbær var reistur árið 1797 og stóð til 1850. Zuggerbær var upphaflega smiðja Innréttinganna, en var síðar búið í. Var þar sem nú er Kirkjustræti 4. Um 1845 stóð til að byggja upp bæinn en yfirvöld bönnuðu það, vildu ekki torfbæi í hjarta bæjarins. Eftir það var bygging torfbæja í miðbænum bönnuð en torfbæir risu áfram umhverfis bæinn. Timburhús reis á sama stað og Zuggerbær var árið 1847 og stóð til 1897 þegar nýtt hús var byggt þar í stað.

Þorkell Grímsson, fornleifafræðingur, sem rannsakað hefur helluna, sagði blaðinu í dag, að hér væri að líkindum um stéttarhellu eða gólfhellu að ræða úr fornaldarhúsi því, sem leifar fundust af, þegar grafið var fyrir grunni Steindórsprents vorið 1944. Þá fengu náttúrufræðingar að fylgjast með greftrinum og kanna þær fornminjar, sem upp komu. Matthías Þórðarson, sem þá var þjóðminjavörður, skrifaði um þann fund, og taldi hann sterkar líkur á, að þetta væru leifar frá því í fornöld. Ýmsir hafa jafnvel haldið því fram, að þarna væri um bæ Ingólfs Arnarsonar að ræða Nú fyrir nokkrum dögum vildi svo til, að Ólafur Einarsson, bílstjóri, sagði Helga Hjörvar frá því, að hann hefði keyrt stóra hellu úr grunninum að húsi Steindórs við Suðurgötu þetta sama ár.
Við nánari eftirgrennslan kom í ljós, að hellan hafði fundizt innan um aðrar fornar byggingarleifar mjög djúpt sunnarlega í grunninum, skammt frá eldstó, sem þar var. Ólafur hafði ekið henni heim á Lóð Steindórs fyrir hann og kom ið henni fyrir á bak við hús, þar sem húh hefur legið síðan, án þess að vitað væri um hana Hellan er mjög stór, 1,77 m á lengd og talsvert breið, vel flöt, með grastó á röndinni. Sagðist Þorkell búast við, að hellan mundi hafna í Þjóðminjasafninu, og hún yrði rannsökuð nánar. en ekki bjóst hann við, að rannsóknin mundi leiða frekara í ljós en þegar hefur komið fram.”

Í Morgunblaðiðinu  11. febr. 1964 er grein með fyrirsögninni “Hlóðahella eða gangnahella” eftir Helgi Hjörvar:

Er fundin dyrahellan úr fyrsta vetrarskála Ingólfs í Reykjavík?

Tjarnargata 4
“Helgi Hjörvar flutti erindi í útvarpið s.l. sunnudag um það sem hann kallar „Hlóðahella Hallveigar”, í erindinu faerði hann eftirtektarverð rök að þvi, að þessi stóra hella, sem menn héldu að væri týnd, en kom í leitirnar s.l. sumar, mundi vera gangahella, innan þröskulds, úr ævafornum skála, sem allt bendi til að hafi verið fyrsti vetrarskáli Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík.

Tjarnargata

Hluti af korti Lottins frá 1836, því sama og á myndinni fyrir ofan. Þarna má sjá Teitsbæ og Suðurbæ. Athygli vekur að önnur hús á myndinni eru númeruð, ekki hefur þótt þörf á að skrá torfbæina þar sem alþýðan bjó.

Það er kunnugt af fyrri skrifum Helga um þetta mál, að afstaða hellunnar og dýpt hennar í jörðu er áður kunn, því að rétt við helluna fundust fornar hlóðir eða „seyðir”, en mælingamaður ákvarðaði legu hlóðanna; botn þeirra 2,30 metra undir Tjarnargötu á þéttri og hreinni sjávarmöl. Stóra hellan mun hafa verið svo sem þverhönd hærra.
Helgi Hjörvar hefur kannað vandlega þær heimildir, sem um þetta er að hafa, þar með einkum merkilegan vitnisburð verkstjórans við kjallaragröftinn fyrir Steindórsprenti, Jóns Jónssonar á Meistaravöllum.
Helgi hafði skrifað um það í Morgunblaðinu 1961 með mikilli hneykslan, að slíkum fornmenjum sem hellan er og einkum hlóðin hefði verið tortímt í óðagoti. Nú bar svo til í júní s.l. vor, að Ólafur Einarsson, gamalkunnur Reykvíkingur og bílstjóri, veik sér að Helga á Hverfisgötunni og sagði við hann, að það hefði dregizt fyrir sér að tala við hann um „helluna hans Ingólfs”. „Hún var ekki brotin”, sagði hann, „og það var ég sem ók henni burt er grunnurinn var grafinn fyrir Steindór. Ég ók henni fyrir Steindór upp úr grunninum og upp á lóðina bak við húsið hans í Suðurgötu 8A. Ég held að hún sé þar enn.”
Og svo reyndist.

Tjarnargata

Málverk Jóns Helgasonar af Suðurgötu árið 1839, málað 60 árum síðar. Sjá má torfbæina Teitsbæ og Suðurbæ. Óvíst er hvenær Suðurbær, eða Suðurbæir, voru reistir en getið er um bæinn í manntali árið 1845 og þá tvíbýlt. Þóttu örgustu óþrifabæli og voru rifnir 1868. Ólafur Jónsson sem fyrstur var settur í gapastokk í Reykjavík 1804 bjó þar, einnig Guðmundur bæjarböðull og fleira skrautlegt fólk.

„Stóra hellan var þar og er þar enn, óbrotin,” sagði Helgi er blaðið ræddi við hann í gær.
„Það hefur verið mikið tekið eftir erindi minu í gær, það leynir sér ekki. En ég var búinn að skrifa um þetta og segja meira en að hálfu leyti frá þessu í útvarpi, en það er eins og enginn hafi lesið þetta eða heyrt það, allra sízt viljað skilja það fyrr en nú. Vera má, að einhverjir vakni nú, sem vildu mega sofa.
Kjarni þessa máls er nú svo einfaldur sem verða má. Alþingi er enn háð í túni Þorsteins Ingólfssonar, sem stofnaði þetta þing og grundvallaði þjóðfélag á Íslandi fyrir meira en 1030 árum; þinghúsið sjálft stendur rúma húslengd frá bæjartóftum Ingólfs og Þorsteins. En nú hefur verið sagt harla berum orðum á Alþingi sjálfu, að tveir þingmenn (fleiri gáfu sig ekki fram) muni mælast til þess við elskulega þingbræður sína, að þeir vildu nú hagræða þessu fornfálega Alþingi upp á kviktré og lyfta hræi þess út í forarmýri, burt af þessu gróna og gamla túni. Efni málsins er það eitt, hversu margir af útvöldum fulltrúum íslenzkrar þjóðar vilji nú lostugir lána eiðsvarnar hendur sínar undir svo skörnuga og blóðuga börukjálka.”

Í Þjóðviljanum 2. júlí 1966 er grein um “Hlóðastein og hestastein úr Lækjargötu“:

Tjarnargata 4
“Árbæjarsafnið hefur nú verið opnað almenningi og veitingar hafnar í Dillonshúsi og er þetta tíunda sumarið sem safnið er opið. Safnið var opnað 21. júní og nú um helgina verður fyrsta glímusýningin en ætlunin er að sýna um helgar glímu og þjóðdansa á palli utanhúss þegar veður leyfir, eins og verið hefur undanfarin sumur.”

Í Vikunni 1944, segir um “Fundnar fornleifar í Reykjavík” í frásögn Matthíasar Þórðasonar:

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn.

“Það varð sögulegra en flesta Reykvíkinga mun hafa grunað, þegar Steindór Gunnarsson prentsmiðjueigandi lét fara að grafa í grunninn undir og hjá gamla husinu Tjarnargötu nr. 4 í Reykjavík fyrir nýju stórhýsi, sem hann ætlar að fara að reisa þar fyrir prentsmiju sína. Staðurinn var að sönnu merkisstaður, og húsið, sem nú var rifið, var orðið um 110 ára gamalt. Þar hafði Stefán Gunnlögsson búið 1834—37, þegar hann var sýslumaður, þar dó Einar snikkari Helgason fyrir réttum 100 árum, og hafði þá átt húsið og búið í því í 3 ár; þar ólzt Helgi, sonur hans, upp, sem varð hér síðar barnaskólastjóri og þjóðkunnur maður, og bjó móðir hans, madama Margrét, í húsinu til dauðadags, 1856. Þá var það kallað Helgesenshús.

Tjarnargata

Kort Lottins frá 1836 lagt ofan á núverandi borgarkort. Torfbæirnir Teitsbæ og Suðurbær stóðu þar sem í dag er Tjarnargata 6 og 8 sem er í dag bílastæði. Þarna er nýlega búið að rífa torfbæinn Brúnsbæ og byggja timburhús á sama stað sem stóð næstu 110 árin. Húsið er merkt sýslumannshús en Stefán Gunnlaugsson sýslumaður bjó þar frá 1834—1837.

Er þetta eftir frásögn Jóns byskups Helgasonar í riti hans um Reykjavík 14 vetra. Enn síðar bjuggu í þessu húsi ýmsir aðrir merkir menn og konur, skamman tíma hver. Þótti húsið lengi snotur bústaður, enda var þá vel um það gengið jafnan. Hér eru nú ekki við höndina húsvitjanabækur prestanna, nema frá tímabilinu 1868—89, um 20 ár. Á árunum 1869—76 bjó þar frú Anna Tærgesen, ekkja P. R. Tærgesens kaupmanns, með börnum þeirra, og 1877—78 frk. Christiane Thomsen, er lengi hafði verið hjá þeim. Árin 1879—80 bjó þar Edv. Siemsen, fyrrv. kaupmaður, og næsta ár ekkja hans, frú Sigríður Siemsen, cn 1882 tengdasonur hennar, Sveinn kaupmaður Guðmundsson frá Búðum, með fjölskyldu sinni. Árið 1884 bió frú Ragnheiður Christjánsson, – ekkja Kristjáns amtmanns, í þessu húsi, og 1886 séra Stcfán Thorarensen, en 1887 —88 frú Kristíana Jónassen, ekkja Jónasar E. Jónassens verzlunarstióra. Og árið 1889 bjó þar ekkjan Solveig Guðlaugsdóttir, og voru hjá henni móðir hennar, háöldruð, og fósturdóttir, Stefanía Guðmundsdóttir, þá 13 ára.
En staðurinn átti sér langa sögu áður en þetta litla timburhús var reist, því að á þessum sama stað hafði þegar skömmu eftir miðja 18. öld verið reist eitt af húsum iðnaðarstofnananna, sem Skúli landfógeti Magnússon gekkst fyrir, að komið yrði á fót hér, og jörðin Reykjavík hafði verið gefin í ársbyrjun 1752. Það hús var reist handa beyki stofnananna, var hlaðið úr torfi, og grjóti, svo sem flest hús þeirra, dálítill torfbær, og var þar bústaður og vinnustofa beykisins. Þegar hús stofnananna voru seld, keypti dönsk kona, madama Christine Bruun, ekkja Sigvardts Bruuns fangavarðar, bæinn, árið 1791. Nokkru eftir aldamótin varð hann aftur aðsetursstaður beykis; bjó þar, þá sænskur beykir, er hét Peter Malmquist, og kona hans sem var hér ljósmóðir. Þegar Jörgen Jörgensen kom hingað í fyrra skiptið, í ársbyrjun 1809, sem túlkur James Savignacs verzlunarstjóra, fengu þeir inni hjá Malmquist, og átti Jörgen Jörgensen þar heima, unz hann fór utan aftur í marz sama ár. Kom Malmquist mikið við stjórnarbylting Jörgensens, er hann stóð fyrir, þegar hann kom hingað aftur um sumarið, svo sem kunnugt er af sögu hans. Malmquist fór utan 1812 og kom ekki aftur, en Brúnsbær mun hafa staðið um 20 ár eftir það, og þó varla án mikilla endurbóta, eða jafnvel endurbygginga að einhverju leyti.

— Við grunngröftinn nú kom fram mikið að hleðslusteinum, sem sennilega eru úr honum, grjóti ofan úr holtum og neðan úr fjöru, en ekki sýndu neinar veggjaleifar eða annað, að verið hefði á síðari tímum neitt hús nákvæmlega á þessum sama stað, sem Brúnsbær mun hafa staðið á, en í vesturhorninu í grunninum komu fram allmiklar grjóthleðslur 1—2 m. í jörðu.
Hleðslugrjótið, sem ætla má, að verið hafi úr Brúnsbæ, var að sönnu einnig um 1—l l/2 m. í jörðu nú, en það kom í ljós við gröftinn, að þykkt lag af mold, ösku o. fl. hafði hlaðizt ofan á óhreifða jörð á öllu svæðinu, ofaná lag það af fremur smágerðri sjávarmöl, er grafið var niður á og nokkuð niður í. Mun það malarleg vera um allan miðbæinn, milli hafnarinnar og Tjarnarinnar.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – hestasteinn fremst.

Nokkrir fremur gamlir gripir fundust við uppgröftinn ofarlega í jörðu, sennilega frá síðustu öld, brot af eldtöng, fiskhnífur, sjálfskeiðungur og brot af 2 glerstaupum. Miklu neðar, um l-l/2—2 m. í jörðu, fundust eldri munir úr steini, vaðsteinn, draglóð af skellihurð, að því er virðist, kola, telgd til úr smágerðu móbergi eða sandsteini og lítil hein með gröfnu hnappmóti á öðrum enda, en ekki eydd af brýnslu.
Nokkru neðar fannst bollsteinn norðarlega í grunninum; hafði bollinn verið gerður fyrir ljósmeti, en að öðru leyti var steinninn alveg óunninn af mannahöndum. Annar bollasteinn fannst á nær sama stað, en allmiklu neðar í jörðu; hann er lábarin, þykk hella, um 30 cm. að þverm., með víðri og grunnri skál annars vegar, og munu báðir þessir bollasteinar hafa verið lýsisteinar, eins konar ljósáhöld (lampar).

Tjarnargata

Kort Ohlsen og Anaumus frá 1801 lagt ofan á núverandi borgarkort. Torfbæirnir Brúnsbær og Teitsbær sem stóðu þar sem í dag er Tjarnargata 4 og 6.

Enn dýpra, alveg niður við malarlagið, og suðaustarlega í grunninum miðjum, fannst lítill, flatkúlumyndaður lýsisteinn með gróp kringum bollann og járnblað af páli eða grefi með fornri gerð, sams konar og 2 önnur, sem fundizt hafa áður hér á landi, annað við rannsóknina á Bólstað, bæjarrústum Arnkels goða. Ámóta neðarlega fannst vaðsteinn, hnöttóttur og nokkuð ílangur. Nálægt suðurhorninu í grunninum var allmikið af hleðslugrjóti djúpt í jörðu, og virðist þar hafa verið hlaðinn veggur, nær því niðri við malarlagið. Þar fundust, mismunandi djúpt í jörðu, nokkrir munir úr steini, 3 vaðsteinar, brýni, fornlegur lýsisteinn, sem er mjög lítill og flatkúlumyndaður, og snældusnúður úr steini, allstór, um 9 cm. að þverm., og neðst kom í ljós eldstó, grafin ofan í malarlagið. Hefir hún sennilega verið gerð af því að þar hefir þá verið hús, sem eldstæði hefir verið í, líklega seyðir með fornri gerð. Hafa samskonar eldstór og þessi fundizt í fornum bæjarrústum hér áður, bæði í Þjórsárdal og víðar. Munu þær hafa verið, gerðar og notaðar til að fela í þeim eld, einkum að næturlagi.  Bæjarverkfræðingurinn, Bolli Thoroddsen, lét mæla, hve djúpt í jörðu þessi eldstó var, og reyndist hún, botn hennar, að vera 111 cm. neðar en t. a. m. Austurstræti milli gangstétta, en það er í sömu hæð og yfirborðsjávar í höfninni um stórstraumsflóð. Bendir þetta á, að mikið landsig hafi orðið hér síðan þessi eldstó var gerð, en hún virðist munu vera frá landnámstíð eða söguöld vorri. Enda er fleira hér á Seltjarnarnesi og umhverfis það, sem einnig bendir á allmikið landsig hér um slóðir, svo sem sýnt hefir verið fram á áður.
Norðan við stóna varð vart við gólfskán og nokkrar flatar hellur, er að líkindum hafa verið gólfhellur.
1 vesturbarminum varð fyrir mjög stór hella neðst. Er hún var tekin upp, kom í ljós undir henni allmikil þró eða gryfja, sem gerð hafði verið þar ofan í malarlagið. Varð vart við skolpræsi í mölinni að þrónni, og virtist það hafa verið út frá húsinu, sem eldstóin hefir verið í.
Í norðurhorninu var malarlagið djúpt í jörðu, um 2% m. frá yfirborði, svæðinu, sem þar var milli húsa. Hafði jarðvegur hækkað þar mest af sorpi og ösku. Um 4m. ofan við malarlagið var þar á allmiklu svæði um 1/4 m. þykkt, mjög dökkleitt, fornt sorplag. Var mikið í því af matbeinum og slíku; fundust þar kjálkar af gelti með miklum vígtönnum og yfirleitt eldra svip en er á þeirri tegund svína, sem er nú hér og í nálægum löndum. Hafa slíkar vígtennur úr göltum fundizt hér áður, m. a. undir Hánni á Heimaey í Vestmannaeyjum. Nokkur bein úr geirfugli fundust einnig í þessu sorplagi, enda hefir geirfugl vafalaust verið veiddur mjög til matar fyrr á tímum, er hann var hér að líkindum víða, en hann varð, að því er menn vita bezt og alkunnugt er, aldauður fyrir 100 árum. — Sorplag þetta er svo djúpt í jörðu, niðri við óhreifða jörð, að því er virðist; að ætla má, að það stafi frá fornöld. Hinn gamli Reykjavíkurbær stóð 30—40 m. norðar, vestan við Aðalstræti. Er ekki ólíklegt, að um nokkurn tíma hafi sorpi frá bænum verið fleygt á þessar slóðir.”

Í Þjóðviljanum 1966 segir og; Hlóðasteinninn úr Tjarnargötu í Árbæ:

Árbæjarsafn - steinhella

Árbæjarsafn – steinhellan.

“Hlóðarsteinninn mikli, sem fannst 1944 í bæjarstæðinu við Tjarnargötu, kominn til safnsins.
Úr því minnzt er á hlóðarsteininn má vel vekja athygli á öðrum merkilegum steinum, sem safnið hefur eignazt: hestasteininum frá smiðju Þorsteins Tómassonar í Lækjargötu, landamerkjasteininum úr Skildinganeshólum áklappaður 1839, mylnusteinn úr myllunni í Bakarabrekku og apótekarasteinn frá 1747 úr Örfirisey.”

Ein spurningin er, þrátt fyrir allt framangreint; hefur verið hugað að mögulegu letri á hellunni þeirri arna?”
Önnur spurningin er, hvers vegna er slíkur forngripur í Árbæjarsafni látinn liggja jarðlægur, án nokkurra vísbendinga gestkomendum til handa?

Heimildir:
-https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1755833
-Tíminn 19.07.1963 – Tjarnargata 4, bls. 15.
-Morgunblaðið 11. febr. 1964, Hlóðahella eða gangnahella, Helgi Hjörvar, bls. 9.
-Þjóðviljinn 2. júlí 1966, Hlóðasteinn og hestasteinn úr Lækjargötu, bls. 7.
-Þjóðviljinn, 144. tbl. 02.07.1966, Hlóðasteinninn úr Tjarnargötu í Árbæ, bls. 6.
-Vikan nr. 23-24, 1944, Fundnar fornleifar í Reykjavík, Matthías Þórðason, bls. 22 og 28.

Árbæjarsafn

Á Árbæjarsafni.