Álfsnes

Í fornleifaskráningu fyrir Álfsnes frá árinu 2018 segir m.a.:

Sundakot

Saga Sundakots er nokkuð sérstök, þar sem í túnfætinum hefur verið verslunarstaður á miðöldum nefndur Þerneyjarsund. Á þjóðveldisöld voru helstu útflutningsvörur Íslendinga ullarvörur.

Álfsnes

Álfsnes – fornleifar.

Helstu kauphafnirnar, „hin sjálfgerðu skipalægi frá náttúrunnar hendi, hafa verið í grennd við aðallandbúnaðar- héruðin.“ Til eru heimildir um siglingu hafskipa í Elliðaár og Leiruvog á þjóðveldistímanum en líklega hefur Hvítá í Borgarfirði verið helsti verslunarstaðurinn á svæðinu fram til 1340 en þá fer að bera á breytingum.
Á fyrri hluta 14. aldar varð mikil breyting á viðskiptum við Ísland en þá hófst útflutningur á skreið sem átti eftir að vera meginútflutningsvara Íslendinga fram á 19. öld.
Þá urðu nýjar hafnir fyrir valinu, hafnir „sem lágu vel við sjósókn, á sunnan- og vestanverðu landinu.“ Þorleifur Óskarsson telur að langmest af fiski hafi verið flutt út frá Vestmannaeyjum, Faxaflóa, Snæfellsnesi og Vestfjörðum.
Helstu kauphafnir í grennd við Seltirninga voru við Þerneyjarsund, í Hafnarfirði og Hvalfirði.
Elsta heimild um höfn við Þerneyjarsund er Kjalnesinga saga en þar segir: „Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.“23 Saga þessi er talin vera rituð á 14. öld og þykir nokkur ævintýrablær á henni. Þrátt fyrir það er ekki óvarlegt að ætla að höfundur hafi þekkt til þess að skip tækju höfn við Þerneyjarsund enda styðja aðrar heimildir það. Til dæmis er nokkrum sinnum minnst á Þerneyjarsund í annálum. Sagt er frá því að árið 1391 hafi Þorsteinn Snorrason verið vígður til ábóta að Helgafelli af Miceli biskupi. Kom Þorsteinn út í Þerneyjarsundi á „Hösnabúsunni“. Árið 1411 komst Björn bóndi Einarsson út í Þerneyjarsund heilu og höldnu.
Árið 1419 lét Jón biskup í haf og kom að Íslandi í Þerneyjarsundi heill á húfi.

Álfsnes

Sundakot – loftmynd.

Til eru skjöl frá byrjun 15. aldar sem sýna fram á tengsl Þerneyjar við siglingar og verslun á þessum tíma. Þann 3. júlí 1409 var Oddur Þórðarson lögmaður kallaður til af hirðstjóra á Alþingi til að úrskurða um flutning á konungsgóssi til Noregs með kaupskipum frá Íslandi. Ekki hefur verið kallað á þennan úrskurð að tilefnislausu því stuttu seinna, eða 7. júlí 1409, er Oddur lögmaður mættur út í Þerney til að úrskurða um flutning á konungsgóssi frá Íslandi með kaupskipi sem konungur átti hlut í en var leigt öðrum.
Þerneyjarsundi bregður aftur fyrir í úrskurði Stefáns biskups í Skálholti, dagsettum 11. desember 1492. Stefán úrskurðar um þrjá landseta sem ekki höfðu staðið í skilum við hann um það hrossalán sem þeim bar að veita staðnum í Skálholti samkvæmt leigumála þeirra.
Stefán úrskurðar landsetana skylduga til að fara eftir leigumálum og hafa til reiðu lestfæran kapal undir þriggja vætta klyfjar í Grindavík, á Romshvalanes, til Þerneyjarsunds eða á hvern þann stað „sem stadarens naudsyniar standa til.“
Frá 18. öld eru til tvær lýsingar á Þerneyjarsundi, lýsingar P. de Löwenörn og Skúla Magnússonar, þar sem aðallega er verið að draga fram kosti sundsins sem mögulegrar hafnar fremur en að verið sé að lýsa þáverandi stöðu.
En hvenær lauk tímabili kauphafnar við Þerneyjarsund og hvers vegna? Helgi Þorláksson telur að skipakomur og kaupstefnur hafi verið töluverðar við Þerney um 1400 og fram á 15. öld.
Siglingatækninni hafi svo fleygt fram á 15. öld og um 1500 komust menn næstum því á þá vík er þeir kusu.
Björn Þorsteinsson vildi meina að verslunarstaðirnir Þerneyjarsund og Hvalfjörður eða Búðasandur á Hálsnesi hafi líklega lagst af snemma á 15. öld.
Kristján Eldjárn taldi aftur á móti að til væru ritaðar heimildir um notkun Þerneyjarsunds sem hafnar og kaupstefnustaðar á tímabilinu 1300 til 1500. Það gæti verið vel í takt við þá skoðun Þorleifs Óskarssonar að verslunin hafi í byrjun 16. aldar færst nær Víkinni (Reykjavík) sem líklega má rekja til innbyrðis baráttu Þjóðverja um viðskipti við Íslendinga en „elsta dæmið um verslun í Hólminum við Reykjavík sé frá árinu 1521.“
Álfsnes
Kristján Eldjárn taldi miklar líkur benda til þess að lendingarstaðurinn og búðirnar hafi verið á þúfnasvæði við hvamm einn þar sem Sundakot stóð. Á 8. áratugnum voru uppi hugmyndir um að friðlýsa svæðið og má sjá á grein Kristjáns að hann telur að svæðið, bæði búðasvæði og Sundakot, sé þegar friðlýst en það hefur verið á misskilningi byggt.
Svæðið hefur sigið mikið og sjást búðirnar ekki lengur.
Sundakot (hét Niðurkot í Jarðatali Johnsens) var önnur hjáleiga Þerneyjar á fastalandi og reiknaðist jarðardýrleikinn í heimajörðinni. Svo var enn í Jarðatali Johnsens. Landskuld hennar var sextíu álnir og greiddist með fiski til heimabónda, leigukúgildi eitt og greiddist í smjöri. Kvaðir voru mannslán árið um kring utan sláttar en þó einn dagsláttur. Kvikfénaður var tvær leigu kýr og einn kálfur, eitt hross og eitt veturgamalt trippi. Heimilismenn voru sex. Torfristu, stungu og eldiviðartak sóttu menn á fastaland með heimabónda. Hjáleigan hafði engin sjávarhlunnindi. Tekið er fram að Sundakot hafi verið í byggð lengur en menn reki minni til.
Undir Sundakot eru skráðir 19 minjastaðir, þar ber helst að nefna bæjahólinn, minjar innan hringlaga túngarðs auk búðarrústa sem ekki eru greinanlegar lengur á yfirborði, sjórinn gengur þar á land og minjastaðurinn er í hættu vegna ágangs sjávar.
Engar fornleifar á áætluðu framkvæmdarsvæði eru skráðar undir Sundakot, furða má sig á að engin steinhlaðin skreiðarbyrgi skuli finnast Sundakotsmegin við Fornugrafir, því ætla mætti að byrgjunum væri valinn staður sem næst höfninni á Þerneyjarsundi. Skýring kann að vera að heppilegri steinastærð er að finna á holtinu að norðanverðu.

Glóra

Álfsnes

Glóra- loftmynd.

Hjáleiga Álfsness var nefnd Urðarkot eða Glóra (nefnd svo í Jarðabók Johnsens). Ekki er ljóst hvenær byggð hófst þar. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var dýrleiki reiknaður með heimajörðinni. Hjáleigan var þá ýmist nefnd Glóra eða Urðarkot og á lausu blaði í Jarðabókinni einnig nefnt Hallsneshjáleiga.
Landskuld greiddist til heimabænda í landaurum ef ekki var til fiskur.
Leigukúgildi var eitt og greiddist í smjöri eða fóðri til heimabónda. Vatnsból var á heimajörðinni.

Álfsnes

Dýrleika jarðarinnar er hvorki getið í Jarðabók né Jarðatali. Á Glóru var búið til ársins 1896. Þá fór bærinn í eyði og ekki var búið í honum þegar túnakort er gert árið 1916, bæjarhúsin voru þá tóftir. Síðast var búið í Glóru frá 1928 til 1935. Þá bjó þar Benedikt Kristjánsson frá Álfsnesi sem rak þar kúabú ásamt því að halda nokkur hross og kindur.
Fornleifar í Glóru tengjast bæði búsetu og sjósókn. Búsetuminjar eru helst rústir bæjar- og útihúsa, garðlög, mógrafir og landamerki. Sjávarútvegsminjar sem tilheyra landsvæði Glóru eru allar mun eldri og eru rústir eftir fiskbyrgi sem eru allar innan úttektarsvæðisins. Fiskbyrgin voru notuð til að þurrka fisk við framleiðslu á skreið og gætu þau verið frá tímabilinu 1300-1500 þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn. Einnig eru nokkrar yngri minjar í landi Glóru eftir hersetuna.

Minjastaðurinn við Þerneyjarsund
„Þessi staður er einn af fyrirrennurum Reykjavíkur og á að varðveitast eins og hann er“. Svo komst dr. Kristján Eldjárn fyrrverandi þjóðminjavörður og forseti Íslands að orði um minjastaðinn við Þerneyjarsund í grein sinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags frá árinu 1980. Þar fjallar hann um hluta þeirra minja sem finna má á Gunnunesi eða Álfsnesi, nánar tiltekið kaupstað sem þar var á miðöldum samkvæmt heimildum. Hann leiðir líkum að því í greininni að kaupstaðurinn hafi verið niður undan túninu í Niðurkoti (einnig kallað Sundakot) en erfitt er að sjá til búðanna vegna mikilla þúfna. Reyndar segir hann einnig að hvort sem þúfurnar séu manngerðar eða ekki þá er minjastaðurinn „engu að síður kaupstaðurinn við Þerneyjarsund, með búðum eða búðalaus“. Hann telur staðinn sem slíkan merkilegan hvort sem sést til minja eða ekki.

Kaupstaðurinn er þó bara hluti þeirra stórmerkilegu minja sem finna má á svæðinu. Þar er að finna þrjú bæjarstæði sem hvert um sig hefur mikið minjagildi og saman mynda þau einstaka minjaheild. Það eru Sundakot, Glóra og Þerney.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem rituð er í byrjun 18. aldar segir að að Sundakot hafi verið lengur í byggð en menn muna. Því má gera ráð fyrir að þar hafi verið búið að minnsta kosti frá 16. eða 17. öld og jafnvel fyrr. Rústir bæjarins eru sjáanlegar á yfirborði ásamt útihúsum og túngarði sem afmarkar heimatún bæjarins. Minjarnar í Sundakoti eru gott dæmi um smábýli á Íslandi.

Glóra
Álfsnes

ornleifar í Glóru tengjast bæði búsetu og sjósókn. Búsetuminjar eru rústir bæjar- og útihúsa, garðlög, mógrafir og landamerki. Minjar sem tengjast sjósókn á landsvæði Glóru eru allar mun eldri og eru helst rústir eftir fiskbyrgi. Fiskbyrgin voru notuð til að að þurrka fisk við framleiðslu á skreið og gætu þau verið frá tímabilinu 1300-1500 þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn. Heimildir eru um að Þorlákssúðin, skip Skálholtsbiskups, hafi legið í höfninni í Þerneyjarsundi árið 1409 og að þangað hafi komið ráðamenn að loknu Alþingi, m.a. Skálholtsbiskup, Vigfús Ívarsson hirðstjóri, sem hafði aðstöðu á Bessastöðum, og Oddur Þórðarson lögmaður.
Ekki er víst hvenær búseta hefst á Glóru. Vitað er að þar var búið til ársins 1896 og aftur á árunum 1928 til 1935. Glóra er gott dæmi um hjáleigu frá fyrri hluta 20. aldar í nágrenni Reykjavíkur, fyrir tíma vélvæðingar. Fáir staðir státa af svo heillegum minjum sem sýna heilt bæjarstæði og ekkert sambærilegt er að finna í borgarlandi Reykjavíkur.

Þerney

Þerney

Þerney – loftmynd.

Í Þerney eru margvíslegar minjar um búsetu fólks í eynni en hún var í eigu Skálholtsstaðar og þar bjó kotbóndi sem leigði jörðina af Skálholtsstað. Kirkja var í eynni líklega allt frá 12. – 13. öld. Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á búsetusögu eyjarinnar enn sem komið er en út frá þeim heimildum sem þó eru til má álykta að þar megi finna ósnertar minjar allavega frá miðöldum.
Þegar allt þetta er lagt saman er ljóst að umhverfis Þerneyjarsund er einstakt og enn sem komið er óraskað minjasvæði sem mikilvægt er að varðveita í heild sinni.

Sjá meira um ferð FERLIRs um Álfsnes HÉR.

Heimildir:
-http://www.minjastofnun.is/gagnasafn-/ahugavert-efni/minjar-manadarins/
-Skýrsla um “fornleifaskráningu á Álfsnesi”, Anna Lísa Guðmundsdóttir og Margrét Björk Magnúsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2018.

Álfsnes

Eyjarnar norðan Reykjavíkur.