Skötufoss

Árið 1704 bjó að hálfum Árbæ maður er Sæmundur hér, Þórarinsson, 41 árs gamall, grímsneskur að ætt. Kona hans hét Steinunn Guðmundsdóttir, 43 ára, og var Sæmundur þriðji eiginmaður hennar. Hjá þeim voru þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi.

Skötufoss

Skötufoss.

Á móts við þau bjuggu Sigurður Arason, 26 ára gamall, ókvæntur, og móðir hans. Kærleikar munu hafa verið með þeim Sigurði og Steinunni og eggjaði hún hann til að fyrirkoma bónda sínum með einhverju móti.

Sunnudagskvöld eitt í septembermánuði fóru þeir Sæmundur og Sigurður til veiða í Elliðaánum. Er þeir voru staddir við Skötufoss, sem er skammt fyrirneðan Ártún, gekk Sigurður aftur að Sæmundi, sló hann með trébarefli, sem hann hafði meðferðis og hratt honum fram í hylinn.
Daginn eftir lét Sigurður þau boð út ganga til sveitunga sinn að Sæmundar væri saknað. Söfnuðust menn saman til leitar og fannst lík Sæmundar fljótlega í ánni. En hann var ekki bólginn eins og þeir er drukkna og þótti sýnt að hann hefði dáið á þurru landi. Líkið var nú grafið og leið síðan nokkur stund.

Elliðaárdalur

Skötutjörn.

Smám saman kom upp orðrómur um að Sigurður væri annaðhvort valdur að dauða Sæmundar eða byggi yfir vitneskju um endalok hans. Var nú gengið á hann og er hótað var að grafa upp líkið gekkst hann við morðinu. Var nú einnig gengið á Steinunni og viðurkenndi hún þátttöku sína eftir nokkrar umtölur yfirvaldsins. Fengu þau bæði líflátsdóm og voru tekin af lífi í Kópavogi skömmu síðar. Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. “Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við” segir í Vallaannál.

-Elliðaárdalur – ÁH, HMS og RV – 1998.

Elliðaárdalur

Skötufoss.