Vatnsendahæð

Sendistöðin á Vatnsendahæð” hefur verið aflögð og rekstri Útvarpsins hætt. Stöðin var upphaflega byggð árið 1929 og tók til starfa 20. desember 1930.

Guðjón Samúelsson

Guðjón Samúelsson.

Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsið, sem nú er áætlað að rífa til að rýma til fyrir nýrri byggð á hæðinni.
FERLIRsfélagi tók vettvangshús á Sigurði Harðasyni, rafeindavirkja. Hann sýndi þann búnað, sem þar er enn til staðar og lýsti því sem fyrir augu bar, enda þrælkunnugur öllum tækjabúnaði og staðháttum sem og rekstri hússins. Húsið sjálft er margbrotið. Þar var íbúð stöðvarstjórans og kjallari þar sem m.a. annað starfsfólk bjó í kojum í neyðartilvikum. Gert var ráð fyrir öllum mögulegum skakkaföllum; varatækjalampar t.d. tilbúnir upphitaðir til notkunar í sérstökum gerðum ef út af myndi bregða svo sem minnsta röskun yrði á útsendingum o.s.frv.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið á Vatnsendahæð – teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Hér á eftir verður fjallað svolítið um þetta merkilega hús og margþætta starfsemina þar í gegnum tíðina. Ljósmyndarnar voru margar hverjar teknar í framangreindri húsvitjun.

Í Morgunblaðinu 15. sept. 2020 segir í fyrirsögn; Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins:

„Húsið verður rifið, það er ekkert flóknara en það. Húsið er enda ónýtt, það lekur og þetta er asbestbygging,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, um fornfrægt hús sem kennt er við Ríkisútvarpið og stendur á Vatnsendahæð.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Neyðarlínan tók nýverið við mannvirkjum á Vatnsendahæð eftir að sendibúnaður RÚV þar var fluttur á Úlfarsfell. Húsið er nú í eigu ríkisins en óvissa hefur skapast um framtíð þess eftir að hlutverki þess lauk. Þórhallur segir aðspurður í samtali við Morgunblaðið að GSM-sendir verði áfram á svæðinu en stefnt sé að því að stóru fjarskiptamöstrin verði tekin niður á næsta ári. Ekki séu áform um nýtingu hússins. Kópavogsbær áformar íbúabyggð á svæðinu á næstu árum.

Vatnsendahæð

Langbylgjustöðin á Vatnsendahæð – inngangur.

Útvarpsstöð Íslands var reist á árunum 1929-1930 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins og hefur alla tíð hýst tæknibúnað útvarpsins, að því er fram kemur í fundargerð húsafriðunarnefndar um stöðu mála þar sem áhyggjum af stöðu mála er lýst.

„Húsið tengist stofnun og sögu Ríkisútvarpsins auk þess að vera áberandi kennileiti á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar fyrirspurnar til Neyðarlínunnar um framtíðarnot hússins fóru fulltrúar Minjastofnunar í vettvangsskoðun þann 11. ágúst sl. Unnið er að því að fjarlægja úr húsinu tæki og muni sem eru í eigu RÚV og hafa verið geymdir þar undanfarin ár. Er sú vinna gerð í samráði við Þjóðminjasafnið. Viðræður eru hafnar milli ríkisins og Kópavogsbæjar um framtíðarnýtingu Vatnsendahæðar undir íbúðarbyggð. Húsafriðunarnefnd tekur undir sjónarmið Minjastofnunar um sögulegt gildi útvarpshússins á Vatnsendahæð og mikilvægi þess að varðveita það og ætla því verðugan stað í nýju skipulagi,“ segir í fundargerð húsafriðunarnefndar.

Í Verslunartíðindum 1935 er fjallað um “Talsamband við útlönd“:

Vatnsendahæð“Þann 1. ágúst s. 1. var opnað talsímasamband það við útlönd, sem hefur verið í undirbúningi all-lengi undanfarið. Hófst sú athöfn á því, að fyrst var opnað sambandið við Danmörku og síðan við England, en samband við önnur lönd verður fyrst um sinn aðeins hægt að fá gegnum þessar dönsku og ensku stöðvar.
Talsímaopnunin fór fram með talsvert hátíðlegum blæ og var allmörgum gæstum boðið að vera viðstöddum við þetta tækifæri.
Þessi nýja talsímastöð, sem vandað hefur verið til eftir föngum, er tvískift. Er sendistöðin á Vatnsendahæðinni, en móttökustöðin í Gufunesi, en þaðan liggja jarðsímar til landsímastöðvarinnar hjer í bænum.
Eftir því, sem ráða mátti af þeim opinberu samtölum, er áttu sjer stað, er stöðin var opnuð, er sambandið í besta lagi og voru samtölin svo skýr og greinileg, sem best varð á kosið.”

Í Útvarpstíðindum árið 1938 fjallar Gunnlaugur Briem, verkfræðingur um “Stækkun útvarpsstöðvarinnar“:

Vatnsendahæð“Útvarpsstöðin á Vatnsendahæð tók til starfa 21. des. 1930. Afl hennar var þá 16 kílówött í loftneti og öldulengdin 1200 metrar. Alþjóðaráðstefna í Prag 1929 hafði úthlutað þeirri öldulengd til Íslands. Útvarpið heyrðist þá um allt landið.
Í fjárlögum 1935 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til þess að láta auka og endurbæta senditæki útvarpsins svo, að þau fullnægðu þörfum landsmanna. Þessi heimild var svo endurtekin í fjárlögum, síðari ára.
Fyrri hluta árs 1937 ákvað ríkisstjórnin að leysa málið þannig, að afl útvarpsstöðvarinnar skyldi aukið upp í 100 kv.”

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – viðtæki.

Í fyrstu voru útvarpsviðtæki mjög dýr hér á landi og ekki á allra færi að eignast slík tæki. Venjulegt viðtæki kostaði ca. kr. 150, en þá voru daglaun verkamanns u.þ.b. 1 króna. Brugðið var á það ráð að framleiða einfaldari tæki hérlendis undir ýmsum nöfnum eftir styrkleika, s.s. Suðri, Austri o.fl.

Í Fálkanum 1938 segir af “Vígslu útvarpsstöðvarinnar“:

Vatnsendahæð
“Fyrir alla útvarpsunnendur er það mikið gleðiefni að íslenska útvarpsstöðin hefir verið stækkuð úr 16 kilówöttum í 100 kw. Með þessari stækkun er hún komin í tölu sterkustu útvarpsstöðva á Norðuröndum. Stærstar eru Motala í Svíþjóð og Lahti í Finnlandi en svo kemur útvarpsstöðin íslenska sem þriðja i röðinni ásamt tveim stöðvum í Suður-Svíþjóð, sem eru að verða fullgerðar. — Sterkasta útvarpsstöð í heimi er í Moskva (500 kw.)
Vígsla hinnar nýju stöðvar fór fram með allmikilli viðhöfn síðastliðinn mánudag að viðstöddum krónprinshjónunum, ráðherrum, sendiherrum erlendra ríkja og fleiri virðingamönnum. Sjáf vígsluathöfnin fór fram í hinum stóra útvarpssal og voru þar um eitt hundrað gestir. — Útvarpsstjóri og kona hans tóku á móti krónprinshjónunum og afhenti kona útvarpsstjóra Ingrid krónprinsessu blómvönd.
Þegar klukkuna vantaði tvær mínútur í tvö stóð krónprinsessan upp úr sæti sínu í salnum og veitti raforkunni á hinar nýju vjelar með því að þrýsta á hnapp einn. Gestirnir sem staddir voru í útvarpssalnum heyrðu stöðina fara í gang, því að gjallarhorn í salnum höfðu verið sett i samband við hljóðnema í sjálfri sendistöðinni á Vatnsendahæð. Nú kviknaði á rauðu ljósi, en það var merki þess að stöðin var í fullkomnu lagi.
VatnsendahæðFriðrik krónprins gekk nú að hljóðnemanum er var komið fyrir i stúku út frá útvarpssalnum og lýsti yfir því að hin nýja sendistöð væri opnuð. Hann notaði tækifærið að þakka Íslendingum hinar ágætu viðtökur, sem krónprinshjónin hefðu fengið á ferð sinni um landið.
Talaði krónprinsinn á íslensku og þótti honum vel takast, Er krónprinsinn hafði lokið máli sínu hjeldu þeir stuttar ræður Hermann Jónasson forsætisráðherra og Jónas Þorbergsson útvarpsstjóri. En að lokum söng útvarpskórinn undir stjórn Páls Ísólfssonar þjóðsöng Íslendinga. Þar með var dagskrá lokið. Á eftir fóru fram veitingar í útvarpssal, en því næst var ekið með gestina upp að útvarpsstöð á Vatnsendahæð.
Sjerstök útsending á stuttbylgjum fyrir danska hlustendur átti sjer stað af allri athöfninni. Var henni endurvarpað frá danskri útvarpsstöð. Var athöfnin tekin upp á plötur og endurtekin í danska útvarpinu um kvöldið. —
Hin nýja stöð kemur til með að hafa geysimikla þýðingu fyrir allar útsendingar til annara landa, þar eð hún er svo sterk að minni vandkvæði verða framvegis á því að heyra Ísland í nálægum löndum. Auk þess veitir hún íslenskum hlustendum er fjærst búa tryggingu fyrir því að þeir þurfa ekki að fara á mis við dagskrá sakir þess hve útvarpsstöðin sje veik.
Og þegar endurvarpsstöðin, sem nú er verið að byggja á Eiðum á Austurlandi er komin upp, þá ætti Austfirðingum að vera borgið, en þeir hafa ekki notið útvarpsins sem skyldi enn sem komið er.
Sendistöðin nýja mun hafa kostað um 700 þúsund krónur og endurvarpsstöðin á Eiðum 100—200 þúsund krónur væntanlega, svo að ekki verður annað sagt en hin litla íslenska þjóð fórni miklu fje til endurbóta á útvarpsstöð sinni. Mr. Thomas verkfræðingur frá Marconi-fjelaginu sá um uppsetningu stöðvarinnar og hófst verkið um miðjan síðastl. vetur.”

Í Útvarpstíðindum 1939 fjallar Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, “Um veðurfregnir“:

Vatnsendahæð“Útvarpið flytur veðurfregnir þrisvar á hverjum degi, sem virkur er, en tvisvar á helgum dögum. Fluttningurinn tekur 20—25 mín. á, dag, en til samans yfir árið verða þetta hart nær 150 útvarpsklst.
Af þessu er auðsætt, að veðurfregnir eru talsverður liður í dagskrá útvarpsins, enda þótt útvarpið beri enga ábyrgð á þeim efnislega.
Við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til þess að senda héðan veðurfregnir frá 5 stöðum 3—4 sinnum á dag. Þær eru sendar frá stuttbylgjustöðinni á Vatnsendahæð og síðan endursendar frá aflmiklum loftskeytastöðvum í Englandi, Þýzkalandi og víðar.”

Í Sjómannadagsblaðinu 1941 fjallar Friðk Halldórsson um “Drauminn sem rættist“:

“Útvarp&starfsemi hófst hér á landi árið 1926 er h.f. Útvarp undir forustu Ottó B. Arnars loftskeytafræðings, reisti útvarpsstöð sína í Reykjavík. Stöð þessi, sem að vísu var ófullkomin og orkulítil, aðeins 0,5 KW í loftnet, varð þó ástsæl meðal landsmanna þann tíma, sem hún starfaði, en vegna fjárskorts og annara örðugleika lagðist starfsemi hennar niður eftir tveggja ára tímabil.
Á Akureyri var reist um svipað leyti 5 KW útvarpsstöð fyrir atbeina Arthur Gook trúboða.
Höfðu áhugamenn í Bretlandi aflað samskota til stöðvarkaupanna og annazt að öllu leyti uppsetningu hennar. Raunveruleg útvarpsstarfsemi hófst aldrei frá þeirri stöð.

Eiðar

Eiðar – langbygljumastur.

Árið 1930 byrjaði Ríkisútvarpið starfsemi sína, með nýrri og fullkominni stöð, er var reist á Vatnsendahæð við Reykjavík. Afl stöðvarinnar var upphaflega aðeins 17 KW., en var aukið árið 1938 upp í 100 KW, Samtímis var reist að Eiðum endurvarpsstöð fyrir Austfirðinga, vegna truflana, er gætt hafði hjá þeim frá erlendum útvarpsstöðvum.
Með starfsemi Ríkisútvarpsins hefst nýr þáttur í menningarsögu okkar Íslendinga og hefur útvarpsstarfsemin síðan tekið hröðum framförum hér á landi. Útvarpshlustendur eru nú orðnir rúml. 18.200 á landinu og er Ísland í þeim efnum 9. landið í heiminum, í hlutfalli við fólksfjölda, miðað við árslok 1939.
Árið 1935 var að lokum stigið úrslitaskrefið í sambandsmálum okkar við umheiminn, er talsambandið var opnað við útlönd yfir stuttbylgjustöðina að Vatnsenda.
Með þeim atburði má segja, að ræst hafi fullkomlega þær vonir, sem litli fregnmiðinn frá Rauðarárstöðinni hafði vakið hjá þjóðinni fyrir 30 árum síðan.”

Jónas Þorbergsson

Jónas Þorbergsson (1885-1968).
Fyrsti útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins 1930–1953.

Í Útvarpstíðindum 1948 er birt úrdráttur úr ræðu útvarpsstjóra, “Íslendingar að verða fremstir meðal þjóðanna um útvarpsafnot“:

“Í upphafi máls síns gaf útvarpsstjóri stutta lýsingu á vexti stofnunarinnar. Gat hann þess, að haustið 1930, þegar fyrstu dagskrár útvarpsins voru færðar, hefðu talizt vera 450 útvarpsnotendur í landinu. En talan hækkaði fljótt og ört fyrstu árin, og er 1935 orðin rösk 12 þúsundir. Árið 1940 voru útvarpsnotendur orðnir rösklega 1-8 þúsund, 1943 voru þeir orðnir 26 þúsund og við árslok 1946 er tala útvarpsnotenda komin upp í 32 þúsund.
Á styrjaldarárunum seldi Ríkisútvarpið setuliðsherjum Bandaríkjanna nokkur afnot stöðvartækjanna á þeim tíma dags, sem þau voru ekki notuð vegna íslenzkrar dagskrár. Af þessu áskotnaðist nokkurt fé, og var þeim tekjum varið til stofnunar hins svonefnda framkvæmdasjóðs útvarpsins, sem stofnaður var 1944.”

Í Útvarpstíðindum 1949 eru upplýsingar frá skrifstofu útvarpsstjóra, “Endurbætur og aukningar á sendistöðvum Ríkisútvarpsins“:

Vatnsendahð

Vatnsendahæð – hluti tækjabúnaðrins.

“Vegna kaupa á varasendi til Vatnsendastöðvarinnar verður ekki hjá því komist að stækka stöðvarhúsið og umbæta það að öðru leyti. Hefir fjárhagsráð þegar veitt fjárfestingarleyfi til þessara framkvæmda, og standa vonir til að þær geti hafist í sumar, ef aðrar ástæður leyfa.”

Magnús Jóhannsson skrifaði í Iðnaðarmál 1956 um “Fræðslumyndir og segulhljóðritun”. Magnús var útvarpsvirkjameistari og stöðvarvörður við Útvarpsstöðina á Vatnsendahæð á árunum 1933—43.

Í Íslendingaþáttum Tímans 09.03.1974 er minningargrein um Dagfinn Sveinbjörnsson:

Dagfinnur

Dagfinnur Sveinbjörnsson.

“Dagfinnur vann ásamt Englendingum að uppsetningu útvarpsstöðvarinnar á Vatnsendahæð, og var við það þar til því verki lauk. Síðan gegndi hann yfirmagnarastarfinu við útvarpsstöðina í 3 1/2 áratug, þar til hann lét af því starfi fyrir aldurs sakir.”

Í Fálkanum 1951 segir; “Nýr útvarpssendir tekin í notkun“.

“Meðal ýmissa stórtíðinda, sem gerðust á þjóðhátiðardaginn, síðastl. sunnudag, er sérstaklega vert að geta þess, að þann dag var tekinn í notkun nýr sendir á ríkisútvarpsstöðinni á Vatnsendahœð. Með því er stórlega aukið öryggið á tryggum rekstri stöðvarinnar. Því að gamli sendirinn, sem notaður hefir verið alla tíð síðan Vatnsendastöðin tók til starfa, var orðinn úr sér genginn og bilanir ekki fátíðar.
Á föstudaginn var bauð yfirverkfræðingur Ríkisútvarpsins, Gunnlaugur Briem, blaðamönnum og útvarpsráði upp að Vatnsendahæð til þess að skoða hinn nýja sendi. Hann er frá Marconifélaginu, eins og sá gamli, sem notaður hefir verið síðan 21. des. 1930. Miklar framfarir hafa orðið í útvarpstækninni síðan þá, og nýi sendirinn er bókstaflega „allra nýjasta nýtt” í þessari grein, því að hann er sá fyrsti af sinni gerð, sem Marconifélagið setur upp.
Sendirinn er 4 kw. sterkari en sá gamli, en þó svo miku fyrirferðarminni, að hann tekur ekki nema tæpan helming af rúmi gamla sendirsins. Meginmunurinn er sá, að hinn nýi er loftkældur en sá gamli var vatnskældur. Er mikið rekstursörggi og sparnaður að henni.En auk þess eru margar endurbætur á þessum sendi, ekki síst í þá átt að bæta tóngæðin.
Vatnsendahæð
Tveir menn frá Marconifélaginu hafa annast uppsetningu og prófun hins nýja sendis. Fyrst var hann prófaður í verksmiðjunni í tvo mánuði og siðan hafa prófanir farið fram á honum á Vatnsenda álíka langan tíma. Meðal annars var hann látinn starfa samfleytt i 24 tíma fyrir nokkru, einkum til þess að ganga úr skugga um hvort loftkælikerfið stæðist slíkt „Maraþonhlaup”. Hafa verkfræðingarnir A. T. Dunk og Stuart S. Spraggs annast allar þessar prófanir einkum sá síðarnefndi, sem hefir „fylkt” sendinum síðan fyrstu prófanirnar byrjuðu í Chelmsford.
Árið 1930 kostaði útvarpsstöðin á Vatnsenda — hús og vélar — um 750.000 krónur. Það er til dæmis um “tæringu” krónunnar, að nýi sendirinn kostar um 1,4 milljón krónur, en í þeim eru að vísu innifaldar um 300.000 krónur í tolla! Nú verður gagnger viðgerð og endurnýjun látin fara fram á gamla sendinum. Hún mun taka nokkra mánuði og síðan verður hann notaður til vara, ef eitthvað kynni að bjáta á með hinn. Öryggið fyrir útvarpsrekstrinum er þannig orðið hið besta, og Vatnsendastöðin mun framvegis jafnan getað skilað öllu því, sem í hana er látið.”

Í Degi 1960 er rætt við elsta starfsmann Útvarpsins, Davíð Árnason:

DavíðHvenær tók svo Ríkisútvarpið til starfa?
Í október 1930 byrjuðu tilraunaútsendingar frá stöðinni á Vatnsendahæð, en 20. desember um kvöldið, var stöðin hátíðlega opnuð og lýst yfir að Ríkisútvarpið væri tekið til starfa.
Manstu fyrstu dagskrána?
Já, hún er nú hérna, segir stöðvarstjórinn og réttir mér blað með fyrstu dagskránni. Hún var á þessa leið sunnudaginn 21. desember 1930.
Kl. 11,00: Messa í Dómkirkjunni (séra Friðrik Hallgrímsson).
Kl. 14,00: Messa í Fríkirkjunni (séra Árni Sigurðsson).
Kl. 16,10:  Barnasögur (frú Martha Kalman).
Kl. 19,25:  Grammofónn.
KI. 19,30: Veðurfregnir.
Kl.  19,40: Upplestur (Jón Pálsson).
Kl.  20,00: Tímamerki. Orgelleikur (Páll Ísólfsson).
Kl.  20,30: Erindi: Útvarpið og bækurnar (Sig. Nordal).
Kl.  20,50: Ýmislegt.
Kl.  21,00: Fréttir.
Kl.  21,10: Hfjóðfærasláttur (Þórarinn Guðmundsson fiðla, Emil Thoroddsen slagharpa). Leikin verða íslenzk þjóðlög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

En nú í vetur var sunnudagur, 20. desember. Hófst útvarp kl. 9,10 og var samfellt til kl. 23,30.
En þú varst á Eiðum. Hvenær fluttirðu þangað?
Árið 1938. Þá voru miklar framkvæmdir hjá Útvarpinu. — Stöðin á Vatnsendahæð, sem byggð var með 16 kw. orku í loftneti, var stækkuð í 100 kw.”

Á Mbl.is 09.03.2001 segir frá gömlum draug; “Nýting var í samræmi við eignarnámsheimild”:

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – loftmynd.

“Hæstiréttur hefur sýknað Landssíma Íslands hf. af kröfum um að fellt yrði út gildi eignarnám á spildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi, sem fram fór árið 1947.

Erfingjar þáverandi jarðareiganda töldu að fullnægjandi lagaheimild hefði skort fyrir eignarnáminu, en jafnvel þótt hún hefði verið fyrir hendi bæri að ógilda eignarnámið þar sem fyrirhuguð nýting á jörðinni hefði ekki gengið eftir.
Ríkissjóður keypti land af bóndanum á Vatnsenda, fyrst árið 1929 og síðar stærri hlut, og var þar reist langbylgjustöð útvarpsins. Árið 1947 var stærri spilda úr jörðinni tekin eignarnámi og á sama tíma voru einnig teknar eignarnámi spildur úr Fífuhvammslandi og landi Vífilsstaða, sem báðar lágu að Rjúpnahæð. Alls var land Landssímans innan lögsagnarumdæmis Kópavogs þá tæpir 160 hektarar.

Vatnsendi

Vatnsendi.

Árið 1997 falaðist Kópavogskaupstaður eftir samningum við Landssímann um kaup á landi hans á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð. Landssíminn hafnaði kauptilboði í landareignina, en í framhaldi af því voru teknar upp viðræður, að frumkvæði Kópavogskaupstaðar, um að hluti landsins yrði tekinn undir skipulagt íbúðarsvæði og voru tilnefndir þrír mats­menn til að gefa álit á verðmæti landsins, ef til skipulagðrar byggðar kæmi. Tók matið til um það bil 100 hektara lands, en eingöngu að hluta til þess lands úr jörð Vatnsenda sem tekið var eignarnámi árið 1947. Samkvæmt matsgerðinni frá 1998 var verðmæti landsvæðisins alls metið 315 milljónir króna miðað við staðgreiðslu.

Vatnsendi

Vatnsendahæð – loftskeytastöðin.

Núverandi eigandi Vatnsenda hélt því fram að ef yrði af sölu á spildunni til Kópavogsbæjar undir íbúðarbyggð væru brostnar forsendur fyrir eignarnáminu, því það hefði verið framkvæmt á þeirri forsendu og með þeim skilyrðum að nota skyldi landið eingöngu í sambandi við lagningu og rekstur fjarskiptavirkja ríkisins. Sala landsins með margföldum hagnaði miðað við eignarnámsbætur fæli í sér grófa misnotkun á eignarnámsheimildinni.

Fyrir héraðsdómi kom fram, að Landssíminn hefði ekki áhuga á að selja landið til Kópavogsbæjar. Hins vegar gerði fyrirtækið sér grein fyrir að heimildir skipulagslaga geti leitt til þess að landið kunni að verða tekið eignarnámi án samþykkis fyrirtækisins, enda óhjákvæmilegt um síðir að þrengt verði að starfsemi þess á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð með einhvers konar íbúðarbyggð.

Skilyrðislaus eignayfirfærsla

Vatnsendi

Vatnsendahæð – loftskeytastöðin.

Hæstiréttur bendir á í dómi sínum að í afsalinu frá 1947 komi fram að umræddri landspildu sé afsalað eignarnema, að eignarnámsbætur hafi verið greiddar og að eignarnemi sé þar með lýstur fullkominn eigandi spildunnar. “Með eignarnáminu, eftirfarandi afsali og greiðslu eignarnámsbóta fór fram skilyrðislaus eignayfirfærsla á því landi sem hér um ræðir. Telja verður að sýnt hafi verið nægilega fram á að landið hafi eftir það verið tekið til notkunar í eðlilegu samræmi við tilgang eignarnámsins undir fjarskiptamannvirki eða sem verndar- og öryggissvæði þeim tengt. Verður því ekki fallist á með áfrýjanda að landið hafi ekki verið nýtt til þeirra þarfa, sem ákvörðun um eignarnám var réttlætt með. Eignarnámsþola verður ekki veittur réttur til að endurheimta eignarnumið land nema á grundvelli lagaheimildar eða vegna sérstakra aðstæðna,” segir Hæstiréttur og bætir við að þar sem hvorugs njóti við í þessu máli séu ekki efni til að verða við kröfu um að Landssímanum verði gert að afhenda og afsala landeigendanum spildunni.”

Í Vísi 1965 segir af aðdraganda að komu Sjónvarps Útvarpsins; “Sjónvarpið sendir út“:

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – dyrahúnn frá fyrstu tíð.

“Í dag verður ef til vill gerð fyrsta tilraun með útsendingu kyrrstæðrar myndar frá lánssendi íslenzka sjónvarpsins á Vatnsendahæð. Er þessi kyrrstæða mynd, sem er misbreiðar línur og misdökkir fletir, til þess ætluð að sjá hvort útsending þessi næst á þau tæki sem í notkun eru í landinu.
Sent verður út á rás númer 11 samkv. Evrópukerfi en reglulegur útsendingartími hefur enn ekki verið ákveðinn.”

Í Dagblaðinu Vísi 1982 er umfjöllun um Vatnsendahæðarstöðina eftir rúmlega hálfrar aldar notkun; “Ný Langbylgjustöð kostar 100 milljónir“.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð.

“Ný langbylgjustöð fyrir Ríkisútvarpið kostar 100 milljónir króna. Menntamálaráðherra mun beita sér fyrir því að framkvæmdir við hana hefjist á næsta ári. Ætíar hann að leita fulltings Alþingis og fjárstuðnings úr ríkissjóði.

Gufuskálar

Gufuskálar – langbylgjumastur.

Gamla langbylgjustöðin á Vatnsendahæð er orðin 50 ára gömul og tæknimönnum þykja það mestu undur, að möstur hennar skuli enn hanga uppi.
Þetta kom fram i svari menntamálaráðherra, Ingvars Gíslasonar, á Alþingi. Í gær, þegar hann svaraði fyrirspurn Þorvaldar Garðars Kristjánssonar um málið. Í máli beggja, svo og Eiðs Guðnasonar, bar á miklum ugg vegna hins hrörlega ástands mastranna á Vatnsendahæð. Var vitnað i skýrslur sérfræðinga frá 1978, þar sem talið var furðulegt að möstrin stæðu og því lýst að þau gætu hvenær sem væri fallið í snörpum vindi.
Fyrirspyrjandi og Eiður Guðnason lögðu áherzlu á að ef möstur gömlu stöðvarinnar féllu, myndi taka ófyrirsjáanlegan tíma að koma aftur á langbylgjusendingum. En það myndi svipta marga landsmenn og sjómenn útvarpsnotum á meðan.
Ráðherrann kvað það sína skoðun, að enda þótt FM stöðvar þjónuðu æ stærri hluta landsins, dygði það ekki og langbylgjustöð yrði ómissandi til öryggis í útsendingum útvarps, ekki sízt til sjómanna. Þess vegna teidi hann að ríkissjóður ætti að koma til skjalanna og létta Ríkisútvarpinu byggingu nýrrar langbylgjustöðvar. Tók Eiður undir það, en Þorvaldur Garðar kvað litlu skipta hvaðan fé kæmi, það kæmi að lokum úr vösum skattborgaranna.
Aðalatriðið væri að koma nýju stöðinni upp áður en áföll dyndu yfir.” – HERB

Í Tímanum 1983 er umfjöllun; “Vatnsendastöðin sífellt hrörlegri“:

Langbylgjustödin áfram fjarlægur draumur – Vatnsendastöðin sífellt hrörlegri

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – ljósdarofar.

„Þetta er eitt af þeim þarfaverkum sem bíða síns tíma,” sagði Hörður Vilhjálmsson fjármálastjóri Ríkisútvarpsins þegar Tíminn spurði hann hvað miðaði með byggingu nýrrar langbylgjustöðvar fyrir útvarpið austan fjalls, sem hugmyndir hafa lengi verið uppi um.

Útvarp

Marconi sendirinn frá 1951 á Vatnsendahæð.

„Til að koma á fót þessari stöð þarf gífurlegt fjármagn og við höfum ekki séð hana sem viðráðanlegt verkefni ennþá.
Það hafa farið fram nokkrar undirbúningsrannsóknir, en meira hefur ekki gerst í málinu. Hins vegar er þetta ákaflega brýnt verkefni og sameiginleg þörf sem á það kallar frá mörgu tilliti.
Fyrst er að nefna að þetta myndi opna útsendingarleið ef FM kerfið brygðist, en það byggir eins og kunnugt er á nokkurs konar þrepaflutningi frá einum sendi til annars um landið. Langbylgjustöð yrði hins vegar svo langdræg að hún myndi nýtast öllum landsmönnum ef FM og örbylgjukerfið færi út. Þannig er hún mjög mikilvæg vegna öryggismála þjóðarinnar og eins vegna miðanna í kringum landið.”
Hvernig er ástandið á langbylgjustöðinni á Vatnsenda?
„Stöðin þar var reist árið 1929 og nú hefur ekkert verið gert fyrir hana í mörg ár. Möstrin halda áfram að ryðga og eru orðin mjög illa farin af ryði. Þetta felur í sér vissa áhættu. En ein ástæðan fyrir því að viðhald á möstrunum er í algeru lágmarki er kannske sú að menn eru alltaf að gæla við hugmyndir um nýja langbylgjustöð”. – -JGK

Í Dagblaðinu Vísi 1991 er fyrirsögnin; “Sá mastrið liggja lárétt í loftinu“:

Annað stórmastrið á Vatnsenda féll til jarðar – dæmt til falls fyrir 20 árum

Vatnesndahæð
“Mér var litið upp á Vatnsendahæðina skömmu eftir hádegi og skyndilega sá ég annað stórmastrið feykjast af undirstöðunni og liggja eins og lárétt í loftinu. Síðan endastakkst það með miklum látum er það féll til jarðar. Þetta var ansi tilkomumikil sjón,” sgði Guðjón Hilmar Jónsson, íbúi við Yrsufell; í samtali við DV. Annað stórmastrið, langbylgjumastrið á Vatnsenda, féll til jarðar í verstu rokunum eftir hádegi í gær. Féll mastrið klukkan 13.20. Stóð aðeins neðsti hluti þess eftir og stögin í hann.

Vatnsendi

Vatnsendahæð 1967.

Mastrið var reist fyrir 1930 og því orðið rúmlega 60 ára gamalt. Að sögn Eyjólfs Valdimarssonar, framkvæmdastjóra tæknideildar Ríkisútvarpsins, voru menn í mörg ár búnir að búast við falli Vatnsendamastranna. Fyrir 20 árum varaði verkfræðiskrifstofa alvarlega við ástandi þeirra og lagði til að þau yrðu tekin niöur. Uppfylltu möstrin engan veginn kröfur um styrkleika og burðarþol. Með mastrinu er langbylgjustöð Ríkisútvarpsins óvirk þannig að á afskekktum stöðum og úti á sjó, þar sem eingöngu er notuð langbylgja, heyrist Ríkisútvarpið ekki lengur.
„Við munum kanna uppsetningu bráðabirgðasendis strax í dag en hann mun ekki senda út með sama styrkleika. Þá munum við senda út á stuttbylgju, þeirri sömu og fréttasendingar til útlanda hafa farið um. Langbylgjusendirinn á Eiðum er enn virkur og sinnir Austurlandi áfram.”
Eyjólfur sagði að bygging nýrrar langbylgjustöðvar tæki 2-3 ár og yrði hún sennilega reist austur í Flóa. Hann sagði Vatnsenda löngu úreltan stað fyrir langbylgjustöð og hefði aldrei staðið til að byggja þar nýja stöð.” -hlh

Í Morgunblaðinu 1991 er fjallað um “Langbylgjustöðina á Vatnsendahæð“:

Vatnsendahæð“Talið er að það muni kosta um fimm til fimmtán milljónir að gera við langbylgjustöð Ríkisútvarpsins á Vatnsendahæð til bráðabirgða. Ákveðið hefur verið að byggja nýja langbylgjustöð á næstu árum.
Svavar Gestsson menntamálaráðherra lagði í gær fyrir ríkisstjórnina hugmyndir um hvað gera þurfi til að koma langbylgjusendinum í samt lag.

Undirbúa þarf kostnaðaráætlun
vegna byggingar nýrrar langbylgjustöðvar. Fara þarf yfir forsendur lánsfjárlaga fyrir árið 1991, en þar er gert ráð fyrir því að fella niður fastan tekjustofn sem Ríkisútvarpið hafði til 1986, og sjá til þess að þessar tekjur gangi aftur til Ríkisútvarpsins í stað ríkissjóðs. Einnig er áætlað að grípa til ákveðinna bráðabirgðaráðstafana á Vatnsendahæð á meðan beðið er eftir að endanleg úrlausn fáist, en það er talið taka nokkur ár.
Svavar sagði að ekki hefði verið kannað hvort hagkvæmara væri að leigja rás í gervihnetti og útvarpa þannig á langbylgju. „Ég held að þjóðir sem eru mjög gervihnattavæddar séu allar með langbylgjumöstur af þessu tagi þannig að ég hygg að það verði ekki hjá því komist að reisa nýja langbylgjustöð,” sagði menntamálaráðherra.

Býður hættunni heim” – segir starfsmaður „Skyldunnar
Hrun langbylgjustöðvarinnar hefur skapað erfiðleika enda ná örbylgjusendingar útvarpsins (FM) ekki út á miðin. Að sögn Arna Sigurbjðrnssonar, starfsmanns Tilkynningaskyldunnar, er ástandið slæmt, þótt sjómenn geti nálgast veðurfregnir með öðrum hætti. Erfitt væri að lýsa eftir bátum sem ekki gefa upplýsingar til Tilkynningaskyldunnar.
„Ástandið er ekki alvarlegt núna enda meirihluti flotans í landi,” sagði Árni. Hann sagði að ástandið gæti orðið alvarlegt ef skyndilega gerði óveður. „Þetta býður hættunni heim og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að koma upp langbylgjustöð,” sagði Árni.

Gunnlaugar H. Jónsson skrifar grein í Morgunblaðið 1991 undir fyrirsögninni “Langbylgjusendir, fortíð eða framtíð“:

Vatnsendahæð

Hús langbylgjunnar á Vatnsendahæð.

“Rúm sextíu ár eru liðin síðan íslenska þjóðin réðst í það stórvirki að reisa langbylgjustöð á Vatnsendahæð austan Reykjavíkur. Það var upþhafið að þeirri fjölmiðlabyltingu sem við nú upplifum.
Í áratugi var „Útvarp Reykjavík” (nú rás 1) eini ljósvakafjölmiðill Íslendinga og mörg kvöld sátu landsmenn sem límdir við viðtækin og hlustuðu á upplestur á sögum eins og „Bör Börson” eða á spennandi framhaldsleikrit, svo sem „Með kveðju frá Gregory”.
En nú er öldin önnur. Landsmenn geta flestir valið úr einni eða fleiri FM-steríó-rásum, einni eða tveim sjónvarpsrásum og sumir hafa gervihnattamóttakara, sem tekur á móti tugum sjónvarpsrása. Fæstir hafa þeir hlustað á langbylgju á viðtækinu sínu svo árum skiptir. Raunar er vafamál að þeir eigi viðtæki með langbylgju. Síðustu tíu árin hef ég keypt stereó-viðtæki í bílinn, útvarpsvekjara í svefnherbergið, stereó-græjur í stofuna og lítið útvarp í eldhúsið, auk þeirra viðtækja sem börnin hafa eignast. Öll eiga þessi viðtæki það samgeiginlegt að það er engin langbylgja á þeim.
VatnsendahæðÉg vaknaði því upp við vondan draum þegar ég uppgötvaði að helsta öryggistæki landsmanna, langbylgjusendirinn á Vatnsendahæð, sem hafði verið helsta skemmtun mín í æsku, var hrunið. Þá skildi ég að ég hafði stofnað mér og mínum í verulega hættu árum saman með því að kaupa ávallt viðtæki án langbylgju. Eina huggun mín er sú að í gamla bílnum er enn viðtæki með langbylgju. Sá bíll er hins vegar ávallt skilinn eftir heima því einu stöðvarnar sem hægt er að hlusta á í þeim bíl eru „gamla gufan” og „kaninn”.
Þegar Íslendingar reistu langlínusendinn á sínum tíma voru þeir að fjárfesta í framtíðinni, sendirinn hefur dugað í rúm sextíu ár, enda þótt mikilvægi hans fari ört minnkandi. Spurning dagsins er hvort 700-1.000 milljóna fjárfesting í nýjum landbylgjusendi er fjárfest

Öryggistækni fortíðarinnar eða framtíðarinnar
Á þeimn 20 árum sem rætt hefur verið um að endurnýja langlínusendinn hefur fjarskiptatækni breyst ótrúlega mikið hér á landi. Í stað koparvíra á staurum og langbylgjusenda, sem fluttu lágtíðni rafsegulbylgjur, hafa komið ljósleiðarar í jörðu og gervihnattasendar. Þessi nýja tækni bíður upp á margfalda flutningsgetu, sem öll nýrri viðtæki eru gerð til að nýta með steró-hljómi og/eða sjónvarpi. Það er skoðun mín að enda þótt enn megi finna framleiðendur sem geta framleitt langbylgjusenda þá sé þess ekki langt að bíða að almenningur í landinu geti ekki hlustað á langbylgjuna vegna þess að viðtækin sem seld eru í heiminum í dag eru almennt ekki gerð fyrir langbylgju. Hvers virði er almannavarnakerfi sem almenningur hlustar ekki á?

VatnsendahæðÍ Dagblaðinu Vísi 6. febrúar var birt viðtal við skipstjóra á millilandaskipi þar sem fram kom að eftir að langbylgjan datt út hafi stórbatnað skilyrði til þess að hlusta á veðurfregnir, sem sé nú útvarpað á stuttbylgju. Bandaríkjamenn eru mjög áhugasamir um öryggi og almannavarnir og búa í landi sem er nær 100 sinnum stærra en Ísland. Þeir hafa valið að nota svo til eingöngu miðbylgju og FM-bylgju til útvarpssendinga, enda er vandfundið viðtæki í því landi sem hefur langbylgju.
Áður en íslenska þjóðin leggur fram 1.000 milljónir, eða sem samsvarar milljón á hvert skip í flotanum, ættu Íslendingar að staldra við og íhuga hvernig öryggi í fjarskiptum verður best tryggt næstu 60 árin. (Þetta samsvarar 16.000 kr. á hverja vísitölufjölskyldu og má fá fyrir þann pening vandað stereó-viðtæki með FM-bylgju, miðbylgju og stuttbylgju, sem blaðamenn nota á ferðalögum til að hlusta á stuttbylgjusendingar úr öllum heimshornum.) Á næstunni verður lokið við að hringtengja ljósleiðara um landið.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – fornleifar…

Þróun á sjálfvirku tilkynningakerfi fyrir skip er að ljúka. Næsta skref er að koma því upp hringinn í kringum landið ef það er tæknilega og fjárhagslega hagkvæmt. Mörg skip hafa aðstöðu til að taka á móti upplýsingum, þar á meðal veðurkortum og GPS-staðsetningum frá gervihnöttum.

Útvarp

LW Vatnsendi 1965 – stjórnborð.

Fyrir 1.000 milljónir má gera mikið í öryggismálum þjóðarinnar bæði til sjós og lands og til að styrkja ljósleiðara- og FM- og sjónvarpsdreifikerfið. Hægt væri að koma upp stuttbylgju- eða miðbylgjusendi á hverju landshorni (kannski í tengslum við radarstöðvarnar.)
Í guðana bænum landar, ekki taka ákvörðun daginn eftir fall langlínumasturs, sem enginn hefur nennt að halda við í 20 ár með þeim afleiðingum að ein festing ryðgar í sundur niðri við jörð. Það má vera að alþingismenn hafi móral yfir því að hafa á undanförnum árum haft fé af ríkisútvarpinu, og vilji nú bæta úr fyrir kosningar. Hafi Alþingi nú úr digrum sjóðum að spila, skulum við nýta þá peninga í þágu framtíðarinnar, þannig að þeir komi að sem bestum notum, að bestu manna yfirsýn, næstu 60 árin. Leggjumst undir feld í þrjá daga að minnsta kosti og tökum ákvörðun að íhuguðu máli.” – Höfundur er eðlisfræðingur og rekstrarhagfræðingur, starfar hjá Háskóla Íslands.

Nokkur atriði úr sögu Útvarpsins:

1928 Lög um heimild handa ríkisstjórninni til einkarekstrar á útvarpi.
1929 Fyrsta útvarpsráð skipað.
1930 Jónas Þorbergsson skipaður útvarpsstjóri. Ný lög um útvarp ríkisins.
Settur upp langbylgjusendir á Vatnsendahæð við reykjavík (16 kW), og dagskrársending Ríkisútvarpsins hafin.
1931 Ríkisutvarpið flytur úr Hafnarstræti 10 í Reykjavík í hús Landssímans við Austurvöll.
1934 Ný útvarpslög.
1938 Tekinn í notkun nýr sendir á Vatnsendahæð (langbylgja – 100 kW).

Vatnsendahæð

Stálþráðsupptæki útvarpsins á Vatnsendahæð.

1947 Ríkisútvarpið eignast stálþráðatæki, sem breytti mjög aðstöðu til upptöku útvarpsefnis.
1950 Enn gagngerðari varð þó breytingin þegar segulbandstækin komu til sögunnar 1950.
1952 Hafði endurvarp frá sendi á Hornarfirði (miðb. 1 kW).
1953 Vilhjálmur Þ. Gíslason skipaður útvarpsstjóri.
1958 FM-útsendingar hafnar frá Vatnsendahæð.

Vatnsendahæð

Landssímahúsið við Austurvöll.

1959 Ríkisútvarpið flytur úr húsi Landssímans í hús Rannsóknarstofnunnar sjávarútvegsins að Skúlagötu 4 í Reykjavík.
1964 Ríkisútvarpinu falið að hefja undirbúning að íslensku sjónvarpi.
1965 Nýr langbylgjusendir (100 kW) settur upp á Vatnsendahæð.
1966 Ríkisútvarpið kaupir meginhluta húseignarinnar Laugavegur 176 í Reykjavík fyrir sjónvarpsrekstur. Hafin útsending sjónvarpsdagskrár (30.09.).
1970 Stofnaður Framkvæmdarsjórður Ríkisútvarpsins.
1971 Ný útvarpslög.
1974 Birt ný almenn reglugerð um Ríkisútvarpið.
1975 Útvarpslögunum breytt.
1977 Hafnar útsendingar í lit.
1978 Gengið frá samningum um lóð fyrir útvarpshús við Efstaleiti.
1980 Hafnar víðómsútsendingar í útvarpi.
1981 Fyrsta fréttasending Sjónvarpsins um gervitungl.
1982 Fyrsta móttaka knattspyrnuleiks í gegnum gerfitungl.
1985 Markús Örn Antonsson skipaður útvarpsstjóri.
1986 Ný reglugerð sett um Ríkisútvarpið.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið við Efstaleiti.

1987 Útvarpið flytur í eigið húsnæði í Efstaleiti 1.
1991 Heimir Steinsson skiðapur útvarpsstjóri.
1994 FM-sendum Útvarps og Sjónvarps fjölgað til muna.

Nánast allt framangreint, utan skipan útvarpstjóra, hefði sennilega aldrei orðið að veruleika nema fyrir tilstuðlan langbylgjustöðvarinnar á Vatnsendahæð?

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – loftmynd.

Rekstri langbylgjustöðvarinnar á Vatnsendahæð hefur nú verið hætt. Hluti starfseminnar hefur verið flutt í aðra senda, s.s. á Úlfarsfelli, en meginstarfsemin verður áfram rekin á Gufuskálum. Um afdrif fyrirliggjandi uppsafnaðs tækjabúnaðar er óljós. Ýmis söfn munu þó njóta góðs af, s.s. Herminjasafnið í Hvalfirði, Minjasafnið á Skógum, Þjóðminjasafnið og safn Rafniðnaðarsambandsins. Þá mun leik- og kvikmyndageirinn njóta góðs af ýmsum heimilistækjabúnaði, sem safnað hefur verið í gegnum tíðina.
Húsnæðið á Vatnsendahæð er ekki eins illa farið og Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar, vill vera láta. Vandað var til byggingarinnar í upphafi og hún er alls ekki asbestbygging. Hliðarbyggingar; geymslur og skúrar, voru reyndar byggðar af vanefnum.
Húsnæðið geymir ekki einungis sögulegar minjar, sem ástæða er til að varðveita. Það er í raun vitnisburður um þróun samfélagsins frá nýlegri fortíð til nútíðar. Vonandi verður byggingunni fundið nýtt og viðeigandi hlutverk í framtíðinni er endurspeglar merkilega sögu þess í íslensku samhengi.

Heimildir:
-Mbl.is 09.03. 2001 – https://www.mbl.is/frettir/innlent/2001/03/09/nyting_var_i_samraemi_vid_eignarnamsheimild/
-Dagblaðið Vísir, 81. tbl. 07.04.1982, Ný Langbylgjustöð kostar 100 milljónir, bls. 3.
-Morgunblaðið, 30. tbl. 06.02.1991, Langbylgjustöðin á Vatnsendahæð, bls. 18.
-Dagblaðið Vísir, 29. tbl. 04.02.1991, Sá mastrið liggja lárétt í loftinu, bls. 33.
-Morgunblaðið, 42. tbl. 20.02.1991, Langbylgjusendir, fortíð eða framtíð. Gunnlaugur H. Jónsson, bls. 34.
-Tíminn, 119. tbl. 27.05.1983, Vatnsendastöðin sílefflt hrörlegri, bls. 2.
-Vísir, 293. tbl 22.12.1965, Sjónvarpið sendir út, bls. 16.
-Fálkinn, 31. tbl. 06.08.1938, Vígsla útvarpsstöðvarinnar, bls. 14
-Fálkinn, 24. tbl. 22.06.1951, Nýr útvarpssendir tekin í notkun, bls. 2.
-Íslendingaþærrir Tímans, 9. tbl. 09.03.1974, Dagfinnur Sveinbjörnsson, bls. 10.
-Útvarpstíðindi, 4. tbl. 07.11.1938, Stækkun útvarpsstöðvarinnar, Gunnlaugur Briem, verkfræðingur, bls. 56-57.
-Verslunartíðindi, 7. tbl. 01.07.1935, Talsamband við útlönd, bls. 76-77.
-Útvarpstíðindi, 21. tbl. 06.03.1939, Um veðurfregnir, Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, bls. 320-321.
-Útvarpstíðindi, 1. tbl. 12.01.1948, Íslendingar að verða fremstir meðal þjóðanna um útvarpsafnot, Úrdráttur úr ræðu útvarpsstjóra, bls. 5-6.
-Útvarpstíðindi, 10. tbl. 13.06.1949, Endurbætur og aukningar á sendistöðvum Ríkisútvarpsins, Frá skrifstofu útvarpsstjóra, bls. 220.
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 08.06.1941, Draumurinn sem rættist, Friðrik Halldórsson, bls. 30.
-Iðnaðarmál, 1. tbl. 01.01.1956, Fræðslumyndir og segulhljóðritun, Magnús Jóhannsson, bls. 6.
-Dagur, 14. tbl. 23.03.1960, Rætt við elsta starfsmann Útvarpsins, Davíð Árnason, bls. 2.
-Morgunblaðið 15.09.2020, Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – einn af sendunum…