Færslur

Elliðavatn

Á upplýsingaskilti við Elliðavatn má lesa eftirfarandi um “Elliðavatn – Þingnes og Vatnsenda”:

Elliðavatn
Elliðavatn
Elliðavatn var upphaflega tvö vötn; Vatnsendavatn (í Kópavogi) og Vatnsvatn (í Reykjavík) og tengdust með mjóum ál framan við Þingnes. Á árunum 1924-1928 var miðlunarstífla reist við Elliðavatnsengi og við það nær tvöfaldaðist flatarmál vatnsins (40%). Alls er Elliðavatn nú um 2 km2 að stærð, meðaldýpi þess aðeins um 1 metri og mesta dýpi um 2.3. metrar.
Elliðavatn er í flokki lindarvatna og er vatnasvið þess um 270 km2. Mikill hluti vatns sem streymir inn í það kemur neðanjarðar frá í gegnum lekar hraunmyndanir. Tvær ár renna í Elliðavatn; bugða (Hólsmá) og Suðurá. Ein á rennur úr Elliðavatni og heitir hún Dimma en neðar taka Elliðaár við. Hluti Kópavogs í Elliðavatni og Dimma njóta bæjarverndar (hverfisverndar) Kópavogs og vatnið ásamt vatnasviði Elliðaánna eru auk þess á náttúrminjaskrá.

Þingnes

Þingnes

Þingnes 1873.

Þingnes er með merkari stöðum við Elliðavatn og tilheyrir bæði Kópavogi og Reykjavík. Þar er talið að sé elsti þingstaður Íslands eða hið forna Kjalarnesþing sem haldið var áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum um 930. Árið 1938 var Þingnes friðlýst samkvæmt þjóðminjalögum.

Vatnsendi

Vatnsendi

Vatnsendi.

Vatnsendi var eitt af fjórum lögbýlum sem í dag mynda svokallað heimaland Kópavogs ásamt Hvammkoti (Fífuhvammi), Kópavogi og Digranesi. Vatnsendi er eina býlið af þeim sem enn er í ábúð. Til eru ritaðar heimildir um Vatnsenda allt aftur til ársins 1234. Jörðin á Vatnsenda hefur tekið miklum breytingum á 20. öld Við stíflun Elliðaánna missti Vatnsendi mikið land undir vatn og árið 1947 tók Reykjavíkurborg um helming landsins eignarnámi undir friðland fyrir íbúa Reykjavíkur, það land er nú hluti Heiðmerkur. Á sama tíma fóru ábúendur bæjarins að nytja óræktarland undir sumarbústaðaspildur sem eru undanfari þéttbýlismyndunar við vatnið.

Elliðavatn

Elliðavatn – kort.

Kópavogur

Við fyrrum Kópavogsþingstað er skilti með eftirfarandi upplýsingum:

“Kópavogur virðist hafa verið vorþingstaður á þjóðveldistímanum, en með lögtöku Járnsíðu 1271 verður hann hreppaþingstaður, svonefnt þriggja hreppa þing.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjödi dóma og mála gengu á Kópavogsþingi á þeim árum sem þess er getið í heimildum. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.

Kópavogur

Kópavogsþingstaður.

Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523, en þá var settur dómur á “þingstað réttum” til að dæma í kærumáli Hannesar Eggertssonar, hirðstjóra, gegn Týla Péturssyni sem farið hafði ránshendi um konungsgarðinn á Bessastöðum.

Kópavogur

Kópavogsfundurinn – skilti um Kópavogsfundinn 28. júlí 1662 er einnig við þingstaðinn.

Árið 1574 gaf Friðrik II, danakonungur, út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog. Til þess kom þó aldrei. Árið 1578 lauk svo Hvassafellsmálum á þinginu eftir langt málaþref. Var dómi Gottskálks biskups hins grimma hnekkt, en hann hafi dæmt Bjarna Ólafsson, bónda á Hvassafelli, og dóttur hans, Randíði, sek um að hafa haft holdleg mök og eignir þeirra undir kirkju og kóng.
Sá atburður í sögu landsins og Kópavogs sem verður minnst þó annað gleymist er Erfðahyllingin í Kópavogi 28. júlí 1662, er danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke neyddi íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Fridriki III, danakóngi, hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir.

Kópavogsdysjar

Vettvangur Kópavogsdysja.

Þann 15. nóvember 1704 fór síðasta aftakan fram á þinginu í Kópavogi, en þá voru tekin af lífi fyrir morð Sigurður Arason og Steinunn Gudmundsdóttir frá Árbæ. Var Sigurður höggvinn skammt norðan við þinghúsið en Steinunni drekkt í Kópavogslæk. Árin 1725 og 1726 var svo Swartskopf-málið fyrir þinginu. Málið fjallaði um Appolínu nokkra Swartskopf sem trúlofuð hafði verið Niels Fuhrmann, amtmanni á Bessastöðum. Fuhrmann sleit trúlofuninni og stuttu síðar lést stúlkan. Bróðir hennar kærdi ráðskonu Fuhrmanns og dóttur hennar fyrir að hafa verið valdar að dauða hennar. Málinu lauk þó með sýknu allra hinna ákærðu.
Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.

Kópavogur

Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Kópavogsþingstað.

Eftir að þingið lagðist af var engu hreyft á svæðinu þar til 1973. Þá höfðu yfirborðsathuganir farið fram, bæði af Jónasi Hallgrímssyni árið 1841 og síðar af Matthíasi Þórðarsyni, þjóðminjaverði, 1929. Minjarnar voru síðan friðlýstar fyrir tilstuðlan Matthíasar árið 1938.
Á 300 ára afmæli Erfðahyllingarinnar í Kópavogi árid 1962 setti Lionsklubbur Kópavogs upp Minningarstein á þingsvæðinu.
Árið 1973 var hafist handa við fornminjauppgröft á Kópavogsþingstaðnum undir stjórn Gudrúnar Sveinbjarnardóttur, fornleifafræðings, og fyrir tilstuðlan þjóðhátíðarnefndar Kópavogs í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Lauk rannsóknum 1976 og hafði þá verið grafið upp á 3 stöðum á þingstaðnum.
Við minningarsteininn var grafinn upp tóft af jarðhúsi, sem helst virðist hafa verið eldhús og miðaldasmiðja. Gera menn ráð fyrir samkvæmt þessu að einhverjar mannaferðir hafi verið þarna þegar á 9. öld. Smiðja sem lá ofan jarðhússins virðist hafa verið aflögð um 1500, þó ekki sé það nákvæmt.

Kópavogur

Kópavogur – skiltin á Kópavogstúni.

Rannsóknirnar á þessum tóftum gáfu ekki til kynna að þær væru tengdar þinghaldi á staðnum, fremur hluti af bæjarhúsunum. Syðri tóftin eða þinghustóftin er mun yngri, var húsið að líkindum byggt á 17. öld og endurbyggt á 18. öld. Undir þinghúsinu fundust byggðaleifar sem gætu hafa tengst þinghaldi á staðnum, en voru svo brotakenndar að ekki var unnt að slá því föstu hvað þær væru. Þinghústóftin snýr í norðaustur og suðvestur og mun husið hafa verið um 25 fermetrar að flatarmáli. Húsið mun hafa verið með torfveggjum og bak sett beint ofan á með undirstöðum í hornum. Suðurhlið hefur verið úr timbri og þar gengið inn á miðjan gafl fyrst, en síðar hefur hurðin verið til hliðar og settur gluggi á hinn helminginn.”

Kópavogur

Kópavogsþingstaður – skilti.

Víghóll

Á Víghóll/Víghólum í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar segir m.a.:

“Víghóll var friðlýstur sem náttúrvætti 1983 skv. náttúruverndarlögum nr. 47/1971. Stærð friðlýsts svæðis er um 1 hektari en útivistarsvæðið er rúmir 3 hektarar.

Víghóll

Víghóll.

Um tíma stóð til að byggja Digraneskirkju á svæðinu og voru framkvæmdir við grunn kirkjunnar hafnar þegar horfið var frá því skipulagi. Digraneskirkja stendur nú á fallegum stað í Digraneshlíðum.
Þar sem kirkjan átti að standa er nú hvammur í landinu þar sem grágrýtisklappir grunnbergsins eru sýnilegar. Form hvammsins hefur verið undirstrikað með fallegum og vel gerðum grjóthleðslum.
Að sögn Erlu Stefánsdóttur má sjá ljósstrengi frá Víghól milli huldubyggða á stóru svæði í nálægum bæjum. En í sjálfum hólnum má finna einskonar musteri hulduvera á háu tíðnissviði og í stökum húsum á hólnum búa rólyndislegir dvergar með ljúfar árur.

Víghóll

Víghóll.

Víghóll er í 74.7 metrum yfir sjávarmáli og stendur hæst í byggðu landi Kópavogs. Bergið í Víghól er grágrýti og virðist vera hluti af víðáttumiklum berggrunni (hraunlagasyrpu) á höfðuborgarsvæðinu sem gengur undir samheitinu Reykjavíkurgrágrýti.
Reykjavíkurgrágrýtið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, til aðgreiningar frá eldri grágrýtismynduninni, og er einkum um dyngjuhraun að ræða sem runnu á hlýskeiðum seinni hluta ísaldar fyrir 100.000-700.000 árum.
Upptök Reykjavíkurgrágrýtsins í Kópavogi eru óþekkt, en aldurinn er líklega 300.000-400.000 ár.

Kópavogur

Kópavogur – Víghólar.

Hvalbök nefnast jökulsorfnir klapparhólar og þekkjast á því að hlið klapparinnar sem vissi á móti skriðstefnu jökulsins, þar sem jökulþunginn mæddi mest á, er fremur slett og aflíðandi. Hin hliðin sem vissi undan skriðstefnunni er hins vegar oft brött og stöllótt, enda náði jökullinn að rífa flyksur úr berginu þeim megin. Jökulrákir á Víghól urðu til fyrir um 10.000 árum þegar jökullinn skreið fram og rispaði undirlagið með urð og grjóti. Af stefnu hvalbaka og jökulráka má ráða skriðstefnu jökla. Jökulrispurnar á Víghól liggja frá suðaustri til norðvesturs.
Á Víghóli, Álfhóli og víðar á höfuðborgarsvæðinu hefur jökullinn sem síðast gekk yfir svæðið fyrir um 10.000 árum, haft stefnuna norðvestur til suðausturs. Líklega hafa ísaskil þessa jökuls legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út á Faxaflóða og niður í Ölfus.”

Kópavogur

Víghóll.

Hernámið

Á Kársnesi í Kópavogi er upplýsingaskilti um hernámið. Þar stendur m.a. eftirfarandi um “Hernámið í Kópavogi 1940–1944”.
10. maí 1940 var Ísland hernumið af Bretum. Þá höfðu Þjóðverjar sigrað Pólland, Danmörku og Noreg. Óttast var að sömu örlög biðu Íslands en við það hefðu bandamenn misst yfirráð siglingarleiða á Atlantshafi.

Hernámið

Bretar lögðu því áherslu á að verða fyrri til. Bandaríkjaher tók að sér hersetuna sumarið 1941 samkvæmt samningi við Breta og ríkistjórn Íslands. Um 50 þúsund liðsmenn breska og bandaríska hersins, flotans og flughersins voru í landinu sumarið 1943. Þá voru Íslendingar 124 þúsund, um 43 þúsund bjuggu í Reykjavík en 314 manns í Kópavogi.
Bretar hófust strax handa við uppbyggingu flugvallar í Vatnsmýrinni og víða risu braggahverfi. Bretavinnan létti miklu atvinnuleysi sem hafði ríkt í landinu. Umsvif hersins hérlendis voru einna mest í nágrenni Reykjavíkurflugvallar við Fossvog. Í voginum var einnig aðstaða fyrir sjóflugvélar sem herinn notaði m.a. við kafbátaeftirlit. Á Kársnesi þar sem Siglingastofnun er núna var RAF Marine Craft Slipway. Þar má sjá skábraut þar sem flugbátunum var komið á land. Samskonar brautir voru í Nauthólsvík. Nokkur varnarbyrgi hersins voru við Fossvoginn.

Hernám

Braggahverfi við Sandskeið.

Bandaríski herinn gerði kort og uppdrætti yfir athafnasvæði sín. Örnefni hersins á Kópavogssvæðinu sjást best á korti frá árinu 1943 í mælikvarðanum 1:25.000. Yfirmaður verkfræðideildar ameríska landhersins gerði kortið með aðstoð kortaþjónustu bandaríska landhersins í Washington. Ensku nöfnin sem herinn notaði hurfu eins og dögg fyrir sólu er hann hvarf á braut.
Herskálahverfi í og við Kópavog voru nokkur. Camp Fossvogur var í botni Fossvogs, í Sæbólslandi við Fossvogsbotn var Camp Bournemouth, utarlega á Kársnesi var Camp Kórsnes. Hæðin þar sem nú er Hamraborg er skráð á kortum hersins Skeleton Hill og þar var samnefnt herskálahverfi og loftvarnarbyssur. Nýbýlavegur og Kársnesbraut nefndust Skeleton Hill Road. Nokkur óvissa hefur ríkt um nafnið, t.d. fullyrti Hendrik Ottóson að braggahverfið hafi heitað Skelton Hill eftir örnefni í Englandi. Kópavogsháls vestan miðbæjar hlaut nafnið Mossley Knoll.

Hernámið

Hernámið – skotgröf.

Digranes var kallað Whale Hill og vestasti hluti Kársness Whale Point. Þar sem nú er gróðrastöðin Storð við Dalveg var herskálahverfið Hilton Camp. Fífuhvammsvegur hét Hilton Road.
Sambúð Kópavogsbúa og setuliðsins var yfirleitt friðsamleg og höfðu heimamenn nokkurn ábata af hernum. Síðustu hermennirnir í Kópavogi fóru af landi brott í apríl 1944. Braggarnir sem herinn skildi eftir voru nýttir á ýmsan hátt. Framfarafélagið Kópavogur, sem varð til þess að sveitarfélagið Kópavogshreppur varð til 1948, var stofnað í bragga í Hilton Camp 13. maí 1945 og árið 1950 var búið í þremur bröggum í Kópavogi. Búnaður sem herinn skildi eftir var nýttur af Kópavogsbúum, skátaflokkurinn Fálkar notaði hertjöld á árunum 1947-1948.
Þjóðverjar gáfust upp 8. maí 1945 og styrjöldinni lauk í Evrópu. Bandaríkjamenn vildu þó hafa herstöð áfram og yfirgáfu síðustu hermennirnir Ísland ekki fyrr en 8. apríl 1947 í samræmi við Keflavíkursamninginn. Árið 1951, tveimur árum eftir að Ísland gekk í NATO, var gerður umdeildur samningur við Bandaríkjamenn um hervernd landsins sem stóð til 2006.

Kópavogur

Hernámið – skillti.

Hvalbak

Við Álfhól í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar má m.a. lesa eftirfarandi:
Hóllinn er trúlega þekktasti álfhóll Kópavogs og hefur skapað sér slíkan sess í skipulagi bæjarins að varla verður honum hnikað héðan af. Hann er sýnilegt dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan tíma. Hólinn mætti merkja með látlausum hætti.

Kópavogur

Álfhóll.

Álfhóll er stórgrýttur grasi gróinn hóll sem gengur út í götuna. í hólnum er sagt að búi þrír álfar, einn gamall og tveir unglingsálfar; en að þeir hafi verið fleiri hér áður.

Álfhóll

Kópavogur – Álfhóll.

Fjórum sinnum er talið að álfar hafi haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Byrjað var á lagningu Álfhólsvegar seint á fjórða áratugnum. Veginn átti að leggja frá Hafnarfjarðarvegi að Álfabrekku og tengja við Nýbýlaveg. vel gekk að leggja veginn út að Álfhólnum en þegar þangað var komið og átti að fara að sprengja var framkvæmdafé uppurið. því er haldið fram að álfar hafi komist í bókhald bæjarins.

Áratug síðar átti að hefja framkvæmdir aftur. Fyrsta skrefið var að ryðja burt hólnum en þegar þær framkvæmdir hófust fóru dularfullir atburðir að gerast. Vinnuvélar biluðu, verkfæri skemmdust og mörg þeirra hurfu á óskiljanlegan hátt. Hætt var við að ryðja burtu hólnum og var settur hlykkur á veginn fram hjá honum.

Kópavogur

Álfhóll.

Í lok níunda áratugarins átti að endurbæta veginn. Framkvæmdirnar gengu mjög vel þar til ráðgert var að leggja mabik upp að hólnum. Fjarlægja átti hluta hólsins en til þess átti að nota öflugan steinbor tengdan kraftmiklli loftpressu. Þegar menn hófust handa við að bora í klöppina þá brotnaði borinn. Það dugði heldur ekki til að ná í annan bor því allt fór á sama veg og segja sjónarvottar að hann hafi hreinlega kubbast í sundur.

Kópavogur

Kópavogur – Álfhóll.

Í kjölfar þess neituðu verkamenn að koma nálægt hólnum með vélar og verkfæri. Vegaskipulaginu var breytt og er þarna þrenging og hraðahindrun á veginum ásamt gangbraut sem þjónar vel þeim börnum sem sækja Digranesskola.
Áhrifum álfa var þó ekki lokið. Lóðunum austan við hólinn var úthlutað á níunda áratugnum og þar á meðal var lóðin Álfhólsvegur 102, sú sem næst liggur hólnum. Eigandi lóðarinnar hóf þar aldrei framkvæmdir heldur skilaði lóðinni með þeim skýringum að honum litist ekki á lóðina og vildi ekki byggja þar. Að öðru leyti vildi hann sem minnst um málið segja. Hvort sem álfum var um að kenna eða ekki þá er enn ekkert hús númer 102 við Álfhólsveg og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.
Hvort sem um er að ræða álfa, röð tilviljana eða ókunnug öfl þá er Álfhóllinn athyglisvert kennileiti í bænum. Örnefnið er hluti af sögu bæjarins og álfasögurnar af þessum skemmtilega stað gefa tilefni til mikilla vangavelta.

Álfhóll

Álfhóll – skilti.

Tröllabörn

Við Tröllabörn neðan Lögbergs í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar má lesa eftirfarandi texta:

Tröllabörn

Tröllabörn.

“Tröllabörn/Tröllabollar voru friðlýst sem náttúruvætti árið 1983.
Tröllabörnin eru tíu talsins og fyrna gömul, eða um 4.500 ára. Á máli jarðfræðinnar nefnast þau hraundrýli (hornitos).
Hraundrýli myndast þegar gas streymir út um rásir við eldgíga og í hraungöngum og rífur með sér klepra sem hlaðast upp í litlar strýtur eða drýli. Drýli eru einkum algeng í eldstöðvum af dyngjugerð, en dyngjur gjósa ávallt þunnfljótandi hraunkviku sem jafnan rennur í göngum og myndar helluhraun.

Tröllabörn

Myndun hraundrýla.

Tröllabörn tilheyra Leitarhrauni sem kom upp úr Leitum, stórum dyngjgíg austan undir Bláfjöllum. Frá Leitum runnu hraun í sjó fram bæði við Reykjavík (Elliðavog) og Þorlákshöfn fyrir um 4.500 árum. Í Leitarhrauni eru margir hellar og hraungöng og hafa Tröllabörnin myndast þegar gosgufur brutust upp í gegnum þak á slíkum helli eða göngum.”

Tröllabörn

Tröllabörn – skilti.

Kópavogur

Á Hádegishól í Kópavogi er “Stupa“. Við hana er upplýsingaskilti. Á því má m.a. lesa eftirfarandi:
Hádegishóll eða Hádegishólar draga nafn sitt af því að eystri hóllinn var eyktarmark frá bænum Fífuhvammi sem var syðst Kópavogsjarðanna fjögurra. Hóllinn var í hásuður frá bænum og bar því sól yfir hann á hádegi.

Kópavogur

Stupan á Hádegishól.

Eyktarmark er fastur punktur í landslagi sem sólina ber í frá tilteknum bæ á vissum tíma dags. Helst átti að miða áttina frá eldhúsinu á bænum. Algegnt var að fjallstindur, hæðir, skörð eða jafnvel hlaðnar vörður væru eyktarmörk.
Fyrr á öldum var sólarhringnum skipt upp í eyktir sem voru 8 talsins. Ekki er hægt að tímasetja eyktir nákvæmlega eftir stundarklukku nútímans en nöfn þeirra eru; ótta (um kl. 3), miður morgunn eða rismál (um kl. 6), dagmál (um kl. 9), miðdegi eða hádegi (um kl. 12), nón (um kl. 15), miður aftann eða miðaftann (um kl. 18), náttmál (um kl. 21) og miðnætti eða lágnætti (um kl. 24). því eru til örnefni eins og Miðmorgunsvörður, Dagmálahnúkur, Hádegishóll, Nónskál, Miðaftansdrangur og Náttmálaborg.
Hádegishólar eru ávalir grágrýtishólar með áberandi ísaldarminjum (hvalbökum) og jökulrákum). Bergið í klöppunum tilheyrir svokölluðu Breiðholtsgrágrýti en það liggur ofan á Reykjavíkurgrágrýtinu sem Kópavogur stendur að mestu á og er um 300.000-400.000 ára gamalt. Af því má ráða að Hádegishólar eru með yngri jarðmyndunum í Kópavogi og eru yngri en t.d. Víghólar og Borgarholt.
Hvalbök nefnast jökulsorfnir klapparhólar og þekkjast á því að sú hlið klapparinnar sem vissi á móti skriðstefnu jökulsins og jökulþunginn mæddi mest á, er freur slétt og aflíðandi. Hin hlið sem vissi undan skriðstefnunni er hins vegar oft brött og stöllótt, enda náðijökullinn að rífa flyksur úr berginu þeim megin. Jökulrákir á Hádegishólum urðu til fyrir um 10.000 árum þegar jökullinn skreið fram og rispaði undirlagið með urð og grjóti. Af stefnu hvalbaka og jökulráka má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA.

Stupa

Stupan.

Stupur eru forn asísk mannvirki sem upphaflega voru reist sem minnisvarðar um fornar hetjudáðir. Með tilkomu búddatrúar fyrir um 2500 árum breyttist tilgangur þeirra í að vera minning um brautryðjendur í þroska mannkynsins og hvatning um að feta í fótspor þeirra og leita leiða til andlegs þroska.
Stupan á Hádegishólum er byggð samkvæmt tóbeskum hefðum og reglum. Sérhver form felur í sér táknræna merkingu um leiðir til innri þroska. Í heild sinni táknar stupa uppljómaðan hug.

Kópavogur

Stupan á Hádegishóli.

Hug sem hafinn er yfir allar takmarkanir og neikvæða eiginleika. Hug með fullkomið jafnvægi kærleiks og visku.
Ytri, innri og dulin (esoterisk) gerð stupu veitir henni lækningamátt, umbreytir neikvæðri orku í nánasta umhveri og hefur hulin djúpstæð áhrif á allar skynverur sem koma nærri henni. Vegna þessara eiginleika stupa hafa þær verið byggðar víðsvegar um heim.
Stupunni var valinn staður á Hádegishólum vegna velvilja og víðsýni bæjaryfirvalda í Kópavogi.
Landið þar sem stupunni var fundinn staður var blessað 21, ágúst 1992 af Ven Thrangu Rinpoche. ven Lama Zopa Ronpoche vígði stupuna 18. nóvember 1993.
Frumkvæði að byggingu stupunnar hafði íslensk kona sem búið hefur meðal tíbeskra flóttamanna í Indlandi í áratugi og naut hún aðstoðar listamanna frá Íslandi, Tíbet, nepal, Indlandi og Ungverjalandi. Alls kom á annað hundrað manns af ólíku þjóðerni og trú að gerð stupunnar.

Kópavogur

Hádegishóll – skilti.

Kópavogur

Framan við Kópavogsbæinn/Kópavogsbúið er upplýsingaskilti. Á því má m.a. lesa eftirfarandi texta:
“Engar ritheimildir eru til um upphaf búskapar á jörðinni Kópavogi, en fornleifarannsóknir við Þinggerði árið 1973-1976 leiddu í ljós bæjarrústir frá miðöldum og því líklegt að menn hafi verið hér frá síðari hluta 9. aldar.

Kópavogur

Kópavogsbærinn – túnakort 1916.

Kópavogur er fyrst nefndur árið 1523 í dómi yfir Týla Péturssyni frá Kópavogsþingi, en hann var fundinn sekur um rán á Bessastöðum. Bærinn er fyrst nefndur í afgjaldsreikningum frá árinu 1553. Kópavogur hafði verið eign Skálholtskirkju en fór í konungseign ásamt öðrum jörðum kirkjunnar eftir siðaskiptin 1550.

Kópavogur

Kópavogsbærinn nú og fyrrum.

Jarðabækur gefa til kynna að Kópavogsjörðin hafi verið rýr að landgæðum. í jarðabókum frá 17. og fram til 19. aldar var jarðardýrleiki um 11 hundruð. Árið 1861 var jarðardýrleikinn skráður 13.6 hundruð. Til samanburðar við næstu jarðir voru Digranes og Vammkot 15 hundruð hvor jörð og Vatnsendi 22 hundruð. Jörðin gat því ekki framfleytt mörgum.
Upphaflega stóðu bæjarhús Kópavogs við Þinggerði en á 19. öld voru þau við sjávarbakkann beint suður af núverandi steinhúsi sem reist var 1902-1904. Engin ljósmynd er til af gamla bænum frá 19. öld, en einstakar lýsingar af bæjarhúsunum eru til. Ein er frá sumri 1856, er hinn breski lávarður Dufferin (1826-1902) var á leið frá Reykjavík til Bessastaða og leiðinni lýsti hann svo: “Fyrstu mílurnar riðum við yfir öldótta doloritsléttu, uns við komum til bóndabæjar, sem var við vog nokkrun. Í fjarlægðinni virtist bærinn eins og lítil vin í eyðimörk, því allt í kringum hann voru gráar grjótbrekkur, en er nær dró virtist þarna vera keltneskir virkisveggir, en innan þeirra haugar eins eða tveggja fallinna kappa. Það kom á daginn, að haugarnir voru bara torfþök bæjar og gripahúsa, en virkisveggirnir torfgarðarnir, sem eru hlaðnir utan um best ræktuðu skákina í landi bóndans”.
KópavogurÞarna lýsti lávarðurinn einnig túngarði Árna Péturssonar (1781-1854) bónda í Kópavogi, svonefndum Árnagarði, um 680 metra langri garðhleðslu umhverfis túngarðinn við bæinn. Útlínur garðsins sjást á gömlum kortum og loftmyndum, en Árni var verðlaunaður af konungssjóði árið 1827 fyrir jarðabætur á Kópavogsjörðinni.

Kópavogur

Kópavogsbærinn er elsta steinhlaðna hús Kópavogs.
Jörðin Kópavogur á sér langa og merka sögu meðal annars vegna þess að þar var þingstaður til ársins 1751. Elsta húsið sem nú stendur á jörðinni reisti Erlendur Zakaríasson á árunum 1902 til 1904, en þá voru gömlu bæjarhúsin, sem stóðu sunnar á jörðinni, orðin afar hrörleg. Erlendur var steinsmiður og hlóð hann bæ sinn úr tilhöggnu grjóti ognotaði steinlím með svipuðum hætti og hann hafði lært þegar hann vann við byggingu Alþingishússins á árunum 1880 til 1881. Húsið er elsta húsið í Kópavogi og er eitt fárra steinhlaðinna húsa sem enn standa utan Reykjavíkur. Því hefur það ásamt síðari tíma viðbyggingum mikið varðveislugildi sem eini uppistandandi vitnisburðurinn um elstu byggð Kópavogs og þann búskap sem stundaður var frá fornu fari á því svæði sem nú markar þéttbýli Kópavogs.

Í annarri lýsingu Kópavogsjarðarinnar, frá 21. febrúar 1882, segir: “Bæjarhús eru þar góð, baðstofa byggð á bekk. Hálf er hún ný uppbyggð með kjallara undir. Frambær, búr og eldhús í góðu standi. Tún eru þar stór, sum part þýfð, sum part sléttuð og ábúandinn hefur verið að slétta í þeim. Þessi tún vantar tað. Kemur það til af því að augnvar eru útheyisslægur. Girðing er í kring úr torfi og grjóti. Er hér um bil 2/3 partar túnsins og hálf er hún vel uppbyggð, aftur hálf í falli. Traðir eru heim að bænum, hlaðnar úr torfi og grjóti vel uppgerðar. Kálgarðar eru þar góðir. Í kringum þá góð girðing. Þar jörð þessi liggur að sjó það eru þar góð vergögn. Þar er góð grásleppuveiði og gerir það jörðinni mikinn hag því inn vols hennar gefur jörðinni áburð. Kúgildi jarðarinnar eftir því sem ábúandinn skýrir frá eru 2.”
Erlendur Zakaríasson (1857-1930) steinsmiður, hóp byggingu núverandi íbúðarhússins um 1902 og lauk því árið 1904. Hann hafði áður unnð við byggingu Alþingishússins árið 1880, reisti Kópavogsbæinn á sama hátt og hlóð hann úr tilhöggnu grágrýti og steinlími. Hér hóf hann kúabúskap ásamt konu sinni Ingveldi Guðmundsdóttur, seldi mjólk til Reykjavíkur og var einnig með hesta og kindur. Engjar auk túns við bæinn voru austur af Hvammakotslæk í brekkunum upp af Fífuhvammi og í Fossvogi. Þar var einnig mikil mótekja.

Kópavogur

Hressingarhælið. Húsið var tekið í notkun árið 1926 en það er reist fyrir tilstuðlan Hringskvenna sem settu á laggirnar hressingarhæli fyrir berklasjúklinga. Arkitekt hússins er Guðjón Samúelsson. Kópavogsbær hefur undanfarin ár unnið að endurbótum á því að utan sem innan.

Eftir að Kvenfélagið Hringurinn fékk aðstöðu fyrir hressingarhæli á Kópavogsjörðinni árið 1924 taldið félagið hagkvæmt að vera með búresktur samhliða rekstri hælisins. Hringurinn keypti Kópavogsbæinn þegar hann losnaði úr ábúð og var með búrekstur til 1948. Félagið let byggja fjós, hlöðu, hænsnahús og geymslu við steinhús Erlendar. Óskar Eggertsson (1897-1978) gerðist ráðsmaður á búinu hjá Kvenfélaginu Hringnum 1931 og bjó hér ásamt konu sinni, Guðrúnu Einarsdóttur (1899-1989) og sonum þeirra, Magnúsi (1927-2019), Einari (1930-2016) og tvíburunum Jóhanni Stefáni (1936-1046) og Guðmundi. Ríkissjóður og ríkisspítalar fengu búið 1948 og búskapur hélt áfram þar til skömmu eftir 1960. Síðustu ábúendur í Kópavogsbúinu voru Bjarni Pétursson Walen (1913-1987) bústjóri og Svanborg Sæmundsdóttir (1913-1995). Þau bjuggu hér árin 1959-1983. Íbúðarhúsið er elsta hús í Kópavogi. Kópavogsbærinn var friðaður samkvæmt lögum um húsafriðun í október 2012.”

Kópavogur

Kópavogsbúið.

Digranes

Við leifar gamla Digranesbæjarins í Kópavogi má lesa eftirfarandi á upplýsingaskilti, sem þar er:

Digranes

Digranes – túnakort 1916.

“Hafinn var búskapur á jörðini Digranesi sennilega á árunum milli 1300 og 1313, en þá er jarðarinnar fyrst getið í máldagaskrá Viðeyjarklausturs. Er hún sennilega elsta jörðin í Kópavogi.

Kópavogur

Digranes – skilti.

Síðasti bóndinn í Digranesi, Jón Guðmundsson, hóf þar búskap árið 1896 og bjó þar til hún var aflögð sem bújörð árið 1936. Digranes var þá þjóðjörð og sá Búnaðarfélag Íslands þá um að útmæla jörðina í smábýli og nýbýli samkvæmt nýjum lögum þar um. Árið 1950 var búið að úthluta úr landi Digraness um 10 löndum undir nýbýli og 146 smábýlalöndum. Smábýlalöndin voru fyrst og fremst ætluð sem ræktunarlönd en ekki til að setjast þar að með fasta búsetu, þó svo að mjög fljótlega hafi orðið þar breyting á og lönd þjóðjarðanna í Kópavogi orðið fyrsti vísirinn að þéttbýlismyndun.

Kópavogur

Digranesbærinn.

Digranes var stór jörð, þótt hún hafi kannski ekki þótt eftirsóknarverð eins og gæðum hennar er lýst í úttektarbók Jarðabókarnefndar frá október 1703. Ekki er skráður jarðdýrleiki, eigandinn kóngur eða kóngsgarðurinn í Viðey og bjó ábúandi Sveinn Eiríksson þar einn með sínu fólki. Landsskuld var 90 álnir, greidd með fiski í kaupstað og leigukúgildi í smjöri eða fiski til Bessastaða. Við til húsagerðar leggur ábúandi til sjálfur og þær kvaðir fylgja að hann láni mann á vertíð eða gegni formennsku. Hann láni hest til Alþingis, vinni við tvær dagsláttur í Viðey og útvegi tvo hríshesta er gjaldist í fríðu. hann leggi til mann í Elliðaár einn dag um sumar, heyhesta til fálkafjár í Hólm eða Reykjavíkurkaupstað, og skal bóndi fæða sig sjálfur við allar þessar kvaðir. Hann hafði 3 kýr, kálf og hross en að auki lamb, ein kýr og tvo kálfa til fóðurs frá öðrum. Hrís tók hann í almenningi, hafði nóg torf, stungu og mó í eigin landi enda taldi úthaga þrönga.

Kópavogur

Digranesbærinn eftir fornleifauppgröft.

Í jarðabókunum 1686 og 1695 svo og jarðabók Johnsens frá 1847 var jörðin metin á um hundruð en í nýju jarðabókinni frá 1848 hefur jörðin rýrnað frá fyrri mötum.
Á seinni hluta 19. aldar voru margar jarðir seldar úr konungseign, en Digranes var áfram í opinberri eigu og varð því þjóðjörð.
Var hún síðan alla tíð í ríkiseign þar til kaupavogskaupstaður keyti hana formlega árið 1957, en þá hafði henni verið skipt upp í lóðir og lendur fyrir íbúa hins unga kaupstaðar.”

Ef vel er að gáð má enn sjá gamla bæjarstæðið.

Kópavogur

Digranes.

Kópavogur

Ofan við gamla bæjarstæði Fífuhvamms/Hvamms/Hvammkots í Kópavogi má lesa eftirfarandi á upplýsingaskilti, sem þar er:

Fífuhvammur

Fífuhvammur 1932.

“Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn er kóngl. Majestat.” Svo hefst umfjöllun Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 23. október 1703 um konungsjörðina Hvammkot í Seltjarnarneshreppi. Fram að siðaskiptum um miðja 16. öld hafði jörðin verið í eigu Viðeyjarklausturs en elsta heimildin um jörðina er einmitt skrá um leigumála á jörðum klaustursins frá 1312. Þar heitir hún Hvammur. Nafnið Hvammkot kemur fyrst fram í fógetareikningum Eggerts Hannessonar á Bessastöðum 24. júní 1552. Þann 1. janúar 1891 breytti Þorlákur Guðmundsson þingmaður Árnesinga (búsettur á jörðinni 1875-1902) nafni jarðarinnar og hét hún þá Fífuhvammur.

Kópavogur

Fífuhvammur – skilti.

Árið 1703 var í Hvammkoti tvíbýli. Á helmingi jarðarinnar var ábúandinn Marteinn Jónsson, 46 ára, kona hans Þuríður Bjarnadóttir, 43 ára, og börn þeirra. Bústofn Marteins var sex kýr, þrír hestar og sautján sauðkindur. Á hinum helmingi jarðarinnar var Teitur Jónsson ábúandi, kona hans Guðrún Loftsdóttir og dætur þeirra. Teitur átti fjórar kýr, einn hest og ellefu sauðkindur. Kvaðir á jörðinni voru m.a. mannslán um vertíð, hestlán til alþingis, húsastörf á Bessastöðum þegar kallað var og að bera fálka frá Bessastöðum til Keflavíkur og Básenda.

Fífuhvammur

Fífuhvammur.

Síðustu ábúendur Fífuhvamms voru hjónin Ísak Bjarnason og Þórunn Kristjánsdóttir sem þangað fluttu 1919 ásamt börnum sínum sex. Þau stækkuðu bæjarhús, ræktuðu tún og girtu og höfðu gott bú. Dóttir þeirra Bergþóra Rannveig og hennar maður Þorkell Guðmundsson reistu íbúðarhúsið Tungu í landi Fífuhvamms 1935 og þar var búið til 1990. Ísak lést 1930 en Þórunn hélt áfram búskap og var Guðmundur Kristinn sonur hennar ráðsmaður þar til hún flutti til Reykjavíkur 1954. Þá lagðist jörðin í eyði. Bæjarhúsið var rifið 1983, þá var Kópavogsbær búinn að kaupa jörðina.

Kópavogur

Fífuhvammur.

Í grein um Fífuhvamm sem Adolf J.E. Petersen skrifaði 1984 segir: “Á Hvammakotslandinu munu í framtíðinni rísa veglegar byggingar, háborg komandi tíma, hallir menningar, viðskipta og iðnaðar, ásamt íbúðarhúsum með blómabeðum og trjágróðri í kring og iðandi borgarlífi.

Fífuhvammur

Fífuhvammur – túnakort 1916.

Fífuhvammsjörð var að mörgu leyti góð bújörð. Hvammkot hafði til afnota stærstan hluta Kópavogsdals og góðar slægjur norðan og austan við Hnoðraholt, Smalaholt og Rjúpnahlíð. Bæði Digranesbærinn og Hvammakotsbærinn voru vel staðsettir og með útsýni í suður- og vesturátt.

Hernámið

Hilton Camp í Fífuhvammslandi.

Mikil tæknileg uppsveifla kom með breska og ekki síst bandaríska hernum á stríðsárunum. Eigendur Fífuhvamms leigðu hernum svæði og seldu efni, einkum til flugvallagerðarinnar. Leirdalssvæðið var leigt sem sprengjugeymsla herslins.
Fífuhvammur stóð innst eða austast í Kópavogsdalnum, undir vesturtagli Selhryggs, norður af þar sem nú er Núpalind og leikskólinn Núpur hjá Lindaskóla. Hluti af túni bæjarins er þar enn opið svæði.

Kópavogur

Fífuhvammur.