Við fyrrum Kópavogsþingstað er skilti með eftirfarandi upplýsingum:
“Kópavogur virðist hafa verið vorþingstaður á þjóðveldistímanum, en með lögtöku Járnsíðu 1271 verður hann hreppaþingstaður, svonefnt þriggja hreppa þing.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjödi dóma og mála gengu á Kópavogsþingi á þeim árum sem þess er getið í heimildum. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.
Kópavogsþingstaður.
Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523, en þá var settur dómur á “þingstað réttum” til að dæma í kærumáli Hannesar Eggertssonar, hirðstjóra, gegn Týla Péturssyni sem farið hafði ránshendi um konungsgarðinn á Bessastöðum.
Kópavogsfundurinn – skilti um Kópavogsfundinn 28. júlí 1662 er einnig við þingstaðinn.
Árið 1574 gaf Friðrik II, danakonungur, út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog. Til þess kom þó aldrei. Árið 1578 lauk svo Hvassafellsmálum á þinginu eftir langt málaþref. Var dómi Gottskálks biskups hins grimma hnekkt, en hann hafi dæmt Bjarna Ólafsson, bónda á Hvassafelli, og dóttur hans, Randíði, sek um að hafa haft holdleg mök og eignir þeirra undir kirkju og kóng.
Sá atburður í sögu landsins og Kópavogs sem verður minnst þó annað gleymist er Erfðahyllingin í Kópavogi 28. júlí 1662, er danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke neyddi íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Fridriki III, danakóngi, hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir.
Vettvangur Kópavogsdysja.
Þann 15. nóvember 1704 fór síðasta aftakan fram á þinginu í Kópavogi, en þá voru tekin af lífi fyrir morð Sigurður Arason og Steinunn Gudmundsdóttir frá Árbæ. Var Sigurður höggvinn skammt norðan við þinghúsið en Steinunni drekkt í Kópavogslæk. Árin 1725 og 1726 var svo Swartskopf-málið fyrir þinginu. Málið fjallaði um Appolínu nokkra Swartskopf sem trúlofuð hafði verið Niels Fuhrmann, amtmanni á Bessastöðum. Fuhrmann sleit trúlofuninni og stuttu síðar lést stúlkan. Bróðir hennar kærdi ráðskonu Fuhrmanns og dóttur hennar fyrir að hafa verið valdar að dauða hennar. Málinu lauk þó með sýknu allra hinna ákærðu.
Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.
Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Kópavogsþingstað.
Eftir að þingið lagðist af var engu hreyft á svæðinu þar til 1973. Þá höfðu yfirborðsathuganir farið fram, bæði af Jónasi Hallgrímssyni árið 1841 og síðar af Matthíasi Þórðarsyni, þjóðminjaverði, 1929. Minjarnar voru síðan friðlýstar fyrir tilstuðlan Matthíasar árið 1938.
Á 300 ára afmæli Erfðahyllingarinnar í Kópavogi árid 1962 setti Lionsklubbur Kópavogs upp Minningarstein á þingsvæðinu.
Árið 1973 var hafist handa við fornminjauppgröft á Kópavogsþingstaðnum undir stjórn Gudrúnar Sveinbjarnardóttur, fornleifafræðings, og fyrir tilstuðlan þjóðhátíðarnefndar Kópavogs í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Lauk rannsóknum 1976 og hafði þá verið grafið upp á 3 stöðum á þingstaðnum.
Við minningarsteininn var grafinn upp tóft af jarðhúsi, sem helst virðist hafa verið eldhús og miðaldasmiðja. Gera menn ráð fyrir samkvæmt þessu að einhverjar mannaferðir hafi verið þarna þegar á 9. öld. Smiðja sem lá ofan jarðhússins virðist hafa verið aflögð um 1500, þó ekki sé það nákvæmt.
Kópavogur – skiltin á Kópavogstúni.
Rannsóknirnar á þessum tóftum gáfu ekki til kynna að þær væru tengdar þinghaldi á staðnum, fremur hluti af bæjarhúsunum. Syðri tóftin eða þinghustóftin er mun yngri, var húsið að líkindum byggt á 17. öld og endurbyggt á 18. öld. Undir þinghúsinu fundust byggðaleifar sem gætu hafa tengst þinghaldi á staðnum, en voru svo brotakenndar að ekki var unnt að slá því föstu hvað þær væru. Þinghústóftin snýr í norðaustur og suðvestur og mun husið hafa verið um 25 fermetrar að flatarmáli. Húsið mun hafa verið með torfveggjum og bak sett beint ofan á með undirstöðum í hornum. Suðurhlið hefur verið úr timbri og þar gengið inn á miðjan gafl fyrst, en síðar hefur hurðin verið til hliðar og settur gluggi á hinn helminginn.”
Kópavogsþingstaður – skilti.