Ofan við gamla bæjarstæði Fífuhvamms/Hvamms/Hvammkots í Kópavogi má lesa eftirfarandi á upplýsingaskilti, sem þar er:
“Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn er kóngl. Majestat.” Svo hefst umfjöllun Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 23. október 1703 um konungsjörðina Hvammkot í Seltjarnarneshreppi. Fram að siðaskiptum um miðja 16. öld hafði jörðin verið í eigu Viðeyjarklausturs en elsta heimildin um jörðina er einmitt skrá um leigumála á jörðum klaustursins frá 1312. Þar heitir hún Hvammur. Nafnið Hvammkot kemur fyrst fram í fógetareikningum Eggerts Hannessonar á Bessastöðum 24. júní 1552. Þann 1. janúar 1891 breytti Þorlákur Guðmundsson þingmaður Árnesinga (búsettur á jörðinni 1875-1902) nafni jarðarinnar og hét hún þá Fífuhvammur.
Árið 1703 var í Hvammkoti tvíbýli. Á helmingi jarðarinnar var ábúandinn Marteinn Jónsson, 46 ára, kona hans Þuríður Bjarnadóttir, 43 ára, og börn þeirra. Bústofn Marteins var sex kýr, þrír hestar og sautján sauðkindur. Á hinum helmingi jarðarinnar var Teitur Jónsson ábúandi, kona hans Guðrún Loftsdóttir og dætur þeirra. Teitur átti fjórar kýr, einn hest og ellefu sauðkindur. Kvaðir á jörðinni voru m.a. mannslán um vertíð, hestlán til alþingis, húsastörf á Bessastöðum þegar kallað var og að bera fálka frá Bessastöðum til Keflavíkur og Básenda.
Síðustu ábúendur Fífuhvamms voru hjónin Ísak Bjarnason og Þórunn Kristjánsdóttir sem þangað fluttu 1919 ásamt börnum sínum sex. Þau stækkuðu bæjarhús, ræktuðu tún og girtu og höfðu gott bú. Dóttir þeirra Bergþóra Rannveig og hennar maður Þorkell Guðmundsson reistu íbúðarhúsið Tungu í landi Fífuhvamms 1935 og þar var búið til 1990. Ísak lést 1930 en Þórunn hélt áfram búskap og var Guðmundur Kristinn sonur hennar ráðsmaður þar til hún flutti til Reykjavíkur 1954. Þá lagðist jörðin í eyði. Bæjarhúsið var rifið 1983, þá var Kópavogsbær búinn að kaupa jörðina.
Í grein um Fífuhvamm sem Adolf J.E. Petersen skrifaði 1984 segir: “Á Hvammakotslandinu munu í framtíðinni rísa veglegar byggingar, háborg komandi tíma, hallir menningar, viðskipta og iðnaðar, ásamt íbúðarhúsum með blómabeðum og trjágróðri í kring og iðandi borgarlífi.
Fífuhvammsjörð var að mörgu leyti góð bújörð. Hvammkot hafði til afnota stærstan hluta Kópavogsdals og góðar slægjur norðan og austan við Hnoðraholt, Smalaholt og Rjúpnahlíð. Bæði Digranesbærinn og Hvammakotsbærinn voru vel staðsettir og með útsýni í suður- og vesturátt.
Mikil tæknileg uppsveifla kom með breska og ekki síst bandaríska hernum á stríðsárunum. Eigendur Fífuhvamms leigðu hernum svæði og seldu efni, einkum til flugvallagerðarinnar. Leirdalssvæðið var leigt sem sprengjugeymsla herslins.
Fífuhvammur stóð innst eða austast í Kópavogsdalnum, undir vesturtagli Selhryggs, norður af þar sem nú er Núpalind og leikskólinn Núpur hjá Lindaskóla. Hluti af túni bæjarins er þar enn opið svæði.