Kópavogur

Hér er getið um nokkrar menningarminjar og þjóðsögulega staði í Kópavogi.

“Einbúi”

Einbúi

Einbúi.

Austarlega í Fossvogsdal, miðja vegu milli gróðrarstöðvarinnar Merkur og Smiðjuvegar, gefur að líta sérkennilegar grjóthrúgur. Við nánari skoðun sést að steinarnir eru kantaðir og hafa verið klofnir með fleygum og höggnir til. Þetta eru minjar um tíma þegar hugmyndir voru stórar en atvinna lítil. Upp úr 1930 hafði heimskeppan mikil áhrif á Íslandi og margir misstu vinnu sína. Ríki og sveitarfélög réði þá menn í s.k. atvinnubótavinnu, einkum að vetrarlagi. Á þessum tíma voru uppi hugmyndir um að leggja járnbraut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, á svipuðum slóðum og Reykjanesbrautin liggur nú. Steinunum var ætlað að vera undirstöður fyrir járnbrautarteinana sem aldrei voru lagðir. Sambærilegt grjótnám fór fram við Einbúa við Skemmuveg, en atvinnubótavinnunni var hætt árið 1936.

Hádegishólar
HádegishólarHádegishólar eru tveir grágrýtishólar með áberandi hvalbökum og jökulrákum. Bergið í klöppunum tilheyrir svokölluðu Breiðholtsgrágrýti, sem liggur ofan á grágrýtinu sem Kópavogur stendur að mestu á. Hádegishólar eru því yngri en Víghólar. Af hvalbökum og jökulrákum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV- SA. Nafn hólanna er dregið af því að eystri hóllinn var eyktarmark frá bænum Fífuhvammi, en frá bænum bar sól yfir hólinn á hádegi. Á stærri hólnum stendur stúba búddatrúarmanna.

Álfhóll
ÁlfhóllÁlfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn. Er Álfhólsvegur var lagður seint á fjórða áratug 20. aldar, gengu framkvæmdir vel allt að Álfhól. Þegar átti að sprengja í hólinn kom í ljós að allt framkvæmdafé var uppurið og því var framkvæmdum hætt að sinni. Áratug síðar hófust framkvæmdir að nýju og átti þá að ryðja burt hólnum. Vildi þá svo til að vinnuvélar biluðu og verkfæri skemmdust eða hurfu og var því lagður hlykkur á veginn fram hjá hólnum. Í lok níunda áratugar var vegurinn endurbættur. Þegar kom að því að fjarlægja hluta hólsins og leggja malbik upp að honum, brotnuðu öflugir steinfleygar sem til þess voru notaðir. Var vegaskipulaginu því breytt og er nú þarna þrenging og hraðahindrun. Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.

Borgarholt
BorgarholtBorgarholt, einnig kallað Borgir, var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981. Þar gefur að líta óvenju glöggar menjar um sjávarstöðu á höfuðborgarsvæðinu eins og hún var skömmu eftir lok síðustu ísaldar. Grágrýtishnullungar einkenna holtið og hin forna sjávarstaða sést við neðri mörk hnullunganna á holtinu. Fyrir um tíu þúsund árum, eftir að ísaldarjökulinn hopaði, stóð holtið mun lægra en nú og var þá sker umlukið sjó. Brimið mæddi á skerinu og svarf strandgrýtið. Smágrýti hefur skolast burt en eftir stóðu hnullungarnir sem nú blasa við. Frá lokum ísaldar hefur land á höfuðborgarsvæðinu lengst af risið og nú stendur Borgarholt í um 43 m hæð yfir sjó. Gróðurfar á Borgarholti er ekki síður athyglisvert en jarðfræðiminjarnar. Holtið er enn að mestu gróið villtum tegundum þrátt fyrir nábýli við útlendan garðagróður í um hálfa öld.

Höfði

Höfði

Höfði.

Norðurströnd Kársness er um 2 km löng. Henni hefur svo til allri verið raskað á undanförnum áratugum með landfyllingum. Þó er lítill tangi vestan Siglingastofnunar (áður Vita- og hafnamál) sem sker sig úr því hann er lítið raskaður. Ekki er vitað til að tangi þessi beri nafn, en í Aðalskipulagi Kópavogs er hann nefndur Höfði. Þarna er óvenju stórgrýtt fjara að norðanverðu og eru slík björg aðeins að finna á þessum slóðum og hins vegar á Borgarholtinu. Í vík sem snýr til vesturs er aftur á móti sandfjara. Á árum seinni heimstyrjaldarinnar mun herinn hafa verið með loftvarnarbyssu þarna vegna nálægðar við Reykjavíkurflugvöll. Enn sést móta fyrir undirstöðum byssunnar.

Þinghóll
ÞinghóllKópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um. Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.

VíghólarVíghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.

Sel í landi Fífuhvamms
FífuhvammsselÍ norðurhlíðum Rjúpnahæðar ofan golfvallar eru menjar gamals sels. Selið var verndað með bæjarvernd í tengslum við framkvæmdir sem áætlaðar voru á svæðinu. Framkvæmdir þessar voru Landgræðsluskógrækt, lagning reiðstíga og gerð golfvallar.

Gömlubotnar
Árið 1868 var gefið út nýbýlaleyfi fyrir landinu Lækjarbotnum undir Selfjalli. Fjallið dregur nafn sitt af seli jarðarinnar Örfiriseyjar á Seltjarnarnesi. Örfirisey átti selstöðu þar og hafði í seli og hefur svo verið vegna landleysis jarðarinnar. Selið var líklega aflagt árið 1799, þegar byggð í Örfirisey fór í eyði eftir Básendaflóðið. Lækjarbotnar var efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og í þjóðbraut, því þarna inn við Selfjallið lá gamla leiðin um Lækjarbotna.

Gömlubotnar

Þetta nýbýli var því vinsæll áningarstaður bænda úr austursveitum á kaupstaðarferð til Reykjavíkur og ekki síður á austurleið. Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum flutti húsið á árunum 1904-1910 að þjóðveginum sem lá um Fossvallaklif og rak þar greiðasölu. Í manntalinu 1910 er býlið nefnt Lögberg Lækjarbotnar og er líklegt að þá hafi verið farið að nefna eldra bæjarstæðið Gömlubotna. Guðmundur gaf Skátasambandi Reykjavíkur land í Gömlubotnum og reistu þeir þar árið 1929 fyrsta útivistarskálann á Íslandi. Hann var nefndur Væringjaskálinn og var fluttur á Árbæjarsafn árið 1962 og endurbyggður þar. Fimm fornminjar eru skráðar í Gömlubotnum: Fjárhús, rétt, sel, fjárból og rúst.

Túnhóll
TúnhóllÁ árunum 1904–1910 flutti Guðmundur H. Sigurðsson bóndi í Lækjarbotnum býli sitt frá Gömlubotnum við Selfjall að þjóðveginum undir Fossvallaklifi, sem nú er oft kallað Lögbergsbrekka. Þarna hafði Guðmundur greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur, og nefndi býlið Lögberg. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Á ás sunnan vegarins er gamla túnið á Lögbergi, Túnhóllinn. Þar eru bæjarstæði og fleiri rústir ásamt grafreit, en þar hvílir Guðmundur bóndi og veitingamaður.

Engjaborg
EngjaborgEngjaborg við Fífuhvammsveg var landamerki milli jarðanna Kópavogs, Digraness, Fífuhvamms og Arnarness. Nafnið Engjaborg bendir til þess að fjárborg og/eða beitarhús hafi staðið þar. Hringlaga rúst með um 2–3 m breiðum veggjum er á staðnum og út frá henni ganga leifar gerðis sem er um 1 m á breidd og 0,3 m á hæð.”

Heimild:
-kopavogur.isFjárhústóft við Vatnsvik